persona.is
Sjálfstraust
Sjá nánar » Sjálfstraust

Sjálfstraust er eins og nafnið gefur til kynna það traust sem við berum til okkar sjálfra til að leysa það vel af hendi sem fyrir liggur.  Segja má að traustið byggist á því áliti sem við höfum á okkur sjálfum sem manneskjum.  Öll höfum við okkar veiku bletti og lendum í aðstæðum þar sem við erum ekki öryggið uppmálað en þegar skortur á sjálfstrausti er farið að hamla okkur í lífinu þurfum við að bregðast við með ákveðnum aðgerðum.

Sjálfstraustið mótast af þeirri reynslu sem við höfum í farteskinu t.d. hverju við höfum orðið fyrir, samskiptum við aðra, þeim aðstæðum sem við ólumst upp við eða seinni tíma reynslu.  Þessi reynsla kennir okkur hvers virði við erum sem manneskjur, hvers megnug við erum, hvers við getum ætlast til af okkur sjálfum í lífinu.   Samskipti innan fjölskyldu og við skólafélaga geta t.d. haft áhrif.  Hægt er að ímynda sér hvernig manneskja, sem varð fyrir einelti í skóla eða ofbeldi heima fyrir lítur á sjálfa sig eftir að hafa endurtekið verið sagt hversu ómerkileg hún sé.  Það þarf þó ekki alltaf einhverskonar ofbeldi til að hafa áhrif.  Skortur á ástúð, standast ekki væntingar, fá ekki að bera ábyrgð, koma úr umhverfi þar sem litið er niður á viðkomandi t.d. vegna samfélagsstöðu, allt getur þetta haft þau áhrif að manneskjan hefur ekki mikla trú á sjálfri sér.  Þessi reynsla þarf ekki endilega að verða til þess að manneskju skorti sjálfstraust en svo getur vissulega orðið.

Sjálfstraustið tengist því á því hvernig við tölum við okkur sjálf.  Þótt það hljómi kannski skrítið þá erum við að tala við okkur sjálf alla daga þ.e.a.s. gerum athugasemdir í huganum við það sem við segjum og gerum.  Þetta kallast sjálfvirk hugsun og við verðum yfirleitt lítið vör við hana vegna þess að við erum svo vön henni.  Líkt og reyndir bílstjórar taka varla eftir þegar þeir skipta um gír, þeir eru orðnir svo vanir því.

Þegar sjálfstraustið er lítið þá er þessi sjálfvirka hugsun neikvæð.  Við getum hugsað okkur mann sem er að byrja í nýrri vinnu.  Hans sjálfvirka hugsun er kannski sú að hann kunni ekki til verka, best sé að hætta við til að verða sér ekki til skammar, aðrir kunni betur.  Segjum svo að maðurinn hætti við að skipta um vinnu og fari aftur í gömlu vinnuna sína.  Hvað er hann að segja við sjálfan sig með því?  Hann lætur ekki reyna á þessar staðhæfingar sínar og getur því ekki afsannað þær.  Þetta verður svo til þess að hann er kominn með enn eina staðfestinguna á því hversu ómögulegur hann er og notar hana eflaust næst þegar tækifæri gefst til að reyna á kraftana.  Hugsar með sér að hann hafi nú ekki einu sinni ráðið við síðustu ákvörðun sem hann tók, því ætti hann að ráða við þessa.  Hegðunin sem stjórnast af hugsuninni viðheldur því skorti á sjálfstrausti ef ekkert er að gert.

Það er líka annað sem skiptir máli í þessu samhengi og það eru þau sérstöku gleraugu sem margir ganga með á sér. Þessi gleraugu hafa þau áhrif að fólk tekur betur eftir því þegar illa gengur en þegar vel gengur.  Því að þegar vel gengur þá finnur það einhverja aðra skýringu, því að gott gengi er bara ekki í samræmi við sjálfsálitið.  Þessar skýringar eru t.d. “það hefði nú hver sem er getað þetta”, “hann hrósaði mér bara til að vera vingjarnlegur”, vísar í Guð og lukkuna osfrv. og eignar því einhverju öðru eða öðrum, góðu gengi en tekur það til sín þegar illa gengur.  Einnig á fólk til að skynja eða túlka hluti á neikvæðan hátt s.s. svipbrigði annarra kannski einmitt vegna þess að það bjóst við neikvæðum viðbrögðum. Þannig sankar fólk að sér vísbendingum sem renna stoðum undir lítið sjálfsálit og viðheldur því og þannig myndast vítahringur.

Skortur á sjálfstrausti hefur vissulega áhrif á líf fólks hvort sem það er í daglegu lífi t.d. í samskiptum eða á þá stefnu sem tekin er í lífinu s.s. gagnvart atvinnu.  Þannig getur fólk afþakkað ábyrgðarstöður því það treystir sér ekki til að ráða við þær eða verið fast í hlutverki þess sem fylgir í vinahópnum því það trúir því að aðrir viti betur og því sé ekki rétt að vera á annarri skoðun.

Þótt svo að lítið sjálfstraust mótist af reynslu okkar í gegnum tíðina er ekki þar með sagt að við séum dæmd til æviloka til að þola þjáningu þess.  Við erum að þessu leyti ábyrg fyrir því að bæta líðan okkar. 

Vegna þess að það er hugsunin og hegðunin sem viðheldur litlu sjálfstrausti þá er hægt að auka það með þjálfun þessara þátta.  Fólk þarf að ganga alltaf skrefi lengra en það þorir, koma sér í þær aðstæður sem kalla fram óöryggi og reyna þannig alltaf meira á sjálfstraustið.  Þannig er látið reyna á staðhæfingarnar s.s. að geta ekki ráðið við hlutina, vera fávís, slæmur samfélagsþegn og kannski komist að því að þær eru ekki alveg réttar og jafnvel beinlínis rangar.

Þegar fundið er fyrir óöryggi þarf að taka eftir því hvað fer í gegnum hugann, hvaða sjálfvirku hugsanir það eru sem draga svona úr sjálfstraustinu og athuga sannleiksgildi þeirra.  Eru þær alveg réttar eða eru á ferðinni hrakspár um útkomuna sem eiga ekki við rök að styðjast, er verið að vanmeta eigin bjargráð ef illa fer.  Einnig þarf að passa að taka líka eftir þegar vel gengur og draga ekki úr því eða eigna öðrum eigin velgengni.

Maðurinn sem byrjaði í nýju vinnunni hefði t.d. getað leiðrétt sína sjálfvirku hugsun á þeim nótunum að vissulega kynni hann ekki allt sem felst í vinnunni en það er eðlilegt að þurfa aðlögunartímabil til að læra réttu handtökin og leyfilegt að gera mistök.  Það að endurskoða hugsunina snýst nefnilega ekki um að breytast í Pollýönnu og hugsa alltaf jákvætt heldur aðeins að hugsa raunsætt.

Sóley Jökulrós Einarsdóttir

sálfræðingur