persona.is
Kulnun í starfi
Sjá nánar » Streita » Vinnan

Kulnun í starfi

Kulnun í starfi (burnout) er ástand sem getur myndast hjá fólki glími það við mikla streitu í starfi í langan tíma. Kulnun er ekki sjúkdómur heldur samsafn einkenna sem benda til þess að viðkomandi hafi lengi glímt við ofstreitu í starfi og sú streita sé nú farin að hafa alvarleg áhrif á vinnugleði og líðan. Kulnun er sérstaklega algeng í þeim starfsstéttum þar sem starfið felst í því að vinna náið með öðru fólki, s.s. hjúkrun, aðhlynningu, kennslu og ýmsum þjónustustörfum sem fela í sér náin og mikil samskipti við viðskiptavini.

Kulnunareinkenni koma fram í mikilli líkamlegri þreytu og tilfinningalegri- og andlegri uppgjöf. Þeir sem hafa kulnað í starfi greina frá síþreytu, orkuleysi og svefntruflunum. Einnig eru meltingartruflanir algengar svo og höfuðverkur og verkir í vöðvum og liðum. Tilfinningaleg uppgjöf kemur fram í þunglyndi, bjargarleysi og vonleysi. Það sem áður veitti manneskjunni ánægju gerir það ekki lengur. Kaldhæðni og áhugaleysi verða einnig áberandi. Andleg uppgjöf birtist í neikvæðum viðhorfum gagnvart starfi, samstarfsfélögum, yfirmönnum og viðskiptavinum. Það að geta ekki eða hafa ekki áhuga á að bregðast við tilfinningum annara er einnig algengt. Fólki verður sama um samstarfsfélaga sína og hvernig þeim líður, það fæst orðið við mál en ekki annað fólk. Þessi neikvæðu viðhorf geta svo líka orðið ráðandi í samskiptum við fjölskyldu og vini.

Afleiðingar kulnunar geta verið alvarlegar, bæði fyrir starfsfólk og fyrirtæki. Þeir sem kulna í starfi hætta oft og hætta jafnvel að starfa við sérsvið sitt. Þannig glatast mikilvæg og dýrmæt þekking. Sumir kjósa og hafa möguleika á að flytjast til í starfi eða hverfa til starfa hjá öðru fyrirtæki. Slíkt getur gagnast mörgum en ef viðkomandi tekur með sér þau neikvæðu viðhorf sem hafa myndast vegna kulnunar getur verið að hann eða hún endist ekki lengií nýja starfinu. Afleiðingarnar eru heldur ekki góðar fyrir fyrirtækið af sömu ástæðum. Aðrir sem kulna halda áfram í sama starfinu en missa allan áhuga á því og í sumum tilfellum eru þeir aðeins að telja niður að þeim tíma þegar þeir geta hætt og komist á eftirlaun.
Það er erfitt að meta beinan kostnað vegna streitu og kulnunar en nærri má geta að kostnaður fyrirtækja vegna fjarvista, slakrar frammistöðu í vinnu og mikillar starfsmannaveltu sé gríðarlegur. Þá er ótalinn kostnaður heilbrigðiskerfisins vegna annara afleiðinga streitu sem eru t.d. þunglyndi, óhófleg notkun áfengis, reykingar og offita.

Það er því til mikils að vinna að draga úr ofstreitu í starfi og í framhaldi af því að koma í veg fyrir kulnun starfsfólks. Til þess að draga úr ofstreitu er hægt að grípa til ýmissa ráða. Hægt er að draga úr vinnuálagi sé það of mikið og starfsmenn þurfa líka að hafa verkefni við sitt hæfi. Það getur haft neikvæð áhrif ef fólk vinnur við verkefni sem það er of hæft eða menntað fyrir. Það þarf að passa upp á að starfsfólk hafi stjórn á eigin verkefnum, fái hvatningu og hæfilega umbun fyrir vel unnin störf. Góður félagsskapur, liðsandi og samkennd á vinnustað eru líka mikilvægir þættir. Þá er einnig afar mikilvægt að starfsmenn fái að fylgjast með því sem gerist á vinnustaðnum og finni að þeir séu metnir sem mikilvægur hlekkur í starfsemi fyrirtækisins.

Sé starfsmaður aftur á móti kominn á kulnunarstig getur reynst nauðsynlegt að grípa til annarra ráða. Það getur verið ráðlegt að sækja sér aðstoð fagaðila til þess að grípa inn í atburðarásina og koma í veg fyrir að fólk flosni upp úr starfi eða missi allan áhuga á því. Margs konar úrræði eru í boði fyrir þá sem þess þurfa og má nefna samtalsmeðferð hjá geðlækni eða sálfræðingi, hópameðferð, slökun og sjálfshjálparhópa.

 

Eggert S. Birgisson

sálfræðingur