persona.is
Næturundirmiga (Nocturnal enuresis)
Sjá nánar » Börn/Unglingar

 Hvað er undirmiga?

Undirmiga hefur verið skilgreind á ýmsa vegu, til dæmis sem endurtekið, ósjálfrátt þvaglát eftir þriggja ára aldur. Sumir hafa miðað við að ósjálfrátt þvaglát eigi sér stað 5 til 7 sinnum í viku. Aðrir hafa stuðst við að foreldrar barnsins álíti undirmiguna vera vandamál, og að hún eigi sér stað að minnsta kosti þrisvar í viku. Sennilega er farsælast fyrir foreldra að miða við að undirmigan sé vandamál, í þeirra augum eða barnsins. Þess má geta að sé meðferð á undirmigu hafin fyrir 6 ára aldur, þá muna börn yfirleitt ekki eftir því síðar (jafnvel nokkrum mánuðum eftir meðferð) að hafa átt við þetta vandamál að stríða.

Hverjir þjást af undirmigu?

Undirmiga er langalgengust hjá drengjum og er talið að drengir séu um 3 til 5 sinnum líklegri til að pissa undir en stúlkur. Tölur um hversu algeng hún sé (prevalence) eru nokkuð á reiki. Um helmingur þriggja ára barna bleytir sig nægjanlega oft til að falla undir sumar skilgreiningar á undirmigu og um fimmtungur fjögurra ára barna og um 15% fimm ára barna. Eftir sex ára aldur lækkar þessi tala mjög ört. Um 10% sex til tíu ára barna hafa greinst með undirmigu og 3% unglinga.

Hvers vegna pissa börn undir?

Ekki er hægt að benda á nokkurn einn þátt sem skýringu á undirmigu. Þó virðast erfðir hafa einhverju um það að ráða og líkur á að barn pissi undir aukast töluvert ef annað foreldri hefur sömu sögu að segja. Líkurnar á því að barn pissi undir nálgast 80% ef bæði foreldri hafa þá sögu að segja sem börn. Hér verða reifaðar nokkrar mögulegar skýringar á undirmigu.

Tilfinningaröskun (Emotional disorders). Rannsóknir hafa gefið til kynna að tíðni tilfinningaraskana barna með undirmigu er um 10 til 15% hærri en hjá öðrum börnum. Þó er ekki ljóst hvort er orsök eða afleiðing í þessum efnum. Undirmiga getur allt eins verið orsök fyrir tilfinningaröskun eins og afleiðing hennar.

Djúpsvefn (Sleep arousal disorder). Margt bendir til að þeir sem þjáist af undirmigu geti átt erfiðara með að vakna við þrýsting frá þvagblöðru eða öðrum áreitum í umhverfinu. Þegar grunur leikur á um að djúpsvefn sé einn orsakavaldurinn er rétt að gera ráð fyrir því í meðferð og tryggja það að barnið vakni þegar við á. Aðrar rannsóknir hafa bent til að svefn léttist til muna eftir að búið er að ná tökum á undirmigunni.

Lítil þvagblaðra. Þetta er sennilega ekki orsök þar sem margir, bæði börn og fullorðnir, sem fara oft á salerni á daginn, eiga ekki við undirmigu að stríða.

Blöðrubólga. Getur haft töluverð áhrif á undirmigu og meðferð við undirmigu ætti ekki að hefja fyrr en gengið hefur verið úr skugga um að barnið sé ekki með blöðrubólgu eða aðra líkamlega kvilla.

Hvaða meðferð er hægt að veita við undirmigu?

Meðferð má í aðalatriðum skipta í lyfjameðferð og atferlismeðferð. 1. Lyfjameðferð – ýmis lyf hafa verið reynd í meðferð við undirmigu. Notast hefur verið við lyf á borð við Imipramine (Tofranil), Oxybutinin (Ditropan), og Desmopressin (Minirin). Bestur árangur hefur náðst með notkun Desmopressin. Það lyf líkir eftir vasopressini, hormóni sem er framleitt í heiladingli og hefur áhrif á vatnsbúskap líkamans. Þegar magn vasopresins í líkama eykst dregur úr þvagframleiðslu. Lyfið er gefið í töflum, eða í nefúða, og er fáanlegt gegn lyfseðli. 2. Atferlismeðferð skilur sig frá lyfjameðferð að því leiti að hún getur krafist mikillar vinnu, bæði af foreldrum og barni, og gerir talsverða kröfu um þolinmæði og nákvæmni. Foreldrar ættu ekki að beita atferlismeðferð eigi þeir það til að reka á eftir börnunum sínum eða eiga erfitt með að sýna þeim þolinmæði þegar þeir sjálfir eru þreyttir eða pirraðir. Eins ber að hafa í huga að meðferð gæti þurft að vara í allt að tvo mánuði í einu og að árangur er ekki samstundis sýnilegur í öllum tilfellum. 

Hér eru nokkrar aðferðir sem reynst hafa árangursríkar:

a. Stækka þvagblöðruna með „Þamba og halda“ aðferð.

Þegar líða fer á daginn er barnið hvatt til að drekka eins mikið og það getur í sig látið af uppáhaldsdrykknum sínum (þó ekki drykk sem inniheldur koffín). Þannig er tryggt að þvagblaðran sé full og að þjálfun geti átt sér stað. Því næst liggur barnið í rúminu sínu við sem eðlilegastar svefnaðstæður, þ.e. ljósið er slökkt og gluggatjöld dregin fyrir, barnið er í náttfötum o.s.frv. Barnið liggur og einbeitir sér að þvagblöðrunni og reynir að halda í sér eins lengi og hægt er og hraðar sér síðan á salernið og pissar. „Þamba og halda“ er best að framkvæma í u.þ.b. 15 mínútur hverju sinni og 6 til 8 sinnum á kvöldi. Um klukkutíma fyrir háttatíma hefst svokölluð hreinlætis- og jákvæðniþjálfun.

Hreinlætisþjálfun felur í sér að fara yfir hvað þarf að gera ef barnið vætir rúmið, s.s. að skipta um rúmfatnað og fara með hann í óhreina tauið

Jákvæð þjálfun felst í að láta barnið leggjast í rúmið og segja við sjálft sig „Ég þarf að fara á klósettið.“ Þetta er endurtekið 12-15 sinnum á kvöldi.

Að lokum er barnið vakið, u.þ.b. 5 klukkutímum eftir að það sofnar. Ef það hefur ekki bleytt rúmið er því hrósað og athygli þess fönguð með því að segja því hversu notalegt og snyrtilegt það sé að sofa í þurru rúmi. Nauðsynlegt er að barnið sé að fullu vaknað og þá er það hvatt til að fara á salernið og pissa. Þegar barnið hefur verið vakið þurrt sex nætur í röð er því leyft að sofa í sex stundir áður en það er vakið. Þessu er haldið áfram þangað til að átta stunda samfelldur svefn hefur náðst og barnið vaknar þurrt á morgnanna.

Ef rúmið er blautt gerir foreldri lítið úr því og aðstoðar barnið við að skipta á rúminu. Sé barnið alltaf blautt eftir fimm tíma svefn, er ráð að vekja það klukkutíma fyrr.

b. Rakaskynjari og bjalla. Þessi aðferð byggir á því að koma fyrir skynjara í brók eða bleyju barnins sem gangsetur bjöllu þegar barnið byrjar að pissa. Við það vaknar barnið og foreldrarnir. Barnið er aðstoðað á klósettið, skipt á rúminu og skynjaranum komið fyrir aftur. Ekki er lengur mælt með því að nota rakaskynjara sem komið er fyrir undir barninu þar sem sú staðsetning tafði verulega gangsetningu bjöllunnar. Áður en barnið fer að sofa er vökva haldið að því til að tryggja að þjálfun geti átt sér stað.

c. Samsettar aðferðir. Með sameiningu flestra skrefa „Þamba og halda“ og við „Rakaskynjara og bjöllu“ getur náðst góður árangur.

3. Náttúrulyf. Ekkert hefur verið sýnt fram á með vísindalegum hætti að náttúrulyf stuðli að meiri eða betri árangri. Það er í eðli undirmigu að sjálfkvæmur bati er nokkuð hár, t.a.m. var sjálfkvæmur bati 5-7 ára barna í samanburðarhóp í einni rannsókn um 25%. Dæmisögur um gagnsemi náttúrulyfja frá framleiðendum eða seljendum væru hugsanlega að vísa til þessa 25% sjálfkvæms bata.

Hverjar eru batahorfurnar?

Bati á undirmigu hefur verið skilgreindur sem 14 þurrar nætur í röð. Um 25% þeirra sem nota lyf ein og sér öðlast bata. Tengist lyfjameðferðin annarri meðferð væri mögulegt að hækka þá tölu eitthvað. Áhrifaríkasta meðferðin er atferlismeðferð. „Rakaskynjari og bjalla“ nær árangri hjá um 66 til 98% barna. Meðferð nær yfir 17 til 154 daga. Að jafnaði tekur meðferð hjá 5 ára börnum 53 daga, hjá 6 ára 65 daga og hjá 7 ára 59 daga. Með samsetningu „Þamba og halda“ og „Rakaskynjara og bjöllu“ bleytir barnið sig ekki eftir eina nótt hjá 72% þátttakenda, tvær nætur hjá 82% og eftir þrjár nætur 90%. Ef að árangur næst ekki eftir þrjár nætur með samsettri aðferð er mælt með að sleppa því að vekja en halda áfram með „Rakaskynjara og bjöllu.“ Þeir einstaklingar sem ekki ná að vera þurrir eftir þriggja daga samsetta meðferð geta náð takmarkinu ef haldið er áfram með rakaskynjara og bjöllu eina sér. Rannsóknir hafa líka sýnt að fleiri halda áfram meðferðinni þurfi ekki að vekja barnið á næturna. 

Hvert er hægt að leita eftir aðstoð og hvað geta aðstandendur gert?

Læknar á heilsugæslustöðvum skrifa upp á lyf við undirmigu og veita ráðleggingar um notkun þeirra. Sumar heilsugæslustöðvar leigja bæði út rakaskynjara og bjöllu. Hafa ber í huga að rakaskynjari sem settur er undir barnið er ekki jafn áhrifaríkur og rakaskynjari sem komið er fyrir í buxum eða bleyju barnsins. Hvað geta aðstandendur gert til að hjálpa?

Aðstandendur geta hjálpað barninu og stutt á alla lund. Varast ber að ræða árangur barnsins við aðra svo að það heyri eða gera mikið/lítið úr því að þessi þjálfun eigi sér stað. Gisti barnið annars staðar en heima, t.d. yfir helgi hjá ömmu og afa, eða öðru foreldri, er gott að halda þjálfuninni áfram ef viðkomandi treystir sér til. Það flýtir fyrir bata. Ef viðkomandi vantreystir sér hins vegar, er best að bíða með þjálfun þangað til að barnið er komið heim aftur.

Gunnar Haugen, atferlisfræðingur

.