persona.is
Svefntruflanir og svefnsjúkdómar
Sjá nánar » Svefn
Hvað er svefn? Svefn er nauðsynlegur fyrir vellíðan og heilsu hvers manns. Þátt fyrir þá staðreynd er ekki ennþá nákvæmlega vitað hver tilgangur hans er en margt bendir til þess að hann sé margháttaður. Núna þekkja menn ýmsa þætti svefns, þó ekki nándar nærri alla. Núverandi vitneskju um svefn og tilgang hans svipar til þess að horfa á borgarísjaka, aðeins lítill hluti er sýnilegur berum augum en stærsti hlutinn er einhvers staðar undir yfirborðinu. Því eru spurningarnar um svefninn miklu fleiri en svörin. Svefn er ákaflega reglulegt fyrirbæri og stjórnast að verulegu leyti af fyrri vöku og tíma sólarhrings. Þannig aukast líkur á svefni hafi lengi verið vakað og að sama skapi auknast líkur á svefni á ákveðnum tímum sólarhrings, þegar líkamshiti er lægstur og önnur starfsemi í lágmarki. Svefninn skiptist í 5 svefnstig sem eru ákvörðuð út frá heilarafriti. Svefninn hefur nánast sömu uppbyggingu og form hjá öllum sem sofa eðlilega og ótruflaðir. Hver nótt skiptist þannig á milli hinna fimm svefnstiga: Um 1% næturinnar er á svefnstigi 1, sem er léttasti svefninn, um 50% á svefnstigi 2, um 20% á svefnstigum 3 og 4, djúpsvefni, og um 25% í svokölluðum draumsvefni, eða REM-svefni. Álitið er að REM-svefn og djúpsvefn, (svefnstig 3 og 4), séu mikilvægustu svefnstigin, enda kemur í ljós að styttist þau, t.d. um eina nótt, verður aukning á þeim næstu nótt eða nætur. Hjá þeim, sem sofa að jafnaði of lítið, er hægt að sjá talsverða aukningu á djúpsvefni, jafnvel þannig að svefn þrengir sér inn í vöku að degi til. Ef svefnskorturinn er mikill getur viðkomandi sofið og/eða sofnað óafvitandi. Í líkamanum er svokölluð líkamsklukka sem stýrir því hvenær menn vaka og hvenær þeir sofa. Þessi klukka stjórnast að verulegu leyti af reglubundnum birtubreytingum í umhverfinu sem hafa áhrif á framleiðslu hormónsins, melatóníns. Melatóníið myndast í svokölluðum heilaköngli í heilanum og á mikinn þátt í því að stýra svefni og vöku. Þannig verða reglubundnar breytingar á líkamlegri og andlegri starfsemi mannsins á hverjum sólarhring. Hæfni manna til þess að leysa af hendi verk sín, árvekni þeirra, athygli og einbeiting er að talsverðu leyti háð tíma sólarhrings. Þekktar eru ýmsar breytingar á líkamsstarfseminni, svo sem breytingar á hitastigi og ýmsum hormónum, sem eru líka háðar tíma sólarhrings, og einnig eru þekkt vandamál því samfara að reyna að sofa og vaka á öðrum tímum en líkamsklukkan segir til um. Kunnasta dæmið um slíkt er trúlega „þotuveiki“ (jet-lag). Þá á fólk erfitt með að sofna og vakna eftir langar flugferðir, oftast yfir mörg tímabelti og sérstaklega ef flogið er í austur. Hjá ungu fólki kemur líka fyrir að líkamsklukkan seinkar sér verulega og því fylgja erfiðleikar við að sofna að kvöldi og að vakna að morgni. Sumt vaktavinnufólk lendir í ámóta vandræðum þegar það þarf að skipta um vinnutíma/vaktir. Líkamsklukka flestra gengur með um það bil 25 klukkustunda takti og á 24 stunda sólarhring fer alltaf fram ákveðin tilfærsla. Þó er talsverður einstaklingsmunur hér á, sumir eru með styttri dægursveiflu og aðrir lengri. Þetta hefur áhrif á getuna til þess að lagast að breytilegum vinnu- og svefntíma. Rannsóknir sýna að einstaklingar með stutta dægursveiflu eru yfirleitt kvöldsvæfir og árrisulir, hinir aftur á móti með löngu dægursveifluna geta auðveldlega vakað lengi á kvöldin og sofið fram eftir á morgnana. Flokkun svefnvandamála Svefnvandamál eru flokkuð á margvíslegan hátt og skilgreiningar á þeim hafa verið talsvert á reiki undanfarin ár. Í raun er það eðlilegt því að vitneskja manna um svefnvandamál hefur á sama tíma aukist hröðum skrefum. Lengi vel var svefnvandamálum skipt í nokkra meginflokka, svefnleysi (insomnia), ofsyfju (hypersomnia) og aðrar svefntruflanir (dyssomnias). Síðar bættust truflanir á svefn-vöku takti og svokallað dægurbrengl við. Þessi flokkun reyndist þó afar gölluð, sum svefnvandamál áttu kannski heima í fleiri en einum flokki eða þá að vandamál með algerlega mismunandi þekktar orsakir lentu í sama flokknum. Það skiptir því máli hvort menn flokka kvillana samkvæmt einkennum kvillanna eða eftir ætluðum eða þekktum orsökum þeirra. Vitað er t.d. að kvíði, spenna og streita geta leitt til svefntruflana og þar með til dagsyfju og þreytu og einnig geta t.d. öndunartruflanir í svefni leitt til hins sama. Hér er því um að ræða svipuð einkenni að degi til en með algerlega mismunandi orsakir. Ef flokkað er út frá ástæðum svefntruflunarinnar væri því rökrétt að flokka þessar tegundir svefnkvilla hvor í sinn flokkinn, en væri flokkað eftir megineinkenni kvillans, þ.e. svefntrufluninni sjálfri, gæti þetta fallið í sama flokkinn. Menn eru núna sammála um að þessa tvenns konar kvilla beri að setja hvor í sinn flokk þar sem orsakir þeirra eru augljóslega mismunandi. Því er ljóst að aukin vitneskja um orsakir og framgang þessara kvilla mun leiða smám saman til breyttrar og betri flokkunar og greiningar. Taka ber fram að í upptalningu á svefnvandamálum sem fara hér á eftir, er hugtökunum sjúkdómur, kvilli og truflun ekki ætlað að greina á milli alvarleika, heldur er reynt að nota þau samkvæmt íslenskri málvenju. Flest svefnvandamál nefnd hér geta verið mismunandi alvarleg og sum þeirra geta í og með verið til staðar hjá þeim sem álíta sig sofa eðlilega. Í þeim tilvikum er ekki um vandamál að ræða þótt undantekningar séu auðvitað (t.d. kæfisvefn, kippir í fótum). í flestum tilvikum er um að ræða samfelldan skala frá lítill truflun til mikillar, þar sem upplifun einstaklingsins og líðan að degi til er sá þáttur sem ræður mestu um hvort um vandamál er að ræða eða ekki. Þó verður að taka fram að í sumum tilvikum er um alvarlega sjúkdóma að ræða. Því má sjá að það flokkunarkerfi sem hér verður lýst greinir ekki einungis hvort tiltekið einkenni er til staðar, heldur er einnig leitast við að meta hversu alvarlegt einkennið er. Árið 1990 var gefin út í fyrsta sinn hin alþjóðlega flokkun á svefntruflunum (The International Classification of Sleep Disorders,1990). Sú flokkun er að flestu leyti nákvæmari og betri en fyrri flokkunarkerfi, enda byggð á mun meiri rannsóknum og þekkingu en áður hefur verið fyrir hendi. Tafla 1. sýnir megindrætti þessarar greiningar og flokkunarkerfis. Tafla 1. Fokkun svefnvandamála
1. Alvarlegar svefntruflanir. (Dyssomnias) 2. Sérstakar svefntruflanir (Parasomnias) 3. Svefntruflanir tengdar líkamlegum/geðrænum sjúkdómum
A. Svefnkvillar af innri orsökum. A. Uppvaknanir. A. Tengdar geðsjúkdómum.
B. Svefnkvillar af ytri orsökum. B. Truflanir á mörkum svefns/vöku. B. Tengdar taugasjúkdómum.
C. Truflanir á svefn/vökutakti. C. Truflanir tengdar REM svefni. C. Tengdar öðrum Sjúkdómum.
Hér á eftir verður gerð stuttlega grein fyrir helstu svefnsjúkdómunum. Skylt er að taka fram að lýsingar sem hér rúmast verða að vera afar stuttar og í stikkorðastíl. Alvarlegar svefntruflanir (dyssomnias) Truflanir sem lýsa sér í vandkvæðum við að sofna og/eða sofa, eða ofsyfju. Svefnvandamál eru flokkuð nánar, þau sem eiga sér orsakir í einstaklingnum sjálfum, eða í umhverfi hans og/eða aðstæðum og þau vandamál sem skapast af einhverjum truflunum í venjulegum svefn/vökutakti. Svefntruflanir af innri orsökum Þetta eru svefnvandamál, eða sjúkdómar, líkamlegs eðlis, og eru frumkvillar, þ.e. eru ekki til komin vegna annarra kvilla eða sjúkdóma. Þessum flokki svefnsjúkdóma tilheyra m.a. kvillar sem einkennast af of litlum svefni eða því að svefninn er óendurnærandi og ófullnægjandi. Sumir svefnsjúkdómar af innri orsökum einkennast fyrst og fremst af því að einstaklingarnir eru allt of syfjaðir, jafnvel allan daginn, líka þótt þeir fái eðlilega langan eða jafnvel mjög langan nætursvefn. Þessum flokki tilheyra því svefnsjúkdómar og kvillar sem einkennast bæði af of litlum og miklum svefni. Sállífeðlislegt svefnleysi Algeng tegund svefnleysis. Líkamleg og andleg spenna eru höfuðeinkennin og örvun fyrir svefn ásamt aðlögun atferlis að svefnleysinu, sem er oftast hegðun sem viðheldur hinu slæma ástandi. Trufluð svefnskynjun Einstaklingurinn kvartar um svefnleysi eða mjög mikla syfju án þess þó að hlutlægar mælingar staðfesti það. Svefnleysi af ókunnum orsökum Þessi greining er oftast notuð um svefntruflanir sem líta út sem venjulegt svefnleysi en hafa oftast verið til staðar næstum því alla ævi viðkomandi einstaklings. Það er freistandi að hugleiða hvort megi rekja orsökina til einhvers galla, jafnvel meðfædds, í þeirri stjórnun sem miðtaugakerfið á að hafa á svefni og vöku. Drómasýki (narcolepsy) Sjúkdómur með óþekktar orsakir. Hann einkennist af mjög mikilli syfju allan daginn, eða syfjuköstum sem koma reglulega og einstaklingurinn getur alls ekki ráðið við. Hann verður máttlaus, jafnvel svo mikið að hann getur hvorki staðið né setið en dettur jafnvel og getur átt það á hættu að meiða sig. Í kjölfarið kemur oft svokölluð svefnrofalömun. Hún lýsir sér þannig að maðurinn verður algerlega lamaður um það leyti sem hann er að sofna, getur hvorki hreyft legg né lið í skamma stund, en er með fullri meðvitund. Þessu fylgir oftast mikil vanlíðan. Einnig geta verið til staðar ofskynjanir sem koma helst þegar maðurinn er að festa blund á brá. Endurtekin ofsyfja (recurrent hypersomnia) Kvilli sem einkennist af því að áköf syfjuköst koma með ákveðnu millibili og geta staðið yfir í nokkurn tíma. Einstaklingurinn getur verið án einkenna í langan tíma, jafnvel vikur eða mánuði þess á milli. Ofsyfja af ókunnum orsökum (idiopathic hypersomnia) Sjúkdómur sem gert er ráð fyrir að eigi sér orsakir í miðtaugakerfisgalla og veldur mikilli syfju á daginn, ásamt hugsanlega eðlilegum eða lengdum nætursvefni. Ofsyfja eftir áföll (traumatic hypersomnia) Ofsyfja sem kemur í kjölfar áfalla eða slysa þar sem miðtaugakerfið verður fyrir skakkaföllum. Kæfisvefn (Sleep apnea) Öndunarhlé verða í svefni af því að öndunarvegurinn lokast eða þrengist af einhverjum orsökum (obstructive sleep apnea syndrome). En getur líka verið vegna miðtaugakerfisgalla (central apnea) sem stöðvar öndun án þess að loftvegaþrenging sé til staðar. Þetta eru þeir svefnsjúkdómar sem eru einna mest áberandi í umræðu og rannsóknum, Þeir valda miklum truflunum á nætursvefni, sem leiðir aftur til dagsyfju og þreytu, og getur haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar verði þessir sjúkdómar ekki meðhöndlaðir. Reglubundnir kippir í útlimum (periodic limb movement disorder) Um er að ræða reglubundna, síendurtekna kippi í útlimum, oftast í fótum, sem trufla svefn. Orsakir þessa kvilla eru ennþá afar óljósar og illa þekktar. Órói í fótum (restless legs syndrome) Kvilli sem einkennist af óþægindum í fótum, venjulega á kvöldin eða seinni hluta dags og veldur ómótstæðilegri þörf til þess að hreyfa fæturna. Þótt framangreindir sjúkdómar flokkist sem svefnkvillar af innri orsökum eru margir þeirra undir sterkum áhrifum utanaðkomandi atburða. Gott dæmi er ofsyfja í kjölfar áfalla, t.d. höfuðáverka. Í því tilviki myndi svefnsjúkdómurinn ekki eiga sér stað án utanaðkomandi atburðar. Annað dæmi er kæfisvefn, en ýmis utanaðkomandi áreiti geta sett hann af stað eða gert einkenni hans mun verri en ella. Dæmi er áfengisnotkun sem getur gert öndunarhlé alvarlegri, þ.e. lengir og fjölgar öndunartruflunum sem væru ekki til staðar án fyrirliggjandi þrengingar eða lokunar á efri loftvegunum. Þess má einnig geta að áfengi hefur tilhneigingu til að framkalla sjúkdóminn. Svefntruflanir af ytri orsökum Hér er um að ræða svefntruflanir sem eiga orsakir sínar utan líkamans, eða þróast sökum utanaðkomandi áhrifa. Séu utanaðkomandi áhrifin fjarlægð læknast truflunin. Þetta útilokar þó alls ekki að innri þættir geti jafnframt haft áhrif, þeir eru bara ekki nægir einir og sér til þess að valda vandamálinu. Að greina þessar svefntruflanir getur því verið þrautin þyngri. Sem dæmi má taka greininguna ófullnægjandi svefnvenjur, þar sem daglegar svefnvenjur eru ósamrýmanlegar því að fá góðan svefn. Hér er um að ræða svefnvandamál sem þróast smátt og smátt út frá eðlilegri hegðun sem ylli allflestu fólki ekki vandamálum. Óregluleg svefnmál og rismál valda því sumum vanda en ekki öðrum. Jafnvel þótt umhverfisþættir geti orsakað ófullnægjandi svefnvenjur, er það því aðeins þegar þeir fara yfir óeðlileg mörk, eins og skerandi hávaði eða ofurbirta sem truflar svefninn. Á sama hátt getur kaffi/koffein valdið ófullnægjandi svefnvenjum. Slíka svefntruflun mætti samkvæmt þessu rekja til utanaðkomandi þátta. Svefnkvillar af ytri orsökum eru þessir: Ófullnægjandi svefnvenjur Svefnvandamál sem geta skapast vegna þess að venjubundnar athafnir verða smátt og smátt ósamrýmanlegar góðum svefnvenjum. Svefntruflun sökum umhverfisáhrifa · Svefnleysi vegna dvalar í mikilli hæð Þetta er kvilli sem hrjáir fjallgöngumenn og aðra sem taka upp á því að dveljast hátt til fjalla, kannski með litlum fyrirvara. Þessu fylgir oftast höfuðverkur, lystarleysi og þreyta. · Svefntruflun vegna álags eða aðlögunarvanda Hér er um að ræða svefnleysi vegna streitu, álags, átaka eða annarra tilfallandi umhverfisáhrifa sem valda tilfinningalegu ójafnvægi. Oftast um að ræða eðlileg viðbrögð við óeðlilegu ástandi. · Of stuttur nætursvefn Vandamál einstaklinga sem að jafnaði tekst ekki að fá nægan nætursvefn til þess að tryggja sér góða líðan á daginn. · Svefnleysi vegna óljósra marka Svefnvandamál hjá börnum og skapast vegna óskýrra skilaboða frá forráðamönnum um svefntíma. · Truflun við að geta sofnað, tengt hlutum eða aðstæðum Vandamál hjá börnum sem geta ekki sofnað ef ákveðnir hlutir (t.d. bangsi, peli) eru ekki til staðar eða eru að sofna á nýjum stað. · Svefnleysi vegna ofnæmis Vandamál við að sofna og viðhalda svefni sem rekja má beint til ofnæmis fyrir einhverjum fæðuefnum (t.d. mjólk). · Næturát (drykkja) Vandamál sem lýsir sér í því að viðkomandi vaknar mjög oft á nóttu og getur ekki fest aftur svefn án þess að fá sér að borða eða drekka. Hann sofnar venjulega fljótt aftur eftir fyllinguna. · Svefntruflun vegna svefnlyfja Einkennist af svefnleysi eða of mikilli syfju og tengist auknu þoli gagnvart svefnlyfjum eða fráhvarfi eftir langvarandi notkun þeirra. · Svefntruflun vegna örvandi lyfja Minnkuð syfja eða hamlaður svefn vegna örvandi lyfja og/eða vegna fráhvarfs eftir notkun þeirra. · Svefntruflun vegna áfengisnotkunar Þegar áfengi hefur lengi verið notað til þess að geta sofnað veldur það venjulega auknu þoli gagnvart áfengi sem leiðir af sér aukna neyslu og að lokum fráhvarfseinkennum. Getur leitt til svefnleysis, minnkaðs REM svefns og sundurslitins og rofins svefns. · Svefntruflun vegna eiturefna Annað hvort svefnleysi eða ofsyfja vegna eituráhrifa, t.d. þungmálma eða lífrænna leysiefna. Truflanir á svefn-vökutakti Þessar svefntruflanir eru flokkaðar saman vegna þess að þær eiga það sameiginlegt að orsakast af undirliggjandi truflun á líkamsklukku mannsins. Megineinkenni þeirra er misræmi sem skapast milli svefnmynsturs einstaklingsins og þess sem er venjulegt eða almennt. Þannig er algengt að einstaklingurinn getur ekki sofið þegar hann sjálfur vill, þarfnast svefns eða væntir þess að sofa. Á sama hátt getur hann vakað þegar síst skyldi eða á svefntíma sínum. Oft er þá kvartað um svefnleysi eða of mikla syfju á óviðeigandi tímum. Það gildir um marga þessara kvilla að þegar viðkomandi nær loksins að sofna og sefur, er um að ræða venjulegan svefn, með eðlilegum sveiflum á milli REM og NREM svefns og með eðlilegum hlutföllum allra svefnstiga. Rétt er að benda á að truflanir á hinni 24 stunda klukku geta komið fyrir í öðrum tegundum svefnvandamála, en þá venjulega sem afleiðing af t.d. langvarandi svefnleysi eða vandamálum við að sofna, sem ekki eiga sér upphaflega orsök í truflunum á dægursveiflunni. Sem dæmi má nefna einstakling sem getur ekki sofnað sökum spennu og örvunar. Það er líklegt að ástandið seinki smám saman hinni eðlilegu 24 stunda dægursveiflu hans og svefnleysið verði mun verra en upphaflega. Einstaklingurinn er kominn í vítahring sem getur reynst erfitt að rjúfa. Svefntruflun vegna ferðalaga yfir tímabelti, „þotuveiki“ (Jet-lag) Svefntruflanirnar kalla á ýmsa erfiðleika: að sofna og viðhalda svefni, að einbeita sér á daginn, að vera syfjaður og þreyttur á daginn. Erfiðleikarnir koma í kjölfar ferðalaga yfir mörg tímabelti og eru í raun ekki svefnkvilli, heldur eðlilegt mynstur aðlögunar að nýjum tíma. Líkamsklukkan er ætíð nokkra daga að laga sig að nýjum tíma. Notast má við þá þumalfingursreglu að 12 tíma breyting taki að jafnaði allt að viku. Truflunin getur leitt til annarra svefnvandamála ef ástandið verður viðvarandi. Svefnvandi vegna vaktavinnu Einkenni svefnleysis og/eða ofsyfju og þreytu sem rekja má til síbreytilegrar vaktavinnu og/eða vinnu á óvenjulegum tíma sólarhrings. Óreglulegur svefn-vöku taktur Einkennist af óskipulögðu mynstri svefns og vöku og er oft merki um að hinn innbyggði taktur líkamsklukkunnar sé af einhverju orsökum úr lagi genginn. Getur verið vegna sjúkdóma, félagslegra erfiðleika og/eða af öðrum orskum. Seinkaður svefnfasi (Delayed sleep phase syndrome) Vandamál sem einkennist af því að líkamsklukkan hefur verið verulega seinkað. Einstaklingurinn á erfitt með að sofna og líka erfitt með að vakna á venjulegum/venjubundnum tíma. Hægt er að sannreyna þetta ástand, t.d. með hitamælingu í sólarhring eða lengur til þess að dægursveiflan sjáist. Flýttur svefnfasi Öfugt ástand við það sem var lýst hér á undan. Dægursveiflunni hefur verið verulega flýtt, einstaklingurinn verður syfjaður og sofnar allt of snemma og vaknar jafnframt allt of snemma. Ekki 24 stunda svefn-vöku taktur Einkennist af því að dægursveiflan er ekki með 24 tíma sveiflu, þess í stað styttri eða oftast lengri sveiflu. Oft er um að ræða langvarandi lengingu á dægursveiflunni. Svefnmálum seinkar oft um 1-2 klst á dag og rismálum seinkar samsvarandi. Þetta hefur verulega slæmar afleiðingar á allt í lífi viðkomandi. Sértækar svefntruflanir (parasomnias) Þennan flokk svefntruflana fyllir ýmislegt sem eru ekki óeðlilegur svefn í sjálfu sér, heldur margt óæskileg sem truflar svefninn. Þetta eru kvillar sem einkennast af uppvöknunum, algerlega eða að hluta til og af tilteknum breytingum á svefnskipulagi og svefnstigum. Margar þessara truflana eru vegna einhverrar vikjunar eða örvunar miðtaugakerfis. Virkni sjálfvirka taukakerfisins og ýmsar ósjálfráðar vöðvahreyfingar og breytingar einkenna þessar truflanir. Þeim er skipt í uppvaknanir/örvun, truflanir á mörkum svefns og vöku og truflanir tengdar REM svefni. Uppvaknanir/örvun í svefni Truflanir á svefni verða þegar svefn léttist eða vaknað er upp, oftast úr djúpum svefni (svefnstigum 3 eða 4). Að vakna upp með óráði Þetta ástand kannast margir en það kallast að verða svefndrukkinn. Svefndrukkin einstaklingur er venjulega hálfruglaður, hann er ekki viss um hvort hann sé vaknaður og er seinn til svara og verka. Hann ruglast á hlutum og fólki og man oft síðar lítið af því sem gerðist. Þetta ástand getur varað allt frá nokkrum mínútum til nokkurra klukkustunda í verstu tilvikum. Þetta er mjög algengt hjá ungum börnum og eldist venjulega af þeim. Svefnganga Einstaklingur gengur í svefni, talar eða á það til að taka sér eitthvað flókið fyrir hendur. Venjulega endar slíkt á því að hann vaknar illa áttaður og man síðar ekkert af því sem gerðist þegar svefngangan átti sér stað. Svefnganga á sér oftast stað á fyrsta þriðjungi nætur þegar mestur djúpsvefn er. Að tala upp úr svefni er af sama meiði. Allt þetta er mjög algengt hjá börnum en hverfur venjulega sjálfkrafa á táningsárunum. Næturhræðsla Einstaklingurinn vaknar skyndilega úr dýpsta svefni, oft með miklum óhljóðum og ópum og öllum einkennum mikillar hræðslu eða skelfingar. Hann veit venjulega ekki af umhverfi sínu og er oft mjög ruglaður, ef hann vaknar þá. Venjulega man fólk ekki eftir slíkum atburðum nema væri sem skelfilegum draumum. Truflanir á mörkum svefns og vöku Þessar truflanir eiga sér stað þegar einstaklingurinn er að færast úr svefni í vöku eða öfugt. Allar þessar truflanir geta komið fyrir hjá heilbrigðu fólki og eru því í sjálfu sér ekki sjúkdómar eða kvillar, en tíðni þeirra getur orðið það mikil að af verði vandamál fyrir einstaklinginn, annaðhvort í formi félagslegs vanda, eða vegna verkja, kvíða eða truflunar fyrir aðra. Taktfastar hreyfingar tengdar svefni Um er að ræða taktfastar hreyfingar höfuðs, útlima eða annarra líkamshluta sem koma fyrir á mörkum svefns og vöku, venjulega rétt áður en viðkomandi sofnar og halda áfram inn á fyrsta stig svefnsins. Algengasta tegund hreyfinga af þessu tagi eru höfuðhreyfingar hjá börnum, sem í sumum tilvikum geta verið allsnarpar og jafnvel þannig að barnið berji höfðinu í vegg eða við harða hluti. Venjulega er um að ræða algerlega heilbrigða einstaklinga, og þetta er algengara hjá drengjum en stúlkum. Svefnkippir Kippir í fótum, höndum eða öllum líkamanum og koma um það bil sem einstaklingurinn sofnar. Í nærri öllum tilvikum eðlilegt fyrirbæri. Getur tengst þreytu, streitu og í sumum tilvikum fylgir þessu tilfinning um að viðkomandi sé að detta, sé í draumi og/eða verði fyrir ofskynjun. Ekki óeðlilegt fyrirbæri og næstum því aldrei merki um undirliggjandi kvilla eða sjúkdóm. Getur í undantekningartilvikum leitt til vandkvæða við að sofna. Svefntal Tal upp úr svefni eða framköllun ýmissa hljóða. Oft óskiljanlegt muldur eða undarleg hljóð. Er venjulega stutt, kemur sjaldan fyrir og hefur litla merkingu, sérstaklega hjá börnum þar sem fyrirbærið er mjög algengt. Krampar í fótum að næturlagi Kvalafull tilfinning um vöðvaspennu eða krampa, venjulega í kálfunum, en stundum í rist eða il. Stendur venjulega stutt yfir en getur í undantekningartilvikum varað lengur. Venjulega ótengt öðrum svefntruflunum. Truflanir tengdar REM svefni Þessar sérstöku svefntruflanir eru allar tengdar REM, eða draumsvefni, á einn eða annan hátt. Þær eru flokkaðar saman vegna þess að mögulegt er að hin lífeðlislega stjórnun REM svefns sé á einhvern hátt úr lagi gengin. Martraðir Hræðsluvekjandi draumar sem venjulega vekja einstaklinginn úr REM svefni. Martröðin er oftast langur flókinn draumur virðist oft ógnvænleg í lokin. Mikilvægt er að greina martraðir af þessu tagi frá næturhræðslu, en í henni fyrirfinnast engir draumar. Kvíði er nánast alltaf fylgifiskur martraðar og varir í nokkurn tíma eftir að vikomandi vaknar. Svefnlömun Þetta ástand er oft nefnt svefnrofalömun sökum þess að það einkennist af lömunartilfinningu og getuleysi til hreyfinga, annaðhvort við upphaf svefns eða sem algengara er við lok hans, annað hvort undir morgun eða að næturlagi. Oft líður einstaklingi þannig að hann geti hvorki hreyft legg né lið. Flestir sem hafa fundið til þessa eru þó færir um að hreyfa augun og meðvitaðir um umhverfi sitt. Venjulega er þetta ógnvekjandi upplifun, sérlega ef erfiðleikar við öndun fylgja, en það kemur stundum fyrir um leið. Venulega varir þetta ástand í eina til nokkrar mínútur og hverfur sjálfkrafa eða fyrir tilverknað ytri áreita, svo sem snertingar, hljóða eða annars. Í sumum tilvikum getur verið um að ræða eitt einkenni drómasýki sem áður var lýst. Takmörkuð stinning getnaðarlims Ástand hjá körlum þar sem eðlileg stinning á sér ekki stað í REM svefni. Oft merki um getuleysi eða vandamál tengd kynlífi. Einstaklingur þarf á læknisskoðun að halda til að útiloka líkamlega sjúkdóma. Mælingar á stinningu í REM svefni eru ein áreiðanlegasta aðferðin til þess að greina milli getuleysi af líkamlegum eða sálrænum orsökum. Taka verður tillit til aldurs, þar sem stinning í svefni minnkar með hækkandi aldri. Sársaukafull stinning Á sér stundum stað hjá körlum í REM svefni, þeir vakna þá snögglega við mikinn sársauka. Oft síendurtekið. Þetta getur valdið svefnleysi, pirringi og verulegri dagsyfju. Hjartsláttartruflanir í REM svefni Lítt þekkt ástand sem kemur fyrir hjá ungu fólki. Hefur hugsanleg áhrif á líðan á daginn og getur verið hættulegt. Þarfnast læknisskoðunar. Hegðunartruflun tengd REM svefni Ástand sem einkennist af því að hin almenna vöðvaslökun í REM svefni á sér ekki stað. Því er hætta á að einstaklingurinn hreyfi sig mikið þegar hann dreymir, fari úr rúminu, hlaupi, slái o.s.frv í REM svefni. Þetta ástand getur verið hættulegt og leitt til slysa hjá einstaklingnum sjálfum eða rúmfélaga hans. Algengara hjá körlum og orsakir ástandsins eru lítt þekktar. Aðrar sérstakar svefntruflanir Þessi flokkur sértækra svefntruflana inniheldur raskanir sem ekki er hægt að flokka með þeim sem þegar hafa verið nefndar. Gert er ráð fyrir því að þegar þekkingin á þeim eykst, muni þær færast í hina flokkana. Tannagnístur í svefni (sleep bruxism) Síendurtekið tannagnístur eða fast samanbitnir kjálkar í svefni. Veldur oft óþægindum að morgni, skemmdum á tönnum og truflar svefn verulega í verstu tilvikum. Næturþvaglát (sleep enuresis) Þvaglát í svefni sem eru óháð vökvainntöku og án líkamlegra skýringa. Algengast hjá börnum, en óvenjulegt/óeðlilegt eftir 6-7 ára aldur. Mun fleiri svefntruflanir falla undir þennan flokk en hér hefur verið minnst á. Þær verða þó ekki tíundaðar hér þar sem flestar eru sjaldgæfar. Svefntruflanir tengdar líkamlegum sjúkdómum/geðrænum sjúkdómum Flestir líkamlegir og andlegir sjúkdómar leiða til svefntruflana af einu eða öðru tagi sem aftur bitnar á ýmsu á daginn. Fólk verður þreytt, syfjað, með skerta einbeitingu o.fl. Skiptingin á milli líkamlegra og andlegra sjúkdóma er langt í frá að vera einföld, kannski skiptir hún bara litlu máli því að líkamlegir sjúkdómar hafa oftast í för með sér sálræna erfiðleika, og öfugt. Tengt geðkvillum Flestum geðkvillum fylgir einhver svefntruflun. Þær eru erfiðastar í alvarlegum geðsjúkdómum, svo sem geðklofa, þar sem eðlilegt svefnmynstur raskast ævinlega, oftast með slæmum afleiðingum fyrir sjúklinginn. Oft er um að ræða tapaðan svefn, sem hefur slæmar afleiðingar á hinn undirliggjandi sjúkdóm, eða sem er eitt af einkennum hans. Hið sama gildir um þunglyndi og oflæti, en í þeim kvillum raskast svefnmynstur afar mikið, oftast fylgir svefnleysi og í undantekningartilvikum ofsyfja. Þegar um er að ræða kvíðatengdar truflanir raskast svefn alltaf. Þá verður oftast erfitt fyrir einstaklinginn að sofna og viðhalda svefni, jafnvel vandamál að vakna allt of snemma. Tengt taugasjúkdómum Svefn raskast einnig verulega í mjög mörgum taugasjúkdómum, svo sem Alzheimerssjúkdómi, Parkinsonssjúkdómi og flogaveiki. Mun fleiri taugasjúkdómar raska svefni, sem ekki verða taldir upp hér, en þeir eiga það flestir sammerkt að raska svefni og í þeim tilvikum er afar mikilvægt að greina áhrif svefntruflunarinnar frá hinum beinu áhrifum sjúkdómsins. Tengt öðrum sjúkdómum Eins og áður hefur verið vikið að hafa flestir sjúkdómar í för með sér einhverja eða verulega truflun á svefni. Ekki er ástæða til þess að telja þá upp hér, þar sem slík upptalning yrði allt of löng og þreytandi. Það er þó ástæða til þess að leggja aftur áherslu á að burtséð frá því hvað það er sem veldur svefntruflun, þarf þolandinn alltaf að kljást við afleiðingarnar eftir á, hver svo sem orsök truflunarinnar er. Einstaklingur sem er sífellt truflaður í svefni sínum, t.d. út af hávaða og einstaklingur með truflaðann svefn vegna undirliggjandi sjúkdóms, eru meira og minna í sömu aðstöðu. Þeir þurfa báðir að glíma við og laga sig að afleiðingun svefntruflunarinnar, sömuleiðis að beita sömu aðferðum og ráðum til þess að reyna að tryggja sér bærilegan svefn. Svefnheilsufræði – Lokaorð Þeir svefnkvillar og sjúkdómar sem hér hefur verið stuttlega lýst eru ákaflega misalgengir. Þannig er tilfallandi svefnleysi afar algengt og kannski eðlilegt fyrirbæri. Á bilinu 20-40% þeirra sem spurðir eru hvort þeir hafi sofið illa eða átt í vandræðum með svefn síðasta árið, svara því venjulega játandi. Um 10-20% hafa þó viðvarandi vandamál af þessu tagi og er þetta því algengasta svefntruflunin. Svokölluð drómasýki (narcolepsy) er aftur á móti afar óalgeng, aðeins um 0,05% manna fá þann kvilla. Kæfisvefn er einnig talsvert algengur, en reikna má með því að um 3-8% karla á miðjum aldri hafi slík vandamál að stríða en mun færri konur. Því er ljóst að tíðni þeirra svefnkvilla sem hér hafa verið taldir upp er ekki einungis ákaflega mismunandi innbyrðis, heldur er hún einnig oft mismunandi hjá körlum og konum og oft háð aldri. Ákveðin hegðun og lífsstíll hefur reynst gagnlegt til þess að tryggja bættan svefn. Á þeim grundvelli hafa verið settar fram nokkrar almennar reglur sem ættu að tryggja flestum bærilegan svefn, svo fremi þeir séu ekki haldnir sjúkdómum eða kvillum sem viðhalda hinum slæma svefni. Þessi heilræði fara hér á eftir: · Sofðu eins mikið og nauðsynlegt er til þess að þér líði vel næsta dag, en ekki lengur. Stuttur tími í rúminu er tengdur góðum svefni, en of langur tími virðist leiða til lélegs og truflaðs svefns. · Reglulegur fótaferðartími styrkir líkamsklukkuna og leiðir að lokum til reglulegs svefntíma. · Dagleg líkamleg áreynsla til lengri tíma leiðir til dýpri og/eða betri svefns en óreglulegar æfingar, sérstaklega rétt fyrir svefninn. · Hávaði truflar svefn, jafnvel hjá þeim sem ekki vakna og muna ekki eftir honum daginn eftir. · Hungur truflar svefn. Létt máltíð fyrir svefninn (2 tímar) hjálpar mörgum til að sofna. · Svefnlyf í hófi geta hjálpað en langvarandi notkun þeirra er árangurslaus og jafnvel skaðleg. · Kaffi á kvöldin truflar svefn, jafnvel hjá þeim sem halda öðru fram. · Alkóhól getur hjálpað spenntum manni að sofna en svefninn sem fylgir í kjölfarið er sundurslitinn og lélegur. · Í stað þess að reyna aftur og aftur að sofna eða liggja lengi í rúminu, þá hjálpar að fara fram úr og gera eitthvað allt annað en að reyna að sofna. Reyna síðan aftur að sofna þegar manni finnst sem það muni ganga betur. Júlíus K. Björnsson, sálfræðingur