persona.is
Þunglyndi á vinnustað
Sjá nánar » Vinnan » Þunglyndi
Þunglyndi er algengur sjúkdómur. Ein af hverjum fimm konum og einn af hverjum tíu körlum þjást af þunglyndi einhvern tíma á ævinni. Einn af tuttugu fullorðnum þjáist af alvarlegu þunglyndi að meðaltali. Álika stórt hlutfall fær þunglyndi sem er ekki jafn mikið, svokallað óyndi. Eins og gefur að skilja hrjáir þunglyndi líka fólk sem er í fullu starfi. Ár hvert er hægt að gera ráð fyrir því að þriðjungur allra í starfi glími við geðkvilla af einhverju tagi, þar er þunglyndi einna algengast. Þunglyndir eru oftar fjarverandi frá vinnu, þeir afkasta ekki jafn miklu og aðrir og lenda oftar í slysum á vinnustað. Vanlíðan þeirra veldur því oft að þeir hætta störfum. Hvað er þunglyndi?

Hafir þú aldrei orðið þunglynd(ur) eða þekkir engan sem glímt hefur við sjúkdóminn getur þér reynst erfitt að átta þig á þvi hvað þunglyndi er og hvað það hefur í för með sér. Í lífinu skiptast á skin og skúrir, okkur líður misvel, stundum erum við niðurdregin, stundum kát. Ástvinamissir, skilnaður, atvinnumissir eru allt atburðir sem kalla eðlilega á vanlíðan hjá okkur, mismikla. Svonefnd sorgarviðbrögð tengjast slíkum atburðum en ganga oftast yfir á einhverjum tíma þótt dæmi séu um annað. Vansæld sem ekki á sér engar sýnilegar orsakir er hins vegar annað mál. Sé engin greinileg ástæða fyrir því að manni líður illa, okkur finnst sem vanlíðunin ætli engan enda að taka og að hún gegnumsýri allar okkar hugsanir og skyggi á lífið, þarf að taka í taumana og meðhöndla vanlíðan okkar eins og hvern annan sjúkdóm.

 

Við þekkjum mörg einkenna þunglyndis af eigin raun enda hefur þunglyndi áhrif á hegðun okkar, líðan, hæfni, viðhorf og líkamlega heilsu. Margir hafa flokkað einkenni þunglyndis sem hér segir:

·         Vonleysi – Kvartað yfir ýmsu, s.s. peningaleysi, vinnuna, hávaða, umhverfið, einsemd, skort á ást og umhyggju og erfiðleika með einbeitingu. Þá eru sjálfsvígshótanir, sjálfsvígstilraunir, aukin sektarkennd, vantraust á eigin getu og grátur einnig algengt hegðunarmynstur.

·         Einangrun – Draga sig til baka félagslega, tala ekki við aðra, missa úr vinnu, erfiðleikar að tjá sig og tala við aðra, minnkuð matarlyst, lágróma rödd, breytingar á þyngd, sterk tilhneiging til þess að liggja fyrir uppi í rúmi, minnkuð kynferðislöngun, vanræksla um eigið útlit og minnkuð ánægja með að gera það sem áður var gaman.

·         Doði – Tómleikakennd, depurð, dofin tilfinning fyrir nánast öllu, síþreyta, taugaveiklun, eirðarleysi, leiði, áhugaleysi, finnst sem aðrir hafi yfirgefið sig eða gefist upp á sér og minnkaður áhugi á samskiptum við aðra, á kynlífi, mat, drykk, tónlist, o.s.frv.

·         Skert hæfni – Sífellt að væla eða láta sér leiðast, skert skopskyn, slök skipulagshæfni og vangeta til þess að leysa úr eða sjá út lausnir á minni háttar vandamálum.

·         Neikvæð viðhorf – Lélegt sjálfstraust, sjálfsmyndin neikvæð, svartsýni, vonleysi, hjálparleysi, að gera ráð fyrir hinu versta, sjálfsásökun, sjálfsgagnrýni, sjálfsvígshugsanir.

·         Líkamleg einkenni – erfiðleikar með svefn (erfitt að sofna, sofa mikið eða vakna snemma), kynhvöt í lágmarki, léleg matarlyst, þyngdaraukning eða þyngdarminnkun, meltingartruflanir, hægðartregða, höfuðverkir, svimi, sársauki og aðrar álíka kvartanir eða einkenni .

Áhrif þunglyndis á vinnuna

Þunglyndur maður getur farið að hegða sér undarlega eða er ekki eins og hann á venjulega að sér. Samstarfsmenn hans geta til dæmis tekið eftir því að hann

·         vinnur óvenju hægt

·         gerir fleiri mistök en hann er vanur

·         getur ekki einbeitt sér

·         gleymir mörgu

·         mætir seint til vinnu og á fundi

·         mætir alls ekki

·         lendir í þrasi og rifrildum við samstarfsmenn sína

·         á erfitt með að deila út verkefnum til annarra

·         leggur of hart að sér, eða reynir að gera það

Þunglyndi hamlar einstaklingi til að vinna markvisst. Sjúkdómurinn getur verið svo alvarlegur að viðkomandi neyðist til þess að hætta störfum, stundum tímabundið. Þegar vanlíðunin er ekki í sinni svörtustu mynd reyna flestir að harka af sér, jafnvel þótt þeim sé fullljóst að þeir sinni starfi sínu ekki eins vel og vanalega. Sé sjúkdómurinn greindur snemma má komast hjá mjög mikilli vanlíðan og hjálpa viðkomandi að ná sér á strik mun fljótar en ella. Geta óviðunandi aðstæður á vinnustað valdið þunglyndi?

Starfið er okkur flestum fastur punktur og gefur tilgang í lífinu. Á vinnustað eignumst við marga okkar bestu vini ásamt góðum kunningjum og velgengni í starfi stuðlar að bættu sjálfsáliti okkar og andlegri vellíðan. Líkurnar á því að fá þunglyndi eru langt í frá að vera eins miklar þegar við erum ánægð í öruggu starfi en væri hið gagnstæða upp á teningnum. Þá er vitað að fólk sem hefur misst vinnuna og verið lengi atvinnulaust er í áhættuhópi með að fá þunglyndi.

Þótt vinnan geti vissulega göfgað manninn getur hún líka snúist upp í andhverfu sína. Hér verða nefnd nokkur dæmi um hið síðarnefnda: Of mikið álag og sífelld streita í starfi, sem bætast kannski við erfiðleika í einkalífi, getur orsakað þunglyndi. Einhæf störf þar sem fólki gefst ekki kostur á að nýta hæfileika sína en valda leiða og starfsþreytu geta aukið hættu á þunglyndi. Óvissa um eigin frammistöðu í starfi og óörugg atvinna er ávísun upp á áhyggjur og kvíða. Yfirmenn eða samstarfsfólk sem eru með stöðugar aðfinnslur í þinn garð, kannski svo mikið að hægt sé að tala um einelti, haf tvímælalaust áhrif á líðan þína. Slæmar vinnuaðstæður eins og þrengsli, hávaði, hiti eða kuldi, allt þetta eykur streitu. Sömuleiðis getur það valdið óánægju á vinnustað ef starfsmenn hafa lítið sem ekkert um tilhögun vinnu sinnar að segja. Einhliða ákvarðanir sem sem framfylgt er án nokkurs samráðs við starfsfólk valda pirringi og spennu. Í tæknisamfélagi hefur margs konar starfsemi orðið mun skilvirkari en áður en samhliða þróuninni koma háværar kröfur um skjótari ákvarðanatöku og fljótari vinnubrögð, og þetta eykur líka streituna. Greining á vinnustað – mikilvægi samstarfsmanna

Vinnufélagar eru oftast í góðri aðstöðu til þess að veita því eftirtekt ef einn félaginn verður þyngri í lund. Vissulega er erfitt að fá hann til að tala um vandann, breytta hegðun og lundarfar, en samt er það ótrúleg hjálp fyrir hann að finna að fólki stendur ekki á sama um hann. Umræðurnar gætu líka komið því til leiðar að hann íhugi að leita sér hjálpar. Vitað er að því fyrr sem þunglynt fólk leitar sér hjálpar því styttri og árangursríkari verður meðferðin. Stjórnendur og atvinnuveitendur geta einnig rétt fram hjálparhönd með því að sýna hinum þunglynda skilning, veita honum leyfi meðan meðferð varir og auðveldað honum að snúa aftur til starfa. Mikilvægt er að hafa í huga að flestir geta snúið aftur til starfa innan fárra vikna. Margir starfsmenn veigra sér við því að segja yfirmönnum sínum frá því að þeir séu þunglyndir af ótta við það að missa starfið. Allt er viðkvæmt undir þessum kringumstæðum og verður að bregðast við í samræmi við það, málin verður til að mynda að ræða í algerum trúnaði.

Meðferð

Meðferðarúrræði við þunglyndi eru margs konar og verður ekki farið djúpt í þau hér en tæpt á hinu helsta.  Mörgum sem þjást af ,,mildu“ þunglyndi gæti liðið strax betur eftir að hafa rætt við einhvern um vandamál sín. Allflestum sem þjást af alvarlegu þunglyndi má hjálpa með ólíkum meðferðarúrræðum sem læknar og sálfræðingar bjóða upp á. Einstaklingsbundið er hvaða hentar best hverjum og einum. Í boði eru lyfja- og sálfræðilegar meðferðir. Hvoru tveggja eru gagnlegar einar sér en einnig hefur reynst vel sambland af hvoru til að lækna þunglyndi. Ófáir hafa áhyggjur af því að verða háðir þunglyndislyfjum en fyrir því eru engar sannanir. Eins og um marga algenga sjúkdóma eru góðar líkur á því að ná bata og geta snúið heill til fyrri starfa á ný.

Samstarf milli þeirra sem kunna að koma að meðferðinni er mikilvægt, að meðferðaraðilar stilli saman strengi sína meðan á meðferð stendur og líka eftir að henni lýkur. Þáttur atvinnuveitendans verður sjaldan ofmetinn þegar starfsmaður snýr aftur til vinnu sinnar. Hvað er til ráða?

Sérhvert fyrirtæki ætti að eiga markmið þar sem kæmi fram hvernig þau stuðluðu að andlegri heilsuvernd starfsmanna sinna. Auðvelt væri að tína ýmislegt til. Nefnum tvennt til að byrja með: Tilhögun vinnunnar ætti að vera með þeim hætti að hún minnkaði hættuna á þunglyndi og öðrum geðkvillum. Áætlun um skjót viðbrögð við þunglyndi starfsmanns ætti að liggja fyrir. Fyrirtæki hefðu af slíkum aðgerðum mikinn hag, heilbrigðir starfsmenn vinna jú betur en þeir sem bera myllustein þunglyndis um háls sér. Kostnaður vegna líkamlegra og andlegra veikinda og fjarveru minnkar séu allir starfsmenn fyrirtækja meðvitaðir um orsakaþætti og fyrstu einkenni sjúkdóma og kvilla af ýmsu tagi.

Atvinnurekandi þyrfti einkum að beina sjónum sínum að fjórum meginatriðum: Aukin meðvitund

Gera þarf öllum innan raða fyrirtækisins grein fyrir mikilvægi þess að greina sjúkdóma á byrjunarstigi og hjálpa samstarfsmönnum sínum gegnum sjúkdóma, t.d. eins og þunglyndi. Fræðsla um þunglyndi (svo og aðra algenga sjúkdóma) þarf að ná til allra sviða fyrirtækis, hárra jafnt sem lágra. Algeng aðferð til að miðla upplýsingum er að dreifa bæklingum og kynna málefnið með veggspjöldum og í starfsmannasamtölum. Allir verða að skilja að forvarnir og skjót viðbrögð gagnast bæði einstaklingum og fyrirtæki, hagur beggja er í húfi.

Fræðsla um heilbrigðismál

Að auka þekkingu á andlegu heilbrigði og kenna aðferðir sem minnka streitu gagnast öllum starfsmönnum. Hér mætti nefna kennslu í tímastjórnun, ákveðniþjálfun og hópefli, allt viðurkenndar aðgerðir sem draga úr hættu á þunglyndi og öðrum geðkvillum. Starfsfólk og stjórnendur ættu að þekkja fyrstu einkenni ýmissa geðkvilla og aðstæður sem auka hættuna á því að slíkir kvillar taki sig upp á ný. Mjög mikilvægt er að allir geri sér grein fyrir því að þunglyndi er sjúkdómur sem hægt er að lækna og að tímabundið þunglyndi hefur ekki varanleg áhrif á starfsgetu einstaklingsins. Einn þátturinn í stefnu fyrirtækisins um andlega vellíðan á vinnustað ætti að huga að því að styðja við bakið á starfsmönnum sem nálgast eftirlaunaaldurinn.

Skipulag fyrirtækisins

Hvernig fyrirtæki er skipulagt getur haft áhrif á það hvernig starfsfólkinu líður andlega. Þar vegur líkamlegur aðbúnaður á vinnustaðnum mest, annað eru ráðningar, þjálfun nýliða, umboð til athafna, hversu mikið eftirlit stjórnendur hafa með starfsfólki sínu og þannig mætti lengi telja. Umbætur á þessum sviðum munu skila ánægðara starfsfólki og betri frammistöðu þegar til lengri tíma er litið.

Sérfræðiaðstoð innan og utan fyritækja

Í stærri fyrirtækjum er grundvöllur fyrir því að hafa sérstakan starfsmann sem beinir sjónum sínum að umbótum á vinnuumhverfinu og sinnir fræðslu um þunglyndi og aðra geðræna kvilla. Minni fyrirtæki hafa sjaldnast kost á skíkri tilhögun en gætu í staðinn eflt tengsl við sjálfshjálparhópa og áhugamannasamtök sem helga sig baráttunni gegn þunglyndi. Í báðum tilvikum er skýlaus stuðningur æðstu stjórnenda fyrirtækja nauðsynlegur svo vel takist til. Fræðsla er ekki dýr þegar tekið er tillit til heildarhagsmuna fyrirækis og sérhvers starfsmanns.

Sturla Jóhann Hreinsson, BA í sálfræði