persona.is
Sambönd og væntingar
Sjá nánar » Sambönd

Nú þegar haustar, fer að bera á því að fólk leitar sér aðstoðar hjónabandsráðgjafa til þess að bjarga hjónabandi eða sambandi.  Þetta er vissulega jákvætt og gott að sjá þegar fólk leggur sig fram við sambönd sín og er reiðubúið að vinna í þeim.  Skilnaðartíðnin hækkar þó stöðugt og virðist fólk að mörgu leiti hafa gefið upp vonina um ævilöng sambönd. 

Fjölmargar ástæður má án vafa finna fyrir þessari þróun og ein þeirra eru ólíkar væntingar fólks til ástarsambands.  Samhliða fjölmiðlafári síðustu aldar hefur ákveðin ímynd sambands orðið til sem ekki var til fyrr á öldum og samræmist að mörgu leyti ekki öðrum hlutum samfélagsins.  Það er því ekki óalgengt að þegar fólk leitar sér hjálpar þá sé það vegna þess að sambandið lifir ekki undir væntingunum.  Þar sem sambandið er ekki eins og það á að vera leggur fólk því oft þann skilning í það að því hafi ekki verið ætlað að vera og því sé réttast að slíta sambandinu og leita að því sem það vill annarsstaðar. 

 

Í ráðgjöfinni verður fólk oft fyrir áfalli þegar það kemst að því að það þarf að hafa fyrir sambandinu og leggja á sig vinnu til að viðhalda því.  Þegar tveir einstaklingar ákveða að taka saman og jafnvel eyða saman ævinni eru ýmsir hlutir sem breytast í lífi þeirra.  Frá þessu augnabliki byrja einstaklingarnir að lifa í mikilli nánd og þurfa því að þroskast saman, bæði sem einstaklingar og par.  Þessi þroski kemur þó ekki áfallalaust og í nútímasambandi hafa ótal breytur flækt málin mjög mikið og gert það að verkum að meiri vinnu þarf til að viðhalda sambandi.  Það sorglega er þó að samhliða því að meiri vinnu þarf til að viðhalda sambandi hefur ímynd ástar úr fjölmiðlum gert það að verkum að fólk leggur meira upp úr að sambönd eigi að falla að ákveðnu móti og helst að gera það af sjálfu sér án fyrirhafnar.  Forlagatrú í ástarmálum hefur til að mynda gert það að verkum að fólk leggur mikið upp úr upphafsblossa sambandsins og hinni rómantísku ást sem einkennir upphaf nýs sambands.  Þegar sambönd byrja að þroskast af þessu stigi og yfir á meira krefjandi stig fer fólk því oft að efast um samband sitt og jafnvel að trúa því að hugsanlega hafi því ekki verið “ætlað” að ganga upp.  Sú mynd sem fjölmiðlar gefa af “hinni einu sönnu” ást er nefnilega afar blekkjandi og því miður einum of mikil einföldun.  Þegar fólk elst upp við þessa mynd virðist það þó fara að nota hana sem mælistiku á sín sambönd og hættir því til að trúa því að ef ekki allt gengur vel fyrir sig og það þarf að leggja mikið á sig, þá sé það til marks um að sambandinu sé ekki ætlað að endast.  Fólk tengir þannig minnkandi ástríðu við minni áhuga og ást, en í raun er það á þessum stigum sem reynir á sambandið og þá sést úr hverju sambandið er byggt.  Ein skemmtilegasta lýsing sem ég hef heyrt á því hvernig samband entist áratugi var í viðtali við par sem hafði verið gift í 50 ár.  Aðspurð um hvaða brellum þau hefðu beitt til að láta sambandið endast, svaraði konan um hæl “ja það var nú einfalt, við hættum aldrei að vera ástfangin á sama tíma”. 

 

Staðreyndin er þó sú að ekkert samband er áfallalaust og jafnvel ástföngnustu einstaklingar þurfa að vinna að sambandi sínu til þess að það haldi út.  Eðlilegt er að samband gangi í gegnum ákveðin þroskastig líkt og einstaklingar og eykst álagið oft við umskiptin á milli stiga.  Í upphafi einkennast sambönd gjarnan af rómantík og miklum tilfinningahita en smám saman breytist þetta þannig að nándin og vinskapurinn verður mikilvægari en rómantíkin.  Það er þó ekki að segja að öll ástríða hverfi úr sambandinu heldur breytist hún og þarf mögulega að hafa aðeins meira fyrir henni en áður.  Það er því afar sorglegt þegar maður sér fólk gefast upp áður en það hefur fullreynt að láta sambandið virka og komast á innilegra stig.  Þrátt fyrir að upphafið einkennist af fiðring í maga, spennu og mikilli ástríðu eru eiginleikar þroskaðra sambands engu síðri og í raun eitt það besta sem lífið hefur upp á að bjóða. Reynið því frekar að þrauka og prófa sambandið áður en þið gefist upp, því þegar fólk eltist við upphafsástríðuna er hætt við að það muni vera endalaust á hlaupum.

 

Eyjólfur Örn Jónsson Sálfræðingur