persona.is
Dáleiðsla
Sjá nánar » Annað
Þau fyrirbæri sem við setjum í samband við dáleiðslu hafa verið þekkt um aldir. Lengi ríkti takmarkaður skilningur á þeim og þau voru gjarnan tengd göldrum og hinum myrkari öflum. Á síðustu öld urðu miklar breytingar á stöðu dáleiðslu, hún færðist smám saman úr heimi galdra og furðufyrirbæra yfir í heim tilrauna og vísinda. Fyrstu tilraunir til þess að nota eins konar dáleiðslu til lækninga gerði austurríski læknirinn Mesmer. Hann taldi sig hafa uppgötvað nokkurs konar segulkraft sem hann gæti notað til þess að lækna fólk af margs konar meinum. Með miklum tilfæringum í rökkvuðu herbergi, lágri tónlist og reykelsi „hlóð“ hann fólk þessum krafti með því að strjúka lauslega þann hluta líkamans sem þarfnaðist lækningar. Einnig taldi hann sig geta hlaðið einstaka hluti þessum segulkrafti og þannig gefið þeim lækningamátt. Mesmer náði oft undraverðum árangri en starfsbræður hans kunnu lítt að meta það. Sérstök nefnd var skipuð til þess að rannsaka Mesmer og dró hún mjög í efa hugmyndir hans um segulkraftinn. Það kom til dæmis í ljós að sjúklingar, sem áttu að læknast af því að snerta ákveðið tré, læknuðust þó svo þeir snertu rangt tré! Þrátt fyrir þetta öðlaðist Mesmer mikla frægð sem varð meðal annars til þess að þessi sérkennilegi háttur á að hafa læknandi áhrif var lengi við hann kenndur og kallaður „mesmerismi“. Það kom síðan í hlut nokkurra breskra lækna að koma dáleiðslu á vísindalegri grundvöll. James Braid lagði til orðið „hypnosis“ en Hypnos var grískur guð, sonur næturinnar og faðir draumanna. Braid kom einnig með fyrstu sálfræðilegu skýringuna á dáleiðslu, nefnilega að hún skapaðist fyrir tilstilli sefjana, eða endurtekinna fyrirmæla um hvað muni gerast. Síðan hafa margir lagt hönd á plóginn og nú fellur dáleiðsla vel innan þekkingarramma sálfræðinnar og þykir hvorki óhentugri né óvirðulegri meðferðartækni en hver önnur.

Hvernig fer dáleiðsla fram?

Áður en hafist er handa við dáleiðslu er mikilvægt að útskýra fyrirbærið og koma þannig í veg fyrir misskilning eða að fólk vænti of mikils af meðferðinni. Fólk heldur oft að það sé ekki hægt að dáleiða það, að það tapi meðvitund eða stjórn á gerðum sínum, að það tali af sér eða að það verði ekki hægt að vekja það. Ekkert af þessu er á rökum reist. Aðferðir til þess að koma fólki í dáleiðsluástand eru mjög fjölbreytilegar. Algengast er að í upphafi komi sá sem dáleiða á (dáþegi) sér fyrir í þægilegum stól. Þá skiptir miklu máli að hafa mjög gott næði og rúman tíma. Stundum er dáþegi beðinn að horfa á einhvern hlut. Þetta getur verið hvaða hlutur sem er, t.d. pennaoddur, en pendúll hefur orðið að tákni í þessu sambandi. Hann er þó á engan hátt nauðsynlegur og reyndar sjaldan notaður. Í öðrum tilvikum beinist athyglin að því að skapa þægilega slökun. Sá sem dáleiðir beitir rödd sinni og endurtekur með þægilegri hrynjandi fyrirmæli um hvíld, ró, syfju, þunga og vellíðan sem fari stigvaxandi og sem smám saman leiði til dýpri og dýpri slökunar. Mikilvægt er að fylgjast vel með dáþega og miða fyrirmælin stöðugt við það ástand sem hann er í. Það tryggir eðlilega og þægilega dýpkun. Það er afar mismunandi hvað það tekur langan tíma að komast í dáleiðsluástand í fyrsta skipti, suma tekur það nokkrar mínútur, en aðra klukkustundir. Eftir því sem maður hefur látið dáleiða sig oftar styttist þessi tími jafnan. Þá má dýpka dáleiðsluástandið með ýmsum hætti, eins og til dæmis að láta dáþega ímynda sér að hann gangi niður stiga og í hverju þrepi fari hann í dýpra og dýpra dáleiðsluástand. Þegar dáþegi er kominn nægjanlega djúpt er hann orðinn það sem kallað er sefnæmur. Hann samþykkir fyrirmæli og tillögur dáleiðanda án þess að þurfa að hafa einhverja sérstaka rökræna ástæðu til þess. Hann spyr ekki hvers vegna, heldur fer eftir því sem sagt er. Í þessu ástandi er sefjunum beitt til þess að hafa áhrif á þá hegðun, löngun eða líðan sem á að breyta í dáleiðslunni. Dáleiðslu er lokið á svipaðan hátt, með tillögu um að dáþegi vakni, en nákvæmlega hvernig og hversu hratt þetta er gert fer eftir ýmsu. Mörg tilbrigði við þessa einföldu aðferð hafa þróast, til dæmis notkun svokallaðra óbeinna sefjana. Óbeinar sefjanir duga oft betur en þær beinu. Með því að nota óbeinar sefjanir er hægt að vekja upp ýmsar minningar, hugmyndir og ferli sem búa með dáþega og nýta þau síðan til þess að kalla fram það sem er viðeigandi í hvert skipti. Þannig má tryggja að svörunin sé í takt við sérstaka reynslu dáþega en ekki einungis svar við beinum fyrirmælum og sefjunum. Með þessum hætti má t.d. kalla fram tilfinningaleysi í einhverjum líkamshluta með því að stinga upp á því að viðkomandi minnist þess að hafa verið deyfður eða þeirra stunda þegar fótur eða hönd varð alveg tilfinningalaus. Síðan taka við sefjanir um það að tilfinning í einhverjum líkamshluta verði minni og minni og smám saman eins og tilfinningaleysið sem reynsla var af. Það má einnig ná sama árangri með þessari óbeinu aðferð með því til dæmis að segja sögu sem felur í sér tilvísanir um slökun eða einhverja ákveðna breytingu, þannig að viðkomandi geti nýtt sér það úr sögunni sem hentar honum sérstaklega til þess að slaka á eða breyta hegðun sinni. Með sögu er hægt að koma sjónarmiði betur á framfæri en með beinum upplýsingum. Í henni felast oft lausnir á vanda viðkomandi og lausnir sem við uppgötvum sjálf duga mun betur en lausnir annarra.

Einkenni dáleiðsluástands

Engir tveir einstaklingar eru eins. Þau fyrirbæri sem við sjáum í dáleiðslu eru nokkuð breytileg eftir einstaklingum. Eins koma þau misjafnlega sterkt í ljós. Vitundarástand okkar er síbreytilegt, við erum oft annars hugar og gerum oft hluti án þess að veita þeim sérstaka athygli, til dæmis hvernig við samhæfum hreyfingar okkar við að keyra bíl. Það sem fólk finnur í dáleiðslu er því ekki svo frábrugðið hversdagslegri reynslu, það kallar hana hins vegar ekki dáleiðslu. Að láta dáleiða sig er að mörgu leyti svipað því að gleyma sér við lestur góðra bóka eða við að hlusta á góða tónlist. Á meðan á þessu stendur tekur fólk ekki eftir neinu öðru. Öll dáleiðsla byggist á þeirri forsendu að full samvinna sé á milli dáleiðara og dáþega og að þar ríki gagnkvæmur trúnaður, virðing og traust. Fyrsta einkennið byggist á þessu trausti. Rödd og fyrirmæli dáleiðara halda vægi sínu þrátt fyrir að meðvitund um ytra umhverfi þrengist jafnt og þétt, þar til að því kemur að einu tengslin við ytra umhverfi eru við rödd dáleiðarans og sefjanir hans. Tíminn hættir að skipta máli og það verður jafnvel óljóst hvernig hann líður. Fólk heldur fullri meðvitund, dettur alls ekki út. Í raun er meðvitund ekki ósvipuð því þegar við lokum augunum og heyrum einhvern tala. Annað einkenni er afar djúp og þægileg slökun. Henni fylgir líkamleg vellíðan, augu lokast gjarnan og það hægist á fjölmörgum eðlislægum viðbrögðum, líkaminn verður allt að því óhreyfanlegur og dáþegi finnur enga þörf fyrir að hreyfa sig. Þegar hann vaknar aftur er líðanin mjög góð. Þriðja einkenni þessa ástands er óvenjumikið sefnæmi, það er að dáþegi er afar móttækilegur fyrir öllum fyrirmælum og tillögum. Eitt af því sem einkennir meðvitundina er að hún bregst við öllu með gagnrýnum hætti. Í þessu ástandi minnkar þörfin fyrir gagnrýna hugsun og fólk tekur á móti sefjunum dáleiðanda án mikilla vangaveltna. Svo framarlega sem dáþegi er ekki beðinn að gera eitthvað sem stríðir gegn samviskunni hlýðir hann flestum skipunum sem gefnar eru. Þetta sefnæmi er bæði bundið við þá stund sem þetta ástand varir og ótilgreinda framtíð. Þannig er hægt að kalla fram breytingar á líkamlegri starfsemi og skynjun, eins og léttleika eða skert sársaukaskyn. Dáþegi er einnig móttækilegur fyrir svonefndum eftirsefjunum. Þær eru fyrirmæli sem eru gefin um að á ákveðnum tíma og undir vissum kringumstæðum muni hann bregðast við á ákveðinn hátt, og oft að því er virðist á ósjálfráðan hátt og án þess að skilja hvers vegna viðbrögðin eru á þennan veg. Dæmi um eftirsefjun gæti verið að segja að eftir tvo mánuði verði löngun í sígarettur algerlega horfin og lyktin af þeim verði nær óþolandi. Eftirsefjun er sá hluti dáleiðslu sem hefur hvað mest gildi og er hægt að nota við að leysa fjölda vandamála. Fjórða fyrirbærið sem oft á sér stað er minnisleysi á það sem gerst hefur meðan á dáleiðslunni stóð. Dáleiðari getur oft haft áhrif á það hvað dáþegi man, en dáþegi getur líka munað allt ef hann ásetur sér það. Þó minnisleysi sé mjög breytilegt eftir einstaklingum og aðstæðum virðist sú almenna regla gilda að þeim mun dýpri sem dáleiðslan er þeim mun meira getur minnisleysið orðið. Minnisleysi á þær sefjanir sem gefnar eru dregur ekki úr áhrifum þeirra. Það getur þvert á móti gert þær áhrifaríkari. Ef við finnum t.d. fyrir minni matarlyst og finnst að breytingin sé sjálfsprottin tökum við frekar mark á því en ef við héldum að við værum einungis að hlýða fyrirmælum dáleiðara. Stundum getur það þjónað tilgangi að hjálpa fólki að gleyma, til dæmis einhverri afar sárri reynslu. Fimmta einkennið er það að hægt er að endurlifa gamlar minningar og tilfinningar á þann hátt að þær verði mjög raunverulegar. Þannig er til dæmis hægt að færa dáþega aftur um nokkur ár og biðja hann að sýna hegðun sem einkenndi hann á tilteknu aldursári. Þannig getur t.d. tal og skrift tekið á sig þá mynd sem einkenndi þetta ákveðna aldursár, fullorðinn maður fer að tala eins og barn. Þessi eiginleiki dáleiðslunnar getur komið sér vel þegar fólk stendur í þeirri trú að það geti ekki breyst eða að því geti ekki farið fram. Það að muna og rifja upp breytingar sem hafa átt sér stað getur auðveldað hliðstæðar breytingar sem við stöndum frammi fyrir. Var t.d. erfitt að ímynda sér lífið án uppáhaldsleikfangsins okkar? Hvað leið langur tími þar til við höfðum gleymt því? Hversu margir skyldu þeir vera sem telja sér trú um að þeir geti ekki lifað án tóbaks? Sjötta einkennið er að dáþegi getur mjög auðveldlega ímyndað sér nýjar og óþekktar aðstæður og fundist þær afar raunverulegar. Þannig er t.d. hægt að draga upp myndir af nýrri hegðun dáþega, nýrri líðan, nýrri sjálfsmynd. Líf án tóbaks, án aukakílóa, án kvíða. Þessar raunverulegu myndir og tilfinningar sem þeim fylgja ryðja síðan brautina fyrir þær breytingar sem fólk þarf að gera til þess að þær verði að raunveruleika.

Hvað er dáleiðsla?

Við fyrstu sýn virðist dáleiðsla afar sérkennilegt fyrirbæri. En við nánari athugun kemur í ljós að svo er ekki. Hún er ákveðin tækni sem á markvissan hátt nýtir sér eðlislæga þætti sálarlífsins, einkum þá sem eru utan hversdagslegrar meðvitundar okkar. Dáleiðsla er aðferð til þess að yfirstíga takmarkanir meðvitundarinnar og hafa áhrif á undirvitundina. Það er mat margra að undirvitundin hafi mikið að segja um hegðun okkar og líðan og með því að hafa áhrif á hana getum við bæði breytt hegðun og bætt líðan. Dáleiðsla byggist í fyrsta lagi á því að beina athygli dáþega að orðum dáleiðanda. Í öðru lagi að því að gera dáþega næmari fyrir sefjunum dáleiðanda og auka líkur á að hann fari eftir þeim, til dæmis sefjunum um að sofa betur. Í þriðja lagi byggist dáleiðsla á því að draga úr mætti gagnrýninnar hugsunar, en gagnrýnin hugsun er eitt af því sem einkennir meðvitundina, en síður undirvitundina. En hvers vegna fá fyrirmæli dáleiðara svo mikið vægi sem raun ber vitni? Þar kemur ýmislegt til. Samvinna sem byggist á trausti og virðingu hefur sitt að segja. Þar að auki er dáleiðari einungis að tala um fyrirbæri og ferli sem eru öllum eiginleg, en reynir að vekja þau upp og tengja með sérstökum hætti því sem hann segir. Þetta er gert þannig að dáleiðarinn lýsir einfaldlega því sem er að gerast hjá dáþega, og skapar þannig tengingu milli þess sem hann segir og þess sem dáþegi finnur. Þetta er ýmist gert með því að lýsa einföldum staðreyndum, eins og til dæmis hvernig dáþegi situr, eða með því að lýsa ákveðnum breytingum, t.d. hvað gerist þegar fólk horfir lengi á sama hlutinn. Þegar þessi tenging er orðin og orð dáleiðandans hafa fengið mikið vægi breytir dáleiðandinn henni, þannig að í stað þess að lýsa breytingum getur hann kallað þær fram og þannig stýrt þeim í formi sefjana. Dagleg hegðun okkar og hugsun hefur mótast smátt og smátt og færst í tiltölulega fastar skorður. Að baki henni býr hins vegar öll reynsla okkar, hugmyndir okkar og skilningur, eða með öðrum orðum allt sem við höfum lært. Þessi þekking er hins vegar svo mikil að vöxtum að hún rúmast ekki innan þeirrar takmörkuðu meðvitundar sem ríkir í amstri hversdagsins og þess vegna tölum við um að hún sé orðin hluti af undirvitund okkar. Undirvitundin hefur síðan stöðug áhrif á athafnir okkar og líðan og það sem við erum meðvituð um. Það sem gerist í dáleiðslunni er að sú athygli eða meðvitund sem við beinum venjulega að hinum ytri raunveruleika er þrengd þannig að hún takmarkast við rödd dáleiðarans, en henni er jafnframt vísað inn á við á vit undirvitundarinnar og þeirra minninga, hugmynda og skilnings sem þar eru. Undir þessum kringumstæðum, þar sem athyglin beinist að því sem í undirvitundinni býr, er hægt að hafa áhrif, sá nýjum hugmyndum, endurvekja gamlar og skapa ný tengsl, allt eftir því hvert markmiðið með dáleiðslunni er. Við getum því sagt að smám saman sé verið að breyta forsendum hegðunar okkar og þegar dáleiðsluástandinu lýkur komi þessar breyttu forsendur smám saman fram í hegðun okkar og reynslu. Dáleiðsla er með öðrum orðum aðferð til þess að yfirstíga takmarkanir hversdagslegrar meðvitundar okkar og leysa úr læðingi þá eðlislægu þætti undirvitundar sem búa yfir meiri reynslu, sveigjanleika og aðlögunarhæfni en meðvitaður skilningur hvers augnabliks. Engin einhlít fræðileg skýring er til á dáleiðslu. Sumir líta á hana sem sérstakt vitundarástand, þar sem einn hluti hugans starfar óháð öðrum sem einungis fylgjast með. Þá telja aðrir að dáleiðsla sé fyrst og fremst markviss ímyndun sem sé svo sterk að hún virki raunveruleg og trúverðug. Þannig geti gamlar minningar verið sem sannar, þó svo að þær séu í raun tilbúningur. Þá eru þeir til sem halda því fram að dáleiðsla felist í því að við förum í ákveðið hlutverk og leikum það til enda. Hlutverkið gæti til dæmis heitið: „Að hlýða fyrirmælum“ og gæti vel gilt um sviðsdáleiðslu. Hver og ein þessara þriggja skýringa hefur nokkuð til síns máls og eru studdar ýmsum rannsóknum. Engin ein hefur þó getað útskýrt dáleiðslu til fulls.

Hörður Þorgilsson sálfræðingur