persona.is
Yfirlit um vímuefni
Sjá nánar » Fíkn

Hvað eru fíkniefni?

Fíkniefni eru þau efni kölluð sem framkalla breytingu á ástandi í miðtaugakerfi. Breytingin kallast víma og flokkast því efnin undir vímugjafa. Miðtaugakerfið (heili og mæna) stjórnar m.a. líðan, framkomu og hegðun. Taugafrumur bera skilaboð frá miðtaugakerfi til ólíkra líffæra og síðan til baka frá líffærunum. Mismunandi hlutar heilans stjórna mismunandi störfum. Þegar ávana- og fíkniefni eru notuð breytist starfsemi þessara stöðva. Sjóntruflanir verða þegar efnin hafa áhrif á sjónstöð í heila. Dómgreind sljóvgast og hömlur minnka þegar efnin hafa áhrif á þann hluta heilans sem stjórnar tilfinningum. Þannig eru áhrifin mismunandi eftir því hvaða hluti heilans á í hlut. Fíkniefni eru fjölmörg. Þeim er skipt í flokka eftir áhrifum þeirra á líkamsstarfsemina. Áhrifin eru margvísleg og oft andstæð. Sami einstaklingur getur neytt amfetamíns til að örva sig og síðan reykt hass til að róa sig. Efnin eiga þó sameiginlegt að þau geta framkallað vímu hjá neytandanum. Hluti þessarar vímu er svokallað „eufori“ eða gervivellíðan. Mörg þeirra efna sem flokkuð eru sem ávana- og fíkniefni hafa notagildi sem lyf og eru jafnvel ómissandi sem slík. En önnur hafa lítið eða ekkert gildi sem lyf. Ljóst er að margar hættur fylgja fíkniefnaneyslu. Neyslunni er hægt að líkja við rússneska rúllettu. Þeir sem búa til fíkniefni hafa það eitt að markmiði að græða sem mest. Því eru gæði efnanna aldrei fullkomlega tryggð og getur það haft varanleg áhrif á heilsu og líf fjölda fólks. Þeir sem neyta fíkniefna: ·         vita yfirleitt aldrei hvað þeir eru að taka inn, blanda efnanna er mismunandi ·         vita yfirleitt aldrei hve stór skammturinn er ·         vita aldrei hvernig heili þeirra bregst við efnunum ·         vita aldrei hvenær líkami þeirra segir: „Hingað og ekki lengra“ ·         vita ekki hvar mörkin liggja milli þess að prófa og að vera háður.

Fíkn og þolmyndun

Fíkn Fíkn felur í sér ómótstæðilega löngun í tiltekið efni eða lyf og veldur því að einstaklingur verður háður efninu, líkamlega og/eða andlega. Þeir sem ánetjast fíkniefnum líður mjög illa ef efnanna er ekki neytt, þeir þurfa að fá efnin til að öðlast vellíðan. Fíknin hefur tekið völdin og veldur því að viðkomandi einstaklingur verður meira eða minna stjórnlaus. Hann getur ekki hætt neyslunni þrátt fyrir allan þann skaða sem fylgir henni. Ef hann fær ekki efnið fær hann fráhvarfseinkenni sem lýsa sér í margs konar óeðlilegri og óþægilegri líkamsstarfsemi. Slík fráhvarfseinkenni geta verið helvíti líkust. Í sumum tilfellum koma fráhvarfseinkenni ekki í ljós þegar neyslu er hætt. En sterk löngun í efnið getur samt sem áður verið til staðar og hvatt til að notkun sé haldið áfram. Löngunin kallar á að þeirri vellíðan og vímu, sem efnið framkallar, sé viðhaldið. Þolmyndun Þeir sem nota lyf til langframa þurfa í mörgum tilfellum að auka skammtinn, sem þeir taka, jafnt og þétt til þess að ná sömu áhrifum og upphaflegi skammturinn gaf. Þetta fyrirbrigði er kallað þol og sýnir hæfileika líkamans til þess að aðlaga sig utankomandi efnum. Þol myndast ekki gagnvart öllum lyfjum né heldur gegn öllum verkunum tiltekins lyfs. Þolmyndun verður líka af sumum fíkniefnum.

Ólíkar aðferðir við neyslu fíkniefna

Hægt er að neyta fíkniefna á fjóra mismunandi vegu: með því að reykja efnið, með því að sprauta því inn í líkamann, með því að anda efninu að sér og með því að borða eða drekka efnið. Allar aðferðirnar hafa það í för með sér að efnið berst inn í blóðrásina og þaðan til heila þar sem eitrunareinkennin koma fram. Þegar fíknilyf eða fíkniefni er tekið um munn, t.d. í töfluformi, getur það komist úr munni, maga, smáþörmum eða ristli út í blóðrásina. Með blóði flytjast efnin svo til heila þar sem þau verka. Lyf sem frásogast úr munni kemst fyrr á verkunarstað en það sem frásogast úr ristli. Á sama hátt virkar það lyf fyrr sem sprautað er í æð heldur en það sem sprautað er undir húð eða í vöðva. Lyf sem menn anda að sér frásogast um lungnaslímhúðina og komast þannig mjög fljótt í blóðrásina og til heilans. Efni sem komast beint í blóðrásina eru auðvitað hættulegust og líklegust til að valda aukaverkunum eða eituráhrifum. Ávana- og fíkniefnum er oft sprautað í æð (stungulyf). Þær hættur sem fylgja notkun stungulyfja eru einkum tvær. Við rétta notkun eru þær hverfandi sé ákveðnum reglum fylgt. En fíkniefnaneytendur fara sjaldan eftir þessum reglum og því er hættan töluverð. Þessar hættur eru: ·         Bakteríusmitun sem getur valdið ýmiss konar ígerðum og jafnvel hjartaþelsbólgu. Hægt er að draga úr þeirri hættu með því að nota dauðhreinsaða nál og sprautu og sótthreinsa húðina á stungustað. ·         Veirusmitun sem getur valdið alnæmi og lifrarbólgu (B og C) með gulu. Alnæmi er lífshættulegur sjúkdómur. Á síðustu árum hefur útbreiðsla alnæmis að stórum hluta verið bundin við fíkniefnaneytendur sem sprauta sig. Engin lækning er enn til við sjúkdómnum. Lifrarbólguveirur sýkja fyrst og fremst lifrina og valda bólgum og skemmdum á henni ásamt gulueinkennum. Stundum valda þessar veirur langvarandi lifrarbólgu sem getur leitt til dauða. Lifrarbólga getur verið mismunandi, frá því að vera einkennalítil og í það að vera mjög svæsin og ógna lífi sjúklings. Nokkur hætta er á því að sjúkdómurinn verði viðvarandi og endi í skorpulifur og/eða lifrarkrabbameini, ekki síst þegar um lifrarbólgu C er að ræða. Mesta hættan á veirusmitun er ef nálar og sprautur eru notaðar oftar en einu sinni eða af mörgum. Hjá þeim sem sprauta sig í æð með fíkniefnum sjást stundum lungnaskemmdir, sérstaklega þegar notuð eru íblöndunarefni til þess að drýgja efnin. Íblöndunarefnin fara inn í æðarnar og flytjast með blóði til lungna. Einnig aukast líkurnar á kynsjúkdómum og berklum hjá fíkniefnaneytendum vegna þess hvað lífsstíll þeirra er hættulegur.

Af hverju leiðist ungt fólk út í fíkniefnaneyslu

Einstaklingar hefja yfirleitt ekki neyslu sína á hörðum efnum. Leiðin liggur frá neyslu löglegra vímuefna yfir í neyslu ólöglegra. Rannsóknir benda til þess að áfengi og tóbak sé oft fyrsta skrefið í átt að neyslu ólöglegra vímuefna. Íslensk könnun sýndi fram á að unglingar sem byrja að drekka undir þrettán ára aldri drekki tíðar og drekki sig oftar fulla í 10. bekk en þeir sem byrja síðar að drekka. Áfengi er jafnframt algengasta vímuefnið. Neysla hass, róandi lyfja, sveppa, amfetamíns og E-pillu er einnig mun meiri hjá þeim sem byrja að drekka áfengi mjög ungir. Til að byrja með misnota einstaklingar gjarnan hass og áfengi saman í nokkurn tíma og fara síðan út í amfetamínneyslu. Orsakir fíkniefnaneyslu eru oft margar og mismunandi. Sumum finnst spennandi að prófa eitthvað nýtt, aðrir láta undan hópþrýstingi og enn aðrir nota fíkniefnin til að deyfa sig og losna þannig frá persónulegum vandamálum. Flestir eru þó sammála því að fíkniefnaneysla sé flótti frá raunveruleikanum. Rannsóknir hafa sýnt að margir, sem leiðast út í fíkniefnaneyslu, eigi það sameiginlegt að hafa lítil samskipti við foreldra sína og eyði litlum tíma með þeim. Þeir sem leiðast út í fíkniefnaneyslu fá fæstir upplýsingar eða fræðslu hjá foreldrum og algengt er að þeir viti mjög lítið eða jafnvel ekkert um áhrif og hættu af neyslu fíkniefna. Þannig er algengast að þeir fái fyrstu upplýsingar sínar um fíkniefni hjá öðrum neytendum eða sölumönnum. Þessir einstaklingar hafa oft lítið sjálfstraust og fá eða engin áhugamál. Algengt er að þeir byrji að drekka áfengi mjög ungir og kynnist þá nýjum „vinum“ sem eru með hass og önnur vímuefni og halda efnunum að þeim. Vitað er að fíkniefnaneysla er farin að færast neðar í aldurshópa. Dæmi eru um mjög unga neytendur, allt niður í 11 ára aldur. Mjög margir neytendur fjármagna neyslu sína með sölu fíkniefna til annarra og vilja því koma sér upp kúnnahópi. Þeir sækjast því eftir að vinir og kunningjar prófi efnið og byrji að nota það. Einnig er algengt að neytendur leiðist út í afbrot og vændi til að fá pening fyrir fíkniefnum.

Einkenni neyslu

Hægt er að merkja ákveðin einkenni hjá þeim sem byrja að neyta fíkniefna: ·         Breytingar verða á lífsstíl, viðhorfum og útliti (fatnaði, hárgreiðslu) og kunningjahópurinn verður annar. ·         Samband við foreldra rofnar, áhugi á fjölskyldunni dofnar. ·         Skólasókn minnkar, námsárangur verður slakari, allt snýst um nýju kunningjana. ·         Sljóleiki og minnisleysi gera vart við sig. ·         Áhugi á að þrífa sig minnkar og sóðaskapur eykst í kringum þann sem í hlut á. ·         Illa er mætt í vinnu, forföll eru boðuð og logið er til útskýringar. ·         Viðkomandi er lengi úti á kvöldin og nóttunni, kemur stundum ekki heim alla nóttina. Hverfur jafnvel í nokkra daga. ·         Skapofsi gerir vart við sig og erfitt er að ná sambandi við hlutaðeigandi. Öllum tilraunum til að ræða málin er mætt með öfgakenndum viðbrögðum. Það er eins og um sé að ræða annan einstakling. ·         Peningar fara að hverfa frá nákomnum. Viðkomandi verður uppvís að svikum, prettum og tvöfeldni. Hann lendir í höndum lögreglunnar vegna óreglu og afbrota.

Meðferðarúræði

Við meðferð eldri fíkniefnaneytenda er einkum um tvo kosti að ræða: Vog og Geðdeild Landspítalans. Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, SÁÁ, reka sjúkrahúsið Vog ásamt göngudeild að Síðumúla 3-5. Ef einstaklingur óskar eftir meðferð eða upplýsingum er fyrsta skrefið að hafa samband við göngudeildina sem opin er frá kl. 9:00-17:00 í síma 581-2399. Einnig er hægt að hafa samband beint við sjúkrahúsið Vog í síma 567-6633. SÁÁ rekur einnig meðferðarheimili þar sem áframhaldandi meðferð fer fram. Geðdeild Landspítalans er skipt í fimm skorir. Ein þessara skora er fíkni- og fjölkvillaskor. Ef einstaklingur óskar eftir meðferð eða upplýsingum er fyrsta skrefið að hafa samband við göngudeildina í síma 560-1770 en hún er til húsa í Geðdeildarbyggingunni á Landspítalalóð. Göngudeildin er opin frá kl. 8:00-16:00. Ef aðstoðar er óskað utan þess tíma er hægt að hafa samband við Bráðaþjónustu Geðdeilda í síma 560-1000. Á göngudeildinni er tekin ákvörðun um áframhaldandi meðferð. Báðar þessar stofnanir bjóða fjölskyldum fíkniefnaneytenda upp á stuðning og fræðslu. Heilsugæslustöðvar og heimilislæknar út um allt land veita einnig upplýsingar og aðstoða einstaklinga og fjölskyldur sem eiga við fíkniefnavandamál að etja. Á vegum Barnaverndarstofu er meðferð sem foreldrar eða barnaverndarnefndir sækja um fyrir ósjálfráða ungmenni. Barnaverndarstofa hefur umsjón með inntöku á öll meðferðarheimili á vegum ríkisins. Meðferðarstöðin að Stuðlum leysir af hólmi þrjár af deildum Unglingaheimilis ríkisins. Vistun og meðferð á Stuðlum er beitt þegar unglingurinn er farinn að stofna heilsu sinni og þroska í hættu, m.a. með misnotkun á áfengi eða öðrum vímuefnum. Sími Barnaverndarstofu er 552-4100.

Bryndís Þóra Þórsdóttir lyfjafræðingur og Svava Þorkelsdóttir hjúkrunarfræðingur