persona.is
Lystarstol
Sjá nánar » Átraskanir/Offita

Hvað er lystarstol?

Lystarstol einkennist af ýktum áhyggjum af offitu og áráttukenndri megrun sem verður að sjálfsvelti. Lystarstolssjúklingar eru haldnir stöðugum ótta um að verða feitir og reyna í sífellu að grenna sig, þrátt fyrir það að vera orðnir lífshættulega grannir. Þeir borða einungis hitaeiningasnauðan mat, ef þeir borða eitthvað yfir höfuð, og matarvenjur þeirra eru oft undarlegar. Til dæmis er algengt að fólk með lystarstol forðist að borða í návist annarra. Að auki stunda þeir oft mikla og erfiða líkamsþjálfun, kannski margar klukkustundir á dag. Það leiðir að sjálfsögðu til mikils þyngdartaps og stundum er líkamsþyngd fólks með lystarstol orðin undir 50% af eðlilegri þyngd þess. Mun algengara er að konur fái lystarstol en karlar. Orðið lystarstol lýsir í raun ekki röskuninni sem um ræðir því að lystarstolssjúklingur missir alls ekki matarlystina. Þvert á móti er hann mjög oft áhugasamur og jafnvel mjög upptekinn af mat. Hann gæti haft ánægju af því að matbúa handa öðrum, safnað uppskriftum og jafnvel sankað að sér mat sem hann borðar aldrei. Í einni rannsókn voru volgir og girnilegur snúðar bornir á borð fyrir kvenkyns lystarstolssjúklinga og konur sem þjáðust ekki af lystarstoli. Konunum stóðu snúðarnir til boða kærðu þær sig um. Næstu 10 mínúturnar tóku rannsakendur blóðprufur og greindu insúlínmagn þátttakendanna. Þeir komust að því að báðir hóparnir höfðu aukið insúlínmagn og kom á óvart að magn þess var töluvert meira hjá hópnum með lystarstol heldur en hinum. Þar af leiðandi er ekki hægt að slá því föstu að lystarstolssjúklingar hafi ekki áhuga á mat og sýni ekki viðbrögð við honum. Það kom einnig í ljós að heilbrigðu konurnar gerðu snúðunum góð skil en lystarstolssjúklingarnir brögðuðu þá ekki. Ástæðan sem þær gáfu var sú að þær væru ekki svangar. Lystarstol er misalvarlegt og einnig er mjög einstaklingsbundið hvernig sjúklingar taka við meðferð. Í sumum tilvikum varir lystarstolið í skamman tíma og sjúklingarnir ná sjálfir bata án aðstoðar en hjá öðrum er það samfellt, í langan tíma og endar með dauða. Það torveldar meðferð að einstaklingar eru tregir til að viðurkenna sjúkdóm sinn og fara sjaldnast sjálfviljugir í meðferð.

Greining, einkenni og undirflokkar

Líkamsímynd fólks með lystarstol er mjög brengluð og það telur sig mun feitara en það raunverulega er og trúir því ekki að það sé orðið óeðlilega magurt. Eitt einkenni hjá konum með lystarstol er að þær hætta að hafa blæðingar og magn estrógens er óeðlilega lágt hjá þeim. Svefnraskanir og þunglyndiseinkenni fylgja oft lystarstoli. Lystarstolssjúklingar eru einnig oft neikvæðir gagnvart kynlífi og stunda það oft ekki. Fólk með lystarstol er í augum annarra taugaveiklað, með fullkomnunaráráttu, þráhyggju og mikla þörf fyrir sjálfsstjórn. Sjaldnast fylgja lystarstoli vandamál í skóla eða agavandamál. Ólíkt mörgum geðröskunum getur lystarstol leitt til alvarlegra líkamlegra veikinda og jafnvel dregið fólk til dauða. Í greiningarviðmiðum bandaríska geðlæknafélagsins (DSM-IV) fyrir lystarstol kemur fram að einstaklingur greinist með lystarstol ef líkamsþyngd hans er innan við 85% af kjörþyngd hans. Einnig þarf að vera til staðar hræðsla við að þyngjast, afneitun hans á því hve alvarlegt það sé að vera svona langt frá kjörþyngd sinni og/eða önnur annarleg viðhorf til líkamsþyngdar. Og að síðustu, að kona með reglubundnar blæðingar hafi ekki blætt í þrjá tíðarhringi í röð (sjá töflu 1). Tafla 1. Greiningarskilmerki lystarstols samkvæmt DSM-IV

A.      Afneitun á því að viðhalda líkamsþyngd innan eðlilegra marka miðað við aldur og hæð, þ.e. vegur minna en 85% af eðlilegri þyngd eða eðlileg þyngdaraukning á vaxtartíma (gelgjuskeiði) verður ekki.

B.       Mikill ótti við að þyngjast eða verða feit(ur) enda þótt hann/hún undir eðlilegum þyngdarmörkum.

C.       Brengluð skynjun á þyngd eða lögun eigin líkama, sjálfsmat (sjálfsmynd) óeðlilega háð líkamslögun og þyngd, eða hann/hún afneita hversu alvarlega lág núverandi þyngd er.

D.      Ef um er að ræða konu: að hafa ekki haft blæðingar í 3 mánuði samfleytt.

Lystarstol greinist í tvo undirflokka. Í hinum fyrri eru lystarstolssjúklingar sem eingöngu svelta sig en í þeim síðari eru þeir sem ekki aðeins svelta sig heldur hafa til að bera öll einkenni lotugræðgi. Lotugræðgi (bullimia) felst m.a. í því að borða afar mikið á mjög stuttum tíma og/eða losa sig við matinn með uppköstum, hægðalosandi lyfjum eða öðrum aðferðum. Þessi tvískipting á lystarstoli virðist mikilvægari en sýnist í fyrstu. Nýlegar rannsóknir benda nefnilega til þess að minni líkur séu á bata hjá þeim sem tilheyra síðari flokknum. Greining

Greining lystarstols fer fram í viðtali hjá sálfræðingi eða geðlækni. Í viðtalinu er tekið mið af viðurkenndum greiningarskilmerjum (sjá hér að ofan) og reynt að fá sem gleggstar upplýsingar um umfang og eðli vandans. Oft er notast við sálfræðileg próf í mati á lystarstoli. Prófið EDE (the Eating Disorder Examination) er af flestum talið ein besta mælingin á sjúkdómseinkennum átraskana.

Hverjir fá lystarstol?

Lystarstol kemur oftast fram á aldrinum 14 til 18 ára og talið er að um 90% af lystarstolssjúklingum séu konur. Tíðni sjúkdómsins er á reiki og fer eftir því hvaða viðmið eru notuð. Hæst hefur tíðni náð 1 af hverjum 200 stúlkum á skólaaldri en lægst 1 af hverjum 200.000. Yfirleitt er talið að lystarstol hrjái um eða undir 1% af öllum unglingum í iðnvæddum samfélögum. Lystarstol hefur greinst um allan heim en þó er lystarstol algengast í vestrænum samfélögum þar sem nægur matur er á boðstólum, grannir líkamar þykja aðlaðandi og eru taldir táknmynd fegurðar og hreysti. Síðustu ár hafa sífellt fleiri greinst með lystarstol. Það stafar trúlega af fjölgun ungra kvenna í heiminum, auknum upplýsingum og opnari umfjöllun um lystarstol. Hið síðasta vegur þungt og segir okkur að ekki endilega sé um að ræða umtalsverða aukningu heldur það að æ fleiri sjúkdómstilfelli líti dagsljósið. Ekki er vitað mikið um tíðni lystarstols á Íslandi en engin ástæða er til að ætla annað en að hún reynist svipuð og annars staðar á Vesturlöndum. Þær fáu athuganir sem hér hafa verið gerðar benda til þess að tíðni hér og í Bandaríkjunum sé álíka mikil. Yfirgnæfandi meirihluti fólks með lystarstol eru konur, eða 90% allra lystarstolssjúklingum. Rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að lystarstol sé algengara hjá strákum fyrir kynþroska heldur en eftir kynþroska (19% á móti 5-10%). Ekki er vitað af hverju þetta stafar. Börn og unglingar

Lystarstol byrjar oftast á unglingsárunum, og þá fyrri hluta þeirra. Talið er að helsti áhættuhópurinn sé aldurinn frá um það bil 12 til 22 ára. Þess vegna telst lystarstol oft vera unglingaröskun. Gerð hafa verið greiningarviðmið til að greina átraskanir hjá börnum og unglingum sem eru ekki eins ströng og þau sem yfirleitt eru notuð. 

Það virðist vera grundvallarmunur á átröskunum hjá börnum og unglingum og fullorðnum. Margt bendir til þess að mjög hátt hlutfall stúlkna og drengja séu í megrun og með óeðlilegar matavenjur, hafi miklar áhyggjur af líkamslögun og þyngd og séu þess vegna í áhættuhópi fyrir átraskanir. Algengi lystarstols meðal 15-19 ára stelpna mældist 0,5% í einni rannsókn á meðan algengi lotugræðgi hjá sama hópi taldist vera á bilinu 1-5%. Í mjög slæmum tilfellum lystarstols fyrir kynþroska geta líffræðilegar afleiðingar verið óafturkallanlegar. Lystarstol getur þannig valdið því að börn hætti að vaxa og einnig seinkað eða hamlað kynþroska sem aftur getur valdið ófrjósemi. Einnig geta breytingar á heila í kjölfar lystarstols haft alvarlegar afleiðingar á vitsmunaþroska. Það þarf þó að rannsaka betur, því það virðist að einhverju leyti ganga til baka við bata. Fylgikvillar (aðrar geðraskanir)

Helsta röskunin sem fylgir lystarstoli er lotugræðgi. Aðrir algengir fylgikvillar lystarstols eru þunglyndi (algengi um 45%) og kvíðaraskanir svo sem árátta-þráhyggja (algengi um 12-24%), félagsfælni (algengi um 20-45%) og felmsturstruflun. Persónuleikatruflanir þekkjast einnig sem fylgikvillar lystarstols.

Hvað veldur lystarstoli?

Ýmsar kenningar hafa komið fram á orsökum lystarstols. Það er skemmst frá því að segja að sumum þessara kenninga hefur verið hafnað á meðan aðrar hafa leitt af sér spennandi rannsóknarniðurstöður og bætt meðferðarúrræði. Hér verður ekki gefið ítarlegt yfirlit um þær fjölmörgu kenningar sem settar hafa verið fram til að útskýra þennan flókna sjúkdóm. Þess í stað verður tæpt á fjórum ólíkum sjónarmiðum. Það skal haft í huga að þessi sjónarmið eru síður en svo andstæð hverju öðru. Þau beina athyglinni einfaldlega að ólíkum hliðum sjúkdómsins. Fjölskyldukenningar

Hér er litið svo á að orsaka lystarstols sé að leita í samskiptum innan fjölskyldna. Þeir sem aðhyllast þetta sjónarmið gera ráð fyrir að fjölskylda sé kerfi og að ekki sé hægt að fjalla um lystarstol nema með hliðsjón af þessu kerfi. Fjölskyldumeðlimir lystarstolssjúklings búa því yfir neikvæðri sjálfsmynd. Barn í slíkri fjölskyldu er mjög verndað en getur ekki á sama tíma öðlast sjálfstæði eða sjálfræði.

Einstaklingur með lystarstol ögrar fjölskyldukerfinu, af vanmætti vill hann brjótast út úr því og sjálfssvelti er uppreisn hans. Annað einkenni fjölskyldna lystarstolssjúklinga – samkvæmt þessum kenningum – er stífni og vanhæfni til að leysa vandamál. Árekstrar innan fjölskyldu eru óhjákvæmilegir og lystarstols verður leið hjá barni til að reyna að hafa stjórn á árekstrum milli foreldra sinna. Það mætti segja lystarstolseinkennin séu viðleitni barns að koma á jafnvægi innan fjölskyldunnar. Þótt þessar hugmyndir hafi ekki verið rannsakaðar til hlítar bendir ýmislegt til þess að hjá fjölskyldum fólks með lystarstol séu óvenjumiklir árekstrar eða spenna milli foreldra. Reyndar mætti spyrja sig að því hvort það sé orsök eða afleiðing þess að einn í fjölskyldunni þjáist af lystarstoli? Námskenningar

Námskenningar grundvallast á því að lystarstol sé lærð hegðun sem sé viðhaldið vegna afleiðinga lystarstols. Námskenningar lýsa lystarstoli sem forðunarviðbragði (avoidance response) þar sem mikill kvíði tengist því að sneiða fram hjá eða forðast mat. Kvíði lystarstolssjúklings er jafnmikill þótt hann láti ekki ofan í sig mat og eykst enn frekar borði hann. Þetta mynstur styrkist síðan í sessi með athyglinni sem einstaklingurinn fær við að grennast. Þannig hafi einstaklingurinn lært það að ef hann borðar ekki þá fái hann aukna athygli í kjölfarið.

Námskenningar leggja einnig áherslu á félagslegan þrýsting sem ungar konur eru beittar og beinist að útliti þeirra, að þær eigi að vera grannar. Löngum hefur verið talið að fjölmiðlar haldi við ímynd kvenna af æskilegri líkamsþyngd og lögun. Í vestrænum samfélögum er ímynd hinnar fullkomnu konu sífellt að grennast og er farin að smita út frá sér til annarra menningarsamfélaga. Eftir því sem verður meiri munur á ímynd og raunveruleika er aukin þörf fyrir „töfrabrögð“ sem geri konur heilbrigðari, grennri og þar af leiðandi fallegri. Rannsóknir sýna að ímynd kvenna í fjölmiðlum hefur áhrif á sjálfsmynd kvenna á neikvæðan hátt og að fylgni er á milli fjölmiðlaáhrifa og lystarstols. Einnig að konur með lystarstol meta líkama sinn mun neikvæðar eftir að hafa skoðað myndir í tískublöðum heldur en aðrar konur gera. Hugrænar kenningar

Á miðjum níunda áratugnum komu fram hugrænar skýringar á lystarstoli. Fræðimenn á þessu sviði fóru að veita því eftirtekt að hugsanaskekkjur gegnumsýrðu allan þankagang lystarstolssjúklinga og hegðun þeirra endurspeglaði þeirra hjartans sannfæringu að þeir „yrðu“ að vera grannir. Þetta varð þeim ekki lengur ósk eða löngun til að verða grannur en þess í stað krefjandi þörf sem stjórnað hegðun þeirra og hugsun. Hugrænt mat fólks með lystarstol er þar af leiðandi brenglað, þyngdartap verður þeim staðfesting á sjálfstjórn þeirra og velgengni.

Hjá lystarstolssjúklingum eykur þyngdartapið sjálfsöryggi og afléttir vanmáttarkennd og með þessum hugsunargangi eru þeir komnir í eilífan vítahring (nema lækning komi til): Því meira sem þeir léttast því sælli er tilfinningin um velgengni og árangur. Það gefur auga leið að slíkt leiðir til óhóflegrar megrunar sem verður skaðleg að lokum. Hugrænar skýringar hafa samtvinnast námskenningum og kallast sú nálgun eða hálfgerður samruni hugrænt-atferlislíkan. Samkvæmt þessu líkani er lystarstoli og lotugræðgi viðhaldið af ofuráherslunni sem er lögð á líkamslögun og þyngd. Orsakanna er að leita í samspili persónueinkenna (til dæmis fullkomnunaráráttu og mikilli þörf fyrir sjálfsstjórn) og menningarlegra ímynda um útlit kvenna. Á endanum hefur vítahringur lystarstolssjúklinga lífeðlisleg áhrif. Þau stuðla aftur að því að halda við áráttuhugsunum og hegðun lystarstolssjúklinganna. Það sem einkennir helst hugrænar-atferlisfræðilegar kenningar er áhersla þeirra á að skoðanir og viðmið lystarstolssjúklinga á þyngd séu grundvallaratriðið og það sem allt snýst um í átröskun. Fleira hefur áhrif, brengluð skynjun lystarstolssjúklinganna, hugsanir þeirra, tilfinningar og hegðun. Þeir sem aðhyllast hið síðastnefnda telja að lystarstol og lotugræðgi megi í grundvallaratriðum skýra á svipaðan hátt. Viðhorf beggja hópanna eru lík svo og sömu skoðunum gert jafnhátt undir höfði. Enda er raunin sú að einstaklingur með lotugræði er líka oft með lystarstol hvort sem hann finnur fyrir báðum röskununum samtímis eða fær hvora á eftir annarri. Fræðimenn segja að það sem skilji á milli þessara tveggja raskana séu þættir sem erfitt er að stjórna eða breyta (t.d. persónueinkenni og líffræðilegur munur). Viðmið, hugsanir og viðhorf fólks með lotugræðgi og lystarstol eru því mjög lík. Lífeðlislegar skýringar

Ýmislegt bendir til þess að lystarstol sé að einhverju leyti erft og því sé um einhverja afbrigðilega lífeðlislega starfsemi að ræða. Margir rannsakendur telja að lystarstol og lotugræðgi stafi af afbrigðilegri starfsemi í þeim hlutum heilans sem stjórna áti og efnaskiptum. Það hafa þó ekki komið fram neinar óyggjandi lífeðlislegar eða líffræðilegar skýringar á lystarstoli þótt ýmislegt hafi verið athugað.

Hormónakerfið fer úr skorðum hjá fólki með lystarstol en svo virðist sem um sé að ræða afleiðingu sjúkdómsins frekar en orsök af því að það lagast við bata. Lengi hefur verið talið að undirstúka (hypothalamus) væri það heilasvæði sem stjórnaði áti og orsakir fyrir lystarstoli tengdust þar af leiðandi undirstúku. Núna er vitað að undirstúka er mikilvæg í stjórnun á ýmissi hegðun tengdri áhugahvöt. Stafaði lystarstol af lífeðlislegum völdum hefði það því sennilegast með eitthvert annað heilasvæði að gera. Rannsóknir hafa sýnt fylgni milli lystarstols og breytinga á magni boðefnanna serótóníns og noradrenalíns. Það er ennþá óljóst hvort breytingin sé orsök eða afleiðing lystarstols. Hið sama er uppi á teningnum með breytingu á heilavef sem fundist hefur hjá fólki með lystarstol. Erfðaþættir gætu haft einhver áhrif og veikt einstaklinga fyrir röskuninni. Tvíburannsóknir hafa leitt í ljós að eineggja tvíburar eru líklegri en tvíeggja tvíburar til þess að fá báðir lystarstol. Í einni rannsókn var samræmi 56% fyrir eineggja og 5% fyrir tvíeggja. Það er að segja ef annar eineggja tvíbura þjáist af lystarstoli þá eru helmingslíkur á að hinn fái einnig lystarstol. Almennt hefur komið fram að um 6-10% af kvenkyns ættingjum kvenna með lystarstol þjást einnig af lystarstoli og það sama gildir um systkini. Sumar erfðaskýringar tengja lystarstol við þunglyndi í fjölskyldum, en það er þó umdeilt. Fæstir halda því fram að orsakir lystarstols séu einungis lífeðlislegar. Flestir telja að um sé að ræða einhverskonar samvirkni lífeðlislegra- og umhverfisþátta. Ýmis lyf hafa verið reynd við lystarstoli en ekkert þeirra virðist duga.

Meðferð

Almennt um meðferð og batahorfur

Rannsóknir á meðferð og árangri meðferðar eru miklu færri á lystarstoli en lotugræðgi. Ástæður gætu verið margar. Lystarstol er sjaldgæfara og aðferðarfræðileg og klínísk vandamál eru algengari í rannsóknum þegar svo er. Lystarstolssjúklingar eru líka töluvert tregari til að vilja meðferð en lotugræðgissjúklingar. Að auki eru þeir síður tilbúnir að viðurkenna að þeir séu haldnir lystarstoli en hinir sem eru með lotugræðgi.

Almennt er talið að eftir því sem lystarstolssjúklingar séu léttari reynist þeim erfiðara að ná bata. Það sama gildir um fólk sem hefur verið haldið sjúkdómnum lengi og líka það að eftir því sem fólk er eldra þegar það fær sjúkdóminn því minni líkur eru á bata. Fari aðrar geðraskanir samhliða lystarstoli verður árangurinn minni af meðferð. Tiltölulega lítið er vitað um það hvaða meðferðir reynist árangursríkastar. Lystarstol er óútreiknanleg röskun, allt frá því að vera langvinn og óviðráðanleg í að vera skammvinn og auðlæknuð. Rannsóknir sýna líka að hjá um 30-50% af sjúklingum sem fá árángursríka meðferð á sjúkrahúsi tekur lystarstol sig upp aftur ári eftir meðferð. Flestir eru sammála um að meðferð við lystarstoli taki mjög langan tíma, sjúklingar þurfi að dveljast langdvölum á sjúkrahúsi og vera í meðferð í nokkur ár að sjúkrahúsdvöl liðinni. Helstu  vandkvæðin við að lækna lystarstol felast í því hversu ósamvinnuþýðir lystarstolssjúklingar eru. Fæstir þeirra fara sjálfviljugir í meðferð og afneitun á sjúkdómnum fylgir þeim lengi eftir að meðferð hefst. Þeir neita því alfarið að vera of grannir, að þeir séu að reyna að léttast, að þeir séu svangir og hræddir við að þyngjast og svo framvegis. Sumir koma af fjöllum þegar þeir eru spurðir hvers vegna þeir léttust svo eða telja upp annarlegar ástæður fyrir því hvernig þeir léttust svona óvart. Aðrir viðurkenna þyngdartap sitt en telja það rökrétt og komi engum við. Ef afneitun dugar sjúklingunum ekki til að komast hjá meðferð er mjög algengt að þeir þykist taka þátt í henni en noti ýmsar aðferðir í laumi til að komast hjá því að þyngjast, ætla í síðustu lög að láta meðferðina hafa áhrif á hegðun sína eða hugsun. Fyrrgreind afstaða fólks með lystarstol er „rökrétt“ svo undarlega sem það kann að hljóma. Markmið þeirra er að léttast og sýna sjálfsstjórn og svelti og líkamsþjálfun eru þær leiðir sem hafa reynst þeim best. Þeir líta á röskunina sem afrek, ekki vandamál og í þeirra augum eru þeir sérstakir en ekki óeðlilegir eins og öðrum finnst. Þegar langt er gengið á sjúkdóminn verða lystarstolssjúklingar vitaskuld mjög hræddir við breytingar sem óhjákvæmilega verða á háttum þeirra. Engu að síður halda þeir áfram að líta svo á að megrunin sé lausnin á vandamálum þeirra en ekki orsök. Í ljósi þessa er skiljanlegt af hverju meðferð á lystarstoli ber oft ekki  árangur, það hlýtur að teljast grundvallaratriði í sérhverri meðferð að sjúklingurinn taki virkan þátt í henni til að árangur náist. Sjúklingar sem eru orðnir mjög illa haldnir líkamlega af lystarstoli enda oftast inni á sjúkrahúsi. Þar er allt gert til að koma líkamsþyngd þeirra í rétt horf en minna er tekið á sálrænum þáttum. Meðferð á sjúkrahúsi þar sem næringarráðgjöf og atferlismótun eru notuð er árangursrík til að koma líkamsþyngd í réttar horfur. Erfiðleikar eru hins vegar að fá sjúklingana til að viðhalda eðlilegri þyngd þegar af sjúkrahúsinu er komið. Yfirleitt tekur þá við einhvers konar meðferð og stundum líka lyfjagjöf. Meðferð á sjúkrahúsi er algeng en það er líka hægt að meðhöndla sjúklinga utan slíkra stofnana. Báðar leiðir hafa verið athugaðar og skila jafn góðum árangri. Markmið með meðferð á lystarstoli eru að koma á eðlilegum matarvenjum og eðlilegri líkamsþyngd. Einnig er lögð áhersla á að leysa félags- og sálfræðileg vandamál sem eiga drjúgan þátt í því að halda röskuninni við. Börn með lystarstol

Fyrir börn með lystarstol er sjúkrahúsvist aðeins ráðlögð þegar um alvarleg læknisfræðileg vandamál er að ræða eða þegar ástandið er skelfilegt. Svo virðist sem meðferð utan sjúkrahús samtvinnuð af einstaklings- og fjölskyldumeðferð gefi besta raun. Ekki þykir nauðsynlegt að öll fjölskyldan taki þátt í meðferð. Því yngra sem barnið er og því alvarlegri sem lystarstolið er, verður mikilvægara að foreldrarnir stjórni áti barnsins með atferlismótun (líkt því og er gert inn á sjúkrahúsum). Sálrænni meðferð ætti að bæta við þegar barnið fer að nálgst eðlilega þyngd. Lyf ætti aðeins að gefa þegar lystarstoli fylgir þunglyndi eða áráttu og þráhyggju.

Lyfjameðferð

Meðferð með þunglyndislyfjum og kvíðastillandi lyfjum virðast ekki bera tilætlaðan árangur fram yfir lyfleysur, en virðist þó í einhverjum tilfellum geta dregið úr einkennum. (Lyfleysa er óvirkt efni sem fólki er gefið í þeirri trú að um lyf sé að ræða í því skyni að bera saman áhrif annarra lyfja. Ef lyfið reynist árangursríkara en lyfleysan er næstum því öruggt að það sé vegna áhrifa lyfsins en ekki annarra þátta).

Ekki hefur verið mikið um langtímarannsóknir á áhrifum lyfjameðferðar og þær sem til eru hafa reynst margar hverjar gallaðar. Sjúklingar hafa oft verið í annars konar meðferð með lyfjagjöfinni og aukaverkanir lyfja gert það að verkum að sjúklingar hafa hætt inntöku þeirra. Því er í raun lítið hægt að fullyrða um áhrif lyfjagjafar á lystarstol. Lyfið fluoxetine reyndist árangursríkt í einni rannsókn til að halda niðri einkennum þegar af sjúkrahúsi var komið. Sjúklingar sem fengu það héldu líkamsþyngd í réttu horfi og hrjáðust minna af þunglyndi, kvíða, áráttu og þráhyggjum heldur en sjúklingar sem ekki fengu lyfið. Önnur rannsókn þar sem sjúklingar fengu sálfræðilega meðferð eftir að komið var af sjúkrahúsi sýndi ekki fram á marktæk áhrif af lyfinu. Fjölskyldumeðferð

Fjölskyldumeðferðir hafa beinst að því að laga óeðlileg samskipti innan fjölskyldna. Nýrri leggja meiri áherslu á það að fá fjölskylduna til að taka virkan þátt í meðferð lystarstolssjúklingsins en minna gert úr því að gera ráð fyrir óeðlilegu fjölskyldumynstri sem orsaki lystarstolið. Nú til dags er notast við aðferðir frá sálaraflsmeðferðum og hugrænum- atferlismeðferðum í fjölskyldumeðferð fyrir lystarstol. Svo virðist sem fjölskyldumeðferð sé vænlegur kostur fyrir sjúklinga sem fá lystarstol ungir (undir 19 ára) og hafa ekki haft sjúkdóminn lengi (minna en 3 ár). Fjölskyldumeðferð er góð fyrir sérstakan hóp lystarstolssjúklinga en ekki að sama skapi fyrir aðra. En þar sem vitað er að barahorfurnar eru mestar hjá þessum hópi sjúklinga er eðlilegt að taka árangur fjölskyldumeðferðar með fyrirvara. Þá virðist óþarfi að vera með alla fjölskylduna í meðferð í einu eða greiða úr samskiptamynstri þeirra. Að sama skapi sýnist það nauðsynlegt að foreldrar séu virkir þátttakendur í meðferð ungra barna sinna eða unglinga með lystarstol.

Hugræn atferlismeðferð

Atferlismeðferð miðar að því að móta matarvenjur og verðlauna lystarstolssjúklinga fyrir að borða stærri skammta af mat. Hún leiðir til þess að sjúklingar þyngjst hratt en meðferðin sem slík tekur ekki á þeim félagslegu og sálrænu þáttum sem eru taldir viðhalda lystarstoli. Þar sem hugræn-atferlismeðferð hefur reynst árangursríkari meðferð við lystarstoli en atferlismeðferð ein og sér er yfirleitt líka beitt hugrænni meðhöndlun til að reyna að breyta skoðunum sjúklinganna.

Í hugrænni atferlismeðferð reynir meðferðaraðilinn að breyta afbrigðilegum skoðunum og viðhorfum um „tilgang“ þyngdar, líkamslögunar og útlits sem talin eru búa að baki megruninni og óttanum við þyngdaraukningu. Bata er náð með því að blanda saman atferlismótun, sem beinist að því að laga matarvenjur og koma líkamsþyngd í rétt horf, og hugrænni tækni sem miðast að því að bæta sjálfstraust og þróa mat á persónulegri velgengni sem er óháð útliti. Þrátt fyrir að hugræn-atferlismeðferð hafi verið töluvert notuð til meðferðar á lystarstoli eru ekki til óyggjandi staðfestingar um árangur hennar. Þær fáu rannsóknir á árangri sem eru til hafa hingað til valdið vonbrigðum og ekki sýnt fram á þann árangur sem vonast var eftir. Þetta hefur komið mörgum á óvart þar eð árangur þessara meðferðar fyrir lotugræðgisjúklinga er mjög góður. Batahorfur

Meirihluti rannsókna á bata af lystarstoli gefa til kynna að um 50-70% lystarstolssjúklinga nái góðum eða meðalgóðum bata á meðan um 15-25% hafi langvarandi einkenni sjúkdómsins. Rannsóknir á dánartíðni vegna lystarstols eru allt frá 1% upp í 21%, algengustu dánarorsakir eru svelti eða sjálfsvíg. Flestar rannsóknir að megrun haldi áfram að vera vandamál hjá meirihluta þeirra sem teljast vera læknaðir af lystarstoli og hafa náð eðlilegri líkamsþyngd.

Árangur meðferðar við lystarstoli virðist almennt ekki mjög góður. Í einni rannsókn kom fram að tuttugu árum eftir meðferð hafði aðeins um 29% af hópi sjúklinga sem fékk meðferð við lystarstoli náð góðum bata. Næstum 15% af sjúklingunum hafði dáið, annaðhvort af völdum sjálfsvígs eða vandamála tengdum lystarstoli.

Elsa Eiríksdóttir, BA í sálfræði