persona.is
Útlitsröskun (Body Dysmorphic Disorder) og Michael Jackson
það eru til ýmis vandamál sem tengjast óánægju með útlit og löngunin í að breyta útlitinu. Eitt þeirra er sennilega þekktast fyrir að Michael Jackson þjáist mjög sennilega af því er svokölluð útlitsröskun (Body Dysmorphic Disorder). Útlitsröskun einkennist af óeðlilega mikilli óánægju með útlit sitt og er þá oftast um að ræða einhvern hluta af andliti eða höfði. Þetta geta verið áhyggjur af nefi, höku, freknum, bólum, augum, augabrúnum, of miklum eða litlum hárvexti á höfði eða annars staðar. Þetta getur þó líka tengst öðrum líkamshlutum eins og handleggjum, brjóstum og kynfærum. Fólki finnst t.d. það vera með allt of stórt nef eða finnst ákveðnir líkamshlutar skakkir eða á röngum stað svo eitthvað sé nefnt. Taka skal fram að hér er um að ræða hluti sem aðrir taka ekki eftir eða eiga erfitt með að sjá. Margir gætu sagt: „Eru ekki allir óánægðir með líkamsímynd sína og þá með útlitsröskun?“ Því væri hægt að svara á þann hátt að auðvitað eru mjög margir, og allt of mikið af fólki, óánægðir með útlit sitt. Rannsóknir hafa t.d. leitt í ljós að yfir helmingur kvenna og stór hluti karla er óánægður með líkamsímynd sína. Þrátt fyrir það er aðeins lítill hluti fólks sem myndi uppfylla skilyrði fyrir útlitsrökun. Fólk sem er svo óánægt með líkamsímynd sína að það háir því dags daglega ætti að velta því fyrir sér að leita sér aðstoðar og reyna að bæta líkamsímynd sína. Þau einkenni sem þurfa að vera til staðar til að uppfylla skilyrði útlitsröskunar eru: stöðugar áhyggjur af útliti sínu þar sem a.m.k einum klukkutíma á dag er eytt í þær áhyggjur; að vera stöðugt að skoða, mæla og laga (ímyndaðan) útlitsgalla sinn, líta mikið í spegil, búðarglugga eða spegilmynd í vatni til að athuga hvort allt sé í lagi; að spyrja í tíma og ótíma aðra hvort allt sé í lagi með…, í þeim tilgangi að reyna að sannfærast að allt sé í lagi og síðan með þeim afleiðingum að líða samt ekkert betur; að þessar hygmyndir um útlitið hái fólki svo mikið í daglegu lífi, að það fer ekki í veislur, hittir ekki vini eða mætir ekki í skólann. Fólk með útlitsröskun leitast mikið eftir því að fela þetta svokallaða lýti sitt með fötum, förðun eða öðrum leiðum. Í verstu tilfellum leitast það eftir að komast í lýtalæknisaðgerðir. Mjög líklegt er að þrátt fyrir að fólk fari í lýtalæknisaðgerð, þá verði fólk áfram óánægt með sig og telur sig þá jafnvel þurfa á fleiri aðgerðum að halda til að verða sátt við útlit sitt. Hjá sumum fer það út í gífurlegar öfgar, þ.e. fólk fer í hverja aðgerðina á fætur annarri en finnur alltaf nýja og nýja líkamlega ágalla, sem þarf að laga til að uppfylla útlitskröfur viðkomandi.  Í samhengi við Michael Jackson minnist ég sjónvarpsþáttar þar sem farið var í gegnum hversu oft hann breytti andliti sínu og nefi án þess að virðast ná að verða sáttur. Hvort sem það er rétt eða ekki var hér um nokkuð ”góða” lýsingu á því sem hefur verið nefnt útlitsröskun. Útlitsröskun er ekki sérlega þekkt vandamál, fólk skammast sín oft mikið fyrir vandamálið og leitar sér þar af leiðandi ekki hjálpar. Sérfræðingar átta sig oft ekki á að um útlitsröskun sé að ræða þegar þeir fá til sín einstaklinga með þessa röskun og greina þessa einstaklinga iðulega þunglynda, félagsfælna og/eða með áráttu og þráhyggju, þar sem þessir þættir eru hluti af einkennum útlitsröskunar. Einnig er einstaklingum með útlitsröskun stundum ruglað saman við einstaklinga sem þjást af átröskunum, eins og anorexíu eða búlimíu, þar sem þessar þekktari raskanir einnig tengjast útliti (þó á allt annan hátt) og eiga yfirleitt upptök sín á unglingsárum. Það er mikilvægt að fólk leiti sér eða sé hvatt til að leita sér aðstoðar ef það telur sig eða aðra eiga við þetta vandamál, sem veldur mikilli vanlíðan og skerðingu á eðlilegu lífi, að stríða. Vandamálið hverfur sjaldnast af sjálfu sér. Björn Harðarson sálfræðingur