persona.is
Þroskaskeið barna
Sjá nánar » Börn/Unglingar
Engin ein uppeldisaðferð dugir í öllum tilvikum. Börn eru hvert öðru ólík og bregðast ekki öll eins við aðstæðum. Einnig þarf að miða uppeldi við þroska barns. Þær aðferðir sem gefast vel þegar átt er við lítil börn sem eru rétt að byrja að ganga og kynnast heiminum henta síður þegar átt er við unglinga. Eðlilegt er að hvetja fimm ára barn til að leggjast til hvílu með því að lofa að lesa fyrir það sögu, en sama aðferð dugir varla á ungling. Róleg umræða um réttindi og skyldur getur hentað vel til að vekja barn á fermingaraldri til vitundar um samband þess við aðra, en svipuð umræða hentar varla fyrir fjögurra ára barn. Vegna þess að uppeldi og uppeldisaðferðir verða að mótast af þroska þess barns sem átt er við er hér lýst í stórum dráttum helstu þroskaskeiðum barnsins og einkennum þeirra með tilliti til uppeldis og þeirra krafna sem eðlilegt er að gera til barna. Skipting í æviskeið mótast að nokkru leyti af lífsskilyrðum og aðstæðum í hverju landi. Til dæmis er ekki ýkja langt síðan farið var að líta á unglinga sem sérstakan hóp með sérstaka siði. Árunum þegar eiginlegt uppeldi fer fram, frá fæðingu þar til fólk hefur öðlast fullgildan þegnrétt um tvítugt, er gjarnan skipt í fjögur skeið og segja má að sú skipting eigi sér langa hefð, bæði í fræðum um þroska barna og í hversdagsumræðu um sama efni. Fyrsta skeiðið er árin tvö frá því að barn kemur í heiminn og þar til það byrjar að tala fyrir alvöru. Annað skeiðið nær síðan til þess tíma sem það lærir að lesa og skrifa, um það bil sjö til átta ára. Þá tekur við þriðja skeiðið sem lýkur þegar barn verður kynþroska. Síðasta skeiðið nær yfir unglingsárin þar til fólk verður fullveðja. Í daglegu máli eru þessi æviskeið ekki nákvæmt afmörkuð en ekki er fráleitt að kalla fyrsta skeiðið frumbernsku. Næsta skeið fer nokkurn veginn saman við það sem kallað er bernska. Síðan má segja að æska taki við og síðast unglings? eða ungdómsár. Slík skipting er algeng í kenningum um vitsmuna? og félagsþroska barna og á sér einnig stoð í hefðum sem lúta að umönnun barna og þeim verkefnum sem þeim eru ætluð. Börn í frumbernsku eru kölluð ómálga og umönnun þeirra er um margt sérhæfð eins og orðin sem þeim eru valin lýsa best. Þau eru kölluð hvítvoðungar, reifa? og blautabörn, brjóstmylkingar og ungabörn. Orðin vísa flest til þess að hreinlæti og fæðugjöf séu mikil að fyrirferð í umönnun barna á þessum aldri.

Frumbernska

Þroski er hraðastur fyrstu árin eftir fæðingu. Spyrja má til gamans hvort rúmlega tveggja ára barn sé líkara nýfæddu barni eða fullorðnum manni. Svarið verður væntanlega að málskilningur og hreyfifærni tveggja ára trítils geri hann, þótt lítill sé, svo ólíkan ósjálfbjarga nýbura að honum svipi þrátt fyrir allt meira til fullorðins manns. Í frumbernsku hefur barn ekki stjórn á hreyfingum sínum og hvötum og skilningur þess á máli er lítill sem enginn. Það er algerlega háð öðrum um fæðu, hreinlæti og hreyfingu. Þetta ástand kemur auðvitað í veg fyrir að kröfur séu gerðar til þess nema þá í mjög óverulegum skilningi. Auðvitað eru samskipti við barnið ýmiss konar bæði í umönnun, leik og atlotum, en barninu er ekki gert að bera ábyrgð á einu eða neinu. Það byrjar rétt að læra að sumt sé bannað, þegar á það er hrópað: „Nei, ekki, uss og skamm.“ Og það fer smám saman að sinna tilmælum af einföldustu gerð. Kröfur til barna verða að mótast af hæfni þeirra og varla verða gerðar flóknar kröfur til þessara barna. Reyndar er athyglisvert að á þessum aldri eru sennilega gerðar heldur meiri kröfur til frumburða en yngri systkina, nokkuð sem rekja má til ákafa og bjartsýni foreldra. Þetta kann að skýra nokkra fylgni milli raðar barns í systkinahópi og mældrar greindar á greindarprófum, en elstu börn mælast að jafnaði með örlítið hærri greind en yngri systkini. Þó svo að félagsþroski á þessum árum sé takmarkaður er næsta víst að börn yngri en tveggja ára hafa bæði gaman og gott af samneyti við aðra, einföldum leikjum og samræðum. Enda þykir mörgum fullorðnum mjög ánægjulegt að fást við börn á þessum aldri og reyna að skilja tákn þeirra, bendingar og brölt af ýmsu tagi. Niðurstöður nær allra rannsókna á samskiptum foreldra og smábarna staðfesta að börn njóta þess með ýmsum hætti ef foreldrar eru næmir á fyrirætlanir þeirra og viðbrögð.

Bernska

Margvísleg þroskaferli þoka barni smátt og smátt frá því að vera bjargarlaust smábarn í ábyrga vitsmunaveru. Eftir því sem þroska barns vindur fram verða áhrif skilnings og hugsunar þess á hegðun smám saman meiri. Skilningur barna eykst auðvitað vegna aukinnar reynslu, en einnig vegna betra minnis og vegna aukins hæfileika barnsins til að meta og vinna með fleiri en eina hugmynd í einu. Lítið barn er að jafnaði fljótt að gleyma og virðist ekki geyma í huga sér margar hugmyndir að vinna úr eða sem gera því kleift að draga kerfisbundnar ályktanir. Hugarheimur barnsins hefur því ekki eins skipuleg áhrif á hegðun þess og síðar verður. Hegðunin mótast því mest af umhverfinu, hugdettum og umbúðalausum löngunum barnsins. Hæfileikinn til að meta aðstæður eykst þó smám saman og barnið fer brátt að geta unnið með nokkrar hugmyndir í einu. Allir foreldrar reyna að innræta börnum sínum reglur sem þau eiga að hlíta. En þeir hafa líka rekið sig á að það er ekki alltaf einfalt mál. Skilningur barns virðist til dæmis koma á undan hegðuninni. Þau gera oft eitt og annað án þess að hugsa sig um, en það lýsir hvatvísi þeirra. Börn geta vitað af tiltekinni reglu og jafnvel ætlað sér að fara eftir henni án þess þó að þeim takist það. Sem dæmi um hvatvísi barna á þessum aldri má nefna tilraun þar sem börnum á aldrinum tveggja til fjögurra ára var sagt að kreista gúmmíbolta þegar grænt ljós kviknaði á sérstökum götuvita í tilraunastofunni, en að kreista ekki þegar rautt ljós kviknaði. Börn á þessum aldri, einkum þau yngri, höfðu ríka tilhneigingu til þess að kreista boltann alltaf þegar ljós kviknaði, sama hvernig það var á litinn. Þetta má líklega rekja til þess hve stutt er frá umhverfisáreitum í athafnir hjá litlum börnum. Áður en þau fara að nota tungumálið, reglur og varnaðarorð til þess að stilla sig, bregðast þau beint við umhverfinu. Það þýðir lítið að krefja fjögurra ára barn af mikilli festu um að standa við loforð, til dæmis að snerta ekki stóra blómið í stofunni eða blóta aldrei aftur. Þegar barnið sér stóra blómið verður svo freistandi að snerta það að það verður nánast óhjákvæmilegt. Og þegar barnið verður reitt gufa reglur og loforð upp, jafnvel enn fyrr en gerist hjá fullorðnum. Slíka yfirsjón lítils barns er varla hægt að kalla svikið loforð. Aukinn orðaforði og málþroski á þátt í því að auka almennan skilning barna á umhverfi sínu. Sama gildir um hæfileika til að huga að nokkrum hlutum í einu. Eftir því sem börn þroskast verða þau sífellt hæfari til að meta mörg atriði í einu með hliðsjón af ólíkum sjónarmiðum. Það þarf til dæmis allnokkurn orðaforða og talsverða færni til þess að skilja setningu eins og „auðvitað mátt þú fara út að leika, en ekki nema þú biðjir Valgeir litla afsökunar fyrst“. Þegar börnin skilja hegðunarreglur, muna þær og geta stillt sig um að hegða sér á hvatvísan hátt með hliðsjón af þeim, verður auðvitað breyting á sjálfsstjórn þeirra. Þau verða þá ekki eins háð umhverfisáreitum og áður. Þau stilla sig með hjálp reglna. Hvatvísi barna minnkar með aldrinum og sjálfsstjórn þeirra eykst alla jafna. Reynsluleysi og vanþroskað minni setja hugsun barna skorður. Eitt af því sem einkennir barn sem er yngra en sex til sjö ára er vanhæfni þess til að skilja sjónarmið annarra eða setja sig í þeirra spor. Börnum hættir því til að skilja alla hluti afar jarðneskum skilningi, einkum með tilliti til eigin hagsmuna. Með því er ekki sagt að þau geti ekki verið blíð og sýnt öðrum samúð. Sú samúð dregur þó oftast dám af þeirra eigin stöðu. Tveggja ára barn reynir til dæmis að hugga móður sína með því að sækja handa henni bangsann sinn. Takmarkanir á skilningi barna á þessum aldri gera þau þó síður en svo erfið eða leiðinleg því að hugarheimur þeirra er afar heillandi. Mörk ímyndunar og veruleika eru líka mjög óljós á þessu æviskeiði og á þessum aldri læra þau merkingu orða með virkri túlkun og virkri notkun. Fimm ára drengur fær að vita að maður sem er í heimsókn hjá föður hans heitir Gestur. „Hvað heitirðu þá þegar þú er heima hjá þér?“ spyr sá litli alveg forviða. Spurningin varpar ljósi á það hvernig barnið reynir að skilja umhverfi sitt, en athugar ekki að orð sem hefur almenna merkingu getur líka verið sérnafn.

Æska

Ein mikilvægasta breyting sem verður á lífi barna þegar sjö ára aldri er náð er formleg skólaganga. Heimurinn stækkar og börnin öðlast nýja reynslu sem þátttakendur í bekkjarstarfi þar sem vinna þeirra og hegðun er undir smásjá. Kennari og skóli gera til þeirra nýjar kröfur. Þau reyna, bæði sjálf og með því að fylgjast með bekkjarfélögum sínum, hvernig það er að mæta þessum kröfum og eins hvernig það er að uppfylla ekki þær kröfur sem til þeirra eru gerðar. Þetta tímabil í ævi barnsins einkennist af athafnasemi og fróðleiksfýsn, bæði í leik og starfi. Sex til tólf ára börn greina sig að mörgu leyti frá tveggja til fimm ára börnum. Hugsun þeirra og aðferðir til að muna eru miklu skipulegri en áður og hæfni þeirra til að leysa bókleg og verkleg verkefni hefur aukist. Orðaforði eykst hröðum skrefum og þau skilja óhlutbundin orð smám saman betur. Þar má nefna orð sem lýsa skapgerð, tilfinningum og fyrirætlunum annarra, orð eins og heiðarlegur, sanngjarn, hjálpsamur, sár og kátur. Þó lætur þeim ekki vel að fjalla með háfleygum hætti um félagslíf eða skilning sinn á umhverfi sínu. Smám saman þroskast hæfni þeirra til að líta í eigin barm og setja sig í spor annarra. Þau verða æ færari um að aðgreina og samræma ólík sjónarmið. Þessi hæfni birtist til dæmis vel þegar taka þarf ákvörðun um í hvaða leik skuli farið. Ekki á aðeins að fara í þann leik sem „ég“ vil, heldur er lagt til að fyrst skuli farið í leikinn sem „ég“ vil en síðan í leikinn sem „þú“ vilt. Þannig er reynt að gera báðum til hæfis. Á þessum aldri sjá börnin líka að reglur eru ekki óumbreytanlegar eins og eitthvert ytra vald. Þau búa gjarnan sjálf til reglur í leikjum og leggja áherslu á að þeim skuli fylgt. Einnig eykst þörf barna fyrir vináttu. Þau verja æ meiri tíma með jafnöldrum sínum og eignast gjarnan ákveðna vini. Vináttubönd á þessum aldri mótast meðal annars af breyttum skilningi barna á vináttu og aukinni innsýn í hugarheim annarra. Hugmyndir þeirra um vináttu fela í sér að vinum falli vel hvor við annan, þeir hafi ánægju af að umgangast, hjálpist að, hafi sömu áhugamál eða segi hvor öðrum leyndarmál. Þannig leggja þau áherslu á tvíhliða samband. Ekki er nóg að aðeins öðrum falli vel við hinn, sem gæti vel verið uppi á teningnum hjá yngri börnum, heldur verða tilfinningarnar að vera gagnkvæmar. Algengast er að börn á þessum aldri sækist einkum eftir samvistum við önnur börn af sama kyni. Vinir deila áhugamálum og leyndarmálum, skiptast á skoðunum og bindast tilfinningalega. Í slíkum samskiptum þroskast félagsleg hæfni barna mikið, jafnvel meira en í samskiptum við fullorðna að mati sumra. Sjálfsvitund þeirra þroskast einnig. Börn öðlast öryggi við að eiga vini og hefur sú tilfinning jákvæð áhrif á þá mynd sem þau hafa af sjálfum sér í samskiptum við aðra. Börn sem ekki eiga vini og er jafnvel hafnað í félagahópi sýna minni félagshæfni en önnur börn. Til dæmis eiga vinalítil börn erfitt með að tileinka sér almennar reglur í samskiptum sem lærast í félagahópnum, svo sem tillitssemi, og skipta svo miklu máli um hvernig þeim gengur að aðlagast hópnum. Einnig hefur komið í ljós að jákvæð viðhorf barna til skólans litast mjög af tengslum þeirra við bekkjarfélaga í upphafi skólaárs og því hvort þau eiga vin eða vini í skólanum.

Ungdómur

Kynþroskaaldurinn er viðburðaríkur fyrir börn. Þau vaxa hratt og útlit þeirra breytist eftir því. Þau fara að sýna gagnstæðu kyni aukinn áhuga. Sumir tala einnig um að unglingar á tilteknum aldri séu svo uppteknir af sjálfum sér og kunningjahópi sínum að heimsmynd þeirra verði næstum eins takmörkuð og barna á bernskuskeiði. Sú tilhneiging að apa alla hluti eftir næsta unglingi gengur þó tiltölulega fljótt yfir. Ástæða er til þess að vekja athygli á því að fáar rannsóknir staðfesta það, sem stundum er sagt, að unglingsár séu tiltakanlega erfitt æviskeið. Auðvitað er þroski unglinga margvíslegur og þau verkefni sem unglingur þarf að takast á við eru fjölbreytt og oft strembin. En unglingsárin eru fleiri en eitt og fleiri en tvö og því fer fjarri að öll þroskaverkefnin dembist yfir unglinga á sama tíma. Einnig aukast smám saman hæfileikar unglinganna til að takast á við vanda, móta sjálfsmynd sína, framtíðaráform, kynímynd og fleira. Þá benda flestar rannsóknir líka til þess að kynslóðabilið, mikill ágreiningur unglinga og foreldra um hvað gefi lífinu gildi, sé fyrirferðarmeira í skáldsögum og blaðafrásögnum en í veruleikanum sjálfum. Vegferð barna frá hvatvísi til sjálfsstjórnar, frá skilningsleysi til innsæis, er margþætt og flókin. Í ljósi þess er nauðsynlegt að minna á þann mikla mun sem hugsanlegt er að komi fram á þroska þeirra og þarf ekki endilega að vera áhyggjuefni uppalenda. Sum börn tala skýrt um þriggja ára aldur, önnur ekki fyrr en sjö ára. Hvort tveggja getur verið innan eðlilegra marka. Börn taka út hraðvaxtarskeið sitt á mismunandi tíma. Þannig getur verið verulegur munur á stærð tveggja unglinga á tilteknu tímabili án þess að það gefi góðar vísbendingar um stærðarmun þeirra á fullorðinsárum. Sama gildir um hæfileika. Börn eru misfljót að tileinka sér hæfni og þurfa mismikla æfingu. Þetta er mikilvægt fyrir uppalendur að hafa í huga, til þess að þeir missi ekki móðinn þegar tiltekinn þroski verður ekki nákvæmlega í samræmi við hliðstæðan þroska hjá öðrum börnum eða samkvæmt alhæfingum fræðikenninga og fróðleiksbæklinga. Hafi foreldrar hins vegar rökstuddar áhyggjur af þroska eða hegðun barna sinna er vissara að láta sérfræðinga athuga hvort tilefni sé til sérstakra aðgerða.

Sigurður J. Grétarsson, sálfræðingur og Sigrún Aðalbjarnardóttir, uppeldisfræðingur