Hvað er ofsakvíði?
Ofsakvíði (eða felmtursröskun) er óskaplega óþægilegur og hamlandi kvilli sem einkennist meðal annars af hræðslu, hröðum hjartslætti, skelfingu, feigðartilfinningu og svima. Horfurnar eru þó góðar, því meðferðir hafa reynst afar áhrifaríkar, og er því afskaplega mikilvægt að fólk sem þjáist af ofsakvíða leiti sér upplýsinga um vandann og nýti sér þær meðferðir sem eru í boði. Ofsakvíði einkennist af endurteknum kvíðaköstum; stuttum tímabilum þar sem skelfing grípur viðkomandi skyndilega án þess að nokkur raunveruleg hætta eða ástæða sé fyrir hendi. Skelfingunni fylgja ýmis líkamleg einkenni svo sem svimi, hraður hjartsláttur, og öndunarerfiðleikar. Kvíðaköst geta skollið á þegar fólk á síst von á þeim, og óvissan um hvenær von sé á næsta kasti getur staðið því mjög fyrir þrifum. Oft forðast fólk hverjar þær aðstæður sem það telur líklegt að ýti undir kvíðaköst, og sumir forðast jafnvel alfarið að fara út á meðal almennings. Talið er að ofsakvíði stafi af því að ferli í heilanum sem gerð eru til þess að bregðast við hættu starfi óeðlilega.Hverjir þjást af ofsakvíða?
Um átta af hverjum fimm hundruð (1,6%) þjást af ofsakvíða einhvern tímann á ævinni, og þar af eru tvöfalt fleiri konur en karlar. Röskunin kemur yfirleitt fram snemma á fullorðinsárum, en getur einnig komið fram hjá börnum og eldra fólki. Ofsakvíði fyrirfinnst um allan heim og hrjáir fólk af öllum stéttum og þjóðernum, þótt einkennin virðist að einhverju leyti menningarbundin.Einkenni og framgangur ofsakvíða
Fyrsta kast Fyrsta kvíðakastið kemur fólki venjulega í opna skjöldu; hellist gjarnan fyrirvaralaust yfir fólk þegar það er að gera afskaplega hversdagslega hluti eins og að aka bíl eða ganga í vinnuna. Skelfing, angist, vanmáttarkennd og veruleikafirring eru oft meðal fyrstu einkenna. Einkennin eru venjulega verst í nokkrar sekúndur, stundum nokkrar mínútur, og hverfa smám saman á um einni klukkustund. Eins og gefur að skilja valda ofsakvíðaköst iðulega miklu tilfinningalegu uppnámi, og ekki er óalgengt að menn haldi að þeir séu að missa vitið eða veikjast af einhverjum skelfilegum sjúkdómi. Margir leita sér því læknishjálpar eftir fyrsta kast. Fyrsta kvíðakast getur skollið á þegar viðkomandi er undir miklu álagi. Það getur til dæmis fylgt í kjölfar erfiðleika í vinnu, skilnaðar, skurðaðgerðar, alvarlegs slyss, veikinda eða barnsburðar. Óhófleg neysla koffíns eða örvandi fíkniefna og lyfja svo sem kókaíns og vissra asthmalyfja getur einnig hrundið af stað kasti. Í flestum tilfellum koma köstin þó „upp úr þurru“, án nokkurra sýnilegra tengsla við álag eða erfiðleika í umhverfi einstaklingsins. Vitaskuld kannast allir við að vera áhyggjufullir, taugastrekktir og kvíðnir af og til, en lögð skal áhersla á það að tilfinningarnar sem fylgja ofsakvíða eru af allt annarri styrkleikagráðu. Þær eru gjarnan svo yfirþyrmandi og ógnvekjandi að viðkomandi er sannfærður um að hann sé að deyja, missa vitið eða verða sér til ævarandi skammar, þótt í raun sé að sjálfsögðu lítil hætta á slíkum ógnar afleiðingum. Sumir fá eitt kast yfir ævina og aðrir fá kast öðru hverju án þess að það hafi teljandi áhrif á daglegt líf þeirra. Þegar um eiginlega röskun er að ræða eru köstin hins vegar þrálát og regluleg og valda miklum þjáningum og félagslegum hömlum. Einkenni ofsakvíða Meðan á kvíðakasti stendur geta sum eða öll eftirfarandi einkenni komið fram:· Skelfing og vanmáttarkennd – tilfinning um að eitthvað hræðilegt sé um það bil að gerast sem maður er öldungis ófær um að stöðva.
· Hraður hjartsláttur
· Brjóstsviði
· Svimi
· Ógleði
· Öndunarerfiðleikar
· Doði í höndum
· Roði og hiti í andliti eða hrollur
· Tilfinning um að maður sé að missa sjónar á veruleikanum
· Ótti við að glata sjálfsstjórn, missa vitið eða verða sér til skammar
· Feigðartilfinning
Endurtekin ofsakvíðaköst valda gjarnan mikilli hræðslu við frekari köst, og líf einstaklingsins getur orðið undirlagt af ótta og kvíða inn á milli kastanna. Oft fælist fólk einnig þær aðstæður sem kvíðakast hefur orðið við og forðast þær í lengstu lög. Til dæmis verður fólk sem upplifað hefur kvíðakast undir stýri oft mjög hrætt við að keyra. Fælni í kjölfar kvíðakasta getur sett miklar og margvíslegar hömlur á líf fólks. Svo dæmi sé tekið getur fælni við að keyra valdið því að einstaklingur megnar ekki að fara til vinnu eða sækja börnin sín í skólann. Vina- og fjölskyldubönd kunna einnig að bíða skaða þegar kvíðaköst, og viðvarandi kvíði, leggja undir sig líf viðkomandi. Ofsakvíða fylgja gjarnan svefntruflanir. Kvíðaköst að nóttu til verða stundum til þess að fólk forðast það í lengstu lög að sofa og svefntruflanir geta einnig orðið vegna viðvarandi kvíða, jafnvel þótt köstin sjálf verði ekki á nóttunni. Margir þeirra sem þjást af ofsakvíða eru óskaplega áhyggjufullir yfir þeim líkamlegu einkennum sem fylgja kvíðaköstunum og eru sannfærðir um að þeir þjáist af lífshættulegum sjúkdómi, jafnvel þótt læknisskoðun hafi ekki leitt í ljós nein merki þess. Algengt er að ofsakvíðasjúklingar telji sig þjást af alvarlegum hjarta- eða öndunarsjúkdómi, og sumir eru sannfærðir um að vandi þeirra stafi af tauga-, eða meltingarsjúkdómi. Þessir einstaklingar leita oft til margra sérfræðinga til að fá staðfestingu á grun sínum, og kunna að gangast undir ýmsar dýrar og óþarfar rannsóknir. Læknum kann að yfirsjást vandinn, og leit einstaklingsins að sjúkdómsgreiningu getur tekið langan tíma. Þegar læknar bera kennsl á vandann getur einnig verið hætt við því að þeir gefi fólki ekki tilhlítar upplýsingar um hvernig það eigi að bera sig að, og vísi því jafnvel frá með orðum eins og „þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af, þetta er bara taugastrekkingur“. Þrátt fyrir að slíkar yfirlýsingar séu ef til vill vel meintar geta þær dregið kjarkinn úr einstaklingi sem upplifir síendurtekin kvíðaköst. Því er afar mikilvægt að læknar átti sig á því hversu hamlandi ofsakvíði getur verið og séu fróðir um þau meðferðarúrræði sem eru í boði. Víðáttufælni (agoraphobia) Ef ekkert er að gert getur ofsakvíði leitt til þess að einstaklinar verða hræddir við að koma sér í hverjar þær aðstæður eða umhverfi sem þeir geta ekki losnað úr eða leitað hjálpar við ef kvíðakast skyldi skella á. Þetta ástand kallast víðáttufælni og hrjáir um einn af hverjum þremur einstaklingum með ofsakvíða. Víðáttufælnir einstaklingar eru oft hræddir við að vera í mannfjölda, standa í biðröðum, fara inn í verslunarmiðstöðvar, keyra eða nota almenningssamgöngur. Margir halda sig á „öruggu svæði“ sem kann að vera bundið við heimilið eða nánasta umhverfi, og sumir þora ekki út úr húsi án fylgdar náins vinar eða ættingja. Jafnvel þegar víðáttufælið fólk heldur sig alfarið á „öruggu svæði“ fær það venjulega kvíðaköst í það minnsta nokkrum sinnum á mánuði. Víðáttufælni getur verið verulega hamlandi. Hún gerir mörgum ókleift að vinna, og sumir þurfa jafnvel að reiða sig alfarið á fjölskyldu og vini til að versla fyrir sig og sinna öðrum útréttingum. Víðáttufælið fólk er því oft upp á arma annarra komið, og daglegt líf þess er ósjaldan takmarkað og ánægjusnautt.Meðferð
Meðferðir bera umtalsverðan árangur í um 70-90 af hverjum 100 tilvikum, og ef meðferð er veitt nógu snemma má koma í veg fyrir að ofsakvíði nái efri stigum og víðáttufælni þróist. Ofgnótt af skjaldkirtilshormóni, ákveðnar gerðir flogaveiki og hjartsláttartruflanir geta valdið einkennum sem svipar til einkenna ofsakvíða. Því ætti fólk alltaf að gangast undir ítarlega læknisskoðun áður en ofsakvíði er greindur. Hugæn atferlismeðferð og ýmis lyf hafa reynst vel til að meðhöndla ofsakvíða. Misjafnt er hvað reynist hverjum og einum best og hafi enginn árangur náðst að sex til átta vikum liðnum er mælt með því að meðferðaráætlun sé endurskoðuð. Hugræn atferlismeðferð Hugræn atferlismeðferð er tvíþætt. Annars vegar er leitast við að breyta hugarfari sem stuðlar að kvíðaeinkennum, hins vegar að breyta hegðun sem viðheldur þeim. Venjulega ver einstaklingurinn 1-3 klukkustundum á viku með meðferðaraðilanum, og er auk þess settar fyrir ýmsar æfingar til að gera á milli tíma. Í hugrænum hluta meðferðarinnar leitast meðferðaraðili og sjúklingur við að greina hvaða hugsanir og tilfinningar fylgja kvíðaköstum. Þessar hugsanir og tilfinningar eru síðan ræddar í samhengi „hugræns líkans“ af ofsakvíða. Hugrænt líkan af ofsakvíða gerir ráð fyrir því að óæskileg hugarferli, sem kunna að vera ómeðvituð, hrindi af stað vítahring af óttaviðbrögðum. Þeir sem aðhyllast þessa hugmynd telja að ferlið hefjist á því að einstaklingurinn finnur fyrir vægum breytingum á líkamsstarfssemi, svo sem hröðum hjartslætti, stífum magavöðvum eða vægri ógleði. Slík einkenni geta komið til af ýmsu, til dæmis áhyggjum, óþægilegri tilhugsun eða íþróttaæfingum. Þessi líkamseinkenni valda sjúklingnum áhyggjum og kvíða sem veldur því aftur að þau færast í aukana. Við það verður einstaklingurinn enn kvíðnari og fer að hugsa ógnvekjandi hugsanir eins og „ég er að fá hjartaáfall“ eða „ég er að missa vitið“. Vítahringurinn eflist enn frekar og úr verður ofsakvíðakast. Ferlið allt þarf ekki að vara í meira en nokkrar sekúndur, og einstaklingurinn er ekki endilega meðvitaður um líkamseinkennin eða hugsanirnar sem hrintu því af stað. Fylgjendur hugrænna atferlismeðferða telja að með því að kenna fólki að bera kennsl á fyrstu merki kvíðakasta og breyta viðbrögðum þess við þeim megi koma í veg fyrir að vítahringur myndist. Sérstakar aðferðir eru notaðar til þess að kenna fólki að skipta neikvæðum hugsunum út fyrir jákvæðar. Til dæmis er fólki kennt að hugsa „þetta eru bara óþægindi sem munu líða hjá“ í stað þess að hugsa „þetta er að versna“, „ég er að fá kvíðakast“, eða „ég er að fá hjartaáfall“. Með breyttum hugsunarhætti öðlast einstaklingurinn smám saman betra vald yfir viðbrögðum sínum. Meðferðaraðilar setja sjúklingum gjarnan einfaldar reglur til að fylgja þegar kvíðakast er aðvífandi. Hér að neðan eru nokkrar. Aðferðir til að takast á við ofsakvíða1. Mundu að þótt tilfinningar þínar og einkenni séu ógnvekjandi er þér ekki hætta búin.
2. Áttaðu þig á því að Það sem þú ert að upplifa er ekki annað en ýkt líkamleg viðbrögð við streitu.
3. Ekki streitast á móti tilfinningum þínum eða óska þess að þær hverfi. Eftir því sem þú ert staðráðnari í að horfast í augu við þær, þeim mun veikari verða þær.
4. Ekki auka á uppnám þitt með því að hugsa um það sem „gæti“ gerst. Ef þú stendur þig að því að hugsa „hvað ef…?“, skaltu svara með því að hugsa „og hvað með það?“.
5. Einbeittu þér að stað og stund. Taktu eftir því sem raunverulega er að gerast í stað þess að hugsa um hvað gæti gerst.
6. Reyndu að meta ótta þinn á skalanum 1-10 og fylgstu með því hvernig hann rénar og færist í aukana. Taktu eftir því að óttinn nær ekki hæstu stigum nema í örfáar sekúndur í senn.
7. Þegar þú stendur þig að því að hugsa um óttann skaltu forðast „hvað ef“ hugsanir. Einbeittu þér að einföldum verkefnum í staðinn, svo sem eins og að telja niður frá hundrað í þriggja eininga skrefum (100, 97, 94…).
8. Taktu eftir því að óttinn fer að dvína þegar þú hættir að hugsa ógnvekjandi hugsanir.
9. Þegar hræðslan færist yfir þig skaltu vera við henni búin og sætta þig við hana. Bíddu og leyfðu skelfingunni að ganga yfir í stað þess að reyna að komast undan henni.
10. Vertu stolt/ur yfir framförum þínum og hugsaðu um hversu vel þér mun líða þegar allt er afstaðið.
Ólíkt því sem tíðkast í sumum gerðum sálrænna meðferða, er ekki lögð áhersla á fortíðina í hugrænni atferlismeðferð. Þess í stað beinast samræður að erfiðleikum og framförum sjúklingsins á líðandi stundu og þeim eiginleikum sem hann þarf að tileinka sér. Í atferlishluta meðferðarinnar er fólk þjálfað í að takast á við þau umhverfis- og líkamsáreiti sem kvíðanum valda, og oft eru kenndar ýmsar slökunaraðferðir til að draga úr almennum kvíða og streitu. Öndunaræfingar eru oft hluti af atferlismeðferð. Oföndunarköst, sem einkennast af hröðum og grunnum andardrætti, geta ýtt undir kvíðaköst en hægt er að koma í veg fyrir þau með réttri öndun. Mikilvægt er að fólk læri að bera kennsl á, og takast á við, þau líkamlegu áreiti sem tengjast kvíðaköstunum. Meðferðaraðilinn metur hvaða líkamlegu breytingar valda kvíðaköstum hjá viðkomandi og hvetur hann síðan gjarnan til að hrinda þeim af stað. Til dæmis er fólk oft látið gera íþróttaæfingar til að gera hjartslátt hraðari, anda hratt og grunnt til þess að koma á öndunareinkennum kvíðakasta, eða snúa sér í hringi þangað til það svimar. Stundum er einnig reynt að koma á tilfinningum um veruleikafirringu. Þegar einkenni sem þessi hafa verið vakin er sjúklingnum svo kennt að takast á við þau og gera sér grein fyrir að þau eru vita meinlaus. Reynt er að eyða óraunhæfum og neikvæðum hugsunum um dauða og aðrar (ó)hugsanlegar afleiðingar, og koma raunhæfum og jákvæðum hugsunum að í staðinn. Annar mikilvægur þáttur í atferlismeðferð er að hjálpa sjúklingnum að takast á við umhverfi sitt. Ekki er óalgengt að fólk með ofsakvíða tengi kvíðann ákveðnum stöðum eða aðstæðum, og oft forðast það þessa staði eða aðstæður alfarið. Forðun veldur sjúklingum og aðstandendum oft talsverðum óþægindum, og getur í alvarlegum tilfellum haldið fólki í stofufangelsi. Meðferðaraðili og sjúklingur ræða hvort og hvaða aðstæður sjúklingurinn forðast og meta hversu alvarleg áhrif það hefur á líf hans. Síðan vinna þeir í sameiningu að því að yfirstíga verstu hindranirnar. Ef sjúklingur er haldinn víðáttufælni fara fyrstu viðtalstímarnir stundum fram á heimili hans. Einnig fylgja meðferðaraðilar fólki oft í verslanir, ökuferðir, eða aðrar aðstæður sem það forðast. Sjúklingurinn nálgast aðstæður venjulega í nokkrum þrepum og reynir af fremsta megni að flýja ekki af hólmi þrátt fyrir aukinn kvíða. Með því að halda kyrru fyrir í stað þess að hlaupast á brott áttar fólk sig á því að þrátt fyrir að tilfinningarnar séu ógnvekjandi er því ekki hætta búin, og afleiðingarnar eru hreint ekki eins skelfilegar og það óttast. Ef fólk nálgast aðstæður í nokkrum þrepum, stutt með faglegri hvatningu og ráðum, nær það oft að vinna bug á óttanum og getur á endanum tekist óstutt á við aðstæður sem áður vöktu hjá því skelfingu. Oft setja meðferðaraðilar fólki fyrir verkefni til að vinna inn á milli viðtalstíma. Stundum fer fólk einungis í nokkra viðtalstíma og heldur þjálfuninni áfram sjálft með aðstoð prentaðra leiðbeininga. Hópmeðferðir eru einnig nokkuð algengar. Hópur af fólki hittist þá reglulega til að skiptast á hughreystingum og ráðleggingum undir handleiðslu meðferðaraðila. Hugræn atferlismeðferð hefur reynst árangursrík til þess að draga úr tíðni og styrk kvíðakasta, og hefur venjulega langvarandi áhrif. Árangur næst yfirleitt á um 8-12 vikum en sumir geta þurft lengri tíma. Hugræn atferlismeðferð hefur einnig reynst vel til þess að draga úr almennum kvíða, fælni og þunglyndi. Lyfjameðferð Lyf hafa einnig reynst árangursrík til að draga úr tíðni og alvarleika kvíðakasta, svo og almennum kvíða. Þegar kvíðinn er í rénum og alvarleg kvíðaköst verða fátíðari og mildari hættir fólk sér einnig frekar inn á svæði sem það forðaðist áður, og það er aftur árangursrík leið til þess að vinna bug á fælni. Margar tegundir lyfja hafa verið reyndar í gegnum tíðina gegn ofsakvíða. Nú eru tvenns konar lyf mest notuð, annars vegar þunglyndislyf og hins vegar róandi lyf. Þunglyndislyfin gefa betri raun til lengri tíma litið, en gallin við þau er að full áhrif þeirra koma ekki fram fyrr en eftir nokkurra vikna notkun. Því getur þurft að nota róandi lyf með þunglyndislyfjum í upphafi meðferðar. Róandi lyfin geta þó verið vanabindandi og henta því síður en þunglyndislyfin til langtímanotkunar. Þau þunglyndislyf sem eru notuð hafa sérhæfð áhrif á virkni taugaboðefnisins serótóníns í heila. Áhrif þessara lyfja á önnur boðefni eru mjög lítil, og þar af leiðandi eru aukaverkanir af völdum lyfjanna vægari en aukaverkanir víðtækari þunglyndislyfja. Lyf í þessum flokki sem eru skráð hér á landi gegn ofsakvíða eru Seroxat, Zoloft, Cipramil og Paroxat. Róandi lyfin eru af flokki bensódíasepína. Þessi lyf eru mikið notuð gegn kvíða, óróa og svefnleysi. Helsti kosturinn við þessi lyf er að þau slá mjög fljótt á kvíðaeinkenni, en ávanahætta dregur úr notagildi þeirra ef þörf er á meðferð til lengri tíma. Þessi lyf hafa þó fáar aukaverkanir, og þolast yfirleitt vel. Það bensódíasepínsamband sem er mest notað hér á landi gegn kvíða er alprazolam, sem er í sérlyfjunum Alprox, Paxal og Tafil. Samsettar meðferðir Margir telja að samsettar meðferðir, þar sem lyf eru gefin samhliða hugrænni atferlismeðferð, gefi bestan og varanlegastan árangur á skemmstum tíma. Enn hefur ekki verið staðfest að þetta sé raunin, en beðið er eftir niðurstöðum ýmissa rannsókna þar sem borin eru saman áhrif sálrænna meðferða eingöngu, lyfjagjafar eingöngu, og sálrænna meðferða með lyfjagjöf. Nýlega var umfangsmikilli rannsókn til dæmis hrundið af stað í Ameríku þar sem 480 sjúklingum, sem ýmist er veitt lyfið imipramine, hugræn atferlismeðferð, eða hvort tveggja, verður fylgt eftir í fjögur ár. Sálaraflsmeðferðir (psychodynamic treatment) Sálaraflsmeðferðir eru samtalsmeðferðir þar sem meðferðaraðili og sjúklingur leitast við að grafa upp tilfinningaflækjur sem þeir telja að liggi vanda sjúklingsins til grundvallar. Oft er áherslan á neikvæðum atburðum úr fortíð sjúklingsins, jafnvel löngu gleymdum atburðum, sem talið er að sjúklingurinn sé ómeðvitað í miklu uppnámi yfir. Með því að ræða tilfinningaflækjur sínar á sjúklingurinn að öðlast dýpri skilning á vandanum og eiga auðveldara með að vinna úr honum. Þrátt fyrir að sálaraflsmeðferðir dragi úr streitu hjá sumu fólki, og streita geti ýtt undir ofsakvíða, hefur ekkert bent til þess hingað til að sálaraflsmeðferðir hjálpi fólki til þess að sigrast á ofsakvíða og víðáttufælni. Hins vegar er hugsanlegt að sálaraflsmeðferðir geti verið gagnleg viðbót við aðrar meðferðir þegar aðrar tilfinningatruflanir fara saman með ofsakvíða. Þrálátur ofsakvíði Ofsakvíði er oft mjög þrálátur sjúkleiki. Hjá flestum skiptast á góð og slæm tímabil, og stundum getur ofsakvíði tekið sig upp fyrirvaralítið eftir langt sjúkdómshlé. Fólk ætti þó ekki að örvænta því hægt er að meðhöndla endurtekin kvíðaköst á sama hátt og þegar ofsakvíða verður fyrst vart. Þegar fólk hefur einu sinni sigrast á ofsakvíða reynist því venjulega auðveldara að takast á við hann ef hann tekur sig upp aftur. Jafnvel þótt ekki takist að lækna fólk alfarið, og kvíðaköst skelli öðru hvoru á, er kvíðinn ekki lengur ríkjandi þáttur í lífi þess.Aðrir kvillar sem fara saman með ofsakvíða
Þegar meðferð við ofsakvíða er valin er mikilvægt að gengið sé úr skugga um hvort einstaklingurinn þjáist af öðrum sálrænum og líkamlegum kvillum. Eftirfarandi eru dæmi um algenga fylgifiska ofsakvíða. Sértæk fælni (simple phobias) Fólk sem þjáist af ofsakvíða finnur oft fyrir óstjórnlegri og órökrænni hræðslu við ákveðna atburði eða aðstæður sem það tengir kvíðaköstunum. Til dæmis fælist fólk oft lyftur ef það hefur áður fengið kvíðakast í lyftu, eða verður gríðarlega lofthrætt hafi kvíðakast áður skollið á í mikilli hæð. Venjulega má lækna fólk af sértækri fælni með hugrænni atferlismeðferð sem miðar að því að hjálpa fólki til þess að nálgast hinar ógnvekjandi aðstæður, takast á við þær, og gera sér grein fyrir því að óttinn er ekki á rökum reistur. Félagsfælni (social phobia) Félagsfælni er þrálátur ótti við félagslegar aðstæður þar sem fólk er berskjaldað fyrir mögulegri gagnrýni. Félagsfælið fólk óttast mjög að verða sér til skammar og forðast í alvarlegum tilfellum alfarið að fara út á meðal fólks. Félagsfælni má meðhöndla með hugrænni atferlismeðferð, lyfjagjöf, eða hvoru tveggja. Þunglyndi (depression) Um helmingur fólks sem þjást af ofsakvíða þjáist af þunglyndi einhvern tímann um ævina. Þunglyndi einkennist meðal annars af þrálátri depurð, tómlæti og vonleysi. Hugræn atferlismeðferð getur verið árangursrík til að létta á þunglyndi, og lyf gefa oft góða raun í alvarlegri tilvikum. Einkenni þunglyndis· Viðvarandi depurð og tómlæti
· Vonleysistilfinning
· Sektarkennd
· Svefnraskanir
· Ánægju- og áhugaleysi
· Þreyta og minnkað úthald
· Erfiðleikar tengdir einbeitningu, minni og ákvarðanatöku.
Árátta og þráhyggja (obsessive-compulsive disorder) Þessi röskun einkennist af ósjálfráðri, órökrænni og þrálátri hugsun og hegðun. Áráttuathafnir, eins og að telja, þvo sér um hendurnar, eða ganga úr skugga um að slökkt sé á eldavélinni, geta tekið upp megnið af tíma fólks og valdið umtalsverðum truflunum á daglegu lífi þess. Þrátt fyrir að áráttuhegðun sé iðulega óskynsamleg og tilgangslaus getur fólki reynst ómögulegt að stöðva hana, og hún getur staðið fólki mjög fyrir þrifum ef ekkert er að gert. Bæði lyf og hugræn atferlismeðferð hafa gefist ágætlega til að hjálpa fólki að sigrast á áráttu og þráhyggju. Ofdrykkja Um þriðjungur ofsakvíðasjúklinga á við drykkjuvanda að stríða. Þegar áfengisvandi fer saman með ofsakvíða þarf að meðhöndla hann sérstaklega, og oft er það gert áður en meðferð er veitt við ofsakvíða. Lyfjamisnotkun Misnotkun lyfja er tíðari meðal fólks sem þjáist af ofsakvíða en almennt gengur og gerist. Metið er að um einn af hverjum sex ofsakvíðasjúklingum misnoti lyf og oft þarf að leysa lyfjavandann áður en meðferð við ofsakvíðanum hefst. Sjálfsvígstilhneigingar Nýlegar rannsóknir gefa til kynna að ofsakvíði auki hættu á sjálfsvígum, sérstaklega ef hann fer saman með þunglyndi. Þó er afar ólíklegt að viðkomandi reyni að stytta sér aldur meðan á kvíðakasti stendur. Ef sjálfsvígstilhneiginga verður vart skal samstundis leita faglegrar ráðgjafar. Með viðeigandi ráðgjöf og meðferðum má koma í veg fyrir að illa fari. Ristilkrampar (irritable bowel syndrome) Fólk með þetta heilkenni þjáist af magakrömpum, niðurgangi og hægðatregðu til skiptis, venjulega samfara streitu. Vegna þess hversu áberandi einkennin eru, láist stundum að greina ofsakvíðann hjá þessum einstaklingum. Míturlokubilun (mitral valve prolapse) Hér er um að ræða galla á hjartaloku sem skilur að vinstri hjartahólfin. Í hvert skipti sem hjartavöðvinn herpist þrýstist hjartalokan inn í rangt hjartahólf í örskamma stund, og því geta fylgt verkir í brjóstholi, hraður hjartsláttur, öndunarerfiðleikar og höfuðverkur. Sumir telja að þessi galli auki líkur á ofsakvíða, en margir eru ósannfærðir um að tengsl séu þarna á milli.Hvað veldur ofsakvíða?
Erfðir Ofsakvíði gengur í ættir, og svo virðist sem erfðir séu að einhverju leyti ábyrgar fyrir því. Til dæmis hefur komið í ljós að einstaklingur er líklegri til þess að þjást af ofsakvíða ef hann á eineggja tvíbura með ofsakvíða heldur en ef foreldri hans, systkini eða tvíeggja tvíburi þjáist af ofsakvíða. Í Bandaríkjunum fara nú fram erfðafræðirannsóknir á fjölskyldum þar sem ofsakvíði er tíður. Markmið þeirra er að greina hvort einstakir litningar orsaki ofsakvíða að einhverju leyti, og er vonast til þess að niðurstöður muni leiða til nýrra greiningar- og meðferðarleiða. Afbrigðileiki í byggingu og efnaskiptum heila Rannsóknir hafa bent til þess að ofsakvíði kunni að tengjast aukinni virkni í dreka (hippocampus) og coeruleus kjarna (locus coeruleus), svæðum í heila sem bregðast við áreitum frá líkama og umhverfi. Einnig hefur verið sýnt að nýrnakerfið er óeðlilega virkt í fólki sem þjáist af ofsakvíða, en það stjórnar til dæmis hjartsláttarhraða og líkamshita. Þó er ekki ljóst hvort þessi aukna virkni sé orsök eða afleiðing einkenna ofsakvíða. Aðrar rannsóknir hafa bent til þess að ofsakvíði kunni að stafa af afbrigðileika í benzodiazepín viðtakanemum (benzodiazepine receptors), heilafrumum sem eru viðriðnar losun kvíðastillandi efna. Þegar ofsakvíði er rannsakaður eru farnar ýmsar leiðir til þess að vekja hjá fólki kvíðaköst. Ein þeirra er að gefa mjólkursýru (sodium lactate) í æð, efni sem myndast í vöðvum við erfiðar líkamsæfingar. Koffín er meðal annarra efna sem geta hrundið af stað kvíðakasti hjá fólki sem þjáist af ofsakvíða (venjulega þarf til þess að minnsta kosti fimm bolla af kaffi). Oföndun og aðöndun koltvíoxíðsríks lofts getur enn fremur orsakað kvíðaköst hjá berskjölduðu fólki. Þar sem þessar aðferðir valda að öllu jöfnu ekki kvíðaköstum hjá fólki sem ekki þjáist af ofsakvíða, er gjarnan gert ráð fyrir því að einstaklingar sem þjást af ofsakvíða séu líffræðilega frábrugðnir öðru fólki að einhverju leyti. Þó er rétt að hafa í huga að þegar fólki með ofsakvíða er sagt við hvaða líkamseinkennum það megi búast fær það mun síður kvíðaköst. Þetta gefur til kynna að ofsakvíði sé hvort tveggja líffræðilegs og sálfræðilegs eðlis. Meðal þess sem nú er verið að rannsaka er hvaða hlutverki ákveðnir hlutar heila og miðtaugakerfis gegna í ofsakvíða, hvað gerist þegar kvíðaköst eru framkölluð, og hvaða hlutverki öndunarerfiðleikar gegna í almennum kvíða og kvíðaköstum. Dýrarannsóknir Athuganir á kvíða hjá dýrum hafa gefið ákveðnar vísbendingar um orsakir ofsakvíða. Nokkrar rannsóknir hafa til dæmis verið gerðar á innræktuðum stofni af bendihundum (veiðihundakyn, enska: pointer dogs), sem eru óeðlilega hræddir og taugaveiklaðir í návist fólks og bregður illilega við hvers konar hávaða. Þessir taugaveikluðu hundar sýna mun sterkari viðbrögð við kaffi en aðrir bendar, og hafa fleiri viðtakanema í heila fyrir adenósín, náttúrulegt róandi efni í heila. Vonast er til þess að frekari rannsóknir á bendum muni leiða í ljós hvernig erfðafræðilegur móttækileiki fyrir kvíða kemur fram í gerð heilans. Nú standa einnig yfir rannsóknir á heila ákveðinnar apategundar (macaque) sem vonast er til að muni varpa betra ljósi á orsakir ofsakvíða. Komið hefur í ljós að sumir þessara apa sýna kvíðaviðbrögð þegar þeim er gefin mjólkursýra í æð en aðrir ekki, og vonast vísindamenn til þess að greina hvaða mismunur í heila sé ábyrgur fyrir þessum ólíku viðbrögðum. Að lokum fara nú fram rannsóknir á rottum þar sem kannað er hvaða viðbrögð ýmis lyf vekja á svæðum heilans sem viðriðin eru kvíða. Vonast er til þess að slíkar rannsóknir muni leiða í ljós hvaða hlutar heilans séu ábyrgir fyrir kvíða og hvernig megi stjórna virkni þeirra. Hugrænir þættir Ýmsar rannsóknir fást nú við að greina hvaða hugarferli og tilfinningar tengist kvíðaköstum og víðáttufælni, og hvaða meðferðarleiðir henti hverjum og einum best. Einnig er verið að kanna hvort streituþættir, svo sem hjónabandserfiðleikar, hafi eitthvað að segja um ofsakvíða og víðáttufælni, og hvort hugræn atferlismeðferð sé árangursríkari þegar maki viðkomandi tekur virkan þátt í henni.Að leita sér hjálpar
Eins og greint er frá hér að framan hafa bæði lyfjameðferðir og hugrænar atferlismeðferðir reynst áhrifaríkar lausnir við ofsakvíða. Strangt til tekið er öllum læknum heimilt að ávísa geðlyfjum, en ráðlegt er að leitað sé til læknis sem er sérfróður um ofsakvíða svo að greining og meðferðarval verði eins og best er á kosið. Að sama skapi ætti einungis að leita hugrænnar atferlismeðferðar hjá sálfræðingi eða öðrum fulltrúa heilbrigðisstéttarinnar sem hefur tilhlíta sérhæfingu og reynslu. Eftirtaldir aðilar og stofnanir ættu að geta vísað á sérhæfða meðferðaraðila:· Heimilislæknar og aðrir læknar
· Geðheilbrigðisstarfsmenn, svo sem geðlæknar og sálfræðingar.
· Heilsugæslustöðvar
· Geðdeildir sjúkrahúsa
· Geðheilbrigðissamtök, svo sem Geðhjálp
Einnig er listi yfir sálfræðinga og geðlækna aftast í símaskránni í Gulu síðunum og á þessum vef. Sjálfshjálparhópar og stuðningshópar eru ódýrar meðferðarleiðir sem geta reynst sumum gagnlegar. Venjulega er um að ræða 5-10 manna hóp sem hittist reglulega til að ræða vandann og miðla ráðleggingum og stuðningi. Öðrum fjölskyldumeðlimum er oft boðið að sitja fundina og fagfólk er stundum fengið til að hafa yfirsýn með umræðunni. Aðstoð við fjölskyldur Ofsakvíði getur lagst þungt á alla fjölskyldu þess sem af honum þjáist. Fólk finnur oft fyrir reiði, depurð og vanmáttarkennd yfir ástandi hins þjáða, finnst það gjarnan vera að sligast undan þeirri auknu ábyrgð sem það þarf að takast á hendur, og hefur jafnvel á tilfinningunni að það sé að einangrast félagslega. Fjölskyldumeðlimir ættu ávallt að hvetja einstaklinginn til að leita sér faglegrar hjálpar, og ættu auk þess að leita ráða um hvernig þeir geti sjálfir tekist best á við vandann. Stundum getur það reynst fjölskyldunni hjálplegt að leita gagnkvæms skilnings og ráðlegginga hjá öðrum fjölskyldum sem eins er ástatt fyrir. Fjölskyldan getur farið ýmsar leiðir til þess að hjálpa þeim sem þjáist af ofsakvíða. Hér á eftir fara nokkrar gagnlegar ráðleggingar. Hvað þú ættir að gera ef einhver í fjölskyldunni þjáist af ofsakvíða1. Ekki gera ráð fyrir því að þú vitir best hvers einstaklingurinn þarfnast, spurðu hann/hana.
2. Reyndu að forðast óvæntar uppákomur.
3. Ekki reyna að stjórna því hversu hraður batinn er, leyfðu viðkomandi að ná bata á eigin hraða.
4. Reyndu að finna eitthvað jákvætt í öllu. Ef viðkomandi fer hálfa leið að settu marki, snýr til dæmis við miðja vegu í kvikmyndahús eða samkvæmi, skaltu líta á það sem árangur. Ekki láta viðkomandi finnast hann hafa brugðist vonum þínum.
5. Ekki auðvelda forðun. Hvettu einstaklinginn til að taka eitt skref í áttina að því sem hann vill forðast.
6. Ekki fórna eigin lífi og ala á gremju.
7. Reyndu að halda ró þinni þegar viðkomandi fær kvíðakast.
8. Mundu að það er eðlilegt að þú hafir áhyggjur fyrir hönd viðkomandi og sért ef til vill kvíðin(n).
9. Sýndu þolgæði og skilning en sættu þig ekki við að einstaklingurinn verði ósjálfbjarga.
10. Segðu eitthvað uppörvandi, eins og t.d.: ,,Þú getur gert þetta þótt þér líði illa. Ég er stolt/ur af þér. Get ég gert eitthvað fyrir þig? Andaðu hægt og rólega. Einbeittu þér að stað og stund. Það eru ekki aðstæðurnar sem eru að angra þig heldur hugsanir þínar. Ég veit að þér líður hræðilega, en þér er ekki hætta búin. Þú er hugrökk/hugrakkur.“
Ekki segja: ,,Slappaðu nú af. Vertu róleg/ur. Ekki vera kvíðin/n. Þú hlýtur að geta gert/prófað þetta. Þú getur barist gegn þessu. Hvað eigum við að gera næst? Ekki láta eins og fífl. Þú verður að halda þetta út. Svona, engan roluskap“.
Byggt á efni frá Geðheilbrigðisstofnun Bandaríkjanna