persona.is
Lyfjameðferð
Sjá nánar » Geðsjúkdómar

Hvað eru geðlyf?

Það er ekki hægt að sjá fyrir hverjir fá geðsjúkdóma. Hver sem er getur fengið geðsjúkdóm – þú, einhver í fjölskyldunni, vinur þinn eða nágranni. Sumir geðsjúkdómar eru vægir og skammvinnir, aðrir eru alvarlegir og langvarandi. Mörg úrræði finnast við geðsjúkdómum, eitt þeirra er lyfjameðferð. Lyfjameðferð við geðsjúkdómum er tiltölulega nýtilkomin miðað við önnur úrræði. Fyrsta virka geðlyfið, klórprómazín (Largactil), kom á markað árið 1944. Þrátt fyrir stutta sögu hafa geðlyf valdið straumhvörfum í meðferð við geðsjúkdómum. Áður en lyfin komu til sögunnar þurftu sjúklingar oft að dvelja árum saman á geðsjúkrahúsum en núna nægir oft stutt sjúkrahúsdvöl og í mörgum tilfellum er hægt að meðhöndla geðsjúkdóma án innlagnar. Geðlyf geta einnig aukið árangur annarrar meðferðar. Til dæmis hefur sjúklingur sem er of þunglyndur til að vera færi um að tjá sig lítið gagn af viðtalsmeðferð. Lyfjameðferð drægi í þessu tilfelli úr þunglyndiseinkennum og viðtalsmeðferðin gagnaðist. Notkun geðlyfja hefur líka aukið skilning manna á orsökum geðsjúkdóma. Vísindamenn hafa lært um starfsemi heilans af rannsóknum sínum með prófun lyfjanna og uppgötvað hvernig þau draga úr einkennum geðsjúkdóma á borð við sturlun, þunglyndi, kvíða, áráttu- og þráhyggjusýki og ofsakvíða. Lyf gegn einkennum Geðlyf lækna ekki geðsjúkdóma. Þau draga úr einkennum án þess að lækna sjúkdóminn eins og til dæmis parasetamól getur slegið á sótthita án þess að hafa áhrif á sýkinguna sem veldur hitanum. Geðlyfin megna þó að hafa mikil áhrif á líf geðsjúklinga. Lyf eins og klórprómazín hjálpar sjúklingum með geðklofa að skynja veruleikann og slær á önnur einkenni, eins og t.d. að heyra raddir. Geðdeyfðarlyf draga úr vonleysi og depurð sem fylgir þunglyndi. Lyfin hafa þó mismunandi áhrif, eftir einstaklingum og því hvað verið er að meðhöndla. Lyfin gætu dregið lítillega úr einkennum eða slegið alveg á þau. Meðferðartími með geðlyfjum er mislangur. Oft dugar að taka þau í nokkra mánuði, eins og við þunglyndi og kvíða. Við alvarlegri geðröskunum, s.s. oflæti og geðklofa, þarf að taka lyf að staðaldri eða með reglulegu millibili. Geðlyf hafa ekki sömu áhrif á alla sjúklinga, rétt eins og önnur lyf. Eitt lyf gæti haft meira að segja en annað fyrir einstaklinginn. Sumir finna fyrir aukaverkunum meðan aðrir kenna sér einskis. Lyfjaskammtar eru líka misstórir. Ýmislegt ræður skammtastaærð og verkun lyfjanna, t.d. aldur, kyn, þyngd, líkamsstarfsemi, aðrir sjúkdómar, mataræði, drykkjuvenjur og reykingar. Spurningar til læknisins Sjúklingar og fjölskyldur þeirra geta aukið líkurnar á virkni lyfjameðferðar með því að vinna með lækninum sem sjúklingurinn er í umsjá. Læknirinn þarf að vita um aðra sjúkdóma, önnur lyf sem sjúklingurinn tekur og hvort einhverjar breytingar séu í vændum sem gætu haft áhrif eða jafnvel skipt sköpum í lífi hans eins og barneignir. Þá verður að segja lækninum frá aukaverkan lyfjameðferðar ef þær koma fram. Gagnlegt er að spyrja lækninn eftirfarandi spurninga um nýtt lyf:
  • Hvað heitir lyfið og hvað á það að gera?
  • Hvernig, hvenær og hversu lengi á ég að taka lyfið?
  • Er einhver fæða, drykkir, lyf eða annað sem ég ætti að forðast á meðan ég tek lyfið?
  • Hvaða aukaverkanir getur lyfið haft, hvað á ég að gera ef þær koma fram?
  • Eru einhverjar skriflegar upplýsingar/leiðbeiningar til um lyfið?
Lyfin eru flokkuð eftir virkum innihaldsefnum og er skipt í fjóra flokka eftir notkun: Lyf við geðklofa eða sturlun, oflæti, þunglyndi og kvíða. Utan þessara flokka er eitt örvandi lyf sem er notað við athyglisbresti eða ofvirkni með athyglisbresti. Virkni áðurtalinna lyfja hefur verið staðfest í rannsóknum og með mati á árangri meðferðar. Þó er margt eftir ólært um lyfin og verkun þeirra. Stofnanir og rannsóknarhópar um allan heim eru sífellt að leitast við að öðlast betri skilning á áhrifum lyfjanna, hvernig eigi að draga úr aukaverkunum og hvernig sé hægt að auka áhrif þeirra.

Lyf við geðklofa

Sjúklingur með geðklofa missir raunveruleikaskyn. Hann fær ýmsar ranghugmyndir í kollinn, gæti ímyndað sér að aðrir heyrðu hugsanir hans eða að gervihnettir fylgdust með honum. Þá gæti hann heyrt raddir inni í höfðinu á sér eða haldið að hann væri fræg persóna, t.d. Hitler eða Jesús. Skap og hegðun breytist mikið, hann gæti til að mynda orðið spenntur eða ofsareiður án þess að nokkur ástæða fyndist. Þá hætta geðklofasjúklingar oft að þrífa sig og skipta um föt þegar þeir veikjast. Samskipti við geðklofasjúkling eru erfið, samhengislaust tal þeirra og/eða þegjandaháttur sér til þess. Sjúklingar draga sig oft í hlé og svefnmynstur þeirra breytist í þá veru að þeir sofa á daginn og vaka á nóttunni. Einhver þessara einkenna eru alltaf til staðar hjá geðklofasjúklingum, önnur ekki. Lyf við geðklofa slá á þessi einkenni. Lyfin lækna ekki geðklofa en þau halda einkennunum niðri og geta stytt tímann sem köstin standa yfir. Mörg lyf eru til við geðklofa, svokölluð sefandi lyf. Lyfin eru öll virk en helsti munurinn á þeim felst í aukaverkunum sem þau hafa svo og hversu stóra skammta þarf til að slá á einkennin. Geðklofalyf skiptast í tvo flokka eftir styrkleika: háskammta – og lágskammta sefandi lyf. Stærri skammta, (þ.e. fleiri milligrömm), þarf af háskammtalyfjunum en hinum til að hafa áhrif. Það er ekki alltaf beint samhengi milli þess hversu mörg milligrömm af lyfi eru tekin og hversu alvarlegur sjúkdómurinn er. Áður en lyf eru gefin þarf læknir að taka tillit til margs, eins og aldurs, kyns og þyngdar, líka hversu alvarlega veikur sjúklingurinn er. Sjúkrasaga er mikilvæg, hafi eitthvað tiltekið lyf haft góð áhrif er líklegt að læknir gefi það aftur. Þrátt fyrir það að háskammtalyfin séu veikari en lágskammtalyfin koma þau oft að góðum notum. Ástæðan fyrir því er sú að sjúklingar þola lyf misvel og það sem hentar einum á ekki við hinn. Munurinn af aukaverkunum lyfjanna er mismikill, en aukaverkanir teljast öll áhrif umfram tilætluðum áhrifum lyfsins, þ.e. að slá á einkenni sjúkdómsins. Aukaverkanir geta þó í sumum tilfellum hjálpað, til dæmis geta róandi áhrif sumra sefandi lyfja hjálpað fólki með svefnörðugleika að sofna eða dregið úr óróa yfir daginn. Yfirleitt er nóg að taka sefandi lyf einu sinni á dag, ólíkt mörgum öðrum lyfjum. Auðvelt reynist að stýra því hvenær aukaverkanir koma fram, til dæmis með því að taka lyf með róandi áhrifum aðeins á kvöldin. Í sumum tilfellum eru sefandi lyf til í stungulyfjaformi með forðaverkun og því nægir að gefa þau á nokkurra vikna fresti. Flestar aukaverkanir sefandi lyfja eru mildar. Oft koma aukaverkanir mest fram í upphafi meðferðar en líða hjá þegar meðferð er haldið áfram. Þetta á meðal annars við um svima þegar staðið er upp, sljóleika og hraðan hjartslátt. Þyngdaraukning getur verið fylgifiskur sefandi lyfja en oft má draga úr henni með breyttu mataræði. Aðrar aukaverkanir eru: minnkaður áhugi á kynlífi eða minnkuð kyngeta, óreglulegar tíðablæðingar, útbrot og húð getur orðið viðkvæmari fyrir sólarljósi. Ef aukaverkanir af völdum sefandi lyfja valda miklum óþægindum er full ástæða til þess að hafa samband við lækni og leita leiða til að draga úr þeim. Til greina gæti komið að breyta skömmtun eða skammtastærðum, skipta um lyf eða að bæta öðrum lyfjum við meðferðina sem draga úr aukaverkununum. Sefandi lyf geta orsakað hreyfitruflanir sem oftast má draga úr með öðrum lyfjum. Hreyfitruflanir koma oftast fram sem kippir í hálsi, kringum augu, í baki eða öðrum vöðvum. Líka gætir óróa og eirðarleysis, hægari hreyfingar og tal og erfiðleikar með gang. Mörg þessi einkenni líkjast einkennum Parkinsonsveiki þó ekki sé um þann sjúkdóm að ræða. Ef þessi einkenni eru mikil eða langvarandi er mikilvægt að hafa samband við lækni. Til eru lyf sem draga úr hreyfitruflunum vegna sefandi lyfja sem væri hægt að bæta við meðferðina. Meðferð með sefandi lyfjum getur tekið mislangan tíma. Sum einkenni geðsjúkdómsins lagast á nokkrum dögum, meðan önnur vara vikum eða mánuðum saman. Oft koma áhrif meðferðar fram að mestu innan sex vikna, þó ekki sé það algilt. Ef lítill árangur hefur náðst eftir nokkurra vikna meðferð kemur til greina að breyta meðferðinni. Þegar árangur hefur náðst og sjúkingnum líður betur eða finnst hann jafnvel vera orðinn fullfrískur skiptir miklu að hann hætti ekki lyfjameðferðinni en hafi samráð við lækni um framhaldsmeðferð. Ef lyfjameðferðinni er hætt skyndilega eykst hætta á bakslagi, þ.e. að einkennin komi fram aftur. Ef um er að ræða langvarandi einkenni eða tíð geðklofaeinkenni gæti þurft að taka lyfin að staðaldri, jafnvel ævilangt. Ókostir viðhaldsmeðferðar felast í hættu á síðkomnum hreyfitruflunum, í formi ósjálfráðra hreyfinga, algengastar í kringum munninn, en einnig sjást þær í baki, mjöðmum eða þind. Oftast ganga þessar hreyfitruflanir til baka þegar meðferð lýkur en í sumum tilfellum eru þær óafturkræfar. Síðkomnar hreyfitruflanir sjást helst eftir langtímameðferð með sefandi lyfjum. Konur virðast vera hérna í meiri hættu en karlar og eldra fólk frekar en yngra. Hvorki er hægt að sjá fyrir hverjir fá þessa aukaverkun né hjá hverjum hún gengur til baka. Það er enn engin meðferð til við síðkomnum hreyfitruflunum og því þarf að meta í hverju tilfelli fyrir sig ávinning af langvarandi lyfjameðferð móti hættu á því að þessi aukaverkun komi fram. Sefandi lyf hafa milliverkanir við mörg önnur lyf, þess vegna þarf læknirinn að vita af öðrum lyfjum sem sjúklingur notar. Þetta á bæði við lyfseðilsskyld lyf og lausasölulyf. Sum sefandi lyf geta til dæmis haft áhrif á verkun blóðþrýstingslyfja, flogaveikilyfja og Parkinsonslyfja. Áfengi hefur líka áhrif á verkun lyfjanna með því að auka sljóvgandi áhrif þeirra lyfja sem eru róandi. Óhefðbundin sefandi lyf Óhefðbundin sefandi lyf eru svo nefnd vegna þess að efnafræðileg bygging þeirra og áhrif á boðefnakerfi í heilanum er frábrugði eldri lyfjum. Fyrsta óhefðbundna sefandi lyfið sem kom á markað var klózapín (Leponex). Í prófunum á lyfinu kom fram að það hefði góð áhrif á þá geðklofasjúklinga sem svöruðu ekki annarri meðferð. Ennfremurað hætta á síðkomnum hreyfitruflunum væri mun lægri en hjá hefðbundnu lyfjunum. Klózapín getur í sjaldgæfum tilfellum valdið fækkun á hvítum blóðkornum sem er lífshættulegt ástand. Þess vegna þarf að fylgjast reglulega með sjúklingum sem nota lyfið og taka blóðprufu vikulega. Mælingunum fylgir kostnaður og fyrirhöfn sem dregur úr notagildi lyfsins. Um 1994 kom annað óhefðbundið sefandi lyf á markað, risperidón (Risperdal). Risperidón veldur fáum aukaverkunum þegar það er notað í litlum skömmtum ásamt því að fækka ekki hvítum blóðkornum eins og klózapín getur gert. Mikill áhugi er á nýjum sefandi lyfjum sem valda ekki alvarlegum aukaverkunum á borð við síðkomnar hreyfitruflanir eða fækkun hvítra blóðkorna. Nú eru tvö önnur lyf í þessum flokki á skrá hér á Íslandi, ólanzapín (Zyprexa) og quetapín (Seroquel).

Lyf við geðhvörfum

Hjá geðhvarfasjúklingi eru tímabil mikilla geðsveifla, allt frá oflæti til þunglyndis. Tíðni sveifla og alvara einkenna er einstaklingsbundið. Inn á milli þessara stóru sveifla geta komið eðlilegir kaflar hjá sjúklingnum. Í oflætisköstum er sjúklingur mjög virkur, talar hratt og mikið og með ótrúlega mikla orku. Honum finnst hann ekki koma hugmyndum nægilega hratt frá sér og skiptir oft um umræðuefni. Hægt er að fanga athygli hans í skamman tíma í senn og hann truflast auðveldlega. Sjúklingur í geðhæð er oft pirraður og reiður, oft með ranghugmyndir um stöðu sína í heiminum. Stórfenglegar hugmyndir um viðskipti eða ástarlíf blossa oft upp, samfara skertri dómgreind á þessum sviðum. Sé oflætiskast ekki meðhöndlað gæti það auðveldlega leitt til sturlunarástands. Þunglyndi einkennist af depurð, kraftleysi, breytingum á matar- og svefnvenjum, vonleysi, sektarkennd og jafnvel sjálfsmorðshugsunum. Litíum Litíum er algengasta lyfið við oflæti (maníu). Geðhvarfasjúkdómurinn einkennist af oflætisköstum og algengast er að þunglyndisköst fylgi í kjölfar þeirra, eða komi fyrir oflætiskast. Litíum dregur úr geðsveiflum í báðar áttir og hefur því tvíþætt notagildi, bæði gegn oflætisköstum og sem fyrirbyggjandi meðferð gegn geðhvarfasjúkdómi. Litíum dregur úr alvarlegustu einkennum oflætis eftir um 5-14 daga meðferð en það gæti tekið allt frá nokkrum dögum til nokkra mánuða að ná fullri stjórn á ástandinu. Sefandi lyf eru stundum notuð í byrjun meðferðar við oflæti, eða þangað til litíumið fer að hafa áhrif. Á sama hátt getur þurft að nota þunglyndislyf samhliða litíummeðferð þegar geðhvarfasjúklingur er í þunglyndi. Geðhvarfasjúkdómur er ekki alltaf langvarandi. Þekkt eru dæmi um að fólk fái aðeins eitt geðhvarfakast á ævinni, eða að mörg ár líði milli þeirra. Hafi sjúklingur fengið fleiri en eitt kast kemur viðhaldsmeðferð með litíum sterklega til greina. Það er misjafnt hversu góð áhrif viðhaldsmeðferðin hefur, sumir fá engin köst meðan geðsveiflur hrjá aðra en þær fara þó minnkandi með áframhaldandi meðferð. Stundum lengist tíminn milli kasta en í sumum tilfellum hjálpar meðferðin ekki. Það er ekki hægt að sjá fyrir um það hversu gagnleg meðferðin reynist hverjum og einum. Vandasamt er að stjórna litíummeðferð og nauðsynlegt fyrir sjúkling að vera í reglulegu eftirliti. Sé skammturinn of lítill hefur lyfið ekki áhrif sem of stórum skammti fylgir hætta á margvíslegum aukaverkunum. Þess vegna þarf að mæla litíum reglulega í blóði meðan skammtarnir eru stilltir af og á nokkurra mánaða fresti meðan lyfið er tekið. Hæfilegir skammtar fara eftir því hversu alvarlega veikur einstaklingurinn er, líkamsstarfsemi hans og líkamlegu ástandi. Ef dregið er umtalsvert úr magni natríums í líkamanum (natríum er í venjulegu borðsalti) getur litíum safnast upp og valdið eituráhrifum. Minnkuð saltneysla, aukin svitamyndun (t.d. vegna mikilla æfinga), hiti, langvinn uppköst og niðurgangur geta minnkað á natríum í líkamanum. Í þessum tilfellum er ráðlegt að hafa samband við lækni sem metur hvort ástæða sé til að breyta skömmtum. Í upphafi meðferðar er algengt að finna fyrir aukaverkunum á borð við þreytu, slappleika, ógleði, uppköstum, handskjálfta, auknum þorsta og þvagláti. Flestar þessar aukaverkanir hverfa eftir stuttan tíma, nema handskjálfti sem getur varað lengur. Þá er hætta á þyngdaraukningu sem hægt er að draga úr með breyttu mataræði. Forðast ætti skyndimegrunarkúra eins og heitan eldinn af því að þeir geta auðveldlega breytt litíummagni í líkamanum. Litíum getur haft áhrif á nýrnastarfsemi sem veldur auknum þvaglátum og um leið aukið þorsta. Hægt er að draga úr þessum einkennum með að minnka skammtinn. Litíum getur líka dregið úr starfsemi skjaldkirtils, þess vegna er fylgst reglulega með skjaldkirtli meðan meðferð er. Svo er líka hægt að gefa skjaldkirtilshormón til að vega upp þessi áhrif. Vegna aukaverkana litíums er forðast að gefa það sjúklingum með skerta nýrnastarfsemi, skjaldkirtilsvandamál, hjartasjúkdóma, flogaveiki og heilaskaða. Litíum getur valdið fósturskaða, sérstaklega á fyrstu 3 mánuðum meðgöngu. Milliverkanir á litíum og nokkrum öðrum lyfjum eru þekktar. Sum þvagræsilyf geta dregið úr útskilnaði litíums. Litíumið hleðst upp í líkamanum og getur leitt til eiturverkana. Kaffi og te hafa væg þvagræsiáhrif, geta aukið útskilnað litíums og þar með dregið úr áhrifum þess. Eituráhrif litíums koma fram sem ógleði, uppköst, slappleiki, sljóleiki, þvoglumælgi, rugl, svimi, vöðvakippir, óreglulegur hjartsláttur og þokusýn. Alvarleg ofskömmtun litíums getur verið lífshættuleg. Sjúklingur sem tekur litíum ætti að láta alla lækna og tannlækna sem hann þarf að sækja heim vita af því. Með reglulegu eftirliti er litíum öruggt og áhrifaríkt lyf og hjálpar mörgum sem annars væru fjötraðir af miklum og óviðráðanlegum geðsveiflum. Flogaveikilyf Litíum gagnast ekki öllum geðhvarfasjúklingum. Í sumum tilfellum er betra að taka inn lyf við flogaveiki. Karbamazepín (Tegretol) er eitt þeirra lyfja. Litíum og flogaveikilyfin eru dags daglega nefnd geðsveiflulyf (mood stabilizers). Geðhvarfasjúklingar með mjög tíðar geðsveiflur, þ.e. með nokkurra klukkutíma eða daga millibili, frekar en nokkurra mánaða, virðist sérstaklega henta að taka þetta lyf. Aukaverkanir sem koma fram í upphafi meðferðar með karbamazepíni eru oftast mildar. Meðal þeirra eru sljóleiki, svimi, rugl, þokusýn, skynvillur, minnistruflanir og ógleði. Þær ganga oftast fljótt yfir og draga má úr þeim með því að nota minni skammta í upphafi meðferðar. Hvítum blóðkornum gæti fækkað lítillega. Blóðprufur eru teknar reglulega til að skima fyrir beinmergsbælingu, sem er alvarleg aukaverkun en afar sjaldgæf. Húðútbrot sjást hjá 15-20% þeirra sem taka lyfið og eru í sumum tilfellum nógu alvarleg til að hætta þurfi lyfjameðferð. Valpróinsýra (Depakine, Orfiril) er annað flogaveikilyf sem hefur notagildi gegn geðhvörfum. Rannsóknir benda til þess að áhrif lyfsins á geðhvörf séu sambærileg við áhrif litíums. Lyfið er gagnlegt fyrir sjúklinga sem eru með bæði tíðar og hægar geðsveiflur. Valpróinsýra getur valdið aukaverkunum frá meltingarfærum, en þær aukaverkanir eru sjaldgæfar. Aðrar aukaverkanir eru meðal annars höfuðverkur, tvísýni, svimi, kvíði og rugl. Í einstöku tilfellum hefur valpróinsýra haft áhrif á lifrarstarfsemi. Lifrarpróf fara því fram áður en meðferð hefst og reglulega meðan á meðferð stendur, sérstaklega fyrstu sex mánuðina.

Þunglyndislyf

Mesta gagnið af þunglyndislyfjum hafa sjúklingar með alvarlegt og langvarandi þunglyndi. Sjúklingar með þunglyndiseinkenni eru daprir og áhugasnauðir um umhverfi sitt. Sumir eru lystarlausir og léttast, aðrir borða meira og þyngjast. Svefnvenjur raskast; sjúklingarnir sofa annað hvort meira eða minna en venjulega, eiga erfitt með að sofna, sofa illa eða vakna fyrir allar aldir á morgnana. Sjúklingar þjást margir hverjir af sektarkennd, finnst þeir vera einskis virði eða vonlausir. Þeir kvartað yfir því að þeir hugsi hægar en áður, séu orkulausir, ráði ekki við eitt eða neitt og séu grátgjarnir eða verið pirraðir og æst sig upp yfir litlu. Sjálfsmorðstal kemur upp á yfirborðið og sjúklingar reyna jafnvel að taka líf sitt. Sumir þunglyndissjúklingar eru með sturlunareinkenni og ranghugmyndir. Til dæmis gæti sjúklingur haldið því fram að hann væri látinn og væri að taka hérna út refsingu í víti. Þunglynt fólk er þó ekki endilega með öll þessi einkenni samanlagt, en einhver þeirra. Einkennin geta verið misalvarleg. Þunglyndislyf eru sá lyfjaflokkur sem oftast er notaður við alvarlegu þunglyndi en lyfin koma líka að gagni í sumum mildari tilfellum. Þunglyndislyf eru ekki örvandi, þau draga úr þunglyndiseinkennum og hjálpa sjúklingum að ná sér á strik að nýju. Þunglyndislyf eru einnig notuð við kvíðaeinkennum. Lyfin geta dregið úr ofsakvíða, þ.e. hröðum hjartslætti, skelfingu, svima, brjóstverk, ógleði og öndunarerfiðleikum. Þá geta lyfin gagnast vissum tegundum af fælni. Val milli mismunandi þunglyndislyfja fer eftir einkennum sjúklings. Áhrif lyfjanna koma yfirleitt ekki fram fyrr en eftir einnar til þriggja vikna meðferð. Sum einkenni minnka fljótlega meðan önnur taka lengri tíma að hverfa. Svefntruflanir gætu til dæmis lagast áður en skapið batnar. Ef lyfjameðferð ber ekki tilætlaðan árangur innan fimm til sex vikna má reyna að breyta meðferðinni, enda er oft misjafnt hvernig lyf hentar fólki. Þar sem ekki er hægt að sjá nákvæmlega fyrir hvaða lyfjameðferð hentar best tilteknum einstaklingi gæti þurft að prófa fleiri en eitt lyf áður en besta meðferðin er fundin. Meðferð er alltaf haldið áfram í nokkra mánuði til að koma í veg fyrir bakslag, og í sumum tilfellum er meðferðinni haldið áfram árum saman. Sumir fá eitt þunglyndiskast á ævinni meðan aðrir fá endurtekin þunglyndisköst, en með löngu millibili. Stundum fær fólk þó þunglyndisköst með styttra millibili eða þunglyndisköstin eru mjög langvarandi, jafnvel svo árum skiptir. Sumum finnst þunglyndi versna með aldrinum. Þá gæti dugað sjúklingnum langvarandi viðhaldsmeðferð með þunglyndislyfjum. Viðhaldsmeðferð dugar oft til að halda einkennum niðri eða draga úr tíðni kasta. Langtímanotkun með algengustu lyfjum í viðhaldsmeðferð er yfirleitt án vandkvæða. Komi aukaverkanir fram er yfirleitt hægt að draga úr þeim með því að minnka skammta. Litíum getur einnig gagnast í viðhaldsmeðferð, hvort sem um er að ræða þunglyndi eða geðhvarfasjúkdóm með oflæti. Skammtastærðir þunglyndislyfja eru mismunandi eftir lyfjategund, líkamsbyggingu og líkamsstarfsemi sjúklings, ásamt aldri. Oft er byrjað á litlum skömmtum til að draga úr líkum á aukaverkunum áður en byrjað er að gefa fullan dagsskammt. Nokkrir undirflokkar þunglyndislyfja eru til. Mismunurinn liggur í áhrifum þeirra og aukaverkunum. Þríhringlaga þunglyndislyf (nefnd svo vegna efnafræðilegrar byggingar þeirra) eru oftar notuð gegn alvarlegu þunglyndi en svokallaðir MAO-hamlarar. MAO-hamlarar koma þó oft að notum gegn þunglyndi með óhefðbundnum einkennum, s.s. miklum svefni, kvíða, ofsakvíða og fælni. Mest notuðu lyfin gegn þunglyndi eru þó lyf með sérhæfðari verkun en eldri lyfin, eða svonefnd SSRI lyf. Lyf sem tilheyra þessum flokki og eru skráð á Íslandi eru flúoxetín (Fontex, Seról, Flúoxín, Prozac), paroxetín (Seroxat, Paroxat), sertralín (Zoloft) og cítalópram (Cipramil). Lyf þessi hafa mismunandi efnafræðilega byggingu en verkun þeirra er söm, þau auka öll áhrif taugaboðefnisins serótóníns í heila. Nýrri þunglyndislyf sem hafa sérhæfð áhrif á serótónín og noradrenalín taugaboðefnin eru venlafaxín (Efexor), mirtazapín (Remeron) og reboxetín (Edronax). Nýrri lyfin virðast hafa svipuð áhrif og hin eldri en valda síður aukaverkunum. Aukaverkanir þunglyndislyfja Þríhringlaga þunglyndislyf Þríhringlaga þunglyndislyf geta valdið margvíslegum aukaverkunum. Þær eru þó mismunandi milli stakra lyfja í þessum flokki. Til dæmis getur amitriptýlín (Amilin) valdið sljóleika en nortriptýlín (Noritren) hefur frekar örvandi áhrif. Aukaverkanir af þessu tagi stjórna því að nokkru leyti hvaða lyf er gefið hverjum. Þríhringlaga þunglyndislyf geta í stórum skömmtum aukið álag á hjartað og þess vegna þarf læknir, sem ávísar þessum lyfjum, að vita um hjartasjúkdóma eða tengd vandamál hjá sjúklingi. Aðrar aukaverkanir þríhringlaga lyfjanna eru sjónstillingartruflanir, munnþurrkur, hægðatregða, þyngdaraukning, svimi þegar staðið er upp, aukin svitamyndun, þvagtregða, minnkuð kynhvöt eða kyngeta, vöðvakippir, þreyta og slappleiki. Þótt þessar aukaverkanir séu algengar með lyfjum í þessum flokki þýðir það ekki að sérhvert lyf valdi öllum þessum aukaverkunum eða að allir fái þær. Sumar aukaverkanir standa stutt yfir og líða hjá þegar meðferð er haldið áfram, meðan aðrar vara í lengri tíma. Sumar hverjar aukaverkanir minna á þunglyndiseinkenni, t.d. þreyta og hægðatregða. Mikilvægt er því að sjúklingurinn eða fjölskylda hans hafi reglulega samband við lækninn og segi honum frá einkennum sem koma fram. Í framhaldi af því er síðan metið hvort breyta þurfi skömmtum eða jafnvel að skipta um lyf. Þríhringlaga lyfin hafa líka milliverkanir við skjaldkirtilshormón, lyf við háþrýstingi, getnaðarvarnatöflur, sum blóðþynningarlyf, sum svefnlyf, sefandi lyf, þvagræsilyf, ofnæmislyf, asetýlsalisýlsýru, sýrubindandi magalyf, C-vítamín og tóbak. Ofskammtar af þríhringlaga þunglyndislyfjum eru alvarlegar og geta leitt til dauða. Í öllum tilvikum skal leita læknis ef teknir eru of stórir skammtar af lyfinu. Einkenni ofskömmtunar koma fram innan klukkustundar frá því að lyfið var tekið og byrja oftast með hröðum hjartslætti, útvíkkuðum sjáöldrum, roða í andliti og óróa. Þessi einkenni leiða svo til rugls, skertrar meðvitundar, krampa, óreglulegs hjartsláttar og að lokum getur öndun og hjarta gefið sig. Nýrri þunglyndislyf Algengustu aukaverkanir nýrri þunglyndislyfja eru meltingaróþægindi og höfuðverkur. Aðrar aukaverkanir sem geta komið fram eru svefnleysi, kvíði og órói. Þessi lyf má ekki taka með MAO hemlurum af því að það getur valdið alvarlegum einkennum. Ef skipta á frá nýrri þunglyndislyfjunum í MAO hamlara eða öfugt þarf alltaf að líða einhver tími frá því að hætt er að taka inn annað lyfið þangað til byrjað er að taka hitt. Það fer svo eftir einstökum lyfjum hversu langur þessi tími þarf að líða á milli. Sum af þessum nýrri þunglyndislyfjum hafa áhrif á niðurbrot annarra lyfja, sem aftur getur valdið milliverkunum. Mónóamín oxidasa hemlar (MAO hamlarar) MAO hamlarar valda svipuðum aukaverkunum og önnur þunglyndislyf. Algengt er að þessi lyf valdi svima þegar staðið er upp og hröðum hjartslætti. Mun minni hætta er á aukaverkunum og milliverkunum ef MAO hamlarar eru sértækir. Dæmi um sértækt lyf er móklóbemíð (Aurorix, Áról, Rimarix). Ósértækir MAO hamlarar milliverka við mat eða vín, t.d. ost eða rauðvín, og við önnur lyf, t.d. Parkinsonlyf eða staðdeyfilyf. Þessar milliverkanir koma oft ekki fram fyrr en eftir nokkra klukkutíma og lýsa sér í mikið hækkuðum blóðþrýstingi, höfuðverk, ógleði, uppköstum, hraðari hjartslætti, rugli, sturlunareinkennum, krömpum, hjartaáfalli og dái. Af þessu leiðir að fólk sem tekur MAO hemil verður að gæta sín á fæðu og lyfjum sem hafa milliverkanir við MAO hemilinn. Það verður að fá lista yfir allt sem þarf að varast hjá lækninum sínum eða lyfjafræðingi. Það eru engir ósérhæfðir MAO hemlar með markaðsleyfi á Íslandi, og þessi lyf eru lítið notuð í dag. Hvað ber að varast þegar þunglyndislyf eru tekin Það er mikilvægt að allir læknar og tannlæknar sem þú ferð til viti af því hvaða lyf þú tekur, þar með talið lyf sem fást án lyfseðils. Þunglyndislyf á aðeins að taka í þeim skömmtum sem læknir ráðleggur. Þegar þunglyndislyf eru rétt notuð reynast þau mjög gagnleg og hjálpa fólki sem ella hefði þjáðst og afkastað litlu.

Lyf við kvíða

Flestir finna fyrir kvíða einhvern tímann á ævinni – fá fiðring í magann eða svitna í lófunum, t.d. áður en farið er í próf eða atvinnuviðtal. Önnur einkenni kvíða eru pirringur, óróleiki, hraður eða óreglulegur hjartsláttur, magaverkur, ógleði, svimi og öndunarerfiðleikar. Eðlilegur kvíði er mildur og auðvelt að ráða við hann. Í sumum tilfellum er þó kvíði sjúklegur. Mikill eða langvarandi kvíði háir fólki og getur gert daglegt líf þess óbærilegt. Fyrir utan almennan kvíða eru til önnur kvíðatengd vandamál, ofsakvíði, fælni, áráttu-þráhyggju röskun og áfallastreita. Fælni er langvarandi og órökrétt hræðsla við eitthvað sem lýsir sér á þá leið að viðkomandi forðast ákveðna hluti eða staði. Almennur kvíði fylgir stundum fælni. Ofsakvíði er alvarlegt kvíðakast sem kemur mjög skjótt fram og veldur einkennum á borð við taugaveiklun, öndunarerfiðleikum, hröðum hjartslætti og svitaköstum. Hæðslan við að deyja skýtur oft upp meðan á kastinu stendur. Lyf við kvíða róa fólk niður og slá þannig á einkenni kvíðans. Nokkrar tegundir kvíðastillandi lyfja eru til en í flestum tilfellum eru notuð bensódíazepínlyf (t.d. Díazepam). Að auki er lyfið búspírón (Exan) notað. Það tilheyrir ekki flokki bensódíazepínlyfja en er kvíðastillandi þegar um almennan kvíða er að ræða. Þunglyndislyf hafa líka áhrif á ofsakvíða, og í sumum tilfellum á fælni, og eru oft gefin við þessum röskunum. Þá má nota þunglyndislyf við almennum kvíða, sérstaklega ef kvíðinn fylgir þunglyndi. Bensódíazepínlyf sem eru oftast notuð gegn kvíða eru alprazólam (Paxal, Tafil) og díazepam (Díazepam, Valium). Þar á eftir kemur klórdíazepoxíð (Klórdíazepoxíð LÍ). Áhrif bensódíazepína koma mjög skjótt fram, oftast á nokkrum klukkustundum eða skemur, en áhrif búspíróns koma ekki fram fyrr en lyfið hefur verið tekið daglega í 2-3 vikur. Það er misjafnt eftir einstaklingum hversu lengi bensódíazepín er að hafa áhrif. Sumum dugar að taka lyfin einu sinni á dag meðan aðrir þurfa að taka þau oftar. Oftast er byrjað á litlum skömmtum sem síðan eru auknir þangað til að einkennin minnka hæfilega eða hverfa. Mjög misjafnt er hversu stórir skammtar eru notaðir hverju sinni, eða eftir einstaklingum. Aukaverkanir bensódíazepína eru fátíðar. Algengustu aukaverkanir lyfjanna eru sljóleiki og minnkuð samhæfing hreyfinga en þreyta og hægari hugsun getur einnig komið fram. Þessar aukaverkanir skerða aksturshæfni, sérstaklega í upphafi meðferðar. Aðrar aukaverkanir eru óalgengar. Það er varasamt að drekka áfengi meðan bensódíazepín eru tekin af því að áfengi og lyfin auka sljóvgandi áhrif hvort á annað. Ef áfengis er neytt í miklu magni með lyfjunum geta milliverkanirnar orðið alvarlegar. Bensódíazepín geta einnig haft milliverkanir við önnur lyf og því er mikilvægt að læknirinn þinn viti af öðrum lyfjum sem þú tekur, þar með talin lyf sem má fá án lyfseðils. Bensódíazepín auka sljóvgandi áhrif í miðtaugakerfinu með áfengi, staðdeyfilyfjum, ofnæmislyfjum, svefnlyfjum, vöðvaslakandi lyfjum og sumum verkjalyfjum. Stöku bensódíazepín hefur áhrif á sum hjarta- og flogaveikilyf. Sum bensódíazepín hafa einnig verið tengd við fæðingargalla hjá börnum þegar móðir hefur neytt lyfjanna á meðgöngu. Bensódíazepínum fylgir hætta á þolmyndun og að ánetjast þeim. Þá er líka hætta á misnotkun lyfjanna og fráhvarfseinkennum að lokinni notkun þeirra. Lyfin henta því best í skamman tíma, einhverja daga eða vikur í senn, en samfelld langtímameðferð er óæskileg. Stundum gæti komið til greina að nota lyfin með hléum þegar sérstakt álag er á viðkomandi eða þegar kvíðaköst koma fram. Sumir þurfa þó á langtímameðferð að halda. Það ætti ekki að hætta meðferð með bensódíazepínum án samráðs við lækni. Ef meðferð er hætt skyndilega geta komið fram fráhvarfseinkenni sem líkjast aukaverkunum til að byrja með, s.s. kvíði, skjálfti, höfuðverkur, svimi, svefntruflanir og lystarleysi. Í alvarlegri tilfellum er um að ræða hita, krampa og sturlunareinkenni. Af þessum ástæðum þarf að minnka skammta smám saman áður en meðferð lýkur, sérstaklega ef lyfin hafa verið notuð í langan tíma. Þótt algengast sé að nota lyfin í ofantöldum flokkum við kvíða, þ.e. bensódíazepín, búspírón eða þunglyndislyf, má í sumum tilfellum nota önnur lyf á borð við hjartalyfið própranólól (Indaral) eða sefandi lyf.

Börn, eldra fólk, þungaðar konur og mæður með börn á brjósti

Börn Það getur verið erfiðara að átta sig á því hversu alvarlegir geðsjúkdómar eru hjá börnum en fullorðnum. Einkenni hjá börnum eru oft á tíðum ekki eins greinileg eða afgerandi og þau tala oft ekki um hvað ami að þeim. Mikilvægt er að sérfræðingur meti ástandið ef grunur leikur á að eitthvað hrjái barnið. Mörg meðferðarúrræði eru til fyrir börn með geðsjúkdóma, bæði lyf og samtalsmeðferð, hegðunarmeðferð og fjölskyldumeðferð. Meðferðin er sniðin að þörfum barnsins og í samræmi við greiningu. Ef barn þarf að taka geðlyf þurfa allir tengdir barninu að fylgjast vel með því eins og foreldrar og kennarar eða aðrir sem hafa barnið í umsjá sinni. Fylgjast þarf með einkennum og spyrja barnið um aukaverkanir þar sem ekki er líklegt að barnið segi frá þeim af sjálfsdáðum. Einnig þarf að gæta þess vel að lyfin séu tekin á réttum tímum og í réttum skömmtum. Einn flokkur geðlyfja, örvandi lyf, er nær eingöngu notaður fyrir börn. Þessi lyf eru notuð við athyglisbresti eða ofvirkni með athyglisbresti. Hér á landi er aðeins eitt örvandi lyf skráð við þessum einkennum, en það er metýlfenidat (Ritalin). Ofvirkni með athyglisbresti kemur oftast fram hjá ungum börnum. Barnið heldur þá athygli stuttan tíma, er mjög virkt og hvatvíst. Þegar lyf eru notuð við þessum einkennum þarf að fylgjast mjög vel með barninu og gangi meðferðarinnar.) Eldra fólk Eldra fólk þarf oft að taka margar tegundir af lyfjum samtímis, oft einhver lyf að staðaldri. Eldra fólk er viðkvæmara fyrir aukaverkunum lyfja, eða það er lengur að skilja þau út úr líkamanum. Í mörgum tilfellum þarf að gefa eldra fólki minni eða færri skammta heldur en yngra fólki. Það er algengt að eldra fólk taki of stóra skammta af lyfjunum sínum, gleymir því kannski að það var búið að taka dagsskammtinn og tekur lyfið aftur. Lyfjabox, þar sem lyf eru sett í hólf fyrir hvern dag, hjálpa mikið. Eldra fólk og aðstandendur þeirra þurfa að vera vel á varðbergi hvort aukaverkanir komi fram, af líkamlegum eða geðrænum toga spunnin. Þungaðar konur og mæður með börn á brjósti Þungaðar konur ættu alls ekki að taka nein lyf á meðgöngu. Þó gæti verið óhjákvæmilegt að komast hjá því að taka lyf á meðgöngunni en þá þarf að meta ávinning fyrir móður á móti mögulegri áhættu fyrir fóstrið. Vilji nú kona sem tekur geðlyf eignast barn ætti hún að hafa samband við lækni og ræða við hann um hvort og þá hvernig breyta þurfi lyfjameðferðinni. Kona á geðlyfjum sem verður ólétt ætti án tafar að hafa samband við lækni. Fyrst á meðgöngu er nefnilega mest hætta á því að lyf hafi áhrif á fóstrið, og þess vegna er mælt með því að:
  1. litíum sé ekki tekið á fyrstu 3 mánuðum meðgöngu
  2. bensódíazepín séu ekki tekin á fyrstu 3 mánuðum meðgöngu
Ef nota þarf geðlyf á meðgöngu verður að taka þá ákvörðun í samráði við geðlækni, eins og áður sagði. Sum lyf berast í litlu magni í brjóstamjólk. Mjólkandi móðir ætti að hafa þetta í huga og tala við lækni sé hún í einhverjum vafa. Konur sem taka getnaðarvarnatöflur þurfa að láta lækninn sinn vita af því. Milliverkanir geta verið milli hormónanna í getnaðarvarnatöflunum og vissra geðlyfja. Hormónin gætu til dæmis hægt á niðurbroti sumra lyfja og með því aukið hættuna á aukaverkunum og um leið haft áhrif á verkun lyfjanna.

Byggt á efni frá Geðheilbrigðisstofnun Bandaríkjanna