Hvað eru námsörðugleikar?
Á síðunum hér á eftir er að finna margvíslegar upplýsingar um námsörðugleika. Fjallað er um helstu gerðir námsörðugleika, hugsanlegar orsakir og meðferðarúrræði. Til frekari glöggvunar er gripið inn í sögur tveggja einstaklinga sem eiga við námsörðugleika að etja. Að SKILJA VANDANNSunna
Sunna er hæglát 14 ára stúlka. Sem barn var hún svo hlédræg að fólk gleymdi stundum að hún var viðstödd. Hún dró sig gjarna inn í eigin skel, átti fáa vini og lék sér ýmist við yngri systur sína eða ein með dúkkurnar sínar. Hún kallaði hlutina oft röngum nöfnum og hafði óbeit á lestri og stærðfræði í skóla. Bókstafir, tölustafir og tákn voru merkingarlaus fyrir henni. Henni var sagt að hún væri þroskaheft og var sannfærð um að það væri rétt. Sjálfstraust hennar var í molum.
Danni
Danni er 23 ára gamall og virðist enn hafa of mikla orku. Hann hefur alltaf átt afskaplega erfitt með að slappa af, og þegar hann var lítill hoppaði hann stundum á sófanum í marga klukkutíma þangað til að hann örmagnaðist. Danni gat aldrei setið kyrr í grunnskóla og truflaði kennslu, en þar sem hann var vingjarnlegur drengur reitti hann fullorðna sjaldan til reiði. Þegar Danni var í þriðja bekk varð ljóst að hann ætti við námsörðugleika að stríða. Þá gat hann einungis lesið nokkur orð og skriftarkunnátta hans var á við barn í fyrsta bekk. Kennarinn hans lagði til að hann sæti eftir um bekk en eftir annað ár í þriðja bekk var hegðun hans enn til vandræða og lestrar- og skriftarkunnátta hans hafði ekkert skánað.
Danni og Sunna eru uppspunnar persónur, en sögur þeirra eru lýsandi fyrir marga sem eiga við námsörðugleika að etja. Hugtakið nám er mjög vítt. Af umhverfi sínu og samspili við aðra læra börn t.d. að tala, leika sér, reikna, skrifa og lesa. Strangt til tekið væri því hægt að tala um námsörðugleika ef börn eiga í vandræðum með að tileinka sér eitthvað af þessu. Þess vegna er jafnan gerður greinarmunur á sértækum námsörðugleikum og námsörðugleikum sem taka til almennari náms, t.a.m. máltöku. Eins og nafnið gefur til kynna ná sértækir námsörðugleikar til erfiðleika barna við að tileinka sér tiltekið námsefni, án þess að áhrifanna gæti á öðrum sviðum. Hér á eftir verður einkum fjallað um sértæka námsörðugleika. Einkenni og greiningarviðmið fyrir námsraskanir er að finna í tveimur greiningarhandbókum. Önnur þeirra kallast DSM (Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders) og er gefin út af bandaríska geðlæknafélaginu, hin handbókin heitir ICD (International Statistical Classification of Diseases and Related Health Problems). Í Evrópu er notast við ICD en í Bandaríkjunum DSM. Á síðustu árum hefur þróunin orðið sú að þessi kerfi eru að líkjast æ meira hvoru öðru. Umfjöllunin sem hér fer á eftir miðast við þessi kerfi, þó aðallega ICD. Fjallað er um formlega greiningu námsörðugleika síðar í kaflanum. Í ICD-10 flokkunarkerfinu falla sértækir námsörðugleikar undir flokk sem heitir raskanir á sálarþroska. Undir þessum flokki eru einnig: Sértækar tal og málþroskaraskanir, Sértæk þroskaröskun á hreyfisamhæfingu og Gagntækar þroskaraskanir. Á undanförunum árum hefur mikil umræða verið um námsörðugleika, bæði meðal almennings og fræðimanna. Meðal fræðimanna eru ýmsar hugmyndir á lofti um orsakir, greiningu og meðferð. Þessum álitamálum verður ekki gert skil hér. Þess í stað er leitast við að gefa almennt yfirlit um námsörðugleika.Sértækir námsörðugleikar
Sérækra námsörðugleika verður jafnan fyrst vart Í skóla. Nemandinn sýnir þá slaka frammistöðu í lestri, skrift eða stærðfræði. Rétt er þó að hafa í huga að þótt námsörðugleikar komi niður á skólastarfi á hugtakið við um umfangsmeiri vanda en slakar einkunnir, og að slök frammistaða barns í skóla merkir ekki nauðsynlega að það eigi við námsörðugleika að stríða. Sum börn eru einfaldlega aðeins seinni til en önnur, og til að um námsörðugleika sé að ræða verður ákveðnum greiningarviðmiðum að vera mætt. Undir þennan flokk heyra þrír undirflokkar:· Lesröskun (Developmental Reading Disorder)
· Ritröskun (Developmental Writing Disorder)
· Reikniröskun (Developmental Arithmetic Disorder)
LesröskunÞessi röskun er ef til vill betur þekkt undir heitinu lesblinda eða dyslexia.
Lestur er flóknara ferli en virðist við fyrstu sýn og byggist á þéttofnu neti af taugafrumum sem tengja saman sjón-, mál- og minnissvæði í heilanum. Til þess að geta lesið þarf til dæmis að:· Geta beint athyglinni að bókstöfunum og stjórnað augnhreyfingum yfir blaðsíðuna
· Þekkja hljóðin sem bókstafirnir tákna
· Skilja orð og málfræði
· Geta tileinkað sér ný hugtök
· Geta tengt ný hugtök fyrri þekkingu
· Geta fest orð og hugtök í minni
Lestrarörðugleikar geta stafað af vandkvæðum tengdum öllum ofangreindum þáttum. Lesblint fólk á oft erfitt með að greina mismunandi málhljóð í orðum. Lesblind börn þekkja oft ekki orð þegar þau eru stöfuð, átta sig til að mynda ekki á því að m-ú-s er sama orðið og „mús“, og eiga auk þess oft erfitt með að finna orð sem ríma. Lestrarrannsóknir hafa leitt í ljós að hvort tveggja eru grundvallaratriði í lestrarnámi. Útlitið er þó ekki alslæmt, því þróaðar hafa verið aðferðir sem hafa reynst áhrifaríkar til að kenna börnum að þroska þessa hæfileika. Góð lestrarkunnátta er þó annað og meira en að bera kennsl á orð. Í efri bekkjum þegar áhersla er lögð á skilning fremur en orðkennsl koma gjarnan fram annars konar lestrarörðugleikar tengdir færni til að leggja á minnið ný hugtök, skilja þau og tengja fyrri þekkingu. RitröskunÞað að skrifa tengist, líkt og lestur, margvíslegri virkni í heila. Til að maður geti skrifað verða tauganet ábyrg fyrir orðaforða, málfræði, hreyfingu handa og minni að starfa rétt, og skriftarörðugleikar geta stafað af hömlun á hverju einu þessara sviða. Ritröskun er vitanlega nátengd lesröskun og málþroskaröskunum. Það gefur til dæmis auga leið að sá sem ekki getur greint mismunandi málhljóð í orðum mun eiga erfitt með stafsetningu. Einnig eru börn sem eiga við ritröskun að stríða oft ófær um að setja fram málfræðilega gildar setningar, og fer það saman með tjáningarröskun sem fjallað er um síðar.
ReikniröskunReikningur er ekki síður flókið ferli en lestur og skrift. Til að geta reiknað þarf að þekkja tölustafi og tákn, muna margföldunartöfluna, og skilja ýmis óhlutstæð (abstract) hugtök svo eitthvað sé nefnt. Hvert þessara atriða getur reynst börnum nær ómögulegt. Örðugleikar tengdir tölum eða grunnhugtökum svo sem „plús“ og „mínus“ koma yfirleitt mjög snemma fram. Örðugleikar sem koma fram í efri bekkjum tengjast venjulega göllum í röksemdafærslu.
Að tala, hlusta, lesa, skrifa og reikna skarast allt saman innbyrðis og byggist að miklu leyti á sömu ferlum. Það að skilja mál liggur til dæmis til grundvallar því að geta lært að tala og því gefur auga leið að röskun sem rýrir málskilning mun einnig rýra málþroska. Lítill málþroski hamlar svo aftur lestrar- og skriftarnámi.Hverjar eru orsakir námsörðugleika?
Fyrstu viðbrögð foreldra eru oft að spyrja „hvað fór úrskeiðis?“ en sérfræðingar leggja mikla áherslu á að þar sem enginn veit með vissu hvað veldur námsörðugleikum er gagnslaust fyrir foreldra að leita orsaka í fortíð barnsins. Það kemur einfaldlega svo margt til greina að ekki er nokkur leið að vita með vissu hvað veldur. Því er mun skynsamlegra fyrir foreldra að líta fram á við og leita leiða til að bæta úr vandanum. Það kemur hins vegar í hlut rannsakenda að leita orsaka námsörðugleika í von um betri meðferðir og forvarnir. Sú var tíð að sérfræðingar héldu að allir námsörðugleikar stöfuðu af einangruðum taugafræðilegum vanda, en rannsóknir hafa sýnt að dæmið er töluvert flóknara en svo. Ný gögn benda til þess að flestar gerðir námsörðugleika stafi af hömlum í boðskiptum milli mismunandi svæða í heilanum fremur en að þeir eigi upptök sín í einhverju einu einangruðu svæði. Sú kenning sem nú á hvað mestu fylgi að fagna leggur til að námsörðugleikar stafi af hárfínum göllum í byggingu og virkni heilans. Sumir sérfræðingar telja að slíkir gallar eigi í mörgum tilfellum upptök sín í móðurkviði. Þroskagallar í heila á fósturstigiÁ meðgöngu þróast heilinn úr nokkrum ósérhæfðum frumum yfir í feiknarlega flókið líffæri, gerðu úr milljörðum sérhæfðra taugafruma sem tengjast í flóknu neti og kallast taugungar. Á meðan heilinn tekur þessum breytingum getur ýmislegt farið úrskeiðis sem getur breytt því hvernig taugungar myndast eða tengjast innbyrðis.
Á fyrstu stigum meðgöngu myndast heilastofninn sem er ábyrgur fyrir grundvallar líkamsstarfsemi, svo sem öndun og meltingu. Seinna á meðgöngunni myndast heilabörkurinn, sá hluti heilans sem er ábyrgur fyrir hugsun, og fyrir miðju hans djúp skora sem skiptir heilanum í vinstra og hægra heilahvel. Að lokum þróast svo mismunandi svæði heilabarkarins og verða miðstöðvar mismunandi skynjunar og hugarferla, svo sem sjónar, heyrnar, athygli, hugsunar og tilfinninga. Nýjar frumur verða til og mynda ólíka heilastrúktúra, og taugafrumur mynda tauganet sem tengir mismunandi hluta heilans og gera upplýsingum kleift að berast frá einum hluta til annars. Heilinn er afar berskjaldaður fyrir hvers konar truflunum á meðgöngu. Ef skemmdir verða snemma á meðgöngu getur það valdið fósturláti, alvarlegri fötlun eða þroskahömlun. Ef truflun verður á síðari stigum meðgöngu, þegar frumur eru orðnar sérhæfðar og farnar að skipa sér á rétta staði, getur það valdið göllum í gerð fruma, staðsetningu eða tengslum þeirra á milli. Sumir sérfræðingar telja að slíkir gallar geti síðar valdið námsröskunum. Aðrir þættir sem hafa áhrif á þróun heilaRannsóknir á mannsheilanum og tilraunir á dýrum hafa gefið ýmsar vísbendingar um það hvað getur farið úrskeiðis í þróun heilans og hvers vegna. Meðal þess sem rannsakað hefur verið eru hvaða áhrif erfðir, misnotkun lyfja og áfengis, vandamál á meðgöngu og eiturefni í umhverfi hafa á myndun heilans.
Erfðaþættir. Námsörðugleikar virðast vera algengari í sumum fjölskyldum en öðrum og gefur það til kynna að þeir séu að einhverju leyti erfðir. Til dæmis er algengt að foreldri barns sem á erfitt með að aðgreina mismunandi málhljóð eigi í svipuðum vanda. Þó er vandi foreldris yfirleitt aðeins frábrugðinn vanda barnsins og er því ólíklegt að námserfiðleikar erfist beint. Þannig gæti foreldri barns sem á erfitt með að tjá sig munnlega til dæmis átt við ritröskun að etja. Hugsanlegt er að smávægilegir gallar í virkni heila erfist, og að þessir gallar taki svo á sig mynd námserfiðleika hver með sínum hætti. Ólíkar fjölskylduaðstæður eru önnur hugsanleg skýring á því að námsörðugleikar eru tíðir í sumum fjölskyldum og fátíðir í öðrum. Börn læra tungumálið að miklu leyti af foreldrum sínum, og ef foreldrar eiga til dæmis erfitt með að tjá sig og tala vitlaust og lítið við börn sín, er ekki ólíklegt að það komi fram í málörðugleikum hjá börnunum. Áfengis-, tóbaks- og lyfjanotkun. Ýmis lyf sem tekin eru á meðgöngu berast beint til fósturs og rannsóknir benda til þess að neysla áfengis, tóbaks og annarra lyfja geti haft skaðleg áhrif. Þunguðum konum er því ráðlagt að halda allri neyslu lyfja í lágmarki meðan á meðgöngu stendur. Rannsóknir hafa sýnt að mæður sem reykja á meðgöngu eignast að jafnaði smærri börn. Þetta er nokkurt áhyggjuefni þar sem smærri börn, þá sérstaklega börn sem eru léttari en 10 merkur við fæðingu, eru berskjaldaðri fyrir ýmsum kvillum. Námsörðugleikar eru þar á meðal. Áfengisdrykkja á meðgöngu virðist geta skaðað taugafrumur í heila fósturs. Mikil drykkja á meðgöngu getur leitt til fósturskemmda vegna áfengis (fetal alchohol syndrome), heilkennis sem gerir það oft að verkum að börn fæðast langt undir æskilegri þyngd og getur orsakað þroskahömlun, ofvirkni og bæklun. En jafnvel tiltölulega hófsöm drykkja á meðgöngu getur haft áhrif á þroska barnsins og skert námsgetu, athygli og minni. Enginn veit með vissu hvar hættumörkin liggja, og er konum því ráðlagt að drekka sem minnst stuttu fyrir meðgöngu og meðan á meðgöngu stendur. Viðtakanemar (receptors) eru heilafrumur sem taka við boðum frá skynfrumum í húð, augum og eyrum og gera okkur kleift að bregðast við áreitum í umhverfinu. Eins og við höfum séð koma sumar gerðir námsörðugleika fram í vanhæfni til að greina málhljóð og bókstafi, og telja sumir rannsakendur að námsörðugleikar komi til af gölluðum viðtakanemum. Nýlegar rannsóknir benda til þess að misnotkun fíkniefna á meðgöngu valdi skemmdum í viðtakanemum fósturs. Kókaín, og þá sérstaklega sú gerð þess sem reykt er og kallast krakk, virðist til að mynda hamla myndun viðtakanema í heila. Vandkvæði á meðgöngu og við fæðingu. Vandkvæði á meðgöngu eru meðal mögulegra orsaka námsörðugleika. Það kemur fyrir að ónæmiskerfi móður bregðist við fóstrinu og ráðist á það líkt og um sýkingu væri að ræða. Þetta virðist leiða til þess að nýjar heilafrumur setjist að á röngum stað í heilanum. Við fæðingu snýst stundum upp á naflastrenginn og súrefni nær ekki til barnsins í einhvern tíma. Ef súrefnisskortur varir nógu lengi er hætt við skemmdum í heila barnsins, sem síðar geta leitt til námsörðugleika. Eiturefni í umhverfi barns. Rannsakendur hafa litið til eiturefna í umhverfi barna sem mögulegrar orsakar lærdómsörðugleika. Fram að eins árs aldri eru nýjar heilafrumur og tauganet enn að myndast, og heilinn því enn afar berskjaldaður fyrir hvers konar truflunum. Hugsanlegt er að eiturefni í umhverfi raski eðlilegri þróun og virkni heila. Athygli rannsakenda hefur aðallega beinst að tveimur efnum, kadmíum og blýi. Cadmium, sem er notað við vinnslu vissra tegunda stáls, getur borist í jarðveg og þaðan í matvæli. Blý var eitt sinn mikið notað í málningu og bensín og getur enn fyrirfundist í gömlum vatnslögnum, Amerísk dýrarannsókn hefur sýnt fram á samband milli blýs og lærdómsörðugleika hjá rottum. Heilastarfsemi í rottum sem hafðar voru í umhverfi ríku af blýi varð afbrigðileg og námsgeta minnkaði. Áhrifin vörðu í margar vikur eftir að rotturnar voru fluttar í blýlaust umhverfi. Ný gögn benda einnig til þess að lærdómsörðugleikar þróist frekar hjá krabbameinssjúkum börnum sem hafa gengið í gegnum lyfja- eða geislameðferð mjög ung. Þetta virðist sérstaklega áberandi hjá börnum sem fengið hafa geislameðferð við heilaæxli. Eru námsörðugleikar tengdir mismun í heila?Rannsóknir sem borið hafa saman fólk sem greinist með námsörðugleika og fólk sem ekki á við námsörðugleika að etja hafa gefið til kynna ákveðinn mun á byggingu og virkni heila. Nýleg rannsókn leiddi í ljós mun á málsvæði sem er að finna í báðum heilahvelum og kallast planum temporale. Í lesblindu fólki er þetta svæði jafnstórt í báðum heilahvelum, en í fólki sem ekki er lesblint er vinstra svæðið áberandi stærra en það hægra. Sumir rannsakendur telja að lestrarörðugleikar tengist þessum mun.
Vísindamenn vonast til þess að frekari rannsóknir muni leiða í ljós hvernig mismunur í byggingu og virkni heila stuðlar að námsörðugleikum og hvernig hægt sé að meðhöndla og koma í veg fyrir þennan mun.Rannsóknir í hugfræði og skynjunarsálfræði
Minnstu hljóðeiningar málsins kallast fónem. Orðið „bær“ er t.d. myndað úr þremur fónemum (/b/, /æ/ og /r/). Til þess að segja eitt tiltekið orð þarf viðkomandi að finna rétt hljóð, raða þeim saman á réttan hátt og segja síðan orðið. Þetta ferli tekur örskamma stund, raunar svo skamma að við tökum ekki eftir því. Þegar lestur er annars vegar breytist þetta ferli. Þá þarf að búta orðið niður í fónemin sem það stendur saman af. Ef ekki tekst að búta orðið niður mun viðkomandi eiga í erfiðleikum með að lesa. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að vitund barna um að talað mál samanstandi af orðum sem hægt sé að búta niður í smáar hljóðeiningar (fónem) skipti gríðarlega miklu máli um það hvort börn munu eiga í lestrarvanda eða ekki. Vitund um þennan eiginleika málsins kallast hljóðkerfisvitund. Rannsóknir á hljóðkerfisvitund hafa veitt mönnum innsýn í það hvert megi rekja lestrarvanda þeirra sem eru með lesröskun. Slíkt er afar mikilvægt til að gera lestrarkennslu skilvirkari. Gróft á litið má segja að lestur feli í sér tvennt: Afkóðun og skilning. Þeir sem eru með lesröskun eiga í vandræðum með hið fyrra. Þeim tekst ekki að búta orðin niður í hljóðeiningar. Slíkt kemur í veg fyrir að lesandinn þekki orðið. Þessi hæfni er sértæk, hún hefur ekki áhrif á aðra þætti hugarstarfsins. Hér er því komin líkleg skýring á því hvers vegna börn með eðlilega greind geta átt í erfiðleikum með lestrarnám. „Afkóðunarvandinn“ kemur í veg fyrir að lesandinn skilji það sem hann les af því að hann þekkir ekki orðin. Rannsóknir benda til þess að við upphaf skólagöngu er einkum tvennt sem getur spáð fyrir um hversu greiðlega barni gengur að læra að lesa. Í fyrsta lagi hvort barnið kann stafrófið og í öðru lagi hvort það hafi áttað sig á hljóðaeiginleikum málsins (hljóðkerfisvitund). Foreldrar geta kennt börnum stafrófið með hefðbundnum aðferðum. En hvernig er hægt að kenna börnum hljóðkerfisvitund? Ýmsar aðferðir eru til. Það er til dæmis hægt að fara í rímleiki með barninu, kenna því ljóð, þulur og benda þeim á hvað eru löng orð og stutt. AÐ LEITA SÉR HJÁLPARSunna
Þegar Sunna var komin í sjötta bekk og gat ekki ennþá leyst einföld stærðfræðidæmi fór móðir hennar með hana til sálfræðings sem lagði fyrir hana nokkur próf. Þar kom í ljós kom að Sunna átti erfitt með að sjá samhengið milli tákna og merkingar þeirra, og stóð það í vegi fyrir mál-, lestrar- og reikningsþroska hennar. Þrátt fyrir þessa örðugleika mældist Sunna með greind yfir meðallagi þegar lagt var fyrir hana greindarpróf. Sálfræðingurinn setti Sunnu fyrir ýmsar æfingar til að hjálpa henni að sigrast á vandanum, og lagði auk þess til að hún sækti sér meðferðar við lágu sjálfsáliti og þunglyndi.
Danni
Þegar Danni var í fimmta bekk sendi kennarinn hann til skólasálfræðingsins. Auk þess að vera greindur hvort tveggja les- og skrifblindur var Danni greindur með athyglisbrest með ofvirkni. Honum var gefið lyfið Ritalin sem dregur úr einkennum ofvirkni og bætir athygli og var auk þess færður í sérdeild, sem betur var búin til að mæta námsþörfum hans en venjuleg bekkjardeild var umkomin. Kennarinn í sérdeildinni einbeitti sér að því að bæta lestrarkunnáttu Danna og kenna honum að hlusta betur. Þar sem rithönd Danna var léleg lærði hann að vinna skólaverkefnin á tölvu. Þegar Danni var 16 ára gamall stóðst hann samræmdu prófin og fékk inni í menntaskóla þar sem er sérdeild fyrir nemendur með námsörðugleika.
Fyrstu merki um námsörðugleika
Nú til dags eru ýmsar leiðir færar til þess að leiðrétta námsörðugleika, en til þess að hægt sé að leysa vanda verður fyrst að átta sig á því að hann sé til staðar. Ungabörn eru venjulega undir ströngu eftirliti foreldra og heilsugæslu sem fylgjast með því hvort og hvenær helstu þroskaáföngum er náð. Foreldrarnir bíða spenntir eftir fyrsta brosinu, fyrsta skrefinu og fyrsta orðinu og í ungbarnaskoðun er fylgst með þroskamerkjum sem ögn erfiðara er að greina. Foreldrar eru venjulega fyrstir til að taka eftir því ef barn er óeðlilega seint til að ná fyrstu þroskaáföngunum og barnalæknirinn kann að taka eftir vísbendingum um smávægilega taugaröskun, svo sem skorti á samhæfingu. Það eru hins vegar bekkjarkennarar sem átta sig yfirleitt fyrstir á því að barn á við námsörðugleika að etja. Stundum getur liðið langur tími áður en námsörðugleikar eru greindir, ef þeir eru greindir á annað borð. Einkum á það við ef um er að ræða hæglát og kurteis börn, og námsörðugleikar eru síst greindir hjá börnum sem eru yfir meðallagi greind og ná prófum þrátt fyrir að eiga í erfiðleikum. Hins vegar eru mun meiri líkur á að vandi ofvirkra barna sé greindur sökum þess hve truflandi hegðun þeirra er. Þó er ofvirkni oft ekki greind fyrr en börn eru komin á skólaaldur, þrátt fyrir að hún komi venjulega fram fyrir fjögurra ára aldur. Þótt barn nái ekki öllum þroskaáföngum á réttum tíma þarf það ekki endilega að vera merki um varanlega námsörðugleika. Barn getur verið aðeins seint til en náð jafnöldrunum innan skamms. Ef barn er hins vegar farið að dragast langt aftur úr jafnöldrum á einhverju sviði þroska, dæmi eru um námsörðugleika í fjölskyldunni, eða barnið er seint til á mörgum þroskasviðum er rétt að leita sérfræðimats sem fyrst.Formleg greining námsörðugleika
Námsörðugleikar eru opinberlega skilgreindir sem marktækur mismunur á greind og hæfni einstaklings miðað við aldur. Þetta merkir til dæmis að 10 ára gamalt þroskaheft barn sem hefur einungis náð málþroska sex ára gamals barns væri ekki greint með málþroskaröskun, þar sem það hefur náð eins góðu valdi á tungumálinu og greind þess leyfir. Við myndum hins vegar segja að 10 ára gamalt barn sem er í meðallagi greint en getur ekki skrifað einfalda setningu eigi við námsörðugleika að stríða. Námsörðugleika má greina óformlega með því að líta á tafir í námsþroska. Í neðri bekkjum grunnskóla er litið á tveggja ára töf á einhverju námssviði sem nokkuð öruggt merki um námsörðugleika. Í efri bekkjum er tveggja ára töf ekki eins alvarleg og því miðað við meira en tvö ár. Formleg greining fer aftur á móti fram með því að leggja fyrir barnið ýmis stöðluð hæfnispróf og bera frammistöðu þess saman við meðalframmistöðu sambærilega greindra jafnaldra. Við 10 ára aldur gat Sunna enn ekki leyst einföldustu reikningsdæmi þrátt fyrir að hún mætti vel í tíma og stæði sig vel í öðrum fögum. Því fór móðir Sunnu með hana til sálfræðings sem lagði fyrir hana stöðluð reiknings- og greindarpróf. Niðurstöður prófanna sýndu að Sunna var yfir meðallagi greind miðað við jafnaldra sína en mörgum árum á eftir í reikningi. Eftir að aðrar mögulegar orsakir höfðu verið útilokaðar, svo sem kæruleysi og sjóngallar, var Sunna formlega greind með reikniröskun. En fleira getur haft áhrif á niðurstöður hæfnisprófs en geta barns. Ef byggja á greiningu á prófi verður að vera sýnt að prófið sé áreiðanlegt, að barnið sé fært um að veita spurningunum athygli, og að barnið skilji spurningarnar rétt. Ávallt ætti að vera tryggt að próf sé áreiðanlegt áður en það er tekið í notkun, en sá sem leggur prófið fyrir verður að fylgjast með því að athygli og skilningur séu eins og best verður á kosið. Sérstaklega er hætt við því að próf vanmeti getu barna sem eiga við ofvirkni eða athyglisbrest að stríða. Þrátt fyrir að ómögulegt sé að koma alveg í veg fyrir að einkenni þessara kvilla hafi einhver áhrif er hægt að haga aðstæðum þannig að áhrifin séu minni. Til dæmis er oft hægt að bæta frammistöðu með því að leggja próf fyrir í einrúmi í hljóðlátu og rólegu umhverfi. Greiningaraðferðir eru mismunandi eftir því hvers konar námsörðugleikar eiga í hlut. Þegar málþroskaraskanir eru greindar metur talkennari hversu gott vald barn hefur á framburði, orðaforða og málfræði samanborið við jafnaldra þess. Sálfræðingur leggur svo greindarpróf fyrir barnið, og stundum er fenginn læknir til þess að athuga hvort barnið hefur sýkingu í eyrum eða heyrir af öðrum ástæðum illa. Ef um er að ræða framburðarröskun eru raddbönd og háls skoðuð af talmeinafræðingi. Þegar um er að ræða örðugleika í skóla er reiknings-, lestrar- og skriftargeta metin með stöðluðum prófum. Auk þess er reynt að útiloka að annað liggi að baki lélegri frammistöðu en skortur á getu, til dæmis að barnið sinni náminu ekki almennilega, eða sé sjón- eða heyrnarskert. Athyglisbrestur með ofvirkni einkennist af óstýrilátri og hvatvísri hegðun. Börn sem þjást af AMO eiga til dæmis afar erfitt með að sitja kyrr og geta ekki einbeitt sér að sama verkefni í meira en stutta stund. Þau tala óhóflega mikið, grípa stöðugt fram í, og handfjatla, missa, og týna hlutum meira en eðlilegt er. Til að greina athyglisbrest með ofvirkni þarf að ganga úr skugga um að einkennandi atferli sé til staðar, sé mun ýktari en gengur og gerist hjá börnum á sama aldri, og hafi verið áberandi í langan tíma. Foreldrar ættu alltaf að vera vakandi fyrir ástandi barna sinna, og vera í góðu samstarfi við skóla til þess að ráða úr hverjum þeim vanda sem upp kemur. Ef foreldra grunar að barn þeirra eigi við námsörðugleika að stríða,en finnst skólinn ekki veita vandanum neina athygli, geta þeir leitað staðfestingar á grun sínum hjá meðferðaraðila utan skólans. Skólum ber skylda til að sinna þörfum allra nemenda eins vel og hægt er, og ættu foreldrar ávallt að fylgjast með því að námsskilyrði barna þeirra séu eins og best verður á kosið.Menntaúrræði
Flestir skólar á Íslandi bjóða upp á einhverja sérkennslu fyrir börn með námsörðugleika. Flestir skólar bjóða upp á aukatíma utan venjulegrar stundatöflu og í sumum skólum eru sérdeildir starfræktar allan daginn. Yfirleitt eru börn með námsörðugleika í venjulegum skólabekk og mæta í aukatíma þess utan, en ef námsörðugleikar barna eru mjög alvarlegir sækja þau stundum færri tíma í venjulegum skólabekk og eyða hluta úr vikunni í sérdeildarbekk. Þegar metið er hvaða námsleið hentar barni best er fyrst athugað hvar styrkur þess og veikleikar liggja. Erfiðleikar sumra barna eru mjög afmarkaðir og oft má byggja á kunnáttu á einu sviði náms til að bæta úr vankunnáttu á öðru. Einnig er athugað hvort minni, sjón og heyrn starfi rétt, og hvort hreyfiþroski sé eðlilegur. Til dæmis er jafnan athugað hvort barn sem á í erfiðleikum með að greina að mismunandi málhljóð heyri að öðru leyti vel, og hvort hreyfiþroski barns sem á í skriftarörðugleikum sé eðlilegur. Þegar geta barns hefur verið metin eru sett fram námsmarkmið og áætlun um hvernig þeim skuli náð. Með markvissri áætlun og námstækni sem sniðin er að getu og þörfum barnsins næst oft undraverður árangur. Oft getur reynst vel að nálgast námsefnið úr mörgum áttum og virkja með því sem flest skynfæri og hæfileika. Til dæmis eru orðkennsl gjarnan kennd með því að láta barnið horfa á, bera fram, skrifa og stafa hvert nýtt orð. Stundum eru börn einnig látin skrifa orð í sand til þess að virkja snertiskyn. Margir sérfræðingar telja að eftir því sem fleiri skynfæri eru virkt við kennslu verði börn líklegri til að tileinka sér námsefnið. Ef barnið á við framburðarerfiðleika að stríða getur talkennsla verið mjög gagnleg. Í talkennslu eru lagðar fyrir börn ýmsar æfingar sem gerðar eru til að bæta málhæfni. Börn eru til að mynda látin hafa eftir orð og málhljóð eftir að hafa hlustað á talkennarann bera þau fram, horft á hvernig raddfærin hreyfast, og fundið hvernig raddböndin titra. Auk þess sem börn eru látin æfa framburð mismunandi málhljóða og orða er þeim til dæmis kennt að gera ýmsar æfingar með tungu og vörum sem auðvelda framburð og látin horfa í spegil meðan þau tala. Ýmsar óhefðbundnar kennsluaðferðir eru nú í mótun. Til dæmis er verið að rannsaka hvort nota megi tölvur til að hjálpa fólki með skilningsraskanir til að skilja mælt mál. Sumar skilningsraskanir stafa af því að heilinnn er óeðlilega lengi að vinna úr málhljóðaupplýsingum og gerir það fólki erfitt að greina merkingu talaðra orða. Á meðan talfæri okkar leyfa ekki að við tölum nema takmarkað hægt eru talforrit svo haganlega búin að hægt er að hægja nær endalaust á þeim. Því er hægt að þjálfa hæfni fólks til að greina að málhljóð með því að láta tölvu tala löturhægt í fyrstu og auka svo hraðann smám saman eftir því sem skilningur eykst. Fáanleg lyfLyf eru sérstaklega gagnleg börnum sem þjást af athyglisbresti með ofvirkni. Rannsóknir hafa sýnt að Ritalin og Dexedrine stemma stigu við ofvirknieinkennum í meira en 70 af hverjum 100 tilvikum og skila sér í bættri einbeitingu skömmu eftir inntöku. Þegar annað lyfið skilar ekki tilætluðum árangri virkar hitt oft betur. Venjulega virka lyfin í þrjár til fjórar klukkustundir í senn og eru horfin úr líkamanum eftir hálfan sólarhring. Lyfjagjöf er yfirleitt hagað þannig að áhrifa lyfjanna gæti mest á helsta annatíma í skóla. Þess ber að geta að lyf eins og Ritalín bæta ekki námsstöðu eða hæfni barnsis, þau draga einungis úr einkennum athyglisbrests með ofvirkni. Það skal einni haft í huga að Ritalín er einungis gefið þeim börnum sem greinast með AMO, ekki hefur verið sýnt fram á að lyfið hafi marktæka verkun á sértæka námsörðugleika.
Undanfarin ár hefur fullorðnu fólki sem þjáist af athyglisbrestum verið gefin sömu lyf með ágætum árangri. Í hæfilegum skömmtum skerpa þau athygli og draga úr hvatvísri hegðun. Athyglisraskanir geta verið gríðarleg félagsleg fötlun fyrir fullorðið fólk og lyf hafa veitt mörgum áður óþekkt sjálfstæði með því að gera þeim kleift að vinna fyrir sér og sjá um sig að öðru leyti. Sem stendur hafa ekki fundist nein lyf sem virka við málhömlum og námsörðugleikum, en vísindamenn vonast til þess að rannsóknir á starfsemi heilans muni leiða til betri úræða AtferlismótunAtferlismótun hefur gefið góða raun til að hjálpa börnum með ofvirkni og námsörðugleika. Í atferlismótun er æskileg hegðun barns styrkt með umbun af einhverju tagi meðan leitast er við að veikja óæskilega hegðun. Umbunin getur verið aukinn leiktími, klapp á kollinn, brjóstsykur, athygli eða hvað annað sem barnið sækist eftir. Þegar móta á hegðun barns er afar mikilvægt að gætt sé fyllsta samræmis, svo að barnið sjái skýrt hvaða afleiðingar mismunandi hegðun þess hefur. Atferlisfræðingur getur gefið ráðleggingar og sett saman „prógramm“ eða áætlun fyrir foreldra og kennara að fara eftir. Atferlisfræðingar hafa til fjölda ára rannsakað hvaða kennsluaðferðir skila bestum árangri í kennslu barna sem þjást af sértækum námsörðugleikum. Í samráði við sérfræðinga er hægt að útbúa sérstakar kennsluáætlanir byggðar á árangri þessara rannsókna.
Aðrar leiðirÖnnur leið til að hjálpa börnum með námsörðugleika er að gæta þess að framsetning sé eins og best verður á kosið. Til dæmis er hjálplegt að vera í augnsambandi við barn með athyglisröskun meðan talað er við það, og ef barn á erfitt með að skilja mælt mál getur verið gagnlegt að nota myndir og gröf til útskýringar. Enn fremur geta tölvur reynst skrifblindum börnum afar gagnlegar, og til eru forrit sem sýna stafsetningarvillur í tölvuskrifuðum texta. Skólasálfræðingar, sérkennarar og námsráðgjafar ættu að geta beint á ýmsar handhægar lausnir sem auðvelda daglegt líf barns og fjölskyldu. Hafa ber í huga að ekki eru allar meðferðir jafngildar, hversu vísindalegar og rökréttar sem þær kunna að virðast. Í gegnum tíðina hafa ýmsar kenningar og meðferðir verið í tísku, ef svo má segja, þrátt fyrir að í raun hafi ekki tekist að sýna fram á að þær beri árangur. Rannsóknir hafa sýnt að eftirtaldar meðferðir gagnast ekki sem meðferð við námsörðugleikum:
· Vítamínkúrar
· Lituð sjóngler
· Breytt mataræði
· Sykursvelti
· Höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun
Hvernig geta fjölskyldur tekist á við vandann?
Börnum með námsörðugleika getur reynst erfitt að eignast vini meðal jafnaldra og eiga oft við ýmis félagsleg vandamál að stríða jafnframt því að ganga illa í skóla. Börn sem eiga við alvarlega námsörðugleika eða athyglisrbrest að etja finna oft fyrir miklu óöryggi og vanlíðan sem brotist getur út í óæskilegri félagslegri hegðun. Sum börn fá útrás fyrir vanlíðun sína í stöðugum slagsmálum. Önnur börn verða afar hlédræg og einangrast frá jafnöldrum sínum. Félagslegur vandi getur líka verið bein afleiðing af námsörðugleikum. Til dæmis verður hvatvís og yfirgangssöm hegðun barna með AMO gjarnan til þess að önnur börn forðast að vera í návist þeirra. Einnig leiða erfiðleikar barns til þess að túlka hegðun og tal annarra oft til þess að það bregst við á óviðeigandi hátt. Þetta getur fælt í burtu þá sem ekki átta sig á því hvað liggur að baki. Stundum ná börn með námsörðugleika betra sambandi við yngri börn, en hætt getur verið við því að sum börn einangrist ef ekkert er að gert. Ef ekki er gripið inn í tímanlega getur myndast vítahringur sem erfitt getur reynst að rjúfa. Mótlæti í námi og félagslífi ýtir undir vanlíðan og sjálfsfyrirlitningu sem aftur leiðir til frekara vandræða í skóla og félagslífi. Hætt er við að barnið glati öllum metnaði og námsáhuga og hætti í skóla við fyrsta tækifæri, og félagshæfni getur beðið varanlegan skaða. Námsörðugleikar barns geta einnig komið illa niður á fjölskyldu þess. Foreldrar finna fyrir ýmsum blendnum tilfinningum svo sem afneitun, sektarkennd, vanmáttarkennd, vonbrigðum, reiði og örvæntingu. Systkini barnsins geta enn fremur orðið pirruð á hegðun þess, skammast sín fyrir það eða orðið öfundsjúk yfir athyglinni sem það fær. Oft getur það hjálpað fjölskyldunni að leita til sálfræðings eða annars ráðgjafa. Fagleg ráðgjöf getur aukið skilning fjölskyldunnar á vandanum, veitt fjölskyldumeðlimum aukna sjálfsstjórn og kennt þeim að takast á við vandann á uppbyggilegan hátt. Einnig reynist foreldrum oft hjálplegt að vera í sambandi við foreldra annarra námsheftra barna. Gagnkvæmur skilningur er hughreysting fyrir alla aðila og oft er slíkt samband uppspretta gagnlegra upplýsinga og úrræða. Sjálfshjálparbækur sem skrifaðar eru af fagfólki geta enn fremur reynst gagnlegar. Önnur leið til að hjálpa börnum með námsörðugleika er að gæta þess að framsetning sé eins og best verður á kosið. Til dæmis er hjálplegt að vera í augnsambandi við barn með athyglisröskun meðan talað er við það, og ef barn á erfitt með að skilja mælt mál getur verið gagnlegt að nota myndir og gröf til skýringar. Enn fremur geta tölvur reynst börnum með ritröskun afar gagnlegar, og til eru forrit sem sýna stafsetningarvillur í tölvuskrifuðum texta. Skólasálfræðingar og námsráðgjafar ættu að geta beint á ýmsar handhægar lausnir sem auðvelda daglegt líf barns og fjölskyldu. Að lokum ber að hafa í huga að sjálfstraust og félagslegt öryggi eru allt eins mikilvægir þættir í lífi barns og velgengni í námi. Fjölskyldur ættu því að reyna allt sem þær geta til þess að skapa börnum sínum ástríkt umhverfi, meðhöndla vandamálin af þolinmæði og sjá til þess að börnunum finnist þau örugg og elskuð. Að HALDA Í VONINASunna
Sunna er komin í níunda bekk og hefur gaman af náminu. Málhæfni hennar hefur batnað og hún heldur ekki lengur að hún sé þroskaheft. Hún sækir ennþá aukatíma í lestri og stærðfræði og sýnir hæga en stöðuga framför. Sunna hefur einnig komist að því að hún er handlagin og nýtur sín í því að búa til húsgögn og föt á dúkkur systur sinnar.
Danni
Danni er 23 ára gamall og nýútskrifaður úr menntaskóla. Hann er glaðlyndur og öruggur með sig, og áhugasamur um það sem hann tekur sér fyrir hendur. Danni á ennþá dálítið erfitt með að vera kyrr, er iðulega að handfjatla eitthvað og grípur stundum fram í fyrir fólki, en kemur að flestu leyti fyrir eins og hver annar ungur maður. Hann langar til að fá vinnu við að selja raftæki, og segir ástæðuna vera þá að hljóðupptökur komu honum í gegnum menntaskóla. Hann er trúlofaður og stefnir á að giftast á næsta ári. Danni og unnusta hans hafa dálitlar áhyggjur af því að börn þeirra muni eiga við námsörðugleika að etja, en segja að þá þýði ekki annað en að fylgjast grannt með og leita hjálpar í tíma.
Eru möguleikar á að námsörðugleikar eldist af fólki eða hægt sé að lækna þá?
Jafnvel þegar námsörðugleikar eru þrálátir má finna merkilega margar leiðir til þess að ná fram nýrri kunnáttu og þekkingu og þótt ekki sé til nein algild lækning við námsörðugleikum er tilefni til nokkurrar bjartsýni. Þrátt fyrir að sjaldgæft sé að truflun í heilastarfsemi eldist af mönnum eru ýmsar leiðir færar til þess að aðlagast aðstæðum og lifa innihaldsríku lífi. Danni og Sunna hafa öll komist áfram í lífinu með því að þroska þá hæfileika sem þau hafa. Þau hafa ekki verið „læknuð“ af námsörðugleikunum, en hafa fundið aðrar leiðir til að læra. Danni gat til dæmis lært af hljóðupptökum. Í ungum börnum geta mismunandi heilasvæði oft bætt upp fyrir galla á öðrum svæðum að einhverju leyti, en eftir því sem við eldumst verður heilastarfsemi fastmótaðri og ósveigjanlegri. Hæfileikinn til þess að öðlast nýja kunnáttu er því mestur hjá ungum börnum, en fer að minnka um og eftir unglingsár. Af þessum sökum er afar æskilægt að gripið sé í taumana eins snemma og mögulegt er. Þó ber að hafa í huga að hæfileikinn til þess að læra eldist aldrei alveg af okkur, og það er aldrei of seint að bæta við sig nýrri kunnáttu og þekkingu. Flest börn læra á endanum að tala, þrátt fyrir að það taki þau mislangan tíma. Sumir námsörðugleikar stafa af töfum í þroska, og mörg börn ná jafnöldrum sínum með tímanum. Af málþroskaröskunum eru framburðar- og tjáningarröskun sjaldnast langvarandi. Lesblinda reynist oft nokkuð þrálát röskun, en þó getur lesblint fólk venjulega náð umtalsverðum framförum ef það fær góða lestrarþjálfun. Það kann að taka lengri tíma að kenna fullorðnu fólki að sigrast á námsörðugleikum, krefjast snjallari kennsluaðferða og betra þolgæðis, en það er samt sem áður hægt. Nú er meira vitað um lestur og nám á fullorðinsárum en nokkru sinni fyrr og þrátt fyrir að fullorðnir eigi ekki jafn auðvelt með nám og börn, búa þeir að ýmsum eiginleikum sem börn hafa ekki. Fullorðið fólk býr til dæmis að mikilli lífsreynslu sem hægt er að tengja náminu til að gera það auðveldara. Og þar sem fullorðnir velja sjálfir að læra, nálgast þeir námið yfirleitt af meiri staðfestu og áhugasemi en flest börn myndu gera.Hvaða fyrirheit gefa rannsóknir?
HeilastarfsemiNú til dags búum við yfir fágaðri tækni til að draga upp myndir af starfsemi heilans sem gerir okkur kleift að greina áður ósýnilega afbrigðileika. Einnig búa vísindamenn nú yfir tækni til að greina tengsl heilafruma og hvernig boð berast þeirra á milli.
Með þessa tækni að vopni eru rannsakendur óðum að varpa betra ljósi á hvaða hlutar heilans eru viðriðnir nám af ýmsu tagi. Nú er til dæmis verið að rannsaka hvaða svæði í heila virkjast við lestur, annars vegar hjá lesblindu fólki og hins vegar hjá fólki sem ekki er lesblint. Vonast er til að rannsóknir af þessu tagi muni að lokum tengja mismunandi námsörðugleika mismunandi svæðum í heilanum. Ein leið sem nú er farin til að greina orsakir námsörðugleika er að bera saman gerð ýmissa hluta heilans hjá börnum með mismunandi samsetningar af námsörðugleikum. Rannsakendur vonast til þess að slíkar rannsóknir muni að endingu leiða í ljós hvaða meðferðir henta best hverju sinni. Til dæmis hvort sama meðferð muni gagnast börnum sem eingöngu eru lesblind og börnum sem eiga bæði við lesblindu og athyglisbrest að etja. ErfðarannsóknirRannsóknir þar sem bornir eru saman eineggja og tvíeggja tvíburar gefa góðar upplýsingar um hlut erfða og umhverfis í námsörðugleikum. Umhverfisaðstæður tvíbura ættu að vera nokkurn veginn þær sömu, hvort sem um er að ræða eineggja eða tvíeggja tvíbura, en hins vegar er talsverður munur á skyldleika. Á meðan eineggja tvíburar hafa sömu arfgerð eru tvíeggja tvíburar ekki skyldari en hver önnur systkini. Því má gera ráð fyrir því að ef námsörðugleikar fylgjast fremur að hjá eineggja tvíburum en tvíeggja tvíburum stafi munurinn af erfðaþáttum. Fram að þessu hafa tvíburarannsóknir bent til þess að erfðaþættir orsaki málþroskaraskanir að einhverju leyti.
DýrarannsóknirTilraunir á dýrum geta gefið margvíslegar upplýsingar um orsakir námsörðugleika sem ekki væri mögulegt að leiða í ljós með rannsóknum á mönnum. Nýleg dýrarannsókn leiddi til dæmis í ljós að veirusýking á fósturstigi getur haft áhrif á framtíðar námsgetu og vísindamenn eru nú að rannsaka áhrif barbitúra og annarra lyfja sem stundum eru gefin á meðgöngu. Rannsóknir sem þessar gefa mikilvægar upplýsingar um það hvers konar vandkvæði á meðgöngu leiða til námsörðugleika, og hvernig við getum hindrað að þau komi fram.
Rannsóknir í sálfræðiEins og áður segir hafa rannsóknir á hljóðkerfisvitund nú þegar fært menn nær því að öðlast skilning á lestrarvanda barna. Þessi vitneskja mun leiða til öflugari kennslutækja og greiða fyrir skimun á lestrarvanda. Nú nýverið hafa hafist rannsóknir á því hvernig hljóðkerfisvitund tengist heilastarfsemi.
Rannsóknir varpa óðum betra ljósi á margvíslegar orsakir og gerðir námsörðugleika og eftir því sem skilningur okkar dýpkar styttist í betri forvarnar- og meðferðarúrræði. Vonir standa til þess að aukin þekking á byggingu og starfsemi heila muni gera okkur kleift að koma í veg fyrir ýmsar gerðir námsörðugleika og þróa betri lyf til að meðhöndla þá. Einnig vonast rannsakendur til þess að geta á næstu árum greint betur hvaða aðstæður og námsaðferðir henta best börnum sem eiga við mismunandi gerðir námsörðugleika að etja.Hvert á að leita eftir aðstoð?
Algengt er að foreldrar leiti fyrst til sálfræðings viðkomandi skóla ef grunur leikur á að barnið sé með sértæka námsörðugleika. Sálfræðingurinn getur kannað greind barnsins og lagt fyrir það ýmis önnur próf til að meta námshæfni þess. Sérkennarar hafa einnig mikla reynslu af meðhöndlun námsörðugleika. Samvinna skólasálfræðings og sérkennara getur oft leitt til áhrifaríkra lausna. Þessir aðilar leggja síðan mat á það hvort ástæða sé til að vísa barninu lengra í formlega greiningu. Foreldrar geta einnig leitað til sálfræðinga eða námsráðgjafa sem starfa á stofum. Formleg greining á sértækum námsörðugleikum fer einkum fram á Greiningar-og ráðgjafastöð ríkisins og í Lestrarmiðstöð Kennaraháskóla Íslands. Ekki er hægt að leita beint til Greiningar- og ráðgjafastöðvarinnar, tilvísun um mat verður að koma frá sérfræðingum (sérkennurum, sálfræðingum, talmeinafræðingum eða læknum). Formleg greining á sértækum námsörðugleikum barna í Reykjavík fer fram á Lestrarmiðstöðinni, þangað er einnig hægt að leita beint ef grunur leikur á að barn sé með sértæka námsörðugleika.Steinvör Þöll Árnadóttir BA í sálfræði Byggt á efni frá Geðheilbrigðisstofnun Bandaríkjanna