persona.is
Minni og vitglöp
Sjá nánar » Aldraðir

Minni

 • Hvar í ósköpunum setti ég lyklana mína? Þú tókst þá ekkert, er það nokkuð?
 • Hvað er ég að gera hérna? Ég kom til að ná í eitthvað, æ, hvað var það nú aftur?
 • Við erum að fara . . ., hvað það nú heitir aftur?
 • Þú verður að afsaka að ég gleymdi að láta þíg fá skilaboðin frá Pálu, vanalega kvartarðu yfir því að ég endurtaki mig!
 • Ég kynnti ykkur ekki vegna þess að ég gat ekki munað hvað hann hét. Jú, reyndar hef ég þekkt hann í ein tólf ár.
 • Nei, ég les ekki skáldsögur lengur. Ég þarf að fara aftur og aftur yfir söguna til að muna hvað hefur gerst!
 • Ó, já þetta var yndislegt kvöld, en hvar, hvar lagði ég bílnum?
Það er eðlilegt að gleyma Við gleymum öll. Minni okkar er stórmerkilegt, fljótara en fínasta tölva, en samt gleymum við. Vanalega gleymum við hlutum sem við þurfum ekki að muna. Hvað þú varst að gera nákvæmlega á þessum tíma í fyrra, eða í síðasta mánuði, eða í þarsíðustu viku. Ef þetta voru ekki sérstakir dagar, eins og jól eða afmæli, er ólíklegt að þú munir þá. Ef þú rifjar upp æskuárin gætirðu munað nokkra atburði, en aðeins örfáa. Þú gætir t.d. munað fyrsta skóladaginn eða sjö ára afmælið þitt, en ekki alla skóladagana eða öll afmælin þín. Margir ómaka sig ekki lengur við að leggja á minnið upplýsingar sem eru auðfengnar úr umhverfinu, eins og til dæmis dagsetninguna, þess í stað líta þeir einfaldlega á úrið sitt. Að sjálfsögðu eigum við það einnig til að gleyma hlutum sem við virkilega þurfum að muna hvar við létum frá okkur. Flest höfum við eytt tíma í að leita að lyklum, skjölum eða nauðsynlegum verkfærum eða áhöldum. Það er einfaldega eðlilegt að gleyma. Oftast getum við komist af þrátt fyrir gallana, líka að gleyma. Við sættum okkur við það að sjá ekki mjög langt frá okkur, heyra ekki í skordýri að hreyfa sig eða að hafa krafta til að lyfta bílum. Okkur er sama þótt við munum ekki hvert einasta andartak ævinnar. En þegar við eldumst kemur að því að við förum að gleyma meiru en áður. Þetta er pirrandi og getur líka valdið okkur áhyggjum. Ef við getum ekki munað eitthvað byrjum við ekki strax að hafa áhyggjur. Við einfaldlega reynum að leysa vandamálið, eins og að leita að lyklunum eða veskinu. Fari gleymskan að berja oftar upp á hjá okkur gætum við orðið áhyggjufull ef við lítum til þess hvað framtíðin gæti borið í skauti sér. Gæti síendurtekin gleymska til að mynda verið upphafið á Alzheimer?

Hvað veldur minnistapi?

Það eru margir þættir sem geta skert minnisgetu,  til dæmis leiði, þreyta og syfja. 

Aðrir þættir sem geta valdið minnistapi til lengri eða skemmri tíma eru:

·         Þunglyndi

·         Kvíði

·         Aldur

·         Líkamlega heilsa

Þunglyndi

Þegar við erum þunglynd hættir okkur til að sjá aðeins það slæma í fari okkar sjálfra og alls í kringum okkur. Við dæmum okkur hart og óréttlátlega fyrir það sem eru einfaldlega mannlegir brestir. Við drögum okkur inn í skel og tökum ekki eftir því sem er að gerast í umhverfinu.Þannig að við munum e.t.v. ekki eftir einhverju vegna þess að við tókum ekki eftir því til að byrja með.

Þunglynt fólk getur líka orðið órólegt og þá reynist því enn erfiðara að einbeita sér. Ef þunglyndið er mjög alvarlegt getur hugsunin jafnvel hægt á sér. Bæði óróleiki og hægur hugsanagangur aftrar þunglyndissjúklingum frá því að geta munað jafn vel og hann ætti undir öðrum kringumstæðum. Stundum koma minnisglöp þunglyndis fram á prófum. Þau geta verið svo slæm að hægt væri að álíta að sjúklingurinn væri haldinn vitglöpum. Þunglyndir eru því ekkert endilega með verra minni en aðrir. Þunglynt eldra fólk gæti hins vegar haldið að það væri á góðri leið með að verða elliært. Oft er það svo að eldra fólk sem kvartar við lækninn sinn um slæmt minni sé þunglynt en ekki haldið vitglöpum. Kvíði

Ef við erum mjög kvíðin eða áhyggjufull eigum við erfiðara með að einbeita okkur. Við verðum felmtri slegin þegar við reglulega þurfum að muna eitthvað. Þetta gerist t.d. í prófum og viðtölum. Kvíði hefur áhrif á minni, sama hvað einstaklingurinn er gamall.

Aldur

Almenn líkamsgeta minnkar með aldrinum, minnið er hér engin untantekning. Að læra eitthvað nýtt reynist mörgum erfiðara með aldrinum, en alls ekki ókleift. Margir sem hafa náð 65 ára aldri láta þetta ekki hræða sig og klára t.d. háskólanám. Hins vegar tekur flest eldra fólk eftir því að eftir því að smám saman verður erfiðara að muna. Það er kallað aldurstengdar breytingar á minni.

Aðalvandamálið virðist liggja í því að því eldri sem við erum, því lengur erum við að nálgast upplýsingar úr minninu. Það gæti að hluta til stafað af því að við geymum fleiri minningar þar en þegar við vorum yngri. Við gætum líkt þessu við leit á bók. Það er auðveldara að finna bók í einni hillu en að finna bók sem er falin milli hundruð annarra í risastórum bókaskáp. Annað algengt vandamál er að tengja nöfn við andlit. Þetta kemur fyrir flest okkar, vanalega í kringum fimmtugt. Annað vandamál kemur upp þegar við munum að eitthvað hafi gerst en við getum alls ekki munað hvenær. Mörg hefðbundin minnispróf sýna e.t.v. ekki fram á aldurstengdar breytingar á minni, en þessar breytingar geta komið í ljós með prófum sem mæla tímann sem tekinn er í að gefa rétt svar. Líkamleg heilsa

Léleg heyrn og sjón geta haft áhrif á minnið, svo og áfengi, deyfilyf, viðvarandi sársauki og höfuðáverkar. Þá geta ýmsir sjúdómar haft áhrif á minnishæfni til dæmis óvirkur skjaldkirtill, alvarlegir harta- og lungnasjúkdómar,  sykursýki og ýmsar alvarlegar sýkingar til dæmis lungna- eða heilahimnubólga. 

Vitglöp (Dementia)

Vitglöp eru alvarleg minnisvandamál. Flestir semeru með vitglöp eru eldri en 65 ára. Ýmiss konar sjúkdómar geta valdið vitglöpum, t.d. Alzheimerssjúkdómur og Creutzfeld-Jakob sjúkdómur. Smitleið hins síðarnefnda er í gegnum kúariðusýkt kjöt. Eftir að umræðan um Creutzfeld-Jakob jókst varð fólki ljóst að að þótt sjúkdómurinn væri mjög sjaldgæfur, getur nánast hver sem er fengið hann. Vitglöp eru algengust meðal eldra fólks. Eftir 65 ára aldur tvöfaldast hættan á vitglöpum á hverjum fimm árum. Einn af hverjum fimm, sem eru eldri en 80 ára, þjáist af einhverskonar vitglöpum. Að þessu sögðu er þó mikilvægt að muna að fjórir af fimm þjást ekki af sjúkdómnum eftir áttrætt. Alzheimerssjúkdómur er mjög alvarlegur sjúkdómur sem hefur víðtæk áhrif á heilastarfsemi. Ásamt gleymsku gæti borið á eftirfarandi vandamálum hjá Alzheimerssjúklingum:
 •  Erfiðleikar við að finna réttu orðin. Þegar sjúkdómurinn er í hámark mun talmál sjúklingsins verða með öllu óskiljanlegt. Sjúklingurinn skilur  þá hvorki skrift né tal annarra.
 •  Erfiðleikar með að nýta hæfni sem lærðist snemma, eins og að klæða sig og að nota hníf og gaffal.
 •  Gáfur, rök og dómsgreind bresta. (haldið t.d. fram að barnabarn sé móðir, að sumar sé um hávetur o.s.frv.).
 •  Breytingar á persónuleika: pirraður, inni í sig, dónalegur, illa til hafður, iðjulaus.
 •  Tortryggni.
 •  Kvíði og þunglyndi (vegna tilfinningarinnar um að maður sé að „tapa sér“).
 •  Afneitun á ástandinu, neita þar með allri hjálp.
 •  Verða ófær um að sjá um sig sjálfur.
Að því kemur að gleymskan sem fylgir vitglöpum verður vandamál. Ef maður haldinn vitglöpum fer úr sínu vanalega umhverfi, t.d. í frí, gæti hann týnst. Hann gæti gleymt hvaða dagur sé, mánuður eða ár, hvar hann búi eða hvar hann sé staddur núna. Hann gæti týnt hlutum með því að skilja þá einhvers staðar eftir og héldi að einhver væri að stela þeim frá sér. Hann gæti átt það til að gleyma að skila skilaboðum eða færi með þau vitlaust. Hann gæti endurtekið sig aftur og aftur af því að hann myndi ekki hvað hann hefði sagt áður. Eftir því sem sjúkdómurinn versnar kemur að því að hann hættir að þekkja kunnuglegar slóðir, villist jafnvel á eigin heimili, og hættir að þekkja þá sem standa honum næstir. Vitglöp versna nánast alltaf. Það gæti tekið mánuði, (Creutzfeld-Jakob) eða nokkur ár (Alzheimer hjá sjúklingi eldri en 65 ára), stundum snögglega en vanalega ágerist sjúkdómurinn smám saman. Stundum getur röð heilablóðfalla ollið vitglöpum. Þau valda því að sjúkdómurinn versnar skyndilega. Síðan gæti ár eða svo liðið á milli og lítil eða engin breyting yrði á sjúkdómnum, snöggversnað síðan og svona koll af kolli. Þess háttar vitglöp gætu verið ættgeng. Sumir reyna að aðlaga sig að takmörkunum sínum á meðan þeir hafa enn skilning á þeim. Þeir viðurkenna að héðan í frá þurfa þeir að reiða sig á aðra og eru oft í samráði við ættingja sína um úrræði þeim sjálfum til handa. Aðrir þvertaka fyrir að eitthvað ami að. Þeim einstaklingum er mjög erfitt að hjálpa.

Hvað veldur vitglöpum?

Nákvæmar ástæður minnisglapa eru óþekktar, þó höfum við nokkrar vísbendingar. Vitglöp tengjast iðulega einhverjum þekktum sjúkdómum. Sagt er að þau séu þá birtingarmynd þess sjúkdóms. Vitglöp eru til dæmis megineinkenni Alzheimers, vitglöp eru einnig algeng hjá fólki með Downs-heilkenni og alvarlegur höfuðáverki einhvern tíma á lífsleiðinni getur aukið líkurnar á vitglöpum síðar á lífsleiðinni. Hár blóðþrýstingur og kólesteról, sykursýki, áfengi, reykingar og offita geta aukið líkurnar á vitglöpum af því að allt þetta stuðlar að því að skerða blóðflæði til heila. Sérstök tegund minnisglapa getur einkennt fólk með Parkinsons-sjúkdóm. Korsakoff-heilkenni er ein orsök minnisglapa, oft hjá yngra fólki. Megineinkenni Korsakoff-heilkennis eru erfiðleikar við að muna nýlega atburði, eða skammtímaminnið brestur. Þetta orsakast af B1 vítamínskorti (þíamín), oftast vegna ofdrykkju. Að lokum má svo telja upp sýkingar, eins og Creutzfeld-Jakob heilkenni og alnæmi.

Að hjálpa sér sjálfur

Hérna fylgja nokkur ráð til þeirra sem vilja hjálpa sér sjálfir og bæta minnið: Taktu eftir og skrifaðu niður minnispunkta

Þú getur ekki ætlast til þess að muna það sem þú hefur aldrei heyrt eða séð. Því er gott að að vera vel vakandi og taka vel eftir því sem þú þarft að muna. Til dæmis gæti verið gott að endurtaka nafn einhvers sem þú hefur nýlega hitt. Ef þú vilt ekki týna hlutum, segðu þá sjálfum þér upphátt hvar þú leggur hlutinn frá þér.

Það getur verið nytsamlegt að skrifa ýmislegt hjá sér. Að skrifa niður skilaboð hjálpar þér við að muna þau. Þá hefurðu líka eitthvað á pappír til að minna þig á hvað þarf að gera. Vertu skipulagður

Það er líklegra að þú munir ef þú ert skipulagður. Ef þú hefur skipulagða áætlun til að fylgja er líklegra að þú munir hvað þú átt að gera næst. Þetta þýðir samt ekki að þú þurfir að vera sjúklega skipulagður og snyrtilegur.

Notaðu dagbók

Ef þú heldur dagbók yfir það sem þú hefur haft fyrir stafni geturðu flett upp á gærdeginum eða síðustu viku. Ef þú ert upptekinn þarftu virkilega á dagbók að halda, vertu viss, en þú þarft að muna eftir því að glugga í henni reglulega! Það er frekar vandræðalegt að missa af einhverju sem hefur verið skilmerkilega skráð niður, ekki satt?

Vertu í formi

Það er auðveldara að halda huganum heilbrigðum ef líkaminn er í lagi. Regluleg hreyfing, heilbrigt mataræði og að halda sig frá reykingum hefur góð áhrif á minnið. Ef þú ert sjóndapur eða heyrnadaufur vertu þá með góð gleraugu eða heyrnartæki. Það mun hjálpa þér í samskiptum og að fylgjast með því sem er að gerast í kringum þig, þó ekki væri nema að heyra það sem aðrir segja. Reyndu að forðast svefn- og deyfilyf.

Regluleg læknisskoðun

Margir læknar framkvæma reglulegar læknisskoðanir á eldri sjúklingum sínum. Læknisskoðun getur hjálpað þér við að ráða fram úr líkamlegum kvillum og getur leitt til þess að sjúkdómur, eins og Alzheimers, uppgötvast snemma. Til eru meðferðir sem geta haldið sjúkdómnum niðri í skamman tíma, líklegast er að þær séu áhrifaríkari því fyrr sem byrjað er. Ef þú ert þunglyndur getur læknir ráðlagt þér hvar sé heppilegt að leita meðferðar. Minnið mun lagast þegar þunglyndinu linnir.

Notaðu hugann

Ef þú reynir ekkert á líkamann verður hann veikburða. Ef þú liggur í rúminu vikum saman, rýrna vöðvar og þú átt án efa erfitt með að ganga. Hið sama verður uppi á teningnum notir þú ekki heilann. Vitað er að vel menntað og gáfað fólk er síður í hættu með minniserfiðleika þegar það eldist. Það gæti stafað af því að það væri upphaflega með gott minni og þess vegna tæki það lengri tíma að finna fyrir vitglöpum. En annarra skýringa má leita. Þetta fólk hefur vanist því að nota heilann til að kljást við ýmislegt og þá „skrúfar“ það ekki fyrir hann þegar á eftirlaunaaldurinn er komið. Ýmis áhugamál, eins og að leysa krossgátur, lesa, læra ljóð og bara að leika sér getur haldið aftur af ellihrörnun. Leti og iðjuleysi hraðar öldrunarferlinu samkvæmt þessu.

Raunveruleikaáttun er hugtak sem er notað þegar fólki með vitglöp er hjálpað að muna hvar það er statt, hvaða dagur er og hvað er á seyði. Þetta er gert með því að segja því þetta aftur og aftur og láta fólk síðan endurtaka það oft. Þetta er fremur leiðigjarnt en hefur áhrif að vissu marki. Minnisþjálfun

Minnisþjálfun er tækni til að hjálpa okkur að muna. Vísa eins og „Ap,jún, sept, nóv þrjátíu hver, einn til hinir kjósa sér…“ gæti til að mynda verið gagnleg.

Önnur minnistækni er að „setja hlutina“ sem þú þarf að muna á tiltekna staði. Þú getur reynt að muna lista yfir hluti með því að ímynda þér þá í mismunandi herbergjum hússins- egg á þröskuldinn, beikon á símaborðið, pylsur í fataskápinn, smjör á ofninn, mjólk að leka niður stigann, sápu þar sem einhver gæti runnið til á henni. Fáránlegir eða viðeigandi staðir geta báðir hjálpað þér til að muna. Hins vegar gæti líka bara verið auveldara að búa til lista! Minnisþjálfun gæti líka falist í því að tengja nafn við andlit með því að búa til vísu um nafnið. Þetta getur hjálpað en krefst bæði ímyndunarafls og tíma. Utanaðkomandi hjálpargögn 

Við vitum dagsetningar með því að styðjast við dagatöl eða fjölmiðla. Við notum klukkur til að vekja okkur en við gætum allt eins nýtt þær líka til að minna okkur á með því að láta þær hringja á tilteknum tímum. Gamla aðferðin að hnýta spotta um fingurinn gæti líka komið að gagni. Leggðu nauðsynlega hluti frá þér þar sem þú kemst ekki hjá því að taka eftir þeim. Settu lyfin þín hjá tannburstanum, þá manstu eftir því að taka þau þegar þú tannburstar þig. Lyf eru líka oft í dósum sem sýna hvenær á að neyta þeirra.

Enginn er fullkominn

Flestir sem halda að þeir séu að tapa minninu, hafa eðlilegt minni. Yngra fólk útskýrir minnisleysi með timburmönnum, ást, eða með því hversu upptekin þau eru- þeim dettur ekki í hug að þau séu með Alzheimer. Ef þetta kemur fyrir eldra fólk hættir þeim til að halda að þau þjáist af vitglöpum, jafnvel þó sú sé ekki raunin.

Að fá hjálp

Ef þér finnst minninu hraka fáðu þér þá tíma hjá heimilislækninum sem allra fyrst. Hann mun skoða þig vel. Hann ætti að geta fundið líkamlega kvilla, ef eru, og vísað þér áfram til viðeigandi sérfræðings, ef með þarf, kannski til taugasérfræðings, geðlæknis, öldrunarlæknis eða sálfræðings.  Sálfræðingar sem fengið hafa sérstaka menntun og þjálfun í mati á minni og öðru hugarstarfi nefnast taugasálfræðingar. Við mat á minni notast sérfræðingar við ýmiss konar minnispróf.

Byggt á efni frá Royal College of Psychiatrist