persona.is
Koffínneysla eykur líkur á kvíða og streituviðbrögðum
Sjá nánar » Kvíði » Streita

Koffín getur haft mikil áhrif á kvíða og eru meira að segja mörg dæmi þess þar sem of mikil koffínneysla virðist hreinlega hafa framkallað  ofsakvíðaköst hjá fólki.  Þrátt fyrir að við getum ekki talað um raunverulega fíkn í koffíndrykki þá er koffín örvandi efni sem getur verið ágætt og hressandi í hófi.  Eins og með margt annað getur koffín, sem neytt er í óhófi, verið mjög óhollt og auk þess valdið töluverðri vanlíðan. 

Margir segja að þeir vakni í raun ekki fyrr en eftir fyrsta kaffibollann á morgnana.  Talað er um að  “koma sér aðeins í gang” með kaffi (koffíndrykk) fyrir amstur dagsins.  Þegar við erum að “örva okkur af stað” með einum kaffibolla eða einni kókdós erum við að framkalla eitthvað sem við gætum kallað jákvæða streitu og getur verið nokkuð hressandi fyrir flest okkar.  Þegar við höfum hinsvegar skellt í okkur talsvert fleirum kaffibollum og kókdósum, þá má í raun segja að við séum komin yfir það að ná okkur í aukinn kraft til framkvæmda.  Það er, við aukna koffínneyslu dregur úr einbeitingu og afköst minnka og við erum ekki lengur að búa til jákvæða streitu heldur er streitan orðin neikvæð.  Það virðist auk þess vera þannig að við meira álag drekkur fólk meira koffín, einmitt þegar það ætti að vera að draga úr koffínmagninu. 

Það er ekki einungis þannig að við séum oft ekkert sérlega meðvituð um hvort koffínið sé að hjálpa okkur, og hvenær jákvæð streita breytist í neikvæða, heldur eru einnig margar þversagnir í hugmyndum okkar.  Ein þeirra er hugmynd okkar um tengsl kaffis við slökun!  Maður hefur heyrt fólk fullyrða að þeir slaki á við koffíndrykkju og margir hafa sagt eða heyrt einhvern segja setningar eins og “ég ætla að fá mér kaffi og sígó til að slaka á fyrir þetta erfiða símtal”.  Bæði eru þetta í raun örvandi efni sem geta valdið kvíða, og því er í raun ómögulegt (lífeðlislega) að slaka á við notkun þessara efna.  Ef það er eitthvað sem fær fólk til að slaka á (við notkun koffíndrykkja), er það í raun eitthvað annað en drykkurinn sjálfur (slakandi hugsanir, það að setjast niður, róandi tónlist, öndun eða trúin á að vera að slaka á) sem veldur slökuninni.  Koffínið sjálft dregur úr slökuninni ef eitthvað er og til lengri tíma eykur streitu og kvíðaeinkenni.

Eitt af því sem hefur áhrif á aukinn kvíða vegna koffeins, er hversu lengi koffín er að fara úr líkamanum hjá okkur.  Má áætla að koffín úr einum kaffibolla eða hálfslítra af kók sé 5-6 daga að hverfa úr líkamanum!!  Gefur það því auga leið að einstaklingur sem drekkur t.d. 8-9 bolla af kaffi á dag auk 1 lítra af kók sé sífellt að “safna”á sig koffíni og auki þar af leiðandi streitu og kvíða hjá sér.

Margir sem leita hafa til mín í meðferð vegna kvíðavandamála, og hafa farið að skoða áhrif koffíns á kvíða hjá sér, hafa oft í upphafi sagt að þeir telji að koffeinið hafi ekki áhrif á kvíðann sinn heldur stjórnist hann eingöngu af öðrum þáttum.  Ég hef síðan lagt fyrir ákveðið verkefni, til að fylgjast með koffínneyslunni annarsvegar og kvíða hinsvegar, og það er ótrúlegt hvað kvíðinn virðist breytast í takt við breytingar á koffínneyslunni.  Það er, því meiri koffínneysla því meiri kvíði, og því minni koffínneysla því minni kvíði, óháð öðrum þáttum. 

En hvar er þá þessi gullni meðalvegur sem við viljum oft ná og hvað er hófleg neysla koffeins?  Því getur verið erfitt að svara, þar sem við virðumst vera mismunandi næm fyrir áhrifum koffíns á streitu og kvíða.  Það sem gæti verið hæfilegt fyrir einn getur verið of mikið fyrir annan.  Almennt er oft talað um að 2-3 bollar á dag gæti verið hæfileg neysla kaffis fyrir “meðalmanninn”.  Ég man líka eftir því að hafa einhverntímann séð viðtal við “kaffisérfræðing” sem lagði áherslu á að fá sér “gott kaffi” í stað þess að vera að “sulla” liðlangan daginn í “hefðbundinni uppáhellingu”.  Það hljómaði mjög vel fannst mér og styð ég því útrýmingu á kaffikönnum (hitakönnur) og vill leggja áherslu á að hita sér aðeins lítið kaffi í einu og þá að njóta hvers bolla fyrir sig.

Björn Harðarson
Sálfræðingur