persona.is
Orðin á bakvið líðan þína
Sjá nánar » Tilfinningar
„Ég er leiðinlegur“, hugsar maðurinn eftir að hafa hringt í kunningja sinn sem var þurr á manninn í símanum.  Daginn út og inn gerum við athugasemdir við okkar eigin hegðun með sjálfvirkum hugsunum en erum yfirleitt ómeðvituð um það, ólíkt því sem gengur og gerist með hefðbundnar hugsanir. Þegar fólk er niðurdregið eru þessar athugasemdir fremur neikvæðar og niðrandi. Sjálfvirkar hugsanir geta auk orða, verið í formi minninga eða hugarsýna þar sem við sjáum fyrir okkur atburði.  Áðurnefndur maður, sem við köllum Birgi, gæti séð kunningja sinn fyrir sér þar sem hann ranghvolfir augunum á meðan símtalinu stendur eða minnst símtalsins næst þegar hann hittir kunningjann og hugsað að sá hafi sjálfsagt engan áhuga á að umgangast hann. En hvaða áhrif hefur þessi neikvæða sjálfvirka hugsun á okkur?  Einn af eiginleikum hennar er sá að henni er tekið sem endanlegum sannleika þótt kannski sé ekki vottur af sannleika í henni að finna.  Orð hafa mátt, sérstaklega þegar þau eru síendurtekin líkt og viðkomandi hlustaði á þau í heyrnartólum allan daginn. Í þessu samhengi má nefna dæmisöguna um froskahlaupið. Dag einn ákváðu froskar að fara í víðavangshlaup. Þegar töluvert var liðið á hlaupið fór hvatningarhrópum áhorfenda að fækka því að þeir vildu komast heim. Þeir fóru meira að segja að skjóta því að hlaupurunum að fara nú að hætta þessu, þeir kæmust hvort sem er ekkert á leiðarenda; betra væri að gefast upp núna og hvíla sig frekar heima í sófa. Hlaupararnir tíndust brátt hver á fætur öðrum úr hlaupinu og lágu eins og hráviði út um allar götur. Þó var einn sem lét þetta ekki á sig fá og kepptist við að halda hraðanum. Að lokum varð hann einn eftir og komst að markinu. Áhorfendur furðuðu sig á seiglunni í hlauparanum og fóru að grafast fyrir um hvernig í ósköpunum hann fór að þessu. Þeir komust loks að því að hann hefði slæma heyrn og heyrði því ekki neikvæð hróp áhorfendanna. Sjálfvirka hugsunin hefur áhrif á líðan okkar. Birgir slær því föstu að ástæðan fyrir viðmóti kunningjans sé sú að hann sjálfur er leiðinlegur og líklegast líður honum ekkert sérlega vel eftir að hafa minnt sjálfan sig á það.  Nú er ekkert víst hvort hann hafi sjálfur tekið eftir því að hafa hugsað þetta en hann finnur sterklega fyrir vanlíðaninni þegar hann leggur frá sér tólið. En hvaðan kemur þessi hugsunarháttur? Það eru ekki atburðirnir sem hafa áhrif á líðan okkar heldur hugsunin sem sprettur upp þegar þeir gerast.  Hugsunin veltur á þeirri reynslu sem við höfum orðið fyrir í lífinu og hefur svo áhrif á viðbrögð okkar. Þess vegna er það staðreynd að fólk bregst mismunandi við sama atvikinu af því að við höfum mismunandi reynslu í farteskinu.  Meðan einn bregst við gagnrýni með reiði getur annar verið niðurbrotinn en sá þriðji þakklátur fyrir ábendinguna. Einnig getur sami maðurinn verið misvel upplagður og því sýnt mismunandi viðbrögð við samskonar aðstæður.  Það sem hér hefur verið sagt um sjálfvirkar hugsanir er byggt á hugræna líkaninu um andlegt ástand fólks. Þar er gert ráð fyrir að hugsunin ráði líðan. Í hugrænni atferlismeðferð https://www.viagrapascherfr.com/vente-de-viagra-en-espagne/ er þar af leiðandi lögð áhersla á að endurskoða hugsunina, skora hana á hólm, til að bæta líðanina.  Því lengur sem við látum þessar neikvæðu hugsanir viðgangast, því meira festast þær í sessi. Ef Birgir endurskoðaði hugsun sína gæti hann t.d. athugað sannleiksgildi hennar, er hann í raun og veru leiðinlegur?  Rökin með því eru jú þau að kunninginn var ekkert sérlega spenntur að heyra í honum.  Birgir hefði hinsvegar einnig getað fundið mótrök: Hann var í karlaklúbbi þar sem hann var vel liðinn og honum hafði líka einu sinni tekist að fá Sigríði frænku til að hlæja og það má nú heldur betur kallast góður mælikvarði á skemmtilegheit. Hann hefði einnig reynt að finna aðrar hugsanlegar ástæður fyrir viðmóti kunningjans: Kannski var hann þreyttur eftir daginn og lá hálfsofandi uppí sófa þegar Birgir hringdi. Ef hugsunin er hins vegar rétt og kunningjanum finnst Birgir bara ekki skemmtilegur maður þá getur Birgir spurt sig hvort hægt sé að láta öllum líka við mann. Það hafa bara ekki allir sama smekk, þótt einum þykir súkkulaðiís ekki góður þá er ekki þar með sagt að súkkulaðiís sé vondur!  Líklegast hefði Birgir ekki orðið eins niðurdreginn ef hann hefði endurskoðað hugsun sína um leið og hún skaut upp kollinum.  Næst þegar þú finnur fyrir neikvæðum breytingum á skapi þínu getur þú prófað að spyrja sjálfa/n þig hvað þú hafir verið að hugsa, séð fyrir þér eða minnast og í framhaldi, skorað hugsunina á hólm.  Vegna þess að sjálfvirkar hugsanir eru ekki eins meðvitaðar og þessar hefðbundnu getur oft reynst erfitt að þjálfa sig í að taka eftir þeim og vegna þess hve fastmótaðar þær geta verið reynist stundum erfitt að efast um sannleiksgildið.  Það er þó aldrei of seint fyrir þig að grípa inní þróunina og fara að tala eins vel til sjálfs þín og þú vilt að aðrir geri.   Sóley Jökulrós Einarsdóttir sálfræðingur