persona.is
Að velja sér nýjan maka
Sjá nánar » Sambönd

Lilja er skilin, einstæð, útivinnandi móðir. Streitan eftir skilnaðinn leiddi til margra líkamlegra einkenna. Henni fannst hún vera gömul, þreytt og útjöskuð kona. Þrátt fyrir erfiðan skilnað gat hún ekki hugsað sér að vera ein það sem eftir væri ævinnar. Þegar hún hugsaði til baka um þau misheppnuðu sambönd sem hún hafði verið í, ákvað Lilja að leita sér upplýsinga um hvernig ætti að velja betri maka í næsta skipti.

Mjög margir skipta um maka að minnsta kosti einu sinni á ævinni og jafnvel oftar. Því miður eyðir fólk oft minni tíma í að undirbúa og velta fyrir sér vali á maka, en þegar það er að velja sér nýjan bíl eða íbúð! Að undirbúa sig og hafa góða hugmynd um hvað þú vilt fá út úr sambandi, getur hjálpað þér og maka þínum að byggja upp hamingjuríkt og gefandi samband, sem endist ævilangt. Upplýsingarnar hérna á eftir veita þér ekki 100% vissu um að næsti einstaklingur, sem þú kýst að vera í sambandi við, verði sá fullkomni, en þær gætu hjálpað þér. Það er kannski satt að fólk laðast að einstaklingum sem eru andstæður við það sjálft en það leiðir sjaldnast til langvarandi sambands

Flest löng og hamingjurík sambönd byggjast á að einstaklingarnir eru mjög líkir hvor öðrum. Það að hafa sambærilegar eða svipaðar tekjur, menntun, trú, uppruna, viðmið og áhugamál minnkar líkurnar á árekstrum milli hjóna og eykur líkurnar á sátt og samlyndi. Mjög mikill munur milli maka leiðir oft til vandamála sé til lengri tíma litið.

Ef þér finnst þú eiga skilið það besta, ættir þú, líkt og á flestum öðrum sviðum í lífi þínu, að setja markið hærra en að fara í samband við hvern sem er, bara vegna þess að viðkomandi vill þig.

Hugsaðu samt sem áður út í það að hafa viðmið þín frekar „mannleg“ en „efnisleg“. Þótt hugsunin um að giftast myndarlegum og fallegum milljónamæringi virðist vænlegur kostur, þá er töluvert um fráhrindandi/ógeðfellda milljónamæringa. Þá eru nokkur brögð að því að myndarlegt/fallegt fólk sé sjálfelskt og upptekið af sjálfu sér (þrátt fyrir að flest sé að sjálfsögðu indælt).

Veltu því fyrir þér hvað skiptir þig raunverulega máli í fari lífsförunauts. Er það hvernig þér líður í nærveru hennar/hans eftir fyrsta rifrildið ykkar? Er það hversu auðvelt er að ræða hluti sem venjulega er erfitt að tala um við aðra?  Skrifaðu niður öll þau auðkenni sem maki þinn ætti að hafa.

Eigir þú að baki mörg gleðisnauð sambönd og þér finnst þú vera léleg(ur) í makavali, hugsaðu þá mjög alvarlega um að skipta um aðferð. Vertu varkár eða vakandi fyrir þeim röngu ástæðum sem geta fengið þig til að finnast þú vera mjög tengd(ur) einhverjum. Einhverjar af þessum röngu ástæðum gætu verið eftirfarandi:

a.        Þér finnst hún/hann þurfi á hjálp þinni að halda og þú gætir með einhverju móti breytt eða bjargað þessum einstaklingi.

b.       Þér finnst þú „þurfa“ eða „verða“ að vera með þessum einstaklingi, vegna utankomandi þrýstings.

c.        Þú gætir verið í hættu ef þú kemur þessum einstaklingi úr jafnvægi eða reitir hann/hana til reiði.

d.       Þér finnst þú vera óaðlaðandi og litlar líkur á að þú finnir einhvern annan.

Í íslenskri tungu eru tvö orð yfir það að elska. Það er ást og væntumþykja. Forngrikkir gerðu greinarmun á eros (erotísk ást) og agape (ást sem byggir á vináttu). Ekki rugla þessu tvennu saman. Að falla fyrir einhverjum, finnast einhver aðlaðandi og vilja vera með einhverjum er leið náttúrunnar að færa tvo einstaklinga saman. Að dvelja með einhverjum, láta það ganga upp yfir lengri tíma og vinna saman að hlutunum krefst vináttu við maka þinn. Margir af sömu eiginleikunum og þú leitar eftir í fari góðs vinar eru einnig eiginleikar góðs maka. Vertu hreinskilin(n) við sjálfan þig og hinn einstaklinginn um hvað þú óskar eftir í sambandinu. Átt þú von á að þetta verði stutt, meðallangt eða langvarandi samband? Í gamla daga voru það karlmennirnir sem sáu um að velja, ákveða, ráða og reka. Nú á dögum hafa hlutirnir breyst, það er mun meira um jafnrétti. Nýttu þér þær breytingar sem orðið hafa. Mundu, besta spáin um hegðun í framtíðinni er fyrri hegðun.

Þessi mögulegi maki þinn, hvernig kom hann fram við síðustu/a kærustu/kærasta eða eiginkonu/eiginmann? Hvernig kemur hann/hún fram við fjölskyldu sína, vini og aðra sem eru honum/henni náin? Ekki búast við að hegðun fólks verði skyndilega öll önnur. Allt of margir eyða öllu lífi sínu í að vona og biðja til guðs á óraunsæjan hátt um að maki þeirra breytist. Það er vitað mál að fólk umbreytist ekkert sértaklega mikið, nema það ákveði að tileinka sér breytingar á kerfisbundinn hátt (t.d. með sálfræðilegri meðferð). Segjum svo að einstaklingur taki þá ákvörðun. Þá fyrst ber meðferðin reglulega mikinn árangur en það er ekki þar með sagt að meðferðin breyti endilega einstaklingnum í þá veru sem makanum þætti æskilegast. Þú hreinlega getur ekki látið einhvern breyta sér. Það eina sem þú færð við ráðið er að biðja um breytingar og síðan sjá hvað gerist.

Allir bregðast illa við neikvæðri gagnrýni, nöldri og kvörtunum.

Ákveddu að þú munt takast á við erfiðleikana sem öll sambönd ganga í gegnum á skynsaman og rólegan hátt. Ef þér finnst þú þurfir á stuðningi að halda til að ganga í gegnum árekstra skaltu hringja í sérfræðing í dag eða finna þér stuðningshóp sem getur hjálpað þér. Ein besta forspáin um hvort samband muni endast er hvernig einstaklingarnir í sambandinu takast á við árekstra. Ofbeldi er aldrei réttlætanlegt í samböndum, það leysir aldrei vandamál.

Ef börn séu á heimilinu, hugsaðu líka um þeirra velferð, öryggi og hamingju.

Það er þitt hlutverk að gera börnum þínum kleift að líða vel með þau sambönd sem þú ert í. Gerðu börnum þínum mögulegt að ræða við þig um sínar tilfinningar. Æfðu þig frekar í að hlusta heldur en að svara í vörn. Svaraðu með orðum eins og „ég veit að stundum líður manni þannig“ eða „Ég skil að…. og það er eðlilegt að líða svona“. Verðu þau fyri óþarfa streitu og óþægindum yfir einhverju sem þau geta ekki breytt. Leitaðu eftir ráðgjöf fyrir stjúpfjölskyldur, ef þess er þörf, til að tengja nýja makann inn í þína núverandi fjölskyldu. Farðu einu skrefi lengra til þess að skapa börnum þínum aðstæður til að vera í hamingjuríku og uppbyggjandi samskiptum við nýja makann þinn.

Sættu þig aldrei við samband sem er stöðugt niðurlægjandi fyrir þig, er þér hættulegt eða gerir þig óhamingjusama(n) yfir því hvernig þú ert eða hvað þú gerir.

Þú myndir borga fyrir lögfræðilega aðstoð ef þú þyrftir á því að halda, Berðu sömu virðingu fyrir sambandi þínu. Leitaðu aðstoðar ef þú þarft á því að halda. Hjálp er möguleg á margan hátt og meira að segja oft ókeypis, bæði á netinu og úti í samfélaginu.

Sambandið þitt getur orðið besti hluti lífs þíns. Láttu það verða þannig!