persona.is
Óyndi
Sjá nánar » Þunglyndi
Hvað er óyndi? Óyndi eða óyndisröskun (dysthymic disorder) svipar til þunglyndis en stendur lengur yfir, eða tvö ár hjá fullorðnum og eitt ár þegar um börn og unglinga er að ræða, og einkennin eru vægari. Afar sjaldgæft er að það þurfi að leggja einstakling inn á sjúkrahús vegna þessarar röskunar. Talið er að allt að 3% manna þjáist af óyndi og er það algengara á meðal kvenna heldur en karla. Óyndi getur byrjað á öllum aldri, þótt flestir greinist með það þegar þeir eru börn eða unglingar.  Einkenni óyndis eru eftirfarandi: 

·         Léleg matarlyst eða ofát

·         Svefnleysi eða of mikill svefn 

·         Þróttleysi eða þreyta 

·         Lítil sjálfsvirðing 

·         Slök einbeiting eða erfiðleikar við að taka ákvarðanir 

·         Vonleysistilfinning 

Til þess að greining á óyndi eigi rétt á sér þurfa tvö af ofangreindum einkennum að vera til staðar og ekki má veða hlé á þeim í fleiri en tvo mánuði.  Hvað veldur óyndi? Óyndi er eins og margar aðrar geðraskanir að ekki er vitað með vissu hvað veldur því. Á hinn bóginn er vitað að það er algengara í sumum fjölskyldum en öðrum. Hvort það eru erfðir eða umhverfið sem skipta meira máli leikur vafi á. Einnig eru meiri líkur á því að einstaklingur greinist með óyndi eigi hann við persónuleg vandamál að stríða, þjáist af sjúkdómi eða streitu.  Óyndi tengist þunglyndi sterkum böndum. Flestir þeirra sem þjást af óyndi greinast líka með þunglyndi eitthvern tíma á ævinni. Þegar það gerist er það kallað tvöföld depurð (double depression).  Hvað er til ráða? Hægt er að ná góðum bata með því að taka inn lyf við óyndi. Einnig skilar sálfræðileg meðferð góðum árangri. Oft er þó erfitt að koma auga á einkennin. Flestir sem þjást af óyndi fara eingönu til heimilislækna sem eiga oft í erfiðleikum við að greina vandamálið. Það á séstaklega við þegar einstaklingur kvartar um líkamleg einkenni (t.d. ofát).  Ef lyf eru gefin er mikilvægt að fara eftir ráðum læknis um lyfjatöku. Áhrif lyfjanna geta komið í ljós eftir margar vikur eða mánuði. Ef þau gagna þarf að halda áfram að taka þau í nokkur ár. Sálfræðileg meðferð samfara lyfjatöku skilar betri árangri, hjálpar einstaklingi að takast á við dagleg vandamál og ná góðum bata.

Fjölvar Darri Rafnsson, BA í sálfræði