persona.is
Ótti við sjúkdóma (hypochondriasis/ health anxiety)
Sjá nánar » Kvíði » Meðferð

Ótti við sjúkdóma er frekar algengt vandamál.    Vandi þessi er flokkaður sem ákveðin tegund af kvíða sem hægt væri að nefna heilsukvíði og í greiningarkerfum geðlæknisfræðinnar hefur þetta meðal annars verið greint sem  ímyndunarröskun (hypochondriasis) og er undirflokkur Líkömunarraskana (somatoform disorder).


Það getur verið erfitt að meta nákvæmlega hversu margir þjást af þessum kvíða þar sem hér er um ákveðna vídd að ræða – frá þeim sem hafa minniháttar áhyggjur í verulegan kvíða.  Þar erum við að tala um það bil 3-13% fólks, þar sem 1-5% næðu greiningarviðmiðum fyrir ímyndunarröskun (hypochondriasis).  Margir einstaklingar sem þjást af ímyndunarröskun glíma einnig við aðra kvilla s.s. þunglyndi, kvíða, eða aðrar líkömnunarraskanir.
Í stuttu máli einkennist ímyndunarröskun af því að einstaklingur er sannfærður um að hann/hún sé með alvarlegan sjúkdóm (t.d. krabbamein eða hjartasjúkdóm), þrátt fyrir að hafa endurtekið fengið fullvissu læknis um að ekkert bendi til að svo sé.  Einstaklingar með ímyndunarröskun verða uppteknir af minniháttar einkennum sem þeir telja að sé einkenni þessara líkamlegu kvilla.  Þessu fylgir mikill kvíði sem eykst við vægustu líkamlegu einkenni og kvíðinn eykur síðan líkamlegu einkennin.  Margir sem þjást af þessum vanda hafa vanið sig á mjög heilsusamalegt líferni (s.s. regluleg hreyfing, heilsusamalegt mataræði, reykja ekki, osfrv.).  Þessi röskun kemur oft fram í kjölfar eigin veikinda eða veikinda hjá fjölskyldumeðlimum og oftar en ekki tengist því einhver óánægja og reiði með læknisþjónustu, þ.e. viðkomandi upplifir að honum (og hans veikindum) hafi ekki verið sinnt nógu vel.  Ímyndunarröskun kemur yfirleitt fyrst fram í byrjun fullorðinsára.
          Einstaklingar með þennan vanda gera margt til að draga úr einkennum eða hafa áhrif á “sjúkdóminn”.  Þetta getur verið að hlífa sér, taka inn lyf, eða reyna að fá læknisþjónustu, svo eitthvað sé nefnt.  Þar sem um sálrænan vanda er að ræða veldur þetta oft togstreitu milli “sjúklings” og læknis, þar sem “sjúklingurinn” telur að ekki sé hlustað nægjanlega á sig og “líkamlegur vandi” hans sé ekki nógu vel skoðaður.  Viðkomandi upplifir þessa “höfnun” þrátt fyrir að helstu rannsóknir hafa verið gerðar.  Einstaklingur með þessa röskun kvilla leitar þar af leiðandi oft til fleiri lækna, til að reyna að fá fullvissu um að honum sé nógu vel sinnt af heilbrigðiskerfinu og að einhver “átti” sig á að hann sé haldinn alvarlegum “sjúkdóm”.  Þessi hegðun er svipuð því sem við sjáum hjá fólki með áráttu og þráhyggju.  Læknaheimsóknirnar fela oft það í  sér að viðkomandi virðist vera að leita sér nokkurs konar “huggunar” um að ekki sé um alvarlegan sjúkdóm að ræða.  Þessi “huggun” snýst því miður oft upp í andhverfu sína þar sem því oftar sem “huggun” er fengin þeim mun meira þarf einstaklingurinn á henni að halda og fer því oftar og oftar til lækna til að láta sannfæra sig um að ekkert sé að.
Ímyndunarröskun einstaklings getur oft haft töluverð áhrif á starf og fjölskyldulíf hans, þar sem mikill tími fer í að leita sér aðstoðar, leita sér upplýsinga um sjúkdóminn, tala um sjúkdóminn, og í togstreitu við fólk um hvort um raunverulegan sjúkdóm sé að ræða.
Oft er hægt að sjá ákveðna þætti sem koma einkennum af stað, eins og að lesa um eða heyra af einhverjum sem veikist.  Fréttir um einstaklinga sem greinast seint af ákveðnum sjúkdómum, eftir að hafa verið sagðir hraustir áður, getur t.d. haft veruleg áhrif.
Þar sem einkennin felast að miklu leyti í órökréttum túlkunum einkenna, hefur hugræn atferlismeðferð reynst töluvert vel til að meðhöndla ímyndunarröskun.  Þar er lögð mikil áhersla á að vinna með þessar hugsanir og túlkanir á einkennum og breyta þar með viðhorfum um að hér sé um sálrænt vandamál að ræða en ekki líkamlegt.   Árangur á bata er líka talinn frekar mikill, t.d. sýndi ein rannsókn fram á að 76% fólks með ímyndunarröskun náði bata eftir 16 viðtöl með hugrænni meðferð.  Þá má að lokum segja að einstaklingur sé á góðri leið e hann er að leita sér upplýsinga um sálræna hlið vandans, því margir leita sér ekki aðstoðar af þeirri einföldu ástæðu, sem einkennir einstaklinga með þennan vanda, að þeir telja að hér sé ekki um sálrænt vandamál að ræða heldur að vandi þeirra sé líkamlegs eðlis.

Björn Harðarson
sálfræðingur
.