persona.is
Viðtal – Matvæli, matarlyst og offita
Sjá nánar » Átraskanir/Offita
Frá 116. ársþingi Ameríska sálfræðingafélagsins, í Boston 14. – 17. ágúst 2008 Um breytingar á matarræði þjóðar – Changing the Nation’s Diet Viðtal við Dr. Kelly Brownell prófessor í sálfræði og faraldursfræði við Yale University og formann The Rudd Center for Food Policy and Obesity. Spurning: Hvað geta nýjustu rannsóknir sagt um breytingar á matarræði þjóðarinnar (USA)? Svar: Það er ekki auðvelt að breyta matarræði heillar þjóðar. Ein ástæða er þrýstingur frá matvælaiðnaðinum á stjórnmálamenn með tilheyrandi hagsmunagæslu. En á sama tíma er almenningur að verða móttækilegri fyrir hugmyndir um breytingar, þess vegna er t.d. algengara að skólar séu að losa sig við gosdrykki. Þetta sést líka á því að í New York er verið að taka transfitu af matseðlum veitingahúsa. Þá hafa verið sett lög um upplýsandi merkingar á matvælum. Ástandið hefur verið þannig hingað til að það hefur verið erfitt að taka heilsusamlegar ákvarðanir. Breytingarnar stuðla að því að við getum séð betur hvað er hollt og hvað ekki og tekið upplýstar ákvarðanir um það sem við borðum. Sp: Eru það sömu atriði sem leiða til slæmra ákvarðana hjá börnum og fullorðnum? Það eru margir þættir sem stuðla að offitu en þeir eru að mestu leyti þeir sömu hjá börnum og fullorðnum. Mikil neysla á mat sem torveldar líkamanum að kunna sér magamál, t.d. ef við finnum “of seint” að við erum orðin södd. Þetta á sérstaklega við um skyndibitafæði og sykraða gosdrykki. Svo er það sorgleg staðreynd (a.m.k. í USA) að heilsusamlegur matur er dýrari en óhollur. Þess vegna verður offituvandinn oft meiri hjá lágtekjuhópum. Þar við bætist að matvælaiðnaðurinn auglýsir óhollan mat ákaft og  beinir athyglinni sérstaklega að börnum. Ef við bætist minni hreyfing þá snertir offituvandinn alla þjóðina meira og minna. Það er þess vegna ekki neitt eitt atriði sem hægt er að benda á sem orsök offitu heldur mörg atriði. Ég tel mikilvægt að vinna í þeim öllum. Sp: Hvað með núverandi efnahagsástand er það líklegt til að það leiði til verra ástands eða betra í manneldismálum? Verðið á matvælum hefur hækkað hratt í öllum heimshlutum. Fyrir fólk sem lifir við hungurmörk í fátækustu ríkjum heims er það skelfilegt. Sumir hafa haldið því fram að á Vesturlöndum muni hátt matvælaverð hjálpa okkur í baráttunni við offituna af þeirri augljósu ástæðu að við getum ekki keypt eins mikið af mat. Ég held að það leiði líka til þess að verri efnahagur leiði til þess að fleiri kaupi ódýrari mat sem gjarnan eru unnar matvörur sem oftast eru mjög orkuríkar. Þess vegna held ég að þetta muni auka offituvandann frekar en að draga úr honum. Sp: Hvað geta sálfræðingar gert til að snúa þessari þróun við? Ef við lítum á vandann sem stórt dæmi eða jöfnu, þá geta sálfræðingar lagt sitthvað af mörkum við hluta af lausninni. Til dæmis eru nýlegar rannsóknaniðurstöður sem gefa til kynna að sumar tegundir af mat valdi því að sumir ánetjist eða fái eins konar fíkn í þennan mat. Sálfræðingar geta lagt fram niðurstöður sem hjálpa til við að skilja líffræði og sálfræði matar og fíknar. Annað svið sem sálfræðingar hafa rannsakað er áhrif af markaðssetningu á matvælum. Það er gríðarleg auglýsingastarfsemi í gangi, sem beinist sérstaklega að börnum, næstum öll kringum matvæli sem almennt er talið skynsamlegt að fólk borði minna af. Sálfræðingar eru í góðri aðstöðu til að komast að orsakasamhengi milli markaðssetningar og matarræðis barna og þar með samhengi milli matarræðis og heilsu. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild á: http://www.apa.org/convention08/diet-change.html JSK þýddi