persona.is
Kynferðisleg misnotkun á börnum
Sjá nánar » Börn/Unglingar » Ofbeldi

Samkvæmt erlendum rannsóknum verða í kringum 20% stúlkna og 10 til 15% drengja fyrir kynferðislegri misnotkun fyrir 18 ára aldur. Ef fólk grunar að barn sé misnotað kynferðislega ætti það tafarlaust að tilkynna það yfirvöldum. Langtímaáhrif kynferðislegrar misnotkunar eru langoftast skelfileg og því fyrr sem brugðist er við þeim mun betra.

Kynferðisleg misnotkun á barni getur átt sér stað innan fjölskyldu, frá hendi foreldri, stjúpforeldri, systkina eða öðrum ættingjum eða þá utan heimilis, frá vini, nágranna, barnfóstru, kennara eða ókunnugum. Ef barn verður fyrir kynferðislegri misnotkun hefur það víðtæk áhrif á tilfinningar þess, hugsanir og hegðun. Ekkert barn er tilbúið að kljást við kynferðislegt áreiti. Jafnvel meðal tveggja eða þriggja ára barna, sem vita ekki að athöfnin er röng, þróast vandamál, sprottin af því að þeim hefur ekki tekist að höndla áreitnina. Barn sem er fimm ára eða eldra og þekkir og elskar þann sem misnotar það festist hreinlega. Á milli ástar og tryggðar við ódæðismanninn og tilfinningu og vitneskju um að kynferðisathafnir séu rangar. Reyni barnið að komast frá misnotkuninni er því hótað, e.t.v. með því að beita því ofbeldi eða að ódæðismaðurnn hætti að elska það. Þegar kynferðisleg misnotkun verður innan fjölskyldu hræðist barnið e.t.v. að aðrir fjölskyldumeðlimir verði reiðir, hræddir eða afbrýðisamir, eða þá að fjölskyldan sundrist komist leyndarmálið upp. Barn sem lengi býr við kynferðislega misnotkun fær lélegt sjálfsmat, finnst það vera einskis virði og þróar óeðlilegar eða afbakaðar hugmyndir um kynlíf. Barnið verður inn í sig og treystir ekki fullorðnum, það finnur fyrir þunglyndi og kvíða og reynir jafnvel að svipta sig lífi. Fórnarlömb kynferðismisnotkunar geta átt í erfiðleikum með að sýna væntumþykju á annan hátt en kynferðislegan. Sum þessara barna verða sjálf kynferðisglæpamenn, leiðast í vændi, eða eiga í öðrum vandamálum þegar þau eldast. Börn sem hafa verið misnotuð kynferðislega gætu sýnt einhver þessara einkenna:

·         Óvenjulega mikinn eða lítinn áhuga á öllu sem kemur kynlífi við

·         Svefnröskun eða martraðir

·         Þunglyndi og að draga sig í hlé frá vinum og ættingjum

·         Reyna að vera tælandi

·         Yfirlýsingar um að þau séu skítug eða skemmd eða ótti um að eitthvað sé að þeim í kynfærum

·         Neita að fara í skólann

·         Agavandamál

·         Þau verða leyndardómsfull

·         Leikir eða teikningar snúast um kynferðislegt ofbeldi.

·         Óvenjuleg árasargirni

·         Sjálfsvígstilraunir

Barnaníðingar geta hrætt barnið ótrúlega mikið við að segja einhverjum allt af létta og mikil vinna þarf að fara fram áður en barninu finnst það vera öruggt svo að það geti tjáð sig um atburðinn. Ef barn segir foreldrum sínum frá misnotkun ættu foreldrar að vera rólegir og reyna að fá barnið til að skilja að það sem hefur gerst er ekki barninu að kenna. Foreldrar ættu að fara með barnið í læknisskoðun og leita ráðgjafar frá geðlækni/sálfræðingi sem allra fyrst. Foreldrar geta minnkað líkurnar á kynferðislegri misnotkun með því að:

·         Kenna barninu að segja „Nei“ ef einhver reynir að snerta það og þeim líður illa við snertinguna. Líka að segja einhverjum sem það treystir strax frá atburðinum.

·         Kenna barninu að bera virðingu fyrir fullorðnum þýðir ekki að hlýða þeim í blindni.

Börn sem hafa verið misnotuð kynferðislega og fjölskyldur þeirra þurfa meðferð frá fagfólki. Klínískir barnasálfræðingar og barna- og unglingageðlæknar geta hjálpað börnum að öðlast aftur sjálfstraust, að fást við sektarkenndina og að yfirstíga áfallið. Slík meðferð getur minnkað hættuna á að barnið berjist við ýmiss konar vandamál orðið fullorðið.