persona.is
Samræður
Sjá nánar » Samskipti
Hvernig get ég náð góðu sambandi við barnið? Hversu mikið frjálsræði á ég að leyfa því? Hvernig á ég að bregðast við þegar mér fellur ekki hegðun þess? Hvernig á ég að bregðast við óskum og kröfum barnsins? Hvers konar aga er heppilegt að beita? Hvernig er best að setja reglur og hvenær á að setja þær? Spurningar sem þessar liggja mörgum foreldrum og öðrum uppalendum á hjarta. Margir eru óöruggir um hvernig heppilegt sé að taka á þessari hlið málanna. Þeir treysta ekki alltaf eigin dómgreind og telja jafnvel þá uppeldishætti sem þeir ólust upp við úr gildi fallna vegna títtræddra þjóðfélagsbreytinga á síðustu áratugum. Markvissri fræðslu um foreldrahlutverkið hefur lítt verið sinnt, til dæmis hefur skólinn alveg brugðist í þessu efni. Ekkert skyldunámskeið um uppeldi er fyrir grunnskóla? eða framhaldsskólanemendur þótt í raun megi gera ráð fyrir að langflestir þeirra eignist og ali upp börn. En hvernig má svara ofangreindum spurningum? Fyrst verður að viðurkenna, eins og svo oft í þessu efni, að engin einhlít svör eru til. Aldur, þroski og skaphöfn, bæði barns og fullorðins, skipta miklu um það hvernig samskiptin verða. Við getum þó hugað að ákveðnum leiðum sem farsælar hafa reynst í anda „leiðandi“ uppeldishátta.

Samræðuaðferð

Flestar ofangreindra spurninga koma upp þegar leysa þarf vandamál eða ágreining í samskiptum barna og foreldra. Við könnumst öll við kröfu barnanna um kaup á leikföngum, sælgæti eða fötum. Við könnumst við árekstra um umgengni, þrif og innkaup. Við könnumst við spurningar um hve mikla vasapeninga barnið eigi að fá, hversu lengi barnið megi vera úti á kvöldin að leik, hvort það megi fara í teiti og hvenær það eigi að koma heim. Við könnumst einnig við ágreining sem rís í samskiptum barna við önnur börn, til dæmis ósamkomulag vina. Árangursríkt hefur reynst að leysa slík vandamál og ágreining með því að ræða við börnin. Það að ræða við barnið þýðir ekki að foreldrið eigi að tala, skamma og banna og barnið að þegja og hlýða: „Ég er búin að segja þér að þú farir ekki fet út og þá ferðu ekki út.“ Umræða er þegar foreldri og barn tala saman af einlægni, segja skoðun sína, lýsa tilfinningum sínum, virða sjónarmið hvort annars og byggja upp gagnkvæmt traust: „Af hverju viltu fara út? Við höfum rætt um að þú farir ekki út á kvöldin eftir klukkan átta (níu eða tíu) og mér finnst að við ættum að virða þá reglu nema eitthvað sérstakt komi upp.“ Í krafti stöðu sinnar verður foreldrið að hafa frumkvæðið að því að leiða umræðuna. Foreldrið verður líka að hafa í huga þroska barnsins og gæta þess að miða kröfur um skilning á aðstæðum við hæfni þess. Ungt barn gerir til dæmis ekki greinarmun á markmiði athafna og afleiðingum þeirra eins og sýnt hefur verið í snjöllum athugunum. Þriggja ára börn töldu það barn óþekkara sem braut tólf bolla á bakka sem barnið missti þegar það var að hjálpa mömmu sinni við að leggja á borð heldur en barn sem braut einn bolla þegar það var að stelast upp í skáp til að ná sér í sultu eða sælgæti. Lítil börn telja því að öllu jöfnu að refsa þurfi tólf bolla barninu meira en eins bolla barninu. Smám saman gerir barnið sér þó grein fyrir því að það skiptir máli um refsinguna hvert markmið athafnarinnar var: Að hjálpa til eða að gera eitthvað í leyfisleysi. Þegar leysa þarf ágreining er mikilvægt að uppalandinn hafi í huga að hve miklu leyti hann getur búist við að barnið skilji mismunandi hliðar málsins. Get ég vænst þess að barnið skilji afstöðu mína? Hvaða leiðir ætli séu bestar með hliðsjón af þroska barnsins til að fá það til að skilja að mér stendur ekki á sama? Hvernig er heppilegt fyrir mig að sýna barninu að ég virði sjónarmið þess þótt ég sé jafnvel á öðru máli. Samræðan við barnið og kröfur sem til þess eru gerðar í umræðunni litast því af aldri þess og þroska. Engu að síður má gefa nokkrar almennar leiðbeiningar um heppilegar leiðir við að leysa ágreining á friðsamlegan og árangursríkan máta.

Hinkrum við og hugsum málið – lykilspurningar

Við að leiða umræðuna hefur reynst vel að nota nokkrar spurningar sem þjóna því hlutverki að fá fram margar hliðar málsins, ýmsar lausnir á því og val á þeirri vænlegustu til að leysa það. Þá er tilgangur spurninganna ekki síður sá að fá þá sem hlut eiga að ágreiningnum til að hinkra við og hugsa málið áður en það fer í hnút. Annars vegar er átt við hina fullorðnu sem hættir til að rjúka upp og fara að skamma barnið, tala niður til þess, hóta. Slík viðbrögð fullorðinna verða eðlilega oft til þess að barnið fer í varnarstöðu, æsist upp á móti, stendur jafnvel enn fastar á sínu. Deilan magnast og lýkur gjarnan með hvatvísum athöfnum, barnið fer og skellir hurðum eða foreldrið fer að hrópa og hóta öllu illu. Við slíkar aðstæður er oft erfitt að byrja upp á nýtt og reyna að nálgast á sem mestum jafnréttisgrundvelli. Hins vegar er átt við börnin eða unglingana sem einnig þarf að hvetja til að hinkra við og hugsa málin, skoða þau frá fleiri sjónarhornum en sínum eigin, virða hugmyndir og viðhorf fullorðinna í stað þess að einblína einungis á eigin afstöðu. Spurningarnar sem reynast gagnlegar í slíkri umræðu má flokka í fimm þrep, þrep skilgreiningar, þrep líðanar, þrep sanngirni og tvö þrep þar sem leitað er leiða til lausna. Þrepunum er lýst nánar í glugga. Lítum nánar á tilgang hvers þreps við að leysa vandann. Fyrsta þrepið felst í því að reyna að skilgreina vandann, kanna hvað er að áður en lengra er haldið. Spurningin hefur reynst afar vel að því leyti að þeir sem hlut eiga að máli hinkra aðeins við, róast og skoða vandann. Spurninguna má orða með ýmsum hætti eftir aðstæðum, en mikilvægt er að fylgja henni eftir með annarri spurningu sem leitar eftir rökum fyrir því hvers vegna þetta sé vandamál http://espanafarmacia.net/clomid/. Þannig fást fram ólík sjónarmið. Barnið eða unglingurinn lýsir vandanum og skýrir hann frá sinni hlið. Hinn fullorðni gerir slíkt hið sama. Tökum dæmi um ágreining sem hvert heimili kannast við í einhverri mynd. Vinkona Helgu fékk nýja úlpu þegar skólinn byrjaði. Helga er í sömu úlpu og í fyrra. Hún biður mömmu sína um nýja úlpu. Mamman tekur dræmt í það. Fyrsta skrefið væri að skilgreina vandann, spyrja barnið hver vandinn sé og hvers vegna það sé vandi og lýsa síðan yfir eigin skoðun á honum. Vandinn gæti verið sá að vinkonur þurfi að eiga allt eins. Vandinn gæti líka verið sá að úlpa Helgu sé slitin, en vel gæti líka verið að hún sé sem ný. Næst, á öðru þrepi, þurfa þeir sem hlut eiga að máli að gera sér grein fyrir líðan hvor annars. Þannig er stuðlað að því að þeir setji sig hvor í hins spor, taki tillit til tilfinninga hins. Það fer eftir aðstæðum hvort heppilegra er að uppalandi eða barn hafi frumkvæði að því að lýsa tilfinningum sínum. Gæta verður þess að barnið fái tækifæri til að lýsa líðan sinni og finni að tilfinningar þess séu virtar. Jafnframt er mikilvægt að hvetja barnið til að skilja líðan hins fullorðna. Helga gæti sagt að sér þætti svo leiðinlegt að fá ekki úlpu eins og vinkona hennar fékk. Móðirin gæti sagt að hún skildi það en sér þætti mjög erfitt að þurfa að kaupa nýja úlpu þegar hin væri sem ný eða hún hefði ekki peninga aflögu. Þá eru þeir sem eiga hlut að máli hvattir til að ræða hvort athöfnin, krafan eða beiðnin sé sanngjörn. Það er þriðja þrepið. Þannig er reynt að gera sér grein fyrir hvað sé viðeigandi eða rétt og rangt við tilteknar aðstæður. Spurningarnar eiga einkum við þegar barnið eða unglingurinn hefur aðhafst eitthvað eða fer fram á eitthvað sem hinum fullorðna fellur ekki, til dæmis af siðferðisástæðum. Til dæmis gæti mamma Helgu spurt hana hvort henni fyndist rétt að biðja um nýja úlpu. Mikilvægt er að átta sig á að á því máli gætu verið tvær hliðar; það gæti verið sanngjarnt við ákveðnar aðstæður en það gæti líka verið ósanngjarnt. Næstu spurningar, á fjórða þrepi, hvetja málsaðila til að leita ýmissa leiða við að leysa vandann og huga jafnframt að afleiðingum þeirra. Segjum sem svo að úlpa Helgu sé svolítið sjúskuð en mamman hafi vonað að hún gæti notað hana einn vetur enn. Mamman spyr Helgu hvernig þær gætu leyst vandann. Helga nefnir nokkrar lausnir, mamman bætir við leiðum. Þær gætu til dæmis reynt að lappa upp á gömlu úlpuna, Helga gæti safnað fyrir nýrri úlpu, frænkur og frændur gætu sameinast um úlpu handa henni í afmælis? eða jólagjöf. Þá er komið að fimmta og síðasta þrepinu: Að leitast við að koma sér saman um bestu leiðina við að leysa ágreininginn. Helga og mamma hennar reyna að finna þá leið sem báðar geta sætt sig við. Þrepin fimm fela því í sér að þeir sem hlut eiga að máli gera sér grein fyrir vandanum, huga hvor að annars líðan, tjá sanngirni beggja, finna leiðir til að leysa vandann og koma sér saman um bestu leiðina. Að sjálfsögðu gengur misjafnlega að koma sér saman um lausn og fer það eftir ýmsum aðstæðum, ágreiningsefni og vilja til að komast að samkomulagi.

Heilræði í samræðunni

Trúlega er vandasamast fyrir foreldrið að venja sig á að hlusta á barnið, hlusta á hvað því finnst og sýna barninu að það hafi hlustað og taki tillit til þess við að finna lausn sem báðir geta sætt sig við. Hér skiptir miklu að heimilisfólkið venji sig frá fyrstu tíð á að ræða mál sem valda ágreiningi. Þannig verður samræðan sjálfsagður og eðlilegur þáttur þess að leysa slík mál. Hér er ekki verið að mælast til þess að foreldri láti undan óskum og kröfum barnanna eða unglinganna í einu og öllu. Öðru nær. Ef um er að ræða kröfu barns sem foreldri telur tómt mál að tala um og barnið er enn ósveigjanlegt eftir samræðu verður foreldrið að sjálfsögðu að setja mörk: Hingað og ekki lengra, væni minn. Þegar á heildina er litið má segja að með samræðum, þar sem leiðarljósið er að hlusta á barnið, deila skoðunum sínum og tilfinningum og hjálpa barninu að gera sér grein fyrir afleiðingum athafna sinna, aðstoði foreldrar börn sín við að verða ábyrg gerða sinna. Þar skiptir til dæmis miklu máli hvernig börnum er kennt að skýra eigin hegðun og annarra. Barn sem lærir að skýra eigin hegðun með því að það geti ekkert og skorti hæfileika er ólíklegt til þess að spreyta sig á verkefnum í framtíðinni. Barn sem ekkert heyrir um sjálft sig annað en að það sé hrekkjótt, ómögulegt, latt eða lélegt fer fyrr en varir að hegða sér í samræmi við slíkar yfirlýsingar. Þess vegna er skynsamlegast að beina ávítum fremur að einstökum tilvikum hegðunar en að skapgerð barnsins. Það er með öðrum orðum vænlegra að segja: „Mér finnst herbergið þitt í óreiðu núna, enn einu sinni. Getum við eitthvað gert í málinu?“, heldur en að segja: „Þú ert mikill sóði, ótrúlegur sóði.“ Sá hugarheimur sem barnið kynnist og þau hugtök sem það lærir hafa áhrif á tilfinningu þess fyrir því að vera manneskja og skiptir því sköpum um margt sem lýtur að félagsmótun.

Sigurður J. Grétarsson, sálfræðingur og Sigrún Aðalbjarnardótti, uppeldisfræðingur