persona.is
Þunglyndi og hegðun okkar
Sjá nánar » Þunglyndi
Það er hægt að hafa áhrif á þunglyndi með hegðun okkar og oft töluvert mikið.  Við getum til dæmis séð það með því að átta okkur á því sem gerist við aukið þunglyndi.  Einstaklingar sem þetta niður í depurð eða þunglyndi fara gjarnan að draga sig meira og meira í hlé eftir því sem þunglyndið eykst.  Minnka að hafa samband við vini, taka ekki þátt í félagslegum athöfnum eins og veislum eða fara á kaffihús.  Þeir hætta jafnvel að svara í síma og mæta jafnvel ekki eða seint í skóla eða vinnu.  Ef þeir eru í einhverju íþróttaiðkun, líkamsrækt eða hreyfingu þá dregur að jafnaði líka úr þeirri iðju og áhugamálin hvort sem þau eru framkvæmd í einrúmi eða með öðrum detta niður.  Skýringin er frekar einföld aukin vanlíðan dregur úr löngun og “kraft” í að framkvæma litla hluti sem stóra.  Þunglyndur einstaklingur gefur þá skýringarnar:  “mér líður svo illa að ég nenni ekki að fara” eða “mér líður svo illa þessa dagana að ég fengi ekki neitt útúr því að fara” eða “ég get bara ekki yfirstígið það að hitta fólk núna”.  Þrátt fyrir að þetta sé skiljanlegt þá er fólk sem er búið að einangra sig vegna þunglyndis ekki heldur að upplifa ánægju lengur og þar af leiðandi komið í vítahring vanlíðan.  Margir sem ég hef hitt í þessum vítahring hafa lagt áherslu á að það mundi ekki upplifa ánægjuna og þar af leiðandi ekki sporna við þunglyndinu þrátt fyrir að auka “ánægjulega” hegðun.  Hinsvegar þegar hefur tekist að hvetja fólk til athafna þrátt fyrir að búast við að það verði kannski engin ánægja af athöfnunum fer að draga úr depurðinni og líðan batnar.   Í þunglyndi er fólk nefnilega að mikla fyrir sér aðstæður, þegar það hinsvegar fer í þær aðstæður sem það hefur miklað fyrir sé tekst fólki oft að rjúfa vítahringinn.  Þunglynt fólk sem einangrar sig meira og meira líður hlutfallslega ver og ver við að draga sig í hlé og að sama skapi líður því oft betur og betur því meira sem það rífur einangrunina.  Þegar það er í þunglyndi er það jafnvel að alhæfa neikvætt um aðstæður sem það hefur ekki verið í 1-2 ár.  Ef þeim tekst að rjúfa vítahringinn og koma sér að stað í þessar aðstæður þá kemur það sér oft á óvart hversu vel því getur liðið.  Hinsvegar er mikilvægt að gera sér grein fyrir að það getur verið töluvert erfitt fyrir þunglyndan einstakling að rjúfa þennan vítahring með því að auka ánægjulegar athafnir smátt og smátt án þess að gefast upp.  Margir upplifa sveiflur í sínu þunglyndi.  Þar af leiðandi líður fólki betur á einu tíma en öðrum.  Það getur verið gott að koma sér að stað þegar depurðin er sem minnst, reyna þá að skipuleggja sig vel en með hæfileg markmið í huga.  Hugsa þetta sem lífstílsatriði frekar en átak og kannski reyna að skoða fjölbreytta hluti sem tengjast útiveru, hreyfingu, samskiptum við fólk og ýmsum öðrum áhugamálum.  Ánægjulegar athafnir sem hafa ekki neikvæðar afleiðingar (eru ekki skaðlegar eða of dýrar) eru oft lykilþáttur í meðferð við þunglyndi og þar af leiðandi mikilvæg forvörn fyrir fólk almennt að forðast þunglyndi.  Við vitum að neikvæðar aðstæður geta aukið á depurð og þunglyndis einkenni og þar af leiðandi er það frekar augljóst að jákvæð hegðun og aðstæður auka á betri líðan og dregur úr hættu á einkennum þunglyndis.  Þar af leiðandi getur það verið mjög mikilvæg forvörn fyrir fólk sem telur sig af einhverri ástæðu vera í hættu að þrá með sér þunglyndi að sporna við því.  Kerfisbundið reyna að viðhalda jákvæðri reglubundinni hegðun að þá að fyrirbyggja eða dempa mögulegt þunglyndi.  Ekki má þá gleyma því að það ætti þá líka fyrir fólk almennt að auka vellíðan og gæði lífsins almennt.  Okkur hættir til þegar við eru að sjúkdómsgreina líðan okkar að gleyma hvað hreyfing, góð samskipti og jákvæð áhugamál getur verið mikilvægur þáttur og okkur hættir þá til að horfa eingöngu til lyfja.  Ég las fyrir einhverju síðan grein eftir að mig minnir  Dag B. Eggertsson,  þar sem hann var að tala um lækni sem skrifaði upp á hreyfingi fyrir fólk.  Þessi læknir hefur væntanlega gert það af þeir reynslu sem við sem vinnum með þunglyndi þekkjum að það virkar að hreyfa sig og gera ánægjulega heilsusamlega hluti.  Að lokum vil ég leggja áherslu á það að þrátt fyrir að hér sé lögð áhersla á hversu ánægjulegar athafnir draga úr þunglyndi er það mjög oft alls ekki nægjanlegt fyrir marga sem líður illa en getur hinsvegar verið nauðsynlegur hluti af frekari meðferð.
 
 
 
Björn Harðarson sálfræðingur