persona.is
Samskipti, viðhorf, fordómar
Sjá nánar » Samskipti
Hvað eru viðhorf Ein af nýjungum í dægurmálaumræðu á Íslandi síðustu árin eru viðhorfakannanir. Fyrir fáum áratugum voru slíkar viðhorfakannanir næsta óþekktar. Mikilvægar ákvarðanir voru teknar án þess að nokkur sæi ástæðu til að meta viðhorf landsmanna til viðkomandi málefnis. Nú er öldin önnur, varla er kofaræksni rifið eða skurður grafinn án þess að nauðsynlegt þyki að mæla viðhorf til þeirra framkvæmda. Ekki er hér verið að amast við því að viðhorf landsmanna séu mæld, en vanda verður þessar mælingar og gæta hófs í því hvenær þeim er beitt, því þær má misnota. Færa má ýmis rök fyrir því að hugtakið viðhorf sé lykilhugtak í félagssálfræði. Því til stuðnings má benda á að margfalt fleiri fræðigreinar og bækur eru skrifaðar um viðhorf en nokkurt annað svið félagssálfræði. Ein ástæða fyrir þessum mikla áhuga er að margir fræðimenn telja viðhorf hafa áhrif á eða jafnvel ráða hegðun. Piltur sem er á móti kynlífi fyrir hjónaband er líklegri til að hegða sér öðruvísi gagnvart stúlkum en sá sem er mjög hlynntur því. Vitneskja um viðhorf fólks til ýmissa málefna getur því skipt miklu máli. Til dæmis geta ráðamenn nýtt sér vitneskju um viðhorf fólks til málefna sem þeir ætla að koma í framkvæmd. Slík vitneskja er hjálpleg við að spá fyrir um líkleg viðbrögð og haga má málarekstri með tilliti til þeirra. Því eitt er víst að viðhorfum fólks má breyta. En hvað eru viðhorf? Fræðimenn hafa skilgreint og mælt hugtakið á margvíslegan máta. Sem dæmi um fjölbreytnina má nefna að árið 1975 voru til um 500 mismunandi aðferðir til að mæla það (15). Ómögulegt er að finna eina skilgreiningu sem allir fræðimenn geta sætt sig við. Aðallega greinir þá á um hvar draga skuli markalínu milli viðhorfa og skyldra hugtaka eins og skoðunar og álits, og svo hvers eðlis tengsl viðhorfa og hegðunar séu. Flestar skilgreiningar eiga það þó sameiginlegt að telja viðhorf beinast að einhverju, til dæmis að fólki, hlutum eða hegðun. Almennt er talið að viðhorf séu nokkuð stöðug og sett saman úr hugsunum, tilfinningum og hegðun. Þegar talað er um hugsun er verið að vísa til þekkingar á hlut eða persónu. Tilfinningar vísa til þess hve vel eða illa fólki líkar við ákveðinn hlut eða persónu. Hegðun fjallar um líkleg viðbrögð. Fræðimenn deila um innbyrðis styrkleikahlutföll þessara þátta. Sumir telja að í viðhorfi felist bæði hugsanir og tilfinningar, en aðrir álíta að viðhorfið sé aðeins tilfinningalegs eðlis, hugsanir tilheyri skoðunum eða áliti. Með öðrum orðum eru allir sammála um að viðhorf byggist á tilfinningum, en umdeildara er hvort aðra þætti sé þar að finna. Hugmyndir okkar um annað fólk

Skarphéðinn hét hinn elsti, hann var mikill maður vexti og styrkur, vígur vel, syndur sem selur, manna fóthvatastur, skjótráður og öruggur, gagnorður og skjótorður en þó löngum vel stilltur. Hann var jarpur á hár og sveipur í hárinu, eygður vel, fölleitur og skarpleitur, liður á nefi og lá hátt tanngarðurinn, munnljótur nokkuð en þó manna hermannlegastur.

Þegar við lesum þessa stuttu lýsingu á Skarphéðni í Njáls sögu í fyrsta sinn finnst okkur við fræðast talsvert mikið um hann og þá ekki eingöngu vegna þess sem lýsingin segir beinlínis. Við ályktum eitt og annað um skapgerð og hugsunarhátt út frá því sem hér er skráð, fyllum inn í myndina, oft og tíðum án þess að gera okkur grein fyrir því hvernig það gerist. Hér er auðvitað um listaverk að ræða þar sem höfundur setur fram lýsingu á markvissan hátt til þess að gefa í skyn það sem verða vill í sögunni. Hann leikur sér þannig að þeim ályktunum sem hann telur að við munum draga. Engu að síður eru ályktanir okkar um Skarphéðin um margt sambærilegar við það sem gerist í daglegu lífi. Í amstri hversdagsins erum við stöðugt að draga ályktanir, mynda okkur skoðanir um fólk. Hvers vegna drögum við ályktanir um fólk? Svarið við þessari spurningu er nokkuð augljóst. Við reynum flest af fremsta megni að uppgötva stöðugleika í umhverfi okkar. Slíkur stöðugleiki er nauðsynlegur til þess að við rennum ekki blint í sjóinn með athafnir okkar. Ef við teljum okkur vita að samstarfsmaður okkar sé sanngjarn inn við beinið þráumst við lengur við að koma honum í skilning um það sem okkur sýnist rétt en ef við teljum hann óbilgjarnan. Ályktanir um annað fólk eru sá rammi sem ákvarðar flest samskipti okkar við það. Þetta hefur í för með sér að við finnum til óöryggis og jafnvel þess að hafa verið svikin ef í ljós kemur að ályktanir um einhvern sem skiptir okkur máli hafa reynst óhaldbærar. Ályktanir okkar um aðra eru alltaf einfaldanir Hegðun, skapgerð, tilfinningar og markmið fólks eru margþætt og flókin fyrirbæri. Jafnvel við bestu aðstæður höndla lýsingar á borð við „barngóður“, „stjórnsamur“, „meinfýsinn“ eða „góðgjarn“ aðeins brot af þeim vef sem þeim er ætlað að vísa til. Ályktanir okkar um aðra eru ætíð einfaldanir, jafnvel þegar þær eru dregnar með yfirsýn. Hæfni okkar til þess að draga saman margþættar upplýsingar er takmörkuð, þannig að við veljum oft það úr upplýsingunum sem leyfir okkur að draga upp einfalda mynd. Einfaldanir eru okkur yfirleitt nauðsyn í flóknum heimi. Hvernig hegðun fær merkingu Við þekkjum Skarphéðin einungis af lýsingum Njálu. Hann birtist okkur í þeirri almennu lýsingu sem vísað er til í upphafi pistilsins, en auk þess í þeim orðum hans og gerðum sem sagan greinir frá. Lýsingar þessara athafna eru mun nær því sem sá sem verið hefði vitni að atburðum hefði heyrt og séð en hin almenna lýsing skaphafna og eiginleika Skarphéðins. En jafnvel orð og gerðir Skarphéðins á blöðum Njálu, þótt greinilegar séu, veita minna svigrúm til skilnings á honum en sá hefði haft sem séð hefði og heyrt það sem frá er greint. Þetta minnir okkur á það hversu löng og krókótt leið liggur á milli þeirrar athafnar sem við sjáum og hugmyndar okkar um gerandann. Við lestur Njálu eða lýsingar dagblaðs á hegðun er búið að túlka og merkja hegðunina fyrir okkur sem „árás“, „flótta“, „reiði“ o.s.frv. og gefa í skyn að hún sé merkingarbær. Þegar Skarphéðinn heyrir þá svívirðingu að hann og aðrir Njálssynir séu nefndir taðskegglingar en faðir þeirra karl inn skegglausi fáum við eftirfarandi lýsingu á viðbrögðum hans. „Gaman þykir kerlingunni að, móður vorri, að erta oss,“ segir Skarphéðinn og glotti við, en þó spratt honum sveiti á enni og komu rauðir flekkar í kinnur honum en því var ekki vant.“ Við lesum líklega út úr þessari lýsingu að Skarphéðinn haldi hér aftur af bræði sinni og bíði betri tíma til að veita henni útrás. Orð Njálu fá hins vegar annað vægi fyrir okkur en hegðunin hefði haft ef svo hefði viljað til að við hefðum verið gestkomandi að Bergþórshvoli, m.a. vegna þess að höfundur er búinn að túlka hana og skapa henni sess sem fyrirboða mikilla atburða. Gestkomandinn þarf hins vegar að túlka atferlið (er svitinn á enni Skarphéðins t.d. merki um reiði eða að honum sé heitt?) og ákveða hvort það hafi þýðingu. Það er eitt helsta verkefni þeirra fræða sem fást við skilning okkar á fólki að kanna hvernig við ákvörðum merkingu hegðunar sem við sjáum og heyrum. Í þessum pistli er hins vegar fyrst og fremst athugað hvernig við ályktum um eiginleika fólks út frá öðrum eiginleikum sem við teljum einkenna það. Hversdagslegar persónuleikakenningar Við heyrum sagt að Jón sé bókhneigður. Nokkru síðar erum við spurð hvort við teljum að Jón sé félagslyndur og kveðum nei við því. Líta má svo á að þessi ályktun sé dregin undir áhrifum frá eins konar kenningu, sem segir okkur að bókhneigt fólk sé ekki félagslynt. Skýra má margt í ályktunum okkar um aðra með því að við einkennumst flestöll af svonefndum hversdagslegum persónuleikakenningum. Slíkar kenningar eru hugmyndir okkar um líkleg tengsl á milli mismunandi skapgerðareinkenna, hegðunar og jafnvel útlits manna. Hversdagslegar persónuleikakenningar af þessum toga má rannsaka með margs konar hætti, t.d. með því að láta fólk segja til um líkur þess að mismunandi eiginleikar fari saman. Einnig má biðja fólk um að lýsa hverjum og einum í tilteknum hópi einstaklinga og sjá hvernig atriði fara saman í lýsingunum. Þetta veitir ákveðnar vísbendingar um það hvernig ályktanir fólk er líklegt til að draga í hversdagslífinu. Niðurstöðum slíkra rannsókna má lýsa t.d. með mynd eins og þeirri sem er hér fyrir ofan (38). Nálægð milli eiginleika gefur hér til kynna hversu líklegt er að fólk álykti að maður einkennist af tilteknum eiginleika ef það veit að hann er t.d. hagsýnn. Við sjáum að það virðist trúlegra að það vænti þess að hann sé áreiðanlegur en að hann sé hlýr. Hugmyndir um aðra eru heildstæðar Ef við værum beðin um að lýsa Skarphéðni með okkar eigin orðum ættum við líkast til ekki í vandræðum með það. Sumt af því sem við tíndum til mætti skýra með hugmyndinni um hversdagslegar persónuleikakenningar sem áður gat, þ.e.a.s. með því að við ályktum af eiginleikum þeim sem við höfum lesið um varðandi aðra sem nærri liggja. Margt bendir á hinn bóginn í þá átt að mynd okkar af Skarphéðni (eða öðru fólki í skáldskap eða raunveruleika) sé ekki samsafn einstakra atriða heldur heildstæð á þann veg að atriðin fái merkingu vegna stöðu sinnar í heildinni. Hér má taka klassíska rannsókn hins fræga félagssálfræðings Salomons Asch (6) sem dæmi. Hann lét tvo hópa fólks lesa orðalista sem sá einn var munur á að í stað orðsins kaldur á lista A stóð orðið hlýr á lista B (sjá mynd hér á eftir). Listarnir áttu hvor um sig að lýsa manni. Fólkið átti síðan að draga ályktanir um önnur einkenni mannsins sem lýst var á listanum. Síðan var þetta endurtekið með listum C og D. Í ljós kom að það skipti miklu um þær ályktanir sem fólk dró hvort notað var orðið kaldur eða hlýr á listum A og B. Ef það var látið lesa lista C og D og draga ályktanir af þeim skipti nánast engu máli hvort orðin hlýr eða kaldur voru látin fljóta þar með. Af þessu dró Asch þá ályktun að við myndum heildstæða mynd af öðru fólki á grundvelli þeirra upplýsinga sem okkur eru tiltækar. Í þessari mynd tekur hver einstakur dráttur merkingu af heildinni. Lýsingar eins og kaldur eða hlýr geta skipt sköpum þegar dregnar eru ályktanir um annað fólk í einu samhengi en skipta nánast engu máli í öðru. Þessi ályktun Asch féll mjög vel að hugmyndum hinnar svonefndu skynheildarstefnu, sem mjög fékkst við að kanna og skýra skynjun manna á formum og mynstrum um miðbik aldarinnar. Hugkerfi Asch lagði ríka áherslu á að við sjáum ekki persónuleika manna sem röð af persónueinkennum heldur sem ákveðna heild. Þessi hugmynd hefur fengið byr undir báða vængi í kjölfar kenninga um hugkerfi sem sett hafa svip á fjölmörg svið sálfræðinnar á síðustu árum (44). Hvað er þá hugkerfi? Það er eins konar mynstur hugtaka sem ráða skynjun okkar og túlkun á upplýsingum. Dæmi um slík hugkerfi sem tengjast túlkun okkar á fólki gætu verið „töffarinn“, „bókabéusinn“ eða „framagosinn“. Slík hugkerfi eru eins konar knippi hugtaka sem gjarnan virkjast sem ein heild. Segjum sem svo að hugkerfi okkar um bókabéus einkennist af a) að vera rindilslegur, b) að ganga með þykk gleraugu, c) að vera alltaf með bók í hendinni, d) að sjást oft í bókabúð, e) að vera lítt gefinn fyrir íþróttir, f) að aka um á Skóda, g) að reykja pípu, h) að vera einfari. Ef við nú hittum Jósafat sem er rindilslegur með bók í hendi og fer hörðum orðum um íþróttir er líklegt að við (jafnvel óafvitandi) drögum þá ályktun að hin atriðin sem hugkerfið vísar til séu einnig til staðar. Þegar við síðar rifjum upp kynni okkar af Jósafat er viðbúið að okkur reki minni til þess að hann hafi verið með gleraugu og pípu í munni, þótt svo hafi í raun alls ekki verið. Hugkerfi ráða miklu um hvað það er sem við tökum eftir, hverju við munum eftir og hvernig við drögum ályktanir. Hugkerfi geta verið mjög einstaklingsbundin. Þannig má hugsa sér að „Bjössa bróður hugkerfið“ ráði miklu um það hvernig Jón dregur fólk í dilka, þótt það sé í raun einstakt fyrir hann. Þegar Jón hittir mann sem er líkur Bjössa bróður og er auk þess í sama starfi er hann fljótur að álykta að maðurinn sé Bjössa bróður manngerðin, einnig að öðru leyti. Hugkerfi gera okkur kleift að vinna úr upplýsingum hratt og heildrænt en bjóða einnig þeirri hættu heim að við villumst hrapallega af leið. Útlit og ályktanir um fólk Njáluhöfundur lýsir allnákvæmlega útliti Skarphéðins og skerpir öll sú lýsing mynd okkar af honum sem líklegum til harðræða. Okkur er tamt að álykta um lyndiseinkunnir manna af útliti þeirra. Hefur svo rammt kveðið að þessu að menn hafa að fornu og nýju kennt hvernig beri að draga lærdóma um persónuleika af vaxtarlagi og yfirbragði manna. Oftast er hins vegar um hreina sleggjudóma að ræða sem auk þess eru oft staðbundnir. Sem dæmi um þetta má nefna þá trú að útstæð augu tengist hamsleysi og þunnar varir samviskusemi. ºt í þessa sálma verður ekki farið hér, heldur einungis lögð áhersla á að almennt er lítill fótur fyrir slíkum ályktunum. Hins vegar eru þær oft býsna fastar í sessi. Hvaðan koma hugmyndir okkar um fólk? Sú spurning er áleitin hvort hér sé um að ræða samþjappaða reynslu einstaklinganna, jafnvel kynslóðanna, eða nánast marklausan tilbúning. Ef til vill er lítil samsvörun á milli þessara kenninga og þess hvernig fólk er samsett. Ekki er til neitt algilt svar við spurningunni. Við vitum með vissu að fólk dregur oft ályktanir í anda slíkra kenninga, þótt þær stangist að því er virðist á við þær upplýsingar sem það hefur. Ályktanir eru lífseigar þótt þær forsendur sem þær byggðust á reynist rangar. Þær fara að lifa sjálfstæðu lífi. Á hinn bóginn virðist ólíklegt að slíkar kenningar yrðu til og viðhéldust ef í þeim leyndist ekki sannleikskjarni, þótt hann sé að öllum jafnaði stórlega ýktur. Hvers vegna leggja sumir áherslu á að flokka menn í góða og vonda en aðrir í gáfaða og heimska? Lýsing fólks á öðrum segir oft meira um hugsunarmáta þess sjálfs en þá sem lýsa á. Sem dæmi má nefna að sýnt hefur verið fram á það hjá börnum að lýsingar sama barns á öðrum börnum voru líkari en lýsingar mismunandi barna á sama barni. Sálkönnuðir hafa margt ritað um svonefnt frávarp. Það vísar til þess að við höfum tilhneigingu til þess að sjá í öðrum þær duldu langanir sem við skirrumst við að sleppa inn í eigin vitund. Mjög er umdeilt hvort þessu sé á þennan veg farið. Samt er ljóst að þær hugmyndir sem við höfum um okkur sjálf ráða miklu um ályktanir okkar um aðra. Þau hugtök sem við notum um okkur sjálf fá mikilvægt hlutverk í flokkun okkar og túlkun á öðrum. Þeir sem telja sig greinda flokka oft aðra fyrst og fremst í greinda og heimska, en þeir sem telja sig sjálfstæða flokka aðra fremur sem sjálfstæða og ósjálfstæða. Ekki er með öllu ljóst hvort þetta skýrist með því að slík viðmið verði almennt töm vegna tíðrar notkunar í tengslum við sjálfið eða þá að um sé að ræða tilhneigingu til þess að flokka fólk á þann hátt að eigin staða í samanburði við aðra verði sem best. Nokkur stuðningur er við hvort tveggja. Áhrif nýlegrar reynslu á ályktanir okkar um aðra Við vorum í Regnboganum og sáum þar ógnvekjandi glæpamynd. Á leið niður mannlausa Lindargötu undir kolsvörtum himni sjáum við allt í einu mann koma á móti okkur með hatt slútandi niður í augu og hlut sem glampar á í hægri hendi. Þegar við mætum honum verður okkur ljóst að óttinn sem helltist yfir okkur var ástæðulaus. Það sem við héldum vera byssu var myndbandsspóla. Hér hafði verið að verki sú tilhneiging að nota nýlega reynslu til þess að túlka nýja. Obbinn af því sem við sjáum og heyrum á degi hverjum er margrætt, því má gefa margar, ólíkar merkingar, jafnnothæfar. Eigi að síður ræður sú merking sem verður fyrir valinu viðbrögðum okkar og tilfinningum. Þannig má sjá eldgos sem ógnun við framtíð okkar í þessu landi eða sem merki um lífsmátt jarðar. Þegar við drögum ályktanir um fólk eru það ekki einungis tiltölulega stöðugar kenningar okkar sem þeim ráða, heldur einnig breytilegir þættir á borð við sálarástand, nýlega reynslu okkar o.s.frv. Þær hugmyndir sem við höfum um aðra menn eru ekki allar jafnvirkar og líklegar til þess að hafa áhrif á hugsun okkar. Notkun hugtaks virkjar það og gerir það líklegra til að hafa áhrif á túlkun nýrrar reynslu, a.m.k. í nokkurn tíma eftir notkun þess. Lítum á dæmi:

Danni eyddi miklum tíma í leit að því sem hann nefndi spennu. Hann hafði hvað eftir annað tekið áhættu sem hefði getað leitt til meiðsla og jafnvel dauða. Hann hugsaði með sér að hann vildi stunda fallhlífarstökk eða fara yfir Atlantshafið á seglbáti (ævintýramaður/fífldjarfur). Af hegðun Danna mátti ráða að hann væri sér vel meðvitaður um að hann gæti staðið sig vel á mörgum sviðum (sjálfsöruggur/montinn). Danni hafði lítið samband við aðra nema í viðskiptum. Honum fannst hann ekki þurfa að treysta á neinn (sjálfstæður/hrokafullur). Þegar Danni hafði gert upp hug sinn um að hrinda einhverju í framkvæmd var það sama sem gert. Hann skipti ógjarnan um skoðun, jafnvel þótt það hefði stundum verið honum fyrir bestu (staðfastur/þrjóskur).

  Við sjáum glögglega að þessi mannlýsing er nokkuð margræð. Lýsingarorðin sem skotið er inn í textann sýna nokkra af þeim möguleikum sem fólki finnst eiga við um mismunandi hluta lýsingarinnar. Í rannsókn nokkurri (22) var einum hópi fólks sýnd öll þau lýsingarorð sem standa fyrst í hverju pari en öðrum þau sem síðar standa. Í öðrum þætti rannsóknarinnar var þeim síðan sýnd lýsingin á Danna, en þeim var sagt að það væri ný rannsókn ótengd hinni fyrri (í lýsingunni voru að sjálfsögðu ekki orðin sem standa í svigunum). Í ljós kom að þátttakendur sem höfðu séð fyrri orðin (jákvæðu) mátu Danna jákvæðar en þeir sem séð höfðu neikvæðu orðin. Þessi tilraun (og fjöldi annarra áþekkra) sýnir okkur ljóslega að ályktanir okkar um aðra ráðast af því hvaða hugtök eru okkur nærtæk á því augnabliki sem við drögum þessar ályktanir. Áhrif sálarástands á ályktanir um fólk Eitt af því sem máli skiptir varðandi ályktanir okkar um fólk og fyrirbæri er sálarástand okkar þegar við myndum okkur skoðun. Þegar við erum í góðu skapi er líklegra að við sjáum annað fólk í jákvæðu ljósi. Mat okkar á öðrum ræðst þannig að nokkru af því að sálarástand eða skap vekur minningar og hugtök, sem eru í anda sálarástandsins. Við beinum því athyglinni að því í fari annarra sem kemur heim og saman við þetta (sjá glugga á næstu síðu). Lokaorð Í þessum pistli hefur verið greint frá nokkrum meginþáttum sem ráða ályktunum okkar um annað fólk. Almennar hugmyndir okkar um fólk skipta hér máli, en jafnframt sálarástand okkar og nýleg reynsla sem vekja eina slíka hugmynd annarri fremur. Það er mikilvægt að árétta tvennt hvað ályktanir um annað fólk áhrærir. Í fyrsta lagi hversu mikil áhrif þær hafa á öll samskipti manna í milli. Ákvarðanir af þessum toga ráða miklu um það hvort við viljum Njál frekar til vinnu en Mörð, hvort við viljum stofna til vináttu eða ástarsambands við Hallgerði fremur en Bergþóru eða skrifum upp á víxil fyrir Höskuld fremur en Hrút. Í öðru lagi er oft mikil tregða gegn því að endurskoða þær ályktanir sem við höfum dregið. Ályktanirnar fara oft að lifa sjálfstæðu lífi án tillits til þeirra forsendna sem þær byggðust á. Skilningur á því hvernig dómum okkar um aðra er háttað er því mjög mikilvægur til þess að við séum ekki fangar takmarkaðra eða jafnvel staðlausra hugmynda okkar um eiginleika fólks. Aðlöðun  
Menn laðast að þeim sem geta og vilja verða þeim að liði eða tryggja öryggi þeirra . . . þeim sem er ánægjulegt að lifa og eyða deginum með . . . fólki sem ekki grípur á lofti mistök okkar . . . ennfremur kunnum við vel við fólk sem fer fögrum orðum um mannkosti okkar, einkum ef við erum hrædd um að þeir séu ekki til staðar (4).
 

Frá Aristótelesi til Dale Carnegie hefur mönnum verið hugleikið að skilja hvað ráði vináttu, velvild og aðlöðun fólks í milli. Í fornum letrum íslenskum má líka sjá fjölmörg dæmi um slíkan áhuga. „Viðurgefendur eru vinir lengst,“ segir höfundur Hávamála og leggur þar áherslu á gagnkvæmni í vináttu og aðlöðun. Það er deginum ljósara að fólk laðast mismikið hvert að öðru og jafnframt að aðlöðun hefur áhrif á allt daglegt líf okkar og jafnvel gang heimsmála. Stundum höfum við svör á takteinum þegar við erum spurð hvers vegna við kunnum betur við Pétur en Pál, en stundum grípum við til skýringa sem jafnvel okkur sjálfum finnst lítt sannfærandi. En hvað er aðlöðun? Tökum hana Jónínu sem dæmi. Hún segist elska Jósafat mann sinn, kunna vel við Jórunni vinkonu sína, vera hlýtt til Jóns föður síns, vera skotin í Jóel samstarfsmanni sínum og bera virðingu fyrir Jósef forstjóra. Jónína hefur jákvæða afstöðu til alls þessa fólks en samt sjáum við hér mismun. Það sem greinir hér á milli er t.d. hve stöðug afstaðan virðist vera og hvaða langanir, óskir og markmið tengjast henni. Ást Jónínu á Jósafat hefur líklega mikil áhrif á líf hennar og hegðun, en hrifningin af Jóel einskorðast við að gefa honum lítið eitt undir fótinn. Einnig er hér sá munur á að hin jákvæða afstaða Jónínu til þessa fólks á sér mjög mislanga sögu. Hún hefur þekkt foreldra sína frá blautu barnsbeini, en kynntist Jóel fyrir viku. Þannig er vafasamt að hægt sé að setja afstöðu Jónínu til þessa fólks undir einn hatt. Ætla má að mjög mismunandi þættir skipti máli í þessum ólíku tilvikum. Hér á eftir verður fyrst og fremst fjallað um aðlöðun á milli einstaklinga sem þekkjast fremur lítið. Við reynum hér að fá skilning á því hvað ráði hrifningu Jónínu af Jóel, hvað réði því að vinfengi tókst í upphafi við Jórunni og því sem leiddi til þess að Jónína féll fyrir Jósafati. Hvernig er hægt að mæla og rannsaka aðlöðun? Aðlöðun getur komið fram á ýmsan hátt, t.d. í orðum (mér líður vel með honum, mér líkar vel við hana), hegðun ýmiss konar (fara oft í heimsókn til hans), svipbrigðum (horfa aðdáunaraugum á hana) o.s.frv. Ekki er hins vegar hægt að líta á neitt af þessu sem óyggjandi merki um aðlöðun, þar sem hvert og eitt þeirra getur ráðist af allt öðru. Lítum nánar á ýmislegt sem sýnt þykir að hafi áhrif á aðlöðun fólks í milli. Þetta er vitanlega langt frá því að vera tæmandi umfjöllun og byggist öðru fremur á rannsóknum á fólki sem hefur stutt kynni að baki.

Líking milli skoðana „Sú er ein örugg vinátta milli vina að annar vilji slíkt sem annar og annar vilji ei slíkt sem annar vill ei“ (29). „Sækjast sér um líkir“ segir máltækið. Hyggjuvit hversdagsins virðist þar hallast á þá sveif að menn laðist fremur að sínum líkum. Margt bendir til þess að við kunnum betur við og löðumst frekar að fólki sem hefur skoðanir líkar okkar eigin. Hér kemur margt til. Í fyrsta lagi styrkja svipaðar skoðanir eða lífsviðhorf annarra í kringum okkur trú okkar á réttmæti þeirra. Einnig tengjum við oft skoðanir okkar sjálfra við jákvæða eiginleika, svo sem víðsýni og djörfung. Á sama hátt og við sjáum þessar skoðanir sem merki um jákvæða eiginleika hjá okkur sjálfum drögum við sams konar ályktanir um skoðanabræður okkar og ?systur. Loks má ætla að við sjáum fram á átakaminni samskipti við þá sem hafa svipuð viðhorf og skoðanir. Það er því ekki út í hött að líkar skoðanir skipti nokkru um að Jónína laðast að Jórunni. En áhrifin eru ekki aðeins í eina átt. Vinfengið á milli kvennanna tveggja hefur væntanlega áhrif í þá veru að skoðanir þeirra verða líkari en ella. Ef við athugum annað sem líkt er með Jónínu og Jórunni og tengsl þess við aðlöðun verður málið flóknara. Ef við lítum til persónueinkenna eða þarfa þeirra hafa verið uppi tvær andstæðar hugmyndir: Annars vegar er því spáð að fólk laðist að þeim sem líkir eru, einnig hvað þetta varðar, en hins vegar er því haldið fram að fólk dragist að þeim sem bæti upp eiginleika sem það skortir sjálft (uppbótarkenning). Síðarnefnda hugmyndin kemur fram í enska máltækinu „opposites attract“ (andstæður laðast hvor að annarri). Hér er ekki hægt að skera úr almennt um réttmæti þessara hugmynda. Aðstæður skipta miklu máli, svo og þeir eiginleikar eða þær þarfir sem um er að tefla. Líklega hugnast stjórnsömum manni þeir sem vel láta að stjórn, en þeim sem er fyrir ys og þys leiðist að vera með daufgerðu fólki. Kunnugleiki Með þessu er átt við að okkur fellur oft betur við fólk eða hluti vegna þess að við höfum séð það eða heyrt áður. Þekkt eru viðbrögð fólks við Eiffelturninum í París fyrst eftir byggingu hans. Þá þótti turninn lítil borgarprýði en síðan hefur hann vanist, þannig að nú vill vart nokkur af honum sjá. Breytt viðhorf til Hallgrímskirkju sem miklar deilur stóðu um eru annað dæmi um þetta (verður það sama uppi á teningnum með ráðhús Reykvíkinga?). Fjöldi rannsókna hefur sýnt að andlit á myndum sem sýndar hafa verið í örskamma stund eru metin meira aðlaðandi en algerlega óþekkt andlit. Þetta gerist jafnvel þótt fólk beri ekki kennsl á þau andlit sem það hefur séð. Af svipuðum toga er að við kunnum oft betur við tónverk eða dægurlög eftir að hafa heyrt þau nokkrum sinnum (sjá glugga). óvíst er að hve miklu leyti kunnugleiki skiptir máli þegar um náin tengsl er að ræða, en hann skiptir ótvírætt máli þegar upplýsingar eru af skornum skammti. Ýmsar skýringar hafa verið settar fram á þessu fyrirbæri en þær eru fæstar viðunandi. Því er m.a. haldið fram að ókunnug áreiti leiði sjálfkrafa til spennu eða óþæginda en kunnugleiki dragi úr þessu. Þá má líta á þetta fyrirbæri í ljósi þeirrar hugmyndar að jákvæðust viðbrögð séu við því sem er í meðallagi nýstárlegt. Það þýðir að aukinn kunnugleiki leiði til mettunar (við fáum leið á fólki og hlutum) ef hluturinn verður gerþekktur. Útlit og aðlöðun  
“ . . . líst mér svo á mey þessa að mér þykir mikil gifta að eiga jafnfagurt barn, eða hvað heitir hún?“ „Helga heitir hún“, segir Þorgerður, „Helga hin fagra“ segir Þorsteinn . . . og reið Helga heim með honum og fæddist þar upp með mikilli virðing og ást af föður sínum og móður og öllum frændum. Í Gunnlaugs sögu ormstungu er því svo lýst hvernig fegurð Helgu færir henni ást föður síns, sem skipað hafði svo fyrir að hún skyldi út borin. Það velkist vart nokkur í vafa um að útlit fólks skiptir nokkru þegar aðlöðun á í hlut. Þessu bera vitni mörg spakleg orð sem eiga að vera mönnum til varnaðar gagnvart þeirri tilhneigingu að dragast að þeim sem fagrir þykja: „Oft er flagð undir fögru skinni“ o.s.frv. Hins vegar má spyrja hversu rík þessi tilhneiging sé, af hverju hún stafi og hvaða skilyrðum hún sé háð. Nú er það svo að fegurð er að miklu leyti í auga sjáandans og því afstæð. Við látum þetta hins vegar liggja á milli hluta og vísum til fegurðar sem einhvers sem almennt er fallist á að sé gott útlit. Þann háttinn hafa líka þeir rannsóknarmenn haft á sem um þetta hafa fjallað. Fjöldi rannsókna hefur staðfest þann almannaróm að gott útlit leiði til vinsælda og á þetta bæði við um konur og karla. Eitt af því sem skýrir þetta er að fólk telur að aðlaðandi útlit tengist öðrum góðum kostum eins og heiðarleika, góðvild eða fjöri. „Það sem er fallegt er líka gott.“ Þannig hafa þeir eiginleikar sem fólk telur að fylgi fegurðinni aðdráttarafl fremur en útlitið í sjálfu sér. Það er varhugavert að fólk er sér oft ekki meðvitað um hvernig það dregur slíkar ályktanir og hversu lítill fótur er fyrir þeim (sjá glugga). Nú mætti ætla að áhrif útlits á aðlöðun séu hverful eins og G.B. Shaw gefur í skyn er hann segir: „Fegurð er prýðileg, en hver í ósköpunum tekur eftir henni þegar hún er búin að vera í húsinu í þrjá daga?“ Þetta virðist hins vegar ekki alls kostar rétt, a.m.k. ekki þegar til tiltölulega skamms tíma er litið. Þá virðast áhrifin jafnvel aukast með tímanum. Þetta skýrist af því að fyrstu kynni hafa áhrif á þann farveg sem samskipti falla í og auk þess hefur sú mynd sem byggist á fyrstu kynnum mótandi áhrif á túlkun nýrra upplýsinga. Þegar kynni aukast enn má hins vegar búast við að draga taki úr áhrifum útlits.
 

Lokaorð

Þegar við horfum á ýmis náin samskipti manna í millum verður ljóst að þær hugmyndir sem hér voru reifaðar ná harla skammt. Við sjáum sambönd þar sem fólk elskast og hatast í senn, þar sem fólk segist elskast því meir sem vandamál, jafnvel líkamsmeiðingar, hrannast upp. Við sjáum sambönd þar sem fólk segist kunna ákaflega vel hvort við annað en getur ekki búið saman eða jafnvel umgengist. Þetta sýnir okkur glögglega hversu margslungið fyrirbæri aðlöðun er og að við erum rétt að byrja að skilja einföldustu hliðar þess. Eru kerfisbundnar skekkjur í ályktunum fólks? Eitt af einkennum félagssálfræði er hve mikið hún sækir hugmyndir um mannlegt eðli til annarra sviða sálfræðinnar. Þessar hugmyndir eru svo notaðar til að útskýra ýmis einkenni á mannlegum samskiptum. Gott dæmi um þetta er hvernig hugmyndir hugfræðinga um einkenni hugsunar hafa verið fengnar að láni og þeim beitt í félagssálfræði. Ekki er hægt að gera grein fyrir skilningi fólks á umhverfi sínu án þess að tekið sé mið af því hvernig fólk ályktar og þeim kerfisbundnu skekkjum sem þar hafa áhrif. Til skamms tíma byggðust kenningar um ályktanir á þeirri grunnhugmynd að fólk hugsaði yfirleitt rökrétt og tæki skynsamlegar ákvarðanir. Það eru ekki aðeins sálfræðingar sem gengið hafa út frá slíku skynsemislíkani, kenningasmiðir hagfræðinnar byggja sín líkön á þeirri forsendu að alltaf sé valinn skynsamlegasti kosturinn og yfirleitt sé reynt að ná hámarksgróða. Nýlegar rannsóknir hugfræðinga sýna aftur á móti að nokkuð er um kerfisbundnar skekkjur í ályktunum fólks. Eitt sem getur haft áhrif á ályktanir er samhengi. Eftirfarandi rannsókn er lærdómsrík til að varpa ljósi á að fjárhagslegur hagnaður er ekki allsráðandi í ákvörðunum. Þátttakendum var sögð eftirfarandi dæmisaga: „Setjum svo að þú sért staddur í verslun að kaupa bók sem kostar 5000 krónur og jakka sem kostar 50.000 krónur. Þegar þú ert að fara að borga hvíslar afgreiðslumaðurinn að kaupa megi sömu bók á 4500 krónur í verslun í eins kílómetra fjarlægð. Hvað gerir þú?“ Flestir segjast myndu hætta við að kaupa bókina og kaupa hana í hinni versluninni. Síðan er dæminu hins vegar breytt á þann veg að verið sé að kaupa jakka á 5000 krónur en bók á 50.000 krónur og afgreiðslumaðurinn bregst við á sama máta. Þegar greiða á fyrir vörurnar segir hann að sömu bók megi fá fyrir 49.500 krónur í verslun í um eins kílómetra fjarlægð. Um er að ræða sömu vöru, sama verðmun og sömu fjarlægð milli verslana. Það eina sem breytist er verðið á vörunni. Þegar þessi útgáfa af dæminu er lögð fyrir svara flestir á þann veg að þeir myndu kaupa bókina á 50.000 krónur, það taki því ekki að eltast við þessar fimm hundruð krónur. Þetta sýnir að mat fólks á fjármunum stýrist ekki eingöngu af því að verið sé að reyna að ná hámarkshagnaði, það skiptir líka máli í hvaða samhengi matið á sér stað. Það sem einkennir hugsun fólks þegar það þarf að leysa þrautir er að beitt er leiðsagnarreglum við lausn þrautanna. Leiðsagnarreglur eru þumalfingursreglur sem auðvelda fólki að draga ályktanir. Þær tryggja ekki réttar niðurstöður en hafa þann kost að auðvelt og fljótlegt er að beita þeim. Dæmi um einfalda leiðsagnarreglu er þjóðtrú eins og kemur fram í staðhæfingunni: „Kvöldroðinn kætir, morgunroðinn vætir“ og samtímadæmi um leiðsagnarreglu væri: „Bursta skal tennur kvölds og morgna“. Fræðimenn telja að leiðsagnarreglur leiði til rangra ályktana þegar einblínt er á efnisatriði sem auðvelt er að kalla fram í hugann og þegar ályktanir byggjast á einstökum dæmigerðum tilfellum fremur en heildardreifingu (46). Talað er um aðgengileika þegar misauðvelt er að kalla atriði fram í hugann. Oftar en ekki er þetta ágæt leið til að draga ályktanir. Sem dæmi má nefna þegar skera þarf úr um hvort fleiri steinhús en timburhús séu í götunni sem maður býr við. Allir sem búa við götur þar sem eru færri en 30 hús ættu að geta svarað þessari spurningu rétt án mikillar umhugsunar. En um leið og viðmiðin verða óljósari og erfiðara reynist að telja getur reglan líka afvegaleitt. Algengt dæmi um slíkt er sú trú margra sem alist hafa upp í litlum bæjarfélögum að einstakt sé hve margir frá þessum stað hafa brotist til efna og metorða í íslensku þjóðfélagi. Slíkar ályktanir byggjast á því að auðvelt er að muna eftir þeim sveitungum sem öðlast hafa frægð og frama en óljósara er hvort heimabyggðin sé einstök hvað þetta varðar. Í flestum bæjarfélögum elst upp fólk sem hleypir heimdraganum og verður landsþekkt, en hvort eitthvert bæjarfélag á þar vinninginn er mjög óljóst og um það verður ekkert fullyrt án þess að á því sé gerð tölfræðileg úttekt. Þessi skoðun er þó algeng meðal fólks af því að það á auðvelt með að telja upp sína sveitunga, þeir eru ljóslifandi í huga þeirra, en á erfiðara með að segja til um önnur bæjarfélög. Annað dæmi um að aðgengileiki geti leitt til rangra ályktana kemur oft fram hjá stjórnmálamönnum. Þegar frambjóðendur eru beðnir að meta líklegan árangur í kosningum telja þeir sig njóta mun meiri stuðnings en síðan kemur í ljós í kosningunum. Sumt af þessu ofmati er ekki dæmi um ályktunarvillu, heldur eru menn vísvitandi að ýkja líklegan stuðning. En stundum er þetta raunverulegt ofmat og frægt dæmi um slíkt er úr forsetakosningum í Bandaríkjunum árið 1972 þegar George McGovern bauð sig fram á móti Richard Nixon. Þegar líða tók að kosningum taldi McGovern sig eiga góða möguleika á að ná kjöri. Hann var ekki einn um þessa skoðun, helstu aðstoðarmenn hans og blaðamennirnir sem fylgst höfðu með kosningabaráttunni voru á sama máli. Hvar sem þeir komu mætti fjöldi manns á kosningafundina og allir voru mjög ákveðnir að leggja sitt af mörkum til að McGovern næði kosningu. ºrslit kosninganna urðu aftur á móti þau að Nixon vann stórsigur. Líklegasta skýringin á þessu ofmati stuðningsmanna McGoverns er sú að sá mikli fjöldi sem mætti á fundina hafi staðið þeim svo ljóslifandi fyrir hugskotssjónum að þeir hafi gleymt því að það er aðeins lítill hluti kjósenda sem mætir á slíka fundi. Þessi blekking byggist líka á eðli mannlegra samskipta. Þeir sem gefa sig á tal við frambjóðendur eru í miklum meirihluta menn sem ætla að kjósa þá. Það þarf því mikla varkárni í ályktunum til að falla ekki í þá gryfju að trúa því að um mjög víðtækan stuðning sé að ræða þegar um er að ræða stuðning næstum allra viðmælanda. Það er svo auðvelt að horfa framhjá því að aðeins lítill hluti kjósenda gefur sig á tal við frambjóðendur. Þegar heildardreifing tilvika skiptir máli fyrir ályktun getur samsvörunarreglan komið í veg fyrir að rétt ályktun sé dregin. Eitt þekkt asta verkefnið sem sýnir þetta er að finna í tilraun þar sem þátttakendum er sagt að hlutfall verkfræðinga og lögfræðinga í ákveðnum hóp sé 70 á móti 30, verkfræðingum í hag. Engar frekari upplýsingar eru gefnar en spurt hvort líklegra sé að lenda á lögfræðingi eða verkfræðingi ef valinn sé einn af handahófi úr hópnum. Flestir svara réttilega að meiri líkur séu á því að lenda á verkfræðingi. Þurfi þátttakendur aftur á móti að lesa persónulýsingu á viðkomandi og lýsingin kemur heim og saman við ímynd lögfræðinga, þá eru áhrif lýsingarinnar svo sterk að þátttakendur gleyma grunnlíkunum og telja að líklegast sé að viðkomandi sé lögfræðingur. Rétta svarið er hins vegar áfram verkfræðingur því líkurnar hafa ekki breyst. Mestar líkur eru alltaf á því að ef valinn er einn úr þessum hundrað manna hópi sé sá verkfræðingur. Sams konar villa er oft gerð í bílakaupum. Þetta gerist þegar valið er á mi lli nokkurra tegunda. Kaupandinn ber sig þannig að við kaupin að hann byrjar á að safna upplýsingum um endingu, rekstrarkostnað og endursöluverð þeirra bíla sem til greina koma. Að loknum þeim samanburði er niðurstaðan sú að ein tegund kemur langbest út. Er hann því ákveðinn í að kaupa þann bíl. Nokkru síðar segir hann kunningja sínum af ákvörðun sinni. Sá biður hann fyrir alla muni að endurskoða afstöðu sína því þetta sé alls ekki góður bíll. Bróðir hans hafi átt svona bíl fyrir tveimur árum og reyndist sá mjög illa. Bíllinn bilaði sífellt og það endaði með því að bróðir hans þurfti að selja hann með miklum afföllum. Hvað á maðurinn að gera? Tilhneiging fólks er að taka ráðum kunningjans og hætta við kaupin, en það væri rangt. Ástæðan er sú að í öllum bílategundum finnast léleg eintök. Þannig að um reynslu bróðurins er það eitt að segja að hann var óheppinn. Gögnin sem bílakaupandinn hafði viðað að sér byggðust á dreifingu. Hann hafði komist að sinni niðurstöðu í athugun sem tók mið af góðum og lélegum eintökum hverrar tegundar. Þetta þýðir að tegundin kom best út að meðaltali og það breytist ekki þó að einhverjir hafi lent á lélegum eintökum af viðkomandi tegund. Skekkjur í ályktunum takmarkast ekki við rökhugsun. Til dæmis hafa rannsóknir á skynjun sýnt að áhrif áreita ráðast ekki eingöngu af áreitunum sjálfum heldur líka af samhenginu sem þau eru í. Gengur þetta undir nafninu andstæðureglan. Þessi áhrif koma fram víða. Til dæmis má nefna að þegar meta á styrkleika ljóss hefur það áhrif á matið hve bjart er í herberginu sem prófað er í. Sama gerist þegar metin er þyngd hluta. Ef fyrst er lyft léttum hlut og síðan þyngri þá virðist seinni hluturinn þyngri en ef létta hlutnum hefði ekki verið lyft. Sumir fasteignasalar í Bandaríkjunum nýta sér þessa reglu í starfi sínu. Fasteignasalan á eina til tvær húseignir í frekar lélegu ástandi en hátt verð er sett á þær og þetta eru fyrstu fasteignirnar sem sýndar eru tilvonandi viðskiptavinum. Tilgangurinn er ekki að reyna að selja eignirnar heldur að gera þær fasteignir sem þeir eru raunverulega að reyna að selja meira aðlaðandi. Tjáskipti Sá forni spekingur sem hér snarar Hugsvinnsmálum (21) á tungu feðra sinna gefur mönnum það ráð að leggja vel við hlustir á mannamótum en jafnframt skuli segja sinn hug, „því að af orðum kynnast ýta hugir“. Í fornum ritum úir og grúir af brýningum um að gæta tungu sinnar: „Manvits vant verður þeim er margt talar“, „sá einn má vitur kallast er tempra kann tungu sína“. Þessi spaklegu orð spegla það fjöleðli tjáskipta að vera í senn okkar beittasta vopn og Akkilesarhæll í samneyti við aðra. Tjáskipti eru leið til skilnings, en einnig misskilnings. Í tjáskiptum höfum við áhrif á aðra, sláum ryki í augu þeirra, en opinberum líka andans nekt. Breski leikritahöfundurinn Harold Pinter sér meira að segja talið sem tæki til að verjast tjáningu, nokkurs konar andtjáningu:  
Til er tvenns konar þögn. Sú þögn sem ríkir þegar ekkert er sagt og sú þögn sem er sköpuð úr orðaflaumi. Slíkt tal vísar til máls sem er læst undir því sem er sagt. Talið sem við heyrum gefur í skyn það sem við heyrum ekki . . . Sjá má orðin sem tæki sem við sífellt notum til að dylja nekt okkar. Við höfum oft heyrt klisjuna „óhæfur til að tjá sig“. Ég trúi hinu gagnstæða að við tjáum okkur alltof vel í þögninni, í því sem ekki er sagt . . . Tjáskipti eru alltof kvíðvænleg. Að ganga inn í líf annarrar manneskju er alltof ógnvekjandi. Að opinbera fátækt okkar er alltof hryllilegur möguleiki (37).
 

Í þessum orðum felst sannleikskorn. Flestir þekkja hvernig við reynum á erfiðum stundum að tala þögnina í hel og sleppum því ekki upp á yfirborðið sem við erum að hugsa um. Hvað sem þessu líður verður mikilvægi tjáskipta seint ofmetið. Á þeim hvílir allt mannlegt samfélag og til brenglaðra tjáskipta má rekja átök milli hjóna, hópa og þjóða.

Hugtakið tjáskipti vísar til þess að tjá sig og taka við tjáningu í einni eða annarri mynd. Oft er talað þannig um mannlegt mál sem tjáskipti væru einskorðuð við beitingu þess. Því fer auðvitað víðs fjarri að svo sé. Þær leiðir sem menn nota til að tjá sig eru nánast óteljandi. Öll samskipti manna einkennast af einhvers konar tjáskiptum, hvort sem það er í riti, í tali, með svipbrigðum eða á annan hátt. Við sendum stöðugt frá okkur merki sem fólk í kringum okkur túlkar og á sama hátt túlkum við vitandi og óafvitandi orð, hegðun og fas annarra. Við getum lýst þessu með mynd. Rétt er að taka fram að það sem vísað er til sem „viðbrögð“ á myndinni á sér ekki alltaf stað í tjáskiptum. Eins og síðar verður rætt er það líka ein helsta ástæða tjáskiptabrenglunar, einkum þegar boð eru flókin. Til þess að hægt sé að greina tjáskipti frá annarri hegðun þarf að vera til staðar einhvers konar ætlun. Ef ég dett á götu og kunningi minn sér mig dregur hann e.t.v. þá ályktun að ég sé klaufi. Það er hins vegar vafasamt í þessu tilviki að tala um að tjáskipti hafi farið fram á milli okkar, þar sem ég ætlaði ekki að senda honum þessi boð. Stundum er vitanlega erfitt að ganga úr skugga um hvort vegfarandi ætlar að senda frá sér boð eða ekki þegar við mætum honum á götu og hann heilsar ekki. Við ályktum þá e.t.v. að hann sé að tjá óvináttu í okkar garð en hann er í raun annars hugar og sér okkur ekki. Ráða umhverfisaðstæður hegðun? Eins og fram kom í pistlinum um hugmyndir um annað fólk er hegðun yfirleitt skýrð með tilvísun í eiginleika sem búa í persónunni. Ef þetta væri einhlít skýring á hegðun væri mjög erfitt að hafa áhrif á fólk, þar sem persónugerðin stýrði hegðun en ekki umhverfisþættir. Rannsóknir á hegðun sýna aftur á móti að umhverfisþættir geta ráðið allt eins miklu. Ef lögð er áhersla á rétta áhrifaþætti í umhverfinu má stjórna hegðun fólks nokkuð vel. Hér á eftir verður greint frá nokkrum þekktum rannsóknum sem allar gefa til kynna að hegðun stjórnist af aðstæðum en ekki persónugerð. Rannsókn Mustafa Sherifs á mati Eitt af því sem félagssálfræðingar hafa velt fyrir sér er hvernig óformlegar reglur um mannleg samskipti verða til. Er erfitt að koma þeim á og tekur slíkt langan tíma? Árið 1935 gerði Mustafa Sherif (40) mjög athyglisverða tilraun með þetta. Hún var þannig að fólk var í myrkvuðu herbergi og horfði á kyrrstæðan ljósdepil á einum veggnum. Verkefnið var að segja til um hreyfingar ljósdepilsins, hve marga sentímetra hann hreyfðist. Svo vill til að við þessar aðstæður virðist ljósdepill hreyfast þó hann sé í raun kyrrstæður. Þetta gerist vegna þess að í myrkvuðu herbergi vantar öll viðmið sem nýta má við mat á hreyfingu. ºtkoman úr tilrauninni var að eftir að hafa metið hreyfinguna nokkrum sinnum kom hver og einn sér upp persónubundnum viðmiðum um það hve mikið ljósdepillinn hreyfðist og voru svörin á bilinu 2,5 til 25 sentímetrar. Næsta skref var að setja þátttakendur tvo og tvo saman í herbergi og athuga hvaða áhrif það hefði á viðmið hvors fyrir sig að leysa þetta verkefni í návist annars. Þessar breyttu aðstæður leiddu til þess að þátttakendur aðlöguðu mat sitt, þannig að það varð líkara mati samstarfsmannsins. Í þriðja skiptið sem tilraunin var gerð voru aðilar orðnir sammála í mati sínu, þannig að ekki tók langan tíma fyrir þátttakendur að aðlaga sig. Það sem kemur mest á óvart við þessa niðurstöðu er hve aðlögunin tók skamman tíma og hve lítill einstaklingsmunur var í viðbrögðum. Ef persónugerð réði mestu um hegðun hefði mátt ætla að færri löguðu mat sitt að mati annarra og stæðu fastir á sínu. Svo væru aðrir sem aldrei gætu staðið á sínu og alltaf sammála síðasta ræðumanni. Slíkt kom þó ekki fram, heldur reyndu báðir sitt til að aðlagast mati hins. Þessi rannsókn Sherifs er víti til varnaðar öllum þeim sem eiga hlut að mati þar sem viðmiðin um góðan og slæman árangur eru óljós. Þeir sem eru mjög hrifnir af munnlegum prófum hafa það oft til marks um gæði slíkra mælinga hversu kennari og prófdómari eru sammála í mati sínu á svörum. En í ljósi þessarar rannsóknar kemur í ljós að samræmið felst í eðli matsins. Hægt er að reikna með að munur sé á mönnum við mat á tveimur til þremur fyrstu nemendunum, en upp frá því sé búið að samstilla viðmiðin og samkomulag ríki um matið. Annað svipað dæmi er þegar tveir menn sem álíka lítið vit hafa á bílum eru saman á bílasölu að meta gæði bíla. Þá er líklegt að fyrstu dómarnir um bílana séu ólíkir en smám saman verði þeir meira og meira sammála. Rannsókn Salomons Asch á undirgefni Þessi rannsókn var gerð undir því yfirskini að verið væri að athuga sjónskyn (7). Hún fór þannig fram að þátttakandi í tilraun kom inn í herbergi sem í voru sex menn og sátu þeir í hálfhring við borð. Eina lausa sætið var annað sæti frá hægri og settist hann þar. Tilraunin gekk þannig fyrir sig að sýnd voru spjöld með mislöngum línum. Í hverri lotu voru sýnd tvö ný spjöld, á öðru var ein lína en á hinu voru þrjár línur. Aðeins ein lína af þremur var jafnlöng þeirri línu sem var ein á spjaldi og verkefnið var að skera úr um hver þeirra þriggja það væri. Mennirnir sjö svöruðu hver á eftir öðrum og alltaf í sömu röð, þannig að þátttakandinn í tilrauninni svaraði næstsíðastur. Hinir sex voru vitorðsmenn stjórnandans og var fyrirfram ákveðið hvernig þeir áttu að svara. Oftast völdu þeir réttu línuna en í nokkur skipti völdu þeir allir ranga línu og var Asch að athuga hvort þátttakandinn veldi réttu línuna eða fylgdi hópnum og veldi þá röngu. Niðurstaðan var að 75% þátttakenda fylgdu hópnum einhvern tíma í að gefa rangt svar. Í hverri lotu völdu vitorðsmennirnir 18 sinnum ranga línu og þátttakandinn fylgdi þeim að meðaltali í 6 skipti. Til að vera viss um að það væri þrýstingur frá hópnum sem réði því að þátttakandinn veldi ranga línu endurtók Asch tilraunina með þeirri breytingu einni að í stað þess að segja upphátt hvaða lína varð fyrir valinu var það skrifað á blað. Með öðrum orðum, það var enginn hópþrýstingur, því að þátttakandinn vissi ekki hverju aðrir svöruðu. Niðurstaðan í þessari tilraun var að aðeins í 1% af svörunum var röng lína valin. Þegar athugað var hvaða þættir höfðu áhrif á aðlögun kom í ljós að einstaklingsmunur skipti litlu máli. Af eiginleikum sem tengdust fólki var það helst kynjamunur sem hafði áhrif á aðlögun. Auðveldara reyndist að hafa áhrif á konur við þessar aðstæður en karla. En þar sem þessi áhrif voru mjög veik hefur munurinn ekki þótt mjög áhugaverður. Það sem hafði mest áhrif á aðlögun var stærð hópsins. Niðurstöður benda til þess að þau áhrif sem Asch fékk komi fram þegar vitorðsmenn eru þrír eða fleiri. Markpunktur er settur við þrjá vegna þess að áhrifin aukast ekkert þótt fleiri vitorðsmönnum sé bætt í hópinn. Rannsókn Stanleys Milgram á hlýðni Niðurstöður tilraunar Asch vöktu að vonum töluverðar umræður. Margir gerðu þá athugasemd að sömu niðurstöður hefðu ekki fengist ef verkefnið skipti þátttakendur máli. Þá hefði ekki komið fram jafnmikil aðlögun. Niðurstöður Asch væru til komnar vegna þess að í raun var öllum sama hvaða lína var lengst. Einn af samstarfmönnum Asch, Stanley Milgram, taldi þessa gagnrýni óréttmæta og ákvað að gera tilraun þar sem staðfest væri að svipuð hegðun kæmi fram þó verkefnið skipti fólk miklu máli (31). Verkefnið sem Milgram valdi var að láta fólk refsa samborgurum sínum með rafstraumi. Taldi hann að slíkt gerði enginn að neinu marki án erfiðleika. Tilraunin var gerð undir því yfirskini að verið væri að athuga áhrif refsinga á nám. Þátttakendur voru allir sjálfboðaliðar sem fengust eftir auglýsingu í dagblaði. Þegar þeir mættu í tilraunina hittu þeir fyrir stjórnanda í hvítum sloppi og annan sjálfboðaliða, miðaldra, þybbinn og vingjarnlegan mann (í reynd var hann vitorðsmaður stjórnandans). Stjórnandinn byrjaði á að útskýra fyrir þátttakendum að tilraunin gengi þannig fyrir sig að tveir og tveir ynnu saman. Annar hefði það hlutverk að vera nemandi og hinn kennari. Til að svo virtist sem tilviljun réði verkaskipan var dregið um hvor ætti að vera kennari og hvor nemandi. Drættinum var þannig fyrir komið að sjálfboðaliðinn var ætíð í hlutverki kennarans. Eftir dráttinn fóru þeir inn í lítið herbergi þar sem fest voru rafskaut á nemandann. Meðan það var gert spurði neminn hvort rafstraumurinn væri hættulegur eða sársaukafullur og svaraði stjórnandinn því til að hann gæti valdið sársauka en hann myndi ekki valda neinum varanlegum skaða. Lauk þessum samræðum með því að nemandinn sagði að síðast þegar hann fór í læknisskoðun hefði komið fram að hann væri með vægan hjartasjúkdóm. Því næst fóru kennarinn og stjórnandinn inn í annað herbergi og settist kennarinn við tækið sem stjórnaði rafstraumnum. Á tækinu voru takkar sem kennarinn átti að ýta á til að refsa fyrir röng svör. Hver takki var merktur, sá fyrsti 15 volt, sá næsti 30 volt, síðan 45 volt og þannig óx rafstraumurinn áfram um 15 volt við hvern takka, þar til komið var upp í 450 volt. Fyrir ofan takkana var lýsing á styrkleika rafstraumsins. Við fyrstu takkana stóð „veikur straumur“ en fyrir ofan þá síðustu stóð „hætta – mikill straumur“. Fyrir ofan þrjá síðustu takkana var aðeins skrifað „xxx“. Áður en tilraunin hófst var kennaranum gefinn 15 volta straumur svo hann fengi hugmynd hvernig væri að fá rafstraum. Síðan hófst tilraunin. Kennarinn las upp fjögur orðapör, næst las hann fyrra orðið í einu parinu og öll síðari orðin og átti nemandinn að gefa til kynna með ljósmerki hvaða orð væri réttur seinni partur. Fyrir rangt svar átti kennarinn að gefa rafstraum og óx styrkleikur straumsins um 15 volt við hvert rangt svar. Í reynd var enginn straumur gefinn og öll viðbrögð nemandans voru spiluð af segulbandi, svo tryggt væri að allir þátttakendur heyrðu sömu viðbrögð. Raunverulegur tilgangur tilraunarinnar var að athuga hve lengi kennarinn mundi hlýða. Áður en tilraunin hófst lýsti Milgram henni fyrir nokkrum samkennurum við Yale háskólann og bað þá að spá fyrir um hlýðnina. Menn voru samdóma um að ekki yrði gefinn mikill straumur og enginn nema þeir sem væru vanheilir á geðsmunum færu yfir 200 volt. Til að erfiðara væri fyrir kennarann að hlýða byrjaði nemandinn að mótmæla þegar rafstraumurinn var 300 volt. Hann lamdi í vegginn, æpti af sársauka, neitaði frekari þátttöku í tilrauninni og bað um að vera látinn laus. Skömmu síðar hætti hann að svara. Kennaranum var sagt að bregðast við eins og um rangt svar væri að ræða og gefa raflost. Mótmæli nemandans höfðu tilætluð áhrif, kennararnir vildu flestir hætta þegar hér var komið sögu. Stjórnandinn reyndi að fá þá til að halda áfram en til þess að eins væri komið fram við alla notaði hann aðeins eftirfarandi stigvaxandi hvatningu: „Vertu svo vænn að halda áfram“, „gjörðu svo vel að halda áfram“, „tilraunin stendur og fellur með því að þú haldir áfram“ og „þú átt engra annarra kosta völ en að halda áfram“. Eins og sjá má af töflunni á næstu síðu þá urðu niðurstöður allt aðrar en spáð var. Þeir fyrstu hættu við 300 volt en flestir héldu áfram og gáfu hámarksstraum. Hegðun kennaranna meðan á tilrauninni stóð sýndi svo ekki varð um villst að Milgram hafði tekist ætlunarverk sitt. Þátttakendur sýndu undirgefni, þó svo að verkið skipti þá miklu máli. Það var mjög greinilegt á þátttakendum að þetta verk reyndist þeim afar erfitt. Þeir mótmæltu, svitnuðu og nokkrir sýndu taugaveiklunareinkenni eins og tryllingslegan hlátur. En af hverju hætti fólk ekki fyrst þetta var svona erfitt? Milgram gerði margar tilraunir til að svara þessari spurningu og verður nú greint frá helstu niðurstöðunum. Ein hugsanleg skýring, en ólíkleg þó, er að fyrir tilviljun hafi valist einvalalið af siðblindu fólki í þessa tilraun. Að persónuleiki kennaranna hafi á einhvern hátt verið afbrigðilegur. Til að ganga úr skugga um hvort svo væri var persónuleikapróf lagt fyrir þátttakendur. Ekki kom neitt í ljós sem gaf til kynna að þetta væri réttmæt skýring. Einnig var athugað hvort munur væri á þeim sem hættu fyrst og þeim sem hlýddu allan tímann. Ekki gáfu persónuleikaprófin til kynna að munur væri á hópunum en viðtölin leiddu í ljós að þeir sem hættu voru trúaðri. Virðist svo sem að þeim hafi verið meira í mun að hlýða guði en stjórnanda tilraunarinnar. Meginniðurstaða tilraunarinnar var að ýmsir umhverfisþættir hafi ráðið mest u um hlýðnina. Eitt af því sem skipti máli var nálægð stjórnanda. Hlýðnin var mest meðan hann var í sama herbergi en minnkaði strax og stjórnandinn brá sér frá eða þegar hann hafði aðsetur í öðru herbergi og sendi fyrirskipanir sínar í gegnum hátalara. Nálægð nemandans hafði líka áhrif. Í tilrauninni sem hér var sagt frá var nemandinn í næsta herbergi. Nokkuð dró úr hlýðni ef nemandinn var hafður í sama herbergi og enn meira dró úr hlýðni ef kennarinn þurfti að gefa raflostið með því að halda hendi nemandans á þar til gerðri plötu. Loks hafði það einnig áhrif á hlýðni kennarans ef hann hafði tvo „samstarfsmenn“ við að gefa raflostið. Ef samstarfsmennirnir héldu áfram uns hámarksraflosti var náð þá gerðu kennararnir það líka, en ef samstarfsmennirnir vildu hætta þá gerðu kennararnir það einnig.

Tafla: Fjöldi þáttakenda sem hætti á hverju styrkleikastigi í tilraun Milgrams

 

Hve mörg volt

15-285 300 315 330 345 360 375 390 405 420 435 450

Samtals

Fjöldi þátttakenda sem hætti við þennan styrkleika

0 5 4 2 1 1 1 0 0 0 0 26

40

 

Rannsókn Mustafa Sherifs á áhrifum hópa

Flestar sálfræðitilraunir fara fram á rannsóknarstofum. Meginókostur slíkra rannsókna er hve oft er erfitt að fullyrða að sömu niðurstöður hefðu fengist ef tilraunin hefði verið gerð utan rannsóknarstofunnar. Efast er um að hegðun á rannsóknarstofum ráðist af sömu öflum og hegðun utan rannsóknarstofa. Félagssálfræðingar leysa þennan vanda oft með því að fara með tilraunir sínar út fyrir rannsóknarstofuna og gera þær á vettvangi. Oft jafnvel án þess að fólk viti að verið sé að athuga það. Gott dæmi um slíka rannsókn er tilraun sem Mustafa Sherif gerði ásamt félögum sínum á því hvernig hópar geta stýrt skoðunum og hegðun meðlima hópsins (41). Á sjötta áratugnum athuguðu Sherif og félagar hegðun drengja í sumarbúðum. Rannsóknin gekk þannig fyrir sig að 24 ellefu og tólf ára drengjum var boðið að dvelja um tíma í sumarbúðum. Aðeins var boðið drengjum sem töldust bæði andlega og félagslega eðlilegir. Drengirnir vissu ekki að þeir væru þátttakendur í rannsókn. Starfsemin í búðunum var ekkert frábrugðin því sem gerðist í öðrum sumarbúðum að því frátöldu að leiðbeinendur voru jafnframt rannsóknarmenn. Þegar drengirnir komu í búðirnar var þeim skipt í tvo hópa. Reynt var að hafa hópana sem líkasta að líkamlegu atgervi og séð var til þess að vinir lentu ekki í sama hópi. Fyrstu dagana var séð til þess að lítil samskipti væru milli hópanna og áhersla lögð á að efla samheldni innan þeirra. Hópunum voru gefin nöfn og þeir látnir vinna sameiginlega að ýmsum verkefnum. Þegar mikil samheldni var orðin innan hópanna hófst næsta stig tilraunarinnar. Hópunum var att saman í keppni. Sigurvegararnir fengu verðlaun en þeir sem töpuðu fengu ekkert. Markmiðið með verðlaununum var að auka á ríg milli hópanna. Fleira var gert í sama tilgangi. Til dæmis var báðum hópunum boðið til veislu og helmingur veitinganna var útlitsgallaður. Annar hópurinn mætti á undan og auðvitað völdu þeir veitingarnar sem ekki voru gallaðar. Seinni hópurinn varð ekki mjög hrifinn af því sem þeim stóð til boða og varð þetta ekki til að bæta samskiptin. Brátt ríkti fullkomin óvild milli þeirra. Birtist sú óvild bæði í átökum milli hópanna og því hvaða augum þeir litu hvor annan. Könnun á slíku persónumati leiddi í ljós að samherjar voru metnir sem ágætis náungar, hugrakkir, harðir af sér og vingjarnlegir, en andstæðingarnir voru gjörsamlega óalandi. Þeir voru falskir, uppskafningar og leiðinlegir. Lokastig tilraunanna var svo að sætta hópana. Prófaðar voru ýmsar leiðir til að ná þessu marki. Til dæmis var hópunum boðið til veislu í þeirri von að nægilegt væri fyrir þá að hittast á nýjum vettvangi til að óvildin hyrfi. Ekki bar það tilætlaðan árangur. Veislan endaði með því að hóparnir köstuðu mat hvor í annan. Einnig var reynt að koma á friði með því að fara með hópana í guðsþjónustu. Í prédikuninni var lögð áhersla á náungakærleik og að fyrirgefa ætti óvinum. Þó svo að drengirnir væru ánægðir með guðsþjónustuna breytti hún í engu hegðun þeirra. Að guðsþjónustu lokinni fóru þeir strax að undirbúa frekari átök. Almennt má segja að þessar sáttatilraunir hafi gengið mjög illa. Í fyrstu tveimur rannsóknunum mistókust þær og héldu drengirnir heim án þess að sættir hefðu tekist. Í þriðju tilrauninni tókst Sherif og félögum loks að haga aðstæðum þannig að hóparnir sættust. Aðferðin sem dugði var að láta þá vinna að sameiginlegu marki. Dæmi um verkefni sem hóparnir leystu sameiginlega var að rannsakendur sáu til þess að matarbíllinn fór ekki í gang og sameinuðust drengirnir í að draga hann í gang. Annað dæmi var að vatnsleiðslan til búðanna „bilaði“ og drengirnir þurftu að finna bilunina. Afleiðing þessara sameiginlegu verkefna var því að drengirnir kynntust andstæðingum sínum og sannreyndu að þeir voru ekki eins ómögulegir og þeir höfðu talið. Átökin og deilurnar sem höfðu verið milli hópanna lögðust af. Hafa hópar áhrif á hegðun fólks? Í þessum pistli verður rætt um nokkra þætti sem vakið hafa athygli í rannsóknum á hópum. Hópar, starfsemi þeirra og áhrifamáttur, hafa verið mjög vinsælt viðfangsefni fræðimanna. Þessi áhugi hefur tekið á sig mismunandi myndir á ýmsum tímum. Á síðustu öld höfðu menn til dæmis mikinn áhuga á því hvað stýrði hegðun múgs. Sá áhugi átti rætur að rekja til mikilla götuóeirða í ýmsum stórborgum Evrópu sem brýnt þótti að hafa hemil á. Á þessari öld hefur þetta viðfangsefni verið endurvakið í ýmsum myndum. Til dæmis má nefna Þýskaland á valdatíma Hitlers, en þar lék múghegðun stórt hlutverk, og í dag eru fræðimenn sem fást við fótboltabullur að glíma við anga af sama fyrirbæri. Mestur áhugi er þó á hegðun fólks í mun smærri hópum. Algengasta hópstærð í rannsóknum er á bilinu sex til tíu manns. Rannsóknirnar beinast mest að mismunandi samskiptamynstrum, hvernig meðlimir hafa áhrif hver á annan og að ákvarðanatöku í þessum hópum. Allt eru þetta viðfangsefni sem talin eru hafa mikið hagnýtt gildi, þar sem flestum stofnunum og fyrirtækjum er stjórnað af hópi sem í eru sex til tíu manns. Því er nauðsynlegt að vita hvaða öfl eru að verki í þessum hópum. Í síðasta pistli var greint frá rannsóknum á því hvernig nota má hópa til að hafa áhrif á hegðun einstaklinga. Þau áhrif eru ekki einstök fyrir þær tilraunir sem þar var greint frá heldur eitt helsta einkenni hópstarfsemi. Allir sem hafa verið félagar í unglingahópi vita að fá má fólk til að hegða sér gegn betri vitund ef stemmning er fyrir strákapörum í hópnum. Svipuð öfl eru að verki á íþróttakappleikjum þegar ráðsettir borgarar hrífast með hópnum, hegða sér sem götustrákar og hrópa svívirðingar á dómara og leikmenn. Í þessum pistli verða ræddar nokkrar hliðar á áhrifum hópa. Umræðan verður alls ekki tæmandi heldur verður aðeins velt upp nokkrum áhugaverðum niðurstöðum sem komið hafa fram í rannsóknum fræðimanna. Hugtakið hópur er notað yfir mjög fjölbreytilega söfnuði. Því hefur gengið erfiðlega að finna ásættanlega, einfalda skilgreiningu á hugtakinu. Það liggur meðal annars í því að einkenni sumra hópa eiga alls ekki við um aðra. Gott dæmi um slíkt er að telja að eitt einkenni hópa sé að meðlimir verði að sjá hver annan eða að minnsta kosti eiga í persónulegum samskiptum sín í millum. Þetta viðmið dugar mjög vel þegar verið er að fjalla um litla hópa eins og fjölskyldur eða stjórnir félaga og samtaka, en dugar alls ekki þegar átt er við stærri hópa eins og gyðinga eða Íslendinga. Flestir hópar eiga það sameiginlegt að í þeim gilda ákveðnar samskiptareglur og siðir. Í sumum hópum eru til dæmis leiðtogar en í öðrum ekki. Eins geta samskipti verið mismunandi, stundum ráðast þau af formlegum reglum eins og á stjórnarfundi í fyrirtæki, en í öðrum eru þau óformleg eins og þegar sömu stjórnarmenn fá sér kaffi saman að fundi loknum. Sameiginlegt markmið getur einnig verið grundvöllur fyrir skilgreiningu á hópi. Til dæmis mætti kalla þá hóp sem berjast fyrir friði í heiminum þótt þeir eigi fátt annað sameiginlegt en það markmið. Loks má nefna það skilyrði að til þess að um hóp sé að ræða þurfi að vera einhver sem ekki tilheyrir hópnum, en viðurkennir samt tilvist hans. Áhrif hópa eru margvísleg og ráðast meðal annars af stærð þeir ra, vinnureglum sem móta starfsemina og þeim verkefnum sem unnið er að. Lengi vel var eingöngu rætt um hópáhrif á þann veg að meirihluti hefði áhrif á minnihlutann í krafti fjölmennis. En getur hið gagnstæða gerst? Getur minnihlutinn stjórnað meirihlutanum og við hvaða aðstæður gæti slíkt gerst? Í vísindum, stjórnmálum og listum má finna fjölmörg dæmi um hvernig litlir hópar hafa endurskilgreint það sem teljast viðtekin sannindi á ákveðnu sviði. Slíkt gerist yfirleitt þannig að í byrjun er um að ræða jaðarhóp sem berst á móti straumnum. Oft fylgir því að litið er á meðlimi hópsins sem einhverja furðufugla. Á nokkrum árum tekst þeim að telja fólk á sitt band. Fyrst einn og einn en smám saman fjölgar þeim og að nokkrum árum liðnum er þeirra sýn orðin ríkjandi. Besta leiðin til að geta sagt með nokkurri vissu hvernig slíkt gerist er að fá áhrifin fram í tilraun, því þar er hægt að einangra þá áhrifaþætti sem skipta máli. Frakkinn Serge Moscovici setti fram þá tilgátu að starfsemi í minnihlutahó pum sem ná þessum árangri hafi ákveðin auðkenni. Mikilvægastur er stöðugleiki í málflutningi hópsins. Stöðugleikinn birtist í því hvernig málstaðurinn er settur fram og varinn. Hann birtist einnig í samheldni innan hópsins. Til að hópurinn hafi tilætluð áhrif þurfa meðlimirnir að standa saman, því ef þeir geta ekki komið sér saman um hver sé hin rétta afstaða eru litlar líkur á að þeir geti talið aðra á sitt mál. Þessar hugmyndir prófaði Moscovici í tilraun sem hann gerði ásamt Lage o g Naffrechoux (34). Fyrirmynd tilraunarinnar var fengin frá Salomon Asch. Í hverjum hópi voru sex þátttakendur sem voru sýndar litskyggnur og áttu þeir að segja til um litinn á hverri skyggnu. Litskyggnurnar voru 38 talsins og sýndu allar litbrigði af bláu. Fyrsta skrefið í tilrauninni var að þátttakendurnir voru prófaðir við litblindu, en síðan voru litskyggnurnar sýndar og átti hver og einn að segja upphátt til um litinn. Í hverjum tilraunahópi voru tveir vitorðsmenn stjórnenda sem mynduðu minnihlutahóp. Sátu þeir ýmist í fyrsta og öðru sæti eða fyrsta og fjórða. Í sumum hópum sögðu vitorðsmennirnir alltaf að skyggnan væri græn, í öðrum hópi sögðu þeir 24 sinnum að skyggnan væri græn og 14 sinnum að hún væri blá og loks var samanburðarhópur þar sem engir vitorðsmenn voru og svaraði hver og einn eftir eigin sannfæringu. Niðurstaðan var sú að í samanburðarhópnum var skyggnan sögð græn í 0,25 prósentum tilvika. Í hópi tvö, þegar vitorðsmenn sögðu oftast grænt en stundum blátt, var 1,25 prósent af svörum annarra þátttakenda að skyggnan væri græn. Í þriðja hópnum sögðu vitorðsmennirnir alltaf að skyggnan væri græn og þá voru 8,42 prósent af svörum þátttakendanna að skyggnan væri græn. Þetta sýnir að ef minnihlutahópur sýnir samstöðu í afstöðu sinni og stöðugleika í málflutningi hefur það áhrif á mat annarra. Minnihlutaáhrif hafa verið staðfest í fjölda annarra tilrauna. En jafnframt hefur verið sýnt fram á að minnihlutaáhrif ráðast ekki eingöngu af stöðugleika í málflutningi (33). Í ljós hefur komið að þó stöðugleiki í málflutningi sé nauðsynlegur má ekki ofgera honum. Ef áheyrendum finnst of mikil stífni í málflutningnum dregur úr áhrifum minnihlutahópsins. Þá er litið á hann sem öfgahóp eða samsafn furðufugla. Listin er að vera fastur fyrir í reynd, en haga málatilbúnaði þannig að hann virðist vera sveigjanlegur. Það er ekki eingöngu framsetning efnisins sem ræður því hvort minnihlutahópar hafa áhrif. Flest það sem skiptir máli við fortölur kemur málinu við. Til dæmis hefur komið í ljós að ef vitað er að meðlimir minnihlutahópsins hafa fórnað miklu fyrir málstaðinn hafa þeir meiri áhrif en þeir sem engu hafa fórnað. Hópur sem gefur allar eigur sínar til fátækra er trúverðugri í boðun fagnaðarerindis en sá sem engu fórnar. Einnig hefur komið í ljós að máli skiptir af hvaða rótum hegðun er sprottin. Ef hegðun á rætur í sjálfsprottnum áhuga er hún líklegri til að hafa áhrif en ef hún er keypt. Ræðumaður sem heldur því fram að á morgun verði heimsendir er mun trúverðugri ef málflutningur hans byggist eingöngu á einlægri sannfæringu en ef hann gerir þetta fyrir peninga. Sú samheldni sem reynist minnihlutahópum svo vel getur verið tvíbent í hópum sem fást við annars konar verkefni. Sérstaklega á þetta við um ákvarðanatöku. Þá fylgir það oft samheldninni að allar gagnrýnisraddir eru kerfisbundið kveðnar í kútinn. Þeir sem reglubundið halda fram skoðunum í andstöðu við meirihlutann eru beint eða óbeint hraktir úr hópnum. Slíkt er yfirleitt gert í nafni betri starfsanda. Og vissulega er það rétt, öll starfsemi gengur betur á eftir. Minni tími fer í umræður, meiru er komið í verk og öll samskipti innan hópsins verða þægilegri. Meðlimum líkar einnig mun betur hverjum við annan. Þrátt fyrir þessa kosti er ekki almennt samkomulag um að æskilegt sé að losna við gagnrýni úr hópstarfi. Rannsóknir Irving Janis (23) á ákvarðanatöku nokkurra forseta Bandaríkjanna sýna fram á hættur sem felast í því að þagga niður í gagnrýnisröddum í nánasta samstarfshópi. Hann færir rök fyrir því að rekja megi flest meiriháttar mistök í ákvarðanatöku þessara forseta, eins og til dæmis innrásina í Svínaflóa og aukna þátttöku í Víetnamstríðinu, til þess að ráðgjafahóparnir voru of einsleitir í ráðum. Þeir sem settu sig á móti vilja forsetans voru litnir hornauga og hafðir að skotspæni. Andinn í hópnum var þannig að meðlimir treystu sér ekki til að tjá hug sinn. Ýmsir sem höfðu efasemdir um þá stefnu sem mál tóku treystu sér ekki til að láta þær í ljósi. Einnig hefur komið fram að meðlimum hópa þar sem svona andi ríkir finnst erfitt að hugsa sjálfstætt. Þeir bíða eftir að heyra afstöðu hópsins áður en þeir móta eigin afstöðu. Þessar rannsóknir Janis eru þörf lexía fyrir alla stjórnendur. Oft er litið á það sem algjöra tímaeyðslu að velta upp ýmsum hliðum á málum og sú afstaða er oftar en ekki rétt. Það er ekkert sem tryggir að allt sem kemur fram í slíkum vangaveltum sé af viti. Það eina sem hægt er að fullyrða er að séu frjáls skoðanaskipti ekki leyfð koma annmarkar hugmynda örugglega ekki fram. Þess vegna er það skammsýni af stjórnendum að hefta umræður og losa sig við þá sem eru þeim ósammála í veigamiklum málum. Listin er að finna umræðum þann farveg að þær taki ekki of mikinn tíma og að kunna að nýta sér gagnrýnendur. Fleira í starfsemi hópa en samheldni og áhrif hennar á ákvarðanatöku hefur verið rannsakað. Reynslan hefur kennt mörgum að það getur verið mjög árangursríkt að vinna með öðru fólki. En hvað skyldu rannsóknir sýna? Er það að jafnaði árangursríkara að vinna með öðrum en einn sér? Upphaf rannsókna á þessu sviði var seint á síðustu öld. Árið 1898 gerði N. D. Triplett (45) athuganir sínar á árangri hjólreiðamanna og sýndu þær að menn hjóluðu mun hraðar í keppni við annan en þegar þeir hjóluðu einir. Nokkrum árum síðar athugaði Max Ringelman (24) annað atriði í árangri hópa. Ringelman hafði áhuga á að vita hvort sá kraftur sem býr í hópum sé summa af krafti þeirra einstaklinga sem mynda hópinn eða hvort einhver kraftur tapist við að vera í hópi. Aðferðin sem hann beitti til að mæla þetta var að láta nemendur sína toga í reipi, annaðhvort einn í einu eða nokkra saman. Reipið var tengt við kraftmæli svo mæla mætti af hve miklum krafti var togað. Í ljós kom að einn maður togaði af 85 kg afli að meðaltali. Sjö manna hópur átti því að toga af 595 kg afli ef enginn kraftur tapaðist, og í samræmi við niðurstöður Tripletts var hugsanlegt að keppniskraftur yki við kraftinn. Niðurstaðan var hins vegar að sjö manna hópur togaði af 450 kg krafti. Ringelman prófaði hópa af ýmsum stærðum og var niðurstaðan alltaf mjög svipuð. Togkraftur hóps var að jafnaði 75% af samanlögðum togkrafti þeirra sem mynduðu hópinn. Sú niðurstaða að hópar geti verið minna en summa þeirra sem mynda hópinn hefur margoft verið staðfest síðan. Samanburður á árangri hópa og einstaklinga er ekki alltaf jafneinfaldur og í rannsókn Ringelmans. Þrautalausnir eru viðfangsefni þar sem erfitt getur verið að leggja saman krafta þeirra sem mynda hópinn. Slíkar rannsóknir fara yfirleitt þannig fram að þraut er lögð fyrir einstaklinga og fyrir hópa. Þessar þrautir geta verið af ýmsu tagi, en oft er notast við flókna útgáfu af velþekktri þraut um bónda sem þurfti að komast yfir á með heypoka, úlf og kind og aðeins var hægt að ferja tvo í hverri ferð. Við slíkar aðstæður getur verið erfitt að mæla nákvæmlega framlag hvers meðlims hópsins, þar sem framlag hvers og eins er ekki alltaf ljóst. Stundum er lausnin fundin í samvinnu, en í annan tíma byggist hún á hugljómun eins meðlims sem finnur lausnina án nokkurrar hjálpar. Í stað þess að mæla nákvæmlega framlag hvers einstaklings er stundum athugað hve margir geta leyst þrautina og hve langan tíma tekur að koma með rétta lausn. Rannsókn (39) á þrautalausnum hópa og einstaklinga sýndi að hópar voru líklegri til að koma með rétta lausn á þrautinni, en þeir voru lengur að því en einstaklingar. Í mörg ár var litið svo á að niðurstaðan sýndi fram á raunverulegan mun á einstaklingum og hópum í þrautalausnum, en þegar farið var að beita nýjum og betri úrvinnsluaðferðum kom í ljós að enginn munur var á hópum og einstaklingum (11). Nýjungin var að taka þá sem leyst höfðu þrautirnar sem einstaklingar og búa til hópa úr þeim. Tilviljun var látin ráða því hverjir lentu saman í hóp. Tekin var útkoma hvers einstaklings og fundin meðalútkoma fyrir hópinn. Niðurstaðan var að enginn munur var á útkomu þeirra hópa sem unnið höfðu saman að verkefninu og hópanna sem búnir voru til eftir á. Ekki eru fræðimenn almennt sammála um að þrautalausnir séu réttur vettvangur til að rannsaka árangur hópa. Telja sumir að rannsóknirnar endurspegli ekki nógu vel daglegt líf, þar sem lausn þrautanna felst í því að finna eitthvert eitt rétt svar, en í flestum vandamálum daglegs lífs er ekki til nein ein rétt lausn. Til eru margar lausnir á flestum þeim vandamálum sem glímt er við í daglegu lífi og þær geta reynst misvel eftir því hvernig mál þróast. Þetta hefur leitt til þess að fræðimenn hafa beint athygli sinni frá þrautalausnum og að verkefnum sem tengjast meira daglegu starfi. Eitt af því er að athuga ákvarðanatöku í hópum, enda er það starfsemi sem einkennir marga hópa. Gildir það jafnt um vinahóp sem vill komast að niðurstöðu um hvort fara eigi á dansleik eða í kvikmyndahús og stjórnarfund í fjölþjóðafyrirtæki sem segja á til um hvar byggja eigi nýja verksmiðju. Lengi vel töldu fræðimenn að ákvarðanataka í hópum endurspeglaði nokkurn veginn meðalafstöðu meðlima hópsins. Þær ákvarðanir sem teknar væru af hópum væru ekki líklegar til að vera áhættusamar nema hópurinn væri samsettur af ævintýramönnum. Mun líklegra væri að slíkar ákvarðanir einkenndust af íhaldssemi. Þar af leiðandi vöktu rannsóknir J.A.F. Stoners (43) á ákvarðanatöku mikla athygli, en meginniðurstaða hans var að einstaklingar væru líklegri til að taka áhættusamari ákvarðanir í hópi en þeir tóku einir sér. Rannsókn Stoners var þannig að þátttakendum var sagt frá trésmiði sem á völ á milli núverandi starfs, sem er öruggt framtíðarstarf en gefur aðeins af sér laun sem duga fyrir framfærslu, eða að taka starf sem er mun betur launað en hefur lítið starfsöryggi. Þátttakendur voru síðan beðnir um að setja sig í spor ráðgjafa og segja til um hvaða lágmarkslíkur fyrir því að áhættusamari kosturinn gengi upp væru ásættanlegar. Í ljós kom að hópar voru reiðubúnir að sætta sig við mun minni líkur á árangri en einstaklingar. Seinni rannsóknir á ákvarðanatöku í hópum hafa ekki að fullu staðfest þessa niðurstöðu Stoners. Í ljós kom að við sum verkefni tóku hópar varfærnislegri ákvörðun en einstaklingar. Það er því réttara að tala um að hópar séu líklegri til að taka öfgakenndari afstöðu en einstaklingar. Í lokin er ástæða til að ítreka að ekki er alltaf hægt að gefa sér að þessi einkenni á hópstarfsemi, sem hér hafa verið rædd, gildi um alla hópa. Þær rannsóknir sem fjallað hefur verið um hafa það einkenni að beinast aðeins að hópum sem sérstaklega eru búnir til fyrir þessar rannsóknir. Þetta eru því hópar sem hvorki hafa sögu né framtíð. Meðlimir hópanna hafa ekki haft nein tækifæri til að kynnast öðrum í hópnum. Þeir vita mjög lítið um hvers konar fólk er með þeim í hópi, hverjum er ástæða til að treysta og hverjum ekki. Einnig ber að hafa í huga að þær ákvarðanir sem eru teknar hafa engar afleiðingar fyrir meðlimi hópsins og það er einnig líklegt til að skipta máli. Þrátt fyrir þessa vankanta má nýta niðurstöðurnar ef það er gert skynsamlega. Því vissulega sýna rannsóknir á hópum fram á öfl sem stýra hegðun fólks og er það augljós kostur fyrir alla sem oft starfa í hópum að hafa lágmarksþekkingu á þessum öflum til að geta hagnýtt þau þegar tækifæri býðst. Ofbeldi og árásarhneigð  
11 ára drengur fannst illa á sig kominn í húsagarði í Reykjavík um klukkan sex á föstudag. Höfðu tveir piltar 13<196>14 ára ráðist á hann með þessum afleiðingum (Mbl. 2. sept. 1990).
 

Fréttir á borð við þá sem hér er tekin af handahófi úr dagblaði birtast æ oftar í íslenskum fjölmiðlum. Sömuleiðis virðist umræða um árásir og ofbeldi fara vaxandi manna á meðal. Ekki er ljóst hvort þetta endurspeglar fremur aukna tíðni árása eða aukna meðvitund um fyrirbærið.

Hvað er árás? Eru slagsmál í miðbæ Reykjavíkur, pústrar á knattspyrnuleik eða harkalegar sennur stjórnmálamanna dæmi um árás? Gilda sömu lögmál um þetta allt? Árás miðar að því að valda einhverjum tjóni. Ef við göngum út frá því að svo sé í öllum ofangreindum tilvikum eru þau réttilega nefnd árásir. Aftur á móti er gagnlegt að greina á milli líkamlegra árása og árása í orðum, árása sem eru samfélagslega viðurkenndar og þeirra sem eru það ekki. Sennilegt er að slík flokkun afmarki hegðunarafbrigði sem eiga sér a.m.k. að hluta ólíkar forsendur. Viðhorf á Vesturlöndum til árása og þeirrar tilfinningar sem slíku er oft samfara, reiðinnar, hafa löngum verið tvíátta. Í kristinni kenningu er annars vegar ítrekað að launa beri illt með góðu og hins vegar talað um hina góðu baráttu. Sumir sem líta á sig sem framverði kristninnar kalla sig hermenn (Hjálpræðisherinn) og leggja mikla áherslu á ytri tákn stríðsmennskunnar. Óþarft er að fara mörgum orðum um réttláta reiði guðs, svo augljós er hún, einkum í Gamla testamentinu. Á hinn bóginn mælir meistari Jón Vídalín svo um heiftina: „Heiftin er eitt andskotans reiðarslag . . . hún gjörir manninn að ófreskju og að holdgetnum djöfli í augum þeirra sem heilvita eru“ (47). Sami tvískinnungur kemur fram í daglegu lífi og þankagangi manna, annars vegar yfirlýst andstyggð á ofbeldi og hins vegar nánast dýrkun á því (m.a. fyrir framan sjónvarpsskjáinn). Þegar kemur að fræðilegri umfjöllun um árásarhneigð hafa verið uppi mörg sjónarmið á þessari öld. Greina má þrjú sem mest áhrif hafa haft og uppi eru enn í dag. Þrjár mismunandi hugmyndir um árásir og árásarhneigð Í fyrsta lagi er sú kenning sem nefna má hvatakenninguna. Í henni felst að árásarhvöt sé manninum eiginleg á sama hátt og t.d. kynhvöt. Hún krefst útrásar á einn eða annan hátt og er því mikilvægt að slíkt sé gert þar sem það veldur minnstum skaða, t.d. í íþróttum eða veiðum. Helstu forvígismenn þessa sjónarmiðs hafa verið dýraatferlisfræðingar á borð við Konrad Lorenz, og svo faðir sálkönnunarinnar, Sigmund Freud. Mótlætiskenningin

var sett fram við upphaf síðari heimsstyrjaldar. Hún heldur því á lofti að árás sé viðbragð við mótlæti. Mótlæti er hér skilgreint sem hindrun sem maður mætir við að ná markmiðum sínum. Árásin getur beinst að því sem hindraði hann eða að einhverju öðru, ef það er einhverra hluta vegna ógerlegt að ráðast gegn þeim eða því sem helst skyldi. Þegar ráðist er á einhvern annan en þann sem mótlætinu olli er það nefnt tilfærsla. Hugsum okkur til dæmis að maður vinni í stóru fyrirtæki undir stjórn Jóns Þingeyings. Jón gengur fram hjá manninum við stöðuveitingu sem hann hefur lengi beðið eftir. Maðurinn þorir ekki að láta Jón hafa það óþvegið, þar sem hann vinnur áfram undir hans stjórn. Hins vegar er hætt við að þetta mótlæti gangi út yfir næsta Þingeying sem maðurinn kemst í tæri við. Þessi kenning hefur tekið nokkrum breytingum sem síðar verður að vikið.

Þriðja meginkenningin um árásir er félagslega námskenningin. Hún leggur áherslu á að árás sé lærð hegðun og viðhaldist í flóknu samspili við aðstæður. Árásarhneigð lýtur sömu lögmálum og önnur hegðun manna samkvæmt þessari kenningu. Félagslega námskenningin hafnar því ekki að árásir séu algeng viðbrögð við mótlæti en staðhæfir að hegðunin sé að miklu leyti lærð og því ekki nauðtengd því. Sömuleiðis gerir þessi kenning ráð fyrir því að árásir komi oft fram án þess að mótlæti sé til að dreifa. Myndin á næstu síðu sýnir muninn milli kenninganna þriggja í grófum dráttum. Hvata? og mótlætiskenningarnar gera eins og sjá má ráð fyrir að árásarhneigð ákvarðist með fremur einföldum hætti. Þessar kenningar gera jafnframt ráð fyrir því að árás leiði til útrásar. Í því felst að maður sé ólíklegri til árása að nýju um nokkurt skeið eftir að hann hefur sýnt af sér ofbeldi eða árásarhegðun. Félagslega námskenningin lýsir þessu sambandi sem mun flóknara, eins og myndin sýnir: Neikvæð reynsla leiðir til tilfinningalegs uppnáms. Það leiðir hins vegar ekki sjálfkrafa til árása. Hér ræður samspilið við atferliskveikju ferðinni. Atferliskveikja ræðst svo af fyrri reynslu af viðbrögðum sem til greina koma. Sem dæmi má taka að Jóni er sagt upp vinnu (neikvæð reynsla). Hann getur þá ráðist á forstjórann, dottið í það eða leitað að annarri vinnu. Það er mat hans á afleiðingunum af slíkum viðbrögðum sem ræður því hvernig hann bregst hér við samkvæmt félagslegu námskenningunni. Margt bendir í þá átt að hvatakenningin sé beinlínis röng (32). Því er vart til að dreifa að árásarþörf byggist upp og krefjist útrásar með vissu millibili. Þetta vekur vitanlega upp vonir um að árásir sé hægt að takmarka frekar en raunin er. Sömuleiðis virðist mótlætiskenningin, einkum í sinni upphaflegu mynd, vera fullmikil einföldun. Augljóslega er oft um árásir að ræða án mótlætis, og svo hitt að mótlæti fylgir ekki alltaf árás. Fyrra vandamál kenningarinnar má leysa að nokkru með því að greina á milli árása sem miða einungis að því að skaða og árása sem virðast stefna að öðru marki. Hægt er að greina á milli manns sem fer niður í bæ gagngert til þess að berja einhvern sundur og saman og hins sem skýtur mann sem kemur óvænt að honum við innbrot. Þessi aðgreining er hins vegar ófullnægjandi, þar sem fyrri maðurinn fremur e.t.v. sinn ljóta verknað til þess að sannfæra sjálfan sig um að hann hafi krafta í kögglum. Ef við leggjum samt þann vanda til hliðar má segja að mótlætiskenningin eigi betur við hið fyrrnefnda en hið síðarnefnda. Í seinni tíð hefur verið reynt að víkka mótlætiskenninguna út (10). Því er haldið fram að neikvæð reynsla eða óþægindi sem fólk verður fyrir leiði til árása af þeirra hendi. Mótlæti leiði til árása vegna þess að mótlæti er yfirleitt óþægilegt á sama hátt og sársauki eða hávaði er óþægilegur. Mótlæti, en einnig önnur óþægindi á borð við þrengsli, hita og sársauka geta samkvæmt þessu vakið minningar, hugsanir og tilhneigingar sem nefna má reiði. Reiðin leiðir síðan til árása, einkum ef ytri merki eru til staðar sem minna á eða réttlæta slíka hegðun. Því verður ekki á móti mælt að neikvæð reynsla ýmiss konar eykur oft árásarhegðun. Sýnt hefur verið fram á þetta, t.d. um líkamlegan sársauka. Jafnframt er bent á að árásarhneigð megi oft greina í tengslum við depurð (15). Vafamál er samt hvort óþægindi leiði nauðsynlega til árásarhneigðar og þá hvers vegna. Árás og útrás Áður en sagt er skilið við mótlætiskenninguna er rétt að ræða nokkuð um útrásarhugtakið, þar sem það virðist hafa talsverð áhrif á daglega hugsun manna um árásir og reiði. Mótlætiskenningin (og hvatakenningin) gerir eins og áður segir ráð fyrir því að sá sem ráðist hefur á einhvern (eða jafnvel fylgst með árásum annarra) sé síður líklegur til þess að sýna slíka hegðun í nokkurn tíma á eftir. Hér stangast rannsóknarniðurstöður nokkuð á, en a.m.k. virðist mega segja að fleira mæli á móti því en með að árásarhneigð sé á þennan veg farið. Við ættum því að vera á varðbergi gagnvart þeirri klisju að reiði okkar verði að fá útrás með árás til þess að við varðveitum sálarheill. Lærir fólk að ráðast á aðra? Félagslega námskenningin leggur, eins og áður hefur komið fram, áherslu á það að árásarhneigð sé lærð, a.m.k. að mestu leyti. Þetta á bæði við um hegðunina sjálfa og það sem kallar slíka hegðun fram. Sum afbrigði árása krefjast lítillar skólunar, eins og t.d. að slá frá sér í blindni eða öskra til einhvers ónot. Aftur á móti er jafnaugljóst að margt annað árásaratferli sem við sjáum stundum í miðborg Reykjavíkur á laugardagskvöldi er lært. Menn reyna að sparka til andstæðingsins á sama hátt og Bruce Lee og slá til hans eins og Rambo. Jafnvel svipbrigði fyrirmyndanna eru sett upp í átökunum. Menn læra jafnframt hvenær og hverja megi ráðast á. Þetta lærist með margs konar hætti. Þær afleiðingar sem árás hefur gefur fólki í skyn hvort slík hegðun sé æskileg eða óæskileg. Þetta á við hvort sem það sjálft sýnir slíkt af sér eða sér aðra gera það. Hegðun annarra er okkur hér sem annars staðar mikilvægur leiðarvísir um það hvernig okkur ber að hegða okkur. Andstætt mótlætiskenningunni heldur félagslega námskenningin því á lofti að viðbrögð fólks við mótlæti séu margbreytileg. Einn drekkur, annar slæst, hinn þriðji reynir að ráða fram úr vandamálunum. Það er háð fyrri reynslu hvaða viðbrögð eru líklegust til þess að verða ofan á. Sá sem hefur fyrst og fremst séð árásir við ákveðnar aðstæður er líklegri til þess að grípa einnig til slíks. Þetta er það sem honum er efst í huga og sem hann kann. Því jákvæðari afleiðingar sem hann hefur séð eða reynt af ofbeldi, því líklegri er hann til að sýna það. Félagslega námskenningin leggur áherslu á að gildismat fólks ráði miklu um árásarhneigð þess. Hún gerir m.a. ráð fyrir að gildismat verði til fyrir tilstuðlan fyrirmynda, orða þeirra og gerða. Menn leggja misjafnt mat á það hvort athafnir séu réttar eða rangar, góðar eða slæmar. Einum getur fundist það merki um hugrekki að berja einhvern sundur og saman meðan öðrum finnst slíkt merki um skepnuskap. Hvernig má draga úr árásum í samskiptum manna? Félagslega námskenningin gefur okkur ýmsar leiðbeiningar um það hvernig draga megi úr árásum og ofbeldi manna í milli. Við skulum líta á nokkur atriði sem hér virðast skipta máli. 1) Fyrirmyndir

. Félagslega námskenningin leggur, eins og áður sagði, mikla áherslu á fyrirmyndir og þátt þeirra í að móta og viðhalda árásum. Hugað hefur verið m.a. að áhrifum sjónvarps og kvikmynda á slíka hegðun barna og unglinga. Nokkrar deilur hafa staðið um það hversu mikil þessi áhrif séu, en ótvírætt virðist vera að þau séu allnokkur, einkum þegar þau falla að fyrirmyndum og hugsunarhætti sem viðkomandi kynnist annars staðar. Því virðist mikilvægt að draga úr flæði efnis í sjónvarpi og á myndböndum sem lýsir ofbeldi sem leið til að leysa úr ágreiningi og sýna í stað þess fleiri fyrirmyndir sem mæta slíku á annan hátt. Þá er vitanlega mikilvægt, ef ofbeldi kemur fram, að sýna hinar neikvæðu afleiðingar þess.

2) Að kenna aðra hegðun

. Árás er aðeins einn af ótal möguleikum þegar maður lendir í mótlæti. Til slíkrar hegðunar er stundum gripið vegna þess að hún er það eina sem einstaklingurinn kann eða honum er tiltækt. Á þessari hugmynd byggist m.a. að reynt er að kenna þeim sem t.d. lúskra á konum sínum eða börnum aðrar leiðir til þess að tjá óánægju sína. Þeir læra meðal annars að setja hana fram með orðum í stað hnefa.

3) Að kenna viðbrögð við uppnámi

. Þegar fólk er í miklu uppnámi eru því þau viðbrögð enn tamari en ella sem það er vant að grípa til. Þannig beitir maður hnefunum þótt honum séu önnur viðbrögð tiltæk, ef uppnámið verður of mikið. Af þessum sökum er mikilvægt að kenna fólki að lægja öldurnar áður en það lætur til skarar skríða, að fara í gönguferð eða telja upp á hundrað. Það er vitanlega einstaklingsbundið hvaða leiðir eru áhrifaríkastar. Augljóslega er það að miklu leyti undir okkar stjórn hversu reið við verðum. Við getum kallað fram reiði með því að rifja upp atburði sem gera okkur gramt í geði. Á sama hátt getum við oft afvopnað reiðina.

4) Árásarhneigð viðhelst oft (kannski oftast) vegna þess að hún hefur einhverjar þær afleiðingar sem mönnum finnst jákvæðar. Því er mikilvægt að reyna að takmarka slíkt. Hér verður samt að fara með gát. Ef fólki finnst sem svo að viðbrögðin við hegðun þess séu ósanngjörn getur uppnám stigmagnast og tök á eigin hegðun orðið enn minni. 5) Að breyta mati á eigin hegðun . Árásarhneigð viðhelst oft vegna þess að sá sem hana sýnir leggur á hana jákvætt mat. Hann er „hugaður“, „mikill karl“, „sterkur“ o.s. frv. Þetta mat er oftar en ekki styrkt af þeim hópi sem hann tilheyrir. Að breyta slíku mati krefst þess oft að tengsl við hópinn séu rofin og einstaklingnum komið fyrir í umhverfi sem styður gagnstætt mat. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að viðkomandi séu skapaðar nýjar forsendur til þess að leggja á sig jákvætt mat. Árásir og árásarhneigð eru, eins og sjá má af þessum pistli, margþætt fyrirbæri þar sem reynsla, væntingar og gildismat einstaklings eru í samspili við ytri aðstæður. Af þessum sökum er erfitt að segja fyrir um árás. Aukin þekking vekur samt vonir um að friðsamlegri samskipti manna séu möguleg ef við nýtum hana. Við verðum að fækka þeim aðstæðum þar sem ofbeldi lærist og þeim sem styrkja og styðja slíka hegðun. Samhliða verður að kenna og styrkja aðra hegðun sem er ásættanlegri í ágreiningi manna í milli. Hjálpsemi „Ókunnum manni sæmir þér oft vel að duga ef þú vilt víðfrægur vera og vinsæll.“ Svo segir í Hugsvinnsmálum. Fyrir höfundi þeirra vakir að efla greiðvikni lesenda sinna með því að benda á gagnsemi hennar frá þröngu sjónarmiði sérhagsmuna. Það er líka álit sumra að flest eða allt sem við nefnum hjálpsemi, greiðvikni og jafnvel fórnfýsi megi rekja til einhvers konar tillits til eigin hagsmuna. Þannig komi greiði jafnan í greiða stað eða hjálpsemi leiði til ánægju með sjálfan sig. Eitt frægasta dæmið um fórnfýsi og göfuglyndi í Íslendingasögum er atvik í Vatnsdælu. Ingimundur hinn gamli hlýtur sár sem dregur hann til dauða af völdum illmennis sem jafnframt er skjólstæðingur hans. Engu að síður leynir hann tilræðinu fyrir sonum sínum og kemur þannig þrjótnum undan bráðum bana. Hér launar Ingimundur illt með góðu. Þegar grannt er skoðað má engu að síður spyrja hvort Ingimundur hafi átt um margt að velja. Hann hafði tekið við hrappi þessum af vini sínum og segja má því að hann hafi heiðurs síns vegna orðið að skila honum af sér heilum á húfi. Þetta dæmi sýnir glögglega hversu erfitt er að ganga úr skugga um það hvort hjálp sé veitt af óeigingjörnum hvötum eða ekki. Spurningum eins og þeirri hvort fórnfýsi sé í raun til er vandsvarað, þar sem eigingjarnar hvatir í einhverjum skilningi kunna einatt að vera til staðar þótt þær liggi ekki í augum uppi. Það fer iðulega eftir því sjónarhorni sem hegðun er dæmd út frá hvort hún er metin sem merki um fórnfýsi eða eitthvað allt annað. Þannig er um hegðun hermanns sem fórnar lífinu fyrir ættjörðina. Í augum óvinanna er hegðun hans fyrst og fremst árás en í augum samlanda hetjudáð. Hér ræðum við því um hjálpsemi fremur en fórnfýsi. Við látum okkur nægja að krefjast tveggja skilyrða til þess að líta megi á hegðun sem merki um hjálpsemi: Í fyrsta lagi að gerandinn virðist ætla að verða móttakandanum að liði, og í öðru lagi að gerandinn eigi einhverra kosta völ (t.d. að hegðunin sé ekki hluti af skyldum hans í starfi). Lítum á nokkrar aðstæður þar sem sem hjálpar er þörf: Ókunnugur maður biður okkur að gefa sér peninga fyrir strætó, kona liggur í öngviti á götu, tveir menn lúskra á hinum þriðja, barn ber að dyrum hjá okkur og býður merki til styrktar líknarmálum. Þegar við leiðum hugann að þessum aðstæðum sjáum við strax að fólk bregst mismunandi við þeim og líka hitt að við sjálf bregðumst mismunandi við þeim, m.a. eftir því hvernig okkur líður og hvar við erum stödd. Það virðist því vera augljóst að hjálpsemi er bæði aðstæðubundin og persónubundin. Frægt dæmi um skeytingarleysi um örlög annarra er þegar Kitty nokkur Genovese var myrt í New York borg. Árásin á hana tók um það bil hálftíma að 40 manns áheyrandi. Vitnin höfðu nægan tíma til þess að hringja í lögreglu, en enginn skipti sér af atburðinum á neinn hátt. Fyrirbæri eins og þetta hafa verið rannsökuð af sálfræðingum um langt skeið. Svo virðist sem því fleiri sem eru vitni að viðlíka atburðum, því minni líkur séu á því að einhver skerist í leikinn. Það sem virðist skýra slíkt skeytingarleysi eru þrjú meginatriði: Í fyrsta lagi ræður dreifing ábyrgðar vafalaust nokkru. Eftir því sem fleiri eru vitni að hjálparþörf, þeim mun léttvægari virðist sú skylda hvers og eins að skerast í leikinn. „Af hverju ætti ég að gera það úr því enginn annar gerir það?“ Í öðru lagi má nefna áhrif af hegðun annarra. Við aðstæður sem að einhverju leyti eru óljósar ræðst mat fólks á því hvernig hegðun beri að sýna af hegðun annarra. Fólk verður þannig leiðbeinandi hvert fyrir annað. Í þriðja lagi skiptir hræðsla við mat annarra máli. Ef við grípum inn í við aðstæður sem eru að einhverju leyti óljósar eigum við á hættu að verða vegin og léttvæg fundin. Við kunnum að gera eitthvað sem ekki hlýtur náð í annarra augum. Þetta getur verið nægjanlegt til þess að halda aftur af okkur, jafnvel þótt okkur sé alls ekki sama um meðbróður sem kann að þurfa á hjálp að halda. Þessir þættir virðast mjög öflugir, þar sem skeytingarleysi einstaklings í hópi er fyrirbæri sem tryggilega hefur verið sýnt fram á í rannsóknum (19). Á hinn bóginn heyrum við sem betur fer stundum sögur af hetjudáðum sem menn vinna öðrum til bjargar. Þannig eru okkur kunn afrek sjómanna og björgunarsveita við Íslandsstrendur sem lagt hafa allt í sölurnar til björgunar öðrum. Hvað skýrir slíkt misræmi? Er það fólk sem horfði á morðið á Kitty Genovese allt öðruvísi en það sem leggur líf sitt í sölurnar til þess að bjarga skipbrotsmönnum frá drukknun? Svarið er: „Ekki endilega.“ Við munum síðar víkja að einstaklingsmun í hjálpsemi, en hér skal fyrst bent á ýmislegt annað sem eykur líkur á hjálpsemi og skýrir misræmið að hluta til. Hvað eykur líkur á hjálpsemi? 1) Ef greinilegt er að hjálpar sé vant eykur það nokkuð líkur á því að hjálp sé veitt. Ef barn dettur í sjóinn er þörfin greinilegri en ef ókunnugur maður biður okkur um aura fyrir leigubíl. Það er líka greinilegra að hjálpar er þörf ef það er barn sem fellur í sjóinn en ef það er fullorðinn maður. Í síðara tilvikinu gæti hann hugsanlega bjargað sér á eigin spýtur og svo er mögulegt að hann sé hreint og beint að fyrirfara sér og vilji ekki hjálp. 2) Það eykur vilja til að hjálpa ef ætla má að sá sem á í vandræðum sé ekki sjálfur valdur að vandræðum sínum. Ef líklegt eða óyggjandi virðist að hjálparþörfin stjórnist af einhverju utan áhrifasviðs þess sem er hjálparþurfi aukast líkur á aðstoð. Á hinn bóginn eru brögð að því að við ofmetum ábyrgð fólks á vandræðum sínum. Við teljum t.d. oft að þeir sem hafa lent í fjárhagslegum skakkaföllum hefðu átt að geta séð slíkt fyrir. Iðulega finnst okkur líka að þeir sem verða fyrir árásum eða slysum hefðu mátt gæta sín betur. Með þessu móti firrum við okkur skyldu til að hjálpa og getum lifað sæl í þeirri trú að áföll af þessu tagi muni ekki henda okkur sjálf. 3) Venja segir til um að hjálp beri að veita við tilteknar aðstæður. Við sjáum í umferðinni í Reykjavík að fólk hjálpar náunganum gjarnan ef það springur hjá honum, bíllinn hans er fastur í snjóskafli og þar fram eftir götunum. Hér virðist nánast vera um óskráð lög að ræða. Síðan geta þessar hjálparhellur steytt hnefann framan í ökuþóra sem þeim finnst tefja fyrir sér í sunnudagsumferðinni austur fyrir fjall. 4) Hinn hjálparþurfi er líkur manni sjálfum. Við virðumst allajafnan vera frekar tilbúin til þess að verða þeim að liði sem á einhvern hátt líkjast okkur sjálfum. Hér kann margt að koma til. Í fyrsta lagi kunnum við betur við þá sem líkjast okkur. Í öðru lagi er auðveldara að setja sig í spor þess sem er hjálparþurfi ef hann líkist okkur sjálfum. 5) Innlifun. Við göngum oft ósnortin framhjá auglýsingum þar sem beðið er um framlög til hungraðra og þurfandi barna. Við lesum tölur í blöðum um mannfall af völdum styrjalda. Slíkar fréttir snerta okkur kannski eitthvað, en alls ekki svo að þær svipti okkur matarlyst eða lífsgleði. Þegar við aftur á móti sjáum í sjónvarpi mynd af einu þeirra barna sem vísað er til í auglýsingunum um hungruð og þurfandi börn tekur hjarta okkar kipp og við leggjum inn upphæð til styrktar því. Það virðist þannig vera fótur fyrir þeim orðum Stalíns að dauði milljónar sé tölfræði en dauði eins manns harmleikur. Af hverju stafar nú þetta? Sú skýring er nærtækust að erfitt sé að finna til innlifunar með fjarlægu, andlitslausu fólki nema það taki á sig mynd einstaklings, eins og „barnið á slitnu buxunum með hryggilega augnaráðið í sjónvarpinu í gær“. Eru sumir hjálpsamari en aðrir? Líklega finnst mörgum svarið við þessari spurningu vera eindregið já. Svo einfalt er það samt ekki. Erfitt hefur reynst að sýna fram á stöðugleika í hjálpsemi, sem réttlæti afdráttarlaust svar við spurningunni. Oft er erfitt að sjá hvað er hjálpsemi frá sjónarhorni þess sem hjálp veitir. Á hinn bóginn virðist samt mega draga þá ályktun að hjálpsemi sé ekki eins persónubundin og margur heldur. Sömuleiðis virðast mismunandi eiginleikar manna tengjast hjálpsemi við mismunandi aðstæður. Þannig eru það þeir sem vilja teljast hugrakkir sem veita aðstoð þar sem hætta er á ferðum fyrir þá sjálfa, en ekki endilega annars. Lítum á nokkur einkenni manna sem tengjast hjálpsemi. Þessi upptalning er vitanlega alls ekki tæmandi. Sá sem hefur þá hugmynd um sjálfan sig að hann sé hjálpsamur er líklegri en aðrir til að veita aðstoð. Rannsóknir sýna að með því að hafa áhrif á slíkar hugmyndir fólks um sjálft sig er hægt að breyta hegðun þess í þessu tilliti. Þær hegðunarreglur sem einstaklingurinn hefur mótast af í uppeldi sínu og umhverfi hafa einnig áhrif á hjálpsemi hans. Áhrifin ráðast hins vegar af ýmsu, svo sem því hversu ofarlega slíkar hegðunarreglur eru honum í huga þá stundina og hversu skýrt er að þær eigi við aðstæður. Loks virðist hvatvísi skipta máli varðandi hjálpsemi. Rannsóknir sýna að þeir sem veita hjálp í skyndilegum neyðartilvikum eru oft fremur hvatvísir. Þetta er kannski ekki svo skrítið, þar sem við slíkar aðstæður gefst oft ekki mikill tími til umhugsunar. Hjálpsemi og tímabundið ástand okkar Hér að framan höfum við séð að aðstæður ráða miklu um það hvort við komum öðrum til hjálpar eða ekki. Einnig virðist mega finna nokkurn einstaklingsmun í hjálpsemi þótt ekki sé fyllilega ljóst hvers eðlis sá munur er. Það vill hins vegar oft gleymast að hjálpsemi ræðst oft af því sem virðast vera fremur tilviljanakenndir þættir. Sem dæmi má nefna hvernig okkur líður eða hvað við erum að hugsa um þegar við rekumst á fólk í klípu. Slíkt getur ráðið miklu um það hvernig við túlkum getu okkar og skyldu til að veita hjálp (sjá glugga). Sálarástand og hjálpsemi Allmargar rannsóknir hafa rennt stoðum undir þá tilgátu að vellíðan auki líkur á hjálpsemi. Sálfræðingar hafa í rannsóknum bæði athugað áhrif vellíðunar sem þeir hafa sjálfir skapað fólki með ýmsum hætti og vellíðunar sem mótast af ytri þáttum, eins og t.d. veðri. Vellíðun má t.d. fá fram með þeim hætti að láta fólk halda að því hafi tekist að leysa verkefni eða láta það finna verðmæti. Vanlíðan má fá fram með gagnstæðum hætti. Eindreginn stuðningur hefur á þennan hátt fengist við þá tilgátu að vellíðun auki hjálpsemi. Kemur þetta líklega einnig heim og saman við hversdagslega reynslu flestra. Ekki er með öllu ljóst af hverju þetta stafar. Við vitum (sbr. pistil um hugmyndir um annað fólk) að við munum fremur eftir og tökum fremur eftir því góða í fari fólks þegar við erum í góðu skapi. Jafnframt kann svo að vera að jákvæð viðbrögð séu beinlínis tengd vellíðan í minni okkar. Þetta á eftir að rannsaka betur, en hvað sem því líður er fyrirbærið sjálft óyggjandi. Áhrif vanlíðanar á hjálpsemi eru þversagnakenndari. Sumar rannsóknir hafa sýnt að áhrif hennar séu gagnstæð áhrifum vellíðanar en aðrar sýna að vanlíðan hafi einnig áhrif í þá átt að auka hjálpsemi. Hvernig má þetta vera? Svo virðist sem hér skipti máli hverjum augum sá er hjálp getur veitt lítur vanlíðanina. Ef hann álítur að hún stafi af hans eigin hegðun eða athöfnum eru líkur á því að hjálpsemi hans aukist, en því er gagnstætt farið ef hann telur vanlíðanina stafa af ytri þáttum. Ekki er fyllilega ljóst hvað ræður þessu. Ef til vill er hjálpsemi í kjölfar vanlíðanar tilraun til þess að bæta eigin ímynd. Sjálfsvitund og hjálpsemi Við beinum mismikilli athygli að okkur sjálfum, eiginleikum okkar, skoðunum og lífsviðhorfum. Stundum beinum við mjög athyglinni að okkur sjálfum og stundum lítið. Slíkt ræðst m.a. af ýmsum ytri skilyrðum. Við virðumst t.d. síður beina athyglinni að okkur sjálfum í mjög stórum hópum. Komið hefur á daginn að sjálfsvitund hefur áhrif á margs konar hegðun, m.a. hjálpsemi. Almennt er það svo að sjálfsvitund eykur líkurnar á því að hegðun ráðist af meginreglum okkar og skoðunum. Að því leyti mætti búast við meiri hjálpsemi þegar fólk er í sjálfsvitundarástandi, a.m.k. þegar slík hegðun er almennt talin æskileg. Stuðningur er við þetta. Málið er samt flóknara, þar sem sjálfsvitund getur komið í veg fyrir að fólk taki eftir hjálparþörf annarra. Það sem að ofan greinir á því fyrst og fremst við þegar hjálparþörf er greinileg. Hjálpsemi ræðst á sama hátt og t.d. ofbeldi af flóknu samspili persónuleika, aðstæðna og ástands fólks. Almenn tilhneiging manna á meðal er að líta fyrst og fremst til hinna stöðugu persónulegu þátta. Það er því mikilvægt að auka skilning á aðstæðum sem tengjast hjálpsemi. Slíkur skilningur vísar á margar leiðir til þess að forðast að hér verði til samfélag þar sem við göngum framhjá meðbróður í nauðum án þess að skeyta um að verða honum að liði. Friðrik Jónsson, sálfræðingur og Jakob Smári sálfræðingur