persona.is
Vinnufíkn
Sjá nánar » Fíkn » Vinnan

Ef við lítum í kringum okkur þá eru eflaust margir sem okkur finnst vera einhverskonar vinnufíklar. Sumir myndu jafnvel ganga enn þá lengra og halda því fram að helmingur Íslendinga væru vinnufíklar. Enda vinnum við Íslendingar töluvert meira en nágrannaþjóðirnar. Þessi vinna skilar ekki endilega tilsettum árangri þar sem framleiðnin virðist minni á hvern klukkutíma hér á landi. 

Ekki er hægt að flokka samt alla mikla vinnu sem vinnufíkn og því mikilvægt að átta sig á hvað vinnufíkn geti verið. Í Japan hafa menn hugtak sem þeir kalla “karoshi” eða “dauði vegna of mikillar vinnu” og talið er að 1000 manns deyja þar árlega af völdum “karoshi”. Í Hollandi er einhverskonar vinnufíkn kallað “leisure ilness” sem hægt væri að þýða “tómstundarveikleiki” og talið há u.m.þ.b 3% þjóðarinnar þar sem fólk hreinlega verður líkamlega veikt um helgar þegar það reynir að öllum mætti að reyna að slaka á frá vinnu.  Það má sennilega síðan endalaust deila um hvar skilinn er á milli að vera harðduglegur og vera vinnufíkill eða þjást af “tómstundaveikleika”. Ein viðmið væri að miða við nauðsyn, þ.e. ef einstaklingurinn þarf ekki nauðsynlega á “auka” launum að halda, er ekki með stöðuga pressu frá vinnu og er ekki að finna upp merkustu uppgötvun aldarinnar þá megum við kannski velta vinnufíkn fyrir okkur. Hinsvegar er sennilega endalaust hægt að réttlæta “nauðsyn”. Vinnumaðurinn sem er harðduglegur hefur venjulega eitthvað jafnvægi í lífinu en vinnufíkillinn er oft í óheilbrigðu sambandi við sína nánustu, viðheldur ekki heilsunni nægjanlega og stundar ekki heilbrigð áhugamál utan vinnu.

Ein leið til að aðgreina þessa hópa væri að skoða huga þeirra og draumóra. Sá duglegi gleymir sér þreyttur yfir vinnunni og lætur hugann reika á sólarströnd eða í veiðiá svo eitthvað sé nefnt: Vinnufíkillinn hinsvegar fer á flug í huganum yfir í vinnuna þegar hann er staddur á ströndinni eða í veiðinni. Það má segja að krafan um að vinna mikið, vera mikið til staðar og vera ávallt viðbúin komi ekki endilega frá vinnuveitanda heldur hefur vinnufíkillinn oftar en ekki gert sig ómissandi.  Hann krefst þess að hringt sé í sig, finnu ástæðu til að fara í vinnuna og gerir jafnvel undirmenn sína háða sér.  Það er hinsvegar hægt að segja að þessir einstaklingar geta verið vinsælir í vinnu því þeir eru sennilega giftir vinnunni.  Á sama tíma er mikilvægt að átta sig á að engin vinnustaður býr til fíkillinn ekki frekar en áfengi býr til áfengisfíkill.

Hinsvegar gerir vinnustaðurinn vinnufíklinum kleyft að viðhalda sinni fíkn og hann leitar oftar en ekki að vinnu sem gefur honum adrenalín “rush” og ef það hættir að gefa þá tilfinningu er mögulegt að hann skipti um vinnu eða allavega skiptu um gír í vinnunni þannig að hann geti upplifað spennuna aftur.

Það má rauninni segja að það séu tveir hópar einstaklinga sem við sjáum helst í hlutverki vinnufíkilsins.  Annar hópurinn er alin upp við aðstæður sem lítið er um hrós og jafnvel mun meira um gagnrýni.  Þessi hópur byrjar snemma að reyna að fá viðurkenningu frá foreldrum. Vandinn kemur oft fyrst fram með ákveðinni fullkomnunaráráttu í skóla gagnvart einkunnum og færist síðan yfir í vinnuumhverfið.  Í vinnu á þessi hópur erfitt með að segja nei, sjálfstraust gagnvart vinnu er lítið og reynir þar af leiðandi stöðugt að forðast gagnrýni og öðlast viðurkenningu með mikilli vinnu sem oft á tíðum er jafnvel vinnuframlag sem aðrir ættu að inna að hendi.

Hinn hópurinn er svo hópurinn sem hefur glímt við aðra fíkn áður eins og vímuefnafíkn.  Þessi einstaklingur á erfitt með að slaka á og finnst sig þurfa stöðugt að hafa eitthvað fyrir stafni.  Þessir einstaklingar er oft að leita eftir spennu í vinnuaðstæðum, vilja taka áhættur og kýs frekar basl en stöðugleika í vinnu.

Það er mikilvægt að vinnufíklar reyni að skoða vandamálið hjá sjálfum sér hvað það er sem viðheldur því.  Mikilvægt er að skoða vel og vandlega jafnvægið milli leik starf og einkalífs.  Að lokum má nefna að mjög oft er krefst það töluverðs átaks að losa sig frá vinnufíkninni og jafnvel meðferðar eða ráðgjafar einhverskonar.  Ef um fyrrverandi fíkil er að ræða sem hefur leitað sér aðstoðar má reikna með að árangur þeirra meðferðar hefur því miður verið einangraður við að fjarlæga fíknina og þar af leiðandi en ekki búið að vinna með undirliggjandi þætti sem leiðir til fíknihegðunar.

Björn Harðarson
sálfræðingur