persona.is
Þroski barna og unglinga
Sjá nánar » Börn/Unglingar » Uppeldi

 Tilfinningatengsl foreldra og barna

Þótt maðurinn sé kallaður herra sköpunarverksins eru víst fáar lífverur eins umkomulausar og hann við fæðingu. Á meðan folöld, lömb og kálfar taka á sprett nokkrum andartökum eftir að þau líta dagsins ljós, má lengi bíða þar til mannsbarnið birtist í dyragættinni.

Í augum óinnvígðra kunna að líða margir mánuðir án þess að hinn nýi einstaklingur sýni lífsmark umfram vol og víl. En ekki er allt sem sýnist: undir yfirborðinu eru undur og stórmerki í aðsigi.

Aðdragandi og upphaf tengsla

Langflest börn mynda mjög sterk tilfinningaleg tengsl við sína nánustu þegar í frumbernsku. Þessi fyrstu tengsl, sem nefnd hafa verið geðtengsl á íslensku, eru að ýmsu leyti einstæð. Segja má að náttúran stuðli með ýmsum ráðum að tengslum barns við fólkið sem annast það. Mannsröddin vekur frá upphafi meiri athygli ungra barna en önnur hljóð og róar þau frekar. Mannsandlit hefur líka sérstakt aðdráttarafl, einkum eru það augu fólks sem börnum verður starsýnt á. Auk þess sjá þau skýrast það sem er í 20-25 cm fjarlægð frá þeim, en það er einmitt fjarlægðin milli barns og þess sem heldur á því við að gefa því brjóst eða pela. Börn eru við fæðingu búin nokkrum ósjálfráðum viðbrögðum: þau sjúga allt sem snertir svæðið í kringum munninn, grípa allt sem snertir lófann, þau gráta, stara og seinna brosa þau líka, babla og hreyfa sig. Þessi viðbrögð eru mikilvæg í myndun geðtengsla. Í fyrstu eru þau einangruð og ómarkviss, en smátt og smátt tengjast þau saman og beinast að þeim sem annast barnið mest. Taka má sem dæmi 3ja mánaða barn sem starir af meðfæddum áhuga í augu manneskjunnar sem er að skipta á því. Sú túlkar þetta einarða augnaráð sem merki um að barnið beri kennsl á hana, horfir uppglenntum augum á móti, brosir, talar og gefur frá sér skemmtileg hljóð – sem allt fellur sömuleiðis í eðlislægan smekk barnsins fyrir skemmtiatriði. Það brosir alsælt á móti og gefur frá sér ánægjuhljóð sem aftur fá fullorðna fólkið til að auka fjölbreytnina og ýkja alls kyns munn- og hökuhreyfingar – allt atriði sem ungum börnum falla sérstaklega í geð og styrkja þau í vali á manneskjunni sem mótaðila. Þessi félagslegu samskipti halda síðan áfram þangað til annaðhvort er búið að fá nóg í bili. Geðtengsl myndast við þá sem svara þannig frumstæðum samskiptaháttum barnsins og sinna því að staðaldri. Barnið lærir smátt og smátt á þetta fólk, hvernig það bregst við merkjum þess, hvers það getur vænst af því. Þó gera megi ráð fyrir meðfæddum hæfileika barnsins til að laðast að öðru fólki, byggist farsælt framhald á hlýju og örvandi viðmóti aðstandenda annars vegar og alhliða þroska barnsins hins vegar. Til þess að tengjast fólki þarf barnið að geta greint manneskjur frá dauðum hlutum og síðan þá útvöldu frá öllu hinu fólkinu. Bending um að börn gera í vaxandi mæli greinarmun á hlutum og fólki má sjá í brosi og ýmsum öðrum viðbrögðum við kunnugum og ókunnugum. Framan af láta börn sig litlu varða hver hugsar um þau og gera sér jafndælt við alla. Frá 4-5 mánaða aldri bera þau kennsl á andlit sinna nánustu og upp úr u.þ.b. 6 mánaða aldri fer ekki lengur á milli mála að börn gera sér mannamun og bregðast á mjög ólíkan hátt við þeim sem þau þekkja og hinum. Geri einhver ókunnugur sér dælt við þau, stara þau gjarnan á hann stundarkorn og bresta síðan í grát. Það er á þessum aldri (7-9 mánaða) sem geðtengslin byrja að mótast. Barnið velur sér örfáar uppáhaldspersónur og jafnframt fer það að verða mannafæla og hrætt við nýjar og framandi aðstæður. Yfirleitt leynir sér ekki hverjir eru útvaldir bandamenn barns. Sé það í framandi umhverfi eða eitthvað bjátar á reynir barnið með öllum ráðum að komast til þeirra. Það hjúfrar sig upp að viðkomandi eða eltir hann á röndum. Hverfi hann úr augsýn kemst barnið í uppnám, grætur og kallar til að reyna að endurheimta hann. Barnið lætur líka frekar huggast af bandamönnum ef í harðbakka slær. Hafi tilefnið verið stórvægilegt dugar ekki minna en faðmlög og kossar. Loks verður barnið síður hrætt í ókunnugu umhverfi og áræðir frekar að leika sér og fara í könnunarleiðangra ef einhver hinna útvöldu er nærri. Barnið notar tengla (bandamenn) sína sem örugga höfn. Ef það er óöruggt eða treystir því ekki að mótaðilinn verði á sínum stað, hangir það í honum og eltir hann hvert sem hann fer. Gerður er greinarmunur á öruggum og óöruggum tengslum. Öll tengsl eru í fyrstu óörugg. Barnið er mjög vart um sig, þorir helst ekki að sleppa foreldri sínu úr augsýn og er þotið til mömmu eða pabba um leið og eitthvað óvænt gerist. Sé aðstandandinn næmur í svörunum sínum við barninu og reiðubúinn til að koma til móts við mikla öryggisþörf þess á þessu skeiði, áttar barnið sig smátt og smátt á að það getur verið tiltölulega öruggt þótt hann fari í burtu um stund, hann kemur aftur. Ferðir foreldranna og viðbrögð eru fyrirsjáanleg, þeim er hægt að treysta. Sé hegðun aðstandenda hins vegar óútreiknanleg, ellegar það sem alvarlegra er: hafni foreldrar barni sínu eða vísi öryggisleit þess á bug, öðlast það ekki nægilega öryggiskennd og heldur áfram að vera í óöruggum tengslum við þá. Rótleysi tengslanna kemur fram í því að barnið er alltaf jafnangistarfullt þegar foreldrarnir skilja við það, en séu þeir nærstaddir eltir barnið þá á röndum í stað þess að leika sér. Þó foreldrar eigi ríkastan þátt í því hvernig tengsl barnsins við þá þróast, hafa börn líka áhrif á foreldrana og viðbrögð þeirra. Börn eru að upplagi misjafnlega skapi farin. Flest eru geðgóð og jákvæð og aðlagast auðveldlega nýjum aðstæðum og fólki, en sum börn eru frá upphafi æst og ergileg, neikvæð og tortryggin gagnvart nýjungum og ókunnugum. Fullorðnir laðast auðveldlega að þeim fyrrnefndu, en meira reynir á þolrifin í aðstandendum hinna síðarnefndu. Það veltur á þolinmæði þeirra, sveigjanleika og vilja til að koma til móts við barnið hvort hægt er að beina þróun þess inn á jákvæðar brautir. Þróun geðtengsla, eins og annarra þroskaþátta, er ævinlega ávöxtur víxlverkunar á milli ólíkra einstaklinga, barnsins annars vegar og uppalenda hins vegar. Yfirleitt fara mótmæli barna við aðskilnaði frá ástvinum vaxandi frá 7 mánaða aldri og ná hámarki á aldrinum 12-18 mánaða. Þá mega bandamenn barnsins varla fara úr augsýn án þess að það komist í uppnám. Mannfælni kemur fram hjá öllum börnum einhvern tímann á aldrinum 6 til 18 mánaða, þó hún sé mjög misáberandi hjá börnum og fari einnig eftir aðstæðum. Barn er líklegra til að hræðast ókunnuga manneskju sem nálgast með fyrirgangi og býst til að taka barnið upp, en hina sem nálgast það varlega, tala lágt og leika við það. Börn verða líka mun síður hrædd við framandi aðstæður ef einhver kunnugur er nálægur. Með aldrinum verður þessi hegðun fátíðari og breytist. Viðbrögð við aðskilnaði snarminnka uppúr 2½ árs aldri, og milli 18 mánaða og fimm ára aldurs getur barnið leikið sér í sífellt meiri fjarlægð frá foreldrum sínum. Hér kemur meðal annars til aukinn vitþroski barnsins; notkun tungumáls og annarra tákna gerir því kleift að byggja í huganum brú á milli sín og foreldra sinna. Smátt og smátt breytast tengslin í samband þar sem líkamleg nálægð við mótaðilann er ekki lengur nauðsynleg, þau byggjast á gagnkvæmu trausti og væntumþykju. Oft þoka fyrri tengsl á unglingsárunum og önnur koma í staðinn, en fyrstu geðtengsl barns við sína nánustu slitna ógjarnan og endast venjulega alla ævi. Á öllum æviskeiðum eru tilfinningaleg tengsl einstaklingsins við fjölskyldu sína, vini, maka o.fl. undirstaða andlegs jafnvægis og vellíðunar.

Mótaðilar

Börn mynda geðtengsl við einn eða örfáa einstaklinga, venjulega í greinilegri forgangsröð. Langoftast er móðirin fyrsti og afdráttarlausasti mótaðili barnsins, enda er það hún sem elur barnið og annast það í flestum tilfellum mest fyrstu mánuðina. Aðrir geta gegnt þessu hlutverki, en miklu skiptir að ein eða tvær persónur séu tilfinningalegir ábyrgðarmenn barnsins, þó svo að fleiri komi við sögu. Rannsóknir sýna ennfremur að börn tengjast kjörforeldrum ekki síður en líffræðilegum foreldrum. Aldur barna getur skipt máli í því sambandi. Margir telja að mótun fyrstu félagslegu tengsla eigi sér kjörtíma frá u.þ.b. 6 mánaða til tveggja ára aldurs. Fái barn ekki tækifæri til að mynda geðtengsl á þessum tíma eigi það erfiðara með að mynda náin tengsl síðar. Svo virðist einnig sem fullorðnir, konur jafnt sem karlar, eigi því auðveldara með að tengjast börnum sem þau eru yngri. Ef börn eru aðskilin frá mæðrum sínum fyrstu dagana eða vikurnar vegna sjúkdóma, fötlunar eða annarra ástæðna og svigrúm er ekki tryggt fyrir náin samskipti þeirra á milli, ber við að mæðurnar eigi í erfiðleikum með að tengjast börnum sínum náið eftir að þær fá þau í hendur. Sömuleiðis eiga feður, sem ekki hafa umgengist börn sín á fyrstu mánuðunum, oft erfiðara en ella með að sýna þeim ástúð og tengjast þeim náið síðar. Geðtengsl við föður eru gjarnan veikari en við móður og takast síðar. Það merkir alls ekki að feður séu óhæfari í hlutverk mótaðilans, heldur er skýringin væntanlega félagslegs eðlis. Í hefðbundinni verkaskiptingu kynjanna hafa feður ekki eins skilgreint hlutverk og mæður og sinna börnum sínum minna. Feður setja flestir starf sitt framar barnauppeldinu og virðast ekki jafnþjakaðir af ábyrgðartilfinningu og sektarkennd í foreldrahlutverkinu. Mæður barna undir 6 ára aldri eru hins vegar sjaldnast ánægðar í starfi utan heimilis nema þær séu jafnframt ánægðar með þá barnagæslu sem þær búa við. Þó flest ung börn séu í nánari tilfinningatengslum við móður en föður eru flestir fræðimenn sammála um mikilvægi beggja foreldra, hvors á sinn hátt. Samskipti föður og barns eru um margt lík samskiptum móður og barns, en jafnframt að ýmsu leyti ólík. Börn líta t.d. gjarnan á pabba sinn sem leikfélaga og skemmtikraft, mamman er oftar í hlutverki þess sem huggar og veitir líkamlega aðhlynningu. Í samskiptum við föður er barnið oft virkara og sjálfstæðara en í samskiptum við móður, þar sem það er meira þiggjandi. Óbein áhrif föðurins eru einnig mjög víðtæk. Foreldrar, hvort sem það er faðir eða móðir, eru virkari gagnvart börnum sínum þegar hitt foreldrið er viðstatt og innilegri í samskiptum við þau. Tilfinningalegur stuðningur foreldranna hvors við annað skilar sér í meira jafnvægi hvors um sig og þar með betra sambandi beggja við barnið.

Gildi tengsla

Til þess að ósjálfbjarga mannsbarn lifi af er nauðsynlegt að það fái umönnun. Á sama hátt og náttúran stuðlar með ýmsu móti að nálægð ungviðis við fullorðinn í dýraríkinu, má segja að hún hafi búið mannsbarnið út með nokkur eðlislæg atferlismynstur (sjúga, hjúfra, grípa, elta . . . ) sem stuðla að tengslum við móður og aðra sem annast það. Gildi geðtengsla fyrir þróun einstaklingsins eru ótvíræð. Þau samskipti sem geðtengslin byggjast á eru jafnframt undirstaða þroska á öllum sviðum. Rannsóknir sýna að því meira sem foreldri horfir á barn sitt, talar við það og leikur og því meira sem örvunin tekur mið af áhuga barnsins, aldri og ástandi, því betur fer barninu fram samkvæmt vitþroska? og skynjunarprófum. Samskipti foreldris við barn eru einnig undirstaða félagslegrar og tilfinningalegrar þróunar þess. Börn foreldra sem svara fljótt gráti þeirra, halda mikið á þeim, kjá framan í þau, kjassa og knúsa, eru mun rólegri, virðast ánægðari, gráta minna, eru meira vakandi í félagslegum samskiptum og í öruggari tengslum við foreldra sína. Og margt bendir til þess að styrkleiki og öryggi geðtengsla barns í frumbernsku hafi úrslitaáhrif á hæfni þess til að mynda varanleg sambönd við annað fólk síðar á ævinni.

Dagvistun og tengsl

Upphaflega var farið að rannsaka tilfinningaleg tengsl ungra barna þegar í ljós kom að börn sem vistuð voru á stofnunum allan sólarhringinn urðu illa úti á allan hátt. Á þessum stofnunum var mjög vel séð fyrir líkamlegum þörfum barnanna, hreinlæti og fæði eins og best verður á kosið. Fyrstu mánuðina voru börnin fullkomlega eðlileg, en fljótlega fór þeim að hraka á öllum sviðum. Greindarvísitala þeirra var mun lægri en annarra barna, þau voru sinnulaus og sljó, grétu lítið, leituðu sjaldan til fullorðinna og mynduðu síðar á ævinni ekki tilfinningaleg tengsl við neinn. Þessi skelfilegu áhrif stofnanadvalar voru rakin til þess að börnin fóru á mis við umönnun móður. Síðar komust menn að raun um að unnt er að koma í veg fyrir mikið af skaðanum með því að tryggja stofnanabörnum alhliða örvun og samneyti við fullorðið fólk og jafnaldra. Mikið virðist þó í húfi að auk þess myndi börn náin tengsl við fullorðna manneskju á fyrstu árunum. Margar rannsóknir sýna að fólk sem á við alvarleg tilfinningaleg og félagsleg vandamál að stríða hefur nær alltaf lent í skakkaföllum með sín fyrstu tengsl. Ef nauðsynlegt reynist að skilja barn frá foreldrum sínum um lengri eða skemmri tíma, vegna sjúkrahúsvistar eða af öðrum ástæðum, skiptir sköpum að það geti sótt ástúð og umönnun til einhvers ákveðins aðila sem er staðgengill foreldra að svo miklu leyti sem hægt er. Sé það tryggt gengur yfirleitt allt vel. Þar sem geðtengsl við foreldra eru svo mikilvæg fyrir þroska barna, er ekki að undra að margir spyrji hvort dagvistun barna sé æskileg. Margar rannsóknir hafa beinst að samanburði á börnum sem dvelja á barnaheimilum hluta úr degi og börnum sem eru allan daginn heima hjá sér. Hér sem oftar eru það gæði umönnunarinnar sem skipta sköpum og þau mælast á sömu mælistiku og umönnun foreldra. Börn sem dvelja í góðri dagvistun hæfilegan tíma á dag hafa gjarnan meiri vit? og félagsþroska og eru betur máli farin en hin sem eingöngu alast upp heima. Séu hins vegar mannaskipti tíð á barnaheimilinu, hátt hlutfall barna miðað við fóstrur eða barnið á hrakhólum milli margra staða og uppalenda, verða áhrif dagvistunar neikvæð. Það ræður ekki úrslitum um gæði tengsla hve löngum tíma foreldrar eyða með barni sínu hverju sinni, heldur vilji þeirra og geta til að eiga innileg og örvandi samskipti við barnið, jafnvel þó það sé ekki í mjög langan tíma á degi hverjum.

Vitþroski í frumbernsku

Fyrstu vikur ævinnar hafa börn enga meðvitaða stjórn á eigin athöfnum eða því sem gerist umhverfis og gera ekki greinarmun á hlutum og fólki. Tilþrifin sem þau sýna sjálf til þess að halda í sér lífinu takmarkast við að beita meðfæddum viðbrögðum, svo sem að sjúga allt sem að munni kemur. Hér er ætlunin að stikla á fáeinum áföngum í vitsmunaþróun barna, ferlinu sem leiðir til skilnings á orsakasamhengi athafna og að hlutir hafa sjálfstæða tilveru.

Orsakasamhengi

Strax á fyrsta degi getur barn slæmt upp í sig fingri fyrir tilviljun og náð að sjúga hann í lengri eða skemmri tíma. Glopri barnið hendinni aftur út úr sér hefur það ekki enn stjórn á þeim hreyfingum sem leiddu til þessarar ánægjulegu reynslu. En æfingin skapar meistarann. Með þrotlausum endurtekningum verða skynjanir barnsins og hreyfingar sífellt samræmdari og markvissari og á aldrinum 1-4 mánaða fer að örla á viðleitni barna til að hafa áhrif á það sem gerist. Í fyrstu takmarkast áhrifasvið barnsins við eigin líkama. 3-4 mánaða barn getur skoðað á sér hendurnar tímunum saman, fylgt hreyfingum þeirra með augunum, gripið um aðra með hinni o.s.frv. Sé litskrúðugt dinglumdangl hengt í seilingarfjarlægð frá barninu glennir það upp augun og baðar út öllum öngum tinandi af æsingi – en það er ekki enn fært um að beina hendinni að leikfanginu og framkalla hljóðin og hreyfimöguleikana sem það býr yfir. Það er ekki fyrr en um 4½-5 mánaða aldur sem hreyfingar handa og augna eru orðnar nægilega samhæfðar til að barnið geti klófest hlut sem það sér. Stig af stigi eflist skilningur barnsins á samhengi þess sem það sjálft gerir og þess sem á sér stað í kringum það. Í athugun sem svissneski sálfræðingurinn Jean Piaget gerði á syni sínum Laurent, rúmlega fjögurra mánaða gömlum, kemur fram dæmi um hvernig barn fer að geta haft meðvituð áhrif á umhverfi sitt með athöfnum sínum:

Laurent fær í hendurnar penna sem hann er að sjá í fyrsta skipti. Hann horfir á pennann og fer svo að vingsa honum í kringum sig. Penninn rekst fyrir tilviljun í hliðina á tágavöggu sem Laurent liggur í og vaggan gefur frá sér brakhljóð. Laurent skekur nú handlegginn ákaft eins og hann sé að reyna að kalla fram aftur þetta hljóð en gerir sér ekki grein fyrir að penninn þarf að rekast í körfuna til þess að það heyrist. Það var semsé fyrir algera tilviljun að Laurent kallaði fram þetta hljóð í fyrsta skipti.

Nokkrum dögum síðar er Laurent aftur með pennann og Piaget verður vitni að sömu viðbrögðum og fyrr, en nú vill svo til að Laurent er að horfa á pennann þegar hann rekst í körfuna. Sama endurtekur sig nokkrum dögum síðar. Svo er það loks rúmri viku eftir að fyrsta athugunin var gerð að hreyfingar Laurents verða marksæknar: Hann veit hvernig hann getur framkallað þetta skemmtilega hljóð og slæmir nú pennanum í vögguna strax og hann fær hann í hendur. Seinna gerir hann það sama með öðrum leikföngum.

Um 8-12 mánaða aldur er hegðun barnsins greinilega marksækin. Það veit fyrirfram hvað það vill og beitir þeim aðferðum sem það þekkir til þess að ná settu marki. Nái það ekki sjálft loki af krukku, tekur það hönd uppalandans og setur hana á lokið. Frá 12-18 mánaða aldri uppgötva börn sífellt nýjar og nýjar aðferðir til að leysa viðfangsefni og þau átta sig á að hægt er að ná sömu niðurstöðu eftir mörgum leiðum. Brennidepillinn færist af markmiðinu yfir á aðferðirnar til að ná því og tilraunastarfsemi þar að lútandi. Á síðari helmingi fyrsta árs fer barnið að nota tákn og gera sér mynd í huganum af fólki, hlutum og athöfnum. Við lausn viðfangsefna verður það smám saman óháðara því sem er sýnilegt og getur tengt saman markmið og leiðir í huga sér. Til þess að ná í hlut utan seilingar fer barnið fram í eldhús og sækir pott, rogast með hann að hillunum og stendur upp á honum til þess að ná hærra. Það markar upphaf á byltingu í þekkingaröflun barnsins er það tekur þannig að nota hugmyndir við lausn viðfangsefna.

Varanleiki hluta

Samhliða því að barnið öðlast skilning á orsakasamhengi athafna þróast það frá því að vera óvitandi um umhverfið til þess að vera miðpunktur í heimi sem það þekkir út og inn. Skilningur barnsins á hlutum og fólki þróast eftir fyrirsjáanlegu mynstri á fyrstu tveimur árunum, á sama hátt og skilningur þess á orsakasamhengi. Þó eftirlætisleikfang 6 mánaða barns sé hulið með klæði að barninu ásjáandi tekur það ekki klútinn í burtu, heldur fer að gráta yfir missinum. Ársgamalt barn þrífur klútinn af og nær í leikfangið, það leitar að hlutum sem hverfa. Svo virðist sem börn undir 10-12 mánaða aldri átti sig ekki á því að hlutir og fólk hafi sjálfstæða tilveru og haldi áfram að vera til þó þau sjáist ekki sem stendur. Um það bil sem börn eru að átta sig á varanlegri tilveru fólks og hluta verða leikir þar sem fólk felur sig og kemur svo aftur í ljós mjög vinsælir, og þá ekki síður leikurinn sem felst í að láta hlut detta og aðra rétta sér hann aftur. Auk þess að tengjast vaxandi skilningi barnsins á tilvist hluta utan sjónmáls skapar barnið í leikjum sem þessum nýjar aðferðir til að ná settu marki; hér notar það ekki bara sjálft sig og nærliggjandi hluti sem verkfæri, heldur líka aðrar manneskjur. Þegar börn hafa áttað sig á að hlutir hafa sjálfstæða tilveru snúa þau sér að því að kanna eiginleika þeirra. Börn á fyrsta ári sem fá nýjan hlut í hendur láta sér yfirleitt nægja að handfjatla hann á þann hátt sem þau kunna: Þau stinga honum upp í sig, reyna að framleiða með honum hljóð og þvíumlíkt. Svo virðist sem þau flokki hluti í „það sem er gott á bragðið“, „það sem gefur frá sér skemmtileg hljóð“ og fáeina fleiri flokka. Á aldrinum 12-18 mánaða gerbreyta þau um stíl og stunda nú linnulausar tilraunir og rannsóknir á hlutum í umhverfi sínu. Þau setja hluti upp á, undir og við hliðina á öðrum hlutum. Þau rúlla þeim, stafla, velta og snúa. Þau ganga og skríða upp á, undir og allt í kringum hlutina. Með þessu möndli tekst þeim að sjá heiminn frá sífellt fleiri sjónarhornum og uppgötva áður óþekkta eiginleika hlutanna. Í stað þess að stinga plasthringjunum bara upp í sig, reynir barn á þessum aldri að láta þá rúlla, treður þeim ofan í ílát, staflar þeim upp á stöng. Kubbunum sem það áður lamdi í borðið raðar það hverjum upp á annan, hendir í klósettið og þar fram eftir götunum.

Fyrstu orðin

Grundvöllur að máltöku barna er lagður mjög snemma í samskiptum þeirra við sína nánustu. Að eðlisfari heillast börn af mannsröddum, andlitum og talandi munnum, og varla er búið að klippa á naflastrenginn þegar foreldrar byrja að leggja sitt af mörkum og tala við barnungann sinn eins og hann skilji hvert orð.

Aðdragandi máltöku

Börn hafa meðfæddan hæfileika til að gefa frá sér hljóð og hæfni til að mynda sífellt fleiri hljóð eykst með þroska talfæra og taugakerfis. Fyrstu vikurnar eru grátur og nöldurhljóð gagnvart óþægindum aðallega á dagskrá, en strax á fyrsta mánuði heyrast þó ánægjuhljóð sem kölluð eru hjal. Um 5-6 mánaða fara börn að tengja saman sérhljóð og samhljóð: „da?da“, „ba?ba?ba?ba“ og við tekur bablskeið. Hjá 10-12 mánaða barni eru hljóðastrengirnir gjarnan tvítekning á sama atkvæði og líkjast orðum á borð við: „baba“, „mama“, „dada“, „gaga“. Lengi var litið svo á að eina hlutverk hjals og babls væri að æfa hljóð og hljóðasambönd. Á seinni árum hefur mönnum orðið ljóst að hljóðin sem barnið gefur frá sér áður en það fer að tala gegna mikilvægu hlutverki, bæði í máltöku og í samskiptum barns við fullorðna. Foreldrar tala frá upphafi við hvítvoðunginn og túlka hljóðin sem merkingarbært innlegg í samtalið. Nýburinn grætur og gefur frá sér nöldurhjóð – foreldri túlkar það og segir: „Ertu svangur ræfillinn, eigum við að fá nýja bleyju, ha?“ Þegar tjáningarblæbrigði barnsins aukast og það fer að hjala, hlæja og skríkja gefur það fullorðna fólkinu tilefni til fjölbreytilegri túlkunar. Um 3-4 mánaða getur barnið haldið uppi löngum „samræðum“ við foreldri sitt: Þau horfast í augu eins og vera ber í samtölum og skiptast á að „tala“, þó annar aðilinn láti sér að vísu nægja að segja „agú“ og annað í þeim dúr þangað til hann fer að hiksta! Það fer hins vegar ekki á milli mála að þau „skilja“ hvort annað og eru hvort með sínu lagi að segja hinu hversu ánægð þau séu með þessa samverustund. Barnið fer smátt og smátt að veita hlutum og fólki í umhverfi sínu meiri athygli. Fullorðna fólkið fylgir augnaráði þess og fer nú að leggja því orð í munn varðandi það sem athygli vekur hverju sinni. Barnið snýr sér að ljósi sem kviknar og foreldrið segir: „Neisko ljósið!“ Þegar hljóð barnsins fara að líkjast orðum tengja aðstandendur þau athöfnum, hlutum og fólki. Börn allra þjóða tengja fyrst saman opnustu hljóðin og þau lokuðustu, segja „baba“, „mama“ eða annað í svipuðum dúr. Mömmur og pabbar allra landa eru óþreytandi við að reyna að gæða bablið merkingu og túlka þetta sem svo að barnið sé að ávarpa þau. Engin tilviljun að orð samsett úr þessum hljóðum vísa einmitt til foreldra í mörgum tungumálum! Börn hafa meðfæddan hæfileika til að gefa frá sér hljóð, en það er í samskiptum við þeirra nánustu sem þau finna lykilinn að leyndarmálinu: Hljóðin geta haft merkingu. Í hvert skipti sem það segir „mama“ kemur þessi eftirlætispersóna hlaupandi og segir „já, elskan mín“, „ja“, „oui“, „si“, „yes“ eða hvað það nú er og brosir út undir eyru. Fá orð eru þrungnari merkingu en „mamma“!

Fyrstu orðin

Mjór er mikils vísir. Um eins árs aldur eru börn gjarnan komin með orðaforða upp á eitt, tvö, þrjú orð: „mamma“, „bless“, „datt“. Þessi orðaforði eykst hægt til að byrja með, stundum ekkert í nokkra mánuði. Síðan smáeykst orðaforði barnsins. En hvernig lærir barnið ný orð? Það sem manni kemur fyrst í hug er að foreldrar og aðrir viðmælendur barna kenni þeim hvað orðin merkja. Við bendum á stól og segjum „stóll“. Smátt og smátt rennur upp fyrir barninu að orðið „stóll“ á við þetta ferfætta húsgagn. Það liggur í augum uppi að því lærir barnið málið að það er fyrir því haft. En er nóg að hafa málið fyrir barninu? Við nánari athugun kemur í ljós að þær upplýsingar sem barnið fær úr að moða eru ekki alltaf jafnaðgengilegar og virðast kann við fyrstu sýn. Orðin „rauður“, „mjúkur“, „alltaf“, „ég“, „nei“, „æi“, „bless“ eru ekki merkimiðar fyrir hluti sem hægt er að benda á. Við segjum „rauður“ og bendum ýmist á stól, bolta, kjól eða götuvitann. „Ég“ vísar ýmist til pabba, mömmu, Siggu systur eða konu í næsta húsi. Og raunar vísar orðið „stóll“ til mjög ólíkra hluta, stórra og smárra, allavega litra, eldhúskolls jafnt sem hægindastóls. Hvenær hættir t.d. húsgagn að vera „stóll“ og verður „kollur“? Til þess að læra merkingu orðs þarf barnið að finna sameiginleg einkenni á annars mjög ólíkum fyrirbærum. Það verður að finna hvað er sameiginlegt með boltanum, stólnum, kjólnum og götuvitanum sem gerir það að verkum að við getum bent á allt þetta og sagt „rauður“. Það liggur semsé mun meira að baki réttri notkun á orði en að heyra það sagt og fá ábendingu um það sem orðið vísar til. Málnotkun byggist líka á vitrænni þróun, t.d. flokkunarhæfni. Þegar barn byrjar að tala hefur það þá þegar lagt góðan grundvöll að þeirri flokkun sem merking orða grundvallast á. Með stöðugum athugunum og rannsóknarstarfsemi á hlutum og fyrirbærum í umhverfi sínu – kallað að „rífa og tæta“ á fullorðinsmáli – hefur barnið komið sér upp víðtæku flokkunarkerfi. Af viðbrögðum þess er auðsætt að það veit heilmikið um bolta og aðra hnöttótta hluti áður en það getur fært þekkingu sína í orð. Sumir rúlla og hoppa þegar þeim er hent í gólfið, en eru ekkert sérstaklega góðir á bragðið. Af og frá að þeir séu ætir. Líku gegnir um kúlurnar á jólatrénu, nema hvað allir hlaupa upp til handa og fóta ef maður ætlar að leika sér að þeim. Takist það samt sem áður rúlla þær ekki og skoppa þegar þeim er hent í gólfið, eins og hinir hnöttóttu hlutirnir, heldur brotna í þúsund mola. Svo eru sumir hnöttóttir hlutir lifandis ósköp góðir á bragðið, en hoppa hvorki né brotna og fólk bregst ókvæða við vilji maður leika sér með þá. Þetta og miklu fleira veit barnið um hluti og atburði í heiminum um það bil sem það fer að tala, en þá á það eftir að átta sig á því hvernig orðum er komið að þessum staðreyndum. Eins og við má búast lenda börn stundum á villigötum í upphafi. Sum nota orðið „bolti“ yfir allt sem er hnöttótt, „pabbi“ yfir alla karla, „bíbí“ yfir allt sem flýgur og „voffi“ yfir allt sem gengur á fjórum fótum – og jafnvel enn fleira, eins og barnið sem notaði þetta orð fyrst yfir hunda, svo ketti og fleiri dýr, þá yfir loðna inniskó og loks mynd af manni í loðfeldi. Barnunginn notaði orðið „voffi“ eins og við notum orðið „loðinn“ eða „mjúkur“. Þekking barna á þessu stigi er að miklu leyti byggð á athöfnum þeirra og skynjunum (sjá pistil um vitþroska í frumbernsku) og fyrstu orðin eru ekki endilega þau orð sem þau heyra oftast, heldur tákna þau hluti sem tengjast þeirra eigin athöfnum. Barnið nefnir húfu, skó, sokk og aðrar flíkur sem það bjástrar við að klæða sig í á eigin spýtur frekar en aðrar jafnalgengar flíkur, svo sem peysu, bleyju, buxur, sem það ræður síður við. Það orðar líka hluti sem það getur haft einhver áhrif á eða sem gera eitthvað sjálfir: ljós, slökkva, kveikja; hluti sem hreyfast: bíll, flugvél, hjól; hluti sem gefa frá sér hljóð: klukka, útvarp, sjónvarp. Það nefnir síður hluti sem bara eru, án þess að aðhafast neitt, eins og t.d. rúm, sófi, ísskápur, eldavél. Í fyrsta orðaforða barna eru auk þess orð yfir þær persónur sem þau umgangast mest og orð sem tilheyra föstum daglegum liðum eins og „bless“, „takk“, „meira“, „óó“. Fyrir nokkrum árum frétti höfundur af alveg nýju orði í fyrsta orðaforða íslenskra barna: „bóla?baka“ sem útleggst „viltu spóla myndbandið til baka!“ Fyrstu orðin eru líka notuð á sérstakan hátt. Með einu orði tjáir barnið það sem fullorðnir segja með heilli setningu. „Mamma“ getur þýtt „þetta er mamma mín“, „mamma komdu hingað“, „ég er svangur“, „komum heim“ og fjölmargt annað. Til þess að skilja hvað blessað barnið á við hverju sinni þarf viðmælandi að vera reiðubúinn til að leggja mikið af mörkum og geta í eyðurnar út frá tóntegund, aðstæðum og fyrri þekkingu á barninu, þörfum þess, skapi og áhugamálum. Barnið segir „gaga“ og teygir sig í áttina að kökuboxinu. Mamma túlkar þetta sem bón og segir: „Viltu köku?“ Þegar barnið er hálfnað með kökuna réttir það hana fram og segir aftur, en í annarri tóntegund: „Gaga.“ Mamma: „Já, þetta er kaka, namminamm.“ Túlkar sem svo að barnið sé að nefna þetta bragðgóða fyrirbæri. Barnið segir „gagagaga“ og pabbi segir eins og véfrétt: „Hún vill að við syngjum „Allir krakkar“.“ Foreldrar og aðrir sem um barnið annast verða sérfræðingar í að túlka skilaboð barnsins sem enginn annar skilur. Áður en barnið segir eitt einasta orð eru foreldrar raunar farnir að túlka hljóð barnsins og babl; þeir láta eins og barnið sé að gefa frá sér skiljanleg og meðvituð skilaboð, óskir og yfirlýsingar löngu áður en það er þess meðvitað að hægt sé að hafa áhrif á þennan hátt. Rannsóknir hafa leitt í ljós að foreldrar – feður jafnt sem mæður – eru mjög næmir og vakandi fyrir hegðun barnsins og nota hana sem tilefni til samræðna. Það er í samskiptum af þessu tagi sem barnið lærir smátt og smátt hvaða túlkanir tilraunir þess fá og hvernig má breyta þeim ef þær ná ekki tilætluðum árangri. Því hnitmiðaðri viðbrögð sem barnið fær, því betur gengur að komast að því hvernig orðin tengjast athöfnum og hlutum.

Vitþroski í bernsku

Í lok annars aldursárs veldur notkun tákna og táknbundinnar hugsunar byltingu í möguleikum barnsins til skilnings og þekkingar. Rúmlega ársgömul fara börnin að tala og um sama leyti taka þau að leika sér í þykjustuleikjum. Eins og tungumálið fela þeir í sér táknun: Í málinu standa orð fyrir hluti og athafnir, í leikjum stendur einn hlutur fyrir annan, ein athöfn táknar aðra. Færnin að baki því að nota tákn í máli, teikningum og leikjum er kölluð táknunarhæfni og þróast ört á bernskuárunum. Við lausn viðfangsefna beita börn í sívaxandi mæli táknbundinni hugsun. Þau verða smátt og smátt fær um að tengja saman í huganum hluti og athafnir, markmið og leiðir, sem þau þurftu áður að framkvæma í raun. Á bernskuárunum (2-6 ára) er hugsun barna þó enn ýmsum takmörkunum háð, sem gera það að verkum að hún er ekki alltaf rökrétt, a.m.k. ekki í þeim skilningi sem venjulega er lagður í orðið. Börn á þessum aldri byggja enn niðurstöður sínar fyrst og fremst á því sem þau sjá og skynja – ekki á rökrænum ályktunum – enda hefur hugsanagangur þeirra verið nefndur forstig rökhugsunar. Það virðist óneitanlega vera meiri ávaxtasafi í háa mjóa glasinu á myndinni (sjá glugga) en því lága víða og á þeirri vísbendingu byggja flest börn undir 6 ára aldri mat sitt á magni vökvans í glösunum tveimur. „Það er meira í því stóra af því safinn nær svo hátt upp.“ Börnum á þessu aldursskeiði hættir til að skoða bara eina hlið aðstæðna, einn eiginleika í einu, þann sem er mest áberandi frá þeirra sjónarhóli. Í safaverkefninu tengja þau ekki hæð glasanna og breidd heldur einblína þau á hæðina eina sér og yfirsést að breiddin á glasi A vegur upp hæðina á glasi B. Það þriðja sem einkennir hugsun barna á forskólaaldri er að þau rekja ekki til baka í huga sér athöfn, eins og t.d. þá að hella úr einu glasi í annað. Þess í stað einblína þau á útkomu umbreytinga sem framkvæmdar eru, líta framhjá umbreytingarferlinu sjálfu, athöfninni sem breytir einu ástandi í annað. Í safaverkefninu einblína þau á lögun vökvasúlunnar fyrir og eftir að hellt er á milli glasanna, en horfa framhjá því hvernig athöfnin að hella á milli glasanna tengir ástand A við ástand B. Þessi einkenni hugsunar gera það að verkum að hjá börnum á þessu aldursskeiði er ekki til neitt sem heitir rökrétt nauðsyn. Þó tvö börn séu með jafnmikið af gosdrykk í tveimur eins flöskum nægir að hellt sé úr flöskunum í tvö misvíð glös til þess að jafnréttið sé fyrir bí, annað barnið bresti í grát og telji sig hlunnfarið. Þó 7 rauðar kúlur plús 2 gular séu samtals 9 kúlur er það ekki augljóst að taki maður gulu kúlurnar tvær aftur hljóti að verða 7 á ný. Til þess að vita vissu sína þurfa þau nú að telja aftur. Börnin leggja heldur ekki sama skilning og fullorðnir í ýmis hugtök og greina ekki það sem er varanlegt frá því sem breytist. Breyti maður uppröðun 10 eininga sem vandlega var búið að telja, þarf barnið að telja þær aftur til að vita hvort þær eru enn jafnmargar. Telji börn á fingrum sér fyrst upp að 7 og svo upp að 9 þurfa þau í bæði skiptin að telja fingurna fimm á annarri hendi, þó litlar líkur séu til að fjöldi þeirra hafi breyst síðan barnið taldi síðast! Sama gildir um hugtök sem tengjast magni, þyngd og rúmtaki. Þó engu sé bætt við og ekkert tekið í burtu álíta börn að þessir eiginleikar breytist ef lögun efnisins eða ytri ásýnd er breytt. Vegna þess hve einhliða hugsun barnanna er eiga þau erfitt með að skilja að sami hlutur eða sama persóna geti tilheyrt tveimur – eða fleiri – flokkum samtímis. Ef 5-6 ára barn er beðið um að flokka í tvo flokka safn hluta sem eru í tveimur litum (gulir og rauðir), tveimur stærðum (litlir og stórir) og tvenns konar lögun (ferningar og hringir), eiga þau sjaldnast í erfiðleikum með að flokka hlutina eftir lit. Þegar hlutunum er ruglað aftur og barnið beðið um að flokka þá nú eftir einhverju öðru en lit geta þau það ekki. Á sama hátt eiga þau erfitt með að skilja að sama persóna geti verið bæði mamma og amma og líka frænka eða systir – allt eftir því við hvern er miðað hverju sinni. Börn undir 6 ára aldri skilja ekki afstæði orða eins og þessara frændsemisorða. Þau tengja þessi hugtök við tilteknar persónur, aldursflokka, ákveðin ytri einkenni o.s.frv., en ekki við vensl á milli fólks (sjá glugga). Sama máli gegnir um orð eins og „hægri“, „vinstri“, „á undan“ og „á eftir“ o.fl. sem vísa til vensla á milli atburða eða hluta í tíma eða rúmi. Ef Siggi á afmæli í janúar og Palli á afmæli í september á Siggi afmæli á undan Palla. Það breytist ekkert þó komið sé fram í mars, Siggi á afmæli í fyrsta mánuði ársins og þar með á hann afmæli á undan Palla, ekkert afstætt við það! Heimsmynd barna á þessu aldursskeiði og hugmyndir um lífið og tilveruna eru sama marki brennd. Á flestum sviðum kemur í ljós hversu upptekin þau eru af því sem sýnist, hve ókerfisbundin þau eru í upplýsingaöflun og hversu ósýnt þeim er um að átta sig á breytingum og greina það sem er varanlegt frá því sem er það ekki. Persónan Á bernskuárum hafa börn takmarkaðan skilning á því að fólk er samt við sig þótt útlit þess breytist. Þau hafa t.a.m. litla yfirsýn yfir lífsferil manneskjunnar og eiga erfitt með að skilja að mamma og pabbi, og meira að segja amma og afi, hafi verið börn. Tímaskyn þeirra spannar ekki svo löng tímabil. Lítil börn eru vís með að spyrja: „Hvað hét amma þegar hún var lítil?“ og reikna þá með að hún hafi verið önnur persóna með öðru nafni. Í samræmi við það ætla sum þeirra gjarnan að verða tilteknar persónur þegar þau sjálf verða fullorðin, eins og fjögurra ára hnátan sem ætlaði að verða fóstran sem gætti hennar á leikskólanum þegar hún yrði stór. Smátt og smátt læra börn að þau muni alltaf heita sama nafninu og pabbi þeirra og mamma líka, en þau hafa lengi mjög óljósar hugmyndir um hvað fleira í fari þeirra og eðli er varanlegt. Hugmyndir barna um það sem ákvarðar kynferði fólks byggjast t.d. að verulegu leyti á hársídd, fatnaði og fleiri sýnilegum einkennum. Rannsóknir sýna einnig að börn undir 5-6 ára aldri líta ekki svo á að kynferði einstaklings sé endilega varanlegt. Ef strákur breytir um hárgreiðslu, fer að klæðast stelpufötum og leika sér með barbídúkkur og önnur stelpuleikföng kann hann að breytast í stelpu. Líkaminn Hvað er inni í okkur? Svörin sem börn gefa við þessari spurningu eru mjög mismunandi eftir aldri. 5-6 ára börn nefna flest það sem þau hafa séð sett í líkamann eða koma úr honum. Algengustu svörin eru matur, blóð og úrgangur, og mörg nefna líka beinin. 7-8 ára börn bæta hjartanu við; þau takmarka sig semsé enn við það sem er skynjanlegt að utan: eins og beinin skynjar maður hjartsláttinn þegar hönd er lögð á brjóstið. 9-10 ára börn nefna að auki mörg líffæri sem hvorki sjást né finnast með snertingu, svo sem maga, lungu, heila, kirtla, vöðva, æðar, nýru og blöðru. Dauðinn Börn eldri en 7 ára vita að dauði er endanlegt ástand, en yngri börn líta svo á að ekki sé útilokað að dáinn maður geti lifnað við seinna. Hugmyndir barna um dánarorsakir breytast einnig með aldrinum. Þau eiga lengi erfitt með að skilja að oftast eru það ósýnileg, innvortis ferli sem leiða til dauða. Deyi einhver vill forskólabarn fá ákveðna, áþreifanlega orsök fyrir dauðsfallinu. „Af hverju dó hann afi?“ Í rannsókn þar sem 6 og 7 ára börn voru spurð um hvað gæti dregið fólk til dauða kom skýrt fram hversu hlutbundin börn á þessu aldursskeiði eru um þetta eins og allt annað.

7 ára stúlka: „Ef fólk étur eitur og svoleiðis, pillur. Börn eiga alltaf að bíða þangað til mamma þeirra gefur þeim pillurnar.“ [Getur maður dáið af einhverju fleiru?] „Ef maður drekkur eitrað vatn og líka ef maður fer einn í sund.“

6½ árs stúlka: „Ef maður étur eitthvað óhollt, eins og til dæmis ef maður fer með einhverjum ókunnugum og hann gefur manni sælgæti með eitri á.“ [Nokkuð fleira?] „Já, maður getur dáið ef maður borðar skítuga pöddu.“

Hugmyndir barna um orsakatengsl eru líka frábrugðnar því sem síðar verður. Gerist tveir atburðir á sama stað og sama tíma nægir það til þess að annar sé í huga barnsins orsök hins. Hafi amma dáið á sjúkrahúsi ályktar ungt barn gjarnan að hún hafi dáið af því að hún fór á sjúkrahús. Það verður því dauðskelkað næst þegar einhver sem það þekkir leggst á sjúkrahús. Afi sem reykti er dáinn. Barninu hefur verið sagt að reykingar séu hættulegar. Afi hlýtur þá að hafa dáið af því að hann reykti. Mamma reykir – deyr hún þá ekki bráðum? Hugmyndir á þessu þroskaskeiði um dauðann og dánarorsakir skýra á hversu kaldrifjaðan hátt elskuleg lítil börn tala gjarnan um dráp og dauða ástvina sinna. Þau eru vís með að spyrja: „Hver drap Sigga frænda?“, ekki af kvikindisskap, heldur vegna þess að ef fólk deyr halda þau að einhver hljóti að hafa drepið það. Þegar líður á skólaárin fara börn að nefna slys og sjúkdóma eins og krabbamein og hjartaáfall sem mögulegar dánarorsakir, en það er ekki fyrr en á unglingsárum sem þau fara að lýsa ferlum sem leiða til dauða.

Félagsþroski í bernsku

Hæfni til að átta sig á og taka þátt í tilfinningum annarra er grundvöllur félagslegrar hegðunar og réttlætiskenndar. Strax í frumbernsku sýna börn merki samkenndar með fólki sem líður illa og börn á öðru aldursári bregðast við og reyna að gera eitthvað í málinu. Þau hafa semsé hjartað á réttum stað og skortir ekki viljann til þess að hjálpa öðrum og hugga ef eitthvað bjátar á. En til þess að geta rétt öðrum hjálparhönd á viðeigandi hátt er þörf á annarri grundvallarfærni í mannlegum samskiptum, sem er að geta sett sig í þeirra spor. Þetta vefst fyrir börnum á forskólaaldri (2-6 ára) og úrræði þeirra bera þess gjarnan vitni að þau ganga út frá því að mótaðilinn líkist þeim sjálfum í smekk og tilfinningum: Sé mamma leið réttir barnið henni bangsann sinn, snuðið eða annað sem því sjálfu mundi henta við svipaðar aðstæður. Börn á forskólaaldri eru þannig mjög bundin af eigin sjónarhorni og eiga erfitt með að setja sig í spor annarra. Fólk hefur mismunandi upplýsingar, hugmyndir, lífsreynslu og hagsmuni – börnum hættir til að reikna með að hugsanir allra, tilfinningar og sjónarhorn séu þau sömu og þeirra eigin. Í bókstaflegustu merkingu kemur þetta skýrt fram þegar mjög ung börn eru í feluleik og láta sér nægja að halda fyrir augun. Úr því að þau sjá ekki þann sem leitar álykta þau að hann sjái þau ekki heldur. Fljótlega átta þau sig á að þetta dugar ekki, en „fela sig“ þá gjarnan á sama stað og sá sem faldi sig næst á undan! Og eigi barn undir 6 ára aldri að útskýra leik fyrir jafnaldra sínum sem bundið hefur verið fyrir augun á, tekur það sáralítið mið af því að félagi þeirra sér ekki. Það er ekki fyrr en á unglingsárum sem útskýringar eru fyllilega aðlagaðar að blindingjanum. Dæmi um það hversu upptekin börn á forskólaaldri eru af því sem sýnist (sbr. pistil um vitþroska í bernsku) má greina í hugmyndum þeirra um fólk og félagsleg samskipti. Mat þeirra á fólki byggist meira á ytri ásýnd og sjáanlegum gjörðum en innra manni. Þegar barn á þessu stigi lýsir sjálfu sér eða öðrum sem „góðum“ er það ekki endilega að meta hugarfar eða persónuleika, heldur verknað eða athöfn sem viðkomandi hefur framkvæmt. „Amma er góð af því hún gefur mér alltaf sælgæti.“

Réttlætiskennd og siðgæðisvitund

Börn hafa ríka réttlætiskennd, en mat þeirra á siðrænum vandamálum ber sömu einkenni og hugsun þeirra um önnur viðfangsefni. Ein þeirra aðferða sem notaðar hafa verið til að athuga þróun siðgæðisvitundar barna er að segja þeim dæmisögur þar sem ásetningur tveggja aðila er í ósamræmi við skaða sem þeir valda. Einn gerir mikinn usla óviljandi, annar veldur minna tjóni en vitandi vits. Aðspurð um sekt sögupersónanna byggja börn undir 6-7 ára aldri mat sitt einkum á stærð tjónsins. Það er ekki fyrr en á skólaárunum sem börn taka ásetning að baki verknaðinum með í reikninginn. Sama máli gegnir um lygar. Mat ungra barna á lygi byggist á því hversu fjarlæg hún er sannleikanum. Til þess að kanna mat barna á lygum voru þeim sagðar tvær sögur:

Lítill drengur mætir stórum hundi úti á götu og verður dauð? hræddur. Þegar hann kemur heim segir hann mömmu sinni að hann hafi séð hund sem var eins stór og kýr.

Lítil stúlka kemur heim úr skólanum og segir mömmu sinni að kennarinn hafi gefið henni mjög góðar einkunnir. En það var ekki satt, kennarinn hafði alls ekki gefið henni einkunnir, hvorki góðar né slæmar. Mamma stelpunnar varð voða ánægð og veitti henni verðlaun.

Þegar börnin voru spurð hvort barnið hefði hagað sér verr tóku börn yngri en 8 ára ekki mið af hugarfarinu að baki lyginni. Og það sem furðu vekur: Þau töldu að lygi sem engan blekkti væri verri en trúverðug lygi. T.d. svaraði 6 ára stúlka á þá leið að lygasaga drengsins um stærð hundsins væri vítaverðari. „Hvers vegna?“ „Af því það gæti ekki gerst.“ „Trúði mamma hans honum?“ „Nei, hundar eru aldrei eins stórir og kýr.“ „Til hvers sagði hann þetta?“ „Til að plata.“ „En af hverju laug stelpan?“ „Af því hún vildi láta mömmu sína halda að hún væri dugleg í skólanum.“ „Trúði mamma hennar henni?“ „Já.“ „Hvoru barninu mundir þú refsa meira ef þú værir mamma þeirra?“ „Stráknum sem sagði að hundurinn væri eins og kýr. Hann var óþekkari.“ 7 ára barn svaraði: „Strákurinn sem sagði að hundurinn væri jafnstór og kýr er verri. Það er verra af því mamma hans vissi að það gat ekki verið satt, en stelpan – mamma hennar vissi það ekki. Ef maður segir eitthvað sem mamma manns veit ekki er það betra af því að kannski trúir hún því. Ef mamman veit að það er ekki satt er það meiri lygi.“ Eftir 7-8 ára aldur snýst þetta við. Nú er það hugarfarið að baki lyginni sem mestu máli skiptir. Lygasagan um einkunnirnar, sem mamman gat ekki vitað að væri lygi, er ámælisverðari en sagan um hundinn, sem er svo augljós uppspuni að henni trúir enginn hvort sem er. Ýmsa samskiptaörðugleika forskólabarna má rekja til sömu almennu einkenna á hugsun þeirra (sjá einnig pistil um vitþroska í bernsku). Ara langar til þess að leika sér að leikfangi sem Bessi er með og þrífur það af honum. Stínu litlu langar til að taka þátt í mömmuleik með hópi vinstúlkna sinna og býðst til að vera mamman, en fær þau svör að Rakel sé mamman og Stína geti þess vegna ekki verið með í leiknum. Viðbrögð sem þessi stafa oft fyrst og fremst af tilhneigingu barna á þessu þroskaskeiði til þess að einblína á eina leið til að ná fram markmiðum sínum. Þeim er líka ósýnt um að setja sig í annarra spor og taka tillit til annarra sjónarmiða en eigin. Það er ekki fyrr en síðar sem þau geta haft sjónarmið tveggja í huga samtímis og fundið málamiðlun á milli þeirra (sjá glugga um þróun samskiptaskilnings í pistli um samskipti og vináttu skólabarna). Fullorðnir með auga fyrir takmörkunum ungra barna á þessum sviðum geta leyst margan hnútinn með því einu að beina athygli barnanna að valkostum og leiðum sem þeim hugkvæmast ekki sjálfum; vekja t.d. athygli á öðru leikfangi en því sem styrinn stendur um eða stinga upp á einhvers konar skiptum. Og gæti Stína ekki verið frænkan fyrst hlutverk mömmunnar er þegar skipað?

Leikir

Félagsleg samskipti barna innbyrðis fara mest fram í leikjum. Þó börn séu frá upphafi mjög hrifin af öðrum börnum og sækist eftir samvistum við þau, leika þau sér í fyrstu meira hlið við hlið en saman. Fyrstu tvö árin eru æfingaleikir ríkjandi; barnið æfir alls kyns hreyfifærni og gerir tilraunir með hluti (sjá pistil um vitþroska í frumbernsku). Á aldrinum tveggja til fimm ára verða samskipti barna í milli tíðari, félagslegri og flóknari. Milli þriggja og sex til sjö ára aldurs eru alls kyns þykjustuleikir vinsælastir. Fyrst stunda börn þessa leiki ein, en þegar á líður verða þeir í sívaxandi mæli félagslegir. Frá sex, sjö ára aldri dregur aftur úr þykjustuleikjunum og leikir byggðir á reglum eru vinsælastir á skólaárunum. Þykjustuleikja verður fyrst vart um eins árs aldur. Í fyrstu snúast þeir eingöngu um barnið sjálft og hluti og athafnir sem það þekkir mjög vel; barnið þykist sofa, borða eða annað þvíumlíkt. Síðar færa börnin út kvíarnar og innlima aðra í leikinn, látast t.d. gefa dúkku eða bangsa að borða eða greiða pabba sínum með leikfangabursta, og þegar líður á forskólaaldurinn eru persónur sóttar bæði vítt og breitt í samfélagið og í fjarlægustu ævintýraheima. Til að byrja með nota börn hefðbundna hluti á hefðbundinn hátt í þykjustuleikjum sínum. Síðar nota þau einn hlut til að tákna annan: Nærbuxur sem farið er í utan yfir sokkabuxur og rautt handklæði um axlir nægja til þess að breyta litlum dreng í súperman sem flýgur ofan af kommóðu – sem er háhýsi í bandarískri stórborg – og bjargar bangsa – í hlutverki fallegu konunnar – úr bófaklóm. Hlutirnir þurfa ekki einu sinni að líkjast því sem þeir standa fyrir: Kubbur getur verið bíll, vasaklútur verður sæng, brauðsneið getur verið byssa. Loks þurfa þau ekki á neinum hlutum að halda: Þau geta í þykjustunni gert allt mögulegt og fylla upp í sviðsetningu leiksins með orðum. Það nægir að segja „mín er að gefa barninu sínu að drekka“ til þess að handahreyfing dugi, og „ég er í þykjustunni drottningin af Saba“ sveiflar leikfélögunum inn í ævintýraveröld þar sem „hirðmeyjarnar“ lúta „drottningunni“ með tilhlýðilegri lotningu. Þykjustuleikir ganga fyrir ímyndunarafli leikfélaganna. Þeir fela í sér flókin boðskipti og miklar samningaumleitanir og samvinnu til þess að samræmi náist milli athafna og hlutverka. Í leikjum yngstu barnanna eru leikendur sjaldnast samstíga og ekki alltaf að leika í sama leikritinu. Því betur sem börnin þekkjast og því leiknari sem þau verða í félagslegum samskiptum, því betur gengur leikurinn. Taki margir þátt, eða komi ókunnugur krakki inn í leik gamalla vina, verður erfiðara að samhæfa hlutverkaskipan og aðgerðir.

Hlutverk leikja

Þótt það sé gaman fremur en gagn sem ræður ferðinni í leikjum barna gegna þeir mikilvægu hlutverki í þróun barna á flestum sviðum. Leikurinn er aðferð barnsins til þess að skilja og vinna úr eigin reynslu. Hugmyndir þess um heiminn eru í mótun og í leikjum sínum prófar það hvernig þær reynast í raun. Í hlutverkaleikjum þroskast samkennd barna og skilningur á öðrum sjónarhornum en eigin. Þar fá þau tækifæri til að kanna og æfa hlutverk og samskipti sem erfitt væri í að komast í raunveruleikanum. Barnið prófar að vera mamman, huggar barnið sitt sem hefur dottið og meitt sig, skammar annað sem hefur hagað sér illa. Það fer út í búð, eldar matinn, hugsar um pabbann og talar í símann við vinkonur sínar. Það fer með börnin í leikskólann og svo í vinnuna. Á sama hátt leikur það pabbann, kennarann, afgreiðslufólk í búð, lækninn, söngstjörnu, hetjur, bófa o.s.frv. Í leik læra börn einnig sjálfsstjórn og að bæla árásarhneigð, að ekki sé talað um sköpunargáfu og boðskiptahæfni. Í leikjum þjálfast einnig alls kyns hreyfifærni: Fínhreyfingar við að hneppa dúkkupeysu, hella „kaffi“ í bolla eða byggja turn úr kubbum. Grófhreyfingar slípast við að kasta eða sparka bolta, sippa og eltast í löggum og bófum. Síðast en ekki síst gegna leikir mikilvægu hlutverki í tilfinningalífi barna. Leikurinn er kjörin aðferð til að leysa úr vandamálum sem rísa í dagsins önn. Barnið gefur dúkkunni sinni sprautu og lætur hana fara að gráta, huggar hana svo og segir henni að nú sé þetta allt í lagi. Í leik getur yngsta barnið á bænum verið sá sem öllu stjórnar. Og áfram mætti lengi telja.

Að læra málið

Foreldrar verða vitni að mörgum merkum áföngum í þroska barna sinna á fyrstu æviárum þeirra. Fyrsta brosið, fyrstu skrefin, fyrstu orðin. Þórbergur Þórðarson lýsir á nærfærinn hátt þroskaferli lítillar manneskju í Sálminum um blómið og þeim tímamótaatburði þegar söguhetjan reynir í fyrsta skipti að orða heila hugsun lýsir Þórbergur svona:

Einu sinni sat hún á eldhúsgólfinu og lék sér að gulum og loðnum bangsa. Það var komið kvöld, og hún hélt víst að bangsinn væri orðinn syfjaður. Hún leggur hann á vangann á gólfið og breiðir ofan á hann gráa pjötlu, og þá kom andi Gvuðs yfir hana, og hún segir „Vuvva uvva“ og lítur svolítið undrandi og mannalega upp á gömlu konuna. Gamli maðurinn skildi ekkert, en gamla konan var þá ekki lengi að grípa orðin hennar og spyr: „Sefur hundurinn?“ „Am, vuvva uvva,“ svarar litla manneskjan. Lengra varð samtalið ekki. Þetta var fyrsta setningin, sem gömlu hjónin heyrðu litlu manneskjuna segja í lífinu. Og þá var mikið kvöld uppi á fjórðu hæð til hægri. Vuvva uvva.

     Þórbergur Þórðarson, Sálmurinn um blómið.

Svipuð undur og stórmerki gerast í fjölskyldum flestra barna þegar þau nálgast tveggja ára aldur. Eins og í dæmi Þórbergs skilja aðeins innvígðir það sem barnunginn er að reyna að segja fyrst í stað og þeir túlka fyrir hina. En framfarir barnanna eru undrahraðar og þau læra móðurmál sitt á ótrúlega skömmum tíma. Frá fyrstu „setningum“ þangað til þau eru altalandi líða ekki nema örfá ár. Þegar að er gáð kemur í ljós að sitthvað er þó enn á seyði í máltöku barna á fyrstu skólaárunum, þó framfarir þeirra veki ekki jafnauðveldlega athygli og á forskólaaldrinum. Í þessum pistli verður fjallað um hvernig börn tileinka sér málfræði frá upphafi fram á skólaár. Í fyrstu setningunum láta börn sér nægja að tengja saman 2-3 orð. Talsmáti þeirra er stundum sagður vera í skeytastíl: Þau sleppa öllum beygingum og auk þess ýmsum smáorðum sem gjarnan er reynt að spara í skeytum þar sem hvert orð er dýrkeypt. Eftir stendur: „Mamma koma“, „ekki lúlla“, „meiri mjólk“, „abbú úti“. Fljótlega fara börnin að beita einhverri málfræði og setningarnar lengjast smátt og smátt. Þau fara að beygja sagnir og fallorð, nota forsetningar og önnur smáorð. Beygingarkerfi íslenskunnar er ákaflega flókið og óreglulegt. Í fyrstu atlögu einfalda börnin það til muna, eins og nokkur dæmi úr máli Sigurðar litla bera vitni um. Dæmin voru skráð á örfáum dögum í kringum þriggja ára afmælisdag hans, en í þann mund var hann að átta sig á því að eign er gjarnan gefin til kynna með endingunni -s.

„Halli tók kofann Valurs, Arons og migs og henti honum í bálið.“

„Minn bíll er rauður og Valurs líkas.“

„Sjáðu mamma: migs og þigs“ (sagt um leið og hann benti á skóna sína og skó móður sinnar sem raðað hafði verið hlið við hlið).

Það vekur athygli að „villurnar“ sem drengurinn gerir eru flestar í fullu samræmi við íslenskar beygingarreglur (að vísu ekki eignarfallsendingin á „líka“!), þó þær eigi ekki við um einmitt þessi orð. Mig – migs, þig – þigs, hann – hans. Sama er uppi á teningnum varðandi aðrar beygingar. Á grundvelli málsins sem börnin heyra talað finna þau eitthvað sem kalla má „stofn“ orða. Þessum stofni leitast þau við að halda óbreyttum og bæta síðan við hann beygingarendingum. Fyrir hverja tegund beygingar draga þau fram algengasta mynstrið og beita því um nokkurt skeið bæði þar sem það á við og þar sem hefðbundið er að nota sjaldgæfari beygingarmynstur. Þannig beygja þau allflestar sagnir veikt í þátíð; bæta ?di, ?ði eða ?ti við stofninn. Eins og synda er í þátíð synti, verður binda – binti, gefa – gefði, taka – takti, bíta – bítti, láta – látti. Sambærilegum aðferðum beita þau í glímu sinni við aðra beygingarflokka. Í íslensku er algengast að fleirtala karlkynsnafnorða sem enda á ?ur taki fleirtöluendinguna ?ar, eins og hestur – hestar. Þessa reglu yfirfæra börnin á fleiri orð: fótur verður í fleirtölu fótar, hvalur verður hvalar o.s.frv. Lýsingarorð stigbreyta þau reglulega: ljótur – ljótari – ljótastur, stuttur – stuttaristuttastur, góður – góðarigóðastur. Atli er sætur og Beta sæt, Daði er vitur og . . .

“ . . . hún Elín er svo vit.“Móðir: „Meinarðu að hún sé vitur?““Nei, hún er ekki strákur.“ (Guðrún, 4ra ára)

„Ég bjó . . . nei við bjóum til fjórar bollur handa okkur og þrjárar handa ykkur.“ (Ari, 3ja og hálfs árs)

Stig af stigi endurskoða börnin beygingarkerfi sín og smátt og smátt verða fleiri beygingar réttar. Á undraskömmum tíma ná þau valdi á öllum grundvallaratriðum málfræðibeyginga í íslensku. Um það bil sem börn hefja skólagöngu, 5 eða 6 ára gömul, hafa þau viðað að sér miklum orðaforða, þau kunna heilmikið í málfræði, setja fram fullskipaðar setningar og geta haldið uppi samræðum um fjölbreytileg efni við kunnuga og ókunnuga. Við nánari athugun kemur þó í ljós að við beygingar orða beita þau enn þeirri meginreglu að halda stofninum óbreyttum og bæta við hann endingum. Margt fleira er ólært, m.a. varðandi sjaldgæfar málfræðibeygingar og óreglulegar. Milli sex og átta ára aldurs verða miklar framfarir í kortlagningu barnanna á frumskógi íslenska beygingarkerfisins. Örfá dæmi úr íslenskum rannsóknum á barnamáli gefa vísbendingar um þessa þróun. Í könnun á þekkingu 5 til 10 ára íslenskra barna á þátíðarmyndum sterkra sagna hækkaði hlutfall réttra svara úr u.þ.b. 50% hjá sex ára börnum í 85-90% hjá 8 ára börnum (Samkvæmt niðurstöðum úr könnun höfundar sem ekki hefur komið út á prenti). Samsvarandi þróun kom í ljós þegar könnuð var fleirtölumyndun nafnorða. Svo dæmi sé tekið höfðu aðeins 30% 6 ára barnanna orðið „fótur“ rétt í fleirtölu, langflest hinna notuðu enn fleirtöluna „fótar“ (9). Í hópi 8 ára barna hafði hlutfallið snúist við og nú svöruðu 70% með réttri fleirtölu, 30% með rangri. Það er eftirtektarvert að mörg þeirra orða sem hvað lengst eru rangt beygð eru mjög algeng og hafa sum verið í orðaforða barna frá upphafi: „fótur“, „maður“, „bíta“, „drekka“, „leika“, „sækja“. Ekki vantar að börnin hafi heyrt réttar beygingar þessara orða, jafnvel oft á dag. „Fótur“ er algengara en „hestur“, auk þess sem hestur er oftar einn á ferð en fótur, yfirleitt eru fætur a.m.k. tveir saman. Samt sem áður er fleirtala af hestur rétt hjá öllum 4ra ára börnum, en fram eftir öllu segja þau „fótar“, „maðar“ eða „mennir“ og fleiri orðmyndir sem þau heyra fullorðna aldrei nota. Þessar niðurstöður leiða hugann að því hvernig börn læra málfræði. Hvernig nýta þau fyrirmyndir og leiðréttingar? Foreldrar og aðrir samferðamenn eiga sinn þátt í kraftaverkakenndum námsafrekum barnanna sem læra allar grundvallarreglur móðurmálsins á 2-3 árum. Aðferð þeirra við máluppeldið felst ekki í leiðréttingum: Flestir foreldrar ungra barna leiða að mestu hjá sér málfræðivillur en beina athyglinni þess í stað að inntaki þess sem barnið er að segja, merkingunni. Og þessi aðferð gefur góða raun. Rannsóknir leiða í ljós að foreldrar barnanna sem best fer fram í máltökunni gefa mestan gaum að inntaki þess sem börn þeirra segja og leggja eitthvað til málanna sem fær þau til að halda áfram samtalinu. Jafnmótsagnakennt og það hljómar virðast foreldrar stuðla best að framförum barna í málfræði með því að leiðrétta ekki villurnar á fyrstu árunum. Hins vegar gefur góða raun að endurtaka það sem barnið beygði rangt þannig að villurnar eru leiðréttar, en án þess að segja beinlínis að barnið hafi sagt eitthvað vitlaust. Barnið segir: „Ég bítti í eplið,“ og foreldrið segir: „Beistu í eplið? Og var það gott?“ Endurtekur semsé það sem barnið sagði en gefur jafnframt til kynna að inntak þess hefur skilist og maður vill fá meira að heyra. Segja má að börn hafi innbyggða málfræðiklukku. Þótt fullorðnir tali alltaf eins og oftast rétt, endurtaki og leiðrétti, vinna börn á mismunandi hátt úr því sem þau heyra fyrir sér haft eftir þroskastigi og aldri. Þó reynt sé að kenna þeim tiltekið málfræðiatriði virðist það bera sáralítinn árangur fyrr en tíminn er kominn og barnið er tilbúið. Þannig eru börn að tileinka sér grundvallarreglur í málfræði og setningafræði á árunum tveggja til fjögurra, fimm ára. Þegar fimm ára barn beygir sögnina að binda í þátíð binti ber „villan“ því vitni að það er á réttri leið: Það hefur uppgötvað regluna sem gildir um flestar sagnir af þessu tagi: synda?synti, kynda?kynti, þó það hafi ekki enn áttað sig á því að reglan gildir ekki um þessa tilteknu sögn – að því kemur síðar. Á þessu stigi er hugsanlega misvísandi fyrir barnið að leiðrétta „villuna“. Hins vegar kemur að því að barnið endurskoðar þá reglu sem um ræðir og nýtir þá upplýsingar í málinu sem það leiddi áður hjá sér. Og næmir foreldrar laga sig að þessu: Á skólaárunum, þegar börn eru í óðaönn að læra sértækar og sjaldgæfar beygingar og eru auk þess orðin fær um að velta meðvitað fyrir sér formi málsins (sjá glugga um meðvitaða málkennd), leiðrétta þeir markvisst málfræðivillur sem voru látnar óátaldar meðan barnið var að byggja hina breiðu undirstöðu og átti auk þess erfitt með að fjalla um mál sitt út frá formi en ekki innihaldi. Flest málfræðiatriði læra börn stig af stigi án þess að beina kennslu þurfi til. Eftir standa atriði sem virðast ekki ganga inn í málvitund einstaklinga á sama hátt. Sem dæmi má nefna þátíðarform sumra sagna, t.d. þiggja, velja, róa og höggva. Í þátíðarprófinu, sem áður var nefnt, beygði aðeins eitt af hverjum sex 10 ára barna þá fyrstnefndu rétt, þá síðastnefndu eitt af hverjum fjórum. Annað dæmi er fallanotkun með sögnum eins og „hlakka“ og „kvíða“, sem taka með sér nefnifall en ekki þolfall eða þágufall eins og flestar aðrar sagnir sem merkja hugarástand og líðan. Af stórum hópi 11 ára barna reyndist aðeins fimmtungur nota nefnifall með sögninni „hlakka“ og þriðjungur með sögninni „kvíða“ (2). Athugun á litlu úrtaki 9 ára barna benti ekki til framfara á þessu sviði milli 9 og 11 ára aldurs, hlutfall réttra svara var því sem næst óbreytt. Atriði sem þessi virðast þurfa markvissa umfjöllun og leiðréttingar til þess að börn tileinki sér það sem rétt er talið.

Vitþroski á æsku- og unglingsárum

Flestum fræðimönnum ber saman um að frá 6-7 ára aldri taki að gæta róttækra breytinga á hugsunarhætti barna. Þær endurspeglast í skilningi þeirra á öllum sviðum, í aðferðum þeirra við lausn viðfangsefna, samskiptum við fólk o.s.frv. Í stuttu máli felast breytingarnar í því að börnin byggja mat og niðurstöður í vaxandi mæli á rökhugsun. Forsendur þess eru m.a. sem hér segir: Börnin láta ekki lengur staðar numið við það sem sýnist, eins og yngri börnum er tamt. Þó svo virðist t.d. sem meiri ávaxtasafi sé í háu mjóu glasi en lægra víðara glasi (svo notað sé dæmið um safatilraunina úr pistli um vitþroska í bernsku), áttar skólabarnið sig á því að þar með er ekki öll sagan sögð. Í fyrsta lagi eru fleiri hliðar á glösunum en hæð, og víddin á glasi A vegur upp hæðina á glasi B. Skólabarnið lætur ekki nægja að skoða eina hlið aðstæðna, heldur nýtir nú betur en áður þær upplýsingar sem völ er á og tengir þær saman í huga sér áður en ályktun er dregin. Í öðru lagi tengja börnin núverandi ástand við ferlin sem leiddu til þess: Var ekki jafnmikill safi upphaflega í glösunum tveimur? Þá hlýtur að vera jafnt ennþá, þó svo annað kunni að virðast. Ekki þyrfti annað en að hella aftur úr B í A til þess að sannreyna það. Skólabarninu er þetta augljóst: Fyrst jafnt var í upphafi þarf ekki að hella úr B í A til þess að vita hver útkoman verður nú. Þessi vissa endurspeglar enn einn mikilvægan áfanga í vitrænni þróun barnsins: Athafnir, samanburður þeirra og tengingar, sem forskólabarnið þarf að framkvæma í raun, getur skólabarnið gert í huganum og dregið af þeim ályktanir um það sem muni gerast. Þær breytingar sem verða á hugsunarhætti barnsins og skilningi gerast ekki á einum degi; nær lagi væri að líkja þeim við snjóbolta sem veltur af stað niður brekku. En smátt og smátt koma þær fram á öllum sviðum og setja mark sitt jafnt á aðferðirnar sem barnið beitir við lausn viðfangsefna, niðurstöðurnar sem það kemst að og rökin sem það færir þeim til stuðnings. Nýr hugsunarháttur hefur í för með sér nýja heimsmynd, nýjan skilning á heiminum, sjálfum sér og öðrum. Hann ryður smátt og smátt úr vegi mörgum þeim takmörkunum sem gerðar voru að umtalsefni í kafla um vitþroska á bernskuárum. Hugsun barnsins verður sveigjanleg, það kerfisbindur sambönd milli hluta og atburða og myndar hugtök sem eru grundvallaratriði í daglegu lífi jafnt og skólastarfi, svo sem tími, flokkur, röð, fjöldi, efnismagn o.fl. Áður voru ekki til nein algild lögmál, nú fela ákveðnar upplýsingar óhjákvæmilega í sér aðrar. Áður var allt breytingum undirorpið, ekkert var endilega varanlegt, nú gerir barnið sér grein fyrir að þó t.d. útlit fólks og hluta breytist, haldast ýmsir eiginleikar þeirra óbreyttir. Á skólaárunum fleygir rökhugsun barna fram. Fram undir unglingsár er hún þó mjög hlutbundin, viðfangsefnin þurfa helst að vera raunverulegir hlutir og aðstæður sem börnin annaðhvort sjá og skynja eða geta séð fyrir sér. Það vefst fyrir þeim að fást við hugtök sem ekki tengjast efnisheiminum beinlínis og sömuleiðis að draga ályktanir af upplýsingum sem þau fá einvörðungu í orðum. Óhlutstæðrar rökhugsunar fer að gæta upp úr 11-12 ára aldri og hún þróast síðan alla ævi. Unglingar verða í vaxandi mæli færir um að draga rökréttar ályktanir á grundvelli munnlegra staðhæfinga, ímyndaðra aðstæðna, fræðilegra möguleika. Þeir geta ályktað út frá gefnum forsendum, hvort sem þær eru í samræmi við raunveruleikann eða ekki. „Ef allir Marsbúar eru grænir og þú værir Marsbúi, hvernig værir þú þá á litinn?“ Yngra barn mundi strax segja: „En ég er ekki Marsbúi!“ og þar með væri þessi fáránlega spurning útrætt mál! Unglingur sem beitt getur formlegri rökhugsun er hins vegar mjög upptekinn af „ef . . . “ spurningum á öllum sviðum. Getur hugsað upp endalausa möguleika, mátað þá og metið. Aðferðir sem unglingnum verða tiltækar við lausn viðfangsefna bera einnig vott um framfarir hans í óhlutbundinni hugsun. Í glugganum um formlega rökhugsun er dæmi sem opinberar muninn á aðferðum barna og unglinga við lausn flókins tilraunaviðfangsefnis. Enn erfiðara er svo að draga rökréttar ályktanir út frá staðhæfingum sem ekki tengjast neinu raunverulegu eða áþreifanlegu, eins og lesandinn sjálfsagt hefur reynt! Framfara í vitsmunalegri færni gætir ekki aðeins í lausn þrauta af þessu tagi, þeirra sér stað á öllum sviðum hugsunar unglingsins og heimsmyndar. Veruleikinn eins og hann blasir við hér og nú verður aðeins brot af því sem er hugsanlegt.

Samskipti og vinátta skólabarna

Á æskuárunum (6-12 ára) tekur skilningur barna á félagslegum samskiptum stakkaskiptum. Þar skiptir sköpum vitundin um að aðrir hafa ekki sama sjónarhorn og barnið sjálft, túlkun hinna á sameiginlegri reynslu getur verið frábrugðin, langanir þeirra, tilfinningar, þarfir og skoðanir aðrar. Á æskuárunum þróast stig af stigi hæfni til að greina á milli mismunandi sjónarhorna, setja sig inn í þau og bera saman sífellt fleiri sjónarmið, fjarlægari og ólíkari eigin viðmiðun. Á sama tíma þróast börn frá því að gefa mestan gaum að því sem fólk aðhefst og hlutunum sem það sýslar með til þess að líta á það sem einstaklinga með hugarheim og tilfinningar að auki. Þau skyggnast æ meira á bak við ásýnd hlutanna og átta sig betur á þeim félagslegu og tilfinningalegu öflum sem að baki búa. Aukinn félagsþroski kemur m.a. fram í hugmyndum barna um sig og aðra, sambönd sín og samskipti við samferðamenn. Hans gætir einnig í breytni þeirra gagnvart öðrum. Aukin samkennd barnsins með samferðamönnum sínum og hjálpsemi í þeirra garð ræðst m.a. af betri forsendum barnanna til að setja sig í spor annarra og skilja hvernig þeim líður.

Hugmyndir barna um vini og vináttu

Þær hugmyndir sem börn gera sér um vini og vináttu endurspegla m.a. þróun félagslegs skilnings. Frá u.þ.b. 6 ára aldri gera börn sér grein fyrir að aðrir hugsa ekki endilega eins og maður sjálfur. Þegar á hólminn er komið lýsa börn þó sambandi vina einhliða frá eigin sjónarhorni og hagsmunum. Siggi er vinur minn af því mér finnst gaman að leika við hann og af því hann lánar mér alltaf dótið sitt. Árekstrar milli vina eru einnig túlkaðir einhliða: Annar aðilinn er sökudólgur sem hinn verður fyrir barðinu á. Í samræmi við það eru sáttatillögur einatt í þágu píslarvottarins: Til þess að leysa ágreiningsmál verður mótaðilinn að taka aftur orð sín, biðjast fyrirgefningar eða afmá gerðir sínar á annan hátt. Um 8 ára aldur fara börn að geta sett sig í spor vinarins og séð sig sjálf með hans augum. „Honum leiðist þegar ég vil ekki vera með honum.“ Hugmyndin um samvinnu kemur fram: Vinir hjálpa hvor öðrum. Hugsunin að baki er þó oftast af hagnýtum toga: Ég geri eitthvað fyrir vin minn til þess að hann geri annað fyrir mig – ekki bara vegna þess að ég hef ánægju af því að gleðja hann. Þau geta ekki enn samræmt sjónarmið og hagsmuni tveggja, málin eru skoðuð frá sjónarmiði annars aðilans í senn. Barnið skynjar ekki vináttusambönd sín sem ýkja varanleg; það lítur svo á að vinátta standi á meðan hvor aðili um sig er ánægður með það sem hann fær út úr sambandinu. Það er í lok bernsku og upphafi unglingsára (11-12 ára) sem börn fara að lýsa vinum sínum og sambandi við þá út frá gagnkvæmri væntumþykju og skilningi. Þá fyrst mundu þau sennilega taka undir orð Gunnars á Hlíðarenda: „Góðar eru gjafir þínar, en meira þykki mér vert vinfengi þitt ok sona þinna.“

Samskipti barnsins við vini og jafnaldra

Á aldursbilinu 6-12 ára eru ýmsar veigamiklar breytingar að verða á lífi barna. Þau hrærast í stærra samfélagi en áður, hlutverk þeirra breytist og væntingar til þeirra sömuleiðis. Í heimi forskólabarnsins eru reglur og tímasetningar sveigðar að þörfum þess. Í skólanum gengur eitt yfir alla og mun meiri kröfur eru gerðar um að börn hafi stjórn á sér og standi á eigin fótum. Þau eyða sífellt meiri tíma með jafnöldrum sínum, og þar sem þau voru gjarnan tvö að leik á forskólaárunum verða fjölmennari leikhópar nú algengari. Í skólanum myndast jafnaldrahópar sem móta sínar eigin reglur og viðmiðanir, fjarri augum foreldra og annarra fullorðinna. Þær breytingar sem verða á þroska barna og félagslífi á æskuárunum krefjast þess að barnið endurskipuleggi bæði persónulegt og félagslegt öryggiskerfi sitt. Náin tengsl við foreldra og fjölskyldu eru áfram mikilvægar burðarstoðir þess, en auk þeirra skipa vinir og jafnaldrar stóran sess. Í mótun sjálfsmyndar keppa viðbrögð þeirra í vaxandi mæli við foreldrana sem áður voru ríkjandi viðmiðun. Við mat á gjörðum sínum miða yngri börn við algildar viðmiðanir um það sem er leyfilegt eða bannað, gott eða illt; nú beita þau meira samanburði við önnur börn. Til skjalanna kemur nauðsyn þess að falla í kramið í samfélagi jafnaldra. Sjálfstraust og öryggi byggist á viðurkenningu vina og stuðningi í ólgusjó félagslífsins. Vináttubönd æskuára líkjast að ýmsu leyti geðtengslum við foreldra í frumbernsku. Nærvera vinar veitir öryggi við ógnandi eða ókunnugar aðstæður. En tengsl vina eru hins vegar mun brothættari og ótryggari á þessum árum en venslin við foreldra og systkini. Þó vinir finni til ábyrgðartilfinningar hvor gagnvart öðrum er hún ekki mjög áreiðanleg – hana þarf endalaust að staðfesta og endurnýja. Þegar maður leggur eyru við samtölum vina – og ekki síst vinkvenna – kemur í ljós að þau snúast að verulegu leyti um þetta: Að þreifa fyrir sér um sameiginlegar viðmiðanir í hegðun og skoðunum, sem aftur ákvarða hverjir eru viðurkenndir og hverjir útilokaðir úr þeirra hópi. Þessum skilgreiningum er gjarnan náð fram með neikvæðum formerkjum, þ.e.a.s. með umtali um krakka og annað fólk sem ekki hegðar sér „rétt“ og ekki hefur þau viðhorf sem vinirnir standa fyrir. Slúður um fjarstadda gerir barni kleift að kanna viðhorf vinar, án þess að taka áhættuna sem því fylgir að láta strax upp sína eigin skoðun og stefna þannig í voða eigin stöðu í hópnum. Viðbrögð vinarins getur hann síðan haft til hliðsjónar við frekari mótun eigin afstöðu og hegðunar. Samskiptin við jafnaldrana verða tilefni sterkra tilfinningalegra viðbragða á þessum árum. Barn verður niðurbrotið ef því er hafnað af vinum, harmi slegið ef það er svikið. Og á hinn bóginn ákaflega stolt yfir afrekum sem styrkja stöðu þess í hópnum: Sigri í íþróttum, hárri einkunn á prófi o.s.frv. Tilfinningasemi og væmni eru hins vegar á bannlista og börn á þessu aldursskeiði eru mjög upptekin af því að hafa stjórn á tilfinningum sínum til þess að gera sig ekki að fíflum í augum jafnaldranna. Næstum hvað sem er getur orðið asnalegt og vandræðalegt, en einkum þó það sem á einhvern hátt tengist ásta- og kynferðismálum.

Mál og frásagnir

Sá eiginleiki tungumálsins sem hvað afdrifaríkastur er fyrir hugsun mannsins og samskipti er möguleikinn á að vísa til atburða, hluta og fyrirbæra sem ekki eru hér og nú. Þessi eiginleiki málsins skiptir sköpum í öflun og varðveislu upplýsinga, lausn þrauta og skipulagningu þekkingar. Með honum er manninum líka kleift að setja fram tilgátur, rökstyðja, útskýra, segja sögur, ljúga, skálda o.s.frv. Og umræðuefni manna í milli þurfa ekki að vera í neinum tengslum við aðstæðurnar sem þeir eru í, málið frelsar viðmælendur undan takmörkunum tíma og rúms. Loks má geta þess að lestur, ritun, hlustun og formlegt nám yfirleitt byggist á notkun máls af þessu tagi. Meðal þess sem einkennir mál ungra barna er hins vegar hversu hlutbundið það er og umræðuefni bundin stað og stund. Á fyrstu stigum máltökunnar snúast umræður barna og uppalenda nær eingöngu um hluti sem eru nærtækir og athafnir sem verið er að framkvæma. Smátt og smátt eykst hæfni barna til að tala um fjarstatt fólk og hluti, atburði og athafnir í þátíð og framtíð. Lengi framan af eru þau þó háð samstarfsþýðum viðmælanda sem hjálpar þeim að orða það sem þeim liggur á hjarta, spyr viðeigandi spurninga og getur í allar eyðurnar. Hæfni til að nota málið sem algerlega sjálfstætt táknkerfi – þ.e.a.s. fjalla um fyrirbæri, hugmyndir og atburði þannig að viðmælandi skilji af frásögn barnsins einni saman – krefst vitþroska, félagsþroska og málleikni, sem allt þróast á löngum tíma. Flest börn eiga fram á skólaár erfitt með að segja á skiljanlegan hátt frá atburðum sem viðmælandi þeirra hefur ekki orðið vitni að eða útskýra fyrirbæri sem ekki eru sjáanleg; því minna sem barnið þekkir viðmælandann og því minna sem það getur vísað til sameiginlegrar reynslu og þekkingar, því erfiðara. Málnotkun af þessu tagi er raunar sá þáttur tungumálsins sem mest er í mótun á skólaárunum. Í íslenskri rannsókn á þróun frásagnarhæfni reyndi á færni í að nota málið á þennan hátt. Þátttakendur fengu í hendur myndabók, sem enginn þeirra þekkti fyrir, þar sem rakin er saga í myndum án texta. Sagan fjallar um lítinn dreng, hundinn hans og frosk sem drengurinn hefur fangað og sett í krukku í herberginu sínu. Þegar kvöldar fara drengurinn og hundurinn að sofa, en í skjóli nætur strýkur froskurinn. Myndirnar rekja síðan leit drengsins og hundsins að froskinum; leit sem berst víða og leiðir þá félaga í svaðilfarir og ævintýri. Í sögulok finna þeir frosk og snúa ánægðir heim með hann. Niðurstöður leiddu í ljós stórstígar framfarir á öllum sviðum málnotkunar milli 5 og 9 ára aldurs. 5 ára börnin gátu ekki sagt söguna þannig að efni hennar væri ljóst áheyranda sem ekki var henni kunnugur fyrir eða hafði myndirnar fyrir framan sig. Raunar sögðu þau ekki eiginlega sögu, heldur lýstu því sem fyrir augu bar á hverri mynd fyrir sig, án þess að tengja atburðina saman með söguþræði. Og í lokin datt botninn einfaldlega úr frásögn þeirra eða þau sögðu: „Búið!“ Saga Sveins (5 ára og 5 mán.) er gott dæmi um sögur úr þessum aldursflokki:

Þessi er að kíkja – nú eru þeir að sofa – froskurinn er horfinn – þessi dettur niður – brotnaði skálin – og hundurinn þeirra er að kíkja upp í loft – svo datt það bara niður – svo fór hann upp í tréð – svo datt hann – svo – fer hann upp á – svo fór hann upp á dýrið – svo datt hann ofan í sjó – svo, hérna, fór hann upp úr – og reyna að komast – hérna eru þeir komnir upp úr – tók einn – frosk.

Eins og flestum börnum á hans reki láist Sveini að að kynna sögupersónur og draga upp sögusvið fyrir hlustanda sinn. Hann stekkur formálalaust inn í einhvers konar atburðarás, þannig að hlustandinn hefur engar forsendur til að vita hver „þessi“ er sem kíkir, á hvað hann er að kíkja og hvers vegna. Þess utan notar Sveinn, eins og jafnaldrar hans flestir, persónufornöfn (t.d. „hann“) þannig að ekki er ljóst af samhenginu um hvern verið er að tala hverju sinni. Allt tengist þetta hugsunarhætti barna á forskólaaldri. Eins og fram hefur komið (sbr. pistla um vitþroska og félagsþroska í bernsku) eiga þau erfitt með að setja sig í spor annarra og átta sig því ekki á hversu miklar upplýsingar þarf að gefa hlustandanum til þess að hann geti fylgst með í frásögninni. Um 7 ára aldur hefur börnum farið mikið fram í frásagnarhæfni. Sögur flestra þeirra hafa einhvers konar inngang, a.m.k. slitur úr söguþræði og sögulok. Enn vantar þó talsvert á að óinnvígður hlustandi geti fylgst með framvindu sögunnar af frásögn barnanna einni saman. Meðal annars nota þau enn persónufornöfn þannig að ekki kemur fram um hvern verið er að tala hverju sinni, hver er að leita og að hverjum. Einnig eiga sum erfitt með að greina milli aðalatriða og aukaatriða og leiða gjarnan hlustendur sína út í móa í eltingaleik við atriði sem engu máli skipta fyrir framvindu sögunnar. Auðvelt var hins vegar að skilja sögur 9 ára barna án fyrri þekkingar eða stuðnings við myndirnar. Persónum er vel til skila haldið og notkun fornafna orkar sjaldan tvímælis. Í sögunni sem tekin er sem dæmi (sjá glugga með sögu Sigrúnar, 9 ára) og er nokkuð dæmigerð fyrir þennan aldursflokk er sviðsetning ítarleg, leitin að týnda froskinum myndar rauðan þráð í gegnum alla atburði sögunnar og í sögulokunum felst lausn sem ekki miðast aðeins við drenginn Ara, heldur tekur hún einnig á mannúðlegan hátt mið af fjölskyldu frosksins! Þegar saga er sögð tekur sögumaður annars vegar mið af heildarhugmynd um efni hennar og byggingu, og hins vegar þarf hann að velja hugmynd sinni orð, orðunum beygingar, tengja þau saman í setningar og setningarnar í stærri heildir. Eftir því sem heildarhugmynd barnanna um söguna verður skýrari beita þau flóknari beygingum og tengingum. Yngstu börnin nota nær eingöngu einfalda nútíð og þátíð. Þegar sögurnar verða ítarlegri og flóknari þurfa börnin á fleiri blæbrigðum að halda og nota í sívaxandi mæli samsettar tíðir, viðtengingarhátt o.fl. Í sögu Sigrúnar er t.d. sviðsetning sögunnar í þátíð, aðdragandi atburðarásar í þáliðinni tíð og sjálfur söguþráðurinn í nútíð. Svipuðu máli gegnir um tengingu setninga. Fyrstu tilraunir til að tengja atburði sem lýst er í einni setningu við þá sem gerast í þeirri næstu felast í að raða þeim í tímaröð með mjög einhæfum tengingum: Fyrst gerist þetta, svo hitt, og svo . . . og svo . . . (sjá sögu Sveins). Í sögum 5 og 7 ára barnanna í rannsókninni sem hér er stuðst við (8) byrjaði að meðaltali þriðjungur setninga á tengingum af þessu tagi, en til samanburðar hófst aðeins ein af hverjum þrjátíu setningum á þennan hátt hjá fullorðnum sögumönnum sem tóku þátt í rannsókninni. 9 ára börnin takmarka frásögn sína ekki lengur við það sem beinlínis sést á myndunum, eins og 5 og 7 ára börnin gera. Í sögum þeirra er líka fjallað mun meira um orsakatengsl atburða, tímasetningar, túlkanir ýmiss konar og lýsingar á hugarástandi, ásetningi og tilfinningalegum viðbrögðum sögupersóna (sjá t.d. upphafslínur úr sögu Sigrúnar, 9 ára). Samfara þessu beita þau mun fjölbreytilegri tengingum milli setninga en yngri börnin (af því að, enda þótt, á meðan . . . ). Enn komast þau þó ekki með tærnar þar sem fullorðnir sögumenn hafa hælana í þessu efni, enda langt í land að þau nái frásagnartækni þeirra.

Sjálfsmynd unglingsins

Unglingsárin eru mikið umbreytingaskeið í lífi hvers og eins. Samfara kynþroska tekur unglingurinn vaxtarkipp: Barnið breytist á örfáum árum úr barni í fullvaxta og kynþroska konu eða karlmann. Vitþroski tekur stökk; það sem áður var viðtekinn sannleikur verður afstætt. Viðhorf annarra og væntingar breytast verulega. Til unglingsins eru gerðar vaxandi kröfur og í stað viðurkenningar og velvildar sem áður var ríkjandi í viðmóti hinna fullorðnu er nú gjarnan grunnt á tortryggni, fordómum og vantrú. Allt leiðir þetta til þess að enn einu sinni stokkar barnið/unglingurinn upp heimsmynd sína, samskiptakerfi og sjálfsmynd.

Staða unglinga í samfélaginu

Til skamms tíma var staða unglinga í samfélaginu ekki skýrt afmörkuð á Íslandi. Í landbúnaðarsamfélaginu fengu þeir innsýn í flest þau störf sem hinir fullorðnu stunduðu. Fermingin var síðan formleg manndómsvígsla eða inntaka í samfélag fullorðinna. Í iðnvæddu borgarsamfélagi nútímans er annað uppi á teningnum. Verkaskipting er svo flókin að unglingurinn er alveg óskrifað blað í atvinnulegu tilliti, samfélagið hefur ekki þörf fyrir hann strax, hann er ekki tilbúinn. Í hönd fer alllangt skeið þar sem unglingurinn á að búa sig undir þátttöku í samfélagi hinna fullorðnu, án þess þó að skýrt sé kveðið á um hvert hlutverk hans eigi að verða. Þar við bætist að samfélagið breytist svo ört að það er til lítils að hafa fullmótaðar hugmyndir um starf sem verður kannski ekki til eða gerbreytt þegar til á að taka. Þannig er komið tímabil á milli tektar og tvítugs þar sem unglingnum er ætlað að vera í mótun og biðstöðu í senn. Það er því miklu meira svigrúm fyrir sérstöðu unglingsins heldur en var til skamms tíma. Markaðurinn hefur meðtekið þetta til hlítar og mótað sérstaka tísku og afþreyingu fyrir unglinga. Við getum ímyndað okkur að þessi þróun hafi haft töluverð áhrif á sálarlíf unglinga og sjálfsmynd. Að afstaða unglings hafi verið önnur í samfélagi sem byggt var upp eins og boðhlaup þar sem hinir fullorðnu réttu unglingnum keflið og hann var öllum hnútum kunnugur í framhaldinu, heldur en í þeirri óljósu mótunarbiðstöðu sem hann er settur í nú, þegar honum er ætlað að hætta að vera barn án þess að vera orðinn fullorðinn. Barn fer létt með að leika veröld hinna fullorðnu, á einu andartaki bregður það sér í gervi karls, kerlingar, bófa, löggu, íþróttahetju o.s.frv. En þetta er bara leikur. Unglingurinn aftur á móti stendur andspænis því að stíga skrefið og verða fullorðinn, hegða sér og hugsa eins og fullorðinn. Enn hefur hann takmarkaðan aðgang að ábyrgð og völdum sem tilheyra fullorðnum en reynir e.t.v. að tileinka sér nærtækari einkenni þeirra: Reykingar, víndrykkju, kynlíf o.fl.

Þróun sjálfsmyndar

Sjálfsmynd má kalla þær hugmyndir sem einstaklingurinn hefur um sjálfan sig. Hún felur í sér allt það sem hann notar til að skilgreina sig og aðgreina frá öðrum, svo sem líkamleg einkenni og veraldleg gæði, hæfileika og færni, félagslega og sálræna eiginleika, auk heimspekilegrar afstöðu, siðrænna gilda, pólitískrar hugmyndafræði o.fl. Sjálfsmynd fullorðins teygir sig langt út fyrir það sem hann er í núinu, spannar bæði fortíð hans og langdrægari framtíðarstefnu og lífssýn. Þær viðmiðanir sem börn nota til að skilgreina sig breytast á fyrirsjáanlegan hátt með aldri, eins og svo margt annað. Áherslan færist á milli viðmiðanna sem talin voru upp hér að ofan í réttri röð: Þegar börn undir 7-8 ára aldri eru beðin um að segja eitthvað um sig sjálf nefna þau gjarnan líkamleg einkenni, eitthvað sem þau geta eða gera oft og annað sýnilegt í fari sínu. „Ég er stelpa, ég er með ljóst hár og mér finnst gaman í leikfimi.“ Eftir 7 ára aldur láta börn sér ekki nægja að lýsa því sem þau geta, heldur leggja þau áherslu á að greina sig frá öðrum með samanburði: „Ég er best í bekknum í leikfimi.“ Um skapgerðareinkenni og annað sem innra með þeim býr tala þau hins vegar lítið fyrr en í lok æskuskeiðs og það er ekki fyrr en á unglingsárunum sem þau færast í þungamiðju sjálfslýsinga. 10-12 ára börn hafa flest skýra sjálfsmynd. Hugmyndir þeirra um hæfileika sína og veikleika eru ljósar, viðhorf þeirra, langanir og markmið eru orðin nokkuð stöðug. Þau verða í sívaxandi mæli meðvituð um mat annarra á sér og sínum gjörðum. Á fyrstu skólaárunum voru viðhorf foreldra ríkjandi viðmiðun, nú keppa viðbrögð vina og jafnaldra í æ ríkara mæli við þá í mótun sjálfsmyndar. Á fyrri hluta unglingsáranna fer einstaklingurinn að lýsa sér út frá ýmsum félagslegum eiginleikum og því sem innra með honum býr, auk þess sem að framan er talið. Og loks, þó varla fyrr en á síðari hluta unglingsáranna, verða siðræn gildi, hugmyndafræði og þvíumlíkt veigamikill þáttur í skilgreiningu einstaklingsins á sjálfum sér. Sjálfsmyndin veldur börnum ekki miklum heilabrotum framan af. Á unglingsárunum verða víðtækar breytingar á þeim sjálfum og aðstæðum öllum hins vegar til þess að hún færist í brennidepil. Hraður líkamsvöxtur, kynþroski og nývöknuð kynferðisleg meðvitund gera það að verkum að unglingar upplifa sig allt öðruvísi en fyrr, enda gerbreytast þeir flestir í útliti: Stúlka sem áður var engilfríð getur allt í einu setið uppi með fílapensla, fitugt hár og óhóflegt holdafar. Strákur sem var svo sætur í fyrra vex eins og gorkúla og spegill leiðir í ljós alltof stórt nef og hýjung sem vex út úr bólugröfnu andliti. Breytingar á viðmóti margra fullorðinna frá því sem áður var eru til þess fallnar að renna stoðum undir tilfinningu unglingsins fyrir ósamræmi og upplausn. Taka má dæmi af elskulegum dreng sem á hverju ári seldi kerti til styrktar vangefnum fyrir jólin. Hann hlaut hvarvetna bestu viðtökur: Auk þess að kaupa af honum kertin buðu gömlu konurnar í hverfinu honum upp á smákökur og mjólk. En árið sem hann breyttist úr barni í ungling kom annað hljóð í strokkinn. Þegar gamla fólkið sá hann á tröppunum, slánalegan, með fríkaða hárgreiðslu og klæddan einkennisbúningi unglingsins, leðurjakka skreyttum óteljandi merkjum og nælum, kom skelfingarsvipur á andlitin og „nei, nei, nei, takk“ með hurðarskell í lás. Lesandanum er boðið að botna dæmi um annan kunningja höfundar á sama aldri sem af einskærri ljúfmennsku og kurteisi bauðst til að hjálpa klyfjaðri gamalli konu yfir götu í jólaumferðinni! Spegilmyndin sem umhverfið gefur unglingnum getur verið æði nöturleg, margir virðast búast við hinu versta og allt er lagt út á versta veg! Auk augljósra breytinga á útliti unglingsins og viðmóti annarra stuðla ýmsar innri hræringar og aukinn þroski að því að hann verður mjög upptekinn af sjálfum sér. Þær spurningar sem meðvitað og ómeðvitað leita á hann eru: Hver er ég? Hvað vil ég? Hvers vegna er ég eins og ég er? Hver eru markmið mín? Hvað vil ég verða? Hvernig finnst hinum ég vera? Unglingurinn er betur í stakk búinn til að fást við þessar spurningar en nokkru sinni fyrr. Formleg rökhugsun hefur opnað honum leið framhjá ýmsum fyrri takmörkunum, gerir honum kleift að velta fyrir sér fjarlægum möguleikum, máta sig við hugsjónir og heimspekilegar afstöður. Fram til þessa hefur hann ekki haft vitrænar forsendur til að sjá afstæði gildismats og viðtekinna venja þess samfélags sem hann er alinn upp í. Nú getur hann skoðað valkosti sína frá mörgum sjónarhornum, metið kosti þeirra og galla áður en hann velur hvað hann vill gera að sínu og hverju hann hafnar. Samskiptaskilningur hans hefur líka þróast og hann sér bæði sjálfan sig og aðra í nýju og hlutlægara ljósi en áður, samskipti sín við aðra í víðara samhengi. Höfuðviðfangsefni unglingsins verður að skilgreina sig upp á nýtt, þróa sjálfsmynd sem bæði spannar þá sem hann hafði sem barn og það sem hann vill verða. Að auki þarf hann að samræma eigin hugmyndir um sig og framtíð sína þeirri mynd sem hann sér speglast í viðbrögðum annarra. Svör við spurningunni: „Hver er ég?“ fást ekki hvað síst í gegnum viðbrögð annarra, sjálfsskilningur og félagslegur skilningur eru tvær hliðar á sömu mynt. Flestir unglingar eru fullir áhuga á hvað öðrum finnst um þá og samtöl vina á þessu aldursskeiði snúast ekki hvað síst um að fá viðbrögð á sig og umhugsunarefni sín. Þessar þreifingar taka á sig alls kyns form: Slúður um aðra, hálfkæring og brandara auk innilegra trúnaðarsamtala þar sem öll spil eru lögð á borðið. Öndvert við yngri börn verða einmitt tilfinningamálin aðalumræðuefni vina og þó einkum vinkvenna á unglingsárunum. Hvernig þeim líður, hvað þeim finnst og tilraunir til að skilja og skýra afstöðu sína og tilfinningar. Trúnaður, trygglyndi, ástúð og umhyggja verða nú þeir eiginleikar sem mest eru metnir hjá vinum.

Hlutverk foreldra

En hvert er hlutverk foreldra í lífi unglingsins? Er það ekki hverfandi úr því að veröld hans er svona sér á parti? Þannig gæti það virst og í fjölmörgum tilfellum er það svo að foreldrar fjarlægjast afkvæmið á unglingsárunum. Hætt er við að unglingurinn verði þeim á vissan hátt framandi vera, þau vita ekki hvað hann er að hugsa, hvað hann vill, hverja hann umgengst eða yfirhöfuð á hvaða róli hann er. Það sem ýtir undir að foreldrar og börn fjarlægjast er á stundum hin ríka tilhneiging unglingsins til höfnunar. Hann er ekki lengur hið meðfærilega barn sem hann var og hægt var að pakka saman eftir þörfum og hafa með í fjölskylduboð eða ferðalög. Mikilvægi foreldranna á unglingsskeiðinu er hins vegar hafið yfir efa. Einmitt af því unglingurinn er svo óráðinn og ómótaður þarf hann viðmælanda, áhorfanda, þátttakanda. Og einmitt af því hann þarf að marka sérstöðu sína þarf hann einhvern til að máta sig við og aðgreina sig frá. Nú reynir enn einu sinni á foreldrana: Vilja þeirra og getu til að laga hlutverk sitt að breyttum þroskaþörfum afkvæmisins. Á meðan einstaklingurinn var barn böðuðu foreldrarnir sig í hylli þess og ofurmati. Nú er einatt hið gagnstæða upp á teningnum: Foreldrar eru litnir gagnrýnni augum og þeir spurðir nærgöngulla spurninga. En í stað þess að snúast í vörn eða flýja af hólmi er nauðsynlegt að foreldrarnir séu til staðar sem viðmælendur og sálnahirðar. Unglingsárin hljóta jafnan að vera mikið togstreitutímabil með töluverðu tilfinningaálagi. Ekki er nóg með að sú veröld sem unglingurinn á að ganga inn í sé óljós, heldur hefur hann engan sjálfskipaðan sess í henni. Hann verður að ryðja sér til rúms, finna eigið mikilvægi. Oft sveiflast unglingar á milli fyrirfram uppgjafar, áhugaleysis og vonleysis annars vegar og harðsvíraðrar uppreisnar hins vegar. Einstaklingur sem fer í gegnum þetta mótunar? og óvissutímabil er brothætt vera sem hefur þörf fyrir sterkan tilfinningalegan bakhjarl í foreldrum sínum og öðrum ástvinum, auk vina og jafnaldra.

Hrafnhildur Ragnarsdóttir, sálfræðingur