persona.is
Sjálfsvíg
Sjá nánar » Sjálfsvíg » Þunglyndi

 Okkur bregður í brún þegar við heyrum að einhver hafi fallið fyrir eigin hendi. Fyrir aðstandendur er það ávallt harmleikur. Oft og tíðum skiljum við ekki hvers vegna fólk fyrirfer sér og tölum um að framtíðin hafi verið svo björt eða það hafi legið svo vel á viðkomandi síðast þegar við hittum hann.

Jafnvel þótt við höfum vitað af margháttuðum erfiðleikum og vanlíðan erum við sjaldnast sátt við þessi endalok. Margir óttast sjálfsvíg, bæði að eigin hugsanir séu hættulegar eða óeðlilegar, en einnig þann möguleika að þeir geti á einhvern hátt stuðlað að sjálfsvígi einhvers annars. Þegar samband fólks er komið á heljarþröm getur það átt það til að hóta sjálfsvígi. Sjálfsvíg er því í senn nálægt og fjarlægt, skiljanlegt og óskiljanlegt.

Í þessum pistli beinum við fyrst sjónum okkar að tveimur ólíkum hugmyndum um hvað sjálfsvíg sé. Því næst skoðum við nokkrar tölulegar staðreyndir. Að lokum víkjum við að helstu mögulegum ástæðum sjálfsvíga.

Réttur eða þvingun

Sú skoðun hefur orðið æ meira áberandi á síðustu árum að það sé ákveðin skynsemi í sjálfsvígum. Þau séu valkostur þegar líf okkar virðist óbærilegt og þau byggist á raunhæfu mati á kostum þess og göllum að vera til. Af þessu sjónarmiði leiðir að ekki er hægt að líta á tilraun til sjálfsvígs sem eitt afbrigði geðrænnar truflunar og því alls ekki réttlætanlegt að grípa inn í, t.d. með innlögn og meðferð á geðdeild. Þá er á það bent að ástæður sjálfsvíga geti oft verið vel skiljanlegar, svo sem þegar fólk horfist í augu við banvænan sjúkdóm eða erfiða fötlun, þegar það finnur til óbærilegs sársauka eða lifir merkingarlausu lífi. Þá er dauðinn lausn frá líkamlegri og andlegri kvöl. Í þessu viðhorfi felst sú skoðun að fólk hafi frjálsan vilja undir þessum kringumstæðum, að það vilji í raun deyja og að óbærilegar aðstæður þess séu óbreytanlegar. Við nánari skoðun virðist þetta ekki standast. Eitt af því sem einkennir fólk í sjálfsvígshugleiðingum er að því finnst sem það hafi ekkert val. Þá hefur komið í ljós að a.m.k. 2/3 af þeim sem gera sjálfsvígstilraun voru mjög tvístígandi í afstöðu sinni. Einnig má benda á að það er talið að aðeins u.þ.b. ein tilraun af hverjum 50 takist, sem bendir ekki til eindregins vilja. Hvað varðar þá skoðun að staða fólks sé óumbreytanleg, þá er hún á skjön við flestar kenningar og rannsóknir í sálfræði sem sýna einmitt fram á möguleika þess að breyta viðhorfum, gildum, skilningi, samböndum og ýmsu fleiru. Margir vilja rekja aukna tíðni sjálfsvíga, einkum meðal ungs fólks, til þessa viðhorfs. Í rótlausu samfélagi nútímans stendur fjölskyldan höllum fæti, ungt fólk hefur meira frelsi, en stendur um leið andspænis auknum kröfum. Framtíðin er óviss og freistingar svo sem vímuefni alls staðar. Í stað samstæðs gildismats um t.d. hvað sé rétt og hvað rangt er það orðið sundurleitara og óvissara. Hvers vegna skyldi það ekki vera í lagi að líta á sjálfsvíg sem mögulegan kost þegar og ef í harðbakka slær? Með því að líta á sjálfsvíg sem skynsamlegan valkost er því gefin merking, tilgangur og réttlæting. Þegar einhver er kominn í þá stöðu að flest sund virðast lokuð fælir þessi sýn viðkomandi ekki frá því að stytta sér aldur, hún gæti jafnvel ýtt undir það. Þá er því líka haldið fram að ef sjálfsvíg er skilgreint með þessum hætti skapi það mikla óvissu og óöryggi hjá fagfólki. Það fer að efast um rétt sinn til afskipta og afleiðingin gæti orðið sú að hjálp samfélagsins minnki. Skoðun andstæð þessari lítur á sjálfsvíg sem lokastig þess þegar fólk kiknar undan yfirþyrmandi aðstæðum og látlausri vanlíðan og finnst sem það sé þvingað til þess að hætta að lifa. Þessi þvingun getur átt sér margar rætur í fortíð eða nútíð og tekið á sig margar myndir, svo sem misnotkun, skömm, sársauka, ótta, togstreitu í fjölskyldu, einsemd, vonleysi eða atvinnuleysi. Algengasta hugmyndin er að sjálfsvíg megi rekja til geðrænna truflana, eins og þunglyndis, áfengissýki eða persónuleikagalla. Á þessari hugmynd eru nokkrir annmarkar. Á sjálfsvígstilraun er litið sem sjúkdómseinkenni. Það kann að vekja ótta, t.d. við að vera lokaður inni á geðdeild, og minnka líkur á að viðkomandi leiti sér hjálpar hjá fagfólki. Óttinn getur einnig stuðlað að einangrun frá fjölskyldu og öðru fólki sem aftur á móti eykur álag og minnkar sjálfsálit. Í öðru lagi má segja að tilvísun í geðrænan sjúkdóm horfi of mikið inn á við og líti á sjálfsvíg sem afsprengi innri afla sálarlífsins. Þetta gæti gerst á kostnað þess að líta til umhverfisins og þess sársauka sem það getur skapað. Athyglin beinist að því að koma í veg fyrir að einhver fyrirfari sér, en síður að því að gera lífið þolanlegra. Í þriðja lagi felur of mikil áhersla á geðsjúkdóma það í sér að sjálfsvíg er fyrst og fremst gert að viðfangsefni heilbrigðisstétta. Margir efast hins vegar um að það dugi til. Ef litið er á sjálfsvíg sem afleiðingu óþolandi lífsskilyrða hvefur sá stimipll eða dómur sem annars fylgir sjálfsvígum. Á hinn bóginn kallar það á víðtækari forvarnir og meiri ábyrgð samfélagsins. Flestar skilgreiningar á því hvað sjálfsvíg sé ganga út frá því að það verði að vera viljaathöfn og án allrar þvingunar, annars sé ekki hægt að tala um sjálfsvíg. Samkvæmt seinna viðhorfinu sem hér hefur verið rakið er það aftur á móti sjálfsvíg ef einhver fyrirfer sér vegna þess að honum finnst lífið óbærilegt, hann er þvingaður til þess. Þessi skilgreining snýst ekki um skynsemi, rétt eða vilja, en beinir athygli okkar að því að auka og tryggja lífsgæði hvers og eins.

Tölur og staðreyndir

Það er ekki auðvelt að halda áreiðanlega skrá yfir allt sem lýtur að sjálfsvígum. Það getur til dæmis leikið vafi á því hvað eigi að flokka sem slys og hvað sem sjálfsvíg. Sjálfsvígstilraunir eru enn erfiðari viðfangs. Þá er oft vandasamt að bera saman tölur á milli landa vegna ólíkra aðferða við skráningu og ákveðins breytileika milli ára. Samkvæmt skráningu Hagstofu Íslands hafa sjálfsvíg hér á landi verið með eftirfarandi hætti frá 1951 til 1990.

Sjálfsvíg eftir kyni og aldri 1951-1990

 

51-55

56-60

61-65

66-70

71-75

76-80

81-85

86-90

Alls:

0-9

Karlar

Konur

10-14

1

2

1

3

2

2

11

Karlar

1

2

1

3

2

2

11

Konur

15-19

6

2

3

4

7

7

14

14

57

Karlar

6

2

2

4

6

7

14

13

54

Konur

1

1

1

3

20-24

6

5

4

10

9

16

19

21

90

Karlar

6

3

3

9

8

14

17

20

80

Konur

2

1

1

1

2

2

1

10

25-29

6

6

7

12

12

14

13

18

88

Karlar

5

4

6

10

9

13

11

15

73

Konur

1

2

1

2

3

1

2

3

15

30-34

10

6

10

15

7

14

12

13

87

Karlar

9

5

6

12

4

12

12

10

70

Konur

1

1

4

3

3

2

3

17

35-39

7

10

12

10

9

13

15

11

87

Karlar

7

6

11

8

7

12

10

11

72

Konur

4

1

2

2

1

5

15

40-44

10

6

12

15

9

8

9

12

81

Karlar

5

5

11

11

7

6

5

11

61

Konur

5

1

1

4

2

2

4

1

20

45-49

15

3

6

12

9

8

8

11

72

Karlar

9

6

8

9

5

6

10

53

Konur

6

3

4

3

2

1

19

50-54

8

9

6

11

10

12

17

15

88

Karlar

4

7

5

8

6

8

12

7

57

Konur

4

2

1

3

4

4

5

8

31

55-59

6

7

7

12

8

7

13

15

75

Karlar

6

3

6

11

2

5

6

9

48

Konur

4

1

1

6

2

7

6

27

60-64

4

3

5

7

13

8

7

9

56

Karlar

4

2

3

5

8

6

5

3

36

Konur

1

2

2

5

2

2

6

20

65-69

4

4

8

9

5

5

6

14

55

Karlar

2

3

6

6

4

2

4

9

36

Konur

2

1

2

3

1

3

2

5

19

70-74

2

4

5

4

3

3

14

8

43

Karlar

2

4

4

4

3

1

13

5

36

Konur

1

2

1

3

7

75-79

1

1

1

6

2

4

3

18

Karlar

1

1

1

6

2

4

15

Konur

3

3

80-84

3

1

3

1

1

3

12

Karlar

2

2

1

2

8

Konur

1

1

1

1

4

85 og eldri

1

1

1

3

Karlar

1

1

1

3

Konur

Ekki verður reynt hér að rýna mikið í þessar tölur, enda flókið verk og varasamt. Þó má sjá að það hefur orðið öllu meiri aukning meðal ungra karlmanna en meðal hinna eldri. Ísland hefur jafnan verið um miðbik Evrópuþjóða í sjálfsvígum, en ef greint er á milli aldurshópa og miðað við tölur frá 1989 er Ísland komið í hóp þeirra þjóða sem hafa hvað mesta sjálfsvígstíðni í aldurshópi karla frá 15 til 24 ára. Hins vegar virðist það almennt vera að líkur á sjálfsvígi aukast með hækkandi aldri. Þó tölurnar sjálfar séu ekki hærri, eru þær stærra hlutfall af fjöldanum í eldri aldurshópunum. Þetta gildir einkum um karlmenn. Ekki er hægt að greina neinn marktækan mun á milli árstíða í því hversu tíð sjálfsvíg eru. Af þessum tölum má einnig vera ljóst að um það bil þrisvar sinnum fleiri karlar en konur fremja sjálfsvíg. Karlar ýmist skjóta sig, hengja eða kæfa sig með útblæstri bíla. Konur taka frekar lyf. Hins vegar gera konur þrisvar sinnum fleiri sjálfsvígstilraunir en karlar. Þá eru sjálfsvíg tvisvar sinnum algengari hjá einhleypu fólki en fólki í traustu hjónabandi. Þó að hvert og eitt tilfelli sé einstakt hafa menn engu að síður reynt að draga upp mynd af dæmigerðum einstaklingi sem fremur sjálfsvíg og einnig þeim sem gerir tilraun til þess. Í fyrra tilvikinu er um að ræða karlmann sem er eldri en 40 ára. Helstu ástæður eru léleg heilsa, þunglyndi og hjónabandserfiðleikar. Aðferðirnar eru þær sem voru taldar hér að framan. Í seinna tilvikinu er um að ræða konu, oft húsmóður, á aldrinum 20 til 40 ára, sem tekur of stóran skammt af lyfjum. Helstu ástæður eru þunglyndi og hjónabandsörðugleikar. Þessar lýsingar fela það ekki í sér að það sé fólk af ákveðinni persónugerð sem frekar fremur sjálfsvíg en aðrir. Staðreyndin er sú að engin ein persónugerð er í meiri hættu en önnur. Það hefur reynst afar erfitt að sinna forvörnum einmitt vegna þess hvað það er erfitt að segja fyrir um hverjir séu líklegir til að binda enda á líf sitt. Þessi staða hefur meðal annars leitt til þess að alls kyns goðsagnir og ranghugmyndir um sjálfsvíg hafa orðið til, eins og sjá má í glugga.

Helstu ástæður sjálfsvíga

Það er ekki síður erfitt að skilja hvað það er sem leiðir til þess að einhver fremur sjálfsvíg en hvað það er sem stuðlar að því að við höldum áfram að lifa. Ein algengasta skýringin á því hvers vegna fólk fyrirfer sér hefur verið sú að það sé með einhverjum hætti truflað á geði. Þær tilraunir sem hafa verið gerðar til þess að meta hvort þeir sem fremja sjálfsvíg hafi verið geðveikir hafa skilað afar ólíkum niðurstöðum. Samkvæmt þeim hafa allt frá 5% til 94% þeirra sem taka sitt eigið líf átt í einhverjum geðrænum vanda. Á þessu er því frekar lítið að græða. Þess í stað hafa menn skoðað hvort tíðni sjálfsvíga er meiri í ákveðnum tegundum geðsjúkdóma en meðal fólks almennt. Þá kemur í ljós að svo er. Mest er hættan í alvarlegu þunglyndi. Þar er tíðni sjálfsvíga margföld á við það sem gengur og gerist. Þá er talið að allt að 70% þeirra sem fyrirfara sér hafi haft kynni af einhverju afbrigði þunglyndis. Ennfremur er um aukna tíðni að ræða meðal þeirra sem eiga við alvarlegan áfengisvanda að stríða, þeirra sem þjást af geðklofa og hjá þeim sem taldir eru hafa persónuleikagalla. Þó svo að líkur á sjálfsvígi aukist við það að eiga í geðrænum erfiðleikum þá lifir stærstur hluti þessa fóks með erfiðleikum sínum, það gefst ekki upp. Geðsjúkdómar útskýra því tæpast öll sjálfsvíg. Ein leið sem farin hefur verið til þess að varpa ljósi á sjálfsvíg er að skoða hvað er sameiginlegt með langflestum þeirra, þó hvert þeirra sé í raun sérstakt. Þegar grannt er skoðað má greina nokkur atriði sem virðast vera fyrir hendi í flestum sjálfsvígum. Hvert og eitt þeirra er mikilvægt og gæti orðið lykill að því að forða einhverjum frá því að binda enda á líf sitt. Þessi atriði eru tíu og fylgja hér á eftir. 1. Mjög algengur tilgangur sjálfsvíga er að leita lausnar. Sjálfsvíg eru sjaldnast í tómarúmi. Þau eru eina lausnin sem fólk sér í óleysanlegri stöðu eða óbærilegum sársauka. Þeir sem lifa af sjálfsvígstilraun segja oft: „Þetta var það eina sem ég gat gert.“ 2. Eitt algengasta markmiðið með sjálfsvígum er að losna undan meðvitund sinni og þeim sársauka sem hún er yfirfull af. Það er ekki dauðinn sem er eftirsóknarverður, heldur það að vita ekki lengur af kvöl sinni og pínu. Þessi löngun er oft sá dropi sem fyllir mælinn og sjálfsvíg verður að raunveruleika. 3. Það er yfirleitt óbærilegur, tilfinningalegur sársauki sem knýr harðast dyra hjá þeim sem finnst þeir verða að fyrirfara sér. Það er áreitið sem krefst þess að við því sé brugðist. Fólk í sjálfsvígshugleiðingum er á flótta undan þeirri tilfinningu að þurfa að lifa í stöðugum sársauka. Áhrifaríkasta og fljótvirkasta leiðin til að fá einhvern til að vilja lifa áfram er að minnka sársaukann. 4. Mjög algengt er að fólk í sjálfsvígshugleiðingum hafi ekki náð að uppfylla þarfir sínar. Um margs konar þarfir getur verið að ræða, svo sem fyrir frama, ást eða sjálfstæði. Flest sjálfsvíg bera því sennilega vitni að fleiri en ein þörf er óuppfyllt. 5. Algengustu tilfinningar sem tengjast sjálfsvígum eru vonleysi og hjálparleysi. Tilhlökkun bernskunnar er horfin og fólk sér einungis svartnætti framundan: „Ég get ekkert gert og enginn getur hjálpað mér.“ Með því að meta vonleysi hjá fólki er reynt að segja til um í hve mikilli sjálfsvígshættu það er. Það hefur reynst gefa allþokkalegar vísbendingar og ýtt undir fyrirbyggjandi aðgerðir. Aðrar tilfinningar eru oft nefndar, svo sem reiði og sektarkennd, en vonleysi er sennilega algengasta og afdrifaríkasta tilfinningin. 6. Eitt algengasta hugarástandið í kringum sjálfsvíg er að vera tvístígandi. Einna gleggst sjáum við þetta þegar einhver tekur til dæmis of stóran skammt af lyfjum en fer strax og lætur dæla þeim upp úr sér. Mjög fáir þeirra sem eru í sjálfsvígsþönkum vilja í raun deyja og nær allir yrðu því fegnir ef þeim fyndist ekki að þeir yrðu að stytta sér aldur. Þessi tvístígandi afstaða skapar aftur á móti svigrúm til þess að kljást við vandann með því að treysta sýnina á gildi þess að vera til. 7. Algengt er að sálarástand þess er hyggur á sjálfsvíg eins og skreppi saman eða verði einsýnt. Þessu hefur verið líkt við að horfa í gegnum rör og sjá einungis takmarkaðan hluta umhverfisins. Valkostir virðast fáir eða engir. Það virðist stundum sem ættingjar og vinir skipti ekki máli. Svo er ekki, þeir eru einfaldlega ekki í þeirri mynd sem blasir við hinum illa stadda einstaklingi. Hann sér ekki allt sviðið, heldur einungis val á milli einhverrar óraunhæfrar töfralausnar og þess að deyja. Sjálfsvíg er því varla nokkurn tíma val byggt á skynsemi og yfirvegun. 8. Sú athöfn sem er sameiginleg í öllum sjálfsvígum er að yfirgefa eitthvað, flótti frá vansæld. Þessi flótti er endanlegur og því ólíkur annars konar flótta, til dæmis úr hjónabandi eða að heiman, eða það að skilja amstur hversdagsins eftir og fara í frí. Að flýja lífið er varanleg breyting. 9. Samskipti fyrir sjálfsvíg snúast oft um skilaboð þess efnis að fólk ætli að fyrirfara sér. Það er talið að slík skilaboð hafi legið fyrir í a.m.k. 80% tilvika. Þau geta verið með mörgum hætti og oft bæði óljós og óbein. Það virðist vera að þessi margbreytilegu skilaboð séu mun algengari en til dæmis það að fólk sýni reiði eða einangri sig. 10. Eitt algengasta einkenni þeirra sem fremja sjálfsvíg er að vandi þeirra er ekki nýr af nálinni. Fólkið hefur lengi verið að kljást við það að vera til. Það er sjálfu sér samkvæmt, alveg eins og þeir sem fremja ekki sjálfsvíg. Sjálfsvíg kemur okkur á óvart vegna þess að það er ný hegðun. Hún er hins vegar aðeins ný í baráttu sem hefur átt sér stað lengi. Það hefur ekki reynst auðvelt að útskýra sjálfsvíg. Af ofangreindri umfjöllun mætti þó ætla að komi nógu margir þættir við sögu og verði þeir yfirþyrmandi séu miklar líkur á því að einstaklingur í slíkri stöðu finni sig knúinn til sjálfsvígs. Höfundur einkennanna tíu hér að ofan hefur reynt að búa til líkan sem sýnir hvenær fólk er í mestri hættu. Það eru þrír þættir sem að hans mati ráða mestu: Í fyrsta lagi sársauki, í öðru lagi tímabundin skerðing eða einsýni og í þriðja lagi þörfin til þess að grípa til aðgerða. Þessir þættir byggjast á þeim atriðum sem rakin voru hér að framan. Hverjum þeirra má skipta í fimm stig sem ná frá vellíðan, víðsýni og yfirvegun til óbærilegs sársauka, mikillar einsýni og þess að finna sig knúinn til aðgerða. Á mynd gæti þetta litið út eins og teningur með 125 hluta. Það er einungis þegar þættirnir þrír eru í hámarki, safnast saman í einum hluta af þessum 125, sem líkurnar á sjálfsvígi eru yfirgnæfandi. Það er engin einhlít skýring til á því hvers vegna fólk fellur fyrir eigin hendi. Hér hefur athyglinni verið beint að einu sjónarhorni. Meira þarf til og markmiðið hlýtur að vera að öðlast svo traustan skilning að hægt sé að koma við öflugum forvörnum.

Að lokum

Í þessum pistli hefur verið dregin upp mynd af afar flóknu og viðkvæmu máli. Þessir almennu drættir skilja marga eftir með ótal spurningar. Það gildir ekki síst fyrir þá sem hafa persónulega reynslu sem tengist sjálfsvígi eða sjálfsvígstilraun náins vinar eða ættingja. Þá er heldur ekki komið inn á líðan og stöðu þeirra sem eftir lifa, hvernig þeir kljást við sorg sína og söknuð. Smám saman er að verða til þekking á því sem knýr fólk til þess að binda enda á líf sitt. Á grundvelli hennar ætti að vera hægt að koma í veg fyrir fjölda ótímabærra dauðsfalla. Hörður Þorgilsson, sálfræðingur