persona.is
Þunglyndi aldraðra
Sjá nánar » Aldraðir » Þunglyndi

Hvað er þunglyndi hjá öldruðum?

Þunglyndi er algengt meðal aldraðra. Þar spila margir þættir inn í, svo sem lakari líkamleg heilsa, einsemd og breytt félagsleg staða. Þunglyndi er algengara hjá þeim sem eru einmana, hafa misst maka sinn, eiga við líkamlega sjúkdóma að stríða eða búa við kröpp kjör. Margt bendir til þess að þunglyndi kunni að vera vangreint meðal aldraðra, hugsanlega vegna þess hvað fólk kvartar undan mörgum líkamlegum kvillum sem fylgja þunglyndi.  Vera má að einhverjir úr heilbrigðisstétt, sem annast gamalt fólk, eða ættingjar, líti á þunglyndiseinkennin sem ,,eðlileg“ og því fái hinir öldruðu síður viðeigandi meðferð. Mikilvægara kann þó að vera að aldraðir einstaklingar sem þjást af þunglyndi átta sig e.t.v. ekki alltaf á því hvað er á ferðinni og líta á vanlíðan sína sem eðlilegan fylgifisk elli og lakari líkamlegrar heilsu. Einn af hverjum sex öldruðum sýnir einkenni þunglyndis, án þess aðstandendur og aðrir í umhverfinu verði þess varir. Færri en einn af þrjátíu eru svo þunglyndir að þeir greinast með þunglyndisröskun.

Hvað einkennir þunglyndi hjá öldruðum?

Við þekkjum mörg þunglyndiseinkenni af eigin raun og vitum að þau geta haft margvísleg áhrif á hegðun okkar, líðan, hæfni, viðhorf og líkamlega heilsu. Þótt einkennin séu margvísleg og að vissu marki einstaklingsbundin, má greina þau í nokkra meginflokka:

·         Breytt atferli – ýmiss konar kvartanir, t.d. um peningaleysi, vinnuna, hávaða, umhverfið, einsemd, skort á ást og umhyggju og verri einbeitingu en áður. Einnig óvirkni, oft er dregið úr samskiptum við aðra, mæting í vinnu versnar, erfiðleikar við að tjá sig og tala við aðra verða oft áberandi, tilhneiging til þess að liggja fyrir uppi í rúmi gætir oft, minnkuð kynlífslöngun og vanræksla eigins útlits. Lítil ánægja fer að fylgja því sem áður var gaman. Þá eru sjálfsvígshótanir og sjálfsvígstilraunir einnig nokkuð algengar hjá einstaklingum með þunglyndi, einkum ef hlutaðeigandi neytir áfengis eða annarra vímugjafa reglulega. Sjálfsvígshugsanir eru mjög algengar í langvinnu eða alvarlegu þunglyndi og endurspegla iðulega vonleysi og/eða sektarkennd. Stundum endurspegla slíkar hótanir þó einkum reiði í garð ættingja og vina.

·         Breytt tilfinningaviðbrögð – tómleiki, depurð, sumir upplifa frekar dofnar tilfinningar en aðrir finna sárari og áleitnari tilfinningar en áður. Þreyta er algeng, einnig kvíði, spenna, eirðarleysi, leiði, áhugaleysi, aukin sektarkennd, vantraust á eigin getu, aukin viðkvæmni, tíðari grátur en áður.

·         Skert hæfni – lakari félagshæfni, minna skopskyn en áður, verri skipulagshæfni og minnkuð hæfni til þess að leysa vandamál daglegs lífs.

·         Breytt viðhorf – lakara sjálfstraust, sjálfsmyndin neikvæðari en áður, svartsýni, vonleysi, hjálparleysi, eiga von á hinu versta, sjálfsásakanir, sjálfsgagnrýni, sjálfsvígshugsanir. Algengt er að finnast sem aðrir hafi yfirgefið sig eða séu að gefast upp á samskiptum því fylgir minnkaður áhugi á samskiptum við aðra, kynlífi, mat, drykk, tónlist og hverju því sem venjulega vekur áhuga einstaklingsins.

·         Líkamleg einkenni – erfiðleikar með svefn (erfitt að sofna, sofa mikið eða vakna snemma), minnkuð kynhvöt, breytt matarlyst (aukin eða minnkuð), þyngdaraukning eða þyngdarminnkun, meltingartruflanir, hægðartregða, höfuðverkir, svimi, sársauki og aðrar álíka kvartanir eða einkenni.

Fólk á öllum aldri getur fengið þessi einkenni þunglyndis en hvernig þau koma fram hjá öldruðum getur verið ólíkt. Hér verður greint frá hinu helsta í fari gamals fólks: Líkamleg einkenni

Nokkur einkenni líkamlegra sjúkdóma svipar til einkenna þunglyndis. Til dæmis getur minnkuð matarlyst orsakast af þunglyndi eða líkamlegum sjúkdómi eins og hjartasjúkdómi eða liðagigt. Ef um er að ræða þunglyndi eru önnur einkenni til staðar hjá gömlu fólki, sérstaklega breytt tilfinningaviðbrögð og atferli.

Tregir við biðja um hjálp

Aldraðir kvarta síður um einkenni þunglyndis, þess í stað tala þeir meira um ýmsa kvilla sem hrjá þá, ef þeir kvarta þá nokkuð yfir höfuð. Gamalt fólk í dag ólst nefnilega upp við það að vera ekki að angra lækninn nema einhver líkamleg einkenni væru til staðar, og þau í ríkum mæli. Algengt er að gamalt fólk biður í sífellu um að fara í skoðanir sem það þarf alls ekki við en gefur okkur hinum vísbendingu um andlega vanheilsu þess. Sé mikið af slíku seinkar það aðeins þunglyndismeðferð sem hjálpar gömlu fólki heilmikið.

Langvarandi sjúkdómar

Stundum á fólk það til að verða mjög upptekið af líkamlegu sjúdómi enda þótt engar breytingar á honum eigi sér stað. Þetta getur bent til þunglyndis. Við aðstæður eins og þessar læknar meðferð við þunglyndi ekki líkamlegan sjúkdóm en getur gert hann þolanlegri.

Áhyggjur

Þunglyndi getur valdið miklum áhyggjum og kvíða. Sumt fólk hefur meiri áhyggjur en aðrir og ef það er ólíkt viðkomandi einstaklingi að hafa miklar áhyggjur gæti það bent til þunglyndis.

Ruglingur og vitglöp

Áhyggur og pirringur geta tekið yfirhöndina og einstaklingi finnst hann vera orðinn ruglaður og gleyminn. Þessi líðan getur valdið ennþá meiri kvíða því að margt eldra fólk hefur áhyggjur af minnistapi eða að ,,kalka“. Það hefur komið fyrir fyrir að alvarlegt þunglyndi sé tekið fyrir vitglöp (dementia) eða tap á minni. Þunglynd fólk er meðvitað um að það gleymir hlutunum meðan fólk með vitglöp er það ekki. Fólk með vitglöp getur að sjálfsögðu verið þunglynd og meðferð við þunglyndi skilar góðum árangri.

Einmanaleiki

Að búa einn veldur ekki þunglyndi þótt margt ungt fólk haldi annað! Stundum verða aldraðir ákaflega einmana þrátt fyrir að hafa búið lengi sem einstæðingar. Þetta getur gefið vísbendingar um þunglyndi hjá þeim.

Hvað veldur þunglyndi?

Ekki er vitað með vissu hvað það er sem veldur þunglyndi. Greina má ætlaðar orsakir gróflega í 3 flokka: Líffræðilega þætti, sálræna þætti og félagslega þætti. Þessi skipting er samt mikil einföldun því oftast spila ýmsir þættir saman þegar svæsið þunglyndi herjar á einstakling. Líffræðilegar orsakir

Það er til fjöldinn allur af rannsóknum sem benda á að líffræðilegir þættir eigi sinn þátt í þróun þunglyndis. Sumar rannsóknir hafa bent til ójafnvægis eða skorts á ákveðnum boðefnum í heila, enda hafa flest þunglyndislyf áhrif á virkni þessara boðefna (serótónín og noradrenalín).

Líkamlegir sjúkdómar

Líkamlegir sjúkdómar geta ýtt undir þunglyndi. Það skiptir ekki máli hvort sjúkdómurinn komi fljótt í ljós (eins og hjartaáfall) eða um langvinnan sjúkdóm sé að ræða (eins og sjúkdómur Parkinsons). Auðvitað getur hvoru tveggja fylgst að. Þótt þunglyndi fari samhliða öðrum sjúkdómum þá þýðir það ekki að ekkert sé hægt að gera við því. Þvert á móti, þunglyndi af þessu toga er hægt að lækna.

Þegar eldra fólk verður skyndilega þunglynd þá getur ástæðan verið líkamlegur sjúkdómur sem er lítt áberandi – vandamál vegna skjaldkirtils er gott dæmi um þetta. Læknar geta hér auðveldlega skorið úr um. Erfðir

Erfðarannsóknir benda sterklega til að erfðir eigi nokkurn þátt í þróun þunglyndis, a.m.k. hjá þeim sem veikjast endurtekið. Þáttur erfða er samt langt frá því að vera auðskilinn og það er mjög erfitt að greina áhrif erfða frá áhrifum umhverfis vegna þess hve margir þættir fléttast iðulega saman í tilurð þunglyndis. Erfðaþátturinn er sterkari hjá þeim sem greinast með geðhvörf heldur en þeim sem greinast með þunglyndi en fá aldrei oflæti. Það er ekki sjúkdómurinn sjálfur sem erfist, heldur er það fremur tilhneigingin til að veikjast undir álagi.

Dægursveifla

Það er langt síðan menn vissu að lyndisraskanir og óeðlilegt svefnmynstur færu saman. Hvort tveggja þekkist, að svefntruflanir leysi sjúkdóminn úr læðingi og svefntruflanir séu hluti af sjúkdómsmyndinni, en hið síðarnefnda er þó mun algengara. Gildir það bæði um þunglyndi og örlyndi.

Sálrænir þættir

Þrátt fyrir að erfðir og líffræðilegir þættir eigi þátt í orsök þunglyndis eru ýmsir sálrænir þættir eða umhverfisþættir einnig mikilvægir.

Lengi býr að fyrstu gerð segir máltækið og flestum foreldrum er ljóst að margt getur haft mótandi áhrif á þroska barna. Rannsóknir hafa einkum beinst að áhrifum:

a.        Gagnrýni í uppvexti.

b.       Neikvæðs sjálfsmats.

c.        Áunnins sjálfsbjargarleysis.

d.       Missi foreldris, einkum móður, þegar börn eru ung að aldri.

e.        Ofverndar án nærgætni.

Lítum nú nánar á þessa þætti og nokkrar tilgátur um mikilvægi þeirra: a. Gagnrýni í uppvexti.

Þegar þróun sjúkdóms er rannsökuð, er athugað vel hvort barnið hafi alist upp í umhverfi sem mótast af gagnrýni og tilætlunarsemi gagnvart því, en um leið tilfinningalegu skeytingarleysi gagnvart viðbrögðum þess. Þetta gerir barninu erfitt fyrir með að þróa og viðhalda sjálfsvirðingu sinni þegar það þarf að takast á við óhjákvæmileg áreiti uppvaxtaráranna. Þessi reynsla kann að hindra barnið í að þroskast í samræmi við eigin óskir og þarfir. Það verður fyrir vikið háð því að fá viðurkenningu, stuðning og umbun frá öðrum. Upp úr þessu getur þróast persónugerð sem einkennist af ónógu sjálfstrausti og hlédrægni, einkum gagnvart hagsmunaágreiningi og ósætti, þar eð þessir einstaklingar óttast að spilla tengslum við aðra. Óttinn við að móðga aðra eða spilla samskiptum við aðra getur þá orðið hamlandi vegna þess að viðurkenning annarra skiptir mjög miklu máli fyrir sjálfsvirðingu þeirra. Þessum einstaklingum vex í augum að fylgja eftir óskum sínum, kröfum og þörfum sem í augum flestra annarra er á hinn bóginn bæði nauðsynlegt og sjálfsagt.

b. Neikvætt sjálfsmat.

Aðrar kenningar um geðlægð beina ekki athyglinni svo mjög að bernskuárum, heldur ganga út frá því að viðurkenning einstaklings byggist á skynsemi og reynslu. Í krafti slíkrar viðurkenningar sé tilfinningalíf og hegðun að verulegu leyti ákvörðuð af því hvernig einstaklingurinn lítur á sig eða metur sjálfan sig og samskipti sín við aðra. Í þunglyndi hættir sjúklingnum til að túlka boð frá umhverfinu á neikvæðan og gagnrýninn hátt og um leið styrkja það neikvæða og gagnrýna álit sem hann hefur á sjálfum sér. Þetta getur leitt til hugsunarháttar sem leggur áherslu á það leiðinlega, neikvæða og gagnrýna og það vill draga fólk niður.

c. Áunnið sjálfsbjargarleysi.

Áunnið sjálfsbjargarleysi getur haft þýðingu við þróun alvarlegrar geðlægðar. Vonleysis- eða hjálparleysistilfinning eru algengir fylgifiskar þunglyndis Það kann að vera áunnið og stafa af því að einstaklingurinn hefur orðið fyrir því að geta ekki mótað lífsaðstæður sínar miðað við þarfir sínar. Slíkt sjálfsbjargarleysi gæti t.a.m. verið áberandi hjá börnum foreldra sem beita endurtekið andlegu eða líkamlegu ofbeldi og bregðast ekki við eða skynja ekki tilfinningarlegar þarfir barna sinna. Fullorðnir sem hafa verið beittir ofbeldi endurtekið sem börn eru í aukinni hættu að fá lágt sjálfsmat og hættir meira til að ásaka sjálfa sig og upplifa margvísleg sálræn og líkamleg einkenni undir álagi.

d. Foreldramissir.

Foreldramissir einn og sér veldur ekki endilega lyndisröskunum. Þar þarf fleira að koma til, en aldur barna og sá stuðningur og umönnun sem þau hljóta í kjölfarið eru væntanlega þar mikilvægir þættir. Missir foreldris getur stafað af fleiri þáttum en dauðsfalli, t.d. skilnaði, flutningi tímabundið til annars landshluta eða lands og af veikindum.

e. Ofvernd án nærgætni.

Sumar hafa talið ofvernd án nærgætni eða tilfinningu fyrir þörfum barnsins óheppilega fyrir sálrænan þroska barna. Þættir eins og skortur á viðurkenningu, mikil gagnrýni og skortur á tilfinningalegum stuðningi á uppvaxtarárum hafa þó líklega meiri áhrif á áhættu á þunglyndi á fullorðinsárum.

Hvaða meðferð er í boði?

Það getur oft verið erfitt að tjá sig um eigin líðan og viðurkenna vanlíðan sína fyrir öðrum. Íslendingar hljóta oft þann áfellisdóm að þeir feli tilfinningar sínar og beri sig mannalega þrátt fyrir að undir niðri kraumi óyndi. Það er samt mjög mikilvægt að opna sig fyrir öðrum og tjá sig um eigin líðan enda er engin skömm af slíku. Þunglyndi er raunverulegt ástand og á engan hátt auðkenni þess að viðkomandi sé veikgeðja eða linur af sér. Ýmsir meðferðarmöguleikar eru til að takast á við þunglyndi. Rannsóknir sýna að langflestir ná töluverðum bata eftir meðferð. Það er þó ýmislegt sem þarf að skoða þegar meðferð er valin, eins og t.d. hve alvarlegt þunglyndið er, hvað viðkomandi vill sjálfur og hvað læknir eða sálfræðingur hlutaðeigandi telur æskilegt. Engir tveir einstaklingar eru eins og þarf að taka mið af því. Oft og tíðum getur verið heppilegt að sameina t.d. lyfjameðferð og viðtalsmeðferð. Ávallt skal einnig hafa í huga að öll hreyfing og hollir lífshættir auka líkurnar á bata. En lítum nú nánar á þau meðferðarform sem rannsóknir styðja að gagnist í baráttunni við þunglyndi. Viðtalsmeðferð

Það getur verið mjög gagnlegt fyrir þunglynda einstaklinga að komast í viðtalsmeðferð. Í vægari tilfellum er þetta oft eina meðferðarformið sem þarf til þess að hjálpa viðkomandi að létta sína lund. Margar ólíkar tegundir viðtalsmeðferðir fyrirfinnast og þykja árangursríkar, s.s. hugræn atferlismeðferð, atferlismeðferð, samskiptameðferð (interpersonal therapy) og fjölskyldumeðferð.

Hugræn atferlismeðferð

Í hugrænni atferlismeðferð við þunglyndi er unnið sérstaklega með hugsanir sjúklingsins enda einkennast hugsanir þunglyndis sjúklings af mikilli sjálfsgagnrýni, svartsýni og tilhneigingu til þess að mikla fyrir sér erfiðleika sem við er að etja. Meðferðin gengur út á að kenna einstaklingnum að vera gagnrýninn á þessar bjöguðu hugsanir í stað þess að samþykkja þær gagnrýnislaust og auk þess að gera tilraunir í daglegu lífi til að kanna hvernig hægt sé að ná sem mestum árangri í meðferðinni. Þannig má draga úr svartsýni og hjálparleysi sem einkennir hugsanagang í þunglyndi. Heimaverkefni miða að því að yfirfæra það sem lærist í meðferðartímum á raunverulegar aðstæður sjúklingsins og breyta þeim vítahring sem sjúklingar eru gjarnan komnir í með hegðun sína og hugsanir. Oft varir slík meðferð í 12-20 skipti.

Atferlismeðferð

Í þessu meðferðarformi er fyrst og fremst unnið með atferli sjúklingsins. Það er almennt erfiðara að hafa áhrif á líðan folks en atferli. Á hinn bóginn fylgir oft betri líðan breyttu atferli, t.d. í samskiptum á vinnustað eða í hjónabandi. Þannig er hægt að hefja ferli sem leiðir smám saman til betri lundar og betri samskipta. Þunglyndir einstaklingar eru oft ákaflega óvirkir og athafnasnauðir sem leiðir til þess að þeir velta sér upp úr eigin vanlíðan. Með því að leggja upp með breytt hegðunarmynstur er gjarnan hægt að hefja vaxtarhring sem leiðir til betri heilsu.

Samskiptameðferð

Þetta er skammtímameðferð sem tekur oftast 12-18 heimsóknir sjúklinga með vikulegu millibili. Þessi tegund meðferðarforms var þróuð sérstaklega til þess að takast á við þunglyndi og lögð er megináhersla á að leiðrétta eða breyta núverandi félagsstöðu sjúklings. Dagurinn í dag er í brennidepli í meðferðinni og þau samskipti sem verða á milli meðferðaraðila og sjúklings. Þau eru síðan yfirfærð á raunverulegar aðstæður.

Fjölskyldumeðferð

Fjölskyldumeðferð er stundum nauðsynlegt til að ná árangri í þunglyndismeðferð, einkum ef eitthvað í samskiptamunstri fjölskyldunnar veldur þunglyndi. Þunglyndi maka hefur ávallt mikil áhrif á hinn aðilann í sambandinu. Það ætti að vera regla í allri meðferð að bjóða maka hins veika að koma með í 1 eða fleiri viðtöl eftir aðstæðum.

Lyfjameðferð

Lyfjameðferð getur verið mjög gagnleg í baráttunni við þunglyndi. Þróun í framleiðslu geðlyfja hefur gjörbreytt stöðu þunglyndra til hins betra. Núna er hægt að velja úr mörgum lyfjategundum sem hafa í rannsóknum sannað ágæti sitt við meðferð þunglyndis. Almennt má segja um þessi þunglyndislyf að þau auki magn boðefnanna serótóníns og/eða noradrenalíns í heila, en það vill minnka í alvarlegu þunglyni, og komi þannig á jafnvægi í efnafræði taugakerfisins. Algengustu flokkar þunglyndislyfja eru serótónín-endurupptökuhemjarar (selective serotonin reuptake inhibitors-SSRI’s) og þríhringa geðdeyfðarlyf (tricyclic antidepressants-TCA’s). Einnig má nefna lausasölulyfið Modigen (Jónsmessurunna-Jóhannesarjurt) sem getur nýst fólki með vægari form þunglyndis. Það má þó ekki taka með hefðbundnum þunglyndislyfjum. Þá er hægt að nefna í þessu tilliti litíum, sem er notað þegar einstaklingar sveiflast mjög í lund, fara ýmist of langt upp eða of langt niður eða þegar geðlægðir eru endurteknar og alvarlegar þrátt fyrir langvinna lyfjameðferð með hefðbundnum þunglyndislyfjum. Ákvörðun um lyfjameðferð er tekin í samráði við heimilislækni, geðlækni eða aðra lækna sem einstaklingurinn er í meðferð hjá. Öll lyf geta haft aukaverkanir, þær eru vægari hjá nýrri og dýrari lyfjunum og koma ekki fram nema hjá minnihluta notenda. Nýrri geðdeyfðarlyf eru þó alls ekki virkari en gömlu þríhringalyfin.

Raflækningar

Raflækningar geta verið nauðsynlegar þegar þunglyndið er orðið mjög alvarlegt og hefur ekki svarað lyfjameðferð. Hinn veiki er svæfður fyrir hverja meðferð. Rafmagnið er notað til að kalla fram krampa, en þeir eru dempaðir með vöðvaslakandi lyfjum. Raflækningum geta fylgt vægar harðsperrur og tímabundin minniskerðing, en ekki langtímaaukaverkanir. Þessi tegund meðferðar hefur oft fljótvirk áhrif þar sem hún á við og gerir sjúklingi kleift að verða virkur þátttakandi í daglegu lífi á ný fyrr en aðrar tegundir meðferðar.

Hvað getur þú gert?

·         Vertu óhrædd(ur) að biðja um hjálp. Það er ekki eðlilegt að vera þunglyndur vegna aldurs þíns.

·         Vertu innan um fólk og trúðu einhverjum fyrir líðan þinni, það er yfirleitt betra en tilfinningaleg einangrun.

·         Reyndu að borða vel. Fólk sem er þunglynt missir oft matarlyst, það borðar lítið og tapar þyngd.

·         Taktu inn vítamín og steinefni. Það getur haft áhrif á líkamlega heilsu þína.

·         Vertu á varðbergi með sætindi sælgætisát.

·         Settu þér raunsæ markmið og ekki axla of mikla ábyrgð.

·         Skiptu stórum verkefnum í smærri, forgangsraðaðu og gerðu það sem þú getur þegar þú getur.

·         Taktu þátt í öllu sem lætur þér líða betur, og hafðu hugfast að þótt þú njótir þess ekki eins og áður þá sé þetta hluti af því sem þú ert að gera til að ná betri líðan.

·         Létt líkamsrækt, bíóferð eða þátttaka í hvers konar félagslegum athöfnum gæti hjálpað.

·         Vertu viðbúinn því að betri líðan kemur hægt á nokkrum vikum og að það geti komið slæmir dagar inn á milli.

·         Frestaðu stórum ákvörðunum þar til þunglyndinu léttir. Áður en þú gerir miklar breytingar- skilur eða skiptir um starf- skaltu ræða það við einhvern sem þekkir þig vel og hefur hlutlausari afstöðu til þinna mála.

·         Ekki reyna að hrista ekki þunglyndið af þér og mundu að með meðferð og sjálfshjálp aukast líkurnar á betri líðan dag frá degi.

·         Mundu að jákvæður hugsunarháttur leysir í vaxandi mæli hinn neikvæða af hólmi þegar meðferð fer að hafa áhrif.

·         Leyfðu vinum og vandamönnum að hjálpa þér.

Hvert er hægt að leita og hvað geta aðstandendur gert?

Hvert á að leita?

Flest allir sálfræðingar og geðlæknar sem veita meðferð á annað borð geta aðstoðað við leit að réttum úrræðum. Ef hlutaðeigandi sérfræðingur hefur ekki sérhæft sig í meðferð þunglyndis er næsta víst að hann getur vísað á aðila sem er betur fallinn til þess að hjálpa þér. Heimilislæknar eru flestir vanir að meðhöndla þunglyndi hjá skjólstæðingum sínum og veita oft góð ráð og lyfjameðferð. Ef meðferð heimilislæknis skilar ekki árangri, þá mun heimilislæknir þinn vafalaust visa þér til geðlæknis eða klínísks sálfræðings til frekari hjálpar.

Hvernig geta aðstandendur veitt hjálp?

Oftast eru það ættingjarnir sem taka eftir þunglyndi hjá öldruðum og í þeirra hlut kemur að hvetja þá til leita sér hjálpar og að útskýra hve þunglyndi sé algengt og að flestir nái bata ef þeir aðeins sæki sér hjálpar. Að auki er gott að segja við aldraðan að þunglyndi sé ekki ,,geðveiki“ í bókstaflegum skilningi orðsins og það að hitta geðlækni eða sálfræðing (o.fl.) sé í fínu lagi.

Gott er að muna að aldraðir þreytast mjög fljótt. Oft nægir að líta aðeins inn til þeirra rétt til þess að sýna að þú látir þér annt um þanna aldraða. Þú getur líka hjálpa til við að kaupa inn eða laga til og þrífa. Ekki neyða fólk til að tala við þig eða koma eitthvert með þér. Að fara út getur hjálpað heilmikið en að gera það vegna nöldurs frá öðrum er ekki rétta leiðin. Vertu þolinmóð(ur). Eldra fólk er að biðja þig um hvatningu þegar það talar látlaust um hvað sé að því og oftast stafar málæðið af hræðslunni við að uppgötva hvað amar að. Bara það að hlusta hjálpar heilmikið. Líka að segja því að það sé ekki að verða kalkað eða vitglöp hrjái það. Ekki vera ófeimin(n) að spyrja hvort viðkomandi sé með sjálfsvígshugsanir. Slíkar hugsanir skera ótvírætt um að hjálpar er þörf strax. Flestum með slíkar hugsanir finnst það mikill léttir þegar það er spurt þessarar spurningar. Aðstandendur gegna oft mikilvægu hlutverki í bata þunglynds einstaklings. Það er alkunna að gæði og magn þess stuðnings sem við hljótum frá okkar nánustu vernda okkur gegn streitu og álagi daglegs lífs. Aðstoð þeirra hindrar þó alls ekki alltaf þróun alvarlegs þunglyndis og sjálfsvíg eiga sér stað í sumum tilvikum þrátt fyrir mikla og góða aðstoð nánustu vina og aðstandenda. Eftir að meðferð er hafin geta aðstandendur flýtt fyrir batanum með stuðningi sem getur verið í formi hvatningar, eftirlits með lyfjagjöf og samverustundum. Einkum er hjálplegt að reyna að virkja hinn veika eftir mætti. Meðferðaraðilar geta oft leiðbeint fjölskyldunni í þessu ferli. Með sama hætti getur skortur á nánum tengslum og stuðningi aukið líkurnar á því að þunglyndi verði langvinnt. Í sumum tilvikum er þó um mjög alvarlegt þunglyndi að ræða sem krefst margvíslegra úrræða og er mikilvægt að aðstandendur gefist ekki upp þótt móti blási heldur leiti allra mögulegra leiða til úrbóta fyrir hinn veika. Stundum getur þá þurft að koma til innlagnar á geðdeild um tíma. Rúnar Andrason, sálfræðingur og Fjölvar Darri Rafnsson, BA í sálfræði