persona.is
Reiði og ofbeldi
Sjá nánar » Ofbeldi

Hvað er ofbeldi/ árársarhneigð?

Almenningur virðist hafa vaxandi áhyggjur af auknu ofbeldi í íslensku samfélagi. Fjölmiðlar segja okkur frá alvarlegum ofbeldisverkum sem framin eru á Íslandi og gera um leið ofbeldi sýnilegra fyrir hinum almenna borgara. Ofbeldi er þegar líkamlegu afli er beitt gegn öðrum einstaklingi. Um gæti verið að ræða hóp einstaklinga sem ræðst á einn mann í miðborg Reykjavíkur án nokkurra sýnilegra ástæðna, heimilisfaðir sem lemur konu sína og/eða börn eða fíkill sem beitir ofbeldi í þeim tilgangi að afla fjár fyrir fíkniefnum. Ofbeldi getur stundum verið knúið áfram af árásarhneigð eða um tilviljunarkennt ofbeldi er að ræða, t.d. geta stympingar í biðröð, til að komast inn á skemmtistað, leitt af sér alvarlegt ofbeldi. Árásarhneigð er lýst sem ásetningi einstaklings til að skaða annan einstakling. Hér er átt við bæði líkamlegan og andlegan skaða.

Mismunandi tegundir ofbeldis

Til eru margar mismunandi gerðir ofbeldis. Hér getur verið um að ræða líkamlegt og andlegt ofbeldi, ofbeldi gegn hlutum (t.d. skemmdarverk), og kynferðislegt ofbeldi . Líkamlegt ofbeldi getur tekið á sig margar myndir. Heimilisofbeldi er líklega algengasta tegund ofbeldis en jafnframt langmest falið og minnst fjallað um í fjölmiðlum. Tilviljunarkennt ofbeldi hræðist fólk mest og heldur oft og tíðum að sé algengasta tegund ofbeldis. Ástæðurnar gætu verið þær að erfitt er á að sjá það fyrir og það fær miklar umræður í fjölmiðlum. Líkamlegt ofbeldi flokkast undir afbrot og flest þeirra flokkast undir 173. grein laga sem vísar til þess að afbrotið sé stórfellt. Hér er um að ræða, stórfellda líkamsárás (alvarlegt líkamlegt brot), kynferðisofbeldi gegn börnun, nauðgun, rán, tilraun til manndráps, manndráp og morð. Eitt þessarra ofbeldisbrota er nauðgun, sem skýtur oft upp í umræðunni í samfélaginu. Hér er oftast um að ræða einn mann sem nauðgar einni konu þó að svo sé ekki algilt. Talið er að um það bil helmingur nauðgana séu framdar af ókunnugum, hinn helmingurinn af einhverjum sem fórnarlambið þekkir eða kannast við. Möguleiki er þó á að þessi hlutföll séu skekkt að einhverju leyti þar sem þau byggja á opinberum tölum. Konu sem er nauðgað af einhverjum sem hún þekkir er mun ólíklegri til að tilkynna nauðgununia en konu sem er nauðgað af ókunnugum. Hérna er um að ræða fjölda kvenna sem aldrei tilkynnir nauðgunina og slíkt getur auðveldlega skekkt opinberar tölur. Þrátt fyrir að yfirleitt sé um einn geranda að ræða, í nauðgunarmálum, eru hópnauðganir algengari en fólk telur. Hér er dæmi: Það er samkvæmi síðla morguns þar sem illa drukkin stúlka fer afsíðis með einum samkvæmisgestanna, sofnar (drepst) og gesturinn notfærir sér ástand hennar og hefur mök við hana án samþykkis hennar. Viðkomandi fer síðan aftur fram í samkvæmið og spyr hvort einhver annar hafi áhuga á að vera næstur. Margir eiga síðan jafnvel mök við stúlkuna, og ekki er óalgengt að þeir hvetji hver annan til dáða enda hugsa fæstir þeirra út í að þeir eru að fremja mjög alvarlegan glæp. Í flestum tilfellum hópnauðgana er um einhvers konar vina- eða kunningjasamband að ræða milli gerenda og fórnarlambs. Andlegt ofbeldi er mjög algengt innan fjölskyldna. Mörg dæmi eru um að makar lítilsvirði og niðurlægi hvor annan með orðum, eða þá að einungis annar makinn beitir andlegu ofbeldi og þá gjarnan á þann hátt að hinn aðilinn fer að trúa því að hann/hún sé heimskur, ljótur, og í alla staði ómögulegur. Ekki er einungis um að ræða að makar beiti andlegu ofbeldi heldur beita foreldrar börnum sínum andlegu ofbeldi. Barnið er lítilsvirt, þ.e. því er sagt að það geti aldrei innt neitt af hendi nægilega vel, lítið er gert úr útliti, hegðun og hæfileikum barnsins, t.d. gæti hljómað: „Þú er ljót/ur“, „Þú ert leiðinleg/ur og vond/ur“, „Þú kannt ekki neitt, þú ert bara heimsk/ur“. Einelti er enn ein tegund andlegs ofbeldis, hvort sem það er í skóla eða á vinnustað,. Hér er oft um að ræða hóp einstaklinga þar sem allir leggjast á eitt um að gera líf einstaklings að martröð. Þessi tiltekni einstaklingur er hæddur, laminn, gert er grín að honum, oft án þess að fyrir því sé nokkur ástæða önnur en sú að viðkomandi sker sig að einhverju leyti úr fjöldanum. Dæmi um þetta getur verið að barn sé rauðhært, með gleraugu, þybbið, of grannt, sé ekki í réttum fötum (ekki í merkjafötum), hafi skæran/dimman málróm, stamar, sé mjög feimið, af öðrum litarhætti, og svo mætti lengi telja. Þrátt fyrir að yfirleitt sé um að ræða hóp sem leggur einhvern í einelti, er hópnum gjarnan stjórnað af einhverjum einum höfuðpaur. Leiðtoginn ákveður fórnarlambið og stjórnar harðri hendi hvernig því er strítt og hvaða aðferðir skulu notaðar. Mest hefur verið rætt um einelti gegn börnum í skóla, en einnig er töluvert algengt að einelti sé stundað á vinnustöðum fullorðinna.

Aðdragandi ofbeldis

Yfirleitt á ofbeldi sér einhvern aðdraganda. Hér getur verið um að ræða árásargirni, reiði af ýmsum toga, áfengis- og/eða fíkniefnaneyslu, og fleira í þeim dúr. Hægt er að flokka árásargirni niður í tvo flokka, árásargirni sem sprottin er af neikvæðum tilfinningum eða reiði, og árásargirni sem notuð er sem verkfæri til að ná fram markmiðum. Í fyrri flokknum er um að ræða einstakling sem notar ofbeldi til þess að losa um spennu eða óþægilegt tilfinningaástand. Það að beita einhvern ofbeldi dregur tímabundið úr óþægilegum neikvæðum tilfinningum, svo sem reiði. Í seinni flokknum er árásargirnin notuð sem til að ná ákveðnu fram, t.d. fíkniefnaneytandi sem rænir konu/mann til þess að fjármagna fíkniefnaneyslu sína eða „handrukkari“ sem vill fá skuld sína greidda. Hægt væri að bæta enn einum flokki við, þar sem árásargirnin er notuð til að öðlast virðingu eða völd. Hér er t.d. um að ræða vinahóp þar sem ofbeldi þykir „töff“. Reiði og ofbeldi eru eins og áður sagði oft nátengd þótt ólíkt sé. Ofbeldi er verknaður eða hegðun en reiði er tilfinning. Reiði er sennilega ein af verstu tilfinningum sem við glímum við, jafnframt því sem er mjög erfitt að meðhöndla hana. Reiði er mismunandi eftir því við hvaða aðstæður hún kviknar, hvernig hún magnast í huga einstaklingsins og hver einkenni hennar eru. Fyrst ber að nefna aðstæðurnar: Sumir reiðast sérstaklega út af einhverju í fari fólks (pirrandi eða óþolandi fólk), aðrir við að finnast þeir truflaðir eða verið sé að stjórna þeim (eiga í erfiðleikum með yfirvald og stjórnendur) og enn aðrir reiðast við það að þeim finnst þeir beittir óréttlæti. Reiðin getur varið lengi, stundum nær hún að magnast svo í huganum að einstaklingurinn hreinlega springur úr reiði. Hún getur líka einkennst af því að viðkomandi getur ekki hætt að hugsa um þann sem reitti hann til reiði. Þá er talað um hefnigjarnan eða langrækinn einstakling. Reiðigjarnt fólk misskilur aðstæður og skilaboð frá umhverfi sínu, það þjáist oft ofsóknarhugmynum og dregur rangar ályktanir. Þetta fólk á oft við ýmis persónuleikavandamál að stríða. Að lokum má nefna hvernig fólk höndlar reiðitilfinningu sína á ólíkan hátt. Sumir beita ofbeldi í bræðiskasti, aðrir láta reiðina bitna á öðrum (t.d. heimilisfaðirinn sem „sýður á“ eftir að hafa verið lítillækkaður í vinnunni, beitir fjölskyldu sína ofbeldi eftir að hann kemur heim). Enn aðrir byrgja reiðina innra með sér án þess að veita henni útrás. Þótt reiði sé í flestum tilfellum neikvæð tilfinning getur hún einnig verið jákvæð, ef við kunnum að meðhöndla hana rétt. Reiðin getur nefnilega sagt okkur hvenær við erum beitt misrétti og óréttlæti. Þá þarf bara að kunna að bregðast við á jákvæðan hátt, eins og að láta þann vita sem vekur þessi viðbrögð okkar og leysa vandann án þess reiðin nái að magnast upp og hætta sé á ofbeldi.

Hversu algeng eru ofbeldisverk?

Erfitt getur verið að tala um tíðni ofbeldis á Íslandi þar sem fæst ofbeldisbrot eru tilkynnt. Fjöldi tilkynninga hefur þó nánast tvöfaldast milli áranna 1985 – 1997, þ.e. fjöldi tilkynninga á hverja 1000 íbúa voru 2,6 árið 1985, 4,5 árið 1992, og 6,0 árið 1997. Athuga verður þó að miklar breytingar hafa orðið á skráningu upplýsinga hjá lögreglunni og getur það haft áhrif á skráðan málafjölda. Áhyggjur almennings af ofbeldi hafa einnig farið vaxandi, bæði hér heima og erlendis. Hugsanlega gætu áhyggjur af þessum toga stafað af því að eðli ofbeldis hefur breyst á undanförnum árum. Áverkar ofbeldisbrota eru gjarnan alvarlegri en áður, ofbeldi á sér oft stað af litlu tilefni, og meira er um ofbeldisfull átök milli ókunnugra heldur en milli vina og kunningja. Þess ber þó að geta að á Íslandi eru hlutfallslega færri ofbelsidómar en í nágrannalöndum okkar. Heimilisofbeldi er sennilega algengasti ofbeldisverknaðurinn sem framinn er á Íslandi, margir segja að heimilin séu ofbeldismesti vettvangur samfélagsins. Talið er að á ári hverju séu u.þ.b. 1100 íslenskar konur beittar ofbeldi, af maka eða fyrrverandi maka. Helmingslíkur eru á því að maki, sem beitt hefur konu sína ofbeldi, geri það aftur. Þegar einstaka ofbeldisbrot eru skoðuð hefur verið talið að um 1-2 morð séu framin á Íslandi á ári hverju. Þegar skoðað er hversu margir eru fangelsaðir fyrir ofbeldisbrot, á ári hverju, má sjá að á árunum 1994-1998 er fjöldinn frá 6-12, sem fangelsaðir voru fyrir manndráp eða tilraun til manndráps, 22-34 fyrir kynferðisbrot, og 24-33 fyrir önnur ofbeldisbrot. Hafa ber í huga að þetta eru einungis óskilorðsbundnir dómar, þ.e. þegar tilefni er til fangelsisvistar, skilorðsbundnir dómar eru mun fleiri. Til dæmis má nefna að á árunum 1995-1998 fengu 1-10 einstaklingar, á ári hverju, skilorðsbundinn dóm fyrir manndráp eða líkamsmeiðingu af gáleysi, 6-14 fengu skilorðsbundinn dóm fyrir kynferðisbrot. Athyglisvert er að þegar skoðaðir eru skilorðsbundnir dómar fyrir önnur ofbeldisbrot, má sjá að á árunum 1995-1997 fengu 65-76 einstaklingar skilorðsbundna dóma fyrir ofbeldisbrot, en 1998 sker sig töluvert úr með 123 einstaklinga, sem fengu skilorðsbundna dóma fyrir ofbeldisbrot. Inn í þessar tölur eru ekki teknir sektardómar, þ.e. þeir sem dæmdir eru til að borga sekt fyrir brot sitt, en 16-32 einstaklingar fengu sektardóm fyrir ofbeldisbrot á þessum sömu árum. Útbreiðsla ofbeldis er töluvert algeng meðal unglinga á Íslandi. Samkvæmt íslenskri rannsókn á nemendum í 10. bekk grunnskóla, segjast 15% unglinga hafa verið beittir líkamlegu ofbeldi síðastliðna 12 mánuði, þar af telja 4% nemenda sig hafa verið beittir ofbeldi þrisvar sinnum eða oftar síðastliðna 12 mánuði. Til að átta sig betur á fjölda þeirra nemenda sem beittir hafa verið ofbeldi, má sjá að 652 unglingar í 10. bekk hafa verið beittir ofbeldi síðastliðna 12 mánuði. Af þessum 652 unglingum hafa 162 verið beittir líkamlegu ofbeldi þrisvar sinnum eða oftar á síðustu 12 mánuðum! Tekið skal fram að þetta eru tölur miðaðar við hvað unglingarnir sjálfir skilgreina sem ofbeldi, raunverulegar tölur eru mun hærri. Niðurstöður sýna að fjöldi nemenda, sem beittur hefur verið ofbeldi er mjög breytilegur eftir því hvort þeir sjálfir telja að þeir hafi verið beittir ofbeldi eða hvort þeir segja frá því að þeir hafi orðið fyrir ákveðnum tegundum ofbeldis. Samkvæmt víðari skilgreiningu á ofbeldi, höfðu 65% stráka orðið fyrir athæfi, sem skilgreina mætti sem ofbeldi!

Af hverju beitir fólk ofbeldi?

Fjölmargar mismunandi kenningar hafa reynt að skýra orsakir fyrir árásargirni og ofbeldi. Sumir fræðimenn telja að rótina sé að finna í líffræðilegum þáttum þar sem hlutverk boðefna, eins og noradrenalíns, er að undirbúa lífveruna fyrir árás eða flótta ef henni finnst sér vera ógnað. Þegar noradrenalínflæði eykst í líkamanum spennumst við upp og verðum glaðvakandi. Þá getum við allt, að okkur finnst, hvort sem er að hlaupa eins og byssubrennd eða berjast knálega. Sumir vilja álíta að þessi skjótu viðbrögð mannsins séu honum eðlislæg, og voru frummanninum lífsnauðsynleg. Finnist einstaklingi vera vegið að sér, einhverra orsaka vegna, eykst flæði noradrenalíns í líkamanum og gerir honum kleift að bregðast skjótt við ógnuninni. Þessi skýring er lýsandi og rökrétt en útskýrir alls ekki nægilega orsökina þar sem mismunandi fólk bregst við sömu aðstæðum á ólíkan hátt. Það bendir til þess að „ógnun“ sé einstaklingsbundin skynjun. Hér þarf því væntanlega að skoða betur þroskasögu einstaklingsins og umhverfi hans. Önnur leið til að útskýra árásargirni og að beita ofbeldi er sótt til bernskunnar. Rannsóknir sýna að mjög margir sem beita ofbeldi hafa sjálfir orðið fyrir barðinu á því í bernsku. Menn eru þó ósammála um hvort sé um að ræða lærða hegðun, þ.e. að börn læri það sem fyrir þeim er haft eða eftirköst reiði og vanlíðunar út af ofbeldi í barnæsku. Enn önnur skýring tengist áfengi og neyslu örvandi fíkniefna. Við áfengisneyslu losnar um hömlur og dómgreind skerðist. Þegar skoðaðar eru tölur yfir tengsl ofbeldisbrota og áfengis- og vímuefnaneyslu, voru flestir undir áhrifum þegar brotið var framið. Eina brotið sem sker sig úr hvað þetta varðar er kynferðisbrot gegn börnum, þar voru fæstir undir áhrifum þegar brotið var framið. Mikið hefur verið rætt og ritað um þátt sjónvarps og tölvuleikja í ofbeldi. Menn eru alls ekki sammála um áhrif þessi þótt líklegt sé talið að einhver séu. Mikilvægt er að foreldrar útskýri fyrir börnum sínum muninn á ofbeldi í sjónarpi og í raunveruleikanum, og að þau fylgist með á hvað börnin horfi á og ræði það við þau. Þá er líka hægt að vísa orsök ofbeldis til fleiri þátta, eins og valdatogstreitu milli maka, vanmáttartilfinningu, stjórnunarþörf og lágu sjálfsáliti. Ofbeldi á meðal barna og unglinga

Ofbeldishegðun er, eins og fram hefur komið, töluvert algeng á unglingsárunum þegar félagaþrýstingur gæti leitt til þess að unglingar beiti aðra ofbeldi til að fá að vera með í tiltekinni „klíku“. Nú til dags er það oft talið „töff“ að lumbra á einhverjum. Strákar þurfa sérstaklega að sýna „karlmennsku“ sína með því að berja einhvern. Dæmi um þetta getur verið þegar unglingar eru margir samankomnir og einhver utanaðkomandi kemur og er með „stæla“. Þá telur einhver unglingurinn það skyldu að verja heiður hópsins og lætur viðkomandi finna fyrir því. Einnig getur þessu verið öfugt farið, eða þá að unglingar hreinlega leiti uppi slagsmál sér til skemmtunar, yfirleitt í því skyni að sýna félögunum hvað þeir eru sterkir og „cool“.

Er hægt að beita meðferð við ofbeldi og reiði?

Í hugrænni atferlismeðferð er unnið með tengsl hugsana, tilfinninga og hegðunar. Fyrst er fundið út hvenær einstaklingur sé líklegur til að beita ofbeldi og gegn hverjum. Það er skilgreint nákvæmlega hvað gerist áður en ofbeldi á sér stað og tengsl eru skoðuð. Einstaklingnum er síðan hjálpað við að bera kennsl á hugsanir sínar sem valda reiði ásamt því að magna reiðina upp, og að bregðast við þeim. Þetta er oft gert með hjálp kerfisbundinnar slökunar. Húmanískar aðferðir gera einstaklingnum kleift að finna fyrir og viðurkenna tilfinningar sínar, fara í gegnum það sem gerir þá reiða og doka þar við. Reyna síðan að tjá reiðina á jákvæðan hátt. Margar aðferðir ganga út á það að einstaklingurinn fái veitt tilfinningum sínum útrás. Þá er einstaklingi hjálpað að kalla fram reiðitilfinningar sínar og fá útrás fyrir þær, t.d. með því að berja púða og jafnvel hugsa á sama tíma um þann sem hann er reiður út í. Margir gagnrýna þetta og segja að þá sé verið að margfalda reiðina, sumir vilja jafnvel ganga svo langt að segja að verið sé að ýta undir ofbeldishegðun. Sálefliskenningar vinna með erfiða atburði úr bernsku sem gætu hugsanlega tengst ofbeldisfullri hegðun á fullorðinsárum. Þeir sem eiga við persónuleikavanda að stríða beita gjarnan ofbeldi. Ástæðan kann að vera sú að þeim finnist þeir tapi alltaf í samskiptum sem byggja á orðum, og beita þess vegna líkamlegu afli þegar þeim líður eins og króaðir út í horni. Af þessum sökum getur þjálfun í félagshæfni og samskiptatækni verið nauðsynlegur þáttur í meðferð. Þessu tvennu er einnig gott að nota í hjónameðferð, þar sem hefur t.d. verið um að ræða beitingu ofbeldis. Að draga úr valdabáráttu milli hjóna hefur reynst hérna mikilvægt. Fleiri meðferðarleiðir eru notaðar, líkt og að láta gerandann hitta fórnalamb sitt, fara yfir afleiðingarnar af gerðum sínum og jafnvel er geranda falið að gera fórnarlambinu greiða (hér er oft um unglingaúrræði að ræða). Önnur leið er sú að kenna einstaklingi að öðlast jákvæða, óbeina útrás fyrir tilfinningar sínar, t.d. með því að stunda erfiðsvinnu eða líkamsrækt.

Hvert er hægt að leita eftir aðstoð?

·         Kvennathvarfið fyrir konur sem eru beittar heimilisofbeldi.

·         Stígamót fyrir fórnarlömb kynferðisofbeldis

·         Neyðarmóttaka fórnarlamba nauðgana á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi í Fossvogi.

·         Námskeið í sjálfsvörn (JiJitsu)

·         Sjálfstyrking www.wjjf.com email wjjf@wjjf.com. Sími 8632801 + 8632802.

  

Björn Harðarson, sálfræðingur og Eygló Guðmundsdóttir, sálfræðingur