persona.is
Uppruni vandamálanna
Sjá nánar » Annað

Fólk veltir því fyrir sér af hverju því líður svona illa og hvernig það gat endað í þessari blindgötu í lífinu. Til þess að ná andlegu jafnvægi þurfum við að huga að fimm áhrifaþáttum í lífi okkar: hugsun, líðan, líkamlegum einkennum, hegðun og umhverfi. Ástæðan fyrir andlegu ástandi okkar liggur í samspili þessara þátta. Sé eitthvað ábótavant í einum þeirra hefur það áhrif á hina.  Þættirnir eru því tengdir en ekki aðskildir.

Umhverfið, hvort sem það er staða okkar í dag (vinnan, fjárhagur, samskipti, áföll) eða  reynslan úr fortíð, hefur sitt að segja varðandi líðan okkar, hugsun og hegðun. Manneskja sem hefur átt erfitt á einhvern hátt getur þróað með sér neikvæð viðhorf gagnvart umheiminum, sjálfri sér eða öðrum sem hefur áhrif á hennar daglega líf. Reynslan af umhverfinu hefur kennt henni að treysta ekki öðrum, stefna ekki of hátt eða gera sér væntingar.

Þessi mótun umhverfisins hefur áhrif á það hvernig fólk bregst við verkefnum og vandamálum á hverjum degi. Hvernig stendur á því að einn er alltaf bitur og reiður meðan annar tekur á hlutunum með yfirveguðum hætti? Þekki fólk uppruna vandamálsins gæti það hins vegar gert sér betur grein fyrir stöðu sinni og beitt viðeigandi bjargráðum sem það hefur yfir að ráða. Sá bitri gæti tengt framkomu sína við óréttlæti sem hann varð fyrir í eina tíð og sagt sjálfum sér að það tákni ekki að hann muni alltaf mæta óréttlæti, það sé því kannski óþarfi að bregðast svona harkalega við þótt eitthvað komi uppá.

Þegar fólk finnur fyrir breytingu á líðan þá er það vegna þeirrar hugsunar sem hefur farið í gegnum hugann hvort sem hún er um manneskjuna sjálfa „ég er einn á báti“, aðra „fólki er ekki treystandi“ eða framtíðina „það á eitthvað eftir að fara úrskeiðis“. Þannig hefur hugsunin áhrif á viðbrögð við vandamálunum og sé hún neikvæð þá gefst fólk frekar upp. Líðanin sem fylgir hugsuninni, vonleysið, stuðlar einnig að því að árar eru lagðar í bát því menn eiga til að dæma ástandið vonlaust bara af því þeim finnst það vonlaust.  Líkamlegu einkennin gera svo vart við sig til dæmis í formi úthaldsleysis og svefntruflana vegna áhyggja af ástandinu.

Þannig hafa áhrifaþættirnir fimm áhrif hver á annan og því myndað vítahring sem þarf að rjúfa til þess að ná andlegu jafnvægi. Reyndu finna uppruna vanlíðan þínar með því að skrá hjá þér þau einkenni sem þú finnur fyrir á hverjum og einum þessara fimm áhrifaþátta. Hvaða þættir eru það sem gera þér erfitt fyrir og viðhalda vandanum? Þú getur svo gert áætlun um að taka á hverjum og einum þeirra t.d. með því að athuga hvaða hugsanir hafa áhrif á líðan þína, athugað álag í umhverfi þínu, tekið á þeirri hegðun sem þú vilt bæta og leitað leiða til að minnka líkamleg einkenni t.d. með aukinni hreyfingu. Með þessu móti ættir þú að geta bætt líðan þína og sjálfa/n þig í leiðinni.