persona.is
Hverjir fara til sálfræðinga, hvað þarf vandamálið að vera mikið til að fara?
Sjá nánar » Meðferð

Það eru engin sérstök viðmið til um hvenær fólk á að leita sér aðstoðar, eða hvenær fólk getur leitar sér aðstoðar sálfræðinga.  Það getur meira að segja verið frekar varhugavert að ætla sér að setja upp einhverskonar kerfi, sem segir til um hvenær fólk hefur rétt á að þiggja aðstoð við erfiðleikum sínum og vanlíðan. 

Greiningarkerfi geðraskana eru kerfi sem greina fólk með hinar ýmsu geðraskanir, eins og átraskanir, þunglyndi og kvíða, svo eitthvað sé nefnt.  Sem betur fer er sjaldnast unnið eftir þessum kerfum til að velja úr hverjir fái aðstoð fagaðila, t.d. sálfræðinga, og hverjir ekki.  Aftur á móti er það svo sumstaðar erlendis, þar sem tryggingar borga fyrir meðferð fólks, að farið eftir þessum greiningarkerfum þegar segja á til um hver fær meðferðina greidda og hver ekki.  Persónulega tel ég að að það leiði bara til þess að þeim, sem ekki uppfylla ákveðin viðmið sem þarf til að fá meðferð greidda, versnar og versnar, þangað til þeir uppfylla greiningarviðmiðin og er þá meðferðin orðin bæði lengri og dýrari fyrir vikið.  Greiningarkerfi ættu að mestu leyti bara að vera kerfi til að hjálpa sérfræðingum að átta sig á hvert vandamálið er, útfrá einkennum einstaklingsins, og hvaða aðferðir hafa sýnt bestan árangur við meðhöndlun þess vanda.  Mikilvægt er að átta sig á að þrátt fyrir að kerfin séu nauðsynleg þá mega þau ekki leiða til þess að við frestum því að meðhöndla vandann þangað til vandamálið er orðið stærra og erfiðara að meðhöndla.  Því fyrr sem fólk leitar sér aðstoðar þeim mun betri möguleika hefur það að vinna á vandanum og yfirleitt mun það taka mun styttri tíma en hjá þeim sem draga það lengur að leita sér aðstoðar fagaðila.    

Það hefur í raun komið mér á óvart, þegar ég hef verið að hitta fólk sem hefur verið að koma í meðferð í fyrsta sinn og þegar ég hef lesið fjölmargar fyrirspurnir á prsona.is, hversu margir, sem eiga við mikil vandamál að stríða, eru með áhyggjur um að vandinn þeirra sé ekki nógu mikill eða merkilegar til að hann krefjist faglegrar meðferðar. .  Það er reyndar kannski ekki mjög skrítið, þar sem það er einmitt oft hluti af vandanum að telja sig ekki mega vera fyrir eða taka tíma frá öðrum.  Þar af leiðandi er það algengt að fólk telji sig vera að taka tíma frá sálfræðingum og það sé fólk þarna úti sem þarf miklu meira á tíma þeirra að halda.  Því miður verður það til þess að margir sem þurfa svo gjarnan á aðstoðinni að halda, bera sig ekki eftir henni. 

Nú þegar ég hef rætt þessi atriði töluvert útfrá greiningarviðmiðum er mikilvægt að átta sig á því að þau vandamál sem hrjá þá einstaklinga sem leitast eftir aðstoð hjá sálfræðingum, eru oft töluvert ótengd öllum greiningarviðmiðum og geðröskunum.  Fólk er að leita sér aðstoðar sálfræðinga útaf “krísum” og erfiðleikum, sem eru t.d. að koma upp í hjónabandi, vinnu, eða tengdum uppeldi.  Margir leita sér ráðgjafar vegna erfiðra ákvarðanna sem þeir standa frammi fyrir.  Fólk leitar sér aðstoðar vegna aðstæðna tengdum sjúkdómum, vegna atburða í fortíðinni, eða vegna þess að það telur að sálfræðin geti hjálpað sér að ná árangri, þroskast og styrkjast við hinar ýmsu þrautir í tilverunni.

Að velta því fyrir sér hvort það séu margir sem eru að leita sér aðstoðar sem ekki þurfa á því að halda, er varhugavert og að mínu áliti ekki algengt.  Einu skiptin sem ég hef orðið var við þannig aðstæður er örfá skipti, þegar einhverjir aðrir eru að senda fólk til sálfræðinga, þar sem vandinn er kannski orðum aukinn, en ekki þegar fólk kemur sjálft. 

Að lokum get ég sagt að mín skoðum er sú að fólk ætti ekki að láta sér líða illa of lengi, og hvort sem þeir leita sér aðstoðar sálfræðings, maka, vinar, eða einhvers annars, eigum við öll skilið að láta okkur líða vel.  Þar af leiðandi tel ég að skilyrðin fyrir því hverjir þurfi á aðstoð fagaðila að halda séu fremur einföld, þ.e. ef einstakling líður illa, einhver sem líður kannski ekki beint illa en langar að líða betur, eða hreinlega þeir sem vilja þroska sig og þjálfa sálina, eins og fólk gerir þegar það ræktar líkama sinn.

 

 

Björn Harðarson

sálfræðingur