persona.is
Sjálfsvíg ungs fólks

 Sjálfsvíg ungs fólks

Sjálfsvígsvandi ungs fólks hefur verið samfélagslegt vandamál í mörg ár eins og kemur vel fram í skýrslu nefndar menntamálaráðuneytisins um þetta vandamál, en hún kom út 1996. Hér verður fjallað um sjálfsvígstíðni, sjálfsfvígsatferli, áhættuþætti sjálfsvíga og fyrirbyggjandi aðgerðir. Allt eru þetta þættir sem fjallað er um í fræðigrein sem nefnist sjálfsvígsfræði. Sjálfsvígsfræði hefur verið skilgreind sem vísindi um sjálfsvígsatferli. Á undanförnum árum hefur þessi fræðigrein í auknum mæli verið kennd í hinum ýmsu háskólum, oftast sem hluti af hefðbundnu háskólanámi eins og geðlæknisfræði og sálfræði en einnig líka sem sjálfsstæð fræðigrein. Nýlega var skipuð prófersorsstaða í sjálfsvígsfræðum við Oslóarháskóla.

Sjálfsvígsfræði

Sjálfsvígsvandi ungs fólks hefur verið samfélagslegt vandamál í mörg ár eins og kemur vel fram í skýrslu nefndar menntamálaráðuneytisins um þetta vandamál, en hún kom út 1996. Hér verður fjallað um sjálfsvígstíðni, sjálfsfvígsatferli, áhættuþætti sjálfsvíga og fyrirbyggjandi aðgerðir. Allt eru þetta þættir sem fjallað er um í fræðigrein sem nefnist sjálfsvígsfræði. Sjálfsvígsfræði hefur verið skilgreind sem vísindi um sjálfsvígsatferli. Á undanförnum árum hefur þessi fræðigrein í auknum mæli verið kennd í hinum ýmsu háskólum, oftast sem hluti af hefðbundnu háskólanámi eins og geðlæknisfræði og sálfræði en einnig líka sem sjálfsstæð fræðigrein. Nýlega var skipuð prófersorsstaða í sjálfsvígsfræðum við Oslóarháskóla. Æskilegt væri að byggja upp endurmenntunarlíkan af sjálfsvígsfræðum hér á Íslandi. Tillögu að uppbyggingu slíks líkans má sjá á mynd 1. Mynd 1. Líkan að sjálfsvígsfræðum Grunnurinn er sjálf sjálfsvígsfræðin og tengigreinar, eins og áfallahjálp, kreppufræði og sorgarfræði. Hefðbundnar fræðigreinar tengjast svo þessu, þar má nefna sálfræði, læknisfræði og félagsfræði. Reynsla af því að vinna í málum sem tengjast sjálfsvígum er afar mikilvæg og þá reynir á klíniska þekkingu og reynslu. Grunnur í samtalstækni þar sem lögð er sérstök áhersla á sjálfsvíg og sjálfsvígstilraunir er einnig nauðsynlegur hluti af sjálfsvígsfræðum. Að síðustu verður líkanið að gera ráð fyrir að þeir sem stunda þessi fræði hafi fengið handleiðslu hjá meðferðaraðila sem hefur sérhæft sig í sálfsvígsfræðum eða skyldum greinum.

Tíðni sjálfsvíga

Sjálfsvígstíðni ungs fólks (15 – 24 ára) hefur aukist á Íslandi undanfarna tvo áratugi, eins og víðast hvar annars staðar í hinum vestræna heimi. Heildartíðni sjálfsvíga á Íslandi er þó svipuð og í mörgum öðrum vestrænum löndum. Sjálfsvígstíðni ungs fólks er há hér á landi og þá sérstaklega hjá körlum á aldrinum 15 – 24 ára. Þess má geta að sjálfsvíg er önnur algengasta dánarorsök ungra íslenskra karla. Á árunum 1990 – 1994 sviptu 37 karlmenn á aldrinum 15 – 24 ára sig lífi en 3 konur. Þess ber þó að geta að sjálfsvígstilraunir eru algengari meðal kvenna en karla. Í skýrslu sem unnin var af nefnd á vegum menntamálaráðuneytis frá árinu 1996 kom fram að áætlaður fjöldi sjálfsvígstilrauna hér á landi sé 450 á ári. Skráning sjálfsvíga er í höndum Hagstofu Íslands. Erfiðleikar með skráningu sjálfsvíga hjá Hagstofunni hafa hamlað rannsókir á þessu sviði, en nýjustu tölur ná til ársins 1996. Þetta er mjög bagalegt þar sem tölur frá lögreglu benda til að tíðni sjálfsvíga hafi aukist árið 1999 og það sem af er árinu 2000. Ekki er þó hægt að draga þá ályktun að sjálfsvíg ungs fólks séu að aukast þar sem Íslendingar eru mjög fámennir í samanburði við aðrar þjóðir, í slíkum samanburði vegur hvert sjálfsvíg hlutfallslega þungt og alltaf hafa verið nokkuð miklar sveiflur í tíðni sjálfsvíga. Ef árið 1996 er skoðað eru Íslendingar ekki meðal hæstu þjóða hvað varðar sjálfsvígstíðni, ef hins vegar árin 1990 og 1991 eru skoðuð þá hefðum við verið í þeim hópi. Það þarf því að skoða tíðnina að minnsta kosti í fimm ára tímabilum til að meta hvot um raunverulega aukningu er að ræða eða ekki.

Sjálfsvígsatferli

Sjálfsvígsatferli er öll sú hegðun sem tengist þróuninni frá vægum sjálfsvígshugsunum og sjálfsvígstjáningu að sjálfsvígstilraunum og í sumum tilfellum sjálfsvígum. Hugtakið felur í sér að hér er um þróun að ræða, sem um leið gefur okkur möguleika á að hafa áhrif á þróunarferlið. Hægt er að hafa áhrif á sjálfsvígsatferli og koma þannig í veg fyrir sjálfsvíg. Vert er að hafa í huga að þó að í skilgreinigu á sjálfsvígsatferli sé gert ráð fyrir þessari þróun virðist sumt ungt fólk svipta sig lífi án þess að nokkur gæti gert sér í hugarlund að slíkt gæti gerst. Ungur maður sviptir sig lífi þar sem allt virðist hafa gengið vel, skóli og fjölskyldulíf. Hann var vinsæll og oftast hrókur alls fagnaðar. Hin tilfellin eru þó mun fleiri, þar sem finnast spor um þróun, sem því miður getur stundum endað með sjálfsvígi. Margar kenningar eru til um orsakir sjálfsvíga, sumar eru sálfræðilegar aðrar félagsfræðilegar og enn aðrar læknisfræðilegar. Ekki verður fjallað um þær sérstaklega hér heldur fjallað um sjálfsvígsatferli út frá eftirfarandi skýringarlíkani. Mynd 2. Skýringarlíkan sjálfsvíga Eins og sjá má eru fjölmargir þættir sem hafa þarf í huga þegar leitað er skýringa á sjálfsvígum. Lítum aðeins nánar á þessa þætti.

a) Áhrifavaldar sjálfsvíga. Félagsleg, sálfræðileg og líkamleg líðan í gegnum árin er oft og tíðum erfiðari hjá þeim sem reyna að svipta sig lífi en gengur og gerist. Einnig kann að vera að viðkomandi sé óvenju viðkvæmur til að takast á við stærri öldur í lífsins ólgusjó. Hinn uppeldislegi arfur hefur oft verið þyrnum stráður og erfitt að bera hann án þess að bera skaða af. Mikilvægt er að hafa í huga að oft hefur verið litið fram hjá þunglyndi barna og unglinga, áður var talið að börn hefðu ekki vitsmunalegar og persónulegar forsendur til að verða þunglynd. Það eru ekki mörg ár síðan bandaríska geðlæknafélagið skilgreindi þunglyndi barna og unglinga sem veikindi. Þunglyndi er stór áhrifaþáttur í sjálfsvígum og því mikilvægt að þunglyndi uppgötvist ef það er farið að hrjá barn eða ungling.

b) Streita og álag. Hér er átt við áföll og álagsþætti, til dæmis: Ástvinamissi, skilnað foreldra, verða fyrir slysi, atvinnuleysi, langvarandi samskiptaerfiðleika. Atburðir sem valda viðkomandi niðurlægingu eða áfalli, til dæmis: Andlegt og líkamlegt ofbeldi, nauðgun, afbrot. Lítið sjálfsálit.

c) Með sjálfsvígssamsömun er átt við tvennt:

1.        Sjálfsvígshugsanir. Þær eru mjög ólíkar hugsunum um dauðann og lífið sem fólk veltir oft fyrir sér, eins og t.d. hvaða lög eigi að leika í jarðarförinni o.s.frv. Þessar hugsanir dúndrast inn í höfuð viðkomandi og láta hann ekki í friði. Þær koma þegar viðkomandi slakar á að kvöldi, í erfiðri kennslustund í skóla og þegar verið er að horfa á sjónvarp. Það er eins og heimur unglingsins þrengist og þrengist þannig að ekki er möguleiki á að sjá aðrar lausnir en þessa einu. Í rannsókn á vegum Rannsóknarstofnunar uppeldis- og menntamála kom fram að í 9. og 10. bekk grunnskóla í marsmánuði 1992 höfðu 23% pilta og 38% stúlkna einhvern tíma hugleitt að svipta sig lífi (Þóroddur Bjarnason og Þórólfur Þórlindsson).

2.        Sjálfsvígstjáning. Margir unglingar tjá sig um sjálfsvígshugsanir sínar beint eða óbeint. Mun algengara er að unglingur segi vini eða vinkonu frá heldur en foreldrum. Stundum tjáir unglingurinn sig mjög nákvæmlega um áfrom sín en oft er tjáning tiltölulega óljós eins og: „ég vildi óska þess að ég væri dauður“, „heimurinn væri betri án mín“, „bráðum heyrist ekkert í mínu herbergi“. Sá sem heyrir þessi óljósu skilaboð gerir sér oft ekki grein fyrir hvað viðkomandi er að tala um fyrr en eftir sjálfsvígið eða sálfsvígstilraunina.

d) Sjálfsvígsyfirfærsla. Þegar einhver nákominn hefur svipt sig lífi, vinur, vinkona, foreldri, systkini og/eða einhver sem viðkomandi þekkir vel eða tengist er þessi aðferð (sjálfsvíg) orðin nátengdari, þar sem hún er komin inn í fjölskyldukerfið eða inn í hans persónulega heim. Það er meiri hætta á að í sjálfsvígum felist viss viðurkenning en ef hún væri ekki til í persónulega heimi viðkomandi. Eins er komin sjálfsvígsyfirfærsla ef viðkomandi hefur sjálf(ur) reynt að svipta sig lífi.

e) Sjálfsvígstilraun. Sjálfsvígtilraunir eru taldar vera um 450 ár ári hér á Íslandi. Sá sem einu sinni hefur gert tilraun er í meiri sjálfsvígshættu en sá sem ekki hefur gert tilraun.

Því miður heppnast of margar sjálfsvígstilraunir og of margar tilraunir eru gerðar. Okkar hlutverk er að draga úr þeim. Það er ekki bara hlutverk sérfræðinga að reyna að draga úr erfiðleikum ungs fólks sem stundum leiða til sjálfsvígsatferlis, sem getur endað með sjálfsvígstilraun eða sjálfsvígi. Allir geta lagt sitt af mörkum, foreldrar, vinir og félagar. Foreldrar með því að þekkja vel líðan barna sinna og að kunna að hlusta á þau og sýna líðan þeirra skilning. Vinur eða vinkona með því fá vin sinn til að leita aðstoðar þegar hann tjáir sig um að hann vilji binda enda á líf sitt. Ef það dugar ekki ætti vinur eða félagi að rjúfa trúnað og leita til fullorðins, t.d. foreldis, kennara, námsráðgjafa, sálfræðings eða einhvers sem þú treystir. Það á að rjúfa trúnað þegar líf liggur við. Það er mikilvægt að hafa í huga að sjálfsvígstilraun er oftast ákall á hjálp. Stór hluti ungs fólks sem er í mikilli sjálfsvígshættu er það aðeins einu sinni í lífi sínu. Mikilvægt er að hafa í huga að sjálfsvígi lýkur ekki við atburðinn. Áfall aðstandenda, fjölskyldu og vina er svo mikið að það kemur fram í mjög erfiðri sorgarúrvinnslu, stundum geðrænum erfiðleikum og líkamlegum veikindum í auknu mæli. Aðstandendur þurfa mikinn stuðning frá sínum nánustu og ekki síður frá sérfræðingum.

Áhættuþættir sjálfsvíga

Ástæða þess að einhver er í sjálfsvígshættu er oftast flókið samspil margra þátta. Við getum sagt að einhver sé í meiri hættu ef ákveðnir áhættuþættir eru til staðar en ef þeir eru það ekki. Það er því mjög mikilvægt að þekkja þessa áhættuþætti svo við getum betur gert okkur grein fyrir því hverjir eru í hættu og þá hve mikilli. Eftirfarandi þættir geta verið áhættuþættir hvað varðar sjálfsvígsatferli. Þunglyndi

Þunglyndi getur verið stór áhrifaþáttur þess að viðkomandi sé hættara við sjálfsvígsatferli en ella. Niðurstöður fjölda rannsókna sýna mikla fylgni milli þunglyndiseinkenna og sjálfsvíga, þó að það geti verið nokkuð breytilegt eftir rannsóknum. Það er mikilvægt að taka tillit til þessa, sérstaklega þar sem oft er erfitt að greina þunglyndi hjá ungu fólki. Fagfólk þarf að þekkja einkenni þunglyndis mjög vel og stéttir sem vinna mikið með ungu fólki, eins og kennarar, þurfa að kynna sér þunglyndiseinkenni vel. Foreldrar þurfa að hafa aðgang að fræðslu um þunglyndi meðal barna og unglinga til þess að þeir geti þekkt einkennin. Þótt þunglyndi sé miklivægur áhrifaþáttur sýna ekki næstum allir sem eru haldnir þunglyndi sjálfsvígsatferli. Hafa ber í huga að þunglyndi er algengt og er langoftast læknanlegt með viðtalsmeðferð og lyfjameðferð.

Áfengis- og fíkniefnanotkun

Rannsóknir hafa sýnt að misnotkun áfengis og fíkniefnanotkun eru afgerandi áhættuþættir. Í rannsókn á sjálfsvígum á Austurlandi og höfuðborgarsvæðinu 1984 – 1991 (óbirt rannsókn á vegum Landlæknisembættisins, Wilhelm Norðfjörð) kemur fram að margir af þeim sem sviptu sig lífi byrjuðu ungir að drekka áfengi. Einnig kemur fram að þeir áttu erfitt með neyslu áfengis, þar sem þeir urðu gjarnan daprari og þyngri af neyslunni en gengur og gerist eða þá árásargjarnari.

Félagsleg sefjun/smit

Þegar keðjusjálfsvíg fara í gang má segja að félgagsleg sefjun sé að hluta til áhrifavaldur. Í áðurnefndri rannsókn Landlæknisembættisins voru borin saman sjálfsvíg sem áttu sér stað á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu á árunum 1984 til 1991. Í rannsókninni koma fram áberandi meiri sefjunareinkenni á Austurlandi en á höfðurborgarsvæðinu. Á Austurlandi þekkti helmingur þeirra sem svipt hafði sig lífi einhvern sem hafði gert það sama áður, hlutfallið var mun lægra á höfuðborgarsvæðinu. Því má segja að sjálfsvígsyfirfærslan hafi verið orðin mjög mikil í unglingamenningunni á Austurlandi. Ýmsar skýringar kunna að vera á því. Ef einhver sviptir sig lífi í fámennu samfélagi, eins og á Austurlandi, eru meiri líkur á því að fólk þekki til viðkomandi. Það virðist vera að meiri samgangur sé á milli unglinga sem búa á fámennari stöðum. Á tiltölulega skömmum tíma urðu sjálfsvíg að „ásættanlegri“ lausn við fjölmörgum vandamálum. Sjálfsvíg urðu smám saman hluti af þeim lausnum ,sem hægt var að grípa til í unglingamenningu Austfjarða.

Þegar áhættuþættir sjálfsvíga leggjast allir á sama aðila er viðkomandi að sjálfssögðu mun hættara til að líta á sjálfsvíg sem lausn en ella. Ungur þunglyndur karlmaður sem misnotar áfengi og þekkir eða þekkti einhvern sem svipt hefur sig lífi býr yfir þremur áhrifamestu áhættuþáttum sjálfsvíga. Hann er því í mun meiri sjálfsvígshættu heldur en aðrir ungir karlmenn. Hér á eftir koma fram ýmsir þættir er hafa áhrif á sjálfsvígsatferli, í mismunandi mæli eftir tilfellum. Erfið tilfinningaleg líðan

Alvarleg kvíðaeinkenni og ofsakvíðaköst (panic attacks) geta haft áhrif á sjálfsvígsatferli. Einnig geta geðsjúkdómar eins og geðklofi leitt til sjálfsvígsatferlis. Persónuleikatruflanir sem leiða af sér langvarandi samskiptaerfiðleika við umhverfi og fjölskyldu eru oft mikilvægur áhrifaþáttur. Oft tengjast þessir erfiðleikar þunglyndi og áfengis- og vímuefnamisnotkun.

Félagslegir erfiðleikar og uppeldislegur arfur

Uppvöxtur hefur verið þyrnum stráður, miklir erfiðleikar foreldra, áfengismisnotkun, kynferðilsleg valdbeiting, andleg og líkamlega valdníðsla og félagslegir erfiðleikar í jafningjahópi eins og einelti og félagsleg einangrun. Allt þetta getur aukið hættuna á sjálfsvígstilraunum.

Erfiðleikar við að átta sig á kynhlutverki sínu

Fyrir marga er erfitt að átta sig á kynhlutverki sína og finna út úr því hvort þeir séu samkynhneigðir eða gagnkynhneigðir. Þetta virðist vera enn erfiðara fyrir drengi en stúlkur. Rannsóknir sýna að sjálfsvíg eru algengari hjá hommum og lesbíum en hjá gagnkynhneigðum. Fyrir homma og lesbíur býður flóknari og erfiðari lífsbarátta, m.a. vegna almennra vanþekkingar og fordóma gagnvart stöðu þeirra í samfélaginu. Öll barátta gegn þeim fordómum og vanþekkingu getur haft fyrirbyggjandi gildi gagnvart sjálfsvígsatferli.

Áföll og hremmingar

Slys, dauðsföll og atburðir sem hafa mikla erfiðleika í för með sér og marka stór spor í líf viðkomandi, t.d. nauðgun, auka líkur á sjálfsvígsatferli. Áhrif þessara atburða geta blossað upp þegar aðrir erfiðleikar eiga sér stað, sérstaklega ef ekki hefur verið unnið úr atburðinum.

Árekstrar við umhverfi/ frelsissvipting

Hefðbundin íslensk „brennivínsafbrot“ eins og að aka drukkinn, missa prófið, skemma eignir eða meiða fólk getur verið mjög erfitt fyrir marga. Rannsóknir sýna að sjálfsvíg eru algengari í fangelsum en fyrir utan veggja þeirra.

Niðurlæging

Það sem einstaklingur upplifir sem mikla alvarlega niðurlægingu getur stundum verið kornið sem fyllir mælinn.

Afburðahæfileikar

Þeir sem búa yfir afburðahæfileikum, t.d. í námi eða íþróttum, finnst stundum þeir fyrst og fremst metnir af afrekum sínum en ekki af þeim sjálfum sem persónum. Þetta getur meðal annars stafað af því að þeir eiga erfitt með að meta sjáfa sig nema í gegnum afrek sín. Það sem einhverjum öðrum finnst smávægileg mistök getur orðið óyfirstíganleg hindrun fyrir þann sem býr yfir afburðahæfileikum. Ályktanir fólks með afburðahæfileika eru stundum þráhyggjukenndar. Sé niðurstaðan sem fólk kemst stundum að sú að það eigi ekki skilið að lifa lífinu vegna þess að það hafi brugðist getur það endað með sjálfsvígi.

Ýmsir þættir

Námserfiðleikar eru algengir og sumir þeirra sem eru að takast á við námserfiðleika árum saman missa sjálfsálitið hægt og sígandi nema þeir fái sérstakan stuðning til að takast á við þá. Stundum býður sjálfsálitið upp á sjálfsvígsatferli. Að verða barnshafandi er stundum mikið áfall fyrir ungt fólk og þá sérstaklega stúlkur sem getur orðið þeim ofviða að takast á við. Þeim getur fundist eins og þær séu komnar í öngstræti og að engin leið sé fær önnur en að svipta sig lífi.

Einstaklingur sem er með mörg þessara einkenna í miklum mæli er hugsanalega í alvarlegri þróun sjálfsvígsatferlis og getur verið í sjálfsvígshættu. Hann ætti því að leita aðstoðar sérfræðings, vina og fjölskyldu.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Almennar fyrirbyggjandi aðgerðir

Hér er átt við allt sem lýtur að heilbrigði og bættri líðan og gerir fólk hæfara til að takast á við það sem mætir því í lífinu. Nefna má áherslu á íþróttir. Rannsóknir sýna að íþróttafólk er síður í sjálfsvígshættu. Það þarf að styðja og hjálpa íþróttahreyfingunni til að leggja í auknum mæli áherslu á íþróttir fyrir alla en einblína ekki á keppnisíþróttir.

Uppeldi er auðvitað mikilvægur þáttur fyrir alla. Skapa þarf hinni íslensku fjölskyldu meira svigrúm til að sinna því flókna uppeldi sem nútíma samfélag krefst. Samfélagið ætti í auknum mæli að leggja áherslu á hversu mikilvægt það er fyrir foreldra að kynna sér kenningar í uppeldi. Foreldrum þarf að kenna en ekki kenna um. Þar sem samvera foreldra og barna virðist oft vera í minna mæli en foreldrar svo gjarnan vildu liggur mikið við að samskipti þeirra á milli séu góð. Flestar stofnanir geta lagt sitt af mörkum. Heilsugæslustöðvar, sem liggja eins og net í kringum landið, geta aukið sinn þátt í fyrirbyggjadi starfi, t.d. með margvíslegri fræðslu varðandi mataræði, fatlanir, sjúkdóma, slökun, áföll og áfallahjálp svo eitthvað sé nefnt. Sama má segja um skóla. Hér gæti verið um að ræða úrræði eins og ný 2 ára skólabraut fyrir nemendur sem hentar ekki fjögura ára námbraut og hefðu annars heltst úr lestinni í hugsanlegri uppgjöf. Vímuvarnarsamþætt námsefni, áfallaráð, fræðsluámskeið fyrir nemendur og starfsmenn skóla, samningur um þjónustu frá heilsugæslustöð, sérstakt kerfi er tryggir vissa nánd við nemendur, og samstarf við íþróttafélög og sveitastjórnir. Hvað hentar hverjum og einum sér til heilla er sjálfsagt eins mismunandi og einstaklingarnir eru margir. Það er því mikilvægt að framboð hinna ýmsu tilboða í formi heilsuræktar, sjálfsskoðunar og tómstundaiðkunar sé fjölbreytilegt og mikið. Fyrirbyggjandi aðgerðir beinast að því að finna einstaklinga sem sýna sjálfsvígsatferli og tryggja þeim leiðir til að komast úr erfiðleikum sínum. Einn mikilvægasti þátturinn hér er endurmenntun fagfólks í sjálfsvígsfræðum og skyldum greinum. Norðmenn settu heildarstefnu varðandi fyrirbyggjandi aðgerðir um sjálfsvíg árið 1993. Þar er mikil áhersla löggð á endurmenntun, m.a. vegna takmarkaðrar þekkingar fagfólks á efninu sem stafaði af því að fræðsla um sjálfsvíg var mjög lítil í hefðbundnu háskólanámi. Norðmenn settu á fót fyrsta sjálfsvígsforvarnasetrið 1996 með þremur útibúum úti á landi. Fagfólk þarf að læra að þekkja einkennin , spyrja réttra spurninga og kunna að hlusta og sýna skilning. Mjög mikilvægt er að tryggja starfsfólki skóla fræðslu um það sama. Viss lágmarksfræðsla þarf að vera aðgengileg fyrir nemendur og foreldra til að koma í veg fyrir vanþekkingu og fordóma í tengslum við sjálfsvíg. Gera þarf hér sterkan greinarmun á nytsamlegri fræðslu og þeirri hættu að verið sé að velta sér upp úr efninu. Umfjöllun um sjálfsvíg getur verið mjög vandasöm, meðal annars af vissri sefjunarhættu, þess vegna er það góð regla að „rómantísera“ eða ofgera aldrei sjálfsvígsumræðu og sjálfsvígsandlát á að fá sömu viðhöfn og önnur andlát. Ákveðin hætta er á að sjálfsvígsdauðdagi sé „rómantíseraður“, sem getur aukið líkur á keðjusjálfsvígum. Ungt fólk þarf að vita að það á að leita eftir hjálp þegar vinur eða vinkona talar um sjálfsvíg. Það þarf vissa undirstöðuþekkingu á sjálfsvígum en ekki síður þarf ungt fólk að þekkja þunglyndiseinkenni og vita hvað það er að líða mjög illa. Ungt fólk þarf að vita að það er hægt að fá hjálp og þunglyndi er hægt að meðhöndla og lækna. Flest ungmenni eru að biðja um hjálp þegar þau segja vini frá sjálfsvígsáformum sínum. Þau eru að biðja um hjálp þar sem þeim finnst þau ekki geta leyst vandamál sín lengur og þau geta heldur ekki lengur hlaupið frá þeim. Þau telja að þessi ódrepandi sársauki hverfi aldrei og sé eilífur. Það er algengt að þeir sem eru í djúpri geðlægð telji sig ekki lengur geta upplifað þennan dapurleika og þá getur verið að þau sjái sjálfsvígið sem flóttaleið. Mikilvægt er að starfmenn skóla og nemendur geri sér grein fyrir að eftirfarandi hegðunareinkenni geta verið vísbendingar um sjáfsvígshættu:

·         Sjálfsvígshugsanir

·         Sjálfsvígstjáning

·         Áberandi breyting á hegðun í tiltölulega langan tíma

·         Vinur verður fyrir miklum missi

·         Vinur gefur frá sér vissar eigur og hegðar sér líka eins og hann sé að klára ákveðin mál sem hugsanlega lengi hefur staðið til að gera

·         Sjálfseyðileggjandi hegðun

·         Mikið mótlæti og reiði

·         Lélegt sjálfsmat

Fyrirbyggjandi aðgerðir eftir sjálfsvíg

Af ýmsum ástæðum sem ekki verða raktar hér var farið mjög seint að skrifa um reynslu aðstandenda þeirra er höfðu misst einhvern vegna sjálfsvígs Fyrsta bókin um þetta efni kom út 1972 og hún féll eiginlega í gleymsku. Það er því ekki fyrr en um og eftir 1980 sem farið var að skrifa um og rannsaka hvað gerist eftir sjálfsvíg. Einn af brautryðendunum er E. Betsy Ross sem skrifaði bók um sína reynslu er hún missti maka sinn vegna sjálfsvígs. Ágrip af bókinni komu út 1980 en í heild kom bókin út 1986 og heitir Life after suicide. A ray of hope for those left behind (1997). Betsy tók þátt í stuðningshópi fólks er bjó yfir þessari sömu reynslu, að hafa misst einhvern nákomin vegna sjálfsvígs. Hún tók svo þátt í að stofna samtök sem héldu fyrstu alþjóðlegu ráðstefnuna 1980 um þetta málefni.

Betsy Ross telur að það sé lykilatriði að aðstandendur fái sjálfsvígseftirmeðferð (suicide postvention). „Sjálfsvígseftirmeðferð byggist upp af margvíslegri meðferðalegri, menntunarlegri og skipulagslegri virkni, í því umfangi afleiðinga sjálfsvígs eða sjálfsvígstilraunar með það fyrir augum að hún dragi úr tilfinningalegu álagi og vanlíðan einstaklingsins og dragi úr hættu á frekari sjálfsvígum“. Að mati höfundar þessa kafla væri eftirfarandi fyrirbyggjandi aðgerðir mikilvægar fyrir þá sem misst hafa einhvern vegna sjálfsvígs.

1. Sjálfsvíginu lýkur ekki við verknaðinn sjálfan heldur lifir það áfram í þeim sem eftir lifa, oft með mikilli þjáningu. Hér er í flestum tilfellum um flókna sorg að ræða þannig að erfitt er fyrir aðstandendur að vinna sig í gegnum sorgina með þeim björgum sem fjölskylda þess látna býr yfir. Hefðbundnar sorgarathafnir kirkju duga skammt þegar um sjálfsvíg er að ræða. Rannsóknir sýna að mikil vanlíðan getur fylgt í kjölfarið árum saman, líkamleg veikindi aukast og þunglyndi er algengur fylgifiskur. Hér þarf því að koma til sorgarráðgjöf og í mörgum tilfellum sorgarmeðferð. Með endurmenntun getur starfsfólk heilsugæslustöðva veitt sorgarráðgjöf og vísað þeim skjólstæðingum í sorgarmeðferð sem því þykir að þurfi þess. Bjóða mætti aðstandendum eftirfylgd í ár eftir atburðinn á heilsugæslustöð. Gott væri ef samvinna væri með presti viðkomandi fjölskyldu.

2. Stofna þyrfti sorgarsamtök þeirra sem misst hafa einhvern vegna sjálfsvígs. Sorgarvinnan er svo ólík allri annari að fólk finnur sig ekki í hefðbundnum sorgarsamtökum. Slík sorgarsamtök gæti verið opin þeim sem hafa áhuga á málefninu. Slík sorgarsamtök gætu veitt syrgjendum mikinn stuðning.

3. Aðferðir er beinast að því að draga úr hættunni á keðjusjálfsvígum, félagslegri sefjun. Hér er um að ræða samruna tveggja aðferða, þ.a.s. sorgarúrvinnslu og áfallahjálpar. Ef sá látni er nemandi í skóla þá færi áfallahjálp í gang innan 3 sólarhringa frá andláti. Nauðsynlegt er að skólar hafi áfallaráð og séu búnir að skipuleggja viðbrög sín áður en áfallið gerist. Þeir sem tengjast þeim látna mest fá svo sorgarráðgjöf og sorgarmeðferð ef þurfa þykir.

Hversu mikil fræðsla og umræða um sjálfsvígsmál á að koma inn í skólanna er mikið álitamál. Mörg lönd hafa sett fræðsluefni inn í grunnskóla sína og framhaldsskóla (mörg fylki í Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu). Sannleikurinn er sá að þettta er mjög vandmeðfarið. Í tímaritinu Crisis sem er gefið út af alþjóðlegum samtökum um fyrirbyggjandi aðferðir gegn sjálfsvígum (IASP, International, Association for Suicide Prevention) var til að mynda fjallað um hættuna af of mikilli sjálfsvígsumræðu inn í skólum. Mjög erfitt er að sýna fram á jákvæðan árangur af sjálfsvígsumræðu í skólum með þeirri aðferðafræði sem er nauðsynleg í rannsóknum eins og reyndar hefur líka verið erfitt með áfallahjálp. Það þarf því vandaða fagmennsku og trausta þekkingu til að þessi fyrirbyggjandi úrræði snúist ekki í höndunum á okkur.

Hvert er hægt að leita ef einhver er í alvarlegri

sjálfsvígshættu?

Á höfuðborgrsvæðinu er alltaf vakt á geðdeild sjúkrahúsanna sem hægt er að leita til allan sólarhringinn.

Frá 8:30 til 16:30 í síma 560-1680

Frá 16:30 til 23:00 í síma 560-1770

Frá 23:00 til 8:30 í síma 560-1740

Ef viðkomandi er yngri en 18 ára er hægt að leita til Barna og unglingageðdeildar á Dalbraut

Frá 9:00 til 17:00 virka daga í síma 560-2500

Þá er hægt að leita aðstoðar í neyðarlínuna 112 allan sólarhringinn. Úti á landi, á alltaf að vera hægt að leita til heilsugæslustöðvar.  Þegar vægari hætta er á ferðum er stuðningur fjölskyldu og t.d. að leita til sálfræðings og geðlæknis fullnægjandi.

Hvað geta aðstandendur gert?

·         Gerðu þér far um að koma í kistulagningu og í jarðaförin. Áfallið, afneitunin og erfiðleikarnir að horfast í augu við sjálfsvígið er yfirþyrmandi fyrir þá sem eftir lifa. Þeir þurfa ALLAN þann stuðning sem þeir geta fengið.

·         Hegðaðu þér eins og þú ert vön/vanur þegar þú ferð í kistulagninguna eða jarðaförina. Þetta er ekki auðvelt þar sem þig langar sérstaklega mikið til að votta samúð en þú veist ekki hvað á að segja. Fá orð duga best. „Mig tekur þetta svo sárt. Ég veit ekki hvað ég á að segja við þig því ég þekki ekki hvernig þetta er sem þú ert að fara í gegnum“. Taktu í hendina á þeim, fyrir alla muni taktu utan um þá og ekki finnast að þú þurfir endilega að segja neitt.

·         Ekki finnast erfitt að gráta í augsýn annarra ef sá látni stóð þér nær. Oft eru það eftirlifendirnir sem reyna að hugga þig en á sama tíma skilja þeir tárin þín og finna að þeir eru ekki einir í sorginni.

·         Sektarkennd eftirlifenda sjálfsvíga gerir það að verkum að þeir eiga á hættu að vera næmari en aðrir sem syrgja fyrir því hverjir sýna stuðning og hverjir ekki. Þess vegna er mikilvægt að koma í heimsókn, senda kveðju og sýna umhyggjuna á þann hátt á næstu vikum eða mánuðum.

·         Vertu meðvitaður um að sársauki eftirlifenda sjálfsvíga er svo mikill að oft er auðveldara að fara í afneitun. Vertu skilningsrík(ur) og þolinmóð(ur). Stundum gefur afneitunin smá tækifæri til að átta sig á áfallinu áður en meðvitundin um það skellur á aftur.

·         Komdu til þeirra sem eftir lifa sem vinur án fordóma og hindurvitna. Sýndu áhuga og hlustaðu. Eftirlifendur eiga það til að segja ekkesens vitleysu, rugla og endurtaka sig. Þú getur þurft að hlusta á það sama aftur og aftur. Og allt í lagi með það.

·         Vertu vinur sem hægt er að tala við og hægt er að vera afslappaður með. Vertu til taks til að eyða tíma með þeim sem á þér þurfa að halda. Flestir upplifa að besta leiðin til að vinna sig í gegnum erfiðar tilfinningar er að tala við þá sem þeir geta treyst. Með því að tala áttar fólk sig oft sjálft á líðan sinni og hugsunum og finnur eigin lausnir.

·         Vertu þolinmóður. Oft eru þeir sem eiga erfitt fyrstir til að átta sig á að þeir eru ekki auðveldir í samskiptum en þeir þarfnast þess að fólk umberi þá þangað til að sorgin mýkist.

·         Eftirlifendur sjálfsvíga hafa allan rétt á að vera viðkvæmir. Sumt fólk reynir markvisst að forðast þá. Þeir fara yfir götuna eða láta sem þeir sjá ekki eftirlifendurna. Þetta eykur á sektarkennd þeirra. Slík hegðun annarra stafar ekki af illgirni heldur frekar af óöryggi um hvað viðkomandi eigi að segja.

·         Hvettu eftirlifendur til að tala. Það er ekki gagnlegt að segja „Vertu ekkert að tala um þetta“. Leyfðu þeim að hella úr sér.

·         Vertu einlægur þegar þú spyrð: „Hvernig gengur þér“ og hlustaðu á viðbrögðin. EKKI koma í veg fyrir að hinn tali, ganga í burtu eða eyða samræðunum ef hinn raunverulega byrjar að tala.

·         Eftir því sem tíminn líður er allt í lagi að segja hve leiður þú sért og að minnast á sjálfsvígið. Það er huggun fyrir eftirlifendurna að ástvinur þeirra sé ekki gleymdur og að fólk hugsi enn til þeirra í sorginni.

Wilhelm Norfjörð, sálfræðingur