persona.is
Úr rúminu á ról
Sjá nánar » Þunglyndi

Flestir kannast við að koma sér ekki af stað í verkin sem fyrir liggja þótt fólk fresti því misjafnlega lengi. Á meðan einn kemur sér ekki fram úr rúminu klukkan sex á morgnana til að fara í líkamsrækt áður en hann vinnur sinn tíu tíma vinnudag þá er annar sem kemur sér ekki fram úr rúminu yfirleitt. Það er eðlilegt að eiga misgóða daga en þegar framkvæmdaleysið er farið að trufla daglegt líf þarf að taka í taumana.

Þegar depurð hvílir yfir fólki virðast verkefnin og vandamálin vaxa svo um munar. Hér eins og annars staðar er það hugsunin sem skiptir máli. Depurðinni fylgja ýmsir fylgifiskar, s.s. hrakspár um útkomuna, vantrú á eigin getu og í kjölfarið vonleysi þar sem allt sýnist óyfirstíganlegt. Þegar sinnuleysið dregst á langinn bætist svo kvíðinn við því að allt stefnir í óefni. Kvíðanum fylgir óskýr hugsun og vandamálin verða í brennidepli. Þannig hefur myndast vítahringur sem oft reynist þrautinni þyngri að rjúfa.

Ef við ættum að halda af stað einn daginn og ganga alla þá kílómetra sem við eigum eftir að ganga um ævina myndum við trúlegast bara setjast niður og andvarpa. Það er enginn stuðningur í því fólginn að hugsa um framtíðina sem eitt stórt verkefni, heldur ætti frekar að hugsa um eitt skref í einu, misstórt eftir hverjum og einum. Við erum nú einu sinni misjafnlega stórstígt fólk. Á meðan einn þraukar frá mánuði til mánaðar, hugsar annar milli klukkustunda. Lausnin felst ekki í að bíða eftir andagiftinni til að koma manni í gang. Hvatinn kemur ekki á undan virkninni heldur öfugt.

Sú tilhneiging fólks að líta framhjá því jákvæða, t.d. að hafa viagrasansordonnancefr.com komið einhverju í verk, ýtir undir frekara aðgerðaleysi og depurð sem viðheldur vítahringnum. Kannaðu því hvaða hugsanir það eru sem standa í vegi fyrir virkninni. Til að hafa möguleika á að afsanna þessar neikvæðu staðhæfingar og hrakspár er nauðsynlegt að skrá niður dagsverkið. Virkniskráning er því fyrsta skrefið í því að koma sér aftur af stað.

Í fyrsta lagi eru verkefni vikunnar skráð í hefðbundna stundatöflu. Mikilvægt er að skrá raunhæf verkefni í töfluna en ekki það sem þú hefðir viljað komast yfir, og gjarnan byrja á léttustu verkunum.

Í öðru lagi er spáð fyrir um bæði ánægju og erfiði verksins á kvarðanum 0¬-10 og það skráð í töfluna. Þegar verkinu er lokið er skráð hver raunin svo varð, hversu erfitt og ánægjulegt var að vinna verkið.

Í þriðja lagi skal skipuleggja ánægjulegar stundir og setja í töfluna fyrir hvern dag. Þetta þurfa ekki að vera tímafrekir eða stórir hlutir eins og að fara í þyrluflugferð heldur einhver gæðastund, t.d. dekurbað eða tíu mínútna lestur dagblaða áður en farið er í vinnuna.

Í fjórða lagi er afrakstur dagsins skoðaður. Gefðu sjálfum þér klapp á bakið; allt er betra en ekkert. Skoðaðu svo muninn á forspánni og raunútkomu hvað varðar ánægju og erfiði og sjáðu hvort útkoman varð ekki jákvæðari en hrakspáin sagði til um. Með þessum hætti muntu eiga auðveldara með að losa þig út úr vítahringnum því að hugsunin breytist. Þú kemst að því að þótt þú teljir verkin verða leiðinleg og erfið þá er raunin kannski önnur. Hver veit nema ferðin í ræktina færi þér frekari staðfestu til að fara aftur!

 

Sóley Jökulrós Einarsdóttir

sálfræðingur