persona.is
Krepputal I
Sjá nánar » Annað

Auglýsing Kópavogsbæjar, hlífum börnunum við krepputali hefur vakið athygli margra. Þar er líka lagt til að fjölskyldan eyði meiri tíma saman við eitthvað ánægjulegt, eigi saman gæðastundir. Það er auðvelt að vera sammála seinni hlutanum, en það að hlífa börnunum við krepputali getur verið umdeildara, jafnvel þó það sé gott að búa í Kópavogi.

Að snúa vörn í sókn

Það má sjá það uppbyggilega í því að forðast að eyða of miklum tíma í krepputal. Í stað þess að dvelja of mikið við að harma hlutskipti okkar þá getum við snúið vörn í sókn með því að beina huganum að ánægjulegum viðfangsefnum með börnum okkar. Lífsbaráttan heldur áfram, við þurfum svo sannarlega á bjartsýni að halda og hagsýni.

Börnin deila kjörum með foreldrum sínum

Líklega getum við ekki alveg hlíft börnunum við krepputali að minnsta kosti ekki ef við gerum ráð fyrir því að fjölskylda okkar þurfi með einum eða öðrum hætti að borga reikninginn af bankahruninu og væntanlegri heimskreppu. Börnin deila kjörum með foreldrum sínum, þetta er fullyrðing sem styðst við langa reynslu úr Íslands- og mannkynssögunni. Þar af leiðandi bitnar það á börnunum ef skuldir fjölskyldunnar verða meiri en eignirnar og tekjurnar standa ekki undir þeim lífsstíl sem var ríkjandi í góðærinu.

Kannski koma þær fjölskyldur best út úr þessu sem tóku minnstan þátt í veislunni. Meira segja þeir sem ekki vildu vera með í veislunni eða fengu það ekki þurfa líka að borga. Líklega fara 22% af tekjuskattinum í að greiða vexti af erlendum lánum “óreiðumanna” og hvert mannsbarn í landinu skuldar allt í einu einhverjar milljónir. Ekki nema von að átta ára stúlka lýsi óánægju með þetta á Austurvelli.

Nauðsynlegt “krepputal”

Það kemur að því fyrr eða síðar í mörgum fjölskyldum að það þarf að útskýra af hverju “við förum ekki í skíðaferð í vetur og sólarlandaferð í sumar” eða af hverju jóla- og afmælisgjafir eru ekki eins glæsilegar. “Það er allt að fara til andskotans” er setning sem börnin geta misskilið, en þau þurfa eins og við öll að sætta sig við þau lífskjör sem eru í boði. Lífskjörin hafa þegar versnað, veislan er búin, en við tekur hversdagslegri lífsbarátta.

Börnin þurfa að vita að mamma og pabbi kunna ráð til að komast í gegnum efnhagslægðina, eða geta notað öryggisnet samfélagsins ef í nauðir rekur. Umræðan og krepputalið þarf líka að snúast um lausnir, hvernig við getum lifað góðu lífi þrátt fyrir minni tekjur og meiri skuldir. Sum þurfum við að stokka upp og breyta um lífsstíl, en við getum samt komið börnum okkar til manns alveg eins og það hefur tekist hér á landi í 1100 ár.

 

Lausnir

Krepputal getur verið gott í hófi ef það snýst um lausnir. Hagsýni og hófleg bjartsýni eru helstu vopnin. Getum við ekki skilgreint hagsýni sem það hvernig við getum fengið sömu eða svipaða ánægju fyrir minni peninga? Samstaða innan fjölskyldunnar og meiri umhyggja og samvera er eitt helsta svarið eins og forvarnanefndin í Kópavogi bendir á. Ef krepputalið snýst eingöngu um vol, væl og vonleysi þá erum við, sem uppalendur, líklega ekki vandanum vaxin.

 

Jón Sigurður Karlsson

sálfræðingur