persona.is
Umbun og refsing
Sjá nánar » Börn/Unglingar
Grundvallaratriði beinnar stjórnar á atferli er að afleiðingar hegðunar í umhverfi barns skipti mestu um það hvort hún verði endurtekin. Það atferli sem ber árangur fyrir barnið styrkist, en atferli sem hefur lítil eða óhagstæð áhrif festist ekki í sessi. Barn sem fær sælgæti þegar það grenjar í kjörbúð er líklegt til að endurtaka öskrin við fyrsta tækifæri. Barn sem fær vilja sínum framgengt með hótunum og nöldri er ekki líklegt til að hætta að nöldra. Barn sem tekst að víkja sér undan skylduverkum með sífri og gauli, sífrar væntanlega og gaular næst þegar það vill víkja sér undan verki. Barn sem hegðar sér vel en nýtur þess í engu er hreint ekki ólíklegt til að taka upp nýja siði. Breytingar á hegðun með þessari aðferð beinast þannig að því að minnka eða auka tíðni atferlis. Einkum er þá lögð áhersla á hlutlægt atferli, það er að segja hegðun sem hægt er að sjá, nánast festa á filmu. Þannig er reynt að ná tökum á afmörkuðu atferli eins og því að sparka, lemja og grenja, fremur en að ná tökum á mjög víðtæku eða óáþreifanlegu atferli eins og óþekkt eða ólund. Uppalandinn reynir að stjórna afleiðingum þessa afmarkaða atferlis, barn fær ekki vilja sínum framgengt með því að berja, hóta eða blóta, heldur með kurteislegri hegðun. Athyglin beinist ekki að óljósum hugtökum eins og árásarhneigð, öfundsýki eða minnimáttarkennd, heldur að vel skilgreindu og greinilegu atferli og sambandi þess við umhverfið. Hegðun sem foreldri vill breyta er mætt með sérstökum viðbrögðum eða viðurlögum sem draga úr tíðni hennar. Vilji foreldri stuðla að tiltekinni hegðun reynir það að tryggja að barnið njóti þess einhvern veginn þegar það hegðar sér eins og óskað er.

Tíðni athafnar

Sá sem vill breyta hegðun barns með þessum hætti verður að taka mið af tíðni hennar áður en hafist er handa. Tíðnin auðveldar samanburð, bæði til þess að hægt sé að átta sig á því hvort árangur hafi náðst og til þess að átta sig á því hvort þessi hegðun sé yfirleitt þannig að henni þurfi að breyta. Tökum dæmi af fimm ára strákpjakki sem sparkar í móður sína eða föður. Fyrsta spurningin yrði þá ekki: Hvaða hræðilega árásarhneigð er þetta? Hatar drengurinn foreldra sína? Verður hann ofbeldisseggur þegar hann verður stór? Heldur væri spurt: Við hvaða aðstæður gerist þetta? Hvað gerist? Hversu oft kemur það fyrir? Ef í ljós kemur að þetta gerist tvisvar á ári, þegar barnið er örþreytt og þarf að láta eitthvað á móti sér, er ólíklegt að sérstök aðstæðustjórn breyti þar miklu um. Þarna væri um að ræða fátíða hegðun og kannski skiljanlega hjá skapmiklum strák, nokkuð sem búast mætti við að eltist af honum án sérstakra aðgerða. Komi hins vegar í ljós að drengurinn sparkar í móður sína eða föður oft í viku, jafnvel oft á dag eða alltaf þegar honum rennur í skap, þá er full ástæða til að taka sérstaklega á málinu. Eðlilegt er að miða við hversu oft þetta atferli kom fyrir í upphafi þegar metið er hvort einhver árangur hafi náðst. Segjum að barnið sparki í pabba sinn fimm sinnum á dag áður en aðgerðir hefjast. Eftir þriggja vikna aðgerðir sparkar barnið ennþá í hann fimm sinnum á dag. Þá eru aðgerðirnar greinilega gagnslausar og þarfnast endurskoðunar. Hafi tíðnin hins vegar hrapað niður í eitt spark á dag þá er kannski til einhvers barist.

Viðurlög

Séu afleiðingar hegðunar barna skoðaðar vandlega kemur auðvitað í ljós að afleiðingar geta verið margs konar, bæði sjálfkrafa og skipulagðar. Börn læra að hjóla ef þau fá að æfa sig án þess að þeim séu veitt sérstök verðlaun. Verði hegðun þannig sjálfkrafa, veki áhuga barnsins án sérstakra aðgerða, er auðvitað óþarft að bæta við sérstakri umbun. En þessu er ekki til að dreifa um alla hegðun. Auðvitað væri hreint dásamlegt ef allri góðri hegðun væri stýrt sjálfkrafa, þannig að börn lærðu lexíurnar sínar með gleði, pössuðu yngri systkini með ánægju og yndu þess í milli við leik og störf, syngjandi og kveðandi. Því er þó ekki alltaf til að dreifa. Það verður að kenna börnum ýmislegt með sérstökum tilfæringum. Algeng ögunarleið er að refsa barni fyrir slæma hegðun. Líkamlegar refsingar eru að vísu ekki algengar nú til dags en nöldur og skammir þeim mun algengari. Refsingar einar sér eru ólíklegar til að draga varanlega úr óæskilegri hegðun. Þær fela oft í sér tilfinningaviðbrögð sem flækja málin, bæði hjá uppalendum og börnum. Foreldrarnir fyllast oft efasemdum og jafnvel sektarkennd og börnin illsku, auk þess sem hegðunin sækir oftast í sama horf eftir að refsingum linnir. Það er því mikilvægt að nota refsingar sem ekki hafa þessa annmarka. Meginreglan sem styðjast má við í þessu efni er að viðurlög feli í sér dálitla skerðingu réttinda, nokkra truflun á venjulegri framvindu, fremur en stríðan straum óþæginda af einhverju tagi. Þessar refsingar eru þannig valdar að foreldrar geti beitt þeim strax og án þess að skammast sín. Oft eru refsingar foreldra of harkalegar vegna þess að þeir beita þeim ekki fyrr en þeir eru orðnir bálreiðir. Þá hefur reiðin kraumað í þeim, stundum í langan tíma, og þeir sitja alltaf á sér þangað til þeir missa alveg þolinmæðina og um leið stjórn á eigin hegðun. Refsingin verður þá of harkaleg, særir barnið fremur en að kenna því og dregur mátt úr foreldrinu fremur en að veita því stjórn á aðstæðum. Refsingar eiga að koma strax í kjölfar yfirsjónar. Best er ef foreldrar hafa haft ráðrúm til að skýra fyrir barninu að tiltekið atferli sé óæskilegt og nú þurfi að kenna barninu að láta af því. Lýsing þessa atferlis verður að vera hlutlæg fremur en óljós, bæði til þess að barnið skilji við hvað er átt og til þess að ljóst sé hvenær refsingu skuli beitt og hvenær ekki. Það er auðveldara að skilja að ekki megi klípa eða bíta litla bróður en að skilja að ekki megi vera vondur við hann eða sýna honum áreitni. Þegar barnið skilur hvað er bannað og veit af viðurlögunum sem koma eðlilega og áreynslulaust, dregur það oftast verulega úr því atferli sem er í brennidepli. Refsingin verður líka skýr og óumflýjanleg, en stjórnast ekki af duttlungum eða ólund foreldris þann daginn. Viðbrögðin verða að henta aldri barns. Þessi aðferð er auðvitað ómöguleg þegar hegðun er ekki viljastýrð. Varla er hægt að búast við að hvítvoðungum sé refsað, enda er hegðun þeirra aðeins sjálfráð að litlu leyti. Þau viðurlög sem eru algengust og gefa besta raun hjá litlum börnum er að taka þau úr umferð skamma stund um leið og þau hafa hegðað sér ósæmilega. Þetta er stundum kallað að setja þau í skammarkrók.

Krókur

Hugmyndin að baki skammarkróki er að láta óæskilega hegðun hafa nánast engar afleiðingar, hvorki hagstæðar né beinlínis refsandi eða ógnvænlegar. Barnið er einfaldlega tekið úr umferð og það sett á stað þar sem lítið sem ekkert er við að vera. Sumir segjast hafa notað þessa aðferð, en án árangurs. Þegar vel er að gáð hafa þeir hent börnum í bræði inn í einhver skúmaskot og sagt þeim að dúsa þar þangað til þau séu orðin almennileg. Það er misheppnuð leið. Skammarkrókur á ekki að vera ógnvekjandi eða hræðilegur. Börn þurfa ekki að vera hágrátandi þar inni, þar á ekki að vera myrkur og það er alveg ónauðsynlegt að læsa. Vistin þarf heldur ekki að vera löng, hálf til ein mínúta er alveg nóg. Boðskapurinn er: Afleiðingar leiðindahegðunar og stæla eru þær að manni er vísað frá dálitla stund. Sé þessari aðferð beitt þarf að athuga nokkur atriði. Í fyrsta lagi á að velja skynsamlega þær athafnir sem leiða til króksvistar. Hún á að koma í kjölfar yfirsjóna sem greinilega er ástæða til að vinna gegn, yfirsjóna sem rætt er um við barnið. Það á ekki að vísa börnum í skammarkrók í tíma og ótíma, ekki í hvert sinn sem þau pirra einhvern dálítið. Það missir alveg marks. Í öðru lagi á skammarkrókurinn að vera nánast eðlileg afleiðing yfirsjónar. Sá sem dettur í vatn blotnar. Sá sem sparkar í foreldra sína, hótar öllu illu, grenjar eða sífrar heilu og hálfu stundirnar er settur í smástraff. Það þarf ekki að verða umræða í hvert sinn um það hvort refsingin sé réttlát. Henni er einfaldlega beitt þegar hin óæskilega og vel skilgreinda hegðun hefur átt sér stað. Í þriðja lagi á barn að losna jafnátakalaust úr skammarkróknum og það fer í hann. Það þarf ekki mikið tilfinningauppgjör í lok króksvistar. Nóg er að segja eitthvað á þessa leið: „Jæja, vinur, nú ertu laus. Þú veist að þú fórst inn vegna þess að þú kleipst litla bróður og ég held að þér takist betur núna að stilla þig. Hvað heldur þú?“ Þetta er leið til að draga úr leiðindahegðun barna á fljótvirkan og átakalítinn hátt. Varla þarf að minna á að þetta er ekki, frekar en aðrar uppeldisaðferðir, hin eina sanna og rétta leið. Félags? og tilfinningaþroski byggist ekki á sniðugum skammarkróksvistunum eingöngu.

Önnur viðurlög

Auðskilin og tiltölulega átakalítil viðurlög eru þegar börnum er tímabundið meinaður aðgangur að einhverju sem þeim þykir skemmtilegt, til dæmis sjónvarpi, spilum, kvöldlestri, frjálsum leik, útivist eða íþróttaiðkun. Þessi atriði eru nefnd vegna þess að þau eru dæmi um athafnir sem líklegt er að börn viðhafi ótilneydd og sækist eftir. Þau eru auðvitað ekki nefnd vegna þess að þessar athafnir séu óæskilegar. Foreldri verður að sýna varkárni og velja viðurlög sem gera barninu ekki óeðlilega erfitt fyrir eða trufla það. Meginhugmyndin er að barn er tekið úr umferð um stundarsakir og því meinaður aðgangur að einhverjum gæðum. Þannig má forðast að beita um of þeirri tegund refsingar sem felst í nöldri, sífelldum skömmum, móðgunum, sárindum og niðurlægingu. Refsing á að vera í samræmi við yfirsjón. Refsigleði fullorðinna er stundum meiri en þörf er á. Engin þörf er á að banna barni að hitta félaga sína í mánuð eða meina því að horfa á sjónvarp í margar vikur vegna smávægilegrar yfirsjónar. Styttra tímabil er nægilegt og auðvitað auðveldara í framkvæmd. Straffið verður vitaskuld að koma, eins og aðrar refsingar, til dæmis skammarkróksvist, beint í kjölfar óæskilegrar hegðunar. Umræða um ástæður refsingar og um ástæður reglunnar er líka eðlilegur hlutur, eins og skýrt var fyrr í pistli um samræður. Það má ímynda sér margar aðrar tegundir viðurlaga. Aldur barns og skapgerð skiptir auðvitað mestu um það hvað megi teljast eðlilegt. Það fer eftir aldri barns og matarlyst, hvort eðlilegt er að láta það missa af eftirlætisábæti sínum vegna yfirsjóna. Það gæti verið eðlileg og eftirminnileg áminning til tónelsks unglings að meina honum að spila á græjurnar sínar eitt kvöld vegna þess að hann hafi í engu sinnt vinsamlegum fyrirmælum eða staðið við gerða samninga um eðlilegan hljómstyrk. Ungmenni sem sjaldan spilar plötur lætur sér auðvitað fátt um finnast þó að tækin séu aftengd í nokkrar klukkustundir. Það verður hver að meta fyrir sig hvenær börn hafa tekið út nægan þroska til að þeim gagnist þessi aðferð og hvaða tegundir viðurlaga henta þeim. Það er hægt að hrópa „nei“ á eins árs barn þegar það rótar í blómapotti en sama aðferð dugir ekki á ungmenni sem teygir sig eftir bjórglasi vaigeneric.com. Foreldri fimm ára barns ræður sannarlega yfir umhverfi þess og mestu af því sem barninu finnst merkilegt. Það getur skert sjónvarpssýn barnsins dálítið, eitt kvöld eða í fimm mínútur, sett barnið í skammarkrók, dregið úr gómsætum eftirrétti, tekið fyrir vikulega sundferð og fleira og fleira. Foreldri sautján ára unglings hefur engan veginn jafneinhlíta stjórn á umhverfi hans. Unglingurinn lætur sig einfaldlega hverfa ef allar agaleiðir ganga út á einhvers konar réttindaskerðingar.

Umbun

Hluti af aðstæðustjórn felst í því að huga að barni og hegðun þess án þess að það sé að gera eitthvað af sér. Stundum þykir foreldrum ekkert ákjósanlegt í fari barns. Foreldrinu finnst að barnið láti öllum illum látum allan daginn alla daga og það þurfi sífellt að elta barnið um húsið með skömmum. Slíkt ástand getur þróast vegna þess að barn getur ekki vakið athygli á sjálfu sér nema það sé farið að valda skemmdum eða stofna sér og öðrum í hættu. Þá getur komið upp sú þversagnarkennda staða að skammir og ávítur foreldris, sem ætlað er að stjórna barninu og minnka óþekkt þess, eru kannski einmitt það sem viðheldur óþekktinni. Barnið hegðar sér þá illa til þess að fá einhver viðbrögð frá umhverfi sínu. Þetta má meðal annars forðast með því að láta barn njóta þess á einhvern hátt þegar það hefur hegðað sér vel. Verðlaunin þurfa ekki að vera stórfengleg. Þau geta verið klapp á kollinn, hrós eða dálítil umbun. Stundum er þessari aðferð beitt með mjög formlegum hætti til þess að auka tíðni góðrar hegðunar. Börnum er þá gert kleift að vinna sér inn prik, stjörnur eða punkta með góðri hegðun, til dæmis fyrir að hafa lokið tilteknu verki á tilskildum tíma eða fyrir að halda óeirð eða ósiðum í lágmarki. Slíkum aðferðum á ekki að beita nema þeirra sé þörf. Það er til dæmis vafasamt að byrja að veita sérstök verðlaun fyrir hegðun sem á sér stað hvort eð er, án allra verðlauna. Ef Saxi litli er að læra á lúður og æfir sig umyrðalaust er auðvitað óþarfi að verðlauna hann mikið fyrir æfingarnar. Auðvitað má veita honum eftirtekt, hrósa honum og búa honum góð skilyrði til æfinga, en sérstakt umbunarkerfi er óþarfi. En vilji Saxi ekki æfa sig, en talar sífellt um að eignast eitthvert leikfang eða að komast í bíó, má semja við hann, til dæmis um að bíóferðin sé tíu eininga virði og hann fái eina einingu fyrir hvern hálftíma sem hann æfir sig á hljóðfærið. Hugsunin að baki slíku kerfi er sú að gera samband milli hegðunar og afleiðingar skýrt og greinilegt. Þess vegna eru verðlaun sem veitt eru mjög lítil, en þau eru veitt strax í kjölfar réttrar hegðunar. Mikilvægt er að ekki hlaupi verðbólga í verðlaunagjöfina eða að lífið verði allt ein kauptíð fyrir barnið. Það er líka rétt að athuga að ekki þarf að veita verðlaun í hvert einasta skipti, nema kannski rétt í byrjun þegar reynt er að laða fram fátíða hegðun. Ef foreldri þykir til dæmis mikilvægt að fá barn til að bursta tennur eftir hverja máltíð má veita einhver smáverðlaun, stjörnu á blað eða lestur úr Andrésblaði, fyrst í hvert skipti en síðan öðru hverju. Markmiðið er auðvitað það að barnið taki síðan að bursta tennurnar reglulega án allra verðlauna, en það er alls ekki víst að það gerist. Þetta er leið til að ná athygli barna, en hún krefst eftirlits og frumleika. Ef tannburstun er haldið að barni með því að veita því sérstaka athygli, má eins búast við því að tannburstun linni eitthvað þegar athyglin hverfur alveg. Þumalfingursregla sem beita má þegar leitað er árangursríkra leiða til stjórnar er að nota aðstæður sem barn sækist eftir sem umbun fyrir að það ljúki verkum sem það gerði ekki án sérstakra ráðstafana. Það er ekki víst að það sem er eðlilegt keppikefli fyrir eitt barn sé eftirsóknarvert fyrir annað. Það stoðar lítið að lofa barni vísnasöng ef það hefur engan áhuga á vísum. Eins verður að huga að því að þegar þessari aðferð er beitt á formlegan hátt með stjörnugjöf eða punktakerfi á hegðunin sem umbunað er fyrir að vera vel skilgreind og umbunin á að koma sem fyrst eftir að hegðunin hefur átt sér stað. Það er ekki í anda þessarar aðferðar að segja: Ef þú verður almennileg í vetur skal ég gefa þér hjól í vor. Umbunin er alltof fjarlæg, engin merki um að hún sé væntanleg eru til staðar og sú hegðun sem krafist er er illa skilgreind. Eðlilegra væri að hegðunin væri vel skilgreind, til dæmis að æfa sig á hljóðfæri í tiltekinn tíma eða reikna tiltekinn fjölda dæma og umbunin fyrir hvert viðvik væri síðan dálítið merki, sem safna mætti saman og innleysa fyrir stærri verðlaun. Þá væri sambandið milli umbunar og hegðunar skýrara og barnið gæti samt unnið skref fyrir skref að fjarlægu marki.

Varnaðarorð

Sumir spyrja: Er þetta ekki bara ömurleg kaupmennska? Er ekki verið að múta börnum til að gera hlutina? Er þetta kannski ómannúðleg aðferð sem gerir fólki tamt að líta á börn sín sem dýr sem þarf að temja? Því er fyrst til að svara að orðið mútur á auðvitað alls ekki við hér, það er einkum notað um greiðslur til spilltra embættismanna fyrir að gera ekki skyldu sína. En hvað um kaupmennskuna? Efnishyggjuna? Dýratamningarnar? Er þetta kannski fyrsta skrefið í þá átt að góð hegðun barnsins verði söluvara og siðferði þess þar með falt fyrir peninga? Auðvitað hafa einhverjir misnotað þessa aðferð og látið eins og hún leysi fólk undan því að vera manneskjur. Allar aðferðir eru einhvern tíma misnotaðar af einhverjum. En stjórn aðstæðna felst hvorki í að líta á börn sem dýr né mangara sem selja góða hegðun gegn gjaldi. Aðferðin er leið til þess að ná athygli barna, leið sem gefst oft vel þegar aðrar aðferðir hafa mistekist, þar sem sneitt er hjá þeirri miklu notkun gagnslausra refsinga og neikvæðs nöldurs sem oft einkennir uppeldi; leið þar sem áhersla er lögð á að hlutlægt mat skipti máli þegar hegðun barna er metin; leið þar sem lagt er til að börnum sé ekki bara sinnt þegar þau hegða sér illa, heldur líka þegar þau standa sig vel. Það er því eðlilegra að hugsa um þessa aðferð sem samband ábyrgðar og réttinda en að líta á hana sem kaupskap. Barninu eru sett skilyrði: Hver er sinnar gæfu smiður. Þeir sem borða matinn möglunarlaust fá möndlur eftir matinn, aðrir ekki. Þegar tennurnar hafa verið burstaðar og barnið er háttað eru sungnar vísur eða lesnar sögur, ekki fyrr. Þegar lexíurnar hafa verið lesnar, þá fyrst er kveikt á sjónvarpinu. Þetta þarf ekki að setja upp sem einhverja kaupmennsku og þetta eru auðvitað ónauðsynlegt á heimilum þar sem allt gengur sjálfkrafa án atbeina uppalenda. En þau heimili eru fá. Í öðru lagi má nefna að allir foreldrar beita einhvers konar stjórn. Sumir telja sig vera á móti henni sem uppeldisaðferð, ýmist vegna þess að hún geri lítið úr börnum eða vegna þess að hún sé siðferðilega niðurlægjandi og vélræn, en nota hana þó leynt og ljóst. Þeim finnst þó allt í lagi að segja: Ef þú verður góður í skólanum í vetur færðu hest í vor. Í slíku tilviki er undir hælinn lagt að barnið átti sig á til hvers er ætlast af því. Samband milli hegðunar og verðlauna er fremur óljóst. Það að vera góður getur þýtt ýmislegt, vorið getur virst langt undan og þær kröfur sem þarf að uppfylla til þess að eignast heilan hest eru líklega óskiljanlegar. Foreldrar bregðast ólíkt við hegðun barna sinna eftir því hver hegðunin er. Sumir segjast vera á móti stjórn á aðstæðum barna vegna þess að hún sé niðurlægjandi. En þeim finnst svo allt í lagi að kaupa sér frið með súkkulaðigjöfum þegar börn eru óróleg. Hvaða hegðun eykur það? Eða þeir nöldra og rexa heilu og hálfu dagana í smábörnum sem skilja ekki nema helming af því sem sagt er og eiga afar bágt með að skilja hvaða læti þetta eru, halda loks að þetta eigi bara að vera svona. Í þriðja lagi leysir þessi aðferð foreldra ekki undan neinni ábyrgð. Aðferðin er ekki sjálfkrafa ferli sem skilar örugglega ábyrgðarfullum og glöðum börnum. Hana verður að nota skynsamlega. Það er klaufaskapur ef aðferðin er látin þróast til niðurlægjandi verslunar með góða hegðun, sem getur gerst ef foreldrar ofnota efnislega umbun og lofa í sífellu sælgæti eða fé fyrir smáviðvik eða ef foreldrar sinna í engu umræðu við börnin um reglur sínar og aðferðir, ræða hvorki um sjálfsstjórn né ábyrgð, heldur ofnota það einfalda samband sem hægt er að ná fram milli hegðunar og verðlauna. Það getur verið freistandi og þægilegt að kaupa sér sífellt frið með súkkulaðistykkjum og smáaurum en enginn heilvita maður kallar það uppeldisaðferð. Umbun getur verið félagsleg, svo sem athygli, leyfi til annarra athafna og ótal margt annað. Það er ófrumleg stjórnunarleið að borga börnum í tíma og ótíma fyrir minnstu viðvik. Stjórn aðstæðna sem uppeldisaðferð felst í athugun á sambandi milli hegðunar og afleiðinga hennar. Einhverjir sjá kannski enga leið til að hressa upp á þetta samband aðra en þá að bjóða borgun eða góðgæti. Svo takmarkað hugmyndaflug er út af fyrir sig ekki vandi aðferðarinnar. Aðferðin krefst athygli og hugmyndaflugs foreldra. Hún er ekki lausn á lífsgátunni eða einhlít lífsspeki sem leysir sjálfkrafa allan vanda. En hún beinir athygli uppalenda að hlutlægum aðstæðum sem unnt er að breyta og hafa þannig áhrif á hegðun.

Um fyrirmyndir

Uppalendur verða líka að huga að því að börn læra af ýmsu öðru en beinum afleiðingum hegðunar. Þau læra til dæmis af því sem fyrir þeim er haft, bæði það sem slæmt er og gott. Nokkrar athuganir benda meira að segja til þess að ósiðir berist greiðar en góðir siðir frá fullorðnum til barna. Máttur fyrirmynda kemur meðal annars fram í því hvernig börn laga sig að hegðun þeirra sem þau meta og telja snjalla. Reynsla fólks og flestöll speki staðfestir að þegar fyrirmæli eru: „Gerðu það sem ég segi, ekki það sem ég geri“ er hvað minnst von um árangur. Ef kenna á barni að nota bókasafn er líklegra að það læri það ef það fær að koma á safnið með öðrum sem það metur mikils og sjá hvernig farið er að, en ef því er einfaldlega uppálagt að fara nú á safnið og ef það geri það fái það smjörköku frá foreldri sem aldrei lítur í bók. Eigi barn að læra að sinna verkefni í ró og spekt, þarf það að hafa séð einhvern vinna rólega að verkefni. Það er ólíklegt að það nægi að móðir æpi reglulega að barninu milli þess sem hún slekkur á örbylgjuofninum og kveikir á sjónvarpinu: „Geturðu ekki verið róleg, stelpa?“ Eigi að temja barni friðsemd verður það ekki gert með barsmíðum. Bindindisáminning drukkins foreldris til ungmennis sem er að fara út með félögunum geigar trúlega einnig. Þeir sem rannsakað hafa áhrif fyrirmynda hafa sýnt á sannfærandi hátt hvernig fyrirmyndir móta hegðun barna. Þeir leggja áherslu á að veiti barn einhverri hegðun athygli og fái tækifæri til að æfa hana, geti það lært meira af fyrirmyndum en mann grunar. Börn læra helst af þeim sem þau bera virðingu fyrir eða tengjast tilfinningalega, enda er líklegast að þau veiti því fólki mesta athygli. Þar þarf ekki bara að vera um vini og venslamenn að ræða, heldur læra börn líka af öðrum sem þeim sýnist vera fínt fólk, íþróttagörpum, kvikmynda? og sjónvarpsleikurum, hverfishetjum og tónlistarköppum. Svona rannsóknir á námi undirstrika líka að verulegur munur getur verið á því sem börn geta eða kunna og því sem þau gera. Þannig getur barn vel vitað hvernig eitthvað er gert þótt það geri það ekki, vegna þess að áhuga eða hvatningu vantar. Kennarar og uppalendur notfæra sér oft herminám eða nám eftir fyrirmyndum til þess að kenna börnum nýja færni. Dæmin eru óteljandi þar sem fyrirmynd hjálpar barni við nám. Hér má nefna að kenna barni að hringja, tala í síma, fitja upp á samræðum við fólk, setja flugdreka á loft, spila, leika leiki, leysa þraut og lesa ljóð upphátt. Til þess að námið beri árangur verður barnið að veita fyrirmyndinni nána athygli, fá aðstoð við að leggja færnina á minnið, fá tækifæri til að æfa sig rækilega og fá hvatningu til þess að sýna hvað það getur. Einnig má geta þess að sé ætlunin að kenna barni eitthvað nýtt, til dæmis eitthvað sem það er smeykt við, er eðlilegast að byrja smátt og láta það smám saman takast á hendur erfiðari verk. Ef barn er vatnshrætt er til dæmis vænlegast að kenna því smám saman að umgangast og eiga við vatn, fyrst að sulla í skál, síðan í vaski og í baði. Sú kenning að best sé að neyða það umsvifalaust í sund er líkleg til að valda vandræðum. Þá hjálpar líka barni að sjá jafnaldra sína ráða við hegðun sem það óttast.

Sigurður J. Grétarsson, sálfræðingur og Sigrún Aðalbjarnardóttir, uppeldisfræðingur