persona.is
Uppeldisaðferðir
Sjá nánar » Uppeldi
Líta má á uppeldi frá ýmsum sjónarhornum. Sumir, eins og Locke, hafa lagt áherslu á það hvernig umhverfið mótar börn. Þá verður eitt meginhlutverk foreldra að stjórna umhverfinu þannig að til framfara horfi fyrir barnið. Aðrir telja, eins og Rousseau, að mikilvægast sé að börnum séu búin skilyrði þar sem þau fái að þroskast að talsverðu leyti óáreitt. En hvað um daglegt líf? Hvaða ráð er hægt að gefa venjulegu fólki um barnauppeldi? Áður en slík ráð eru gefin þarf að huga að þrennu. Í fyrsta lagi verður að muna að eðlilegt uppeldi getur tekið á sig ýmsar myndir og ótal leiðir liggja frá vöggu til manndóms. Þar er ekki um eina staðfesta og nauðsynlega leið að ræða. Börn geta þroskast eðlilega við mjög ólíkar aðstæður. Foreldrar spyrja stundum ráða um uppeldi eins og læra megi í einni svipan að gera allt rétt. Hvort tveggja er jafn ólíklegt, að foreldri geri ekkert rétt og að foreldri geri allt rétt. Enda má spyrja: Við hvað skal miðað þegar metið er hvort uppeldisaðferð í heild sé rétt? Gefa má góð ráð, eins konar tæknilegar ráðleggingar, sem eiga við um tiltekin úrlausnarefni, en varla um allt sem lýtur að uppeldi. Uppeldisstefna fólks mótast á löngum tíma af viðhorfum og reynslu. Í öðru lagi er rétt að geta þess að þeir umhverfisþættir sem mest hafa áhrif á þroska barns eru þeir sem eru viðvarandi. Þetta ætti reyndar að segja sig sjálft. Langvarandi áhrif eru sterkari en þau sem skammvinnari eru. Þegar fólk hugsar um þroska barna beinast sjónir þess oft að tilteknum atburðum sem það telur að hafi mótað barnið fyrir lífstíð. Ekki er fyrir það að synja að einstök atvik, einkum áföll eða hræðilegir atburðir af einhverju tagi, geti haft varanleg áhrif á börn. En þau lífsskilyrði sem barn býr við um langt skeið skipta, ásamt upplagi barnsins, mestu máli fyrir þroska þess. Það er ólíklegt að afmarkaður atburður, góður eða slæmur, hafi varanleg og óafturkræf áhrif. Börn sem njóta góðrar kennslu og hlýlegs viðmóts í skamman tíma njóta þess á meðan á því stendur, en sá ávinningur rýrnar fljótt ef atlætið breytist til hins verra. Eins getur barn sem hefur búið við slæmar aðstæður eða orðið fyrir áföllum tekið stórstígum framförum ef aðstæður batna. Við vörum með öðrum orðum við því að fólk líti svo á að þroski sé ósveigjanlegt eða járnbent ferli sem í engu verði hnikað til eða engu breytt til batnaðar eftir að skaði er skeður. Í þriðja lagi þarf að muna að börn eru sannarlega hvert öðru ólík og mismunandi af guði gerð. Sum eru óttalaus, spræk og uppátektasöm, önnur eru hikandi, róleg og íhugul. Sum eru feimin, önnur djarfmælt. Sum eru tiltölulega áhugasöm um flesta hluti, önnur eru daufgerðari. Ekki er hægt að móta lundarfarið eins og leir, enda ræðst það ekki einvörðungu af umhverfinu. En jafnvægis verður að gæta. Lundarfar barns spáir ekki örugglega um hegðun þess, hvorki í bráð né lengd, vegna þess að umhverfi hefur veruleg áhrif á hegðun og þroska. Hér gildir eins og svo víða í lífinu að greina milli þess sem er og þess sem ekki er á valdi manns að breyta.

Meginstef í uppeldi

Íslendingar á ofanverðri tuttugustu öld eru svo lánsamir að búa við skilyrði þar sem líf þeirra er ekki í stöðugri hættu vegna sjúkdóma, hungurs eða vosbúðar, eins og reyndin hefur oft verið og er reyndar enn víða um heim. Hér má því hafa að aðalmarkmiði í uppeldismálum að ala upp ábyrg og glöð börn, það er að segja börn sem bera ábyrgð á eigin hegðun, finna til með öðrum og geta glaðst og deilt gleði sinni með öðrum. Ábyrgð og gleði fara saman og eru jafnmikilvæg, annað er vafasamur ávinningur án hins. Taumlaus lífsgleði án ábyrgðar er hvorki eftirsóknarverð né varanleg og ábyrgðarkennd sem er svo algjör að hún yfirbugar lífsgleði er ólíkleg til að stuðla að blómlegu mannlífi. Þetta eru markmið sem flest nútímafólk getur fallist á. Leiðirnar að markinu felast einkum í tvennu, hvernig svo sem vangaveltum að baki þeim er háttað. Í fyrsta lagi þarf að vekja athygli barna á sambandi milli athafna þeirra og þess sem þau uppskera í samskiptum við aðra. Í öðru lagi þarf að kenna þeim að þau beri ábyrgð á afleiðingum eigin gerða. Þessi meginatriði eru almenns eðlis og þau ber auðvitað ekki að skilja þannig að börnum eigi að innræta að þau beri ábyrgð á öllu sem yfir þau kann að dynja, skilnaði foreldra, slysum, veikindum, fötlun eða öðrum áföllum. Eðlilegt er að meginstefið í uppeldi nútímabarna sé að kenna þeim að skilja og nota sambandið milli eigin hegðunar og þeirra fjölþættu viðbragða sem hún vekur. Þannig læra börn að árangur krefst æfingar, að réttindum fylgir ábyrgð og að viðmót vekur svör. Foreldrar kenna þannig börnum hvernig það veltur á hegðun þeirra hvað þau uppskera. Brenglaður skilningur, oftrú eða vantrú, á samhengi milli eigin gjörða og eigin uppskeru liggur einmitt að baki mannlegum vanda af mörgu tagi.

Leiðir

Þegar ljóst er að samband hegðunar og afleiðingar hennar skiptir mestu í uppeldi er næsta spurning hvernig þetta samband og skilningur barns á því er ræktað. Þar hafa uppeldisfrömuðir einkum mælt með aðferðum sem skipta má í tvennt: Samræðu og beina stjórn á aðstæðum. Sú fyrrnefnda miðar að því að efla skilning barns á eigin hegðun og eigin ábyrgð, en hin síðari beinist einkum að því að móta umhverfi barnsins þannig að það laði fram æskilega hegðun. Báðar aðferðir hafa ótvíræða kosti. Samræðan er mannleg aðferð með áherslu á skilning, innsæi og sjálfsstjórn. Stjórn aðstæðna er blátt áfram, auðskilin og oft fljótvirk aðferð. Hvor um sig hefur líka galla. Samræðuaðferðin kann að geta af sér skilning, en ekki er alltaf samband milli skilnings, hugsunar og þess atferlis sem barn viðhefur þegar á hólminn er komið. Hin aðferðin er svo háð þeim annmarka að hegðun sem mótuð er með stjórn á aðstæðum barns verður stundum losaraleg um leið og stjórninni linnir. Það segir sig þannig sjálft að þessar aðferðir hljóta að skarast og breytast að eðli eftir aldri barns og eftir aðstæðum. Samræða sem er öldungis óháð afleiðingum og viðurlögum í lífinu sjálfu getur orðið að þarflausu snakki. Eins hlýtur stjórn á umhverfi og aðstæðum jafnan að fela í sér einhverjar skýringar, umræðu og samtöl. Segja má að bein stjórn henti best þegar börn eru ung, þá er hlutur samræðu óhjákvæmilega minni. Með því er þó alls ekki sagt að ekki eigi að tala við lítil börn um hegðun þeirra eftir því sem skilningur þeirra leyfir. Hlutur samræðu hlýtur einnig að vaxa í uppeldi eftir því sem barn eldist, skilningur þess eykst og tök foreldris á beinum áhrifum á umhverfi þess minnka. Foreldri sem ætlar að siða fimm ára barn býr að öllu jöfnu yfir fjölbreyttari viðurlögum sem það getur valið úr en þegar kenna þarf sautján ára unglingi að gá að sér. Foreldri þess sem er sautján ára hefur að sjálfsögðu tök á að nota skynsamlegri umræðu. Hér verður litið nánar á þessar tvenns konar aðferðir, samræðuform og stjórn aðstæðna, í sérstökum pistlum. En hugum að lokum að því hvernig uppeldi helgast alls ekki einvörðungu af þeim uppeldisaðferðum sem notaðar eru, heldur ekki síður af þeim andblæ sem ríkir á heimili.

Andblær heimilis

Með velferð barnsins í huga er æskilegt að andblær heimilis einkennist af ástúð og reglu. Andblær ástúðar felur í sér að barnið fær tækifæri til að tjá tilfinningar sínar, svo sem gleði, fögnuð, vonbrigði og sárindi. Þá lærir það og að skilja og beina í eðlilegan farveg tilfinningum sem oft er erfitt að fara vel með, eins og reiði, ótta, kvíða og sektarkennd. Ekki er ráðlegt að foreldrar deili með börnum sínum litrófi allra tilfinninga sem upp kunna að koma í dagsins önn, heldur reyni að rata hinn gullna meðalveg við að veita börnunum tækifæri til að upplifa tilfinningar og vinna úr þeim. Andblær ástúðar einkennist einnig af því að foreldrar aðstoða börnin við að taka ákvarðanir, hjálpa þeim við að finna rök með og á móti ákveðnu máli og taka afstöðu. Þá er ekki verið að mælast til þess að foreldri taki ákvörðunina fyrir barnið eða unglinginn heldur kenni þeim leiðir til þess og séu til staðar þegar á þarf að halda. Andblær ástúðar felur í sér að hvert barn er viðurkennt á eigin forsendum. Börn eru um margt ólík, jafnt vitsmunalega, félagslega og tilfinningalega, og ekki er hægt að búast við að öll börn hegði sér eins. Auk þess einkennist andblær ástúðar af því að foreldrar láta barnið finna að þeim þykir vænt um það, njóta þess að vera með því og bera umhyggju fyrir því. Snerting segir oft meira en orð. Loks einkennist andblær ástúðar af því að foreldrar láta barn finna að það tilheyri fjölskyldunni, sé virkur meðlimur hennar í leik og starfi. Samveran með börnunum er mikilvæg í því efni, að lesa fyrir þau meðan þau eru ung, vinna að sérstökum verkefnum með þeim, fara í sund, á skíði, á íþróttaleiki eða annað þess háttar. Stuðla má að slíkri tilfinningu með því að fjölskyldan taki ákvarðanir sameiginlega, til dæmis hvert skuli fara í ferðalag og hvernig skuli spara í heimilisrekstri. Barn sem ekki finnst það tilheyra fjölskyldu sinni verður öryggislaust í síbreytilegum og ógnandi heimi. Andblær heimilis sem einkennist af reglu felur í sér mikilvægi þess að fjölskyldumeðlimir komi sér saman um skipulag eða reglur. Slíkt fyrirkomulag auðveldar samkomulag og umgengni. Hver og einn veit hvers er vænst af honum, hvað má og hvað ekki. Þannig er um leið stuðlað að því að barnið beri ábyrgð á gerðum sínum. Ljósar væntingar, leiðbeiningar og uppörvun eru hér lykilatriði. Mikilvægt er að benda á að ekki er átt við „skipandi“ uppeldishætti, þar sem þeir fullorðnu setja reglur og fylgja þeim eftir með boðum og bönnum. Hér er átt við að þótt hinn fullorðni eigi frumkvæðið að því að setja reglur, taki hann tillit til skoðana barnanna. Með slíkum aðferðum er talið að ábyrgð barnsins á eigin gerðum aukist. Einn þáttur reglusemi af þessu tagi er að börn hafi ákveðin verk með höndum á heimilinu. Talið er að ábyrgðartilfinning þeirra aukist við það. Hér er að sjálfsögðu ekki átt við líkamlega vinnubyrði í þeim anda sem börn máttu þola áður fyrr. Hér er heldur ekki átt við andlega vinnubyrði sem felst til dæmis í því að sex ára barn gæti yngri systkina sinna á meðan foreldrar eru við vinnu, eins og dæmi eru til um.

© Sigurður J. Grétarsson og Sigrún Arinbjarnardóttir