persona.is
Streitustjórnun á erfiðum tímum
Sjá nánar » Streita
Rannsóknir í USA sýna að fólk þar í landi hugsar oft um peninga. Það virðist vera sem peningar (eða skortur á þeim) og vinnan sé í efsta sæti áhyggjuefna hjá næstum því 75% þeirra sem tóku þátt í streitu-könnun Ameríska sálfræðingafélagsins. (Stress in America 2007 Survey). Ef við bætum svo við fyrirsögnum dagblaða ásamt útvarps- og sjónvarpsfréttum hér á landi og í Ameríku sjáum við merki um kreppu. Við slíkar aðstæður eru margir sem leita leiða til þess að koma sér út úr fjárhagslegum þrengingum. Niðursveiflan byrjaði með útlánakreppu í USA snemma árs 2008 sem leiddi fljótt til skorts á fjármagni á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, lánastofnanir höfðu lánað of mikið til aðila sem eftir á að hyggja voru ekki líklegir til að standa undir greiðslum. Þegar fasteignaverð lækkaði var virði eignanna orðið minna en lánin sem miðuðu við að það ríkti góðæri á fasteignamarkaði og vinnumarkaði. Sambærilegir atburðir árið 2007 á Íslandi voru lækkun á hlutbréfamarkaði, fyrirsjáanleg lok stórframkvæmda og lækkun á fasteignamarkaði. Þetta leiðir til þess að margir hafa áhyggjur af fjárhag sínum og framtíð. Þeir sem fylgjast með spurn eftir sálfræðilegri meðferð í USA telja sig sjá 15-20% aukningu undanfarna þrjá mánuði (apríl-júní 2008). Hluti þeirra sem leita meðferðar finna fyrir auknum kvíða og depurð sem þeir tengja við fjárhagslega erfiðleika. Íslendingar hugsa líka um peninga og finna líklega meira fyrir skorti á þeim vegna þess að okkur er tamt að halda að við séum ein ríkasta þjóð í heimi. Þar við bætist að undanfarin ár hefur hagsýni ekki verið í tísku, miklu frekar mikil neyslugleði og mun meiri djörfung í lántökum en víða annars staðar í hinum vestræna heimi. Eins og flest önnur hversdagsleg streita er þessi viðbótarspenna vegna niðursveiflunnar viðráðanleg, svona hefur gerst áður og við höfum unnið okkur út úr því að þetta hefur “reddast” vonum framar hingað til. Ég er ekki að gera lítið úr tilfinningalegum viðbrögðum við efnahagslegum þrengingum, vissulega er það áfall að fara úr “bullandi góðæri” í “eðlilegt ástand”, sérstaklega ef við höfum gert ráð fyrir að það yrði framhald á uppsveiflunni sem hefur ríkt 2004-2008. Hagfræðingar höfðu gert ráð fyrir samdrætti þegar stórframkvæmdum væri lokið, þeir gerðu sér vonir um mjúka lendingu efnahagslífsins. Gengishrap krónunnar, hækkanir á olíuverði og matvælum hafa bæst við vandann þannig að vonir um mjúka lendingu virðast ekki ætla að rætast. Hvað er til ráða: Út frá sálfræðilegum aðferðum er best að byrja á því að staldra við og hugsa, en ekki láta óttann villa okkur sýn. Það er mikilvægt að varast að “fara á taugum” eða “fara í paník” út af þessu. Það eru vissulega óvissuþættir í öllum niðursveiflum en við höfum gengið í gegnum annað eins áður.
  1. Staldrið við og látið ekki óttann villa ykkur sýn. Það eru vissulega margar neikvæðar fréttir í blöðum, útvarpi og sjónvarpi. Takið eftir því sem er að gerast kringum ykkur, en forðist að láta hrapspárnar ná tökum á ykkur, það eru líka tækifæri í kreppum. Okkur getur hætt til að magna upp svartsýni við neikvæðar spár, sem aftur setur af stað vítahring kvíða og hefur neikvæð áhrif á dómgreind okkar og hæfni til að taka ákvarðanir. Forðist bæði fljótfærni og óvirkni. Við þessar aðstæður er meiri hætta á að bregðast of ákaft við, ganga út frá því að allt sé á niðurleið, draga of miklar ályktanir af atburðunum.
  2. Finnið það sem veldur mestum áhyggjum og streitu og gerið áætlanir. Skoðið fjárhag ykkar vandlega, eignir og skuldir, hvað þarf að setja í forgang. Setjið á blað það sem fjölskyldan getur dregið úr kostnaði, hvað er það sem þið ættuð auðveldast með að vera án. Finnið leiðir til að halda betur utan um fjármálin, er skynsamlegt að sjá um þetta sjálf – og nota heimabankann- frekar en að láta bankann sjá um allar greiðslur. Er hugsanlegt að umsjón bankans hafi gert það að verkum að þið hafið misst tilfinningu fyrir fjárhagnum? Það er góð líka hugmynd að skoða www.spara.is .  Þegar búið er að gera áætlanir er mikilvægt að hrinda því í framkvæmd og endurskoða reglulega, ekki láta þetta renna út í sandinn eftir efnilega byrjun. Enda þótt það geti valdið kvíða til skamms tíma að sjá stöðuna á blaði þá dregur það úr kvíðanum til lengri tíma að taka á málunum.
  3. Athugið hvernið þið takið á streitu sem tengist fjármálum. Þegar kreppir að okkur eru sumir líklegri til að snúa sér að óheilbrigðum lífsstíl, svo sem að auka reykingar, áfengisneyslu, huggunarát eða fjárhættuspil. Fjárhagsþrengingar geta leitt til meiri árekstra og illdeilna milli hjóna. Takið eftir slíkum einkennum og leitið aðstoðar hjá sálfræðingi eða hjá heilsugæslunni áður en vandinn vex enn meira og verður að vítahring.
  4. Snúið kreppunni í tækifæri á að læra og breyta. Fjárhagslegar þrengingar geta orðið hvati að heilbrigðari aðferðum til að takast á við streitu. Þetta getur orðið hvati til þess að breyta um lífsstíl, taka upp ódýrari en jafnskilvirka líkamsrækt, ganga, sund eða venjulegt kort í ræktinni frekar en að halda áfram með “dekur-kortið”. Borða oftar heima með fjölskyldu og vinum frekar en að fara út að borða getur sparað peninga og þjappað ykkur saman. Nú er líka rétti tíminn til að skoða námstilboð sem bæta stöðu þína á vinnumarkaði.
Fagleg aðstoð, hvort sem það er á fjárhags- eða tilfinningasviði getur verið þörf eða nauðsyn. Stundum dugar að taka til í fjármálunum, stundum er streitan yfirþyrmandi og hindrar okkur í að taka á fjármálum. Þegar streitan leiðir til vítahrings ráðleysis og óvirkni er ástæða til að leita aðstoðar sálfræðinga. Jón Sigurður Karlsson cand. psych & oecon Sérfræðingur í kliniskri sálfræði www.persona.is