persona.is
Sjúklegt fjárhættuspil
Sjá nánar » Fíkn

Hvað er sjúklegt fjárhættuspil?

Spilafíkn er allt annað en hafa gaman af fjárhættuspili og heldur ekki það sama og eyða til þess miklu fé. Skemmtun er afstætt hugtak og ógerningur að fullyrða hvenær hún er óeðlilega mikil eða skaðleg. Sama má segja um upphæðirnar. Hundrað þúsund krónur á einu kvöldi geta verið smáaurar fyrir olíufursta á skemmtiferð í Las Vegas. Á meðan geta tíu þúsund krónur skipt sköpum fyrir venjulegan launamann. Einstaklingur er spilasjúkur þegar hann eyðir svo mikilli orku, tíma og fé í fjárhættuspil að hann kallar yfir sig fjárhagsleg, félagsleg og tilfinningaleg vandræði og getur þrátt fyrir þau ekki dregið úr eða hætt fjárhættuspili.  Áður en gerð er grein fyrir spilafíkn er nauðsynlegt að gera sér ljóst að allar umræður um hana eru háðar alvarlegum takmörkunum. Í fyrsta lagi eru rannsóknir á þessu sviði mjög skammt á veg komnar. Í öðru lagi eru þær rannsóknir sem til eru einkum komnar frá Bandaríkjunum þar sem menn hafa fyrst og fremst athugað karla á miðjum aldri sem hafa skilað sér til meðferðar. Oft hafa spilavíti og veðhlaupabrautir verið aðalvettvangur þessara spilasjúku karla. Í þriðja lagi, ( sem leiðir eðlilega af framangreindu, ( eru bókmenntir á þessu sviði að stórum hluta byggðar á klínískri reynslu, þ.e.a.s. óformlegum athugunum og mati þeirra sem hafa fengist við meðferð. Þetta er eðlilegt. Þegar við höfum ekki betri heimildir verðum við að stoppa í göt og geta í eyður með almenna skynsemi og reynslu að leiðarljósi. Auðvitað má ekki vanmeta klíníska reynslu, en þess verður að gæta að umræða á hennar forsendum mótast jafnan af sérstökum reynsluheimi, lífskoðunum og hugmyndafræði. Heimildir verður því bæði að skoða með opnum huga og meta með gagnrýnu hugarfari. Dæmisögur

Til þess að átta okkur á sjúklegu fjárhættuspili er rétt að velta fyrir sér lífsreynslu þriggja einstaklinga sem hafa komið sér í mikil vandræði. Hér eru á ferðinni raunveruleg dæmi sem höfundur hefur haft kynni af. Nöfnum, kyni, aldri og aðstæðum hefur verið breytt þannig að ekki á að vera hægt að reikna út hverjir hlut eiga að máli. Við byrjum á Nonna, ungum manni í Reykjavík:

Nonni er 19 ára gamall. Hann kemur úr ósköp venjulegri íslenskri fjölskyldu, ólst upp hjá báðum foreldrum í hópi þriggja systkina. Honum gekk vel í grunnskóla þó einkunnir hans væru ekki framúrskarandi. Hann hafði nefnilega mörg áhugamál og fannst skemmtilegra að leika sér úti á hjólinu sínu, í fótbolta og körfubolta. Þegar hann var í 9. bekk byrjaði hann að spila í spilakössum í sjoppunni sem krakkarnir í skólanum sóttu. Fljótlega fóru nestispeningarnir allir í spilakassana. Stór hluti af kaupinu sem hann fékk fyrir unglingavinnuna sumarið eftir fór líka í spilakassa. Þróunin hélt áfram í 10. bekk og sumarið þar á eftir. Móðir hans komst að því að eitthvað alvarlegt eða einkennilegt var á seiði þegar hann byrjaði í framhaldsskóla. Hann virtist ekki hafa keypt allar skólabækurnar um haustið, sagðist hafa týnt nýjum skóm sem hann átti að kaupa sér og þegar kom að prófum í lok haustannar fékk hann ekki að fara í nema eitt próf þar sem hann hafði mætt svo illa í kennslustundir. Nonni klúðraði þessum fyrsta vetri í fjölbrautarskólanum vegna spilaárattu. Hann hefur gert tvær tilraunir til að byrja aftur í skólanum en alltaf farið á sömu leið. Nonni er líklega haldinn spilafíkn.

Ekki eru allir spilafíklar berskjaldaðir unglingar sem ánetjast á viðkvæmu aldursskeiði. Fullorðið fólk í góðri stöðu getur orðið fjárhættuspili að bráð. Dæmið af Guðmundi sýnir það:

Guðmundur er 42 ára gamall húsasmiður sem býr í einbýlishúsi sem hann byggði sjálfur ásamt konu sinni og tveimur dætrum sem eru 10-17 ára. Fyrir fáeinum árum stofnaði Guðmundur lítið fyrirtæki með skólabróður sínum og vinnufélaga sem tekur að sér viðhald fjölbýlishúsa ásamt nýbyggingu raðhúsa. Þeir félagar hafa nokkurn hóp manna í vinnu. Guðmundur hefur umsjón með verkum og sér um alls konar útréttingar. Fyrir þremur árum byrjaði hann að spila reglulega í spilakassa í hádeginu þar sem hann var vanur að borða. Í dag reynir hann að komast í spilakassa við öll tækifæri, mikil óreiða er komin á stjórn fyrirtækisins, endurskoðandinn kvartar sáran yfir að nótur vanti fyrir mörgum útgjöldum, Guðmundur er lítið heima og fremur fáskiptin.

Bæði dæmin okkar hafa verið af karlmönnum. En konur ánetjast líka spilakössum:

Gunnvör er 35 ára gömul og starfar á auglýsingastofu við símavörslu og ritarastörf. Pabbi hennar var alkóhólisti og dó á besta aldri fyrir fjórum árum. Gunnvör er í sambúð og á barn með manni sem einnig hefur áfengisvandamál. Síðustu árin hefur hann unnið á frystitogurum en vinnur nú við virkjanir uppi á hálendinu. Gunnvör er mikið ein. Fyrir þremur árum fór hún að koma við á kaffihúsi á leið heim úr vinnunni og fékk sér kaffi og bjór. Þar kynntist hún spilakassa. Nú fær hún sér engar veitingar á kaffihúsinu heldur spilar aðeins. Ennþá stendur Gunnvör nokkurn veginn í skilum með afborganir af lánum en hún hefur oft þurft að fá lánaða peninga hjá móður sinni til að eiga fyrir mat og öðrum nauðsynjum. Nú situr hún inni hjá ráðgjafa og grætur. Hún á ekki grænan eyri um miðjan mánuð, skuldar vinnufélaga sínum 50 þúsund krónur sem hún hefur lofað að borga um mánaðarmótin, móðir hennar er tvisvar búinn að lána henni fyrir mat. Dóttirin á afmæli um næstu helgi sem Gunnvör veit ekki hvernig hún á að halda uppá og um næstu mánaðarmót koma upp vandamál sem hún getur ekki leyst ein og aðrir munu komast að.

Eins og sjá má á þessum dæmum hafa allir ánetjast fjárhættuspili í spilakössum sem við sjáum í söluturnum og öldurshúsum borgarinnar. Þetta er algengasta fjárhættuspilið hér á landi. Samt er þetta ekki það eina. Nonni hefur t.d. reynslu af því að spila teningaspil. Einu sinni eyddi hann heilli helgi við þá iðju. Hann og félagar hans héldu til á heimili eins þeirra (foreldrarnir voru í fríi), drukku áfengi, horfðu á vídeó og spiluðu teningaspil fyrir tugi þúsunda króna. Guðmundur hefur ekki stundað annað fjárhættuspil en spilakassana. Hann er fullur af skömm og finnst „bjánalegt af fullorðnum manni að vera límdur við spilakassa“ og segist varla geta verið heima hjá sér. „Mér líður best heima ef það eru gestir“ ( segir hann ( „því þá er örugglega ekki talað um neina óþægilega hluti.“ Gunnvör hefur farið í bingó. Hún hefur þó ekki eins mikinn áhuga á því og spilakössunum. Hún vill vera ein með sjálfri sér þegar hún spilar: „Mér finnst svo gott að gleyma mér“ – segir hún.

Einkenni-skilmerki sjúkdómsgreiningar

Árið 1980 viðurkenndu samtök geðlækna í Bandaríkjunum sjúklegt fjárhættuspil (pathological gambling) sem sérstaka geðröskun þegar þriðja útgáfa Handbókar um tölfræði og sjúkdómsgreiningu kom út (Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders (DSM(III). Útgáfa þessarar handbókar sem nú er í gildi er fjórða útgáfa sem út kom 1994 (DSM(IV). Sjúklegt fjárhættuspil er flokkað með ýmsum röskunum á hvatastjórn sem ekki er gerð grein fyrir annars staðar (impulse control disorders not elsewhere classified). Aðrar hvataraskanir eru kleptomania (stelsýki), pyromania (íkveikjuæði) og trichotillomania (hárreitisýki). Þó að sjúklegt fjárhættuspil sé flokkað með þessum kvillum er ekki þar með sagt að þeir séu skyldir að uppruna eða ásýnd. Margar geðraskanir hafa í för með sér truflun á hvatastjórn, þ.e.a.s. þáttur í mörgum röskunum er að fólki virðist fyrirmunað að hafa stjórn á hegðun sinni og lætur eftir hugdettum og freistingum. Meðal þessara raskana er t.d. áfengisánauð, árátta(þráhyggja og ýmsar persónuleikaraskanir. Skilmerki um sjúklegt fjárhættuspil eru sláandi lík þeim sem eiga við áfengis( og vímuefnaánauð. Reyndar mun líkari en þeim röskunum sem sjúklegt fjárhættuspil er flokkað með. Í nýjustu útgáfu handbókar amerískra geðlækna um sjúkdómsgreiningar (DSM(IV, 1994) eru rakin 10 einkenni þessarar röskunar þar sem fimm einkenni þarf til að einstaklingurinn verði greindur spilafíkinn. Auk þess að hafa einhver fimm einkenni þarf að útiloka að þau stafi af eða séu þáttur í oflæti (maníu). Þessi einkenni má sjá á Töflu 1.

Tafla 1. DSM(IV): Greiningarskilmerki fyrir sjúklegt fjárhættuspil

A. Þrálátt og endurtekið fjárhættuspil til vandræða sem kemur fram í fimm (eða fleiri) eftirfarandi einkennum:

 

1.        Upptekinn af fjárhættuspili (þ.e.a.s. upptekinn af síðasta spili, af því að undirbúa eða leggja á ráðin með næsta spil eða finna leiðir til að útvega peninga til að geta spilað með). 

2.        Þarf að leggja undir meira fé en áður til að öðlast þá spennu sem sóst er eftir.

3.        Endurteknar tilraunir til að stjórna, draga úr eða hætta fjárhættuspili hafa mistekist. 

4.        Eirðarleysi eða pirringur þegar reynt er að draga úr eða hætta fjárhættuspili.

5.        Fjárhættuspil notað sem aðferð til að flýja vandamál eða bæta úr vanlíðan (t.d. hjálparleysi, sektarkennd, kvíða, þunglyndi). 

6.        Eftir að hafa tapað fer einstaklingurinn oft aftur til þess að vinna upp tapið („eltir“ tapið).

7.        Lýgur að fjölskyldumeðlimum, meðferðaraðilum eða öðrum til að leyna því hve djúpt hann er sokkinn.

8.        Hefur gripið til ólöglegs athæfis til að fjármagna fjárhættuspil, t.d. skjalafals, fjársvika, þjófnaðar eða fjárdráttar.

9.        Hefur stofnað í hættu eða glatað dýrmætum tengslum við fólk, atvinnu, skólagöngu eða tækifærum á frama vegna fjárhættuspilsins.  

10.     Treystir á fjárhagsaðstoð annarra til að bæta slæman fjárhag vegna fjárhættuspils.

B. Fjárhættuspilið er ekki betur skýrt með oflætiskasti (manic episode).

Greining og próf

Greining fer fram í viðtali þar sem farið er yfir sögu vandamálsins. Ekki er til neitt kerfisbundið greiningarviðtal um sjúklegt fjárhættuspil í líkingu við þau sem tiltæk eru um kvíða, þunglyndi og fleira. Meðferðaraðili verður þá að treysta á eigin leikni til að fá fram nauðsynlegar upplýsingar og bera þær saman við greiningarviðmið DSM(IV). Algengasta próf sem notað er til að meta vanda vegna fjárhættuspils er South Oaks Gambling Screen (SOGS). Þetta próf er byggt á greiningarskilmerkjum DSM og hefur reynst bæði áreiðanlegt og réttmætt þegar verið er að greina fólk sem kemur til meðferðar. SOGS hefur einnig verið notað í faraldursrannsóknum. Upplýsingar um próffræðilega eiginleika þessa kvarða liggja ekki fyrir þegar honum er beitt á almenning utan stofnana. SOGS metur hvort einstaklingur hefur einhvern tíma átt í vanda vegna fjárhættuspils og gerir þar með ekki greinarmun á fólki sem á ekki lengur við slíkan vanda að etja og þeirra sem stríða við vanda þegar prófið er lagt fyrir. Annar náskyldur galli prófsins er að það hefur tilhneigingu til að ofmeta spilafíkn (þ.e.a.s. þeir eru margir sem mælast spilafíknir skv. prófinu en fá síðan ekki greiningu við nánara mat). Annað próf sem oft er notað eru 20 spurningar (Gamblers Anonymous). Þessi spurningalisti er ekki notaður til að greina spilafíkn. Hann er notaður til að vekja til umhugsunar og gjarnan notaður í ráðgjöf og meðferðarstarfi til að fá fram upplýsingar frá skjólstæðingi og greiða fyrir umræðum við hann um vandann. Auðvelt er að greina spilafíkn hjá þeim einstakingum sem koma til ráðgjafar eða meðferðar vegna vandræða sem tengjast fjárhættuspili. Skjólstæðingurinn ber sig upp með vandamálið og er venjulegast í miklum erfiðleikum. Ekki er eins auðvelt að greina spilafíkn á frumstigi. Einnig er torvelt að greina spilafíkn í fari þeirra sem koma til læknis eða sálfræðings og bera fyrir sig önnur vandamál, hvort sem þau eru líkamlegs eða geðræns eðlis. Vissulega má gera ráð fyrir því að spilafíkill leyni vandamáli sínu. Ósanngjarnt er þó að skýra þetta með því að hann ljúgi af ásetningi. Í fyrsta lagi hafa spilafíklar tilhneigingu til að skilja og skilgreina vandamál sitt sem fjárhagsvandamál. Þau ræðir maður ekki við lækni eða sálfræðing, heldur afleiðingar þeirra fyrir heilsuna. Í annan stað er það ekki sjálfsagt fyrir spilafíkil að afhjúpa fíkn sína. Hann kemur á meðferðarstofnun fyrir áfengis( og vímuefnasjúklinga, fer til læknis eða sálfræðings með önnur vandamál. Hann getur ekki gert ráð fyrir að þessir aðilar skilji og kunni að meðhöndla spilafíkn.

Faraldursfræði

Tíðni spilafíknar er breytileg eftir menningarsamfélögum, þéttbýlisstigi, hvort löglegt fjárhættuspil er fyrir hendi, og úrvali og aðgangi að fjárhættuspili. Í rannsóknum hefur greinilegt samband komið fram milli greiðari aðgangs að fjárhættuspili og aukinnar útbreiðslu vandamála vegna fjárhættuspils. Spilafíkn hefur færst mjög í vöxt í vestrænum löndum þar sem þróunin hefur verið í þá átt síðustu tvo áratugi að lögleiða fjárhættuspil af ýmsu tagi. Yfirvöld beggja vegna Atlandshafsins hafa uppgötvað að hafa má miklar skatttekjur af fjárhættuspili. Ísland er engin undantekning. Hér á landi er margvísleg starfsemi sem nauðsynleg er hverju þjóðfélagi fjármögnuð með hlutaveltu. Við höfum það þó fram yfir aðrar þjóðir að allur ágóði hlutaveltunnar rennur til þjóðþrifa. Algengi og útbreiðsla

Kannanir í Bandaríkjunum frá áttunda áratugnum sýndu að 0,7% flokkuðust með spilaáráttu og 2,3% sem vandræðaspilarar (problem gamblers). Nýrri gögn sýna að spilafíkn hefur breiðst mikið út eftir þetta. Talið er að fjöldi þeirra sem hefur einhvern tíma uppfyllt greiningu um sjúklegt fjárhættuspil séu 1,4% og 5,1% hafi haft vandræði vegna fjárhættuspils einhvern tíma á ævinni.

Nokkur munur virðist vera á kynjunum þegar spilafíkn er annars vegar. Karlar eru fleiri en konur í hópi spilafíkla og talið er að þeir ánetjist fjárhættuspili yngri að árum. Áætlað hefur verið að um þriðjungur spilafíkla séu konur. Á hinn bóginn koma konur mun síður til meðferðar vegna spilafíknar en karlar og þær eru aðeins 2-4% þeirra sem sækja fundi Gamblers Anonymous (GA). Spilafíkn meðal ungmenna hefur aukist og valda mörgum áhyggjum. Börn allt niður í 11-12 ára hafa greinst með alvarlegan vanda vegna fjárhættuspils. Engar ábyggilegar tölur eru til um þessa útbreiðslu. Einstaka staðbundnar kannanir hafa leitt í ljós að 10-15% unglinga hafi vanda vegna fjárhættuspils. Erfitt er þó að átta sig á hvers eðlis þau vandamál eru og hve stór hluti mundu greinast spilafíkinn við nánari eftirgrennslan.

Fylgikvillar spilafíknar

Líkamlegir fylgikvillar sjúklegs fjárhættuspils eru býsna algengir, einkum hár blóðþrýstingur, sjúkdómar í meltingarvegi og höfuðverkir. Allt eru þetta sjúkdómar sem rekja má til mikillar og langvarandi streitu. Áfengis- og vímuefnaánetjun virðist algeng meðal spilafíkla. Kannanir hafa leitt í ljós að u.þ.b. helmingur þeirra sem sækja GA eiga sögu um áfengis- og vímuefnasýki. Líklegt er að þeir sem hafa haft reynslu af starfi í AA samtökunum festist fremur í öðrum sambærilegum félagsskap. Þess vegna er varasamt að telja að þetta hlutfall endurspegli það sem gerist meðal spilafíkla almennt. Þegar skimað hefur verið eftir vandamálum vegna fjárhættuspils meðal þeirra sem eru í áfengis og vímuefnameðferð eru um 10% háðir fjárhættuspili. Mjög hátt hlutfall þeirra spilafíkla sem leita sér aðstoðar hafa alvarleg þunglyndiseinkenni. Altt að 70% hafa greinst í djúpri geðlægð þegar til meðferðar er komið. Reikna má með að þunglyndið sé í mörgum tilvikum afleiðing þeirra miklu vandamála sem sjúklingurinn hefur komið sér í. Gera má ráð fyrir því að þunglyndi og kvíði æsispilaranna (sjá síðar) sé afleiðing af sjálfri spilafíkninni og úr því leysist að stórum hluta þegar hætt er að spila og jafnvægi kemst á lífsvenjur. Öðru máli gegnir um þá sem falla í flokka flóttaspilara (sjá síðar). Hafi þeir leiðst út í spilafíkn í kjölfar félagslegra og tilfinningalegra vandamála liggur beint við að um leið og einstaklingnum er kennt að halda sig frá fjárhættuspili þarf að greina og taka sérstaklega á vandamálum hans, sem geta falist í kvíða, þunglyndi og vöntun á félagslegri færni. Aðrir geðrænir fylgikvillar eru kvíðaraskanir, persónuleikaraskanir og saga um athyglisbrest/ofvirkni. Hér eru línurnar þó mjög óskýrar. Alvarlegastu tíðindin um fylgikvilla spilafíknarinnar eru þær upplýsingar sem við höfum um sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir í þessum hóp. Um 20% spilafíkla sem hafa leitað sér aðstoðar í meðferð og/eða GA hafa gert tilraun til sjálfsvígs. Ljóst er að þeir sem eiga við sjúklega spilaáráttu að stríða glíma margir hverjir við alvarleg og flókin vandamál. Engan veginn nægir að gaumgæfa hvort sjúklingurinn uppfyllir skilyrði til að fá á sig merkimiða sjúkdómsgreiningar. Nauðsynlegt er að meta vandlega líðan, stöðu og færni sjúklingsins eigi meðferð að vera markviss. Áhættuþættir

Áhættuþættir kallast einkenni og eiginleikar sem spá betur fyrir um spilafíkn en annað. Hér er ekki um orsakir að tefla heldur líkur. Þannig er það áhættuþáttur að vera karlmaður því það eru fleiri karlmenn spilafíknir en konur. Algengara en gerist og gengur er að spilafíkill eigi foreldri sem er annað hvort líka spilafíkill eða áfengis( og vímuefnasjúklingur. Saga um ofvirkni eða ofvirknilík einkenni í æsku er líka talin áhættuþáttur.

Ásýnd spilafíknar

Flótti og spenna

Þeir sem stunda ráðgjöf og meðferð fyrir spilasjúklinga telja sig geta skipt þeim gróflega í tvo flokka. Annars vegar eru þeir sem við getum kallað spennuspilara og á ensku nefnast „action gamblers“. Hins vegar er talað um flóttaspilara eða „escape gamblers“ á ensku. Hér er verið að gera greinarmun á fjárhættuspilurum eftir þeim ástæðum sem þeir hafa sjálfir til að spila. Spennuspilarar sækjast eftir spennunni sem þeir upplifa þegar spilað er uppá peninga. Flóttaspilararnir sækjast eftir einhvers konar slökun eða friði frá öðrum vandamálum eða vanlíðan, eins og þunglyndi, kvíða, heimiliserjum o.s.frv. Talið er að ýmislegt fleira greini þessa hópa að. Spennuspilafíknin er talin koma fram strax á unglingsaldri, er algengari meðal karla en kvenna og virðist ekki vera neins konar viðbragð eða útleið einstakingsins í einhverjum vanda. Höfuðeinkennið er að einstaklingurinn sækist fyrst og fremst eftir þeirri spennu, hasar og æsingi sem fylgir því að leggja undir og spila. Flóttaspilafíknin er talin koma fram síðar á ævinni eftir að einstaklingurinn er kominn á fullorðinsár. Þetta gerist í kjölfar einhvers konar þrenginga í lífinu og er algengara meðal kvenna. Höfuðeinkennið er að einstaklingurinn sækir í fjárhættuspil til að slá á leiða, depurð, gleyma áhyggjum, fá að vera einn o.s.frv. Þessi spilafíkn virðist ennfremur bundin við löglegt fjárhættuspil og lægri upphæðir en spennuspilafíknin.

Nú liggja ekki fyrir neinar vandaðar rannsóknir um hvort fótur sé fyrir þessari skiptingu. Skrásetning upplýsinga frá þeim sem hringja inn í hjálparsíma vegna fjárhættuspils virðist þó koma heim og saman við þessa skiptingu og fólk sem stundar meðferð telur sig verða vart við þessa tvo hópa. Ef til vill er hér um að ræða mismunandi aðdraganda að því að ánetjast fjárhættuspili og sjúkdómsmynd sem ræðst frekar af því á hvaða aldri viðkomandi festist í netinu og af hvaða kyni hann er. Regla og óregla

Spilafíkn getur tekið á sig ólíkar myndir eftir því hversu reglulega og samfellt fjárhættuspil er stundað. Sumir spilafíklar stunda fjárhættuspil nokkrum sinnum í viku hverri yfir langan tíma og láta ekkert aftra sér. Aðrir spilafíklar fara á „túra“ og spila í styttri lotum og hætta þegar þeir eru strand. Þess á milli geta þeir unnið myrkrana á milli og undirbúið næstu lotu. Enn aðrir geta verið í stöðugu stríði við að láta það ógert að fara í spilakassa, spila öðru hvoru fyrir litlar upphæðir en missa síðan algerlega stjórn á sér.

Þróunarskeið

Spilafíklar eru líka mismunandi eftir því hversu langt þeir eru leiddir. Þeir sem stunda meðferð kynnast mörgum sjúkrasögum. Með reynslunni gera þeir sér mynd af því hvernig röskun eða sjúkdómur þróast stig af stigi. Þegar slíkar hugmyndir hafa verið settar fram og ræddar er hægt að fara út á örkina og prófa tilgátur. Því miður hafa engar kerfisbundnar rannsóknir verið gerðar á því hvort og hvernig spilafíkn þróast, þ.e. hver eru dæmigerðustu einkennin, í hvaða röð þau koma fram og hvaða myndir þau taka á sig í tímans rás. Samt sem áður hafa verið settar fram hugmyndir um hvernig sjúklegt fjárhættuspil þróast. Robert Custer gerði ráð fyrir fjórum þróunarstigum: 1) Undirbúningstímabili, 2) skeiði vinninga, 3) skeiði ósigra og 4) skeiði örvæntingar. Richard J. Rosenthal vil bæta fimmta þróunarstiginu við: 5) skeiði vonleysis.

Undirbúningstímabil

Þegar undirbúningstímabili eða aðdraganum er lýst verður ekki betur séð en það séu vangaveltur um vegarnesti úr uppeldi, manngerð og sjálfsmynd. Hér reyna menn sem sagt að velta fyrir sér einhverjum skapgerðarveikleikum sem gera fólk næmara fyrir að ánetjast fjárhættuspili. Fyrsta raunverulega þróunarstigið er skeið vinninganna. Á þessu stigi kynnist einstaklingurinn fjárhættuspili, spilar oftar, upphæðir fara hækkandi og munstur myndast í hegðuninni. Þetta stig er talið einkennast af stórum vinningi og tilhæfulausri bjartsýni og dagdraumum um frekari vinninga.

Skeið vinninga

Næsta stig er skeið ósigranna. Að því kemur auðvitað að fjárhættuspilið tekur sinn toll og spilasjúklingurinn tapar umfram það sem hann á aflögu. Hann hættir samt ekki og verður upptekinn af því að vinna upp tapið. Þetta er höfuðeinkenni þessa tímabils og kallast eltingaleikur (chasing). Þá fer spilasjúklingurinn að skipuleggja næsta fjárhættuspil, afla peninga og spila til að vinna upp það sem hann tapaði síðast. Hann tapar auðvitað á endanum og tekur meira fé að láni. Á þessu tímabili verður hugur spilafíkilsins alltaf meir og meir upptekin af fjárhættuspili. Hann fer að vanrækja það sem skiptir hann mestu máli, bæði áhugamál, siðferðilegar og félagslegar skuldbindingar og heimilislíf. Þetta tímabil endar á því að ekki verður haldið áfram lengur vegna skulda og fjárhagskreppu. Aðrir koma spilasjúklingnum til bjargar og hjálpa honum til að koma fjárhagnum í viðunandi horf, gjarnan með því að taka á sig skuldbindingar fyrir hans hönd.

Skeið örvæntingar

Örvæntingarstigið tekur við þegar spilasjúklingurinn fellur aftur eftir slíkar björgunaraðgerðir. Nú fer hann að spila með meiri leynd og fjarlægist enn meir þá sem standa honum næst. Á þessu stigi fer spilasjúklingurinn að grípa til ýmissa örþrifaráða, ( hann lýgur og blekkir, stingur undan peningum sem þarf til reksturs fjölskyldunnar og brýtur jafnvel lögin (sem getur byrjað saklaust með því að taka sér lán úr sjóði vinnuveitanda).

Skeið vonleysis

Vonleysisstigið dregur nafn sitt af því í hvaða aðstöðu spilafíkillinn hefur komið sér og hvernig honum líður. Honum virðast allar bjargir bannaðar þar sem hann skuldar peninga út um allar jarðir eða föst útgjöld eru látin gjaldfalla endalaust, hann á von á afskiptum lögreglu eða innheimtumanna hvernær sem er. Hann er gjarnan mjög kvíðinn og þunglyndur. Endanlegt hrun blasir við, ( atvinnumissir, gjaldþrot, upplausn fjölskyldu og mannorðsmissir. Á þessu stigi finnst spilasjúklingnum hann ekki eiga margra kosta völ og margir hugleiða alvarlega sjálfsmorð og sumir bugast og falla fyrir eigin hendi.

Orsakir

Hvað veldur því að sumt fólk virðist ánetjast fjárhættuspili og leggur líf sitt jafnvel í rúst á meðan flestir aðrir halda fullri dómgreind og baka sér annað hvort engin vandræði eða lítil og tímabundin? Í sannleika sagt er ekki til neitt svar við þessari spurningu. Siðferðilegt viðhorf

Elsta og enn í dag algengasta skýringin á spilafíkn er sú að einhver brestur sé í siðgæðisvitund fjárhættuspilarans. Fagmenn aðhyllast yfirleitt ekki þessi viðhorf. Þau eru ekki gagnleg og rökin fyrir þeim eru mjög veik. Óvönduð framkoma fólks getur stafað af einhverju sem það ræður ekki við og þannig er því yfirleitt háttað með þá hegðun sem kemur illa niður á einstaklingnum sjálfum. Ef allt er með felldu lærir fólk af reynslunni. Fagmenn aðhyllast yfirleitt þau viðhorf að spilafíkillinn hafi einhverja innbyggða veikleika, hafi sálræna erfiðleika eða/og skorti færni til að haga sér eins og hann vildi helst haga sér.

Viðhorf sálgreiningarinnar

Á þessari öld hafa sálfræðingar og geðlæknar reynt að grafast fyrir um ástæður spilasýkinnar. Sá frægi Sigmund Freud og lærisveinar hans töldu til að mynda að sjúkleg spilaárátta ætti rót sína að rekja til sektarkenndar og ómeðvitaðarar löngunar einstaklingsins til að refsa sjálfum sér. Það var í tengslum við ævi og verk skáldjöfursins Fjodors Dostovjefskís sem Freud fjallaði lítillega um spilafíkn. Rithöfundurinn var sjálfur spilasjúkur og skrifaði sögu um fjárhættuspilara, þar sem hann lýsir kvalræði hans af mikilli innlifun og listfengi. Ófáir fræðimenn eftir daga Freuds hafa bent á sögu hans sem eina skýrustu og merkilegustu sjúkdómssögu sem rituð hefur verið um spilaáráttu.

Persónuleikaþættir

Reynt hefur verið að athuga hvort einhverjir sérstakir persónuleikaþættir einkenna spilafíkla umfram aðra. MMPI (Minnesota Multiphasic Personality Inventory) hefur verið lagt fyrir spilafíkla og niðurstöður bornar saman við aðra hópa. Þeir koma út hærri á þeim kvörðum prófsins sem eiga að meta þunglyndiseinkenni og andfélagsleg viðhorf og hegðun. Þetta kemur ekki á óvart og líklegt að hér sé á ferðinni afleiðingar af sjálfri spilasýkinni fremur en veikleika sem voru fyrir.

Reynt hefur verið að skoða hvort spilafíklar séu almennt hvatvísari (impulsive) heldur en annað fólk og próf sem eiga að mæla þetta hafa verið lögð fyrir spilafíkla og þar kemur ekki fram að þeir séu hvatvísari. Öðru máli gegnir um úthverfu og æsihneigð. Spilafíklar virðast þurfa á meiri utanaðkomandi örvun en tvennum sögum fer af æsihneigð (sensation seeking). Líffræðilegar tilgátur

Í rannsóknum hafa menn verið að kanna ýmsar líffræðilegar tilgátur sem fela í sér að spilafíklar hafi hugsanlega einhverja veikleika í heilastarfi sem gerir þá næmri fyrir að ánetjast spilafíkn. Þær vísbendingar eru athygliverðastar sem benda til þess að seretonin( og dópamínbúskapur í heila spilafíkla hefur sömu einkenni og í alkóhólistum og öðrum vímuefnafíklum. Þetta rennur stoðum undir að líta fremur á sjúklegt fjárhættuspil sem fíkn en hvatvísi til vandræða.

Atferliskenningar

Atferliskenningar geta hæglega skýrt hvers vegna svo erfitt er að slökkva á spilafíkninni. Þessi atferlislögmál eru vafalaust að verki og flest meðferð gerir ráð fyrir þeim. Hins vegar geta atferliskenningarnar ekki skýrt hvers vegna fólk verður fíkið í upphafi og hvernig á því stendur að sumir eru greinilega veikari fyrir en aðrir.

Meðferð

Sálgreining

Sálgreinendur voru þeir fyrstu sem reyndu að meðhöndla spilafíkn og hafa þeir greint frá árangri af meðferð einstakra sjúklinga. Engar ábyggilegar upplýsingar liggja þó fyrir um gagnsemi þessarar meðferðar þar sem mælikvarðar á bata eru á huldu og eftirfylgd takmörkuð. Þar að auki er oft óljóst í hverju meðferðin er fólgin. Við megum ekki gleyma því að sálgreining byggist á því að spilafíknin sé úrræði sjúklingsins til að glíma við einhvern dulvitaðan sálrænan vanda. Þegar innsýn hefur fengist í hann er gert ráð fyrir að sjúklingurinn láti af spilaáráttunni.

Gamblers Anonymous

Þessi félagsskapur er til og vex hægt og bítandi. Ekki er með vissu vitað um gagnsemi þessa félagsskapar. Talið er að 70(90% þeirra sem leita til GA hverfi frá samtökunum. Færri en 10 af hundraði ná því að taka reglulega þátt eða verða virkir. Aðeins 8% þeirra sem sækja samtökin ná einu ári eða lengri tíma í bindindi á allt fjárhættuspil. Þetta þýðir að leiti 100 manns til GA hætta 80 fljótlega. Af þeim 20 sem eftir eru verða 10 reglulegir þátttakendur í félagsskapnum og aðeins einn þeirra er líklegur til að hætta algerlega fjárhættuspili í ár eða lengur.

Þrátt fyrir að GA-samtökin gagnist einhverjum er ljóst að forsenda þess í flestum tilvikum er einhver undirbúningur eða önnur aðstoð. Hvort þessi félagsskapur hentar svo öllum sem slíkan undirbúning og aðstoð fá er spurning sem ekki er hægt að svara. Hitt er víst að þeir sem eiga erfitt með að fóta sig í GA eða fella sig ekki við umhverfið ættu ekki að gefast upp. Hægt er að leita eitthvað annað eftir hjálp og prófa svo seinna hvort hafa má gagn af þátttöku í GA. Almenn fíknimeðferð ásamt GA

Af þeirri takmörkuðu meðferð sem í boði er fyrir spilafíkla í Bandaríkjunum er sú meðferð algengust sem hönnuð er að fyrirmynd meðferðar fyrir áfengis( og vímuefnasjúklinga sem kennd er við Minnesota(fylki. Þessi meðferð er undir sterkum áhrifum frá hugmyndafræði AA. Mikið er lagt upp úr því að fræða sjúklinginn um vandann, líta á hann sem sjúkdóm og viðurkenna vandamál sitt. Þetta er gert í fyrirlestrum og annarri beinni fræðslu, hópumræðu og einkaviðtölum. Sjúklingurinn er einnig fengin til að skoða skapgerðarágalla sína sem taldir eru viðhalda vandanum og síðan er gerð með honum áætlun um hvernig hann mun haga lífinu þegar heim er komið með það að markmiði að halda bindindi á fjárhættuspil. Fjölskyldunni er boðin mismikil þátttaka í meðferðinni.

Hvorki fé né aðstaða hefur verið til þess að rannsaka árangur þessarar meðferðar í samanburði við annað (t.d. enga meðferð, almenn stuðningssamtöl eða einhverja aðra meðferð). Talning hefur þó leitt í ljós að 30(60% þeirra sem ljúka meðferð af þessu tagi halda bindindi á fjárhættuspil næsta árið eða þar um bil. Þessi meðferð er auðvitað mjög dýr og fáir hafa efni á henni. Tryggingarnar í Bandaríkjunum greiða ekki fyrir slíka meðferð nema sjúklingurinn sé lagður inn undir yfirskyni þunglyndis eða annars viðurkennds kvilla. Algengara er því að skipulögð sé meðferð á göngudeild þar sem reynt er að sinna sömu verkefnum. Ekkert er vitað um árangur af slíkri meðferð. Ýmis sálræn meðferð

Á sjötta áratugnum var töluvert um að beitt væri margskonar fráreitismeðferð við spilafíkn sem virðist hafa skilað prýðilegum árangri í mörgum tilvikum. Þessi meðferð felst í því að láta einhver óþægileg áreiti eins og rafstuð eða flökurleika fara endurtekið saman við áreiti tengd fjárhættuspili (s.s. veðmálasíður dagblaða, myndir af sjúklingnum við fjárhættuspil, hljóð í spilakössum eða einfaldlega fjárhættuspil). Nú er yfirleitt hætt að nota rafstraum og uppsölulyf í allri meðferð. Þá tóku við tilraunir með að nota svokallaða ónæmingu (desensitation) eins og gjarnan er gert þegar um fælni er að ræða. Þá er sjúklingurinn þjálfaður í huganum við slökunaraðstæður að mæta þeim áreitum sem eru kveikjan að því að hann fer að spila. Þetta hefur skilað einhverjum árangri.

Á allra síðustu árum hafa menn verið að hanna og gera tilraunir með hugræna atferlismeðferð við spilafíkn. Sú aðferð samþættir hugræna endurskipun (cognitive restructuring), vandamálaúrlausn, félagslega færniþjálfun og hrakfallaforvarnir. Með öðrum orðum: Byggt er á því að grípa inn í og breyta hugmyndum spilafíkilsins um fjárhættuspil, s.s. óraunsæjum hugmyndum hans um líkindi á vinningi. Honum er einnig kennt að takast á við vandamál, þar sem frestun eða flótti frá þeim skapar líðan sem kveikir á spilafíkninni. Einnig er sjúklingurinn þjálfaður í félagslegri færni, fyrst og fremst samskiptum og áræði þar sem þetta er talið hamla honum. Loks eru notaðar aðferðir sem hafa verið þróaðar til að forða alkóhólistum frá föllum og skjólstæðingurinn látinn greina líðan og aðstæður sem hafa tilhneigingu til að leiða hann út í fjárhættuspil og hann þjálfaður í úrræðum til að lenda ekki í slíkum aðstæðum eða bregðast við þeim með vænlegri árangri en fyrr. Þessi tegund meðferðar hefur verið prófuð á einstaklingsgrundvelli og skilað greinilegum árangri og fyrstu skýrslur af hóprannsóknum lofa góðu. Þessi meðferð sem byggð er á vísindalegri sálfræði er ekki í mótsögn við eða ósamrýmanleg þátttöku í Gamblers Anonymous. Hún er heldur ekki háð því að einstaklingurinn vilji taka þátt í þeim félagsskap. Meðferðin er fyrst og fremst færniþjálfun laus við alla hugmyndafræði. Hvetjandi samtalsaðferð

Í ljósi einróma kvartana meðferðaraðila um að erfitt sé að ná til spilafíkla og halda þeim í meðferð er nauðsynlegt að huga að aðdraganda beinnar meðferðar. Öll meðferð er háð samvinnu sjúklingsins og viðleitni hans og virkni í því að fara að leiðbeiningum og tileinka sér þær aðferðir sem honum eru kenndar. Til þess þarf sjúklingurinn að hafa áhuga eða hvöt til að takast á við vandann. Á sviði áfengis( og vímuefnavandamála hafa árangursríkar aðferðir verið hannaðar í ráðgjöf sem kalla má hvetjandi samtalsaðferð eða motivational interviewing. Þessar aðferðir hafa skilað árangri á fleiri sviðum s.s. að fá reykingamenn til að takast á við vanda sinn og hjartasjúklinga til að breyta um lífsstíl. Rannsóknir á gildi þessara aðferða fyrir spilafíkla eiga eftir að birtast en líklegt er að skynsamlegt sé að beita þeim þegar spilasjúklingur á í hlut.

Lyfjameðferð

Litlum sögum fer af kerfisbundnum rannsóknum á lyfjameðferð við spilafíkn. Þar hafa menn verið að reyna að nota sömu lyf og notuð eru við áráttu(þráhyggju annars vegar og lyf sem gefin eru alkóhólistum (naltraxone). Engar niðurstöður liggja fyrir sem hægt er að byggja á.

·         Almennt um batahorfur

·         Ekki er vitað um náttúrulega framvindu.

·         Spilafíkn getur verið banvæn.

·         Mjög fáir spilafíklar koma til meðferðar.

·         Spilafíklar koma yfirleitt seint til meðferðar.

·         Spilafíklar tolla illa í meðferð.

·         Spilafíklar þurfa oft að kljást við margbrotin og flólkin vandamál.

·         Spilafíklar eru hornrekur í samfélaginu.

Hvað getur þú gert?

Ef þú átt við vandamál að stríða

Gamblers Anonymous hefur starfað á Íslandi um nokkurt skeið. Fundir eru öllum opnir sem telja sig eiga við vanda að stríða.

Fólk kann að vera feimið við að fara beint til GA(samtakanna. Þá er hægt að leita til SÁÁ sem hefur boðið upp á aðstoð fyrir spilafíkla frá 1992. Á Göngudeild SÁÁ (Síðumúla 3-5, Reykjavík) geta spilafíklar fengið einkaviðtöl við ráðgjafa á göngudeild. Í slíku viðtali er hægt að glöggva sig á vandamálinu og fá leiðbeiningar um hvað best er að gera í stöðunni. Einnig stendur spilasjúklingum til boða að taka þátt í stuðningsghóp sem kemur saman einu sinni í viku. Á slíkum fundum er hægt að hitta aðra spilafíkla. Af því má hafa stuðning og læra af því hvernig aðrir hafa tekið á málum. Námskeið eru haldin sem standa yfir í eina helgi. Þar eru þátttakendur fræddir um hvað spilafíkn er og bent á leiðir til að takast á við hana. Námskeiðið felst í fyrirlestrum og hópumræðu. Yfirleitt eru spilafíklar ekki lagðir inn á stofnun. Í erfiðum tilvikum hafa þó spilafíklar átt kost á að leggjast inn á Vog og fáeinir hafa farið í heila meðferð án þess að hafa átt við áfengis- og vímuefnavanda að stríða. Enginn sálfræðingur á Íslandi hefur lagt sig sérstaklega eftir því svo vitað sé að meðhöndla spilafíkla. Samt er ástæða til að benda spilafíklum á að þó þeir sæki GA og ráðgjöf eða hópstarf getur líka verið skynsamlegt að leita til sálfræðinga. Þeir eru í mörgum tilfellum mjög færir í að kenna fólk að fást við kvíða, depurð, leiða og reiði sem spilafíklar eru oft í vandræðum með. Einnig er það sérsvið þeirra að kenna fólki nýjar leiðir til að fást við streitu og skipuleggja daglegt líf sem spilafíklar kannast alltof vel við að eiga í erfiðleikum með. Annað sem spilafíklar kvarta oft yfir er að þeir eiga mjög erfitt með að hafa stjórn á hugsun sinni. Margir sálfræðingar geta aðstoðað við þetta með aðferðum sem þeir nota í meðferð annarra sálrænna vandamála. Á Íslandi er líklega besti kosturinn að byrja á því að leita til SÁÁ og fikra sig áfram með að ná tökum á vandanum. Þá koma oft í ljós sérstök vandamál sem í veginum standa sem skynsamlegt getur verið að fara með til sálfræðings. Viturlegt er að þessir meðferðaraðilar viti að spilasjúklingurinn fær aðstoð hjá báðum. Ef spilasjúklingurinn hefur ekki þegar byrjað að sækja GA-fundi ætti hann að gera tilraun til þess strax og honum finnst hann hafa náð einhverju sambandi við meðferðaraðila sína. Frá upphafi er nauðsynlegt að gera sér ljóst að það er meira en að segja það að hætta fjárhættuspili fyrir fullt og allt. Spilafíkilinn getur búist við því að hrasa öðru hvoru framan af eða berjast tímafrekri baráttu við fíkn sem kemur í slæmum kviðum sem þeir einir skilja sem reynsluna hafa. Ef þú ert aðstandandi

Fyrst er að kynna sér og fá fræðslu um spilafíkn og byggja viðhorf sín og viðbrögð á þeirri þekkingu. Ekki er þar með sagt að það sé auðvelt að vera skynsamur í stöðunni. Ráð og leiðbeiningar frá vinum og vandamönnum gefast sjaldnast vel þó þau kunni að vera vel meint. Umfram allt ættu aðstandendur að leita aðstoðar vegna eigin geðheilsu ef reiði, kvíði og þunglyndi sækja fast að. Slík vanlíðan kemur ekki aðeins niður á heilsu og starfsorku, heldur truflar hún líka dómgreindina.

Aðstandendur þurfa sem fyrst að gera sig fjárhagslega sjálfstæða gagnvart spilasjúklingnum þannig að hann hafi sem minnst tækifæri til að skaða aðra. Það er slæmt fyrir hann að hafa það á samviskunni síðar meir og því háðari sem aðstandandi er spilafíklinum því líklegra er að refsiaðgerðum og öðrum illindum sé beitt í samskiptum sem eykur bara á vandræðin. Jafnvel þó aðstandandi spilafíkils fái aðstoð annars staðar ætti hann að hafa samband við þá sem veita spilasjúklingum ráðgjöf og meðferð. Þeir geta gefið ýmis góð ráð í sambandi við framkomu við spilasjúkling eða viðbrögð í tilteknum aðstæðum. Aðstandandinn ætti eindregið að hvetja spilafíkilinn til að leita sér aðstoðar, ( þó ekki með stöðugu röfli og naggi. Þá er gott að hafa hitt það fólk sem verið er að benda á. Þegar spilafíkill leitar sér aðstoðar er gott ef aðstandendur eru tilbúnir til að taka að sér að sjá um ýmislegt er varðar fjárhagsmál fyrir spilafíkilinn. Hér þarf nærgætni því þetta getur verið mjög viðkvæmt mál fyrir suma spilafíkla. Ýmislegt þurfa aðstandendur spilasjúklinga að varast. Eftirfarandi hegðun kemur okkur undantekningalaust í vandræði og gerir vandamálin verri:

·    Að missa stöðugt stjórn á skapinu.

·    Predika, skamma, ákæra og hóta spilasjúklingnum.

·    Yfirheyra spilasjúklinginn í þaula.

·    Hlusta á og taka mark á loforðum. Þetta býður bara vonbrigðunum heim.

·    Reyna að réttlæta eða afsaka spilaáráttuna fyrir sjálfum sér eða öðrum eða breiða yfir afleiðingar fjárhættuspilsins.

·    Gefa spilafíklinum peninga eða skrifa upp á lán fyrir hann.

·    Að fresta því að leita sér sjálfur einhverrar aðstoðar.

Pétur Tyrfingsson, áfengisráðgjafi og BA í sálfræði

.