persona.is
Netfíkn
Sjá nánar » Fíkn

Hvað er Netfíkn?

Netnotkun á Íslandi er einhver mesta í heiminum. Rúmlega 70% Íslendinga hafa nú aðgang að tölvu sem tengd er Netinu og sækja þangað reglulega. Fólk notar Netið til ýmissa hluta, allt frá því að kynna sér ýmis efni yfir í það að eiga í samskiptum við fjarlæga vini og ættingja.

Margir láta sér nægja að gægjast á Netið einu sinni í viku meðan aðrir eru friðlausir ef ADSL tengingin þeirra dettur niður. Fyrir marga er Netið frístundagaman – líkt og að lesa góða bók – en fyrir aðra er Netið atvinnutæki. Ráðamenn hvetja fólk til að sækja Netið, kynna sér það og nýta kosti þess og fullyrða að Netið verði okkar helsta tól í framtíðinni. Hvenær er þá hægt að segja að netnotkun sé orðin að vandamáli, jafnvel fíkn?

Það er líkt með netfíkn og öðrum fíknum, sem ekki er hægt að tengja við misnotkun efna, að oft er erfitt að draga mörkin milli þess sem telst eðlilegt og þess sem telst óeðlilegt (sjá grein um áfengi). Það er erfitt að fallast á það að kalla það netfíkn að lesa tölvupóstinn sinn í vinnunni. Að sama skapi held ég að enginn geti efast um að sá sem vanrækir sjálfan sig og skyldur sínar vegna Netsins eigi við vandamál að stríða. Mörkin eru samt mjög óskýr. Erum við að tala um fleiri en 10 tölvupósta á dag? Meira en 30 mínútur? Lýsingin á vandanum verður því að felast í greiningunni. Vandinn er sá að greiningin byggist á huglægu mati.

Netfíkn er mjög ungt hugtak og eru rannsóknir á þessu fyrirbæri mjög fáar og erfitt að draga af þeim ákveðnar niðurstöður. Netfíkn er ekki skilgreind sem geðræn röskun samkvæmt nýjustu útgáfu greiningarkerfis bandarísku geðlæknasamtakanna, DSM-IV (Diagnostic and Statisical Manual) frá 1994. Óhætt er því að fullyrða að umræðan sem á sér stað í dag á eftir að mótast eftir því sem lengra líður og fleiri rannsóknir og meiri reynsla eiga eftir að varpa mun betra ljósi á netfíknina. Allra fyrstu rannsóknir á þessu sviði voru ekki gerðar fyrr en 1991 og þeim fór ekki að fjölga verulega fyrr en upp úr 1995, enda netnotendur ekki orðnir það margir á þessum tíma að grundvöllur væri til að rannsaka þá.
Heitasta umræðan verður að öllum líkindum um það hvort Netið sé ekki bara nýr farvegur fyrir fíkn sem áður hefur komið fram. Ný leið til að nálgast það sem fíknin fjallar um fremur en að Netið sjálft geri fólk fíkið eða að fíklum.

Eru til mismunandi tegundir Netfíknar?

Margir telja að netfíkn geti greinst í undirflokka sem ræðst af því hvað það er sem fólk sækir helst á Netið. Þannig má finna umfjöllun um:

· Kynlífsnetfíkn sem skiptist í netkynlífs(Cyber Sex)- og netklámfíkn.
· Sambandsfíkn (cyber-relationships)
· Tölvupóstfíkn (eMail)
· Verðbréfabrask-á-Netinu-fíkn (Online stock trading)
· Netspilafíkn (Online Gambling)
· Netuppboðsfíkn (Online Auctioning)
· Upplýsingafíkn (Information surfing)
· Leikjafíkn (computer games)

Eins og sjá má er grundvöllur þessarar greiningar fyrst og fremst byggður á því sem fólk sækist eftir í netnotkun og er því alls ekki eðlismunur á flokkum. Það má því deila um hvaða máli það skiptir að greina þessa fíkn svo smátt. Þetta er eitt þeirra umræðuefna sem fræðimenn ræða nú varðandi netfíknina. Auðvelt er líka að taka eftir því að sumir þessara undirflokka eru þekktir sem sjálfstæðar fíknir, s.s. spilafíkn og kynlífsfíkn. Það vekur vissulega upp spurninguna hvort hér séu nýjar tegundir fíknar á ferðinni eða ný mynd af áður þekktum fíknum?

 

Hvað einkennir Netfíkn?

Netfíkn er ekki hluti af formlegu greiningarkerfi (t.d. DSM IV) en ef hún rataði þangað inn þá er líklegast að hún skipaðist í flokk sem heitir Röskun í hvatarstjórnun (impulse control disorder). Þessi flokkur tekur á hegðunarvandkvæðum sem hverfast öll um það að geta ekki stöðvað hegðun sína. Þarna má m.a. finna spilafíkn og stelsýki. Líklegt er að rannsóknir sýni betur hvernig þessar fíknir eru tengdar.

Til greiningar á netfíkn hafa verið notaðir sömu mælikvarðar og fyrir spilafíkn (sjá grein um spilafíkn). Notandinn er beðinn um að svara lista sem tekur á einkennum eins og

· Að vera upptekinn af netnotkun (hugsa um fyrri notkun og hlakka til áframhaldandi notkunar).
· Finnast þurfa að nota Netið oftar og lengur til að fá fullnægt löngunum sínum.
· Endurteknar tilraunir til að stjórna netnotkun, minnka eða stoppa hafa mistekist.
· Pirringur, skapsveiflur, mæði og eiðarleysi grípa um sig þegar ekki er verið að vafra um Netið.
· Ílengjast á Netinu, vera lengur en gert var ráð fyrir í upphafi.
· Hætta á að skaða náið samband, missa vinnu eða glata skóla- eða framatækifæri vegna Netsins.
· Logið til um notkun við nána fjölskyldumeðlimi, meðferðaraðila eða aðra til að hylja hversu mikil
   raunveruleg notkun er.
· Nota Netið sem flóttleið til að flýja vandamál eða að láta sér líða betur.

Próf sem greina netfíkn (og mörg hver má finna á Netinu, sjá síðar) benda á það við úrvinnslu að það nægi fyrir þátttakandann að kannast við meira en 5 atriði í sínu fari til að hann teljist til áhættuhóps.

Skoðum atriðin betur. Hvað gerist ef við skiptum út orðinu Net fyrir orðið bók. Hver kannast ekki við að hafa lesið lengur en hann gerði ráð fyrir? Hver kannst ekki við að hafa orðið pirraður þegar einhver truflaði hann við lestur góðrar bókar? Hver hlakkar ekki til að hreiðra um sig í sófanum með nýja bók sér við hönd? Hver hefur ekki falið sig bak við Moggann í stað þess að ræða vandamálin? Eigum við þá líka að tala um bókafíkn? Prófaðu það sama fyrir orðið íþróttir. Margir fara út að hlaupa þegar þeir verða reiðir. Margir hlakka til að fara á æfingar. Eigum við að halda áfram?

Með þessu er ekki verið að gera lítið úr vanda þeirra sem hafa glatað stjórn á netnotkun sinni og þeir og þeirra nánustu liðið fyrir. Það er aðeins verið að benda á að kannski er ekki Netinu alfarið um að kenna. Eigi einhver erfitt með að stjórna Netnotkun sinni er líklegt að sá hinn sami hafi áður átt og á eftir að eiga erfitt með að stjórna hegðun sinn.

Greining á röskun getur því aldrei farið fram með stuttum spurningalista, hún er alltaf í höndum fagfólks. Spurningar veita aðeins upplýsingar um það hvort líklegra sé að einstaklingur þjáist af fíkn eða ekki. Við greiningu hefur það mest áhrif hvort hegðun hans hafi áhrif á daglegar athafnir hans, vinnu eða skóla, fjölskyldulíf og svo framvegis. Sé hann til að mynda hættur að sinna vinnu eða skóla þá er augljóslega eitthvað að.

 

Hverjir fá og hvað veldur Netfíkn?

Umræðan um netfíkn er það ný af nálinni að rannsóknir á henni eru fáar og skortir alhæfingargildi. Aðallega er um að ræða kannanir á netnotkun þar sem þátttakendur eru spurðir að því hversu miklu tíma þeir eyða á Netinu og ályktanir dregnar út frá því. Sumar kannanir leggja fyrir spurningalista í ætt við þá sem lagðir eru fyrir til greiningar á fíknum, eins og spilafíkn eða áfengissýki. Það eina sem hægt er að fullyrða er að netfíkn virðist leggjast helst á ungt fólk, í háskóla og frekar stráka en stelpur. Það má í þessu sambandi benda á að stærstur hópur netnotenda er ungt fólk, (til langs tíma aðallega strákar), í háskóla.

Á þessu stigi er ekkert hægt að fullyrða um orsök netfíknar. Hins vegar er vert að benda á skyldleika hennar við röskun á hvatastjórnun og aðrar fíknir, svo sem spilafíkn. Fíkn er skilgreind af:
· Áráttu og þráhyggjuhegðun
· Áframhaldandi notkun þrátt fyrir óhagstæðar afleiðingar
· Að missa stjórn (hér: á netnotkun sinni)

Vert er að benda á samsvarandi umfjöllun um aðrar fíknir hér á vefnum (t.d. spilafíkn). Það er svo erfitt að fullyrða eitthvað um orsök þar sem rannsóknir eru svo stutt á veg komnar að mér finnst ég ekki geta gert neitt nema benda á skyldleika við aðrar fíknir og í umfjöllun þar. 

 

Hvernig fer greining fram?

Greining er alltaf í höndum fagfólks. Hún hefst alla jafna með skimunarprófi þar sem þátttakandinn er spurður út í netnotkun sína. Niðurstöður prófsins gefa til kynna hversu miklum tíma einstaklingurinn eyðir á Netinu og hvaða áhrif það hefur á líf hans.
Greining á röskun getur aldrei eingöngu farið fram með skimunarprófi. Skimunarpróf veita aðeins upplýsingar um það hvort líklegt sé eða ekki að einstaklingurinni þjáist af fíkn. Við greiningu hefur það mest áhrif hvort hegðun hans, sem er til umræðu, hefur áhrif á daglegar athafnir hans, vinnu eða skóla, fjölskyldulíf og svo framvegis. Ef hann er hættur að sinna vinnu eða skóla þá er klárlega eitthvað að.

Fylgikvillar

Líklegt er að Netfíkn sé tengd öðrum fíknum sem DSM IV flokkar undir hvatastjórnunarraskanir (impulse control disorder). Rannsóknir munu leiða þetta betur í ljós.

 

Hvaða meðferð er hægt að veita?

Meðferð byggist oft á hugrænni meðferð, fjölskyldumeðferð, þjálfun í félagslegri færni og stundum lyfjameðferð. Stuðningshópar og endurhæfing hefur einnig reynst vel.
Í meðferð beinist einkum athyglin að því að kenna netnotandanum að ná stjórn á hegðun sinni. Þessi meðferðarform geta ekki komið í veg fyrir að hegðunin taki sig upp aftur en gerir notandanum kleift að kljást við hvatir sínar og ná meiri færni í að stjórna þeim.

Með hugrænni meðferð er lögð áhersla á að kenna netnotandanum ýmsar aðferðir sem gera honum auðveldara fyrir að grípa fram í fyrir ,,sjálfum sér“ eða þegar hann missir stjórn á sér í tölvunni.

Lyfjameðferð getur gert sjúklingnum auðveldara fyrir að halda stjórninni á sjálfum sér.

Í fjölskyldumeðferð og stuðningshópum hittist fólk sem hefur átt við sama vanda að stríða og ræðir með hjálp hópstjórnanda hvernig það getur yfirunnið fíknina og náð stjórn á hegðun sinni. Slíkir hópar hafa ekki ennþá, mér vitanlega, komið saman hér á landi, en það er hægt að finna þá víða á Netinu, þótt einhverjum gæti fundist það undarlegur staður til að fást við Netfíkn! Sjá til dæmis http://www.netaddiction.com/clinic.htm eða http://www.metanoia.org/imhs/.
Sjá líka umfjöllun um meðferð vegna annarra fíkna (s.s. spilafíkn).

Batahorfur

Rannsóknir eiga enn eftir að leiða í ljós hlutfall þeirra sem ná fullum bata eftir meðferð.

Hvert er hægt að leita til að fá hjálp?

Sálfræðingar og geðlæknar sem hafa sérhæft sig í fíkn geta veitt hjálp. Enginn sálfræðingur hér á landi hefur sérhæft sig í meðferð við netfíkn. 

 

Hvað getur þú gert?

Ef þú átt við vandamál að stríða

Ef þig grunar að ekki sé allt með felldu með netnotkun þína eða einhver þér nákominn reynir að benda þér á að tölvunotkun þín sé meiri en góðu hófi gegnir, ættir þú að athuga hvort einhver fótur sé fyrir grunsemdum og aðdróttunum í þinn garð og taka skimunarpróf. Það má finna á íslensku hér á vefnum okkar. Leiði skimunarprófið í ljós að þú sért í áhættuhópi skaltu leita ráða hjá fagaðila.

Ef þú ert aðstandandi

Byrjaðu á að kynna þér efni um netfíkn. Mikið af því má finna á Netinu, sjá t.d. tengla á þessari síðu. Þar er líka sérstakur hluti vefsins tileinkaður vefekkjum, svokölluðum. Þetta mun gera þig reiðubúna/reiðubúinn til að takast á við vandann þegar og ef netnotandinn leitar sér aðstoðar.

Varastu að ráðast á þann sem þér er kærkominn með reiði og ásökunum, slíkt mun síst leiða til árangurs. Umfram allt leitaðu sjálfri/sjálfum þér hjálpar vegna eigin líðan svo að þú getir á betri hátt fengist við vandann, sem er kannski heima fyrir hjá þér.

 

Reynslusögur

Reynslusögur sjúklinga

Reynslusögur sjúklinga má finna víða á Netinu. Hérna er ein sem snarað hefur verið yfir á íslensku:

Hvaða lykt er þetta?
Þegar ég eignaðist fyrstu tölvuna mína og komst í samband við Netið átti ég það til að vaka langt fram eftir og stundum fram á morgun. Enda þótt ég vissi að vinna biði mín og áhrif svefnleysis þá hundsaði ég það.

Þegar vika var liðin með tilheyrandi vitleysu og trekktum taugum (sem voru óhjákvæmlegur fylgifiskur aukinnar kaffineyslu) fann ég að ég var kominn á hálan ís. Morgun einn leit ég upp frá lyklaborðinu og horfði umhverfis mig. Það var full nauðsyn að fara út með ruslið. Óhreinn þvottur flæddi út úr þvottakörfunni og helgin hafði liðið án þess að ég tæki eftir því. Íbúðin mín var í einu orði sagt, ruslahaugur. Um leið uppgötvaði ég að maturinn hafði breyst í næringarsnautt ruslfæði og ég borðaði minna (ég missti þó nokkur kíló í bónus).

Að lokum kom að því að ég ákvað að taka aftur stjórnina á lífi mínu, byrjaði á því að þrífa íbúðina mína og gerði það sem þurfti að gera. Ég mun aldrei gleyma því í hverju ég lenti. Niðurstaða mín varð á þá leið að hafi manneskja einhvern sjálfsaga og ábyrgðartilfinningu þá muni hún í versta falli tapa áttum tímabundið, áður en hún nær valdi á sjálfri sér á ný.

Hér segja nokkrir bandarískir netfíklar af reynslu sinni: http://abcnews.go.com/sections/living/DailyNews/netaddictletters032699.html

Reynslusögur aðstandenda

Reynslusögur aðstandenda má finna víða á Netinu. Hérna er dæmi sem snarað hefur verið yfir á íslensku.

Út um víðan vef
Þessi saga er ekki af mér, heldur konunni minni. Hún viðurkennir ekki að hún sé háð spjallrásum á Netinu. Fíkn hennar hefur skemmt hjónaband okkar það mikið að erfitt er að sjá fyrir endann þá því. Fyrir nokkrum mánuðum (10 eða 12) hóf hún að sækja „Ancient Sites“ spjallrásina. Hún byrjaði á því að eyða nokkrum tímum á viku á henni sem nú eru orðnir milli 18 og 20 á dag, sjö daga vikunnar.

Hún sagðist vera leita að „gáfulegum“ samræðum. Þvílíkt rangnefni; það er ekki mikið um gáfur á spjallrásum vefsins. Hún er viðkvæm fyrir skjalli karlmanna sem leituðu kynlífs. Síðustu 8-10 mánuði hefur hún haldið framhjá mér (í huganum) á spjallrásum og síðan í beinu framhaldi í síma með að minnsta kosti sex mönnum(við höfum greitt yfir $2000 í símreikninga). Nýlega keypti hún sér flugmiða (frá Hollandi til Kansas City, Mo.) til að hitta einn elskhuga sinn af Netinu og innsiglaði framhjáhaldið, líkamlega.

Við eigum tvö börn, 4 ára dreng og 2 ára stúlku. Konan mín sinnir ekki heimilisstörfum, hún eldar ekki mat, svarar ekki símtölum nema þau séu frá netvinum hennar, viðurkennir að það sem hún gerir sé rangt. En virðist vera tilbúin til að fórna börnunum sínum fyrir það að sitja fyrir framan tölvuskjá við það eitt að skoða þrjár eða fjórar spjallrásir í einu með fimm til sex manns í hverri.

Ég er viss um að þetta er meira en fíkn, þetta er geðveila.

Sömuleiðis má finna reynslusögur aðstandenda hér: http://abcnews.go.com/sections/living/DailyNews/netaddictletters032699.html

Margrét Dóra Ragnarsdóttir

BA í sálfræði