persona.is
Prófkvíði
Sjá nánar » Kvíði » nám

Hvað er prófkvíði?

 Í prófum getur verið eðlilegt að finna fyrir ákveðinni streitu. Hún verður jafnvel hvetjandi og stuðlar að meiri virkni nemandans í próflestri og  við próftöku. Langvarandi og mikill prófkvíði er hinsvegar hamlandi og getur haft áhrif á frammistöðu í prófum.

Prófkvíði er tilfinning sem fylgir hræðslunni við að mistakast þar sem próf eða  mat fer fram. Prófkvíðinn hamlar  skynjun, árangri og heftir próflestur og próftöku. Nemandinn verður hræddur við að gera mistök og prófaðstæður verða í huga hans ógnandi, jafnvel skaðlegar. Prófkvíði kemur fram í hegðun og hugsun nemandans.  Hann reynir gjarnan að hliðra sér frá eða flýja kvíðatilfinninguna og hann fyllist skelfingu, vanmáttarkennd og stöðugum áhyggjum af prófunum, sem aftur hefur truflandi áhrif á  einbeitingu. Líkamleg spenna magnast upp, óróleiki gerir vart við sig, óþægindi í maga, niðurgangur, höfuðverkir og  röskun á svefni og mataræði fylgja oft í kjölfarið.

 

Eru til mismunandi tegundir af prófkvíða?

 

Prófkvíði kemur venjulega fram við aðstæður þar sem próf eða mat á sér stað.  Hann getur verið mismikill eftir mikilvægi prófsins og  hversu erfitt prófið sýnist í augum nemandans. Líkamlegt og andlegt ástand hefur sitt að segja, eins og að vera þreyttur og svangur í prófi eða áföll sem nemandi hefur orðið fyrir á próftímabilinu. Stærðfræði- og tölvukvíði eru aðskildir frá prófkvíða. Það er brugðist eins við þeim kvíða og hjá þeim sem þjást af prófkvíða, en kemur fyrst og fremst fram í stærðfræði og tölvunámi.

 

Reikningskúnstin er ekki einungis mikilvæg í stærðfræði og raunvísindum heldur einnig í daglegu lífi, viðskiptum og mannvísindum. Rannsóknir á stærðfræðikvíða sýna að hann er jafnvel algengari en prófkvíði og getur komið í veg fyrir að nemandi leggi fyrir sig nám þar sem stærðfræði liggur því til grundvallar.

 

Tölvukvíði  kemur fram í kjölfar aukinna krafna um tölvunotkun í samfélaginu. Þekking og færni í tölvunotkun á hinum almenna vinnumarkaði helst ekki í hendur við öra þróun tölvutækninnar sem hefur leitt til tölvukvíða hjá hinum fjölmörgu sem hafa ekki fengið leiðsögn eða fræðslu í tölvunotkun. Kynslóðabil í tölvukunnáttu hefur myndast á fáum árum og svo virðist sem drengir séu tækjaglaðari en stúlkur.

 

   Tegundir                                                                   Stutt lýsing

Prófkvíði

Kvíði og ótti við aðstæður þar sem próf eða mat fer fram, aukin líkamleg spenna, truflandi hugsanir og sífelldar áhyggjur af frammistöðu sem hamlar árangri.

Stærðfræðikvíði

Kvíði og ótti við notkun og úrvinnslu talna, stærðfræðilausna og skilningskortur á stærðfræðihugtökum.

Viðkomandi reynir að forðast aðstæður þar sem reikningur eða stærðfræði koma við sögu.

Tölvukvíði

Kvíði og ótti við að geta ekki tileinkað sér þekkingu og kunnáttu tölvutækninnar og að gera mistök við notkun hennar.

 

             

Hvað einkennir prófkvíða?

 

Prófkvíði er mikil vanlíðan sem einkennist af kvíða, vanmáttarkennd, óróleika,  og spennu. Breyting verður á hugsun hins prófkvíðna, einbeiting raskast og hegðun hans einkennist af því að veigra sér við að takast á við fyrirliggjandi verkefni (hliðrun og flótti).   

 

Tilfinningar : Kvíði og ótti við ýmis prófáreiti eins og próflestur, próf, umræður um próf, umræður um einkunnir osfrv.

 

Líkamleg einkenni: Vöðvaspenna, sviti, örari hjartsláttur, ógleði og óþægindi í maga.

Svefntruflanir og óregla á matarvenjum fylgja gjarnan.

 

Hugræn einkenni : Hugsunarháttur  bjagast og veldur skekkjum í  ályktunarferlinu. Hinn prófkvíðni er sjálflægur í mati og miklar fyrir sér kröfur sem eru gerðar til hans. Niðurrifshugsanir koma ósjálfrátt hjá honum, á borð við: ég get ekki lært, ég get aldrei náð stærðfræðinni, allir eru betri en ég, það sjá allir að ég er heimsk(ur). Hann hefur stöðugar áhyggjur af frammistöðu sinni og árangri.

 

Hegðun : Hegðunin einkennist af hliðrun eða flótta. Nemandinn  finnur sér allt annað að gera en að læra; hann fer á kaffihús, hangir í símanum, þvær, tekur til o.s.frv. Einnig getur komið fram árátta í lestri nemandans. Hann lærir allan sólarhringinn; verður að læra allt 150% vel og festist í  smáatriðum. Hann eyðir kannski  löngum tíma í skipuleggja og undirbúa lesturinn en kemst lítið áfram.

 

Hverjir þjást af prófkvíða?

 

Svo virðist sem margir nemendur þjáist af prófkvíða. Í sumum rannsóknu mælist allt að þriðjungur nemenda með prófkvíða.  Mismunandi niðurstöður á tíðni prófkvíða eru oft háðar ólíkum viðmiðum og notkun mismunandi mælitækja sem mæla kvíða.

 

Talið er að 3-5 % nemenda þjáist af miklum eða miðlungs prófkvíða sem er hamlandi í námi en 10-20% nemenda mælast með prófkvíða þegar minniháttar  prófkvíði er tekinn með í reikninginn. Enn fleiri gætu mælst með prófkvíða ef tekið er mið af almennri prófstreitu. Fleiri konur eiga við prófkvíða að glíma en karlmenn.

 

Finna aldraðir fyrir prófkvíða?

 

Á öld símenntunar taka margir eldri borgara þátt í ýmiss konar námskeiðum eða námi sem loksins veitist tími til að sinna. Einstaklingur, sem hefur einhvern tíma þjáðst af próf- eða námskvíða og ekki yfirunnið hann eða fengið aðstoð við að takast á við hann, getur fundið til prófkvíða síðar á lífsleiðinni. Vitað er að nemendur, sem byrja í námi eftir langt hlé við önnur störf, eru gjarnan kvíðafullir við að takast á við nýjar kröfur. Þá er líklegt að tölvukvíði hái einhverjum af eldri kynslóðinni, enda margir þar  reynslulitlir.

 

Prófkvíði meðal barna og unglinga

 

Flestar rannsóknir á prófkvíða eru gerðar á nemendum í framhaldsskóla og háskóla. Börn eru ekki undanskilin prófkvíða og virðist hann, því miður, vaxandi í yngri bekkjardeildum grunnskólans sem m.a. má rekja til fjölgun á prófum. Sjálfsmat nemenda mótast oft á fyrstu skólaárunum. Þess vegna er mikilvægt að nemandi læri smám saman að próf þurfa ekki að vera ógnandi, heldur fyrst og fremst hjálpartæki til að sjá hvar maður sjálfur stendur í námi.

 

Unglingar eru uppteknir af eigin ímynd; hvernig þeir koma fyrir í augum annarra, sérstaklega skólafélaganna. Náms- og prófkvíði hjá unglingum getur tekið á sig ýmsar myndir þar sem nemdandinn reynir í lengstu lög að dylja kvíða sinn. Þannig getur náms- og prófkvíði verið undirliggjandi þáttur í öðrum sálrænum vandamálum, s.s þunglyndi og hegðunarvandamálum hjá unglingum. Svo virðist sem drengir bregðist öðruvísi við kvíða en stúlkur. Þeir brynja sig meira með því að sýnast kaldir og kærulausir og sinna náminu illa þótt sumir taki sig á rétt fyrir prófin. Þeim tekst líka frekar að halda kvíðanum í skefjun. Þessi viðbrögð geta orðið að venju sem leiðir til frestunaráráttu síðar.  Stúlkur sýna hins vegar kvíðaviðbrögð og pæla meira í líðan sinni.

 

Hvað veldur prófkvíða?

 

Þeir sem eiga við prófkvíða að etja eru ekki einsleitur hópur. Sumir eiga fyrst og fremst við prófkvíða að etja, enn aðrir líka við önnur tilfinningaleg vandkvæði að stríða og/eða búa við erfiðar félagslegar aðstæður ofan á allt annað. Sammerkt þessum nemendum er kvíði fyrir prófum eða frammistöðu. Þó er misjafnt hversu mikið hann kemur niður á náminu. Kenning Spielberger um þáttakvíða og ástandskvíða hefur verið notuð til að útskýra og lýsa prófkvíða. Þáttakvíði endurspeglar einstaklingsmun í prófkvíða en ástandskvíði er breytilegur í tíma og aðstæðum. Hinn prófkvíðni hefur þannig tilhneigingu til að kvíða aðstæðum þar sem próf eða frammistöðumat fer fram og sýnir ástandskvíða í þeim aðstæðum. Með öðrum orðum einstaklingurinn er með prófkvíðalyndiseinkunn sem spáir fyrir um kvíða í prófum. Prófkvíði virðist byggja á tveimur megin þáttum, annars vegar áhyggjum sem vísa til hugsunarháttar þar sem bjögun á sér stað í sjálfsmati og mati á prófinu og  hugsanir einkennast af áhyggjum um slaka frammistöðu og lélegan árangur og tilfinningasemi sem vísar til óróleika og spennu.

 

Umhverfisáhrif

 

Sjálfsmat nemanda og viðhorf hans til náms og prófa hafa áhrif á það hvernig prófkvíði þróast. Foreldrar, sem hrósa barni sínu fyrir það sem vel er gert og eru hlutlausir gagnvart því sem miður fer, skipta hérna máli. Þeir ýta undir það að barnið verði metnaðarfullt og velji verkefni við hæfi þar sem jafnar líkur eru á því að barninu gangi vel og að því mistakast. Foreldrar sem einblína á mistök og leiða hjá sér það sem vel gengur, ala hins vegar upp í barni óttann við mistök og óöryggi um getu sína. Uppeldisaðferðir í skólanum og matsaðferðir hafa einnig áhrif. Námsumhverfi, sem einkennist af samkeppni og samanburði, er líklegt til að kalla fram kvíða við próf og frammistöðumat og neikvæðrar útkomu í sjálfsmati. Hinu gagnstæða stuðlar námsumhverfi að þar sem samvinna og umhyggja fyrir öðrum er höfð í heiðri og árangur látinn miðast fyrst og fremst við eigin framfararskref.

 

Aðstæður sem geta ýtt undir prófkvíða.

 

Þegar kröfur aukast í námi, s.s. samræmdum prófum eða stúdentsprófi eða við skólaskipti, er algengt að nemendur fái prófkvíða og hann getur haft verulega truflandi áhrif á líðan nemanda og jafnvel árangur.

 

Hið lærða viðbragð     

 

Prófkvíði getur haft tilteknar orsakir eða byrjað við tilteknar aðstæður eins og að falla á mikilvægu prófi, við skólaskipti, komið samfara álagi í einkalífi eða þróast smám saman. Kvíðasvörun eins og hliðrun eða flótti undan vanlíðan sem fylgir prófkvíða getur endað í slæmum vítahring sem einkennist af vanmetakennd, líkamlegri streitu, niðurrifshugsunum og stöðugum áhyggjum um laka frammistöðu og  lélegan árangur. Kvíðasvörunin getur þannig magnað upp og viðhaldið prófkvíðanum.

 

Hvernig er prófkvíði greindur?

 

Greining fer venjulega fram í faglegu viðtali. Sálfræðingar og geðlæknar geta greint vandann en líka námsráðgjafar í skólum. Hægt er að nota tiltekið greiningarviðtal þar sem farið er yfir helstu einkenni prófkvíðans, tilurð vandans, hvernig hann hefur þróast og hvað viðheldur honum. Góð greining á prófkvíða, sem og öðrum sálrænum eða geðrænum vandkvæðum, hjálpa verulega við meðferð. Einnig er hægt að nota próf sem greina prófkvíða. Niðurstöður slíkra prófa gefa hugmyndir um hversu alvarlegur prófkvíðinn er og hvernig hinn prókvíðni mælist í samanburði við aðra.

 

Fylgja önnur vandamál prófkvíða?

 

Prófkvíði getur verið tiltölulega skýrt afmarkað vandamál. Einstaklingur haldinn prófkvíða getur átt við önnur sálræn eða geðræn vandkvæði að stríða þó að ekki sé endilega um beina tengingu að ræða. Svo virðist sem nemendur með prófkvíða séu oft mjög meðvitaðir um sjálfa sig og hegðun sína og að álit annarra skipti þá verulegu máli. Félagskvíði getur því verið fylgifiskur prófkvíða.

Meðferð og úrræði við prófkvíða.

 

Meðferð við prófkvíða miðast við það að kenna að bregðast við kvíðaáreitum með slökun  í stað spennu og kvíða. Meðferðin dregur úr líkamlegum einkennum prófkvíða og hinn prófkvíðni á auðveldara með að slaka á vöðvaspennu sem fylgir kvíðanum. Rannsóknir sýna að það sem hefur mest truflandi áhrif á frammistöðu í prófum eru áhyggjur eða niðurrifshugsanir. Á undanförnum árum hefur hugræn atferlismeðferð verið notuð í meðferð á prófkvíða. Meðferðin beinist að því að kenna hinum prófkvíðna að kalla fram slökunarsvörun við prófáreitum, að glíma við kvíðavekjandi hugsanir og að túlka prófáreiti á uppbyggilegan hátt. Einnig er er hinum prófkvíðna leiðbeint í árangursríkum vinnubrögðum; bættum námsvenjum, námstækni og próftækni, enda sýna rannsóknir á prófkvíða að vinnubrögðin  fara gjarnan úrskeiðis hjá kvíðafullum nemanda.

 

Þegar um mikinn og langvarandi prófkvíða er að ræða getur komið til greina að nota kvíðastillandi lyf og/eða svefnlyf  samhliða sálfræðilegri meðferð.

 

Hvert á að leita eftir hjálp og hvað geta aðstandendur gert?

 

Hvert á að leita?

 

Námsráðgjafar í skólum hafa flestir þekkingu á prófkvíða. Þeir geta greint hann og vísað nemanda til viðeigandi aðila ef það á við. Sumir námsráðgjafar hafa fengið sérstaka þjálfun í meðferð prófkvíða og geta hjálpað í mörgum tilvikum. Klínískir sálfræðingar hafa  flestir þjálfun í sálfræðilegri meðferð á kvíða. Geðlæknar eru einnig sérfræðingar í greiningu og meðferð kvíða. Eins og áður er getið þá getur lyfjameðferð verið nauðsynleg ef kvíði er mikill og sérstaklega þegar um langvarandi svefnleysi er um að ræða. Geðlæknar eru þá best til þess fallnir að stýra þeirri meðferð. Geðhjúkrunarfræðingar, með þjálfun, t.d. í djúpslökun, geta líka orðið að liði.

 

Hvernig geta aðstandendur veitt aðstoð?

 

Stuðningur aðstandenda  er mestur ef  þeir geta hjálpað nemandanum að gleyma sér um stund við önnur viðfangsefni en próflestur milli lestrarlota, s.s í mat, gönguferðum, sundferðum, hvíld, bíóferðum. Þeir geta hvatt nemandann með uppbyggilegu tali, eins og: „Nú gekk þér vel að einbeita þér“ eða „þarna áttirðu góða lestrarlotu“ og „ég heyri að þú hefur gaman að þessari námsgrein“. Það er einnig mikilvægt að muna eftir því að hunsa það sem miður gengur. Þá getur líka verið gagnlegt að ræða við hinn prófkvíðna áður en próftímabilið hefst um hvernig skuli bregðast við þegar kvíðaköstin koma. Þá er rétt að forðast þátttöku í niðurrifstali eða spám um neikvæða útkomu. Aðstandendur geta líka reynt að leita sjálfir leiða og lært aðferðir sem draga úr kvíða áður en að próftímabili kemur.

 

 

Auður R. Gunnarsdóttir.