persona.is
Þráhyggja
Sjá nánar » Árátta-Þráhyggja

Þráhyggja eru óboðnar þrálátar hugsanir, hugarsýn eða hvatir sem viðkomandi einstaklingur getur ekki sætt sig við, á erfitt með að hafa stjórn á og valda mikilli vanlíðan.  Sem dæmi má nefna heittrúaða konu sem hugsar syndsamlegar hugsanir eða maður sem telur að hann muni valda flugslysi með því að sjá það fyrir sér.

Flestir eða allt að 90% upplifa óboðnar hugsanir, hugarsýnir eða hvatir en fólk túlkar þær á ólíkan hátt.  Eini munurinn á þeim sem þróa með sér þráhyggju og öðrum er sá að þeir fyrrnefndu líta svo á að hugsanirnar séu mikilvægar og að þær segi eitthvað um viðkomandi sem manneskju.  Þá reyna þeir stundum reynt að bæla þær niður, líta framhjá þeim eða gera þær hlutlausar með annarri hugsun eða athöfnum.

Þeir sem hafa tilhneigingu til að þróa með sér þráhyggju eru oft þeir sem hafa sérstaklega sterka réttlætis- og siðferðiskennd og standa í þeirri meiningu að hugsun jafngildi gjörðum.  Þunglyndir og kvíðir geta haft tilhneigingu til að þróa hana með sér vegna þess að þunglyndir einblína oft á neikvæða skýringu á hegðun sinni og vitað er að kvíði eykur þráhyggju.

Algengustu tegundir þráhyggju eru hræðsla við sýkingarhættu, einnig að efast í sífellu um hluti, t.d. hvort gleymst hafi að slökkva á eldavélinni, og svo hugsun um ágenga eða ógnvekjandi hegðun s.s. að skaða sig eða aðra.

Þráhyggjuhugsanir (hugarsýn eða hvatir) um að skaða eigið barn voru með þeim fyrstu sálrænu kvillum sem skrifað var um í tengslum við líðan móður eftir barnsburð.  Þráhyggjan felst t.d. í því að foreldri sér fyrir sér að það skaði barn sitt með einhverjum hætti og hugsar um sorgina og áfallið í fjölskyldunni sem fylgir því. 

Þessum hugsunum fylgir aukin fjarlægð milli foreldris og barns þar sem foreldrið treystir sér ekki til að umgangast það vegna hræðslu um að missa stjórn á sér.  Niðurstöður einnar rannsóknar sýndu að af 100 þunglyndum mæðrum þá höfðu 21 endurteknar hugsanir um að skaða barn sitt og gerðu varúðarráðstafanir vegna þess og 24 treystu sér ekki til að vera einar með börnum sínum.

Þróunin á slíkri þráhyggju gæti verið á þá leið að manneskja sem er undir miklu álagi eða  reið gæti veitt óásættanlegri hugsun athygli, orðið hrædd og haldið að hún væri að verða geðveik og myndi missa stjórn á sér.  Það er mjög eðlilegt að veita því athygli sem fólk hræðist en þar af leiðandi beinist hugsunin að því.

Afleiðingar þráhyggju geta verið miklar fyrir fólk, t.d. sá ein kona það fyrir sér að hún stingi börn sín og varð þetta til þess að hún forðaðist að komast í snertingu við oddhvassa hluti, setti lás á eldhúsdyrnar og fór ekki þar inn nema í fylgd annarra fullorðinna.

Algengt er að fólk tjái sig ekki um þráhyggju sína vegna sektarkenndar og af ótta við að aðrir leggi sömu merkingu í hana og telji það slæmar manneskjur fyrir vikið.  Þessi þögn kemur hins vegar í veg fyrir að manneskjan fái hjálp og geti afsannað þá merkingu sem hún leggur í þráhyggjuna.  Innihald þráhyggjunnar er ekki vísbending um einhvers konar undirliggjandi persónuleika sem á fyrr eða síðar eftir að spretta fram og framkvæma þessa hluti.  

Meðferð við þráhyggju þar sem viðkomandi hefur ekki þróað með sér áráttu felst meðal annars í hugrænni nálgun.  Vegna þess að þráhyggju er viðhaldið með því að forðast hana er manneskjan látinn horfast í augu við þráhyggju sína hvort sem um er að ræða hugsun, hugarsýn eða hvatir og þannig gerir hún sér grein fyrir að þótt hugsunin sé óþægileg þá er hún ekki hættuleg.  Einnig er unnið með bjagaðar hugsanir s.s. að ofmeta líkur á hættu og að ýkja ábyrgðarkennd.  Síðast en ekki síst er mikilvægt að manneskjan geri sér grein fyrir því að ekki er hægt að hafa fullkomna stjórn á hugsun.