Streita / Fréttir

01.12.2006

Áfallastreituröskun

Konur greinast oftar með áfallastreituröskun en karlar jafnvel þó þær lendi í færri áföllum samkvæmt nýlegri rannsókn.

Karlar lenda að meðaltali í fleiri áföllum en konur en þó eru konur líklegri til að uppfylla greiningarviðmið um áfallastreituröskun samkvæmt yfirliti yfir rannsóknir á 25 ára tímabili sem birt var í Psychological Bulletin. Áfallstreituröskun er skilgreind sem kvíðaröskun sem hlýst af áfalli og einkennist af endurteknum upplifunum á áfallinu, forðun frá því sem kann að minna á áfallið, doða og ofurárvekni.

Í yfirlitinu kom í ljós að konur eru líklegri til að lenda í kynferðisofbeldi og misnotkun en karlar eru líklegri til að lenda í slysum, árásum, verða vitni að slysi eða dauða, verða vitni að ýmis konar hörmungum og lenda í bruna eða stríði. Það virðist því sem áfall sem tengist kynferðisofbeldi eða misnotkun sé líklegra til að leiða til áfallastreituröskunar en önnur áföll.

Hærri tíðni áfallastreituröskunar meðal kvenna er þó ekki hægt að skýra eingöngu með því að þær verði frekar fyrir kynferðisofbeldi eða misnotkun, tíðni áfallastreituröskunar var hærri hjá konum þó kynin væru borin saman með tilliti til sama áfalls. Höfundar yfirlitsins leiða því getum að því að áfallastreituröskun greinist frekar hjá konum vegna þess að hugræn og tilfinningaleg viðbrögð við áfalli sem auka líkur á greiningu áfallastreitu séu minni hjá körlum. En í yfirlitinu kom fram að karlar greina síður frá kvíða eða þunglyndi eftir áfall en oftar frá því að hjá þeim komi upp hegðunarvandamál og óhófleg lyfjanotkun, viðbrögð karla við áfalli virðast því vera önnur en viðbrögð kvenna.

Það er því mikilvægt fyrir þá sem greina líkurnar á því að fólk fái áfallastreituröskun eftir áfall að gera sér grein fyrir því að viðbrögð fólks við áfalli geta verið ólík og að stuttir gátlistar eða viðtöl, sem oft eru notuð, eru ekki nægileg sem greiningartæki. Mat og greining þarf að vera ítarlegri ef ætlunin er að komast að því hvort fólk eigi eftir að þróa með sér áfallastreituröskun eftir slys, árás eða annað áfall.


Til baka


Prentvćn útgáfa 

Skođanakönnun

Hefur úlit líkama ţíns mikil áhrif á hvernig ţér líđur međ sjálfa/n ţig ?
Svarmöguleikar

Skráning á póstlista

Tölvupóstfang
Skráđu ţig á póstlista persona.is til ađ fá fréttir og tilkynningar frá okkur í framtíđinni.