persona.is
Vaktavinna og heilsa
Sjá nánar » Vinnan
Vaktavinna verður sífellt algengari nú á dögum. Áætlað er að minnsta kosti 15 til 20 prósent alls vinnufærs fólks starfi eftir vaktakerfum af ýmsu tagi. Fjölbreytileiki slíkra kerfa er gífurlegur og má nefna að í nýlegri þýskri grein er giskað á að um tíu þúsund slík kerfi séu í notkun víðs vegar í heiminum. Fyrir utan þessar tölur er allt það sem nefnt hefur verið sveigjanlegur vinnutími og alls kyns önnur tilhögun vinnutímans. En hvers vegna er svona mikið um vaktavinnu? Fyrir þessu eru ýmsar ástæður, bæði gamalar og nýjar. Auknar kröfur um lengri opnunartíma ýmissar þjónustu á sinn þátt í vexti. Dýr tækjabúnaður sem nýta þarf eins vel og frekast er unnt stýrir einnig þessari þróun. Útvíkkun markaða og alþjóðavæðing hefur sjálfkrafa þau áhrif að vinntíminn teygist í báða enda. Lengi hefur lögregla og sjúkralið verið að störfum öllum stundum og engin breyting verður á því. Það eru því margir sem þurfa að vinna á meðan við hin sofum. Mannskepnan er þannig gerð að henni hentar best að sofa á nóttunni en vaka á daginn. Tilviljunin ein hefur ekki ráðið þessari skiptingu heldur grundvallast hún á svokölluðum dægursveiflum ýmissa líffræðilegra ferla í líkama okkar. Svefn er eitt þessara mörgu ferla ásamt framleiðslu meltingarensíma, sem og stýring líkamshita. Það hefur því vakið forvitni vísindamanna að athuga hvort og hvernig vaktavinnufólki takist að fella sig að breytingum á svefni og vöku.

Vinnan og líkamleg heilsa

Með hjartað í lagi…

Á síðustu 20 árum hafa niðurstöður bent ótvírætt til þess að vaktavinna hafi skaðleg áhrif á heilsu fólks.

Stórar rannsóknir hafa verið gerðar í Svíþjóð þar sem meðal annars kemur fram að tíðni hjartasjúkdóma er allt að 40% hærri meðal þeirra sem hafa unnið á vöktum yfir 25 ára tímabil, miðað við hóp sem eingöngu var í dagvinnu. Við þessar rannsóknir kom í ljós að tíðni hjartasjúkdóma fer lækkandi eftir að fólk hefur unnið lengur en 25 ár á vöktum. Þetta væri að sjálfsögðu hægt að túlka þannig að ef maður vinnur bara nógu lengi á vöktum þá lagast hjartað aftur! Gott ef satt væri, en því miður er raunin önnur. Ástæðan fyrir þessu er sú að þeir sem kenna sér meins eftir áralanga erfiða vaktavinnu eru yfirleitt hættir að vinna slíka vinnu. Þeir sem greinilega þola þessa tegund vinnu betur en aðrir eru þá eftir í rannsóknarhópnum og tíðni hjartasjúkdóma fellur. Samband vinnu og maga…

Algengt er að vaktavinnufólk kvarti undan brjóstsviða, vindgangi og magaverkjum. Ástæða þessa er sennilega sú að líkaminn gerir ekki ráð fyrir því að við borðum mjög seint á nóttunni. Framleiðsla meltingarensíma er í lágmarki og við slíkar aðstæður er erfitt að melta matinn. Enn fremur hefur komið á daginn að vaktavinnufólki hættir til þess að gleypa í sig mjög fituríkan mat á nóttunni. Neysla mikillar fitu í fæðunni er óholl fyrir alla en sérstaklega þegar meltingarkerfið er í hálfgerðum dvala að næturlagi.

Vinna og einkalíf

Samspil vaktavinnufólks við vini og vandamenn getur reynst snúið. Þegar unnið er meðan aðrir eiga frí er mikil hætta á því að vinahópurinn einskorðist við annað vaktavinnufólk. Minni tími gefst til þess að sækja námskeið, fara í heimsóknir til ættingja og þannig mætti lengi telja.

Makar vaktavinnufólks hafa ekki farið varhluta af þessum skorðum sem vinnutíminn getur sett einkalífinu. Sé vaktaáætlunin mjög ófyrirsjáanleg getur reynst nær ómögulegt að vita til dæmis hvort vinna eigi á miðvikudegi eftir hálfan mánuð. Þannig getur verið mjög snúið að segja já við heimboði eða skyndilegu tilboði um leikhúsmiða. Samskipti vaktavinnufólks við börn sín hljóta að vera einn veigamesti þáttur í hverri umræðu um félagsleg áhrif slíkrar vinnu. Í ljós hefur komið að ekki skiptir nauðsynlega máli hvenær foreldrar eyða vökutíma með barni sínu heldur að þeir geri það. Gæði þess tíma sem foreldrar og börn eiga saman skiptir því meira máli en lengd hans. Reyndar kemur fram í mörgum rannsóknum að vaktavinnufólk telur sig í betri tengslum við börn sín en dagvinnufólk. Þetta helgast af því að þeir sem vinna á daginn missa oftast af þeim tíma þegar barnið er frískast yfir daginn. Á hinn bóginn má segja að vaktavinnufólk sofi af sér þennan sama gæðatíma en sitt sýnist hverjum. Röskun á heimilslífi vegna þess að vaktavinnumanneskjan þarf að sofa kemur vitaskuld harðast niður á börnum á leikskólaaldri. Þau þurfa snemma að læra að taka tillit til fleiri og flóknari reglna en önnur börn. Hvort það er til góðs eða ills er svo önnur spurning. Skipta má mögulegum aðgerðum gegn skaðlegum afleiðingum vaktavinnu í tvennt. Í fyrra lagi geta fyrirtæki og opinberir aðilar hugað betur að því hvernig vaktavinna er skipulögð. Hér kemur ýmislegt til greina, ss. löggjöf, eftirlit, aukin miðlun upplýsinga um heilsu og vinnu. Hið síðara er ýmislegt sem einstaklingar geta beitt til að auka líkur á hámarksaðlögun. Varla er þó hægt að ætlast til þess að ábyrgðin á forvörnum liggi hjá launþegum þar sem þeir hafa hingað til ekki haft þekkingu á því hvað hægt er að gera. Mun rökréttara er að þeir sem skipuleggja vinnuna geri það með þeim hætti að heilsa starfsmanna bíði ekki skaða af. Vaktavinnukerfi hafa í langflestum tilfellum verið skipulögð eingöngu út frá þremur eftirtöldum römmum: lagasetningu, umfangi þjónustunnar/ framleiðslunnar og óskum starfsmanna. Hið síðastnefnda er þó ekki með í öllum tilfellum. Það sem alveg hefur vantað er athugun á þeim afleiðingum sem vinnutími getur haft á heilsuna yfir langa starfsævi, þegar tilhögun vinnutímans hefur verið skipulögð. Í dag er þekkt að betra er að vinna vaktirnar þannig að kvöldvakt taki við af morgunvakt, og næturvakt við af kvöldvaktinni. Þannig færast vaktirnar með sólinni en ekki gegn henni eins og er býsna algengt. Dægursveiflur líkamans eru ekki stilltar nákvæmlega á 24 tíma heldur hallast þær að 25 tíma sveiflu. Þetta útskýrir hvers vegna við eigum auðveldara með að vaka lengur á kvöldin en að vakna fyrr en við erum vön. Það er okkur því eðlilegra að vinna fyrst á morgnana en síðar á kvöldin í sömu vaktarúllu samanborið við öfuga skiptingu vakta. Annað sem hafa verður í huga er hvenær vaktirnar hefjast. Komið hefur í ljós að erfiðara er að rífa sig á fætur klukkan 5 en klukkan 6. Þannig værum við öll steinsofandi klukkan 5 nema fyrir það að vinnan kallaði. Á þessum tíma er líkamshitinn hvað lægstur og árvekni okkar og snerpa sömuleiðis. Það tekur því nokkra stund að vinna sér til hita og komast á snúning en það er eingöngu vegna þess hvernig líkami okkar starfar. Einnig ber að hafa í huga að slysatíðni eykst mjög hratt eftir níu tíma í vinnu, og árvekni manna minnkar yfir blánóttina. Lestarstjórar geta og hafa t.a.m. sofnað í heilar10 mínútur undir stýri án þess að gera sér grein fyrir því . Almennar vinnuaðstæður skipta enn meira máli fyrir vaktavinnufólk en fyrir þá sem eingöngu vinna á daginn. Þetta á sérstaklega við um næturvinnufólk þar sem líkamshiti og svefnþörf sem og breytt starfssemi meltingarfæranna getur leikið fólk grátt yfir starfsævina. Ef mögulegt er vegna eðlis starfsins að leggja sig, þá er sterklega mælt með því. Árvekni snareykst eftir smáblund. Kaffistofur eru oftast lokaðar á nóttunni sem er mjög slæmt því mönnum hættir til þess að gleypa í sig mjög óhollan mat á nóttunni. Margir gleypa í sig majonessamlokur, eða snakk til þess að halda sér vakandi. Ef til vill er ekki að undra þótt fólk fái í magann eftir slíkar máltíðir! Svefnvenjur og streita

Þeir sem hafa unnið á nóttunni þekkja það án efa að sambærileg svefnlengd næst sjaldnast á daginn og á nóttunni. Margra ára lífsmynstur, þar sem eins til tveggja tíma svefn tapast hvern sólarhring, getur valdið líkamanum duldu álagi. Það er þetta álag sem vísindamenn telja að geti verið orsök ýmissa kvilla sem frekar leggjast á vaktavinnufólk en dagvinnufólk.

Dagsvefn er alltaf styttri en nætursvefn og helgast það af ýmsu. Fyrir það fyrsta er líkamshitinn á leiðinni upp en það vinnur gegn því að maður sofni. Líkaminn virðist nota lækkandi líkamshita sem merki um syfju, lækkandi hiti fylgir lækkandi sól einhverra hluta vegna. Einnig getur verið erfitt að fá svefnfrið þegar annað heimilisfólk er á ferðinni, sérstaklega ef þeir eru af yngri kynslóðinni. Sjálf dagsbirtan getur haft hressandi áhrif á menn og konur og ráðleggja sumir sænskir sérfræðingar fólki til að bera sólgleraugu á heimleið eftir næturvakt. Í íslensku skammdegi er þetta varla nauðsynlegt, en þeim mun brýnna á sumrin þegar bjart er allan sólarhringinn. Með aldrinum er eðlilegt að svefnþörfin minnki. Þessi náttúrulega minnkun auðveldar fólki þó ekki að laga sig að vaktavinnu sem felur í sér næturvinnu. Við fyrstu sýn virðist þetta vera þversögn en önnur breyting tengd aldrinum skýrir málið. Allur taktur og venjur eru í fastari skorðum á efri árum en þegar líkaminn var enn ungur. Þannig er erfitt fyrir eldra fólk að vera sífellt að breyta svefn- og vökumynstri sínu. Af þessum ástæðum er mjög algengt að eldra starfsfólk sé hætt á næturvöktum og vinni eingöngu annað hvort dag – eða kvöldvinnu. Eins og fyrr er frá greint þá fylgist að lágur líkamshiti og syfja. Mælt er með því að fólk hafi ekki of heitt inni í svefnherbergjum sínum, hvorki á daginn né á nóttunni. Að degi til getur sólin verið til bölvunar og hitað upp svefnálmur ef þess er ekki gætt að góð gluggatjöld hylji glerið. Einnig getur verið nauðsynlegt að hafa tappa í eyrunum ef aðrir heimilsmeðlimir geta ekki gengið erinda sinna innanhúss nema með truflandi hávaða. Margir hneigjast til aukinnar neyslu áfengra drykkja eftir vaktir og á þetta einkanlega um þegar vaktir eru mjög óreglulegar og ófyrirsjáanlegar. Hugsunin er eflaust í þessa veruna að „…maður sofnar svo vel eftir einn eða tvo bjóra…“ eða þá að fólki finnst það slaka betur á með drykk í hönd. Það sem er rétt er að fólk sofnar fyrr en svefninn verður hins vegar verri. Þegar líkaminn hefur unnið úr áfenginu vaknar fólk og gengur erfiðlega að sofna á nýjan leik. Það er því bjarnargreiði sem maður gerir sjálfum sér þegar þessi aðferð er notuð til að sofna. Önnur alltof algeng leið er að nota svefnlyf. Nauðsynlegt getur verið að reiða sig á slíkt í undantekningartilfellum en meginreglan er að forðast þessi lyf. Líkaminn venst lyfjunum jafnvel í þeim mæli að maður verður háður notkun þeirra. Samfara þessari fíkn myndast síðan þol, neyta þarf meira magns en áður til að ná fram sömu áhrifum. Afleiðingin er oftast slæm – annað hvort verður svefninn jafn slæmur og fyrr eftir nokkurn tíma á lyfjunum eða maður verður háður þeim. Fagra nýja veröld…

Ljóst er að vaktavinna verður seint eða aldrei umflúin í nútímasamfélagi. Á hinn bóginn er hægt að hanna tilhögun vinnunnar með mun betri hætti en gert hefur verið til þessa. Hér er sérstaklega vísað til þess að starfsfólk sé haft með í ráðum þegar kerfin eru skipulögð og að fullt tillit sé tekið til heilsuverndar við hönnunina.

Sturla Jóhann Hreinsson, Ba í sálfræði