persona.is
Kaffi, tóbak, áfengi er hollt ! Eða hvað ?
Sjá nánar » Annað
Í gegnum tíðina hef ég orðið var við töluvert að fréttum í “hollustublöðum” þar sem sagt er að áfengi sé hollt fyrir sálina og líkamann og að kaffi sé einnig hollt.  Svo koma samt flestir sérfræðingar með upplýsingar um að svo sé ekki.  Miðað við þessar fréttir virðast rannsakendur  og aðrir sérfræðingar ekki sammála um hvað sé gott og hvað ekki, fyrir sál og líkama og hvað er þá það sem raunverulega er rétt? Margir þekkja þessar fréttir þar sem þær hafa í gegnum tíðina verið frekar algengar í blöðum landsins.  Reglulega hef ég orðið var við litlar klausur sem segja eitthvað í þessa átt þó svo að ég tek kannski frekar eftir því verandi sálfræðingur.  Ég held samt ekki að það sé rauninn að það sé svo mikill munur á rannsakendum og þeim sem eru að vara við áfengisneyslu eða hvetja til minni kaffidrykkju  Hlutverk rannsakendur eru fyrst og fremst að komast að niðurstöðum um hin ýmsu mál þar sem mikilvægt er að rannsóknarvinnubrögðin séu hlutlaus.  Hinir sérfræðingarnir, vitna gjarnan í rannsóknir og eru að leggja áherslu á að fræða almenning um hætturnar sem hafa einnig birst í rannsóknum.  Eins og með svo marga hluti, eins og t.d. kaffi og áfengi, er að það ekki endilega efnið sjálft sem er annað hvort gott eða slæmt heldur hvernig við meðhöndlum það.  Það sem þessir sérfræðingar, sem þú nefnir, eru væntanlega að fræða almenning um er að 2-3 bollar af kaffi séu ágætir á meðan 20-30 bollar séu óhollir.  Það sama á við um áfengið, þ.e. að það er væntanlega mikill munur á rauðvínsglasi endrum og sinnum og einum vodkapela fyrir hádegi og öðrum eftir hádegi.  Í rannsóknum er oftast nær verið að kanna áhrif hófneyslu á einstaka þætti, sem getur verið jákvæð á einhvern hátt, en ekki verið að fullyrða að öll neysla þess efnis, sem á við hverju sinni, sé góð og gild.  Oft er hætt við því þegar við grípum niður í fréttir af rannsóknum af þessu tagi að við veltum því ekki endilega fyrir okkur hvað sé hollt, t.d. við neyslu áfengis, heldur hættir okkur til að alhæfa að niðurstöður rannsóknanna segi til um að öll neysla áfengis sé holl.  Sérstaklega er auðvelt að alhæfa á þennan hátt þegar við vitum að neysla eða hegðun okkar sjálfra er röng check out your url.  Þá bjóðum við fréttir eins og þessar velkomnar og skiljum þær eins og þær passa við okkar lífstíl.  Verða þá fréttir, byggðar á þessum rannsóknum, ágætis réttlæting fyrir að breyta ekki neinu varðandi lífstílinn. Önnur ástæða sem ég held að sé fyrir vinsældum þessara frétta, er sú staðreynd að það sem er almenn vitneskja (t.d. áfengi getur valdið skorpulifur, kaffi veldur streitu) er engin ný frétt heldur aðeins staðfesting á fyrri vitneskju.  Það er þar af leiðandi engin frétt ef kemur fram ný rannsókn sem sýnir að reykingar geta valdið krabbameini eða kaffi veldur streitu, og er það því ólíklegt til að vekja áhuga fréttafólks.  Það myndi hinsvegar þykja fréttnæmt ef ein rannsókn gæfi niðurstöður um að fleira fólk sem reykti ekki fengi lungnkrabba en þeir sem reyktu og að kaffi reyndist gott gegn streitu og kvíða.  Þá gætu t.d. 20 rannsóknir komið fram sem styðja almennu vitneskjuna um óhollustuna, án þess að það kæmist á fréttasíðu blaðanna, á meðan það þyrfti bara eina rannsókn sem sýndi hið gagnstæða til að það kæmist á prent.  Til eru rannsóknir um flesta hluti sem ýmist styðja eða mæla gegn ákveðnum tilgátum og þar af leiðandi oft mikilvægt að skoða rannsóknir í samhengi við aðrar rannsóknir.  Þar af leiðandi er hætta á að almenningur fái ekki endilega réttu niðurstöðurnar þegar birtar eru fréttir af niðurstöðum úr einstökum rannsóknum.  Áður en ég sjálfur fór að velta þessum áhrifum fyrir mér sá ég töluvert mikið af fréttum um hollustu áfengis.  Í raun var það fyrsta sem mér datt í hug að hér væri um einn og sama blaðamannin að ræða sem ætti við áfengisvanda að stríða og leitaði eftir fréttum sem studdi hans lífsstíl.  Að lokum megum við ekki gleyma viðskiptalegu þáttunum sem hafa áhrif á birtingu þessarra frétta.  Það hefur t.d. verið mikið tekjutap fyrir tóbaksiðnaðinn allar þær neikvæðu rannsóknir sem komið hafa fram um skaðsemi tóbaks  Það sama vita framleiðendur áfengis og kaffis, og eru blaðafulltrúar og heilu stofnanirnar sem hafa eingöngu það hlutverk að miðla jákvæðum niðurstöðum varðandi þessar vörur.  Þar af leiðandi fá fjölmiðlar oft auðveldan aðgang að þessum fréttum en allar hinar rannsóknirnar standa óhreyfðar á bókasöfnum í fagtímaritum sem fáir lesa. Björn Harðarson sálfræðingur