persona.is
Raðmorð og íslenskur raunveruleiki
Sjá nánar » Ofbeldi

Í 211 grein almennra hegningarlaga á Íslandi segir:

Hver sem sviptir annan mann lífi, skal sæta fangelsi, ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt.

Þrátt fyrir gífurlega aukningu morða á þessari öld eru þau enn fátíðasta afbrotategundin.  Hér á landi eru nú framin að meðaltali 2 morð á ári og til hliðsjónar mætti nefna að 20 – 30 manns látast í bílslysum á ári hverju og 30 – 40 fremja sjálfsmorð (Helgi Gunnlaugsson munnleg heimild, 2 nóvember 2000).  Þrátt fyrir þessa staðreynd eru mun fleiri hræddari við ofbeldisfullan dauðdaga af höndum einhvers annars en að setjast upp í bíl. 

 

Í viðhorfakönnunum hefur komið í ljós að það sem fólk óttast mest er að vera tekið af lífi af einhverjum ókunnugum.  Það að einhver ókunnugur aðili gæti bitið það í sig að þú eigir ekki skilið að lifa lengur er nokkuð sem fólk hræðist mjög mikið.  En hverjir eru það sem raunverulega fremja morð?  Er einhver fótur fyrir ótta fólks um að einhver ókunnugur gæti tekið upp á því að drepa það?  Í þessari grein ætla ég að leitast við að svara þessum spurningum og um leið að reyna að varpa smá ljósi á morð og þá ískyggilegu þróun sem hefur verið á þessum málaflokki síðustu árin.

Þrátt fyrir þá mynd sem okkur er birt á hverju kvöldi á sjónvarpsskjánum af hinni klassísku morð ráðgátu er það staðreynd að í lang flestum tilfellum eru morð engin ráðgáta.  Flest morðmál leysast strax þar sem oftast eru augljós tengsl á milli morðingjans og fórnarlambsins, ummerki morðingjans eru mikil eða einfaldlega vegna þess að morðinginn tilkynnir sjálfur um glæpinn.  Ástæðan fyrir þessum gagnsæleika flestra morðmála er vafalaust sú að í lang flestum tilfellum eru náin tilfinninga- eða fjölskyldubönd á milli morðingjans og fórnarlambsins.  Kannanir hér á landi sína að í 54% tilfella tengjast brotamaðurinn og þolandinn slíkum böndum.  (Ragnheiður Harðardóttir, 1991)

Þegar þetta hefur verið sagt er eðlilegt að maður spyrji sig af hverju? Hvað fær aðila til þess að bana einhverjum sem er honum svo nákominn?  Í Bandaríkjunum hefur algengustu hvötunum verið skipt í tvennt.  Annars vegar eru morð sem eru afleyðing einhvers atburðar: rifrildis, bræðiskasts, viðbrögð við móðgun eða afbrýði.  Hins vegar eru það svo morð sem eru framin vegna einhverskonar ávinnings: hefnd, sjálfsvörn, völd og að sjálfsögðu fjárhagslegs ávinnings (The serial killer info site). 

Þegar litið er á hina hefðbundnu morðingja hafa þeir ýmis sameiginleg einkenni sem gætu varpað ljósi á hegðun þeirra.  Þeir eru oftast á aldrinum 15 – 30 ára, lítið menntaðir, úr verkamannastétt og oftar en ekki hafa þeir áður komist í kast við lögin (Ragnheiður Harðardóttir, 1991).  Ef litið er á einstaklingana sjálfa má aftur á móti sjá að oftast er um að ræða lítið eða meðalgreinda einstaklinga sem eiga við einhverskonar geðrænan vanda að stríða.  Aðilar sem hafa kannað andlegt heilbrigði morðingja hafa sett fram tilgátu þess eðlis að þeir sem bani ókunnugum eigi oftast við alvarlega geðræna sjúkdóma að stríða eins og persónutruflanir auk þess sem þeir eigi oftast í vanda með vímuefnamisnotkun (Ragnheiður Harðardóttir, 1991).  Sé mið tekið af þessum einkennum morðingja má bæði sjá að þarna eru bæði líffræðilegar og félagslegar orsakir sem gætu skýrt hegðan þeirra.  Að mínu mati er það líklegast samblandan af þessu tvennu sem býr til morðingja þar sem augljóst er að ekki allir sem koma úr sömu aðstæðum gerast morðingjar og því mætti ætla að þegar líffræðilegu orsökunum er bætt við sé komin uppskrift að morðingja. 

Eftir að hafa skoðað þessar upplýsingar um hið hefðbundna morð og hinn hefðbundna morðingja er eðlilegt að maður spyrji sig hvort hræðsla fólks í garð hins ókunnuga morðingja eigi sér einhverja fótfestu í raunveruleikanum eða hvort hún sé aðeins afsprengi nútíma afþreyingarsamfélags? 

Algengt er að fólk kenni nútíma fjölmiðlum um þennan ótta fólks þar sem það telur þá leggja of mikla áherslu á það ofbeldi og morð sem erfitt er að upplýsa.  Ef hinsvegar þróun morðmála á síðustu árum er skoðuð má sjá ógnvekjandi þróun í þessum málaflokk, bæði hér á landi og erlendis.  Hið hefðbundna morð eins og ég er búinn að ræða um fram að þessu er sífellt að verða fátíðara og í Bandaríkjunum fer morðtíðnin sífellt lækkandi.  Árið 1996 var til dæmis morðtíðnin þar lægri en hún hafði verið í 20 ár.  (Maguire & Radosh, 1999: 71) Á móti þessu kemur að önnur tegund morðingja er í óðaönn að ná fótfestu. 

Eitt einkenni þessarar nýju kynslóðar morðingja er að fórnarlömbin eru oftast ókunnugir.  Í dag hefur þessari nýju kynslóð morðingja verið skipt upp í 3 flokka:  fjöldamorðingjar (mass murderers), æðismorðingjar (spree killers) og svo hinir dularfullu raðmorðingjar (serial killers). 

Samanburðartafla (Modus operandi – serial killers)

Einkenni

Fjölda morðingjar

Æðis morðingjar

Rað morðingjar

Fjöldi fórnarlamba

3+

4-5+

5+

Tímabil

Stundir

Dagar – Vikur – Mánuðir

Mánuðir – Ár

Fjöldi fórnarlamba hverju sinni

Mörg

1 – 2 í einu

1 – 2 í einu

Persónu einkenni

Hvítur/Karl/25-40

Hvítur/Karl/20-30

Hvítur/Karl/20-30

Aðferð notuð

Skotvopn

Stunga/Skotvopn

Stunga/Kirking

Algengustu fórnarlömb

Konur (Aðallega) & Karlar

Konur & Karlar

Konur  (Með ákveðin einkenni)

Skiplagning

Óskipulagðir

Óskipulagðir

Óskipulagðir/Skipulagðir  (3/4)

Hvatir

Höfnun/Hefnd/Geðbilun

Höfnun/Hefnd/Geðbilun

Kynlíf/Höfnun

Nauðgun/Sadismi

Sjaldan/Nei

Stundum/Nei

Já (Skip.)/Já (Óskip.)

Ætlun

Engin/Sjálfsmorð

Að forðast handtöku

Að forðast handtöku

Ætlun mín í þessari grein er ekki að eyða of mörgum orðum í fyrstu tvo flokkana heldur mun ég einbeita mér að þeim þriðja.  Mikilvægt er þó að útskýra muninn á þessum þremur flokkum þar sem algengt er að fólk rugli þeim saman. 

Fjöldamorðinginn svokallaði er einhver sem tekur sig til einn daginn og drepur fjölda fólks á stuttum tíma.  Þessir morðingjar halda sig við ákveðna staði þar sem þeir drepa einfaldlega alla sem fyrir þeim verða.  Mjög oft enda þessi fjöldamorð með því að morðinginn fremur sjálfsmorð og þau eru alltaf leyst strax þar sem fjöldamorðingjar flýja nær aldrei frá vettvangi glæpsins (Modus operandi – serial killers).  Þessi morð eru nú orðinn gífurlega algeng í Bandaríkjunum og þá sérstaklega á meðal skólabarna og má í því samhengi skoða þau fjölmörgu atvik sem átt hafa sér stað í Bandarískum barnaskólum.

Æðismorðinginn er nokkurs konar blanda fjöldamorðingjans og raðmorðingjans.  Hann drepur ekki af neinni gífurlegri löngun til þess að drepa heldur fær hann köst þar sem hann drepur nánast alla sem á vegi hans verða.  Töluverðan tíma getur tekið að handsama æðismorðingja þar sem þeir yfirgefa nánast alltaf vettvanginn og geta lifað eðlilegu lífi á milli kastanna (The serial killer info site). Um fórnarlömb æðis og fjölda morðingja er oft sagt að þau hafi einfaldlega verið á röngum stað á röngum tíma. 

Þegar kemur að þriðja flokkinum hefur þróun síðari ára verið gífurlega hröð.  Raðmorðingjar eru morðingjar sem drepa fjölda manns á tímabili sem getur spannað allt frá nokkrum mánuðum til nokkurra ára.  Fram að miðjum áttunda áratugnum voru raðmorðingjar kallaðir ókunnugra morðingjar (stranger killers) sökum þess að fórnarlömbin og morðinginn þekktust yfirleitt ekki.  Það var hinsvegar á þessum tíma sem alríkislögreglumaðurinn Robert K. Ressler sem starfaði fyrir atferlisvísinda deild alríkislögreglunnar (Behavioral Science Unit, BSU) tók eftir því að það voru stundum einhver tengsl á milli morðingjans og fórnarlambsins og því fann hann upp á nafninu raðmorðingjar (serial killers) fyrir málaflokkinn.  Frá þeim degi hefur þetta nafn loðað við sem réttmætt heiti málaflokksins (Modus operandi – serial killers). 

Elstu skráðu heimildir um raðmorðingja eru frá 16. öld þegar Gilles De Rais og Elisabeth Bathory hertogaynja léku lausum hala.  Á þeim tíma voru raðmorðingjar álitnir vera vampírur og varúlfar.  Sá raðmorðingi sem er almennt álitinn vera fyrstur nútíma raðmorðingja og engin umfjöllun um raðmorð getur verið án er Kobbi kviðristir (Jack the ripper) sökum eðlis glæpa hans.  Af þessum sökum er almennt talað um að nútíma raðmorð hafi verið til í 125 ár (Modus operandi – serial killers).

Á þessari öld hafa raðmorðingjar orðið að næstum albandarísku fyrirbæri og þrátt fyrir að þar búi aðeins 6% mannkyns eru meira en 75% skráðra tilfella um raðmorð þaðan (Modus operandi – serial killers).  Talið er að á hvaða gefnum tíma sem er séu á bilinu 35 – 100 raðmorðingjar lausir í Bandaríkjunum einum og sérfræðingjar telja að raðmorðingjar beri ábyrgð á 33 – 66% af árlegri morðtíðni Bandaríkjanna (Modus operandi – serial killers).  Fjölgun raðmorðingja á þessari öld hefur verið gífurlegur og má ætla að þar sé tækninni að einhverju leyti um að kenna þar sem aukinn hreyfanleiki hefur fært þeim meira svigrúm til að vinna.  Þannig voru að meðaltali uppgötvaðir 1.7 raðmorðingjar á ári á tímabilinu frá 1906 til 1959.  Á sjöunda áratugnum reis sú tala upp í 5 á ári og um 1980 hafði talan aftur þrefaldast.  Um 1990 voru tilfellin orðin 36 á ári eða að meðaltali 3 nýir raðmorðingjar á mánuði.  Þessi þróun samsvarar 940% aukningu á raðmorðum á aðeins þremur áratugum.  Í dag hafa FBI ályktað að raðmorðingjar í Bandaríkjunum taki að meðaltali 11 líf á degi hverjum (Modus operandi – serial killers). 

Þrátt fyrir að allt bendi til þess að þetta fyrirbæri sé nær einskorðað við Bandarískt samfélag er það þó ekki svo og tilfellum hefur einnig fjölgað annars staðar í heiminum þó svo þróunin hafi ekki verið nærri því eins ör og í Bandaríkjunum.  Vegna þess hve raðmorð eru sjaldgæf utan Bandaríkjanna er löggæslan annarsstaðar í heiminum engan vegin undir það búin að takast á við raðmorðingja og því eru sögur þaðan oft mun verri en þær sem heyrast frá Bandaríkjunum (Modus operandi – serial killers). 

Vegna þess hve illa undirbúin hin ýmsu lönd eru undir glæp af þessu tagi líður oft langur tími áður en menn greina að um raðmorðingja sé að ræða.  Raðmorðingjar í þessum löndum geta því leikið lausum hala mun lengur en í Bandaríkjunum og ná oft að valda miklum skaða.  Af þessum sökum eru tveir af afkastamestu raðmorðingjum sögunnar annars vegar frá Suður-Ameríku og hins vegar frá Rússlandi.  Í Suður-Ameríku náði Pedro Lopez “Skrímsli andesfjallanna” (the monster of the andes) að drepa 300+ konur á níunda áratugnum áður en hann var handsamaður.  Í Rússlandi álitu rannsóknarmenn að raðmorð væru Bandarískt fyrirbæri og höfnuðu hjálp alríkislögreglunnar.  Af þessum sökum náði Andrei Chikatilo “borgari X” (citizen X) að drepa 53+ manns á níunda áratugnum (Modus operandi – serial killers).  Þó svo að í þessum óundirbúnu löndum nái morðingjarnir hver fyrir sig að farga fleirum en starfsbræður þeirra í Bandaríkjunum eru þeir mun færri og því ná Bandarískir raðmorðingjar að valda mun meiri skaða samanlagt eða á bilinu 300 – 350 morð á mánuði (Modus operandi – serial killers).

Tafla sem sýnir afkastamestu raðmorðingja þessarar aldar

(Modus operandi – serial killers)

Staða

Fjöldi fórnarlamba

Raðmorðingi

Land

1

300

Pedro Lopez

Kólumbía

2

7-200

Henry Lee Lucas & Ottis Toole

USA

3

85

Bruno Ludke

Þýskaland

4

52

Andrei Chikatilo

Rússland

5

41

Gerald Stano

USA

6

38

Moses Sithole

Suður-Afríka

7

37

The Green River Killer

USA

8

33

John Wayne Gacy

USA

9

27

Dean Corll

USA

10

27

Wayne Williams

USA

Önnur lönd eins og Bretland, Ástralía og Suður-Afríka hafa átt í sífellt meiri vandræðum með raðmorð á síðastliðnum 50 árum og þar hafa menn tekið sér Bandarísku alríkislögregluna að fyrirmynd og stofnað atferlisvísindadeild innan löggæslusveita sinna til þess að taka á vandanum (Modus operandi – serial killers).

En hver er það sem gerist raðmorðingi og af hverju?  Þessum spurningum er mjög erfitt að svara og í Bandaríkjunum hefur verið eytt gífurlegum tíma og peningum í að reyna að svara þeim. 

Í flestum tilfellum raðmorðingja er hægt að finna sameiginlega þætti í æsku og lífsstíl einstaklingsins.  Eitt sem fundist hefur í æsku svotil allra raðmorðingja eru einkenni sem hafa fengið nafnið manndráps þrennan (homicidal triad) og flestir raðmorðingjar hafa framkvæmt eitt eða allt þrennt sem börn:

  1. Íkveikja
  2. Grimmd við dýr
  3. Pissað undir      (Modus operandi – serial killers)

Til þess að komast frekar að því hvað gerir fólk að raðmorðingjum þyrfti að kanna hvaða breytingar hafa átt sér stað í samfélaginu á síðustu 125 árum og þá með sérstöku tilliti til Bandaríkjanna. 

Raðmorðingjar eru í gífurlegum meirihluta hvítir karlmenn á aldrinum 20 – 30 ára.  Í Bandaríkjunum skiptast kynþáttahlutföllin þannig að 86% raðmorðingja eru hvítir, 14% eru svartir og algjör undantekning þykir ef aðrir kynþættir gerast sekir um raðmorð.  Af öllum raðmorðingjum eru svo 90% karlar og einungis 10% konur.  Mjög algengt er að fólk telji að raðmorð sé samkynhneigðra glæpur en í raun eru 86% raðmorðingja gagnkynhneigðir (Modus operandi – serial killers).

Seint á áttunda áratugnum tók atferlisvísindadeild alríkislögreglunnar (BSU) stórt stökk í baráttunni gegn raðmorðum þegar hún hóf að framkvæma risa kannanir og mynda almenna lýsingu á hinum hefðbundna raðmorðingja (criminal profiling).  Upp spruttu sérhæfðir rannsóknarlögreglumenn sem kallast “profilers” og vinna að því að handsama raðmorðingja.  Þessir sérhæfðu rannsóknarmenn reyna að meta hvernig morðinginn er af ummerkjum hans á vettvangi glæpsins. 

Þessir nýju lögreglumenn stofnuðu tvær nýjar deildir innan alríkislögreglunnar, VICAP (Violent Crime Apprehension Program) og NCAVC (National Center for the Analysis of Violent Crime).  VICAP skoðar óleyst morðmál og reynir að finna tengsl milli glæpa en NCAVC er deild sem safnar atferlisrannsókna niðurstöðum, einkennum glæpamanna og öðrum rannsóknar niðurstöðum og þjálfar sérstaka rannsóknarmenn til þess að nýta þessar upplýsingar á vettvangi glæpa víðsvegar um Bandaríkin.  Í forystu við stofnun þessara deilda var Robert K. Ressler en hann er af mörgum talinn einn helsti sérfræðingur heimsins í dag á raðmorðum (Modus operandi – serial killers).

Það hvernig “profilers” byggja upp heildstæða mynd af morðingjanum er byggt að hluta á rannsóknarvinnu og svo einnig að stórum hluta á sálfræði.  Þeir skoða vettvang glæpsins og allar skýrslur um hann og reyna í framhaldi af því að svara ýmsum spurningum eins og hvernig? Hvenær? Af hverju? Og svo að lokum hver?  Þessar lýsingar reynast oft á tíðum svo nákvæmar að fólk talar um að geta sett sig inn í huga glæpamannsins.

Þegar rannsóknarmenn reyna að byggja heilstæða mynd af morðingjanum styðjast þeir við ýmislegt sem vitað er með vissu um raðmorðingja og vinna svo út frá því.  Eitt sem talið er mikilvægt í vinnslu allra morðmála er að átta sig á hvötinni sem liggur að baki verknaðinum.  Oft virðist sem hvötin sé engin, að aðeins hafi verið um að ræða einhverskonar drápshvöt en í raun er oftast einhver önnur ástæða fyrir verknaðinum þó svo hún sé kannski aðeins kunn morðingjanum.  Bandaríska alríkislögreglan hefur skipt megin hvötum raðmorðingja í fjóra flokka:

Spámannshvötin (visionary motive) –  Þetta er hópurinn sem er oftast álitinn geðveikur.  Þeir heyra oft raddir sem segja þeim að fremja glæpinn.

Trúboðshvötin (missionary motive) – Þessir morðingjar geta virst vera alheilbrigðir en í raun hafa þeir gífurlega þörf fyrir að losa heiminn við allt sem þeim finnst ósiðlegt eða einfaldlega rangt.  Þessir morðingjar velja sér ákveðna tegund fórnarlamba (t.d. Kobbi kviðristir og vændiskonurnar)

Spennuhvötin (thrill motive) – Þessir morðingjar drepa út af spennunni.  Þeir fá vímutilfinningu af að drepa og njóta þess að kvelja fórnarlömbin sín.

Ástríðuhvötin (lust motive) – Þessir morðingjar fá kynferðislega örvun af glæpnum, fyrir þeim er ánægjan bein afleiðing af því hve mikið þeir geta kvalið fórnarlömbin.  Þessir morðingjar eru í fullum tengslum við raunveruleikann og geta jafnvel verið í eðlilegum samböndum.  Þetta er lang algengasta hvötin hjá raðmorðingjum.  (The serial killer info site)

Þegar hvötin að baki glæpnum hefur verið ákvörðuð er hægt að skipta morðingjunum upp í tvo flokka, skipulagði og óskipulagði morðinginn (Modus operandi – serial killers). 

Skipulagði morðinginn skipuleggur glæpinn mjög vel og kemur sjálfur með allt sem hann þarf til að framkvæma hann.  Hann losar sig oftast við líkið og hefur mikinn áhuga á glæpnum að honum loknum.  Þessir morðingjar senda lögreglu oft bréf þar sem þeir lýsa glæpnum í smáatriðum eða hringja í hana til þess að hreykja sér.  Vegna þess hve vel þessir morðingjar skipuleggja glæp sinn og hve lítil tengsl eru á milli þeirra og fórnarlamba þeirra telur Alríkislögreglan að þeir glæpir sem hún hafi afskipti af séu aðeins toppurinn á ísjakanum.  Með þessu eru þeir að vísa til hins gífurlega fjölda fólks sem hverfur sporlaust á ári hverju innan Bandaríkjanna (Modus operandi – serial killers).

Óskipulagði morðinginn leggur aldrei á ráðin um neitt heldur notar hann bara það sem hann kemur hendi yfir.  Hann misþyrmir oft líkum fórnarlamba sinna og tekur með sér minjagripi um glæpinn en að honum loknum missir hann allan áhuga á honum (Modus operandi – serial killers).

Öll þessi umræða mín um raðmorð kann að virðast óviðeigandi hér á landi þar sem við höfum aldrei haft nein afskipti af raðmorðum.  Að mínu mati eru raðmorð þó raunveruleg ógn jafnt hér sem annarsstaðar og mér finnst sem kannanir á morðum hérlendis bendi einnig til þess.  Hluti af ástæðunni fyrir því að hér á landi hafa aldrei komið upp dæmi um raðmorð kann að vera sökum þess hve lítið landið okkar er og þess vegna hve litla möguleika raðmorðingi hefur á að fela sig.  Hins vegar er hægt að benda á það að mjög auðvelt er að hverfa hér á landi eins og síðustu ár hafa sýnt fram á þar sem fjöldinn allur af fólki hefur horfið sporlaust.  Kannanir frá Bandaríkjunum sýna einnig að raðmorðingjar geta virðst vera ósköp eðlilegir og jafnvel eftirsóknarverðir einstaklingar á yfirborðinu.  Í þessu sambandi væri til dæmis hægt að skoða morðmálið sem átti sér stað nú í haust þar sem verslunareigandi drap meðeiganda sinn og velt því fyrir sér hvað hefði gerst ef morðinginn í því tilfelli hefði skipulagt morðið örlítið betur og forðast að nota farsíma.  Þá hefði hann eflaust  getað komist undan en spurningin er: hefði hann drepið á ný? 

Þróun brota gegn 211 greinar hgl. hér á landi hefur verið þannig að morðum þar sem morðinginn og fórnarlambið þekkjast lítið eða ekkert og þar sem erfitt reynist að greina hvötina að baki verknaðarins hefur fjölgað mjög á síðustu árum.  Þannig hafa 8 mál komið fyrir hæstarétt á tímabilinu 1920 – 90 þar sem erfitt reyndist að greina hvatir hins brotlega en athyglisverðast þykir mér þó að af þessum átta málum átti aðeins eitt sér stað fyrir 1979 (Ragnheiður Harðardóttir, 1991).

Mikil umræða erlendis hefur verið undanfarin ár um það að morðtíðnin sé sífellt að lækka en á sama tíma virðist sem hinum óvenjulegu morðum fjölgi með hverju árinu.  Alríkislögregla Bandaríkjanna hefur meira að segja látið í ljós áhyggjur vegna þess að þeir telji að tölfræðin nái ekki að sýna nema brot af tíðni slíkra mála.  Þúsundir manna hverfa sporlaust á hverju ári í Bandaríkjunum einum saman og sérfræðingar telja að 30 – 50% þeirra sem hverfa hafi orðið fórnarlömb morðingja (Modus operandi – serial killers).

Hér á landi hefur morðum fjölgað gífurlega á þessari öld og er vafalaust hægt að finna fjölmargar skýringar á eins og að fyrir þessa öld hafi ekki verið haldið jafn vel utan um tölur yfir fjölda morða og að á þessari öld hafi myndun þéttbýlis hér á landi orðið til þess að morð urðu mun augljósari en áður þegar landið var dreifbýlla.  Staðreyndin er þó sú að morðtíðnin í dag er sú hæsta sem hún hefur verið á þessari öld og þróunin hefur verið á þann veg að sífellt er erfiðara og erfiðara að finna skýringar á þeim morðum sem eiga sér stað.