persona.is
Kostnaður vegna þunglyndis: Margar hliðar
Sjá nánar » Þunglyndi
Þunglyndi hefur mjög víðtæk áhrif á samfélagið útfrá fleiri hliðum en vanlíðan.  Þegar við veltum fyrir okkur kostnaðinum við þunglyndi er mikilvægt að skoða alla þætti málsins sérstaklega þegar velja á hvað ætlum við að greiða fyrir og hvað ekki.  Þegar við tölum um þunglyndi dagsdaglega sjáum við fyrst og fremst þennan augljósa kostnað af lyfjum.  Reglulega birtast fréttir um hvað þunglyndislyf kosta samfélagið mikið og er það auðvitað áhyggjuefni hve margir þurfa á lyfjunum að halda.  Þar hefur meðal annars komið fram að kostnaður vegna þunglyndislyfja hefur verið að aukast ár frá ári.  Miðað við spár WHO má telja að þessi kostnaður eigi eftir að aukast áfram mikið á næstu árum.  Allar spár benda til að þunglyndi muni halda áfram að aukast í vestrænum ríkjum.  Þunglyndi er í dag talið vera einn mesti heilbrigðisvandi í vestrænum samfélögum.  Við sjáum þessa aukningu og áhrif hennar meðal annars í því að meðalaldur þeirra sem greinast fyrst með þunglyndi hefur verið að færast frá 40-50 ára niður í 20 ára ef ég man rétt.  Fólk er því að greinast með þunglyndi allt niður á barns og unglingsaldur og  kostnaður samfélagsins verður því augljóslega meiri og víðtækari.  Kostnaðurinn kemur því einnig niður á menntakerfinu, þar sem fleiri námsmenn  eru að berjast við þunglyndi í dag en áður.  Þunglyndi dregur úr námsgetu, hefur áhrif á námsframvindu og brottfall frá námi eykst.  Á síðustu árum hafa áhyggjur menntastofnana aukist um hversu margir námsmenn ljúka ekki námi eða ljúka því á lengri tíma en áður og skila sér þannig seinna á vinnumarkaðinn.  Allt þetta er hægt að meta til kostnaðar fyrir samfélagið.  Það að þunglyndir eru orðnir yngri skilar sér væntanlega í því að fleira yngra fólk er orðið óvinnufært vegna þunglyndis og þarf að þiggja bætur vegna þess.  Nýlega kom fram frétt þar sem sagt var að ein helsta skýringin á aukningu öryrkja mætti rekja til geðsjúkdóma og er þunglyndi væntanlega mjög stór hópur þessara einstaklinga.  Töluverður kostnaður er því fyrir samfélagið í formi aukinna útgjalda til þunglyndra bótaþega.  Það kostar því ríkið bæði í bótagreiðslum, heilbrigðiskostnaði og almennt vegna þess að þessir einstaklingar eru ekki hluti af vinnumarkaðinum.  Á sama tíma benda tölur til þess að um 70% þunglyndra eru samt einstaklingar á hinum almenna vinnumarkaði.  Þar er kostnaður líka mjög mikill en oft falin.  Þunglyndir hafa töluvert miklar fjarvistir (t.d er talið að í Bandaríkjunum megi rekja 400 milljónir veikindadaga á ári til þunglyndis) og framleiðni þeirra og starfsánægja er mun minni en annara starfsmanna.  Talið er að starfsmaður sé dýrmætasta eign fyrirtækja og er kostnaðurinn vegna þunglyndra starfsmanna því oft verulegur.  Hann kemur fram í töpuðum vinnudögum og vinnustundum og í því að menn hreinlega hætta vegna vanlíðan.  Stéttarfélög hafa haft aukna vitund um mikilvægi þess að huga að vellíðan stafsfólks og má telja að aukin þátttaka stéttarfélaga í sálfræðimeðferðarkotnaðaði og annarar heilbrigðisþjónustu sé að endanum sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið.  Það vill nefnilega oft gleymast þegar útgjöld samfélagsins til heilbrigðisþjónustu er rædd að sparnaðurinn kemur annarsstaðar.  Ef heilbrigðisráðherra mundi til að mynda auka útgjöld til geðsviðsins, meðal annars með því að semja um þátttöku tryggingarstofnunar til kostnaðar vegna sálfræðiþjónustu yrði það á endanum sparnaður fyrir samfélagið.  Ekki má gleyma því að þegar við tölum um kostnað vegna þunglyndis er stærsti kostnaðurinn tilfinningakostnaður vegna vanlíðan.
 
 
Björn Harðarson sálfræðingur