persona.is
Reiði og reiðistjórnun
Sjá nánar » Ofbeldi

Reiði er ein af grunntilfinningum mannfólksins. Tilfinning sú er heilbrigð og eðlileg og gefur okkur kraft til að bregðast við og rétta hlut okkar í aðstæðum þar sem okkur finnst hafa verið brotið á okkur á einhvern hátt eða öryggi okkar hafi verið ógnað. Sé reiðin hins vegar of mikil, tíð eða langvarandi, hættir hún að gagnast okkur og verður þess í stað að skaðlegum þætti í lífi okkar.

Þegar reiði brýst út eiga sér stað ýmsar líffræðilegar breytingar í líkamanum. Vöðvarnir stífna, blóðþrýstingur hækkar, blóðflæðið eykst og fólk roðnar gjarnan, hjartað slær hraðar og andardrátturinn verður örari. Um leið gefur heilinn frá sér boðefni sem skapa aukinn kraft til að bregðast við fjandsamlegum aðstæðum. Þrátt fyrir að reiðin byrji í flestum tilvikum sem ósjálfrátt óttatengt tilfinningaviðbragð við skynjuðu óréttlæti eða ógn eru það hins vegar hugræn viðbrögð okkar við tilfinningunni sem skera úr um hvort reiðikast brjótist út eða rökhugsunin nái yfirhöndinni og við róum okkur niður. Þegar reiðin verður hlutskarpari upplifum við okkur gjarnan sem fórnarlömb og drögum þá ályktun að viðbrögð okkar við reiðinni séu tilkomin vegna ytri þátta (t.d. með því að segja „það er óþolandi hvernig maðurinn nær alltaf að gera mig reiða og eyðileggja fyrir mér daginn“). Í raun gefum við okkur á vald tilfinningunni í stað þess að taka stjórn á eigin líðan. Með því að næra reiðina enn frekar gegnum neikvæðar og æstar hugsanir, vex hún á ógnarhraða og fer auðveldlega úr böndunum.

Reiði verður skaðleg ef hún nær að skjóta rótum og verða að langvarandi og undirliggjandi ástandi í lífi fólks. Sömuleiðis má tala um skaðlega reiði í þeim tilfellum þar sem reiðitilfinningin gýs upp oftar og harkalegar en við kærum okkur um, og þá með neikvæðum afleiðingum.

 

Langvarandi reiði

Þegar reiðitilfinning þróast yfir í langvarandi undirliggjandi gremju, t.d. eins og sú reiði sem margir upplifa þessa dagana vegna ástandsins í þjóðfélaginu, geta afleiðingarnar verið slæmar, líkamlega sem andlega. Það gefur auga leið að verði þau líkamsviðbrögð sem lýst er hér að ofan að daglegu brauði kemur það fljótt niður á heilsu okkar og getur valdið ýmsum kvillum. Vert er að hafa í huga að langvarandi reiði yfir óréttlæti heimsins veldur okkur sjálfum mestum skaða (auk þess að gera samferðarfólki okkar lífið leitt). Á meðan við erum föst í vítahring reiðinnar eru hugsanir okkar fangar neikvæðni, lausnarmiðað hugarfar er víðs fjarri og okkur reynist hvorki mögulegt að njóta nútíðarinnar né horfa björtum augum til framtíðar. Langvarandi reiðiástand getur einnig verið birtingarmynd undirliggjandi sársauka, en þá notar fólk reiðina sem staðgengil sársaukans sér til varnar, oftast ómeðvitað. Það getur nefnilega reynst auðveldara að beina vanlíðan sinni að ytri þáttum í formi reiði í garð annarra, en að beina athyglinni inn á við og horfast þar með í augu við óuppgerð mál sem snúa að manni sjálfum.

Mikilvægt er að átta sig á því að það er alltaf undir okkur sjálfum komið hvernig við bregðumst við aðstæðum – sama hversu óréttlátar eða erfiðar aðstæðurnar kunna að reynast okkur. Þannig erum það við sjálf sem berum frumábyrgð á viðbrögðum okkar, en ekki aðrir í umhverfinu. Vissulega kann að reynast auðveldara að kenna öðrum um og það tekur á að breyta hugsanamynstri sínu, en það er svo sannarlega þess virði þegar til lengri tíma er litið. Því er það hagur allra sem finna til langvarandi undirliggjand reiði, að skoða vel hvort hægt sé að sjá annan og betri flöt á málunum og beina huga sínum að öðru til að létta á spennunni.

 

Reiðiköst

Skyndileg, öflug og tíð reiðiköst eru einnig dæmi um skaðlega birtingarmynd reiðitilfinningarinnar. Sá sem reiðist upplifir gjarnan að hann missi stjórn á meðan á reiðikastinu stendur, en í kjölfarið kemur oft mikil eftirsjá. Til eru ýmsar aðferðir sem hægt er að temja sér í þeim tilgangi að slökkva reiðina sem fyrst. Í fyrsta lagi getur reynst gagnlegt að brjóta upp erfið samskipti eða ástand með því einfaldlega að stíga út fyrir aðstæðurnar. Þetta gæti t.d. falist í því að fara afsíðis, en þar gefst manni tækifæri til þess að kæla sig niður, óáreittur af því sem kveikti reiðiblossan í upphafi. Í öðru lagi skipta hugsanir okkar lykilmáli í aðstæðum þar sem við reiðumst. Með því að venja okkur á að hugsa róandi hugsanir í erfiðum aðstæðum er líklegra að við náum tökum á skapofsanum. Hugsanir á borð við „ég ræð við þetta“, „ þetta er ekki þess virði að reiðast yfir“ o.s.frv. geta þannig brotið upp áhrif undangenginnar reiðitilfinningar og þar með breytt ástandi okkar til hins betra. Þriðja aðferðin sem notast má við felst í því að losa um reiði eða spennu með öruggum og uppbyggilegum hætti. Dæmi um slíkt gæti annars vegar verið að fara í ræktina eða út að hlaupa, en með hreyfingunni er líklegt að spennan sem safnast hefur upp gegnum pirring eða reiði losni á heilbrigðan hátt. Hins vegar er einnig mögulegt að losa um spennuna gegnum slökunaræfingar. Fjórða leiðin til að draga úr reiði snýst um að leysa vandann, ýmist með því að finna nýjar leiðir til þess að taka á málunum eða með því einfaldlega að halda áfram og hætta að hugsa um það sem reiðin snerist um í upphafi, einkum ef um smávægileg mál er að ræða. Að lokum er mikilvægt að íhuga vandlega hvort einhverjar ákveðnar aðstæður umfram aðrar nái að vekja með okkur reiði og einbeita okkur í framhaldinu að því hvernig við getum afstýrt því að við upplifum þessi neikvæðu áhrif í viðkomandi aðstæðum í framtíðinni. Þannig getum við skotið reiðiblossanum ref fyrir rass og hámarkað líkurnar á því að við náum að halda stjórninni.

Í lokin ber að nefna, að ólíkt því sem margir telja snýst uppræting gamallrar reiði eða stjórnun reiðikasta ekki um það að við réttlætum eða samþykkjum misgjörðir annarra í okkar garð. Þvert á móti snýst þetta fyrst og fremst um að við beinum sjónum okkar að því sem er okkur sjálfum fyrir bestu og viðurkennum að okkur er enginn greiði gerður með því að festa okkur sjálfviljug í neikvæðum vítahring reiðinnar.

Árný Ingvarsdóttir,
sálfræðingur

Greinin birtist áður í Stúdentablaðinu í mars 2010, 7.tbl., 85. árg.