persona.is
Skammdegisþunglyndi – Árstíðarbundið þunglyndi
Sjá nánar » Þunglyndi

Hvað er skammdegisþunglyndi?

Þegar geðslag fólks versnar til muna á vissum árstímum getur verið um árstíðarbundið þunglyndi að ræða. Undir árstíðarbundið þunglyndi fellur skammdegisþunglyndi og sumarþunglyndi. Hér verður einkum fjallað um skammdegisþunglyndi.

Skammdegisþunglyndi er árstíðarbundin andleg vanlíðan (mood disorder) sem hefst þegar daga tekur að stytta á veturna og lýkur þegar dagar lengjast á vorin. Skammdegisþunglyndi er þrálátt að því leyti að það endurtekur sig frá ári til árs, getur oft orðið mjög alvarlegt og hamlað eðlilegri virkni fólks.

Skammdegisþunglyndi virðist tengjast magni dagsbirtu og þar af leiðandi þeirri breiddargráðu sem fólk býr á. Það sýnir sig meðal annars á því að þegar fólk með skammdegisþunglyndi ferðast suður á veturna getur þunglyndið horfið á nokkrum dögum en ef það ferðast norður getur þunglyndið versnað. Skammdegisþunglyndi er nær óþekkt í löndum við miðbaug þar sem dagarnir eru alltaf jafn langir. Sambandið á milli breiddargráðu og skammdegisþunglyndis er ekki einfalt því tiltölulega fáir sem búa nær heimskautum fá skammdegisþunglyndi. Svo virðist sem sumar þjóðir sem lengi hafa búið við þessi skilyrði hafi aðlagast skammdeginu. Til dæmis hefur komið í ljós að tíðni skammdegisþunglyndis hjá Íslendingum er óvenju lág miðað við það sem ætla mætti út frá legu landsins. Ekki er fullkomlega ljóst hvernig birtumagn hefur áhrif á líðan en margir telja að skammdegisþunglyndi tengist dægursveiflum (circadian rythms) hjá fólki (þ.e. svefni og vöku) eða hormóninu melantónín, en þetta tvennt stjórnast að einhverju leyti af birtu.

Það gildir um báðar gerðir af árstíðarbundnu þunglyndi að þess fer yfirleitt ekki að gæta fyrr en á þrítugsaldri og virðist vera algengara hjá konum en körlum.

 

Hvað einkennir skammdegisþunglyndi?

Undir árstíðarbundið þunglyndi flokkast skammdegisþunglyndi og sumarþunglyndi. Flestir með árstíðarbundið þunglyndi verða þunglyndir í skammdeginu yfir vetrartímann en í minnihluta tilfella verður fólk þunglynt á sumrin. Þar er einnig um árstíðarbundna breytingu á líðan að ræða en á þessu tvennu er grundvallarmunur. Ólíkt skammdegisþunglyndi einkennist sumarþunglyndi af geðshræringu eða æsingi, svefnleysi og minnkandi matarlyst, þar af leiðandi er algengt að fólk léttist yfir sumartímann. Lítið er vitað um orsakir sumarþunglyndis eða hver er besta meðferðin við því. Það virðist sem sumarþunglyndi sé í raun andhverfa skammdegisþunglyndis og bendir það til þess að orsakir beggja eigi svipaðan uppruna.

Einkenni skammdegisþunglyndis eru vanlíðan, sinnuleysi, mikil depurð, svartsýni, lífsleiði, orkuleysi og óeðlilega mikil svefnþörf. Einnig eykst matarlyst, þá sérstaklega löngun í kolvetnaríka fæðu. Því er algengt að fólk með skammdegisþunglyndi þyngist töluvert yfir vetrartímann. Að auki getur skammtímaþunglyndi leitt til þess að fólk forðist félagsleg samskipti og einangri sig.

 

Hverjir fá skammdegisþunglyndi?

Margir eru næmir fyrir árstíðarbundnum breytingum á magni dagsbirtu og flestir finna fyrir áhrifum árstíðarbreytinga á líðan. Samkvæmt bandarískum tölum virðist skammdegisþunglyndi vera algengara hjá konum en körlum og algengi er mest hjá konum á milli 21 og 40 ára, en eftir það virðist tíðnin lækka. Það sama hefur komið fram í rannsóknum á Íslandi.

Þar sem tíðni skammdegisþunglyndis hefur verið athuguð hjá almenningi í Bandaríkjunum hefur komið í ljós að um það bil 4% þjást af skammdegisþunglyndi og um 18% af mildu skammdegisþunglyndi, en tíðni fer þó eftir búsetu og breiddargráðu. Um 25-27% segjast finna fyrir töluverðri vanlíðan í skammdeginu og töldu skap, orku, svefn, matarlyst, þyngd og félagslyndi mjög breytilegt eftir árstíðum. Aðeins 8% sagðist ekki finna fyrir breytingum á líðan eftir árstíðum. Tíðni sumarþunglyndis reyndist vera um 0,7%. Komið hefur fram að um 16-28% af sjúklingum með almennt þunglyndi teljast einnig vera með skammdegisþunglyndi.

Á Íslandi er tíðni skammdegisþunglyndis lægri. Komið hefur fram að um 7,5% þjást af mildu skammdegisþunglyndi en 3,8% af skammdegisþunglyndi.

Svo virðist sem fólk sem þjáist af almennu þunglyndi sé líklegt til að greinast einnig með árstíðarbundið þunglyndi.

Yfirleitt hafa konur frekar greinst með báðar gerðirnar af árstíðarbundnu þunglyndi og það er í samræmi við þá staðreynd að tíðni almenns þunglyndis meðal kvenna er hærri heldur en meðal karla. Á Íslandi hefur það sama komið í ljós, þegar tíðni árstíðarbundins þunglyndis var athuguð kom fram að ungar konur (um tvítugt) eru 10 sinnum líklegri til að þjást af mildu skammdegisþunglyndi heldur en fullorðnir karlmenn (um sextugt). 

Skammdegisþunglyndi virðist ekki hrjá aldraða í eins miklum mæli og þá sem yngri eru. Í ljós hefur komið að skammdegisþunglyndi minnkar yfirleitt smám saman upp úr fertugu.

Börn og unglingar þjást mjög sjaldan af skammdegisþunglyndi. Einkenna skammdegisþunglyndis verður yfirleitt ekki vart fyrr en upp úr tvítugu.

 

Hvað veldur skammdegisþunglyndi?

Nokkrar tilgátur hafa verið settar fram um hvernig birta hefur áhrif á líðan fólks. Einn möguleiki er að það sé tengt bæði dægursveiflu (hringrás svefns og vöku) og hormóninu melantónin sem heiladingull framleiðir, en dagsbirta hefur áhrif á þetta tvennt. Það er reyndar ýmislegt sem bendir til þess að allar gerðir þunglyndis hafi eitthvað með truflanir á svefntakti að gera. Dægursveiflu svefns og vöku er stjórnað af undirstúku (hypothalamus) í heila. Ljós virkar sem tímagjafi (zeitgeber), það samhæfir virkni líffræðilegrar klukku manna við sólarhringinn. Það er mögulegt að fólk með skammdegisþunglyndi þurfi sterkari eða öflugri tímagjafa en venjulega til að endurstilla líffræðilegu klukkuna.

Nokkrir rannsakendur hafa komið fram með þá kenningu að það sé ekki einungis ljós sem virki sem tímagjafar og að sum tilfelli þunglyndis stafi af tapi á félagslegum tímagjöfum. Til dæmis hefur fólk tilhneigingu til að samhæfa dagtakt sinn við dagtakt maka síns. Eftir að hafa misst maka sinn fer hversdagstaktur þeirra úrskeiðis og margir upplifa þunglyndi. Aðrir rannsakendur hafa bent á að sumir séu sérstaklega næmir fyrir truflandi áhrifum breytinga á félagslegum samskiptum og reglulegum dagstakti. Til dæmis geta ýmsir viðburðir sem rjúfa dagtakt fólks valdið tímabundnu þunglyndi, eins og til dæmis barnsfæðing eða vinnumissir.

Í Bandaríkjunum var borin saman tíðni skammdegisþunglyndis á mismunandi breiddargráðum. Niðurstöður voru að því hærri breiddargráða þeim mun meira var um skammdegisþunglyndi. Það sama hefur komið fram í Noregi. (acheterdufrance.com)

Á Íslandi var tíðni skammdegisþunglyndis athuguð og voru niðurstöður þær að tíðni skammdegisþunglyndis og milds skammdegisþunglyndis var lægri hjá íslendingum en fólki búsettu á austurströnd Bandaríkjanna þrátt fyrir að Ísland liggi á norðlægari breiddargráðu. Þessar niðurstöður komu mjög á óvart þar sem talið hefur verið að skortur á ljósi yfir vetrartímann sé ein aðal orsök skammdegisþunglyndis. Munurinn á þessum tveimur rannsóknum verður ekki skýrður með mun á aðferðum, lifnaðarháttum, starfi þátttakenda, búsetu eða mismunandi tíðni líðanaraskana almennt í löndunum tveimur. Tilgáta rannsakenda var sú að þar sem Íslendingar hafa búið einangrað í um 1000 ár við erfiðar aðstæður þá er hugsanlegt að þeir sem hafa erft tilhneigingu til skammdegisþunglyndis hafa átt erfiðara með að finna sér maka og lifa af við þessar erfiðu aðstæður allan ársins hring. Einnig hefur þetta fólk sennilega átt erfiðara með að sjá um börn sín en aðrir og hátt hlutfall ungbarnadauða (allt af 50%) fyrr á öldum átt hlut að því að skammdegisþunglyndi erfðist síður. Því gæti hafa átt sér stað einhvers konar náttúruval þar sem aukið þol við skammdegi hefur valist úr.

Í framhaldi af þessari rannsókn var gerð önnur könnun þar sem tíðni skammdegisþunglyndis var athuguð hjá afkomendum Íslendinga sem búsettir eru í Kanada (ættir þeirra voru raktar aftur til 1840) og þar kom einnig fram lægri tíðni heldur hjá Bandaríkjamönnum. Tíðnin hjá þessum hóp var lægri en hjá Íslendingum. Þetta bendir til þess að tengsl skammdegisþunglyndis við legu á breiddargráðu séu flóknari en áður var talið. Mögulegt er að um sé að ræða samvirkni breiddargráðu og erfða, þannig að áhrif mismunandi breiddargráðu komi fram hjá hópum sem hafa svipaða arfgerð.

 

Hvernig fer greining fram?

Skammdegisþunglyndi er ein gerð röskunar á andlegri líðan (mood disorders) og undirflokkur almenns þunglyndis samkvæmt greiningar og flokkunarkerfi bandaríska geðlæknafélagsins (DSM-IV).

Greining fer fram líkt og ef um greiningu á almennu þunglyndi er að ræða. Munurinn liggur meðal annars í því að skammdegisþunglyndi verður ekki vart fyrr en daga tekur að stytta og hverfur jafnan þegar fer að vora. Munur á einkennamynstri liggur helst í því að svefn er þyngri og lengri í skammdegisþunglyndi, meðan sjúklingar með almennt þunglyndi eru líklegri til að vakna allt of snemma. Í almennu þunglyndi verður matarlyst lítil sem engin, en eitt helsta einkenni sakammdegisþunglyndis er aukin matarlyst, jafnvel fíkn í súkkulaði og önnur sætindi. Greining fer fram í viðtölum við sérfræðing, einnig er oft notast við sjálfsmatskvarða til að betur megi átta sig á umfangi vandans.

Af þeim fáu spurningarlistum sem eru til að meta skammdegisþunglyndi er SPAQ (The Seasonal Pattern Assessment Questionnaire) sá sem víðast er notaður. Þessi listi er notaður til skimunar en ekki greiningar en einn helsti galli hans er að treyst er á upprifjun aðspurða um líðan síðustu mánuði og ár.

 

Hvert er hægt að leita eftir aðstoð?

Flestir geðlæknar og klínískir sálfræðingar búa yfir mikilli þekkingu á þessu sviði. Hægt er að leita til þeirra beint á stofu eða leita sér aðstoðar á Geðdeild Landspítalans.