persona.is
Islamophobia
Sjá nánar » Ofbeldi
Islamophobia er hræðsla eða hatur í garð múslima eða eins og nafnið bendir til þeirra sem teljast Islamstrúar.  Mikilvægt er að átta sig á Islamophobia telst í raun ekki í flokki þeirra vandamála sem venjulega bera þessa endingu “phobia” eða fælni.  Venjulega þegar þessi ending er í orði er vísað til klínískra greininga á vanda sem er hamlandi fyrir fólk í daglegu lífi.  Dæmi um þesskonar greiningu eru vandamál á borð við  félagsfælni og köngulóarfælni, þar sem vandinn byggist aðallega á miklum kvíða en ekki hatri, eins og í þessu tilviki.  Islamophobia er í raun ný tegund af kynþáttahatri, þar sem hatrinu er beint sérstaklega að ákveðnum trúar- eða menningarhóp frekar en ákveðnum húðlit.    Þeir sem haldnir eru Islamophobiu telja að allir eða flestir múslimar séu trúarofstækisfólk.  Þeir telja múslima vera upp til hópa ofbeldishneigða gagnvart öllu fólki sem ekki eru múslimar.  Einnig telja þeir að allir múslimar styðji og séu hlynntir hryðjuverkastarfssemi.  Auk þess telur fólk með “Islamophobiu” að allir múslimar hafni jafnrétti umburðarlyndi, lýðræði og mannréttindum.  Þeir sem hafa þessi viðhorf til múslima telja líka múslima hafa allt önnur gildi en allir aðrir, hafi ekki skilning á viðhorfum annarra, og geti ekki tekið breytingum.  Telja líka að vestræn gildi séu að öllu leyti betri en viðhorf múslima sem séu ósiðmenntuð, órökrétt, frumstæð og niðurlægjandi fyrir konur.  Þeir sem trúa þessu telja líka að Islam sé pólítísk hugmyndafræði sem sé notuð í polítískum eða hernaðarlegum tilgangi. Auk þess eru þeir sem haldnir eru Islamophobiu ekki tilbúnir til að hlusta á gagnrýni múslima varðandi neikvæð viðhorf eða hugsanagang í hinum vestræna heimi.  Þessar hugmyndir um Islam og múslima eru svo notaðar til að réttlæta mismunun í garð múslima og útilokun múslima frá samfélaginu.  Þannig er reynt að réttlæta neikvæð viðhorf og hegðun í garð múslima  og þau viðhorf talin eðlileg.             Það má í raun segja að lengi vel hafi þessi viðhorf verið til staðar og þá sérstaklega í þeim vestrænu ríkjum þar sem töluverður straumur hefur verið af innflytjendum múslima.  Þessum viðhorfum er síðan haldið á lofti ef upp koma afbrot eða annað slíkt meðal múslima.  Þegar þessum viðhorfum er á þennan hátt haldið á lofti geta neikvæð viðhorf þróast hratt í samfélaginu.  Ég fylgdist til að mynda með því hversu hratt neikvæð viðhorf gagnvart múslimum þróuðust í Danmörku á árunum 1995-2000, þar sem nánast ekkert bar á neikvæðum viðhorfum í fyrstu yfir í það að í hverjum fréttatíma var umfjöllun um neikvæð samskipti innflytjenda og Dana.  Nágrannalönd okkar á Norðurlöndum og í öðrum löndum Evrópu hafa líka orðið vör við aukningu á því sem við gætum kallað Islamophobia eftir 11 september.  Dæmi um það var hægt að sjá í fréttum dagbalaðanna, eins og t.d. í Árósum í Danmörku henti manneskja með geðræn vandamál bensínsprengju inn í bréfalúgu nágranna síns vikuna eftir 11 september.  Músliminn hafði þar unnið sér það eitt til saka að vera múslimi í vestrænu ríki á þessum tíma. Á þessum tíma urðu einnig margir varir við að börn múslima urðu í auknum mæli fyrir aðkasti á leið í skólann eftir 11. september.  Í þessum aðstæðum og öðrum svipuðum, er um að ræða fólk sem í hræðslu og hatri sínu við menn á borð við Bin Laden fer að yfirfæra hugmyndir sínar yfir á kaupmanninn á horninu eða 8 ára stelpuna í húsinu á móti bara fyrir það eitt að vera múslimi. Björn Harðarson Sálfræðingur